Munu Siv og Valgerður berjast um formennskuna?

framsokn2
Óvænt afsögn Guðna Ágústssonar af þingi og úr formennsku Framsóknarflokksins tryggir miklar breytingar í forystusveit Framsóknarflokksins. Óhætt er að fullyrða að Valgerður Sverrisdóttir, nýr formaður, muni ekki verða sjálfkjörin á næsta flokksþingi og búast má við harðvítugum deilum um forystuna. Mun forysta ríkisstjórnaráranna með Sjálfstæðisflokknum raða sér í forystusætin eða mun unga fólkið sækja fram og krefjast forystusæta. Ég yrði ekki hissa á því. Mér finnst líka Guðni kveðja með þeim orðum að nú sé framtíðin unga fólksins. Hann hvetur yngri fólkið semsagt til að sækja fram.

Næsta flokksþing Framsóknarflokksins verður örugglega þing sviptinganna. Ég yrði ekki hissa þó Siv Friðleifsdóttir, sem tapaði varaformannsslag fyrir Finni Ingólfssyni árið 1998 og formannsslag fyrir Jóni Sigurðssyni árið 2006 (fékk þá meiri stuðning en flestum óraði fyrir í baráttu við Halldórsarminn), færi fram gegn Valgerði. Vandi hennar er þó sá að hún var hluti af gömlu valdatíðinni en hefur mun minni þingreynslu en Valgerður. Hún gæti sótt fram sem frambjóðandi breytinga og minnt á að Halldórsarmurinn sparkaði henni úr stjórninni árið 2004 og hún hafi ekki verið í þeim hópi.

Sumir tala um að Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og fyrrum varaþingmaður Sivjar, fari fram. En mun hann leggja til atlögu við Valgerði Sverrisdóttur, konuna sem hann var aðstoðarmaður hjá í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu? Hann fylgdi henni að málum allan útrásartímann. Hvað með Höskuld og Birki Jón? Munu þeir ekki minna á að þeir séu ungir og sprækir? Yrði ekki hissa á því. Er hægt að útiloka nokkurn af þingflokknum sem kandidat nema mögulega konurnar í Suðurkjördæmi sem hafa á innan við viku orðið þingmenn í stað varaþingmanna?

Sumir tala um nýja tíma. Verða nýjir tímar í Framsókn með viðskiptaráðherra útrásartímanna? Framsóknarmenn hljóta að spyrja sig að því hvort svarið í uppstokkuninni samhliða brotthvarfi Guðna sé að fela konu sem er framlengingarsnúra af formannstíð Halldórs Ásgrímssonar formennskuna og tækifærið til að leiða Framsókn í næstu kosningum.

Guðni sendir dulin skilaboð í afsögninni um að nú sé það unga fólksins að taka við. Hann talar þar beinlínis gegn Valgerði og hvetur menn til að sækja fram gegn henni.


mbl.is Afsögn Guðna kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Ég spái því að hún Sif fái nú formannssætið. Finnst hún einhvernvegin passa betur í það.

Er sammála morgu sem þú segir hérna en finnst þú alltof mikill kapítalismi.

Kveðja Hjalti Þór Ísleifsson

Hjalti Þór Ísleifsson (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 16:51

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Eitt er víst - það verður ljótur atgangur ef þessar tvær klást!

Greta Björg Úlfsdóttir, 17.11.2008 kl. 17:11

3 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Ég held að þurfi að skipta um forystu í öllum þeim flokkum sem nú eru á þingi. Það er alltof margir smákóngar sem vilja ráða. Allar þessar forystur hafa setið sofandi og horft á landið okkar fara í hundana en ekkert aðhafst. Forusta framsóknarflokksins er bara fyrst til að axla ábyrgð sem vonandi aðrir gera líka. Valgerður ætti að segja af sér líka ekki spurning.

Gylfi Björgvinsson, 17.11.2008 kl. 18:07

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Hvorki Siv né Valgerður verða formaður flokksins. Það kæmi mér ekki á óvart að Kópavogsbúinn Páll verði næsti formaður flokksins.

Óðinn Þórisson, 17.11.2008 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband