Mýrin sigursæl á Eddunni - Ingvar besti leikarinn

Mýrin Mýrin, stórfengleg kvikmynd Baltasars Kormáks eftir þekktri sögu Arnaldar Indriðasonar, var sigursæl á Edduverðlaununum í kvöld og var valin besta kvikmynd ársins. Ingvar E. Sigurðsson og Atli Rafn Sigurðarson hlutu leikaraverðlaunin fyrir hlutverk sín í myndinni og Baltasar var valinn leikstjóri ársins. Mugison fékk auk þess verðlaun fyrir tónlist í myndum Baltasars; Mýrinni og A Little Trip to Heaven. Karlakórsstemmningin í Mýrinni er einn af hápunktum myndarinnar. Það leikur því enginn vafi á því að Mýrin var sigurvegari kvöldsins.

Leikstjórinn Ragnar Bragason hlaut handritsverðlaunin fyrir kvikmyndina Börn, Óttar Guðnason hlaut verðlaun fyrir útlit myndar með kvikmyndatökunni í A Little Trip to Heaven, Anna og skapsveiflurnar var valin stuttmynd ársins, Skuggabörn var heimildarmynd ársins, hinn vandaði fréttaskýringarþáttur Stöðvar 2, Kompás, var valinn sjónvarpsþáttur ársins og Jón Ólafs, nýr skemmtiþáttur Sjónvarpsins, hlaut Edduna sem skemmtiþáttur ársins. Stelpurnar hlutu verðlaunin sem leikið sjónvarpsefni ársins annað árið í röð og vakti mikla athygli að sjónvarpsmyndin Allir litir hafsins eru kaldir, skyldi ekki hljóta þau.

Ómar Ragnarsson var hylltur er hann hlaut verðlaunin sem sjónvarpsmaður ársins.  Á 40 árum Sjónvarpsins hefur Ómar verið í hlutverki íþróttafréttamanns, skemmtikrafts, íhuguls spyrils í mannlegum og heillandi viðtölum og fréttamanns sem kannað hefur landið og mannsálina í víðri merkingu þess orðs. Eftir stendur merk starfsævi sem allir virða. Ómar á sennilega heiðurinn af einni stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu. Það var þegar að hann kynnti okkur fyrir Vestfirðingnum Gísla á Uppsölum, alþýðumanni sem lifði er á 19. öld væri en í raun var uppi á tækniáratugum 20. aldar. Ég virði framlag Ómars mikils - hann á skilið allt hið besta fyrir sitt ævistarf.

Kvikmyndin Mýrin var sigurvegari kvöldsins. Í heildina séð er Mýrin algjört meistaraverk. Ég hreifst mjög af henni er ég sá hana fyrir mánuði. Glæsileg kvikmynd í alla staði. Það hefur sannast af viðtökum landsmanna að hún er sátt og dómar um hana hafa verið nær allir á einn veg. Það var mikið gleðiefni að Ingvar E. skyldi hljóta Edduna fyrir stórleik sinn í hlutverki Erlendar Sveinssonar. Hér eftir sjáum við Erlend í hans túlkun og sjáum engan annan fyrir okkur er bækurnar eru dregnar fram á dimmu vetrarkvöldi eða fögru heiðbjörtu sumarkvöldi. Hann túlkaði einmanalegt og innantómt líf hins hugula rannsóknarlögreglumanns af mikilli snilld. Glæsilega gert.

Þjóðin hefur með því að fjölmenna í bíó sýnt það með skýrum hætti að hún vill framhald á. Öll viljum við sjá bækurnar lifna við. Þetta eru stórfenglega skrifaðar bækur og það er greinilegt að þjóðin hefur áhuga á því að þær verði kvikmyndaðar. Þjóðin vill sjá fleiri myndir og Ingvar E. aftur í hlutverki Erlendar. Sigurför Mýrinnar segir allt sem segja þarf. Það hlýtur að verða framhald á. Það er allavega nóg af eftirminnilegum sögum eftir Arnald til að kvikmynda.

Í heildina var þetta skemmtilegt sjónvarpskvöld. Fannst þó kynnarnir missa nokkuð marks, húmorinn var ekki upp á marga fiska og betra væri að láta fagmenn sjá um þessa hlið gríns, ef á að hafa grín yfir höfuð. Þetta var vandræðalegt í besta falli. Svo er það hreinn skandall að ekki sé verðlaunað í flokkum karla og kvenna fyrir leik. En samt sem áður; skemmilegt kvöld.


mbl.is Mýrin fékk flest Edduverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Kæri Stefán, ert þú ekki að gleyma einu merkilegasta framlagi eins manns til björgunar Austurlandi og Hálendinu í yfirliti þínu um Ómar Ragnarsson? Hann hefur áður verið valinn sjónvarpsmaður ársins og var svo sannarlega vel að því kominn. Og enn betra er að hann valinn nú í ár þrátt fyrir að vera úthrópaður af ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem brandarakarl og fífl! Ómar Ragnarsson er hetja og það er gott að þjóðin skuli vera að átta sig á því að hann hefur rétt fyrir sér um stærstu mistök íslandssögunnar: Kárahnjúkavirkjun.

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 20.11.2006 kl. 08:23

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ómar var valinn fréttamaður ársins af þriggja manna valnefnd fyrir nokkrum árum. Nú er sá valflokkur ekki til lengur reyndar. Ég kaus sjálfur Ómar Ragnarsson í þessari kosningu, enda fannst mér hann besti kosturinn af þessum fimm. Þar réði pólitík engu, enda skipti pólitík ekki máli í þessu af minni hálfu.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.11.2006 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband