Ingibjörg Sólrún hættir í stjórnmálum

Ég held að ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að hætta þátttöku í stjórnmálum komi engum að óvörum. Hún er mjög veikburða og þarf að ná áttum, auk þess sem hún er orðin dragbítur fyrir Samfylkinguna eftir bankahrunið. Kannanir síðustu daga hafa sýnt svo ekki verður um villst að styrkleiki hennar í pólitískri baráttu er ekki lengur til staðar, hún er ekki lengur sá leiðtogi sem höfðar mest til kjósenda og staða hennar hefur veikst umtalsvert innan eigin raða.

Enginn vafi leikur á því að Ingibjörg Sólrún var þar til fyrir nokkrum mánuðum ótvíræður leiðtogi Samfylkingarinnar og hefði engum órað fyrir því fyrir ári að hún myndi þurfa að yfirgefa pólitíska forystu, ekki frekar en Geir H. Haarde. Styrkleiki þeirra beggja hrundi á sama tíma, enda ábyrgð þeirra beggja í aðdraganda bankahrunsins ótvíræð. 

Ingibjörg Sólrún reyndi að snúa vörn í sókn með því að halda ótrauð áfram, en hún fékk óblíðar móttökur, enda var uppsetning kosningabaráttunnar sem kynnt var á blaðamannafundi um síðustu helgi klaufaleg og vandræðaleg, sérstaklega að ákveðið væri fyrirfram hverjir yrðu í þremur efstu sætunum í Reykjavík.

Þar sem framboðsfrestur er liðinn er eflaust velt fyrir sér hvað muni gerast innan Samfylkingarinnar. Mikið er talað um Dag B. Eggertsson sem nýjan formann, en hann getur ekki farið í prófkjörið í Reykjavík, en bæði Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa gefið formannsstólinn frá sér.

Væntanlega verður líflegur slagur um formennskuna í Samfylkingunni nú. Jón Baldvin sagðist fara fram til að stöðva Ingibjörgu Sólrúnu. Mun hann halda fast við framboð sitt eða mun unga kynslóðin í flokknum taka forystuna yfir við þessar breyttu aðstæður?

mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband