Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi hafið

Sjálfstæðisflokkurinn Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er hafið. Kjörstaðir opnuðu hér á Akureyri nú kl. 9:00 og verða opnir þar til kl. 18:00 og á 20 öðrum stöðum um kjördæmið. Í þessu prófkjöri verður nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi kjörinn. Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, hefur ákveðið að segja skilið við stjórnmálaþátttöku að loknu þessu kjörtímabili og nú er það í höndum sjálfstæðismanna um allt kjördæmið hver leiðir framboðslista flokksins að vori.

Ég verð á kjörstað í Oddeyrarskóla í allan dag, enda er ég í kjörstjórn og það eru því næg verkefni sem við blasa um helgina. Það er þó ekki þannig að úrslit verði ljós og nýr kjördæmaleiðtogi formlega ljós fyrir dagslok. Við lok kjörfundar kl. 18:00 um allt kjördæmið tekur við það verkefni að safna saman öllum kjörgögnum. Það mun taka þónokkurn tíma. Atkvæði í þessu prófkjöri verða formlega talin því á morgun. Við búum í gríðarlega stóru kjördæmi, sem spannar fleiri hundruðir kílómetra. Öll atkvæði verða komin í húsnæði Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir hádegi á morgun. Þar mun talning hefjast formlega kl. 14:00 og fyrstu tölur liggja fyrir kl. 18:00. Úrslit verða kunn fyrir 21:00 væntanlega.

Þeir sem hafa lesið þessa bloggsíðu hafa séð lágstemmda umfjöllun um þetta prófkjör á vef mínum. Mér fannst ekki viðeigandi að skrifa mikið um frambjóðendur og hliðar þeirra í ljósi þess að ég vann í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni í Kaupangi. Henni lauk í gær, en gærdagurinn var auðvitað þar annasamastur og gekk á ýmsu. Þetta hefur verið lifandi og góð kosning sem hefur vel fram og góð kjörsókn verið. Nú er komið að aðaldeginum og nú ráðast örlögin. Fyrir dagslok á morgun verða úrslit kunn. Í ljósi minnar stöðu í þessu ferli hef ég ekki lýst opinberlega yfir stuðningi við neinn frambjóðanda, né verið áberandi í starfi eins né neins. Það er fyrir bestu.

Ég kaus einn með sjálfum mér í salnum upp í Kaupangi á síðdegi fimmtudags skömmu fyrir framboðsfundinn á Hótel KEA. Ég hafði myndað mér mínar skoðanir mjög vel þónokkru fyrir þá stund. Ákvað að bíða ekki eftir framboðsfundinum, en staða mála á þeim fundi breytti engu um mína afstöðu til þess hver ætti að leiða þennan framboðslista og hverjir myndu sóma sér best með því leiðtogaefni sem mér líst best á. Í mínu vali koma saman reynsla, þekking og nýtt blóð til verka. Það er öllum fyrir bestu að hafa góða samblöndu kynjanna og ég stuðlaði að því. Ég tel að mitt val hafi einnig staðið vörð um hagsmuni ólíkra svæða.

Það má búast við að mikil spenna verði meðal frambjóðenda og flokksmanna þennan sólarhring frá lokun kjörstaða til fyrstu talna síðdegis á morgun. Það verður hinsvegar gott að losa um mestu spennuna er yfir lýkur í Oddeyrarskóla í dag og við þolum öll biðina mjög vel. Framundan eru þáttaskil. Það verður fróðlegt að sjá hver mun fá umboð flokksmanna til leiðtogasetu nú við pólitíska kveðjustund Halldórs og hvernig liðsheildin skipast. Það eru spennandi tímar framundan.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband