Beinast mótmælin nú loksins að réttum aðilum?

Ég er ekki hissa á því að fólk mótmæli í bönkunum. Er eiginlega mest hissa á að það hafi ekki gerst fyrr en rúmum tveimur til þremur mánuðum eftir bankahrunið. Mikilvægt er að mótmæla því að þar sitji stjórnendur frá liðnum tímum. Auðvitað er eðlilegt að krefjast þess að bæði Birna Einarsdóttir og Elín Sigfúsdóttir víkji af bankastjórastóli. Þeim er ekki sætt.

Ég held að atburðir síðustu daga hafi opnað augu margra fyrir því bankakerfið er rotið og fjölmiðlarnir líka, sem hafa bara þjónað duttlungum auðmanna úti í bæ, eigenda sinna og vina þeirra.

Þessu er mikilvægt að mótmæla og bankarnir eru góður staður til að tjá skoðanir sínar, meðan spillingin og blekkingin heldur áfram að grassera.

Algjör snilld að spila bolta í Landsbankanum - táknrænt og traust. Þetta er traustara form á mótmælum en margt annað sem gert hefur verið.

mbl.is Spiluðu knattspyrnu í bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppniseftirlitið rannsakar Teymi

Samkeppniseftirlitið sýnir mjög vel að það er vakandi stofnun með rannsókn sinni á Teymi og dótturfélögunum. Allir hljóta að taka undir mikilvægi þess að fara yfir vafaatriðin í málum tengdum þeim. Þetta á að vera hlutverk Samkeppnisstofnunar og mikilvægt að þar sé farið strax til verka og reynt að fá hið sanna fram, hvað svo sem í því felst.

Oft hefur verið deilt á Samkeppniseftirlitið fyrir að vera sofandi stofnun sem bíður endalaust á meðan sögusagnir grassera. Þessi rannsókn ætti að slá á þær kjaftasögur.


mbl.is Húsleit hjá Teymi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðvítug átök um formennskuna í Framsókn

Greinilegt er að harðvítug átök eru í uppsiglingu um formannsembættið í Framsóknarflokknum. Þar eru ungir og hraustir menn greinilega að beita öllum brögðum til að tryggja sér formennskuna og smalað er til hægri og vinstri í orðsins fyllstu merkingu. Greinilegt er að gömlu fylkingarnar eru mjög að riðlast til og má því eiga von á að allt geti gerst og myndist nýjar fylkingar utan um formannsefnin.

Ég er ekki í vafa um það að framtíð Framsóknarflokksins er undir í þessum formannsslag. Þar er spurt um hvort hann nái að endurnýja sig og eiga nýtt upphaf á gömlum grunni. Ég held að í þessu muni væntanlega koma sér sem best að vera með engar tengingar við forystu flokksins á undanförnum árum og ljóst að þingmennska mun ekki vera ráðandi hluti útkomunnar. Þarna verður horft til framtíðar og kynslóðaskipti eru í loftinu. Sóknarfæri flokksins munu ráðast af útkomu flokksþings.

Auðvitað er smalað í öllum kosningum. Slíkt gerist í ómerkilegri kosningum en formannskjöri í stjórnmálaflokki. Í flokki á borð við Framsókn þar sem uppstokkunin er mikil má búast við að fólk hópist í flokkinn til að hafa áhrif. Einn hluti þess er að sonarsonur og sonur fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins er kominn heim í heiðardalinn eftir skamma vist í öðrum flokki og í Ráðhúsinu.

Þarna er smalað grimmt og allt lagt undir. Kappið í kosningunum ber þess merki að allt getur gerst. Þannig á það auðvitað að vera þar sem barist er um alvöru hnoss og að byggja upp nýjan flokk á gömlum grunni, rústum ef út í mannamál er farið.

mbl.is Hiti á fundi framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðungarflutningar á öldruðum Akureyringum

Mjög dapurlegt var að horfa á fréttaflutning í kvöld af nauðungarflutningum á öldruðum Akureyringum af hjúkrunarheimilinu Seli. Þetta er ómannúðleg og mjög lágkúruleg framkoma við gamalt fólk, sem nú er gert með valdboði að fara í herbergi með öðrum á Kristnesi og sætta sig við annars flokks þjónustu. Alltaf skal það vera þannig að ráðist sé á garðinn þar sem hann er lægstur, níðst á gömlu fólki og þeim sem minna mega sín. Þetta eru ekki góð skilaboð og er að mörgu leyti skipbrot velferðarkerfisins.

Vel má vera að starfið á Seli og á öðrum stofnunum séu tölur á blaði í huga einhverra, tölur sem geti komið vel saman í niðurskurði og þá sé allt svo gott við að eiga. Á bakvið þessar tölur eru hinsvegar fólk, aldrað fólk sem á það skilið að það njóti þess að eiga áhyggjulaust ævikvöld. Þetta er ómerkileg framkoma og þeim til skammar sem að því standa, öllum með tölu. Ekki þýðir fyrir þá sem taka slíkar ákvarðanir að fara í kosningar og slá sér upp með slagorðum um velferðarkerfi og mannleg gildi.

Slíkt er algjörlega innistæðulaust þegar við horfum upp á svona lágkúru. Orð dagsins á hin 88 ára gamla kjarnakona á Seli, sem nú þarf að sætta sig við að fara úr eigin herbergi og búa með öðrum. Ef þetta er ekki skipbrot velferðarkerfisins þá veit ég ekki hvað það á að kallast annað.

Risavaxið klúður demókrata með þingsæti Obama

Roland Burris
Dæmalaust klúður er þetta hjá demókrötum með þingsæti Baracks Obama í Illinois - heimatilbúinn vandi þeirra í ofanálag. Þeir geta aðeins sjálfum sér um kennt og geta ekki höndlað vandann. Roland Burris mætir til Washington til að taka við þingsætinu, enda valinn af réttkjörnum ríkisstjóra, þó umdeildur sé, og hefur fullt umboð. Og þingdemókratar hafna honum, þeldökkum manni sem hefur fullan rétt til að fara til Washington og taka við þingsæti sínu, eina blökkumanninum sem hefur umboð til að sitja í öldungadeildinni, þeim fjórða eða fimmta í þingsögunni. Þetta lítur ekki beinlínis vel út fyrir demókrata, hvorki í Washington né í Illinois.

Mér skilst að einn hluti samningaviðræðna þingdemókrata í öldungadeildinni við Burris sé að hann lofi því að sækjast ekki eftir þingsætinu í kosningunum 2010, þegar sex ára kjörtímabili Obama lýkur formlega, og fái þá leyfi þeirra til að taka þar sæti. Hverslags vinnubrögð eru það að taka við manninum með þeim skilmálum að hann hætti í pólitík, bara eftir þeirra duttlungum. Ekki má gleyma því að hinn umdeildi ríkisstjóri, sem hafði fullt umboð til að velja öldungadeildarþingmann, er í umboði demókrata í Illinois og var endurkjörinn þrátt fyrir allt orðsporið. Barack Obama talaði til stuðnings honum þá.

Eftir hálfan mánuð hverfa George W. Bush og Dick Cheney úr pólitískri tilveru demókrata. Þá fá þeir full völd yfir Hvíta húsinu auk þess að ráða þinginu. Þingið hefur sjaldan eða aldrei verið óvinsælla en undir forystu þingdemókrata. Þá dugar ekki lengur að fela þær óvinsældir með veikri stöðu Bush forseta. Hvernig mun þeim reiða af eftir 20. janúar fyrst þeir geta ekki einu sinni höndlað eitt þingsæti sitt í öldungadeildinni og leyst vandann í kringum það?

mbl.is Fékk ekki þingsætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugað að almannatengslamálum í FME of seint?

Ég held að það hefði átt að huga að almannatengslamálum í Fjármálaeftirlitinu fyrir löngu síðan. Þessi stofnun sem á að halda utan um mjög mikilvægt svið brást gjörsamlega fyrir og eftir bankahrunið og hefur lítinn sem engan trúverðugleika í verkum sínum. Sigurður G. Valgeirsson fær allavega nóg að gera eigi hann að snúa því við á nokkrum mánuðum eða vikum. Sennilega er það heldur mjög fjarri því að vera virðingarvert og spennandi verkefni.

Held að 80% landsmanna beri lítið eða ekkert traust til FME samkvæmt könnunum. Vonandi tekst þessari mikilvægu stofnun að snúa vörn í sókn og vera eitthvað annað en bilað batterí í stjórnkerfinu.

mbl.is Ráðinn tímabundið til FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar ríkisstjórnin ekki að birta lögfræðiálitið?

Mér finnst alveg lágmark að ríkisstjórnin birti lögfræðiálit þar sem segir að dómsmál gegn breskum yfirvöldum sé vonlaust. Allt upp á borðið, takk! Þetta álit stingur í stúf við álit annarra lagasérfræðinga í Bretlandi þar sem við erum þvert á móti talin vera með gott mál í höndunum. Aðför Bretanna gegn okkur er einfaldlega þannig að við eigum að taka það mál lengra og auðvitað á íslenska ríkisstjórnin að fara með málið fyrir dómstóla.

Nema þá að verið sé að breiða yfir eitthvað sem ekki má koma fram. Slíkar grunsemdir eru alveg ólíðandi, en þær eru til staðar meðan deilt er um hvað sé satt og rétt. Líka hvort eitthvað sé enn til í því að ríkisstjórnin vilji slá verndarhjúp utan um eitthvað í málinu.
 
Í þessum efnum er efinn vissulega til staðar. Ekkert dómsmál er unnið fyrirfram. Þar þarf að vinna einbeitt og traust að verkum, bæði til að hið rétta komi fram og réttlætið hafi sinn framgang. Auðvitað er það sérstaklega mikilvægt í þessu máli.

mbl.is Vonlaust dómsmál gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurskurður hjá fjölmiðlum - breyttar forsendur

Varla teljast það stórtíðindi eins og komið er málum á fjölmiðlamarkaði að dagblöðin fækki útgáfudögum sínum. Í þessu árferði eiga fríblöð sérstaklega undir högg að sækja og varla raunhæf undirstaða til staðar fyrir sjö daga útgáfu, eins og var þegar allt lék í lyndi. Allar rekstrarforsendur hafa breyst núna og í raun má segja að það sé mikill munaður að til séu ókeypis fjölmiðlar ennþá eins og staðan er orðin í efnahagsmálunum.

Eflaust voru það sæludagar þegar til voru tvö fríblöð og hægt að fá dagblöð alla daga ársins. Ekki eru mörg ár síðan aðeins Morgunblaðið kom út á sunnudegi, þó borið út síðdegis á laugardegi, og ekkert blað formlega gefið út á sunnudegi. Held að sunnudagsútgáfa Fréttablaðsins sé innan við fimm ára gömul. Þetta var mikill munaður að fá að lesa blöð alla daga vikunnar en forsendur fyrir því eru klárlega brostnar.

Þetta ár verður erfitt fyrir fjölmiðla. Við eigum örugglega enn eftir að sjá mikla niðursveiflu og niðurskurð á öllum sviðum.

mbl.is Útgáfudögum Fréttablaðsins fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barack Obama neitar að tala um ástandið á Gaza



Á meðan fólk um allan heim tjáir andstöðu við árás Ísraela á Gaza-svæðið þegir Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, þunnu hljóði um málið. Í valdatómarúminu í Washington hefur Obama þegar tekið sér sess á sviðinu og er langt síðan að kjörinn forseti hefur orðið svo áhrifamikill fyrir embættistöku sína. Í ljósi þess er þögn Obama um stöðuna á Gaza-svæðinu vægast sagt mjög athyglisverð og ætti að vekja marga stuðningsmenn Obama víða um heim til umhugsunar um hvort hann muni verða jafn hallur undir sjónarmið Ísraels og forveri hans, George W. Bush.

Allt frá því að Obama flutti ræðu hjá AIPAC í júní hefur tryggð hans við Ísrael verið augljós og var eiginlega endanlega römmuð inn með valinu á Rahm Emanuel (sem gárungarnir nefna Rahm-bo) sem starfsmannastjóra Hvíta hússins og ennfremur af orðum Obama á fyrsta blaðamannafundi hans sem viðtakandi forseti um Íran. Lítill munur er á orðum Bush og Obama um Íran og Ísrael allavega.

Ríkisstjórn Obama verður á vaktinni vegna Írans og mun ekki hika við að beita valdi muni Íransstjórn halda áfram kjarnorkuframleiðslu sinni. Obama sagði fyrir nokkrum vikum að hann myndi ekki hika við að beita kjarnorkuvopnum gegn Íran færu þeir gegn Ísrael.

Í kosningabaráttunni varð vart við þann misskilning vinstrimanna um allan heim að Obama myndi ekki taka upp sömu stefnu og Bush í málefnum Írans og Ísraels. Orð hans og gjörðir að undanförnu og þögnin nú sýnir vel að það reyndist markleysa.

mbl.is Obama er þögull
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni sýnir gott fordæmi - vandræðaleg vörn

Mér finnst Bjarni Ármannsson sýna gott fordæmi með því að rjúfa þögnina og endurgreiða hluta af frægum starfslokasamningi sínum við Glitni. Með því viðurkennir Bjarni ábyrgð sína, fyrstur hinna margfrægu útrásarvíkinga, og þátttöku í sukkinu sem hefur sett landið á hausinn. Þetta kalla ég að taka ábyrgð á fallinu og allavega sýna lit, eitthvað annað en blaður út í bláinn. Framkoma hans er óverjandi og mun fylgja honum eftir, þó þessi ákvörðun ein og sér hafi fært honum einhvern frið frá mestu umræðunni.

Útrásarvíkingarnir hafa verið á flótta eftir bankahrunið. Sumir hafa farið í upphafin viðtöl í sjónvarpi og reynt að snúa okkur enn einn hring í blekkingarhringekju sinni með misgóðum árangri, þeir hafi ekki vitað að þetta hafi verið svona skelfilega slæm staða og hafi reynt sitt besta. Aðrir hafa ritað blaðagreinar til að telja öllum trú um að þeir hafi nú ekki verið svo slæmir og hafi bara verið að sinna sínum störfum. Eftir stendur þó sú staðreynd að þessir menn komu þjóðinni á hausinn. Niðurlæging hennar er algjör.

Aðalmálið nú er þó ekki orðagjálfur eða pínlegar afsakanir heldur það að auðmennirnir sem fengu digra starfslokasamninga og settu þjóðina á kaldan klakann í orðsins fyllstu merkingu borgi til baka og leggi lið. Það er siðferðisleg skylda þessara manna. Bjarni hefur átt góðan leik en fjarri því er að hann sé laus úr þessu máli. Vörn hans var vandræðaleg þrátt fyrir þetta útspil í Kastljósi kvöldsins. Ekki þurfti annað en sjá augnaráð hans og flóttalega framkomu. Þetta var ekki stoltur maður sem þarna talaði.

Eftir alla samningana og sukkið er komið nóg og tími til kominn að þessir menn svari fyrir ævintýralega framgöngu sína, sem hefur skaðað þjóðina í heild sinni.

mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritskoðun eða heiðarleg stjórn á bloggkerfinu

Ég missti af mestu ólgunni í samskiptum moggabloggara og yfirstjórnar blog.is vegna bloggskrifanna um Óla Klemm um helgina þar sem ég var lítið við tölvu og las ekki fréttina fyrr en lokað hafði verið á bloggmöguleikann. Við sem erum á moggablogginu verðum að sætta okkur við að það er yfirstjórn á þessu bloggi. Hún markar svæðinu reglur og heldur utan um kerfið. Við fáum að skrifa hér ókeypis og höfum flest valið okkur það sjálf að tengjast kerfinu og nota okkur möguleikana þar.

Nú um áramótin breyttist bloggkerfið þannig að þeir sem eru nafnlausir fá enga tengingu inn á kerfið umfram það að bloggsíðan er virk. Mér finnst það alveg sjálfsagðir skilmálar enda mikilvægt að orðum fylgir ábyrgð. Yfirstjórnin hér hefur markað þessa reglu og eftir því er fylgt. Mér finnst líka eðlilegt að þeir sem tjá sig hafi nafnið sitt. Slíkt blogg verður alltaf miklu traustari vettvangur en ella. Nafnleyndin býður oftar en ekki upp á skítkast og leiðindi. Mörkin eru ekki afgerandi.

Hvað varðar möguleikann að blogga um það sem er að gerast, fréttir og fleira hér, er eðlilegt að þeir sem eru yfir svæðinu meti það á hverjum tíma. Sumar fréttir eru einfaldlega þannig að engu er við þær að bæta, skoðanir annarra eiga ekki rétt á sér í þeim efnum. Ég held að þetta sé fjarri því í fyrsta sinn að lokað er á möguleikann eftir að fréttin er skrifuð.

Moggabloggið hefur verið vinsælasta bloggkerfi landsins. Sumir elska að hata það en taka samt fullan þátt í að skoða það og fylgjast með. Þetta er sennilega ástarhaturssamband fyrir einhverja. Við sem höfum valið þann möguleika að vera í þessu bloggsamfélagi höfum flest notið þess og átt ágætis samskipti, bæði milli okkar og yfirstjórnarinnar.

Stundum kemur að því að taka þarf á málum. Heiðarleg stjórn er oft mikilvæg, enda er þörf á skýrum mörkum í svo stóru samfélagi.

mbl.is Fréttablogg og nafnleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúðrar ríkisstjórnin kærunni gegn Bretum?

ISG og GHH
Eftir að hafa horft á íslensk stjórnvöld mánuðum saman leika sér að því að klúðra kærunni gegn breskum stjórnvöldum vegna Icesave-málsins er manni farið að gruna allískyggilega að þau séu að fela eitthvað. Er einhver slóð sem ekki má rekja í þessu máli sem á að reyna að fela með dugleysinu? Ef svo er þarf að fara yfir það og gera málið upp.

Máttleysi ríkisstjórnarinnar við að fara í mál við Bretana er orðið pínlega áberandi og er Geir og Ingibjörgu báðum til háborinnar skammar. Ef ekki verður tekið á þessum málum nú strax eftir jólahátíðina er ljóst að eitthvað er verið að fela. Þá þurfa foringjar ríkisstjórnarinnar að svara fyrir það að hafa klúðrað því, viljandi eða óviljandi.

mbl.is Fresturinn að renna út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Richardson afþakkar - niðurlæging fyrir Obama

Bill Richardson og Barack Obama
Brotthvarf Bill Richardson, ríkisstjóra í Nýju-Mexíkó, frá útnefningarferli í embætti viðskiptaráðherra er mikið pólitískt áfall fyrir Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna - það fyrsta sem hann verður í raun fyrir eftir að hann náði útnefningu demókrata og vann forsetakosningarnar í nóvember. Mál Rod Blagojevich er af allt öðrum toga og tengist forsetanum verðandi með allt öðrum hætti. Aðeins er mánuður liðinn frá því að Obama kynnti Richardson til leiks sem ráðherra í stjórn sinni og augljóst var að honum var ætlað stærra hlutverk og annað ráðuneyti síðar meir.

Eiginlega er það ótrúlegt að þetta mál hafi ekki komið upp áður og í raun orðið til að slá Richardson út af borðinu sem ráðherraefni, allavega í upphafi forsetatíðar Obama. Greinilegt er að einhver mistök hafa orðið, annað hvort hefur Richardson ekki komið heiðarlega fram með mál sem gætu skaðað hann eða þá að ekki hefur verið kannað betur hvað gæti leynst undir niðri. Þetta hefði þó orðinn enn meira högg fyrir Obama ef upp hefði komist í útnefningarferlinu fyrir þingnefndum og öldungadeildinni.

Bill Richardson reyndi allt sem hann gat til verða utanríkisráðherra í ríkisstjórn Obama og háði mikla baráttu bakvið tjöldin við fyrrum samherja sinn Hillary Rodham Clinton. Richardson sneri baki við Clinton-hjónunum, eins og frægt er orðið, með stuðningsyfirlýsingu við Obama á föstudeginum langa í fyrra. Clinton-hjónin litu á ákvörðun Richardsons sem vinslit, enda var hann ráðherra í Clinton-stjórninni, og enn er ekki gróið um heilt þar á milli.

Richardson taldi ákvörðunina myndu tryggja honum lykilembætti en svo fór ekki. Hillary náði hnossinu. Nú þarf hann að afþakka þó það sem hann fékk. Þetta er mikil pólitísk niðurlæging, ekki aðeins fyrir hann heldur forsetann verðandi. Þarna fór eitthvað meira en lítið úrskeiðis í vinnuferlinu, en þó hefði orðið enn verra hefði Richardson bakkað frá þessu í þingferlinu.

Þar með kvarnast úr hinni sögufrægu tilraun til að velja með sér hóp keppinauta um forsetaembættið til verka. Þar horfði Obama til Lincolns og hafði valið þrjá andstæðinga sína í forkosningaferlinu; Biden sem varaforseta, Hillary sem utanríkisráðherra og Richardson sem viðskiptaráðherra.


mbl.is Afþakkar embætti viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tala Ingibjörg og Þorgerður fyrir sömu ríkisstjórn?

isg tkg
Mér fannst það pínlegt fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að Þorgerður Katrín og Ingibjörg Sólrún sendu út á sama klukkutíma gjörólíkar yfirlýsingar um ástandið á Gaza-svæðinu - svo ólíkar að þær geta varla báðar verið skoðun ríkisstjórnar Íslands. Tala Þorgerður Katrín og Ingibjörg Sólrún virkilega fyrir sömu ríkisstjórn þegar sú önnur segir að ekki sé unnt að fordæma ástandið og hin segist fordæma það.

Hvernig er það annars; er síðasta límið í þessu stjórnarsamstarfi að bresta? Þorgerður Katrín var jú guðmóðir þessarar ríkisstjórnar eins og frægt er orðið.


mbl.is Fordæmir innrás á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarsamstarf án heilinda

Geir og Ingibjörg
Æ betur kemur í ljós að engin heilindi eru lengur eftir í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að undanförnu bera glögglega vitni um það, einkum talið um þingkosningar í vor sem virðast hafa komið Geir Haarde og Þorgerði Katrínu mjög á óvart. Miðað við viðbrögð Þorgerðar mætti reyndar helst ætla að það sé eitthvað sem er á skjön á við það sem leiðtogar flokkanna hafa komið sér saman um. Lítil heilindi eru eftir í samstarfi þegar svona gjörólíkur tónn er á milli aðila.

Þegar að Ingibjörg Sólrún sagði að örlög samstarfsins réðust af útkomu landsfundar Sjálfstæðisflokksins túlkaði ég það sem hótun. Erfitt annað. Með þeim orðum var hún að stilla samstarfsflokki upp við vegg og hóta þeim sem sitja landsfundinn stjórnarslitum ef þeir gerðu ekki það sem henni þóknaðist. Þetta var hótanastíll sem ekki hefur heyrst lengi, enda er kjölfesta í samstarfi heilindi og sveigjanleiki. Þar sem ekki eru sömu skoðanir er reynt að ná málamiðlun, ella slíta því samstarfi.

Ég hef á síðustu vikum orðið sífellt hrifnari af þeirri hugmynd að kosið verði á þessu ári, þar sem þetta stjórnarsamstarf er að mörgu leyti komið á endastöð. Líka er mikilvægt að þeir sem eru á vaktinni leitist eftir endurnýjuðu umboði - kjósendur felli sinn dóm yfir þeim sem hafa ráðið för. Þar verði farið yfir allar hliðar mála og gert upp við liðna tíð, síðustu mánuði, sem eru þó eins og heil eilífð í örlagakapal þjóðarinnar.

Verst af öllu er að vera með ríkisstjórn sem er sammála um það eitt að halda völdum en getur ekki verið samstíga í verkum og orði. Þá er ekkert annað að gera en halda í kosningar og stokka spilin upp.

mbl.is ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barn misnotað í áróðursskyni á Austurvelli

Mér fannst það í senn átakanlegt og eiginlega mun frekar sorglegt að sjá átta ára gamalt barn, saklausa sál, hreinlega misnotað á Austurvelli í áróðurstilgangi fyrir Hörð Torfason og samtök hans í dag. Þetta fólk sem kemur svona fram ætti að skammast sín og biðjast afsökunar fyrir þessa framsetningu. Þetta er einum of mikið, svo vægt sé til orða tekið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að börn hafi skoðanir og byrji ung að taka þátt í pólitísku starfi eða tjá skoðanir sínar en þetta er óafsakanlegur verknaður.

Mér finnst eitthvað mjög rangt við þá framsetningu að stilla átta ára gömlu barni upp á svið fyrir framan hóp fólks til að öskra slagorð ofan í þá sem þar eru komnir og öskrin og fagnaðarlætin sem koma frá því. Þetta er misnotkun af versta tagi. Ætlar einhver að segja manni að þetta átta ára barn hafi algjörlega talað frá eigin hjarta um þessi hitamál samtímans. Hvernig á átta ára barn að meðtaka allt sem er að gerast og tala til fjöldahreyfingar um þjóðmál svo trúverðugt sé?

Þarna var farið yfir strikið.

mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að velja íslenskt með Cintamani?

Umræðan um Cintamani vekur spurningar um hversu íslenskt merkið er í raun og veru og hvernig feldir séu notaðir í framleiðsluferlinu. Tengingin við Kína er nú hvorki jákvæð né góð fyrir fyrirtækið. Fyrsta hugsun allra sem velta fyrir sér Kína í þessu samhengi er hvort allt standist lög í framleiðslunni. Meðferð á dýrum þar er ekki beint til sóma í flestum tilfellum og barnaþrælkun er mjög algengt vandamál.

Eftir að ég sá þátt í Sjónvarpinu fyrir nokkrum árum um barnaþrælkun í Kína er fjarri lagi að nokkur geti fullyrt að allt sé slétt og fellt varðandi framleiðsluferli í Kína. Fátt stenst þar þá staðla sem við viljum státa af á vesturlöndum. Ég man að þegar forseti Íslands var í Kína fyrir nokkrum árum heimsótti hann verksmiðju þar sem mörg börn unnu og varla þarf að taka fram að þar var ekki allt beinlínis til sóma.

Cintamini græðir ekki mikið á tengingunni við Kína semsagt, hversu svo sem reynt er að telja öllum trú um hversu traust framleiðslan er.

mbl.is Harma umfjöllun um Cintamani
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Arason víkur til að styrkja Þorgerði

Ég skil það sem svo að Kristján Arason hafi hætt hjá Kaupþingi til að styrkja eiginkonu sína, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, í sessi pólitískt. Hann fórnar sínum hagsmunum fyrir hana. Enginn vafi leikur á því að umræða um persónuleg mál Kristjáns hefur veikt Þorgerði Katrínu í sessi og leitt til vangaveltna um stöðu þeirra, bæði persónulega og peningalega. Á þann hnút heggur Kristján til að eiginkonan haldi sinni stöðu á hinu pólitíska sviði.

Mál Kristjáns og Þorgerðar er gott dæmi um það þegar maki stjórnmálamanns veikir hann í sessi með sínum prívatmálum. Hans mál er jú hennar mál, eins ósanngjarnt eða sanngjarnt það getur svo annars verið. Þorgerður Katrín hefur samt náð að halda áfram þrátt fyrir þetta mál og styrkt sig, en þessi ákvörðun er lokapunktur í því ferli að henni takist að komast frá því eðlilega og fumlaust.

Auðvitað munu þau ekki viðurkenna að þetta sé gert til að styrkja Þorgerði Katrínu, en það blasir við öllum samt sem áður að það er stóra málið. Þorgerður Katrín vill jú helga stjórnmálum sína krafta og ekki eiga á hættu að þar vofi svona ógn yfir sem tengslin við Kaupþing hafa verið.


mbl.is Kristján hættir hjá Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært skaup - var það nógu beitt fyrir 2008?

Ég er mjög ánægður með áramótaskaupið að þessu sinni. Finnst þetta besta skaupið frá því Spaugstofan sá um skaupið 2004. Auðvitað hefði það alveg mátt vera beittara og öflugra en mörg atriðin voru alveg stórfengleg. Þetta var mjög stórt ár, fullt af stóratburðum sem tókst vel að gera skil. Stærstu mál ársins; bankahrunið og borgarmálin fengu fínan sess.

Stóra stjarnan í skaupinu var að ég tel Ilmur Kristjánsdóttir og svo áttu þeir Gói og Jói ansi fína innkomu. Kjartan Guðjónsson átti svo geðveikislegan leik í hlutverki 200 daga borgarstjórans. Þvílíkt augnaráð. Kjartan reyndi að leika Davíð Oddsson en það var frekar flatt. Ég held að það sé löngu sannað að enginn nema Örn Árnason getur náð honum.

Leikþátturinn með ávarpi forsætisráðherrans og eftiráskýringum Þorgerðar Katrínar var meistaralega flottur. Í heildina var ég mjög sáttur. Lokalagið var skemmtilega ABBA-skotið en líka svo flott yfirferð yfir árið í nokkrum línum.

Ég hef oft á síðustu árum verið ósáttur við skaupið og jafnvel viljað leggja það niður. En þegar koma virkilega góð skaup er tilvist þeirra réttlætanleg og vel það. Vonandi fáum við annað af svipuðum kalíber að ári.

Er fálkaorðan embættismannaviðurkenning?

Fálkaorðan Hef aldrei verið mjög hrifinn af fálkaorðunni. Fundist þetta pjatt og hégómi sem ekki er þörf á. Litið jafnan á þetta sem embættismannaviðurkenningu. Annars hefur þó orðunefndin oft komið á óvart og bætt inn hvunndagshetjunum sem eiga virkilega hrós skilið fyrir verk sín. Gott dæmi var þegar að formaður MND-félagsins hlaut orðuna. Fleiri dæmi mætti eflaust nefna, þó að þau séu mun fleiri þar sem maður hefur á tilfinningunni að ævistarf á ríkiskontór sé metið meira en annað.

Var frekar uppreisnarsamur í þessum orðumálum í forsetakosningunum 1996 og vildi leggja allt dæmið niður. En ég var eiginlega djarfari í hugleiðingum um forsetaembættið en ég er sennilega núna og var ekkert alltof hrifinn af þessu orðubákni og öllu í kringum það. Skrifaði þá nokkrar greinar og spurði frambjóðendur út í það þá á fundum. Það var skemmtileg umræða og vissulega nokkuð eftirminnileg. Það var svona sú umræða sem kveikti helst í mér þá.

Það hefur ekki mikið breyst síðan. Þetta er allt í sama fari og eflaust munum við rífast um það hvort að þessi eða hinn verðskuldi orðuna og hverjir þeirra fá þær bara fyrir að mæta í vinnuna á ríkiskontórnum. Þetta er týpísk umræða æ ofan í æ. Ekkert gerist og enginn sem hefur völd vill taka til hendinni og breyta - kannski í von um að fá orðuna sjálfur. Hver veit!

mbl.is Ellefu sæmdir heiðursmerkjum fálkaorðunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband