Silvio Berlusconi snýr aftur - sætur pólitískur sigur

Silvio Berlusconi Sigur hægriblokkarinnar, undir forystu Silvio Berlusconi, í ítölsku þingkosningunum var mun meira afgerandi en ég átti von á. Þetta er mikill persónulegur sigur fyrir Berlusconi, sem verður nú forsætisráðherra í þriðja skiptið á fjórtán árum, en hann var forsætisráðherra í fimm ár samfellt, 2001-2006, sem er lengsta samfellda valdaseta í ítölskum stjórnmálum eftir síðari heimsstyrjöldina. Ítalska ástandið, með mörgum forsætisráðherrum og ríkisstjórnum, er orðið margfrægt.

Held reyndar að þetta hafi aldrei verið í hættu fyrir Berlusconi. Allar kannanir síðustu mánuði sýndu að hann væri með pálmann í höndunum. Eftir að vinstristjórn Romano Prodi sprakk, eftir aðeins 20 mánuði við völd, hafði hann mjög vænlega pólitíska stöðu og missti aldrei forystuna í kosningabaráttunni gegn Walter Veltroni, fyrrum borgarstjóra í Róm. Síðustu dagana benti margt til þess að vinstriblokkin væri að ná Berlusconi og gæti veitt honum alvöru samkeppni. Niðurstaðan hlýtur að vera vinstriblokkinni mikið áfall og uppstokkun framundan þar.

Vissulega var það mjög erfitt fyrir Berlusconi að hætta sem forsætisráðherra eftir þingkosningarnar 2006. Hann fór beiskur og mjög særður frá völdum, vildi í fyrstu ekki viðurkenna tapið. Lærði vissulega sína lexíu og var alltaf staðráðinn í að leita hefnda, sem honum hefur tekist nú með listilegum hætti. Gamall fjandvinur hans, Romano Prodi, hafði snúið aftur í ítölsk stjórnmál, eftir að hafa verið forseti ESB og var með vænlega stöðu, hafði líka verið forsætisráðherra áður. Þótti reyndur og vandaður maður sem gæti leitt vinstrið til valda. Honum tókst það.

Prodi felldi Berlusconi frá völdum í takt við kannanir þá, en það var mjög beiskur sigur, tæpur í alla staði og meirihlutinn í öldungadeildinni var reyndar aldrei starfhæfur. Ólífubandalagið var bandalag alls níu vinstriflokka með mjög ólíka eigin stefnu, Prodi leiddi engan þeirra og var aðeins frontur á kosningabandalagi. Það brotnaði tvisvar upp og var ekki hægt að klastra í það aftur í ársbyrjun, þegar að það sprakk upp í seinna skiptið. Prodi fór mjög beygður út úr ítölskum stjórnmálum við skipbrot stjórnar sinnar.

Berlusconi lærði það eflaust á tapinu fyrir tveim árum að hann vildi ekki gera andstæðingum sínum það til geðs að hætta við svo búið - sór að ná fram hefndum. Það tókst og gott betur en það. Sigurinn er sætur nú fyrir hann. Sá orðrómur er á kreiki að leikfléttan sé hjá Berlusconi að ná ítalska forsetaembættinu og sitja þar á friðarstóli á efri árum og drottna yfir sviðinu. Það yrðu stórmerkileg endalok ef hann næði þeirri endastöð þegar að Napolitano hættir.

Áhugavert verður að sjá hvernig Berlusconi muni nota völd sín, þennan mikla sigur í kosningunum. Þetta er sterkara umboð sem hann fær en marga óraði fyrir áður. Hann hefur mjög gott svigrúm til að gera það sem hann vill og klára stjórnmálaferil sinn með þeim glansa sem flestir töldu útilokað eftir kosningarnar 2006.

Þetta er auðvitað glæsileg endurkoma fyrir þetta sjötuga pólitíska ljón. Berlusconi er reyndar fæddur árið 1936, rétt eins og John McCain. Báðir eru þeir að sýna að pólitíkin er ekki búin fyrir sjötugt. Virðist vera góður árgangur allavega.

mbl.is „Finn til ábyrgðar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Það má nú segja.    Pólitískt minni er stutt á Ítalíu sem og annars staðar.    

Marinó Már Marinósson, 14.4.2008 kl. 23:21

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ágætur pistill, Stefán. Bara smá prófarkalestur: Á góðri slensku er sagt: "Marga óraði fyrir" en ekki "mörgum óraði fyrir."

Ómar Ragnarsson, 15.4.2008 kl. 00:37

3 identicon

... sem segir að vinstri konur séu ófríðari en hægri konur og "tími sé kominn til að fara suður til Rómar og reka út þetta þjófapakk". Mætti svo bæta við slettu af lögum um fjölmiðla sem margfölduðu eignir hans.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 09:59

4 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Vissulega hroðalegar kosningar á Ítalíu, þær verstu síðan 1948. Það er hreint ótrúlegt að Berlusconi sé kominn aftur til valda, spilltari stjórnmálamaður finnst ekki á vesturlöndum eins og hægratímaritið The Economist hefur marg bent á (Economist er "intellectual" hægrablað, aðhyllast ekki popúlíska hægristefnu eins og þau fífl sem halda að Berlusconi sé merkilegur). Berlusconi er auðvitað bara gamaldags pilsfaldakapítalisti sem varð ríkur á pólitískum tengslum eins olígarkarnir í Rússlandi. Hann fjármagnaði hinn gerspillta Sósíalistaflokk Craxi á 9. áratugnum og fékk margar sporslur fyrir. Þegar Craxi flúði land undan spillingarmálum sínum þá ákvað Berlusconi að fara í pólitík til að tryggja viðskiptahagsmuni sína. Allir Ítalir sem ég þekki, hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri, hafa skömm á honum, skammast sín fyrir það að hann skuli vera leiðtogi lands síns.

Guðmundur Auðunsson, 15.4.2008 kl. 15:11

5 Smámynd: Fannar frá Rifi

menn geta bölvað Berlusconi eins mikið og þeir vilja en eitt er ekki hægt að taka frá honum. hann kom með nauðsynlegan stöðugleika inn í Ítölsk (ó)stjórnmál þar sem vinstri stjórnirnar koma og fara áður en fréttamenn hafa haft tíma til þess að slá fréttirnar inn.

Ef vinstri menn hér eru reiðir fyrir hönd skoðanna bræðra sinna þar, þá geta þeir kennt þeim hinum sömu um. Algjört Kaos hefur ríkt á meðal vinstri manna á Ítalíu í hálfa öld og þeir ekki geta komið sér saman um neitt nema að vera á móti Berlusconi svona í seinni tíð.  

Fannar frá Rifi, 15.4.2008 kl. 22:23

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Berlusconi er vissulega umdeildur, en hann er pólitískur töffari. Þorir að stuða og vera áberandi. Hann fær afgerandi umboð til að taka við núna. Kannski ekki óeðlilegt eftir að vinstrimönnum mistókst að mynda sterka stjórn.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.4.2008 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband