Sigmundur Ernir heldur heim og fer í framboð

Ég held að það sé hið besta mál að Akureyringurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson ætli að fara út í pólitík og sækjast eftir metorðum. Pólitíkin hefur alltaf blundað í Simma, þó aldrei hafi hann verið flokkspólitískur og virkur á þeim vettvangi, enda verið hinumegin við borðið ef svo má segja sem fréttaskýrandi, þjóðmálaspekúlant og spyrill um pólitísk átakamál. Verður mjög áhugavert að sjá hann í þessu nýja hlutverki og hvernig honum muni ganga að lífga upp á staðnaðan framboðslista og þingmannahóp Samfylkingarinnar sem hefur verið eins síðan kjördæmið varð til árið 2003.

Lára Stefánsdóttir, vinkona mín, hefur nú ákveðið að hætta pólitískum afskiptum eftir að hafa tvisvar verið nálægt því að komast á þing en orðið undir fyrir mönnum í baráttusætum Framsóknar. Hún var hársbreidd frá kjördæmakjöri árið 2003 þegar Birkir Jón náði sætinu í lokatölum og var inni mestalla kosninganóttina 2007 sem jöfnunarmaður þar til Höskuldur Þórhallsson náði sætinu. Eftirsjá er af Láru í framboði en ég skil ákvörðun hennar sem svo að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum með stuðning héðan frá Akureyri í síðasta prófkjöri þegar hún barðist við Einar Má um annað sætið.

Væntanlegt prófkjör Samfylkingarinnar virðist ætla að verða vettvangur stórra tíðinda, enda er Akureyrarsætið í forystu listans laust með ákvörðun Láru. Eðlilegt er að þeir sem héðan koma og hyggja á framboð ætli að breyta því í þingsæti, taka sætið af Austfirðingnum Einari Má enda verður varla hróflað við ráðherranum Kristjáni Möller. Ég hef heyrt talað um mörg ný nöfn. Væntanlega mun Helena Karlsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hér á Akureyri og ritari flokksins, sækjast eftir þingsæti og ég hef heyrt talað um Benedikt Sigurðarson og Loga Má Einarsson.

Svo verður fróðlegt að sjá hverjum Austfirðingar tefla fram. Varla mun verða stemmning fyrir því um allt kjördæmið að stilla upp þeim fóstbræðrum Kristjáni og Einari aftur upp efst á lista án teljanlegra breytinga. Innkoma Sigmundar Ernis hristir duglega upp í framboðspælingunum. Simmi er þekkt andlit en svo verður að ráðast hvort hann heillar flokksmenn í prófkjörinu og verði það nýja andlit sem getur rifið flokkinn upp, en hann missti þónokkuð fylgi í síðustu kosningum.

mbl.is Sigmundur Ernir í pólitíkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband