Risaklúður hjá Obama - vandræðaleg byrjun

Barack Obama
Enginn vafi leikur á því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur orðið fyrir þungu pólitísku áfalli vegna vandræðalegs brotthvarfs Tom Daschle úr staðfestingarferlinu í þinginu. Reyndar hefur flest gengið á afturfótunum hjá þeim sem áttu að kanna fortíð þeirra sem voru tilnefndir og greinilega verið haldið mjög illa á málum. Þrír hafa orðið að draga sig til baka vegna þess að þeir höfðu eitthvað óhreint í pokahorninu, þar af viðskiptaráðherraefnið, og sá fjórði, fjármálaráðherrann sjálfur, rétt slapp fyrir horn en naumlega þó.

Tom Dashcle átti að vera einn af lykilmönnum fyrstu hundrað daga valdaferils Obama forseta og leiða heilbrigðismálin, sem áttu að vera eitt aðalmálið, af festu og ábyrgð. Hann hafði leitt demókrata í öldungadeildinni mjög lengi og verið í fulltrúadeildinni ennfremur. Hann þótti hafa traustan prófíl og geta tekið verkefnið að sér. Í upphafi staðfestingarferlisins var farið um hann silkihönskum og talað um hann af virðingu af kollegum úr deildinni. En kusk fannst á hvítflibba hans og honum var gert ókleift að taka við embætti.

Obama er auðvitað skaddaður á eftir og hefur sjálfur viðurkennt hið augljósa, að hann klúðraði þessu og þeir sem hann treysti fyrir að leiða valferlið stóðu sig ekki í stykkinu. Eftir stendur hann með flækjufótinn. Barack Obama átti draumabyrjun fyrstu dagana eftir valdaskiptin í Hvíta húsinu en hefur síðan flækst í leiðindamál og misst greinilega draumasambandið við fjölmiðla sem hann hafði í forkosningabaráttunni. Fjölmiðlar voru skotnir í Obama og fóru um hann silkihönskum og fóru ekki leynt með það.

Greinilegt er að Obama missti traust þeirra þegar hann sór aftur embættiseiðinn í Hvíta húsinu með Roberts forseta hæstaréttar án þess að láta fjölmiðla vita og fór á fyrsta degi á svig við eigin reglur um opin samskipti í Hvíta húsinu og enga feluleiki framhjá landsmönnum og pressunni. Blaðafulltrúinn hans fékk þriðju gráðu yfirheyrslu á næsta blaðamannafundi og blaðamenn allt að því tóku Obama í gíslingu með spurningaflóði þegar hann heimsótti þá í blaðamannaherbergið síðar til að kaupa frið.

Obama forseti hefur líka misst metfylgið sem hann hafði í könnunum snemma janúarmánaðar og eftir að hann tók við forsetaembættinu. Enn hefur hann þó mælingu yfir 60% en það fer ört minnkandi. Ástarsamband fjölmiðla og Obama er lokið með dramatískum hætti og þeir hafa gengið mjög nærri honum vegna klúðursins með Daschle og aðra valkosti hans í þingferlinu. Í viðtali á CNN í kvöld tók Anderson Cooper Obama algjörlega fyrir og talaði hann í kaf, svo Obama viðurkenndi klúðrið.

Ég veit ekki hvernig Obama muni ganga á næstunni en byrjunin er eitt klúður fyrir hann. Ekki dugar lengur að hafa froðukennda frasa sem leiðarstef heldur alvöru forystu. Obama hefur að mörgu leyti þegar fallið á fyrsta prófinu og hlýtur að passa sig eigi hann ekki að verða flokkaður sem misheppnaður demókrataforseti ala Jimmy Carter eins og margir vilja gera og benda réttilega á að gæti hæglega gerst haldi hann áfram á sömu braut.


mbl.is Obama: Ég klúðraði þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Magnús Arason

Alveg rétt hjá þér Stefán, mikið klúður hjá Obama.  Mikið klúður að tilnefna Geithner sem fjármálaráðherra líka.  Ef hann er svona bráðsnjall (eins og sagt er), þá er ekki nokkur leið að hann hafi ekki vitað að hann var að svíkja undan skatti.  Og ef ekki er hægt að treysta honum fyrir litlu, þá ætti varla að treysta honum fyrir svona mikilvægu embætti.

Annars er ég ekki viss um hvernig hefði gengið hjá Daschle í starfi.  Ekki er ég viss um að Repúblikanar myndu vilja vinna mikið með honum.  Hann er þekktastur fyrir að hafa hindrað að öldungadeildin gæti unnið sína vinnu þegar Demókratar "keyptu" sér nauman meirihluta frá miðju ári 2001 og fram til ársloka 2002.

Kristján Magnús Arason, 4.2.2009 kl. 02:22

2 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Tom Dashcle segir að þetta hafi bara farið framhjá honum. Hvernig er hægt að láta það fara framhjá sér að borga ekki yfir eitthundrað þúsund dollara í skatta? Ég er nú ansi hrædd um að demókratarnir hefðu látið vel í sér heyra ef um rebúblikana hefði verið um að ræða.

 Eymdarleg tilraun  til að reyna að kynda undir ástarsambandi hans við fjölmiðlana þegar hann og Michelle buðu fjölmiðlum með sér í heimsókn í  barnaskóla í morgun þar sem þau ræddu við börnin  

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 4.2.2009 kl. 02:46

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Held reyndar að sagan muni fara mildari höndum um Jimmy Carter en marga, sem var hampað meir í embætti en honum.

Þetta var vissulega heldur óhönduglegt hjá Obama, eða staffinu hans.   Það vekur alltaf furðu þegar jafn öflugar "vélar" og svona menn hafa yfir að ráða, klikka svona á grundvallaratriðum   -smbr. snillingana sem töldu Söru Palin vera bráðsniðugan kost sem varaforsetaefni McCains.  Hún var kona, sæt, í smart embætti og í yngri kantinum.   Sennilega það eina sem horft var til.   Síðan reyndist Palin bara óvart vera galin...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 4.2.2009 kl. 02:59

4 Smámynd: Billi bilaði

Hvað "klúðruðu" síðustu 2-3 forsetar mörgum svona tilnefningum?

Billi bilaði, 4.2.2009 kl. 04:15

5 identicon

Ja hérna. Þannig er í Bandaríkjunum að hvert kusk er skoðað og steinum velt fyrir staðfestingu þingsins. Það þarf auðvitað ekki hér þar sem allir eru kusklausir! Tjékkaðu á því hversu margir ráðherra G W Bush fengu ekki staðfestingu. En . . það er ekki klúður...

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 08:18

6 identicon

Obama er greinilega maður sem er óhræddur við að ræða málin, tekur á sínum mistökum og viðurkennir.

Íslensk pólitík er ekki samanburðarhæf við þá bandarísku, við erum mörgum þrepum neðar í þroska hvað varðar "heiðarleika" og "opinbera umræðu". 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 11:44

7 identicon

Sæll Stefán.

Þetta skiptir engu máli. Enda hefur þingið lokaorð um allar stöðutilnefningar forsetans-aðrar en þær sem eru stöður í Hvíta húsinu. Rifjum þetta upp 20.1.2013.

RTÁ (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 13:08

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Mér finnst það heiðarlegt hjá Obama að viðurkenna að hann klúðraði og varð stórlega á. Heilbrigðismálin verða strand hjá Obama fyrstu hundrað dagana. Nýr ráðherra lykilmálaflokksins og foringi heilbrigðismála (það átti að kalla Daschle tzar í heilbrigðismálum hvorki meira né minna) kemst ekki til verka nærri því strax og þetta er farið af sporinu. Þetta er pínlegt áfall og hann getur ekki annað en viðurkennt það. Obama virðist hafa vanmetið stöðu sína og ennfremur ekki vandað nóg til verka, enda eru ráðherrar og lykilmenn í teyminu að fara út með mjög vandræðalegum hætti.

Hvað varðar GWBush hafði hann mjög skamman tíma til verka, enda bundinn fyrstu 36 dagana í réttarbaráttu við Al Gore og hafði mun minni tíma en ella til að undirbúa sig. Obama reyndi að vanda sig en hefur greinilega gleymt aðalatriðunum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.2.2009 kl. 13:19

9 identicon

Það er eitthvað stuttur hjá þér minnisþráðurinn því GWB var fyrst kosinn 2000 tók við jan 2001 og hafðí þá alveg nægan tíma. Það er harla ólíklegt að hann hafi ekkert verið farinn að athuga með nýja ráðherra fyrir endurkjörið og því full gróft að segja að hann hafi bara haft 36 daga því hann var búinn að vera forseti í 4 ár.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 15:05

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Fyrstu 36 dagar Bush eftir forsetakosningarnar 2000 fóru í réttarslaginn við Gore og teymi hans. Hann varð ekki réttkjörinn forseti, president-elect, fyrr en um miðjan desember 2000, og hafði takmarkaðan tíma til að undirbúa sig. Transition-tímabilið svonefnda varð mun styttra og hann var laskaður í ferlinu. En það er alveg rétt að Bush gerði sín mistök og þau ver ég ekki. Hann er bundinn af þeim og fór mjög laskaður úr embætti. Mistök hans voru honum dýrkeypt. Enginn mun segja að þar hafi farið sterkur forseti, þó vissulega hafi hann náð traustu endurkjöri eftir mikla gagnrýni árið 2004. Hann varð þó aldrei sá vinsæli leiðtogi og fékk þann meðbyr sem Obama fékk, né heldur það svigrúm sem Obama hefur með traustum þingmeirihlutum í báðum deildum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.2.2009 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband