Dagbækur Matthíasar - hvað má setja á netið?

Matthías Johannessen Ég verð að viðurkenna að ég met mikils að Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, opinberi dagbækur sínar í áranna rás á netinu. Dagbókaskrifin sýna vel hversu sterk staða Matthíasar var í þjóðlífi og hringiðu stjórnmálanna þau ár sem hann var ritstjóri Morgunblaðsins. Til hans leitaði fólk með ólíkar pólitískar skoðanir og með ólíkar hugsjónir í lífinu með sín mál og treysti honum fyrir mjög mörgu.

Við að lesa dagbækurnar vaknar fyrst stóra spurningin; hvers vegna birtir Matthías dagbækurnar í lifanda lífi? Stóri tilgangurinn er ekki ljós en hitt veit ég að allir sem vilja vera með í umræðunni hafa lesið þær. Farið þangað af forvitni til að kynna sér hverja og hvað hann skrifar um. Bara með því hefur hann eflaust náð stóra tilganginum með birtingunni. En auðvitað eru ekki allir jafnsáttir með þessa birtingu. Stundum fer hann nærri þeim sem skrifað er um og ekki fá allir jákvæð skrif um sig. Eflaust er það eins og gengur og gerist. Svo margir eru umdeildir í þessu samfélagi.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég las fyrst dagbókina fannst mér sagnfræðilega hliðin í fjölmörgu sem hann birtir frá síðustu áratugum alveg stórmerkileg. Eftir því sem skrifin koma nær samtímanum hitnar mjög yfir skrifunum og þau verða funheit fyrir ansi marga. Fjöldi þeirra sem vitnað er í sem heimildarmenn eða talað er um eru lifandi og velt er við steinum sem eru viðkvæmir. Sumt eru kjaftasögur um viðkvæma hluti sem eflaust einhverjir telja á gráu svæði að skrifa um. Svona skrif um samtímamál sem hafa verið umdeild og stjórnmálamenn sem hafa verið í hita pólitískra átakamála vekja athygli. Held að það sé bara eðlilegt.  

Matthías Johannessen hefur aldrei verið þekktur fyrir að fara troðnar slóðir. Með skrifum sínum hefur hann jafnan vakið athygli og verið í forystu á þeim vettvangi sem hann hefur valið sér. Á öðrum hefur hann verið mikilvæg aukapersóna. Þessi skrif sanna sterka stöðu hans í íslensku samfélagi og hversu valdamikill hann var af ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins, ekki bara sem yfirmaður stærsta dagblaðs landsins á þeim tíma heldur og mun frekar í stjórnmálum. Þessar dagbækur staðfesta sterkan sess Matthíasar.

En þeir sem hafa leitað til hans með trúnaðarmál eru örugglega ekki sáttir margir hverjir. Mjög margt er opinberað. Sérstaklega vekur þetta meiri athygli þegar tíundi áratugurinn er skannaður. Atburðir þar eru of nærri fyrir marga, bæði Matthías og þá sem treystu honum, til að það sé svipt hulunni af öllu. Kjaftasögurnar eru verstar. Ekki eru þær allar sannar og það reynir Matthías.

En væntanlega hefði verið auðveldast fyrir hann að sleppa þessu. En dagbækurnar eru stórmerkileg heimild. Því verður ekki neitað.

mbl.is Matthías Johannessen: Málið er úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég veit ekki  hversu merkilegar þessar heimildir eru. T.d. er sagan um Guðjón Friðriksson hrein kjaftasaga, enda kenndi ég sjálfur þarna á þessu tímabili. Veit meir um málið en ég mun segja .. um sinn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 10:17

2 identicon

Ég segi nú bara ... stórmerkileg heimild um hvað?  Skáldskaparhæfni Matthíasar?  Bara þetta eina dæmi varðandi Guðjón Friðriksson varpar rýrð á allar færslurnar, því miður.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 11:07

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þetta eru engar heimildir Stefán. Eingnögu vangaveltur og persónuleg samtöl sem alls ekki eiga erindi fyrir almenning. Blaðamenn og ekki síst ritstjórar fá fullt af einkasamtölum sem ekki eiga erindi út á við. Þarna er Matthías að bregðast þeim trúnaði sem við blaðamennn bindumst viðmælendum.

Haraldur Bjarnason, 1.9.2008 kl. 14:49

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Gísli: Sumt er merkilegt, annað ekki. Vona að það hafi komist til skila að mér finnast kjaftasögupælingarnar fyrir neðan virðingu Matthíasar og hann hefði átt að sía út. Margt er stórmerkilegt, t.d. pólitískar vangaveltur. Því er ekki hægt að neita. En sumt, sérstaklega frá síðari tíð, er viðkvæmt og erfitt, varla birtingarhæft.

H.T. Merkileg heimild um stöðu Matthíasar. Fólk úr öllum áttum leitaði til hans, meira að segja fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og formaður Alþýðubandalagsins. Það voru söguleg þáttaskil og ég verð að viðurkenna að mér fannst sú frásögn söguleg og áhugaverð. Allt er þetta reyndar áhugavert, en sumt er á meira gráu svæði en annað.

Haraldur: Sumt, annað ekki. Eins og ég segi við kommenti Gísla. Hann hefði átt að sía út sumt í þessari dagbók sinni. Sumt er birtingarhæft, annað er beinlínis meiðandi fyrir þá sem skrifað er um. En kannski er erfitt að fara að ritskoða svona. En dagbækur hafa oft verið opinberaðar, t.d. margt úr dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns forseta. En það hefur jafnan verið gert eftir að dagbókarskrifari deyr. Kannski er það stóri munurinn. Þarna er gert eitthvað sem við þekkjum varla; að einhver aðili í lykilstöðu í samfélaginu afhjúpi sín mál í lifanda lífi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.9.2008 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband