Barack Obama tekur við forsetaembættinu

Barack Obama sver embættiseið
Barack Hussein Obama hefur nú svarið embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna. Nú reynir á ákall hans um breytingar og söguleg þáttaskil í bandarískum stjórnmálum - leiðarstefið sem hann byggði kosningabaráttu sína á, eina öflugustu og tæknivæddustu kosningabaráttu sögunnar. Breytingarnar eru nú í sjónmáli og verður áhugavert að sjá hvernig honum gangi í verkum sínum. Embættistakan var mjög merkileg stund í pólitískri sögu, ekki aðeins Bandaríkjanna heldur í alþjóðastjórnmálum, enda allt við sigurgöngu Obama sögulegt.

Engin stórtíðindi voru í innsetningarræðu Obama forseta. Hann átti mjög erfitt með að setja markið hærra en í fyrri sögulegum ræðum sínum, sigurræðunni í Iowa í janúar 2008, þegar hann tók við útnefningu demókrata í Denver í ágúst 2008 og þegar hann fagnaði sigri í Chicago í nóvember 2008. Hann hefur fyrir löngu sett markið hátt í ræðusnilld og flutt margar af eftirminnilegustu ræðum nútímastjórnmála og erfitt að gera innsetningarræðuna betri en þær. Þar var þó talað á mannlegu nótunum og greinilegt að forsetinn mun gera sitt besta í embætti.

Vandræðaleg mistök í embættiseiðnum vöktu athygli þegar Obama forseti og Roberts forseti Hæstaréttar fóru af sporinu en þeir náðu fljótlega áttum. Svo var alveg yndislegt að hlusta á Arethu Franklin flytja fallegt ættjarðarlag. Fannst Rick Warren stinga mjög í stúf við að flytja predikun, en hatur hans á samkynhneigðum er vel þekkt og mjög umdeilt þegar Obama forseti valdi hann til að tala.

Stóra stundin var þó fyrir nokkrum mínútum þegar George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og Laura Bush, fyrrverandi forsetafrú, yfirgáfu Washington í þyrlu á leið heim til Texas. Þau hafa átt átta söguleg ár í forsetaembættinu. Bush fer af velli sem einn óvinsælasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna en um leið með sterkan sögulegan sess sem þjóðarleiðtogi á miklum umbrotatímum.

Bush virtist glaður við brottförina en Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti, var greinilega mjög fjarlægur og hugsi þar sem hann sat í hjólastólnum vegna bakmeiðsla. Táknræn endalok að öllu leyti á átta árum Bush-stjórnarinnar á þessum merkilega degi. En nú er Bush-stjórnin komin í sögubækurnar - umdeildi tími hinna erfiðu ákvarðana tengdum honum er nú að baki.

Framtíðin blasir nú við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og stjórn hans. Allra augu verða á verkum hans og forystu næstu árin, þó fyrst og fremst fyrstu 100 dagana, þegar ný framtíðarsýn er mótuð.

mbl.is Obama: „Við erum reiðubúin að leiða á ný“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

... og ekki gleyma því að Obama er Framsóknarmaður!

Framsóknarstemming í Bandaríkjunum!

Hallur Magnússon, 20.1.2009 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband