43 ár liðin frá dauða John F. Kennedy

John F. Kennedy Í dag eru 43 ár liðin frá því að John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, var myrtur í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti.

Opinber rannsóknarnefnd, Warren-nefndin, komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir, eins og vel kom fram í umdeildri kvikmynd Oliver Stone, JFK, árið 1991. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Lyndon B. Johnson, eftirmaður Kennedys á forsetastóli, hafi skipulagt ódæðið. Kvikmyndin kemur með aðra útgáfu en þá opinberu og þær samsæriskenningar sem þar komu fram hafa alltaf verið umdeildar.

Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt rúmir fjórir áratugir séu liðnir frá morðinu á forsetanum. Enn er mikið fjallað um pólitíska arfleifð forsetans og 1000 daga hans á forsetastóli. Fyrir þrem árum, þegar að fjórir áratugir voru liðnir frá morðinu á forsetanum, birtist á vef Heimdallar ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi Johns Fitzgerald Kennedy.

Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts.

Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, sigraði Richard M. Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli í rúmlega 1000 daga, var myrtur 22. nóvember 1963 í Dallas í Texas, skömmu eftir að hann kom þangað en hann hafði dagana á undan verið á ferðalagi um fylkið. Kennedy forseti var jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington, 25. nóvember 1963.

Í ferð minni til Washington í október 2004 fór ég í Arlington-þjóðargrafreitinn að grafreit Kennedys forseta. Á gröf hans og Jacqueline, konu hans, sem lést árið 1994, lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband