Hefur borgarstjóri sama virðingarsess og áður?

Ingibjörg Sólrún og Davíð OddssonEkki verður um það deilt að embætti borgarstjórans í Reykjavík hefur verið ein mesta virðingarstaðan í íslenskum stjórnmálum. Á síðustu þrem áratugum hafa þó aðeins tveir borgarstjórar náð að marka sterka pólitíska stöðu og söguleg áhrif; Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Að öðru leyti hefur verið lítill stöðugleiki yfir.

Davíð og Ingibjörg Sólrún gegndu embættinu bæði í níu ár; hlutu endurkjör tvívegis og þóttu bæði vinna sterkasta pólitíska sigur sinn í síðasta kjörinu, ári áður en þau héldu í landsmálin. Bæði fóru þau yfir á Alþingi á sama tímapunkti borgarstjóraferilsins. Þau voru sterkir leiðtogar í borgarmálunum, leiðtogar sem mörkuðu línur og voru afgerandi og traust í verkum. Þau voru hinsvegar bæði mjög umdeild - áttu trausta stuðningsmenn og um leið marga pólitíska andstæðinga.

Þau yfirgáfu þó valdasess í borgarmálunum með mjög ólíkum hætti; Davíð varð forsætisráðherra við lok borgarstjóraferilsins og var reyndar bæði borgarstjóri og forsætisráðherra í tvo mánuði samfellt, en Ingibjörg Sólrún mistókst að komast á þing við lok síns borgarstjóraferils árið 2003 og var óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður í rúm tvö ár, áður en hún tók sæti á þingi, þar sem hún hafði verið áður en hún varð borgarstjóri fyrir Kvennalistann. Bæði skildu eftir sig mikið tómarúm og gekk illa að velja eftirmenn þeirra og við tók óstöðugleikatímabil.

Sennilega var eftirleikurinn erfiðari fyrir sjálfstæðismenn árið 1991, þó að þeir hefðu hreinan meirihluta. Ekki náðist samstaða um nýjan borgarstjóra í hópi borgarfulltrúa, þó þeir væru tíu talsins eftir sögulegan sigur sjálfstæðismanna vorið 1990. Svo fór að Markús Örn Antonsson, þáverandi útvarpsstjóri, tók við, en hann hafði verið borgarfulltrúi 1970-1985 og forseti borgarstjórnar 1983-1985. Hann sagði af sér embættinu tæpum þrem árum síðar, 80 dögum fyrir kosningar, þegar að allt stefndi í afhroð sjálfstæðismanna gegn nýstofnuðum R-lista.

Árni Sigfússon tók við embættinu í kjölfarið og sat í rúma 80 daga á borgarstjórastóli en mistókst að sigra R-listann undir forystu Ingibjargar Sólrúnar. Enginn hefur setið skemur á borgarstjórastóli. Eftirmaður Ingibjargar Sólrúnar varð Þórólfur Árnason. Þótti honum takast að ná góðum tökum á embættinu í upphafi, þó hann væri aðeins embættismaður, sá fyrsti frá því Egill Skúli Ingibergsson, forveri Davíðs, sat á valdastóli á vinstritímabilinu 1978-1982. Pólitískt umboð Þórólfs var þó veikt og hann féll með miklum skelli vegna olíumálsins.

Óstöðugleiki einkenndi því embættið eftir að Davíð hætti og sérstaklega nú eftir að Ingibjörg Sólrún hrökklaðist frá völdum. Frá því að hún hætti hafa fimm borgarstjórar setið við völd á fimm ára tímabili og stefnir flest í að sá sjötti bætist við áður en tímabilið er úti. Hafa þrír setið á þessu kjörtímabili, frá árinu 2006, sem er reyndar sami fjöldi og á síðasta kjörtímabili. Stöðugleikinn er því enginn orðinn og eðlilega er talað um ítalskt ástand í borgarmálum. Engin kjölfesta er og Sjálfstæðisflokknum hefur mistekist að tryggja hana.

Eðlilegt er því að spyrja sig hvort að borgarstjóraembættið hafi sama virðingarsess og áður. Staða þess hefur klárlega breyst. Ekki er lengur öruggt að borgarstjóri sitji lengi við völd og marki sér áhrif og sess með valdasetu sinni. Síðustu borgarstjórar hafa allir verið hálfgerður millileikur, biðferli eftir sterkum leiðtogum, enda setið skamma stund við völd og ekki tekist að mynda sterkan meirihluta og tryggja sterka forystu, eins og t.d. Davíð og Ingibjörgu tókst. Þó Ingibjörg hafi hrökklast af stóli markaði hún þó vissulega sess.

Hefð er fyrir því að gerðar séu brjóstmyndir af borgarstjórum í sögu Reykjavíkurborgar. Síðast var afhjúpuð brjóstmynd af Davíð Oddssyni í nóvember 2006. Nú er því verið að vinna að því að gera brjóstmynd af Markúsi Erni. Þá tekur við Árni Sigfússon, Ingibjörg Sólrún, Þórólfur Árnason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Dagur B. Eggertsson og Ólafur F. Magnússon.

Brátt bætist svo við sennilega næsti borgarstjórinn, sá verður hinn tuttugasti. Stóra spurningin er hvort að tuttugasta borgarstjóranum muni takast að tryggja sterka stöðu sína. Stöðugleikinn er ekki meiri en svo að ekki er víst hvaða flokki hann muni tilheyra, en miðað við stöðuna í dag mun hann verða nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins.

En það er fátt öruggt í þessu. Á þessum afmælisdegi er fyrst og fremst mikilvægt að hugsa hlýlega til myndhöggvaranna. Þeir eiga mikið verk fyrir höndum á næstu árum.


mbl.is Embætti borgarstjóra 100 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband