Endurkoma Ingibjargar Sólrúnar

Miklar tilfinningar voru greinilega á flokksfundi Samfylkingarinnar í dag þar sem Ingibjörg Sólrún átti sér pólitíska endurkomu eftir veikindi sín. Skarð hennar hefur verið mikið fyrir Samfylkinguna og erfitt að sjá hver sé í raun næstráðandi hennar og hverjir standi henni næst að völdum. Fjarvera hennar var mikið áfall fyrir Samfylkinguna og greinilegt að flokkurinn á mikið undir því að hún verði áfram virk í pólitísku starfi.

Ingibjörg Sólrún felldi svila sinn, Össur Skarphéðinsson, af formannsstóli fyrir rúmum þremur árum en hann virðist hafa haldið sterkum sess sínum innan flokksins á meðan Ágúst Ólafur Ágústsson hefur ekki náð traustum pólitískum sess, þrátt fyrir að ná varaformennskunni á sínum tíma. Össur tók stöðu Ingibjargar Sólrúnar sem forysturáðherra Samfylkingarinnar og var greinilega í forystu ákvarðana.

Ágúst Ólafur hefur orðið fyrir mörgum pólitískum áföllum og í raun verið gengisfelldur af samherjum sínum þrisvar eða fjórum sinnum á innan við fjórum árum. Eini alvöru pólitíski sigur hans frá varaformannskjörinu er í raun aðeins einn; þegar honum tókst að ná fjórða sætinu í Reykjavík í prófkjörinu 2006. Þó hann væri varaformaður þurfti hann að berjast við fjölda flokksmanna um sætið en hafði sigur.

Ég hef fundið fyrir því að pólitísk staða Ágústs Ólafs hefur verið mikið feimnismál í viðræðum við samfylkingarmenn. Þrátt fyrir varaformennskuna var honum ekki treyst fyrir ráðherrastól og þurfti að horfa upp á annan ungan mann innan flokksins ná viðskiptaráðuneytinu. Sem hagfræðingur hefði Ágúst Ólafur orðið mun sterkari valkostur í það ráðuneyti en Björgvin G. Sigurðsson en hafði ekki styrk í ráðherrastól.

Fjarvera Ingibjargar Sólrúnar hefur enn og aftur sýnt hversu veik staða Ágústs Ólafs sem varaformanns er í raun. Og í þessari mikilvægu ræðu er Ingibjörg Sólrún snýr aftur eftir sjúkrahúslegu í New York er ekki minnst einu orði á varaformann flokksins. Staða hans er ekki góð.

Veikindi formanns Samfylkingarinnar hafa verið áfall fyrir Samfylkinguna að mörgu leyti. Þar hefur sést hversu mikilvæg Ingibjörg Sólrún er Samfylkingunni og hversu veik staða varaformannsins er.

Ekki er hægt annað en velta því fyrir sér hvort Ágústi Ólafi verði steypt af stóli varaformanns á næsta landsfundi miðað við atburðarásina frá þingkosningunum 2007.

mbl.is Ingibjörg Sólrún: Erfiður vetur framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjósandi

Það er ekki sjálfgefið að varaformaður í stjórnmálaflokki sé næst æðsti maðurinn í flokknum. 

Þegar ráðherrar voru valdir var leitast við að dreifa ráðherrunum eftir kjördæmum og það þótti nauðsynlegt að hafa ráðherra úr kjördæmi framsóknarmanna. Þá er líklegt að Björgvin hafi verið talinn öflugri en Ágúst þegar á heildina var litið. Björgvin hefur althent staðið sig feikivel þrátt fyrir ungann aldur. Í sveiganlegum flokki þá er engin skylda að hafa varaformann sem næstráðanda. Það virkar miklu betur að velja þann hæfasta í þau verk sem þarf að vinna óháð titli. Þannig virkar flokkur best og verður öflugastur.

Kjósandi, 19.10.2008 kl. 23:56

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Varaformaður er næstráðandi. Það felst í hlutverkinu. Komi eitthvað fyrir formanninn er hann sjálfkrafa formaður. Þetta er ekkert aukahlutverk. Þarna er kosið beint á flokksþingi til forystu einstaklingur sem er við hlið formanns og er jafnan settur yfir innra flokksstarf eða mikilvæg verkefni. Allt tal um að varaformenn séu aukapersónur eða ekki mikilvægar meikar því ekki sens, miðað við kjör á landsfundi og staðgengilshlutverk við hlið formanns.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.10.2008 kl. 00:37

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég átti tal við Samfylkingarmann í síma nú í kvöld. Hann var svo upptekinn af því sem gerðist á fundinum með formanninum núna síðdegis að svo virtist sem hann hefði hitt Frelsarann í eigin persónu. Nú var Ingibjörg komin heim, Jón Baldvin kominn í gírinn og öll vandamál okkar hismi eitt að nokkrum vikum liðnum. 

Árni Gunnarsson, 20.10.2008 kl. 00:41

4 Smámynd: Gústaf Níelsson

Ágúst Ólafur er bara pólitískur tilbúningur, leitt að segja það, en svona er það bara.

Gústaf Níelsson, 21.10.2008 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband