Dorrit Moussaieff kona ársins

Dorrit og Ólafur Ragnar Það kom mér ekki mjög á óvart að Dorrit Moussaieff, forsetafrú, skyldi verða valin kona ársins. Hún hefur vissulega verið áberandi kona á þessu ári, rétt eins og öll þau ár sem hún hefur verið við hlið Ólafs Ragnars Grímssonar af hálfu forsetaembættisins frá árinu 1999, allt í senn sem framandi kona sem fáir þekktu, unnusta forsetans eftir frægan blaðamannafund og giftinguna á sextugsafmæli forsetans.

Ég skal fúslega viðurkenna að mér finnst það sorglegt að Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, forsetafrú, fyrri eiginkona Ólafs Ragnars, var aldrei valin kona ársins af Nýju lífi. Fannst mér það með ólíkindum að hún skyldi ekki vera valin kona ársins 1996, eftir glæsilegan sigur Ólafs Ragnars í forsetakjörinu, sem margir hafa, þ.á.m. ég, eignað henni með mjög áberandi hætti, eða árið 1997 í kjölfar erfiðrar baráttu við hvítblæði sem síðar leiddi hana til dauða. Guðrún Katrín vann sinn stærsta persónulega sigur í þeirri erfiðu baráttu.

Ég verð að viðurkenna að ég var einn þeirra landsmanna sem syrgði Guðrúnu Katrínu mjög. Hún var okkur öllum harmdauði. Það var sorglegt að henni gafst ekki lengri tími til verka af hálfu þjóðarinnar. Það er og hefur alla tíð verið mín skoðun að Guðrún Katrín hafi verið hinn stóri sigurvegari forsetakosninganna 1996. Hún heillaði þjóðina, hún kom, sá og sigraði. Ólafur Ragnar var með henni, eins og við segjum. Það er mitt mat. Með því kasta ég ekki rýrð á Ólaf Ragnar, hann hefur sjálfur margoft sagt hver hlutur Guðrúnar Katrínar var. Hinsvegar deili ég ekki um það að Ólafur Ragnar á sína kosti, t.d. er hann góður ræðumaður.

Guðrún Katrín Persónulega gleymi ég aldrei því þegar að Guðrún Katrín kom hingað norður á listviðburð skömmu eftir að hún veiktist fyrra sinni af sjúkdómnum sem felldi hana að lokum. Þá bar hún túrban á höfði til að hylja ummerki sjúkdómsins í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar, sem reyndi mjög á hana og fjölskyldu hennar. Síðar um þetta vor hætti hún að ganga með hann og var fyrirmynd annars fólks um að veikindi eru ekki feimnismál og ég veit sem er að hún hafði áhrif á marga sem þurfa að berjast við erfið veikindi af þessu tagi.

Framlag Guðrúnar Katrínar í þessari erfiðu baráttu skiptu því fleira máli en þá sem næst henni stóðu. Ég skal því fúslega viðurkenna að ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir þessari konu. Guðrún Katrín var alþýðuhetja, það var bara þannig. Hún heillaði þjóðina sem slík. Því hef ég aldrei skilið af hverju Nýtt líf valdi hana aldrei sem konu ársins, eflaust bjóst fólk að hún hefði sigur í glímunni við sjúkdóminn. Margir vildu ekki trúa því undir lokin að hún væri að deyja.

Guðrún Katrín var þjóðinni allri mikill harmdauði og sorg landsmanna var mikil á sínum tíma þegar að hún dó og þjóðarsorg er rétta orðið yfir það þegar að komið var með kistu hennar heim frá Seattle og við jarðarförina í október 1998. Dorrit Moussaieff er kona annarrar gerðar og úr öðrum menningarheimum. Ég ber vissulega mikla virðingu fyrir Dorrit, hún er stórglæsilegur fulltrúi þjóðarinnar. Ég skil vel af hverju hún er valin og mér finnst hún eiga þennan titil skilið og óska henni til hamingju með hann.

mbl.is Dorrit Moussaieff valin kona ársins 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband