Táknræn uppstokkun - nýir tímar hjá Framsókn

framsokn forysta
Óhætt er að segja að flokksmenn í Framsóknarflokknum hafi tekið til í forystusveit flokksins um helgina og sagt skilið við gömlu tímana og lagt traust sitt á nýja kynslóð og hafi hafnað þeim sem ráðið hafa för þar um árabil. Formannskjör Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, 33 ára skipulagshagfræðings, markar uppstokkun í flokki sem hefur meira og minna haft forystumenn sömu kynslóðar í hartnær tvo áratugi. Í pólitísku litrófi hér heima eru þetta tímamót, enda vægast sagt fá dæmi fyrir því að rúmlega þrítugu fólki sé treyst fyrir flokksformennsku í rótgrónum flokki.

Þegar ég heyrði af því að Páll Magnússon hefði fengið skell í formannskjörinu, verið hafnað með afgerandi hætti sem fulltrúum gömlu valdaaflanna, taldi ég víst að Siv Friðleifsdóttir myndi stórgræða á því í varaformannskjörinu og þar væri um að kenna að Siv hefði unnið svo vel bak við tjöldin og plottað gegn Páli. Það mat var heldur betur rangt, eins og svo mörg stöðluðu dæmin um valdablokkirnar í Framsókn. Siv var nefnilega hafnað ennfremur í varaformannskjöri gegn ungum manni og var flokkuð sem fulltrúi hinna liðnu tíma í Framsóknarflokknum.

Ég átti ekki von á því að ákallið um breytingar væri svo afgerandi og Siv myndi finna fyrir því ennfremur. En sem ráðherra um árabil og forystumaður á ríkisstjórnarárunum með Sjálfstæðisflokknum fékk hún skellinn og var einfaldlega hafnað. Niðurstaða flokksþingsins er því mjög einföld. Forystufólk hinna liðnu tíma, fyrir síðustu þingkosningar, er einfaldlega skóflað út og skilaboðin til þeirra eru mjög einföld. Byggja eigi nýjan flokk á grunni hins liðna og kalla eigi til þess verks yngra fólk sem ekki er bundið af óvinsældum og verkum fortíðar.

Auk þess vakti mikla athygli að Sæunni Stefánsdóttur, ritara Framsóknarflokksins og eftirmanni Halldórs Ásgrímssonar á Alþingi, skyldi hafnað svo afgerandi og í staðinn kosin landsbyggðarkonan Eygló Harðardóttir, sem tók sæti á þingi fyrir nokkrum vikum í stað Guðna Ágústssonar. Ef eitthvað er lykilniðurstaða helgarinnar er það að Halldóri og gömlu fylkingunni hans er algjörlega hafnað og leitað annað eftir forystufólki. Skellurinn er mikill fyrir þá sem hafa ráðið flokknum. Valdamiðjan þar hefur einfaldlega færst annað í þessum umskiptum.

Fjarstæða er að telja að Framsókn hafi færst mjög nær ESB á þessu flokksþingi. Eini formannsframbjóðandinn sem vildi setja ESB á oddinn fær algjöran skell og ESB-stefnan er mjög opin og hægt að teygja hana og túlka af vild af kontór hins nýja formanns. Merkilegast af öllu er að gömlu vígaferlin á milli Páls og Sivjar lýkur með að þeim báðum er hafnað og leitað annað eftir leiðsögn. Kannski er þetta kaldhæðnislegt eftir öll vígaferlin en mun frekar táknrænt.

Mjög merkileg niðurstaða - fróðlegt verður að sjá mælingarnar sem Framsókn fær. Ekki er lengur hægt að tala um að Framsókn sé stýrt af valdaörmum liðnu tímanna og sé staðnaður og úreltur flokkur. Breytingastefið á flokksþinginu hefur sópað út gömlu fylkingunum og eftir stendur flokkur sem á mörg tækifæri og getur byggt sig upp og átt nýtt upphaf. Þeirra er nú verkefnið að standa undir nafni og unga fólksins er að stýra ferlinu.

Ég held að margir flokkar geti lært af þessu og hugað að álíka uppstokkun. Ég tel að pólitíska forystan í landinu sé stórlega rúin trausti og þurfi að láta reyna á hvernig umboð hún fær. Fróðlegt verður að sjá hvernig staða forystu Sjálfstæðisflokksins verður eftir landsfund eftir hálfan mánuð.

mbl.is Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, sumir flokkar með óhreint mjöl í pokahorninu virðast vera þeirra skoðunar, að rétta aðferðin til að öðlast aftur trúverðugleika sé að skipta um forystu!

Skildu þeir hafa á réttu að standa eða er öflugasta leiðin að breyta engu og bjóða upp á sama mannskap í kosningum, sem gætu orðið í vor eða hugsanlega haust?

Öskrar þjóðin eftir breytingum eða er hún sátt, líkt og hún hefur verið undanfarin ár? Vill þjóðin kannski bara óbreytt ástand?

Þetta eru spurningar, sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn verða að spyrja sig þessa dagana og þá ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn!

Landsmenn góðir, Framsóknarflokkurinn hafði þor til að horfa í spegilinn og spyrja sig þessarar "krítísku" spurningin og svarið kom svo sem ekki á óvart!

Mér finnst þetta virðingarverð tilraun hjá þessum gamla flokki, sem ekki hefur átt sjö dagana sæla undanfarin ár.

Hvað finnst ykkur?   

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.1.2009 kl. 07:35

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Aumingja fólkið, komið inn á ógæfubrautina. 

Baldur Gautur Baldursson, 19.1.2009 kl. 07:41

3 identicon

hahahah framsókn, og Birkir Byrgismaður í varaformann hahahaha
Sorry þetta er sama gamla ruglið

DoctorE (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband