Burt með sukkið og svínaríið á Nýja Íslandi

Eftir því sem kafað er neðar í sukkfenið í bönkunum kemur æ meira ógeðfellt í ljós. Sagan um glæfraverkin í Kaupþingi þar sem eigendurnir fengu botnlaus lán út á lélegt lánstraust til að rífa upp eigin stöðu og bankans, en þeir gátu auðvitað ekki tapað persónulega á, er örugglega aðeins toppurinn á þessum ósóma. Held að enginn hafi samúð með þessum fjárglæframönnum og verklagi þeirra. Flestir hafa megna skömm á þessu verklagi.

Fiffið með skúffufyrirtækið á Jómfrúareyjum og lygasagan um erlendu fjárfestingarnar, eru alveg kostulegar. Þegar svo við bætist að þessir menn koma í fjölmiðlum og reyna að bera gegn augljósum staðreyndum og því sem blasir við er aumingjalegt í besta falli, en kannski ekki við öðru að búast. Tilgangurinn sá eini að blaðra upp hlutabréfin í bönkunum. Öll almenn skynsemi og siðferði í viðskiptum víkur fyrir þessari glæpamennsku.

Þessi gervimennska er svo augljós að allir sjá í gegnum hana. Ólafur ætti eiginlega að fá tilnefningu til Grímuverðlaunanna fyrir leiktúlkun sína í gær, þó hann hafi ekki einu sinni verið í mynd. Slíkir voru meistarataktarnir í að reyna að blekkja fólk enn eina ferðina. En það dugar ekki til. Hringekjan er hætt að snúast. Laumuspilið og feluleikurinn hefur verið stöðvaður í þeirri mynd sem hann gekk lengst af.

Og svo er fólki boðið upp á vælið í UppsveifluÓlafi um að hann hafi nú ekki grætt neitt á þessu. Give me a break segi ég bara á lélegri íslensku. Var hann ekki að spila með allt og alla til að upphefja sjálfan sig. Hver græddi manna mest á þessari falsmennsku? Þetta er manípúlering eins og þær gerast bestar í villta og spillta gamla Íslandi.

Ég ætla að vona að þessir fjárglæframenn verði ekki mikið í fréttum í Nýja Íslandi. Nema þá til að segja okkur frá því að þeir hafi verið stöðvaðir af.

mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Þær athafnir sem menn furða sig á og hneykslast yfir, og kunna að orka tvímælis, eru á margra manna vitorði. Þeirra á meðal gætu verið embættismenn, sem hafa reynt að sporna við fæti, en jafnan verið gerðir afturreka. Nú sitja þeir þöglir, sveipaðir bankaleynd, og hlæja innra með sér líkt og Marbendill í þjóðsögunni.  

Í þekktu leikriti falla orð í þá veru að eitthvað sé rotið í ríkinu, án þess kveðið sé nánar á um hvað sé rotið. "Foul deeds will rise" og allt það! "Bankaleynd" þess tíma var svo mikil að Hamlet ungi lætur nægja að segja: "There are more things in heaven and earth, Horatio, Than are dreamt of in your philosophy." Hann veit allt en ber fyrir sig bankaleynd

Flosi Kristjánsson, 20.1.2009 kl. 10:52

2 Smámynd: Offari

Það er vonlaust að byggja upp nýtt Ísland á fölskum grunni.

Offari, 20.1.2009 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband