Veik vörn hjá veikburða borgarstjóra

Ólafur F. Magnússon Mér finnst vörn Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra, í Jakobsmálinu í yfirlýsingu og spjallþáttum í kvöld vera frekar veikburða tilraun til að láta líta út fyrir sem þetta sé mjög slétt og fellt allt saman. Spurningarnar verða áleitnari í málinu og sérstaklega finnst mér þögn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna þessa máls mjög áberandi.

Furðulegt er orðalag borgarstjórans að leiki vafi á því að saman fari að vera verkefnatengdur starfsmaður og nefndaformaður yfir sviðinu að þá muni hann víkja úr nefndinni. Held að það þurfi ekkert að velta því fyrir sér. Sem hverfisformaður miðborgar er Jakob F. Magnússon orðinn tilsjónarmaður með verkum sínum sjálfs og enginn vafi ætti að leika á því að þetta fari engan veginn saman. Ummælin um launakjörin vekja svosem líka athygli, enda ætti það ekki að vera neinn sómi að gera eitthvað sem tíðkaðist í tíð R-listans.

Sjálfstæðisflokkurinn var varla í minnihluta í tólf ár til þess að læra það eitt að apa upp eða verja verklag sem ættað er úr valdatíð R-listans. REI-málið var þó varið með tilvísan til Línu.net og nú er ráðning starfsmanns varin með tilvísan til R-listans. Vissulega er borgarstjórinn ekki sjálfstæðismaður lengur en hann situr í þeirra umboði og í meirihluta með þeim innanborðs. Því er hann ekki eins landlaus og margir telja. Umboð hans sem kjörins fulltrúa úr kosningum er mjög skýrt og um leið þeirra sem styðja hann sem borgarstjóra. 

Þögn þeirra vekur því athygli og eðlilegt að þeir tjái sig alveg heiðarlega hvað þeim finnst um málið. Vilji þessi meirihluti verja afleitt verklag sitt með fornum vinnubrögðum R-listans eru þeir á villigötum. Reyndar finnst mér borgarstjórinn vera mjög veikburða í sínu hlutverki. Hann er eyland í veigamiklum skipulagsmálum og borgarfulltrúar í samstarfi við hann verða að fara í spjallþætti til að verja skoðanir hans í þeim efnum - sem enginn annar í meirihlutanum virðist þó bakka upp og hann hefur pólitískt bakland sem virðist mjög veikt.

Sumir frjálslyndir stuðningsmenn Ólafs F. Magnússonar fyrri tíðar skrifa nú eins og þeir hafi aldrei komið nálægt þessum stjórnmálamanni. Meðal þeirra er varaformaður Frjálslynda flokksins. Hann brosti þó kampakátur er Ólafur F. varð frjálslyndur á landsfundi þeirra fyrir þrem árum og var mjög ánægður með liðsstyrk hans. Ekki vill sá hinn sami þó kannast við hann nú. Þetta fólk vann baki brotnu að því að tryggja þessum manni það umboð sem hann hefur nú sem kjörinn fulltrúi. Skrifin verða furðuleg í því ljósi.

Ólafur F. og Jakob Frímann eru báðir hinir mætustu menn. Því ættu þeir að taka á þessu máli af sóma áður en þeir skaðast meira af því. Vörnin er veik þegar að málstaðurinn er veikur. Ætli sjálfstæðismenn sér að verja þennan málflutning með tilvísan til ráðningamála gamla R-listans er illa fyrir þeim komið.

mbl.is „Ráðning í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Ég er sammála þér Stefán og mér finnst borgarstjórinn koma illa út í þeim viðtölum sem hann hefur  átt í fjölmiðlun. Held hann auki ekki vinsældir sínar með þessu.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 8.5.2008 kl. 21:54

2 identicon

Hvor skyldi segja ósatt: Borgarstóri eða skrifstofustjóri hans? (kl 22.15)

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 22:14

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ég verð að vera ósammála þér í þessu.

mér fynnst Ólafur vera að vaxa í starfi. síðan þegar hans gjörðir og verk eru settar í samhengi við það sem á undan er gengið og hverjir voru á undan honum í þessu embætti þá held ég að hann sé hreynlega skásti kosturinn í stöðunni og bestur af þeim þremur sem hafa verið borgarstjórar á þessu kjörtímabili.  

Fannar frá Rifi, 8.5.2008 kl. 23:13

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

og já mér þykir hann öllu málefnalegri heldur en spjall þáttastjórnendurnir sem komu með mesta lagi tvær til þrjár setningar sem þeir endurtóku út allann þáttinn og vissu ekki hvernig þeir áttu að bregðast við. þetta var óttarlegt tuð.

Fannar frá Rifi, 8.5.2008 kl. 23:14

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

Ólöf: Einmitt. Hann kom þó betur út í Íslandi í dag, en Sigmar grillaði hann hreinlega í Kastljósi. Ólafur F. er hinn mætasti maður, en þetta mál er allt mjög undarlegt og vekur spurningar sem hann á erfitt með að svara sjálfur hvað þá meira.

Gísli: Góð spurning.

Fannar: Ólafur F. er ekki alslæmur, en það sést vel að hans pólitíska bakland er ekki mjög sterkt. Hann er nokkuð augljóslega á pólitískum berangri, hvað svo sem síðar verður. Vil að það komi fram að ég og Ólafur erum samherjar hvað varðar Reykjavíkurflugvöll. Eitt og sér er það eðlilegt statement. Ummæli hans um skipulagstillögurnar um daginn voru samt vandræðaleg og hann gekk einum of langt í andstöðu við tillögu sem blessuð var af nefnd um málið. Eitt af þessum málum sem sýnir kannski að hann stendur og fellur með sínu en líka að hann er mjög einangraður. Sú var merking orðanna um að hann væri eyland. Vil taka fram að af þessum þrem borgarstjórum líst mér best á hann, en mér svosem líkaði ekki vel við tvo þá fyrri og líst illa á það ef Sjálfstæðisflokkurinn gerir Vilhjálm aftur að borgarstjóra. Vildi að hann segði af sér sem leiðtogi flokksins í febrúar og hef ekki skipt um skoðun. Staða hans er veik og sést af því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki sterk heild undir hans forystu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.5.2008 kl. 23:21

6 identicon

Þú hefur greinilega misst af einörðum málflutningi Kjartans Magnússonar á RÚV í morgun, þessvegna er þessi pistill þinn marklaus. En þar varð hinsvegar Svandísi Svavarsdóttur nokkuð orðavant eins og oft áður, þegar hún fær andstæðing í orðræðunni. Nei, borgarstjórinn stóð sig einmitt með afbrigðum vel undir dónalega staglkenndum spurningum bæði Sigmars og Sölva, sem voru þeim til minnkunar.

pbk

Páll Bragi Kristjónsson (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband