Guðni fer af sviðinu og skellir hurðinni á eftir sér

gudni valla
Ég er eiginlega enn að átta mig á því að Guðni Ágústsson hafi hætt í pólitík í dag... og það án þess að kynna það sjálfur. Hann einfaldlega fór og skellti hurðinni hraustlega á eftir sér. Fer svo af landi brott í sólarlandaferð og leyfir okkur að fylla upp í eyðurnar í heildarmyndinni án þess að greina stöðuna sjálfur. Verð að segja alveg eins og er, eftir harkalega aðför að Guðna innan Framsóknarflokksins, að þetta er helvíti flott hjá honum - grand útganga.

Hann var einfaldlega búinn að fá nóg og lætur flokksfélögum sínum eftir að finna upphafið á því sem gerist á eftir endinum hjá sér sjálfum. Stóra afstaðan sem hann hefur tekið eftir miðstjórnarfundinn er mjög einföld. Hann leggur ekki í það verkefni að stöðva Evrópuför flokksins, sem var fyrirsjáanleg eftir samþykkt tillögunnar um aðildarstuðning á flokksþingi, en tekur ekki að sér að leiða hana heldur. Hann segir einfaldlega farvel flokkur.

Þeir sem ég þekki í Framsókn og þekkja líka Guðna Ágústsson sögðu mér að Guðni hefði verið reiður og vonsvikinn í senn eftir miðstjórnarfundinn. Hann var sleginn yfir gagnrýni að sér og forystunni og sleginn yfir Evrópustuðningnum, hann var meiri en hann vænti. Í sömu andrá hefði hann líka verið foxillur því menn sem hann stólaði á og taldi nána samstarfsmenn sína höfðu yfirgefið hann og pólitísku gildin sem hann hefur barist fyrir.

Niðurstaðan er því pólitísk leiðarlok, giska óvænt. Með afsögn setur hann pressu á Valgerði Sverrisdóttur. Sem starfandi formaður Framsóknarflokksins er sviðsljósið á henni, viðskiptaráðherra útrásartímanna. Hún þarf að gera upp við sig mun fyrr en hún stefndi að hvort formannsframboð sé í spilunum, enda er hún orðin formaður. Pressa fjölmiðla á henni mun líka örugglega aukast þar sem hún er minnisvarði um liðna tíð; Halldór og útrás.

Ég sé eftir Guðna. En þetta er rétt ákvörðun hjá honum og vel metið. Hann hafði fengið nóg, skellir hurðinni á eftir sér og skilur flokkinn eftir á krossgötum - krossgötum sem hann ætlar ekki að velta fyrir sér. Þá gátu skilur hann eftir hjá þeim sem hann taldi svíkja sig og stinga sig í bakið. Snilldarflétta úr mjög þröngri og erfiðri stöðu. Hann segir einfaldlega bless. Alþingi er litlausara á eftir, það er alveg klárt.


mbl.is Eygló næst á lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það kemur mér ekkert á óvart að Guðni hafi sagt bara bless, ég er farinn. Þó ég þekki hann ekki neitt, get ég ímyndað mér að miðstjórnarfundurinn hafi orðið honum til mikilla sárinda og vonbrigða. Meina, maðurinn átti sér draum, trúði á flokkinn og gaf sig allan í formennskuna. Held að hann hafi fundið mikið fyrir mannlega þættinum á þessum fundi og tekið gagnrýni flokksmanna (m.a. allra kónganna á sínum bújörðum) nærri sér. Finn dálítið til með honum. Hitt er svo annað mál, að afsögn hans speglar enn og aftur átökin innan Framsóknarflokksins og ég tel að flokkurinn þurfi aldeilis að leggjast í naflaskoðun á næstunni og endurskoða stefnumálin sín. Finna út hvers vegna fylgið hefur hrunið af flokknum eins og skoðanakannanir hafa leitt í ljós. Kannski þarf bara hver og einn flokksmaður að stokka upp hjá sér eigin aðferðir til að tjá sig, bæði innan flokks og opinberlega. Ekki veit ég það. En eftir situr semsagt höfuðlaus her eins og sagt er.

Nína S (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband