Er að molna undan Ingibjörgu Sólrúnu?

Ingibjörg Sólrún Það blæs ekki byrlega fyrir Samfylkingunni í aðdraganda þessara kosninga, þó alltaf hafi hún verið í stjórnarandstöðu. Það er varla furða að raddir heyrist nú um að skipta eigi út Ingibjörgu Sólrúnu sem formanni og horfa í aðrar áttir. Þessi orðrómur gengur núna um að fullreynt sé með Ingibjörgu Sólrúnu nái flokkurinn ekki góðri kosningu í þingkosningunum eftir fjóra mánuði. Kannanir nú sýna vondu stöðu víða og hvergi mælist Samfylkingin með yfir 30% í kjördæmunum. Í Norðvestri er hann minnstur fjórflokkanna.

Ingibjörg Sólrún varð formaður fyrir tæpum tveim árum undir merkjum þess að flokkurinn væri ekki búinn að ná hæstu hæðum - hún væri sú hin eina rétta til að snúa við stöðu mála. Eftir að Össuri var hnikað til fyrir svilkonu sína hefur hinsvegar saga flokksins orðið hrakfallabálkasaga hin mesta og ekkert gengið upp. Ingibjörg Sólrún hefur fengið á sig táknmynd hins sigraða, þvert á það sem var á níu ára borgarstjóraferli hennar í Reykjavík. Hún virðist ekki fúnkera vel við þær aðstæður með blæ lúsersins á brá.

Það er merkilegt að sjá suma holla krata innan Samfylkingarinnar vera með skoðanakannanir á bloggsíðum sínum um það hver eigi að vera næsti formaður flokksins og það fjórum mánuðum fyrir alþingiskosningar. Það sýnir bara óánægju með stöðu mála og leiðtogann - ekki er hægt að undrast þá stöðu eins og kannanir eru að þróast fyrir Samfylkinguna þessar vikurnar. Mörg nöfn virðast vera nefnd og hjá Hrafni bloggvini mínum leiðir þessa stundina kosninguna sjálfur Lúðvík Geirsson, héraðshöfðingi í Alcanbæ... nei ég meina Hafnarfirði. Það verður fróðlegt hvernig að ný umhverfisstefna Samfylkingarinnar fúnkerar þar.

Hinn sjálfskipaði femínisti Steingrímur J. Sigfússon virðist ekki hugsa mikið um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þessa dagana, frekar en Margréti Frímannsdóttur forðum daga innan karlaveldisins í Alþýðubandalaginu. Á gamlársdag var lítill sýnilegur áhugi hjá honum á því að prómótera Ingibjörgu Sólrúnu sem andlit kaffibandalagsins í Kryddsíld. Það er kalt kaffið á stjórnarandstöðubænum og enginn vill heimsækja húsfreyjuna á veglegasta sveitabænum. Það vill enginn neitt með hana hafa. Kannski varla furða, eins og staðan er innan Samfylkingarinnar sjálfrar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir hvert orð Björgvins Þórs. Það er ekki fyrir hverja sem er að standast atlögu karlaklúbbsins, sbr. "Kryddsíld" á gamlaársdag, þar sem tveir sjálfsuppteknir fréttamenn, fabúleruðu eigin hugrenningar, í stað þess að sinni sinni skyldu um jafnvægi í útsendingu. Aumkunnarvert að horfa á. Össur og Steingrímur þurfa báðir að taka til hjá sér, ef þeir vilja láta drauminn rætast. Sérstaklega Össur.

Áfram, Ingibjörg Sólrún.

Erla Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 07:36

2 identicon

Dapurt gengi sf í skoðanakönnunum frá því Ingibjörg tók við er ekki Össuri að kenna, undir hans forystu var flokkurinn í góðum málum, mistökin eru hjá flokksmönnum sjálfum sem töldu að með því að skipta um kallinn í brúnni og setja konu þar í staðinn voru einfaldlega mistök sem þeir hljóta að leiðrétta eftir kosningarnar í vor.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 10:32

3 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Auðvitað er það alveg eins Össuri að kenna eins og hverjum öðrum hvert gengi Samfylkingarinnar er! Það getur enginn þingmaður verið stikkfrí frá því að afla flokknum fylgis og ég vil minna á það að Samfylkingin fór neðar en þetta í fylgi undir stjórn Össurar, þannig að flokkurinn var ekki alltaf í "góðum málum" undir hans forystu. Ef þingflokkurinn stendur ekki á bak við formann flokksins geta menn ekki búist við árangri í kosningum.

Varðandi norðvesturkjördæmi, þá held ég að staðan þar sé einfaldlega vegna niðurstöðu prófkjörs. Þar var smalað utanflokksmönnum og árangurinn var sá að hæfum konum var hafnað, en "karlalistinn" sem kom út úr prófkjörinu virðist ekki falla kjósendum nógu vel í geð. Þetta er ekki hægt að skrifa á reikning formannsins, enda var þessi niðurstaða ekki í samræmi við óskir flokksforystunnar.

Svala Jónsdóttir, 9.1.2007 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband