4.1.2007 | 19:40
Geta auðkýfingar keypt sig inn á skipulag?

Athygli vekur að sú sem kvartar mest í þessu máli er Linda Bentsdóttir. Man ekki betur en að hún hafi verið ofarlega á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi í síðustu kosningum og t.d. sóst eftir leiðtogasæti flokksins í prófkjöri fyrir ári. Ég skil gremju Lindu í þessu máli. Það er alltaf svo að endalóð er verðmætari og á þessu svæði munar nokkru þar um. Varla er við því að búast að hún gúdderi svona niðurstöðu þó hún gegni trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í bænum.
Vissulega er ekki búið að afgreiða endanlega þessa stöðu mála, en þessi orðrómur er vondur og ég geti ekki ímyndað mér að þetta sé eðlilegur framgangsmáti sé rétt að viðkomandi maður sem ekki fékk lóð geti þá í kjölfarið sagt: "Ég vil fá þessa lóð í staðinn". En ég get ekki ímyndað mér annað en að verði ákveðin skipulagsbreyting og þessari aukalóð bætt við en að hún verði þá sett undir með sama hætti og aðrar lóðir en ekki útdeilt með öðrum hætti. Ég sé því ekkert óeðlilegt hafa gerst þarna.
Ef marka má umræðuna hefur viðkomandi maður sótt tvisvar um lóð en ekki fengið enn. Í ljósi þess verður seint sagt að hann hafi notið einhvers forgangs. En þetta er ekki góð umræða fyrir meirihlutann í Kópavogi og forsvarsmenn sveitarfélagsins hljóta að binda enda fljótt og vel á þessa óvissu um vinnuferli og þessa umræðu með afgerandi hætti að mínu mati.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.1.2007 | 16:57
Demókratar taka við völdum í þingdeildum

10 nýjir öldungadeildarþingmenn og yfir 50 fulltrúadeildarþingmenn sverja nú embættiseið sinn í fyrsta skipti. Samhliða breytingunum fá demókratar formennsku í öllum þingnefndum og leiða allt þingstarfið með því. Það er eitt mesta pólitíska áfall George W. Bush á stormasömum pólitískum ferli hans að repúblikanar skuli hafa misst áhrifin í þinginu, en við það þarf hann að una það sem eftir lifir kjörtímabilinu, en því lýkur 20. janúar 2009. Það stefnir í erfiða valdasambúð flokkanna, og mikil átök á bakvið tjöldin.
Á blaðamannafundi í gær kom vel fram það mat forsetans að sambúðin yrði erfið, enda stefna demókratar á að breyta vinnureglum þingsins strax á fyrstu dögunum eftir valdaskiptin. Stefna þeir að því á fyrstu 100 tímum valdaferilsins í þingdeildunum að setja siðareglur í þinginu, hækka lágmarkslaun, stokka upp reglur um námslán og lækka verð lyfseðilsskyldra lyfja. Stefnir í hörð átök fylkinganna í þinginu á næstu dögum. Í könnunum hafa demókratar afgerandi stuðning þjóðarinnar við breytingarnar og virðast vera að tala máli sem þjóðin styður. Það er enn eitt pólitíska áfallið fyrir Bush forseta.
Bush var harðorður á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær og virtist vera að senda óbein skilaboð til demókrata um að þeir geti sett samstöðutal flokkanna í uppnám og hann geti beitt neitunarvaldi í meira mæli en áður. Það stefnir í harða valdasambúð, jafnvel að ekkert verði úr samstöðutali sem var allsráðandi eftir kosningarnar fyrir tveim mánuðum. Það er alveg ljóst að flestir stjórnmálaáhugamenn munu fylgjast með því hvernig þessum öflum gengur að deila völdum næstu tvö árin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 11:15
Kostuleg kaldhæðni í Hádegismóum

Í greininni segir Sigurður G. að Sigurjón M. Egilsson verðskuldi titilinn blaðamaður ársins. Orðrétt segir: "Afrek SME á árinu 2006 verða ekki öll tíunduð hér, heldur látið við það sitja að nefna, að SME réð sig í þrígang sem ritstjóra dagblaða á síðasta ári, nú síðast til nýrrar DV-útgáfu. Hvernig SME umgekkst sannleikann og gerða samninga á árinu 2006 lýsir betur en mörg orð andlegu atgervi, heiðarleika og endalausri leit þessa eftirsótta og dáða blaðamanns að sannleikanum. SME er stéttarsómi og verðskuldar sæmdarheitið ,,Blaðamaður ársins".
Beitt skot og kaldhæðnin sést vel á milli línanna. En já, brátt kemur út fyrsta DV undir stjórn Sigurjóns. Þegar að yfirmenn Blaðsins ráku SME á dyr var það með þeim orðum að lögbanns yrði krafist á verk hans fyrir fjölmiðla út umsaminn samningstíma fyrir Blaðið. Fróðlegt verður að sjá hvort muni reyna á lögbannið fyrrnefnda um að Sigurjón geti ekki starfað við fjölmiðla fyrr en seint sumars 2007.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 09:22
SUS stofnar frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar

Við sem sitjum í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna höfum ákveðið að tengja verðlaunin nafni Kjartans Gunnarssonar, fráfarandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, til að heiðra það mikla starf sem hann hefur skilað til þess að auka frelsi á Íslandi og bera út hugmyndir frjálshyggjunnar.
Verðlaunin eru hvatning til þeirra sem leggja á sig að taka þátt í mótun þjóðmálaumræðunnar og hafa einstaklingsfrelsið að leiðarljósi. Með verðlaununum vilja ungir sjálfstæðismenn einnig leggja áherslu á mikilvægi þess að fólk taki þátt í stjórnmálaumræðunni en eftirláti það ekki einungis kjörnum fulltrúum og atvinnustjórnmálamönnum.
Starf Kjartans í þágu frelsisins er langt í frá einskorðað við stöðu hans sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í 26 ár. Frá unga aldri hefur hann verið í forystu meðal þeirra sem barist hafa fyrir frjálshyggjunni á Íslandi. Hann var meðal annars hvatamaður og leiðtogi í þeim hóp sem gaf út ritið "Uppreisn frjálshyggjunnar" en í henni má finna stefnu þeirrar kynslóðar sjálfstæðismanna sem hvað mest áhrif hefur haft á þróun landsmála á undanförnum áratugum.
Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Valhöll, eins og fyrr segir á morgun, kl. 18:00.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.1.2007 | 07:41
Manneskjulega hliðin á Saddam Hussein

Greinilegt er að kalt stríð er skollið á milli írakska forsætisráðherrans og bandarísku ríkisstjórnarinnar sem skiptast á skotum með afgerandi hætti í kjölfar aftökunnar. Bandarísk stjórnvöld reyna nú greinilega að þvo hendur sínar af aftökunni. Öllum er ljóst að aftakan mun magna átök í landinu og verða vatn á myllu þeirra sem telja ástandið í Írak lítið sem ekkert hafa breyst. Bush Bandaríkjaforseti kom sér undan að svara spurningum um aftöku Saddams á blaðamannafundi sem haldinn var í gær, um væntanleg valdaskipti í þinginu í dag, í Rósagarði Hvíta hússins.
Mitt í allri umræðunni um aftökuna á Saddam Hussein og allar hliðar hennar er birt athyglisvert sjónarhorn á manneskjulegri hlið Saddams. Um fáa menn og persónuleg einkenni hans hefur verið rætt og ritað meira síðustu áratugina. Hann var umdeildur sem einræðisherra í Írak í yfir tvo áratugi en ekki síður eftir að hann hafði verið felldur af valdastóli og var orðinn fangi í vörslu Bandamanna, bæði meðan að réttarhöldin sögufrægu stóðu og handan þeirra er hann beið þess að verða líflátinn. Saddam var umdeildur og verk stjórnartíðar hans tala sínu máli. En eins og flestir menn átti hann greinilega sér manneskjulega hlið inn við innsta beinið einhversstaðar.
Sjúkraliðinn Robert Ellis komst í gegnum starf sitt í návígi við þennan umdeilda þjóðarleiðtoga, sem var höfuðandstæðingur Bandaríkjanna í valdatíð þriggja forseta og í tveim fjölmiðlastyrjöldum. Hann var valinn í það hlutskipti að sjá um Saddam í fangelsinu. Það hefur eflaust verið athyglisvert hlutskipti. Lýsingar Ellis á Saddam Hussein eru birtar í fjölmiðlum þessa dagana. Ellis mun hafa verið maðurinn sem útvegaði honum bækur að lesa, hugaði að heilsu hans og reyndi að halda blóðþrýstingi hans eðlilegum, enda voru honum gefin skýr fyrirmæli um að Saddam mætti ekki deyja í varðhaldi Bandamanna.
Ellis lýsir Saddam Hussein sem miklum bókaáhugamanni sem las allt á milli reyfara, gamansamra bóka og sögulegra rita, manni sem gaf fuglum brauðmola í fangelsisgarðinum, sagði brandara og var umhugað um heilsu sína. Það vekur sérstaka athygli að Ellis segir að Saddam hafi verið rólegheitamaður sem var notalegur í viðkynningu og virti sjúkraliðann sem jafninga sinn. Það er ekki laust við að þessar lýsingar bandaríska sjúkraliðans veki athygli.
![]() |
Saddam gaf fuglunum og las í fangelsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2007 | 22:50
Fjölskylduvörn Ingimundar Kjarval
Það blandaðist engum hugur um það sem sáu Kastljós og sjónvarpsfréttir í kvöld að Ingimundur Kjarval og fjölskylda hans er allt annað en sátt við dóm Héraðsdóms Reykjavikur í dag. Þar tapaði fjölskyldan baráttu sinni við Reykjavíkurborg fyrir því að fá málverk ættarföðurins Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals aftur í sína vörslu. Nær allt ævistarf Jóhannesar hefur verið eign Reykjavíkurborgar frá árinu 1968.
Stór deila milli aðstandenda Jóhannesar og Reykjavíkurborgar hefur verið hvort Jóhannes hafi gefið safnið með löglegum hætti og allt standist í þeim efnum. Fullyrðir fjölskylda listmálarans að andlegt ástand hans hafi verið með þeim hætti að hann hefði ekki verið með réttu ráði á þessum tíma sem um ræðir. Stór hluti niðurstöðunnar í dómnum í dag virðist vera byggð á orðum og ummælum Geirs Hallgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra, sem var borgarstjóri í Reykjavík árið 1968 er samningurinn kom til sögunnar.
Eins og flestir vita er meginhluti verkanna geymdur á Kjarvalsstöðum, en safn borgarinnar var nefnt eftir Jóhannesi og er á Klambratúni í Reykjavík. Barátta Ingimundar og fjölskyldu hans er orðin mjög löng. Hef ég fylgst með henni nokkurn tíma, en á síðustu árum hefur Ingimundur verið virkur við að skrifa á spjallvefnum Málefnin, en þar var ég mjög virkur við að skrifa á sínum tíma en er nær hættur skrifum þar nú. Ingimundur hefur greinilega lítinn áhuga á að beygja sig undir þennan úrskurð og stefnir í áfrýjun þessa dóms og farið verði jafnvel fyrir erlenda dómstóla staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli. Krafturinn virðist hvergi nærri farinn úr Ingimundi ef marka má orð hans, en hann sagði sérstaklega fjölmiðlum til syndanna í viðtölum í dag. Það voru hörð og áberandi orð. Greinilegt er að hann telur þetta vörn sína fyrir hönd fjölskyldunnar og greinilegt að hann er ekki á þeim slóðum að gefa eftir í átökum við borgina, sem hann hefur verið í átökum við nú í áratugi.
![]() |
Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.1.2007 | 20:43
Nýr menningarsamningur undirritaður á Akureyri
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, undirrituðu nýjan menningarsamning ríkis og bæjar í Davíðshúsi í dag. Um er að ræða eitt af síðustu embættisverkum Kristjáns Þórs á bæjarstjórastóli, en hann lætur af embætti bæjarstjóra á þriðjudag eftir níu ára starfsferil.
Samningurinn er endurnýjuð uppfærsla á þeim samningi sem hefur verið til staðar milli samningsaðila frá árinu 1996, en var síðast endurnýjaður fyrir þrem árum. Hann hljóðar upp á samtals 360 milljóna króna hlut ríkisins og gildir til ársloka 2009. Meginmarkmið samningsins er að efla enn frekar hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi. Stærsti hluti samningsins er að lokið verður byggingu menningarhúss í Strandgötu á samningstímanum, en það verkefni hefur verið á döfinni í tæpan áratug og löngu kominn tími til að ljúka því.
Menningarhús verður orðin staðreynd fyrir lok næsta árs. Jafnframt er samstaða um að önnur meginmarkmið séu að efla starf Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, styrkja starf Listasafnsins á Akureyri sem meginstoðar myndlistar utan höfuðborgarsvæðisins og að renna enn styrkari stoðum undir starfsemi atvinnuleikhúss á Akureyri. Auk þess er minnst á að Amtsbókasafnið geti gegnt hlutverki sínu sem eitt af skylduskilasöfnum í landinu, og að kynna fornleifaverkefnið að Gásum og miðla þeirri þekkingu sem til hefur orðið.
Í heildina er þetta góður og gagnlegur samningur og gott að niðurstaða hafi náðst í þessi mál á þessum tímapunkti og þessi mál séu öll örugg og frágengin í upphafi ársins.
![]() |
Ríkið og Akureyri gera samstarfssamning um menningarmál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2007 | 16:55
Að vera eða ekki vera.... með skaup
Að vera eða ekki vera... með skaup, þarna er efinn. Nei án alls gríns, þá sá ég að bloggvinur minn, Atli Fannar Bjarkason, virðist víkja að hugleiðingum mínum hér á blogginu á nýársdag um Skaupið í fjölmiðlapistli sínum í Blaðinu í dag. Það er gott að heyra skoðanir annarra á því sem ég setti fram. Reyndar fékk ég mjög mikil viðbrögð á skrifin og mörg þrusugóð komment á nýársdag. Var mjög líflegt og gott hérna og allir með skoðanir. Hefði viljað fá komment frá Atla þar inn, enda alltaf gaman af því að heyra skoðanir annarra.
Áramótaskaupið er nú einu sinni þess eðlis að allir hafa á því skoðanir. Annaðhvort eru menn að dýrka skaupið eða hreinlega þola það ekki. Ég hef oft verið í þeim flokki að verja það og heyra þær skoðanir að það hafi verið ömurlegt. Nú, og reyndar í fyrra, var ég í þeim flokki að finnast það slappt. Einn góðvinur minn sendi mér póst og sagðist telja að ég hefði verið ósáttur vegna þess að lítil pólitík hefði verið í skaupinu. Margt til í því. Mér fannst vanta þennan klassíska húmor. En það er mitt mat. Ég sagði mínar skoðanir því ég vildi heyra í öðrum. Það tókst allavega.
Það verður sjaldan hægt að gera hið fullkomna skaup sem allir dýrka út af lífinu. Ég geri mér vel grein fyrir því. Ég ætla ekki að segja að ég hafi setið algjörlega með steinrunnið andlit yfir öllu skaupinu. Mér fannst nokkur atriði góð, t.d. Baugsmyndin "hlutlausa", andi Gísla á Uppsölum að heimta eitt stykki flatskjá og samningaviðræður við Kanana voru atriði sem mér fannst góð. Sumt var mjög misheppnað að mínu mati, sumt alveg glatað. En það er bara mitt mat - og mér dettur ekki í hug að allir séu sammála mér. En ég segi það sem mér finnst. Heiðarlegt og gott.
Þessi þjóð er svo skemmtilega ólík í grunninn að það er vonlaust að telja okkur geta gert skemmtiefni sem allir liggja flatir yfir hlæjandi sig máttlausa. Væntanlega gerðu aðstandendur Skaupsins sitt besta. Eflaust er það svo, þeirra húmor verður aldrei allra og það verður Spaugstofan ekki heldur, né t.d. Fóstbræður í denn og Stelpurnar nú. Það er alveg rétt hjá Atla að ég var svo ósáttur að ég vildi helst leggja Skaupið niður. En kannski voru það bara natúral fyrstu viðbrögð einhvers sem fannst skemmtiefnið missa marks. En það eru auðvitað bara pælingar.
Ég bjóst enda aldrei við að allir væru sammála mér, en ég lét það flakka sem var í hausnum á mér á nýársdag. Ég fékk allavega viðbrögð, góð komment, sumir ósáttir, aðrir ánægðir. Fínt bara. Það er alltaf gaman að rabba um málin, enn skemmtilegra um húmor en pólitík. Eða ég tel það.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2007 | 14:55
Samfylkingin minni en VG í tveim kjördæmum
Það er fróðlegt að fara vel yfir síðustu mánaðarkönnun Gallups. Þar sést t.d. að VG er stærri en Samfylkingin í tveim kjördæmum; Norðvestur- og Norðausturkjördæmi, og jafnstór henni í einu, og að Frjálslyndi flokkurinn er nærri jafnvinsæll í Reykjavík suður (kjördæmi Margrétar Sverrisdóttur) og í Norðvesturkjördæmi, pólitísku heimavígi Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkast að vígi í Suðvesturkjördæmi, með 42%, en borgarkjördæmin koma skammt undan. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur fallið niður í 28% í Norðvesturkjördæmi en þar munar aðeins þrem prósentustigum á Sjálfstæðisflokknum og VG. Taflan hér að ofan segir sína sögu sjálf.
Framsóknarflokkurinn virðist eiga í verulegum erfiðleikum og hefur t.d. misst talsvert fylgi síðustu mánuðina hér í Norðausturkjördæmi og er komið niður í 15% á meðan að flokkurinn mælist hæstur með 17% í Norðvesturkjördæmi. Athygli vekur að Framsókn hefur eflst um helming á einum mánuði í Reykjavík suður, kjördæmi Jónínu Bjartmarz og svipað í Kraganum, kjördæmi Sivjar Friðleifsdóttur. Flokkurinn fer bráðlega að nálgast það að koma þar inn mönnum. Í kjördæmi Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, Reykjavík norður, mælist hann með 3%.
Staða Samfylkingarinnar er vissulega athyglisverð. Flokkurinn mælist hvergi yfir 30% fylgi og er fjarri því að eiga fyrsta þingmann kjördæmis í nokkru kjördæma landsins. Nú hefur Samfylkingin fyrsta kjördæmaþingmann í Reykjavík norður og Suðurkjördæmi. Í báðum kjördæmum er nú vel yfir 10% munur á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, Sjálfstæðisflokknum í vil. Í heildina er þetta mjög athyglisverð tafla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.1.2007 | 09:39
Ekki viðunandi útkoma fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Hér í Norðausturkjördæmi batnar staðan ekki milli mánaða. Í könnuninni þar á undan misstum við yfir 6% fylgi í einni gusu þrátt fyrir að prófkjör hefði farið fram í þeim mánuði, fjölmennt og vel heppnað prófkjör. Það var alveg greinilegt að tvö mál hafa verið í umræðunni hér og voru í þessu prófkjöri, mál sem situr í fólki hér. Það er annarsvegar mál Árna Johnsen, sem að óbreyttu er aftur á leið á þing, og hinsvegar þjóðlendumálin, sem mun ekki efla okkur hér á þessum slóðum. Vel hefur komið fram í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar, leiðtoga flokksins í kjördæminu, að hann styður ekki málflutning fjármálaráðherra í þeim efnum.
Það er algjörlega ljóst þegar að litið er á þessa skoðanakönnun að Sjálfstæðisflokkurinn á ekkert gefið í þessum efnum. Þetta verða átakakosningar þar sem hvert atkvæði ræður úrslitum um hvernig stjórn verður mynduð. Allir flokksmenn verða að vinna fyrir sigri í vor og tryggja að flokkurinn hafi þá stöðu að kosningum loknum að geta leitt sterka tveggja flokka ríkisstjórn. Sagan sýnir að tveggja flokka stjórnir hafa verið farsælastar. Reyndar þekkjum við yngri kjósendur fátt annað en sterkar tveggja flokka stjórnir, en þriggja til fjögurra flokka stjórn hefur ekki setið síðan að síðasta vinstristjórn sat hér undir lok níunda áratugarins og við upphaf þess tíunda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað sterka forystu og það er valkostur hans nú sem fyrr.
Þessi skoðanakönnun er vissulega enginn stóridómur komandi þingkosninga. Þetta er vísbending í áttina að því hvað kemur upp úr kjörkössunum eftir fjóra mánuði. Þessi skoðanakönnun er ávísun upp á það að Sjálfstæðisflokkurinn er með litlu meira raunfylgi nú en í þingkosningunum 2003, sem voru ekki góðar fyrir flokkinn, þó það hafi tekist þá að koma í veg fyrir vinstristjórn. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að framboð Árna Johnsen muni veikja flokkinn í þessari jöfnu kosningabaráttu og ég er ekki einn um þá skoðun innan Sjálfstæðisflokksins. Á því máli verður að taka og ég tel að allir sjálfstæðismenn sem eru þeirrar skoðunar eigi að láta í sér heyra af krafti.
Við hér í Norðausturkjördæmi höfum öll sóknarfæri til þess að vinna góður sigur í vor og að fá fjóra þingmenn kjörna í alþingiskosningunum eftir fjóra mánuði. Listi okkar er með þeim hætti að sóknarfærin eru til staðar. Kannanir hafa sýnt okkur um nokkuð skeið með mest fylgi í kjördæminu og að Kristján Þór Júlíusson verði fyrsti þingmaður kjördæmisins þann 12. maí. Markmið okkar hér er alveg skýrt. Við þurfum ekki á innansveitarvanda að halda, vísa ég þar til mála Árna Johnsen sem hefur æ ofan í æ sýnt og sannað að hann er ekki traustsins verður og fór illa með það traust sem honum var sýnt í nóvember og lét þar ófyrirgefanleg ummæli falla að mínu mati.
En þessi könnun er ein slík á langri leið en vekur alla sjálfstæðismenn til umhugsunar um það að ekkert er öruggt í þessum efnum - það er enn langt til kosninga.
![]() |
Sjálfstæðismenn fengju meirihluta í borginni samkvæmt nýrri könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.1.2007 | 19:47
Ógeðfelld aftaka Saddams

Það var vissulega mjög kuldalegt að sjá Saddam í þessu litla herbergi bíða örlaga sinna með böðlana sér við hlið. Ofan á allt annað var ógeðfellt að sjá og heyra orðaskipti böðlanna og Saddam áður en sá síðarnefndi fór niður gálgann og snaran hertist um háls hans. Það er óviðunandi andrúmsloft sem þar blasti við og þessi aftaka fékk á sig blæ hefndar en ekki réttlætis í kjölfar dóms. Þetta myndband er mun raunsærri útgáfa af sannleikanum eins og hann var á þessum vettvangi en opinberar myndir sem afhjúpaðar voru þann 30. desember, á dánardegi Saddams. Það leikur enginn vafi á því.
Ég hef alla tíð verið andsnúinn dauðarefsingum, eins og vel hefur komið fram. Hinsvegar sagðist ég hafa skilning með stöðu mála í Írak á þeim tíma sem dauðadómurinn féll. Saddam var dæmdur eftir lögum í Írak og því réttlæti sem þar er. Það er eins og það er bara. Ég tek undir skoðanir margra á því að það hefði verið réttara að Saddam hefði verið framseldur til Haag og mætt réttlætinu þar og málið allt hefði verið tekið jafnt fyrir og unnið betur að málum. En fortíðinni verður ekki breytt. Margir læra vonandi sína lexíu á þessu öllu saman og vonandi verður betur haldið á slíkum málum í framtíðinni hver sem á í hlut.
Saddam var tekinn af lífi og því verður ekki breytt. Það er alveg ljóst í mínum huga að Saddam varð að refsa fyrir sín skelfilegu verk á valdastóli og hann varð að fara fyrir dóm. Niðurstaðan er eins og hún er, en aftakan sem slík er mjög á gráu svæði eins og hún var framkvæmd og mjög margt við hana að athuga. Hana átti að stöðva af í því andrúmslofti sem við blasti á staðnum þessar lokamínútur ævi Saddams og í þeim hita sem var á milli hins dauðadæmda og böðlanna sem skiptust á kuldalegum kveðjum allt þar til sá fyrrnefndi gossaði niður gálgann. Þetta voru skelfilegar stundir en þó mikil lexía á þetta að horfa.
Örlögum Saddams verður ekki breytt, hann hefur verið líflátinn og jarðsettur í Tikrit. Hans saga er nú öll og hann heyrir nú fortíðinni til. Hann er ekki lengur sögupersóna í pólitískri tilveru Íraks. Spurning er þó hvaða áhrif hann hafi eftir dauða sinn, út yfir gröf og dauða. En það er algjörlega ljóst að framkvæmd aftöku hans var í senn ömurleg og sorgleg og það sem þar blasir við ber að fordæma.
![]() |
Litlu munaði að aftöku Saddams yrði frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.1.2007 | 17:53
Er Eiríkur guðfaðir ríkisstjórnarinnar?

Á þeim tímapunkti að ríkisstjórnin var mynduð voru í gangi stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í kjölfar alþingiskosninga 8. apríl 1995, en stjórn flokkanna hafði setið frá árinu 1991 og haldið velli í kosningunum en með minnsta möguleika meirihluta, 32 alþingismenn af 63. Svo fór að Davíð mat það ekki öruggan meirihluta og hann hóf viðræður við Halldór. Lengi hefur verið um það rætt hvort einhver hafi haft milligöngu um þær viðræður í fyrstu.
Viðræður milli þeirra hófust um páskana 1995 meðan að viðræðum stjórnarflokkanna hafði ekki verið slitið. Stjórnin var mynduð á örfáum dögum. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson höfðu aldrei unnið saman í stjórnmálum þegar að þessi stjórn var mynduð. Þeir höfðu aldrei setið saman í ríkisstjórn og Halldór hafði verið einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar kjörtímabilið 1991-1995 þegar að Framsóknarflokkurinn sat í fyrsta skipti utan ríkisstjórnar frá því að minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndals sat 1979-1980. Það hefur því lengi verið ljóst að einhver hefði einhver haft milligöngu um viðræðurnar.
Í viðtölum á þessum tíma var líka mikið um það rætt hvort að Davíð og Halldór gætu unnið saman í ríkisstjórn. Það reyndust óþarfa áhyggjur og sennilega má telja bandalag þeirra félaga og gott samstarf með þeim sterkari í íslenskri stjórnmálasögu. Samstarf þeirra stóð samfellt í áratug, eða þar til að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum árið 2005, en Halldór hætti eins og kunnugt er innan við ári síðar í stjórnmálum sjálfur. Ein mestu vatnaskilin á pólitískum ferli Halldórs Ásgrímssonar voru alþingiskosningarnar 1995, fyrstu kosningarnar sem Halldór leiddi Framsóknarflokkinn. Í þeim kosningum vann flokkurinn nokkurn sigur, hlaut 15 þingsæti og var með mjög vænlega stöðu.
Það vakti mikla athygli í kveðjuræðu Halldórs sem formanns Framsóknarflokksins í ágúst í fyrra að Framsóknarflokkurinn hefði að loknum kosningunum 1995 boðið A-flokkum Alþýðuflokks og Alþýðubandalags samstarf, sem hefði vænlega orðið undir forsæti Halldórs. Alþýðuflokkurinn afþakkaði það og hélt í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Eins og allir vita ákvað Sjálfstæðisflokkurinn hinsvegar að slíta samstarfinu og ganga til samninga við Framsóknarflokkinn við milligöngu einhverra þar um. Nafn Eiríks Tómassonar í þessari umræðu vekur mikla athygli. Úr varð sögulegt samstarf í íslenskri stjórnmálasögu sem enn er við völd.
Það er enginn vafi á því í mínum huga að í sögubókum framtíðarinnar verður stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks metið farsælt og það hafi skipt íslenskt þjóðarbú miklu. Farsæl forysta flokkanna hafði mikil áhrif til hins góða. Forysta Davíðs Oddssonar og Halldórs í því samstarfi var öflug og setti mark á íslensk stjórnmál, og verður lengi í minnum höfð. Þessir flokkar náðu saman um að mynda grunn að öflugu samstarfi, sem er orðið langlífasta stjórnarsamstarf Íslandssögunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 14:30
Eigum við að leggja niður áramótaskaupið?
Fyrst og fremst mátti ég til með að segja upphátt það sem ég var að pæla og líka opna á að heyra í öðrum. Það er nú einu sinni svo að Áramótaskaupið er þess eðlis að það er sumum að skapi og öðrum ekki. Það er vonlaust að allir verði sammála um það. Mér finnst þó mjög margir hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með það. Eftir stendur hiklaust þær pælingar hvort það sé orðið réttlætanlegt að halda úti dagskrárlið með þessum hætti áfram sem veldur vonbrigðum ár eftir ár. Það er greinilegt að sitt sýnist hverjum.
Persónulega fannst mér Skaupið átakanlega slappt í ár. Það er bara þannig. Eflaust er ekki hægt annað en vonast eftir að það verði betra að ári, en ég get samt ekki sagt annað en það sem ég sagði í gær í þessari stöðu. Kannski tek ég þó bara undir með Sigurlín Margréti og bið um Óskar Jónasson bara aftur og eða bara tek undir með öðrum sem skrifaði um að Stelpurnar eigi að fá að gera skaupið. Þær hafa verið að standa sig vel. Margar pælingar í þessu. Vonlaust að allir verði sammála.
En takk enn og aftur fyrir öll kommentin.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.1.2007 | 00:48
Forseti í háleitum skýjaborgum

Ég tek Ólaf Ragnar ekki það hátíðlega, í sannleika sagt, að líta á hann sem mann sem markar vinda alheimsins og hefur lykiláhrif á alþjóðastjórnmál með vist sinni á Bessastöðum. Merkilegust fannst mér ummæli Ólafs Ragnars um að aðrir þjóðarleiðtogar væru farnir að gefa gaum ummælum hans í áramótaávarpi á nýársdag 1998 um loftslagsmál. Ég tek því mátulega og undrast satt best að segja þessi ummæli og það sjálfhól sem mér fannst þetta vera. Menn hafa alla tíð hugsað um loftslagsmál og ummæli Ólafs eru engin þáttaskil í þeim efnum, þó hann telji það kannski sjálfur.
Verksvið forseta Íslands á að vera hér heima á Íslandi og hann á að sinna málefnum okkar og vera sameiningartákn okkar. Forseti Íslands verður vængbrotinn þegar að hann getur ekki verið trúverðugur sem sameiningartákn allra landsmanna. Ég hef ekki litið á þennan forseta sem sameiningartákn eftir blaðamannafundinn skrautlega á Bessastöðum sumarið 2004 þegar að hann beitti 26. grein stjórnarskrár með sögulegum hætti. Átök um embættið hafa verið í forsetatíð hans og honum hefur ekki auðnast að gera það að sameiningartákni allra landsmanna eins og forverar hans. Þjóðin er sundruð í fylkingar um þennan forseta.
Ég get ekki annað sagt en að ég tel forsetann vera í skýjaborgum yfir að tala fyrir alþjóðlegu samstarfi með þeim hætti sem hann gerði í ávarpinu. Það er allt í lagi að impra á málum og ræða stöðu heimsins en forseti Íslands getur aldrei verið alheimsfriðarleiðtogi eða málsvari alþjóðastjórnmála með meira áberandi hætti en þeim að láta í veðri vaka hitt og þetta, segja álit sitt. Mér finnst það standa forseta Íslands nær að verða það sameiningartákn sem hann hefði átt að reyna að helga sig í að verða. Ég er einn þeirra sem er ekki sáttur við þennan forseta og finnst hann ekki hafa unnið með þeim hætti að efla virðingu embættisins.
Ólafur Ragnar er og hefur alla tíð verið pólitískur bardagamaður. Það sést á öllum hans orðum og gjörðum. Sjálfur hef ég alla tíð verið andvígur því að einstaklingur með fortíð úr stjórnmálum verði forseti. Það sem við þurfum er sameiningartákn sem getur verið fulltrúi okkar allra og verið óbundinn af pólitískum væringum. Þannig forsetar voru Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir. Þannig forseta þurfum við á eftir Ólafi Ragnari, sem vonandi hættir á næsta ári.
1.1.2007 | 23:55
Gerald Ford kvaddur í Washington
Líkkista Gerald Ford, 38. forseta Bandaríkjanna, liggur nú á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda, hvelfingu þinghússins, í Washington. Þúsundir almennra borgara hafa farið í þinghúsið til að votta Ford forseta sína hinstu virðingu í gær og í dag. Það hlýtur að teljast sérstaklega mikið miðað við að rigning er í Washington nú og ekkert sérstakt veður, eða svo segir bandarískur vinur minn sem þar býr og fór að kistu forsetans í dag og stóð nokkuð lengi í biðröð.
Ég tel að pólitísk arfleifð Geralds Fords komi vel fram í þessu. Sá fjöldi sem vill minnast hans er nokkur og það segir allt sína sögu. Þrátt fyrir að Ford hafi ekki tekist að hljóta kjör í embætti forseta Bandaríkjanna og hafi verið valinn varaforseti að útnefningu Nixons forseta og síðar tekið við forsetaembættinu á örlagastundu metur fólk verk hans. Ford sóttist fyrirfram aldrei eftir forsetaembættinu en hlýtur þau eftirmæli að hafa tekist á hendur skyldur embættisins á þeirri stundu sem fáir hefðu viljað það.
Ford græddi sár milli forsetaembættisins og þjóðarinnar eftir að Richard Nixon hafði veikt stöðu embættisins og trúverðugleika þess i Watergate-málinu. Það sést vel þessa dagana að Bandaríkjamenn meta vel hvernig Ford kom fram á þessum örlagatímum. Það er og verður hans mesta pólitíska arfleifð. Áratugalangur ferill Fords í fulltrúadeildinni, bæði sem flokksleiðtogi og þingmaður hefur horfið í skuggann í fjölmiðlaumfjöllun af því hlutskipti hans að taka við Hvíta húsinu í kjölfar Watergate. Það þurfti að lækna sár og efla embættið með forseta sem gat verið sáttasemjari milli fylkinga.
Ford tókst vel upp í þeim efnum og til marks um það eru hlýleg orð stjórnmálamanna í báðum stóru flokkunum sem hafa lofað Ford síðustu dagana með mjög áberandi hætti. Einna sterkust hljóta að teljast orð Jimmy Carter, sem varð eftirmaður Fords á forsetastóli, en Carter sigraði hann í forsetakosningunum 1976. Þeir urðu perluvinir handan vistar beggja í Hvíta húsinu og athygli hafa vakið hlýleg orð Carter-hjónanna í garð Fords. Það segir sína sögu.
Fyrir nokkrum dögum var skrifað um Ford á Vef-Þjóðviljanum. Ég er ekki oft ósammála þeim í skrifum þar en ég var það í þessum efnum. Ég tel Ford hafa unnið merkilegt verk á forsetastóli, þó vissulega hafi hann hlotið önnur söguleg eftirmæli en margir aðrir forsetar. Atbeini hans við að stýra málum eftir þá skelfilegu stöðu sem Nixon lét eftir við brotthvarf sitt er og verður metið mikils eitt og sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2007 | 23:27
Magnaðir tónleikar

Að mínu mati er Bó Hall alveg frábær tónlistarmaður. Svo mikið er allavega víst að tónlistarsaga okkar verður ekki rituð án þess að minnast á ævistarf hans, en í fjóra áratugi hefur hann verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Hann slær ekki feilnótu á þessum tónleikum og allt er eins fullkomið eins og mögulegt má vera. Björgvin kann sitt fag og sannar enn og aftur hversu stór hann er í íslenskri tónlist.
Lagavalið á tónleikunum er gott, sannkallaður þverskurður alls þess besta sem hann hefur gert, þó alltaf sakni maður nokkurra laga. Það er gott að lagið Tvær stjörnur eftir Megas sé þarna. Mér hefur alltaf fundist það lag eitt hitt allra bestu síðustu áratugina. Innilega fallegur texti og lag eftir Megas, algjör perla í tónlistarsögu 20. aldarinnar. Þarna eru svo öll lykillögin sem marka frægð Björgvins. Óþarfi að telja þau upp. Flottast af öllu er að fá dúett feðganna Björgvins og Krumma við eðalsmellinn You Belong to Me.
Allavega, mögnuð skemmtun. Hvort sem er í boði Alcan heim í stofu eða bara heima á eigin diski. Rétt eins og afmælistónleikar Bubba er þetta eðaltónlistarviðburður sem nauðsynlegt er að eiga og njóta vel.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2007 | 12:53
Leggjum niður áramótaskaupið
Það er því miður að verða árviss viðburður að ekki sé horfandi á þetta áramótaskaup. Miklu er kostað til, en það verður lélegra með hverju árinu. Ég man ekki eftir almennilegum skaupum síðan að Óskar Jónasson gerði tvö eftirminnileg árin 2001 og 2002. Skaup Spaugstofunnar árið 2004 var allt í lagi en ekkert meistaraverk, en það var þó hægt að hlæja að því og hafa gaman af.
Að þessu sinni var talað niður til aldraðra, öryrkja og þeirra sem minna mega sín. Hafi þetta átt að vera húmor féll hann í senn bæði dauður og flatur í mínum húmorsbókum, sem eru á eilítið hærra plani. En semsagt; mikil vonbrigði og bömmer yfir þessu skaupi. Einfalt mál.
Á ekki bara að fara að leggja niður þetta skaup og huga að betri dagskrárgerð yfir allt árið, frekar en dæla peningum í einn misheppnaðan sjónvarpsviðburð? Ég tel að það væri affarasælla.
1.1.2007 | 12:09
Fallegur nýársdagsmorgunn á Akureyri

Nýársmorguninn er fallegur á Akureyri. Snjór er yfir og friðsæl og notaleg stemmning. Sr. Matthías Jochumsson, prestur og heiðursborgari okkar Akureyringa, var merkur maður. Ég lauk lestrinum á ævisögu hans endanlega núna í morgun í frið og ró hérna heima. Yndisleg bók sem ég mæli svo innilega með. Ég hef alla tíð metið Matthías mikils og virði ljóð hans og prestsverk hér. Akureyringar hafa alltaf metið þau mikils, enda er sóknarkirkjan okkar um leið kirkja byggð í minningu hans. Farið er vel yfir alla hápunkta ævi Matthíasar í þessari ævisögu, sem ég heillaðist mjög af. En ég er líka einn af þeim sem finnst þjóðsöngurinn fallegur og vil engu með hann breyta.
Kl. 12:15 ætla ég að horfa á áramótaávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, á bæjarssjónvarpsstöðinni N4 (áður Aksjón). Ávarpið hefur verið hefð í bæjarstjóratíð Kristjáns Þórs. Nú er komið að leiðarlokum á bæjarstjóraferli Stjána og innan tíu daga hefur Sigrún Björk Jakobsdóttir tekið við lyklunum að hornskrifstofunni í Ráðhúsinu, sem flestir kalla bæjarstjóraskrifstofuna. Við bæjarbúar munum því horfa vel á ávarpið núna, sem um leið er kveðja Kristjáns til bæjarbúa á þessum tímamótum. En ekki fer hann langt, enda verður hann forseti bæjarstjórnar.
Fyrir okkur sem höfum unnið með Kristjáni Þór innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri eru það tímamót að hann láti af leiðtogahlutverkinu í bæjarmálahópnum. Það hafa verið hæðir og lægðir í samskiptum okkar en ég mun alltaf meta mikils framlag Kristjáns Þórs fyrir hönd Akureyrarbæjar á þessum áratug sem hann hefur verið sem bæjarstjóri hér. Hann hefur unnið farsælt verk, mikil uppbygging var á þessum tíma og bærinn efldist að flestu leyti. Kristján Þór er maður sem fer ekki troðnar slóðir og hefur því alla tíð verið umdeildur. En menn komast aldrei í gegnum stjórnmálin nema að það gusti af þeim. Það gildir um Kristján Þór.
Fyrir tæpri öld spurði séra Matthías um hvað nýárs blessuð sól boðaði. Enn í dag er þetta fagra ljóð hans ómissandi á nýársdag. Um leið og ég endurtek nýárskveðjur á fyrsta degi ársins sem ég verð þrítugur á vona ég að nýárið verði okkur Akureyringum farsælt og að þáttaskilin í bæjarmálunum gangi vel fyrir sig og Sigrúnu Björk farnist vel í sínu nýja verkefni.
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.
Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.
Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.
Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt,
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.
Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.
Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.
Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
Sr. Matthías Jochumsson (1835-1920)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)