Erfið byrjun fyrir sænsku stjórnina

Fredrik Reinfeldt

Í gær var vika liðin frá því að ríkisstjórn borgaraflokkanna undir forsæti Fredrik Reinfeldt tók við völdum í Svíþjóð. Það verður þó seint sagt að óskabyrjun marki fyrstu viku valdaferils flokkanna, en hvert vandræðamálið hefur rekið annað síðustu dagana og sér ekki fyrir endann á vandræðaganginum. Mest hljóta að teljast nokkur vandræði Mariu Borelius, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, en vist hennar í ráðuneytinu byrjaði fljótt á uppljóstrunum um að hún hefði greitt dagmæðrum laun á síðasta áratug án þess að gefa það upp til skatts. Baðst hún fyrirgefningar á því og sagðist forsætisráðherrann ætla að veita henni annað tækifæri til viðbótar við þetta.

Nú hefur að auki komist upp að viðskiptaráðherrann og Greger Larsson, eiginmaður hennar, eiga sveitasetur í Falsterbro í Svíþjóð sem skráð er á félag sem mun vera vistað í skattaskjólinu Jersey. Eins og það sé ekki nógu skaðlegt hefur að auki verið upplýst í sænskum fjölmiðlum í gær og í dag að þau hjón munu eiga íbúð í Cannes sem skráð er á mann að nafni Karl Larsson, en millinafn eiginmanns ráðherrans er Karl, greinilega til að fela eignir, eða látið er að því liggja í fjölmiðlum. Vandræðalegust varð þó uppákoman er Borelius sagðist ekki haft efni á öðru en greiða dagmæðrunum svart er upp komst að tekjur hjónanna voru þá um 16 milljónir sænskra króna.

Maria Borelius

Það má fullyrða að staða Mariu Borelius sé orðin svo veik að henni verði varla sætt mikið lengur, hneykslismálin séu orðin það mörg og erfið fyrir hana að hún standi þau ekki af sér. Forsætisráðherrann, sem sagðist veita henni eitt tækifæri, hefur sagt að nú muni lögmenn Hægriflokksins fara yfir mál ráðherrans og afla sér upplýsinga um þau og svo taka af skarið hvort henni sé sætt. Sænskir fjölmiðlar fjalla ekki um neitt annað en vandræðagang Borelius og fullyrða má að henni verði ekki sætt.

Að auki öllu þessu hefur verið upplýst að Cecilia Stegö Chilò, menntamálaráðherra, hafi ekki greitt afnotagjöld af sænska ríkisútvarpinu í heil 16 ár. Vart þarf að taka fram að Cecilia er æðsti yfirmaður sænska útvarpsins og því er þetta mjög pínlegt fyrir hana og stjórnina. Mun hún hafa leynt forsætisráðherranum þessu fyrir ráðherravalið. Einnig hefur komið í ljós að Maria Borelius hefur ekki greitt afnotagjöld eftir að hún flutti lögheimili sitt til Stokkhólms og annar ráðherra, Tobias Billström, hefur ekki greitt gjöldin heldur.

Fredrik Reinfeldt

Í ofanálag við allt fyrrnefnt hafa tveir ráðherrar viðurkennt að hafa reykt hass á árum áður og umhverfisráðherrann, Andreas Carlgren, er talinn ekki hafa greint rétt frá tekjum sínum til skattayfirvalda. Þetta er alveg ótrúleg staða og með ólíkindum hvernig þessir ráðherrar komust til forystustarfa. Ekki hefur mikil athugun allavega farið fram á þeim. Telja má fullvíst að Reinfeldt neyðist til að endurskoða tilvist nokkurra þeirra í ríkisstjórn.


mbl.is Fyrsta vikan var nýju sænsku ríkisstjórninni erfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýrin

Mýrin

Síðustu daga hef ég verið að rifja upp kynnin af spennusögunni Mýrinni eftir Arnald Indriðason. Að mínu mati er þetta ein allra besta bók Arnaldar, virkilega vel skrifuð og inniheldur flotta spennufléttu. Nú á næstu vikum mun sagan Mýrin birtast okkur ljóslifandi í kvikmyndahúsunum, en kvikmynd Baltasars Kormáks eftir sögu Arnaldar verður brátt frumsýnd. Nú á seinustu árum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar Indriðasonar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við.

Mýrin er vel rituð saga og það verður mjög áhugavert að sjá kvikmyndina. Þar munum við sjá rannsóknarlögreglumennina Erlend, Elínborgu og Sigurð Óla ljóslifandi í fyrsta skipti. Öll höfum við sem lesið hafa bækurnar um þetta harðsnúna þríeyki í lögreglustörfunum séð þau fyrir okkur og gert okkur í hugarlund hvernig persónur þetta séu, utan við karakterlýsingarnar sem Arnaldur hefur fært okkur. Það verður merkilegt að sjá Ingvar E. Sigurðsson í hlutverk Erlendar Sveinssonar, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur í hlutverki Elínborgar og Björn Hlyn Haraldsson sem Sigurð Óla. Hvort að þeim tekst að túlka persónur með þeim hætti sem ég ímynda mér þær verður spennandi að sjá.

Mér fannst valið á Ingvari E. í hlutverk Erlendar mjög merkilegt á sínum tíma, er Baltasar tilkynnti um leikaravalið. Í sannleika sagt hafði ég byggt mér upp tilhugsunina um Erlend sem annan karakter og nokkuð eldri en þetta. Ingvar er einn allra besti leikari landsins og hefur margoft sýnt okkur hvers hann er megnugur. Ég hef séð smá ljósmyndabrot úr kvikmyndinni og þar er Ingvar með skegg og gerður mun eldri en hann er. Væntanlega er óþarfi að efast um hvort honum gangi vel í hlutverkinu. En burðarhlutverk er þetta og það munu allir sem fara í bíó staldra við það hvernig Ingvar E. mun túlka Erlend, enda er hann með sess í huga okkar allra og mikils metinn sögupersóna.

Ég las Mýrina fyrst um jólin sem bókin kom út. Ég las hana algjörlega upp til agna þá þegar og las hana strax í gegn. Þetta er algjört meistaraverk, þó reyndar telji ég Grafarþögn og Kleifarvatn standa henni örlítið framar. En allar skapa þessar bækur magnaða heild og við munum vonandi sjá allar þessar bækur birtast okkur ljóslifandi á hvíta tjaldinu á næstu árum. Ég efast vart um að kvikmyndin Mýrin verður vel heppnuð og hlakka til að sjá hana.

Nýr framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

Ban Ki-Moon

Ban Ki-Moon, fyrrum utanríkisráðherra Suður-Kóreu, var í dag kjörinn framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hann mun taka við embættinu af Kofi Annan þann 1. janúar nk. Annan hefur gegnt embættinu í tíu ár, um áramótin, en það er hámarkstími sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna getur setið. Afríka hefur átt seturétt í embættinu samtals í 15 ár, en forveri Annans, Boutros-Boutros Ghali sat 1992-1997 en hlaut ekki stuðning til að sitja lengur í embætti, en Bandaríkjastórn beitti neitunarvaldi til að stöðva tilnefningu hans til endurkjörs haustið 1996, svo að hann gat ekki náð endurkjöri. Það var í fyrsta skipti fram að því sem sitjandi yfirmaður fékk ekki endurkjör.

Það blasir við öllum að mikil breyting verður er Ban Ki-Moon tekur við embætti framkvæmdastjórans. Kofi Annan hefur verið einn af mest áberandi framkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna, lykil friðarpostuli og holdgervingur fjölmiðlaathygli og fréttaumfjöllunar fyrir framkvæmdastjóraferilinn og á meðan honum stóð. Valið á Ban Ki-Moon markar þau þáttaskil að nú er valinn yfirmaður í Sameinuðu þjóðirnar, yfirmaður sem ekki er fjölmiðlastjarna og er diplómat sem lítið mun bera á miðað við hinn vinsæla Kofi Annan, sem hefur verið öflugur friðarpostuli og alheimsmálsvari friðar, en hann hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir fimm árum, árið 2001.

Það verður fróðlegt að fylgjast með nýjum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við yfirmannsskiptin um áramótin. Jafnframt verður mikið fylgst með því hvert hlutskipti Kofi Annans verður er hann hættir störfum; hvort að hann verði áfram sama fjölmiðlastjarnan og var á tíu ára framkvæmdastjóraferli eða muni draga sig mjög í hlé úr sviðsljósinu.

mbl.is Allsherjarþing SÞ kýs Ban Ki-Moon formlega næsta framkvæmdastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rólegt yfir stjórnarskrárnefndinni

Skjaldarmerki

Það styttist nú mjög í alþingiskosningar. Brátt mun ráðast hvort stjórnarskrárbreytingar verði að veruleika fyrir lok kjörtímabilsins. Um þessar mundir eru tvö ár liðin frá því að Halldór Ásgrímsson, fyrrv. forsætisráðherra, skipaði nefndina. Henni var sett það verkefni einkum að endurskoða fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrár. Í nefndinni eru; Jón Kristjánsson, formaður, Þorsteinn Pálsson, Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Jónína Bjartmarz, Guðjón A. Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson, Kristrún Heimisdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru í nefndinni við skipun hennar en sögðu sig úr henni árið 2005.

Það mun væntanlega ráðast fyrir lok þessa mánaðar hvort að fram komi frumvarp á þessu þingi um að breyta stjórnarskrá. Það var markmiðið, enda var sagt í skipunarbréfi að nefndin ætti að skila tillögum sínum fyrir árslok 2006, frumvarp liggja fyrir í ársbyrjun svo að það mætti verða að lögum fyrir kosningar, en stjórnarskrá er aðeins hægt að breyta með kosningum og staðfest af þingi fyrir og eftir kosningar. Það verður ekki annað sagt en að rólegt hafi verið yfir þessari stjórnarskrárnefnd. Það virðist lítil samstaða um hversu miklar breytingar eigi að verða og þá á hvaða þáttum. Mikið hefur verið deilt t.d. um 26. greinina, hvað varðar málskotsrétt forsetans.

Það er mikill skaði ef ekki næst samkomulag eða lagt verður fram frumvarp um einhverjar breytingar á stjórnarskránni á þessum þingvetri. Fyrir nokkrum vikum sagði Jón Kristjánsson, formaður nefndarinnar, að um gæti orðið að ræða litlar breytingar og nefndi í þeim efnum vissar tillögur. Þótti mér það frekar rýr breyting. Ég held að það liggi fyrir að engar megináherslubreytingar verða með samstöðu, það er frekar leitt að segja það, en svo er það. Æskilegast er vissulega að samstaða geti náðst um breytingar, en meginátök í stjórnmálum mega þó alls ekki koma í veg fyrir að fram komi einhverjar áþreifanlegar breytingar á stöðu mála.

Mér finnst það viss vonbrigði hversu rólegt hefur verið yfir þessari nefnd. Hún hefur haft tvö ár til verka og það virðast hverfandi líkur á að samkomulag náist um breytingar, í takt við það sem rætt var er nefndin var skipuð. Væntanlega verða næstu dagar örlagaríkir í þessari vinnu. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða breytingar muni koma fram við vinnulok nefndarinnar fyrir áramótin, enda blasir við að eigi tillögur að verða að veruleika verði þær brátt að koma fram, enda tíminn að verða af skornum skammti til verka.


Fundaherferð Péturs í prófkjörsslagnum

Pétur H. Blöndal

Á meðan að flestir prófkjörsframbjóðendur í Reykjavík eru að opna heimasíður og kosningaskrifstofur sínar til að kynna sig beitir Pétur H. Blöndal, alþingismaður, allt öðrum aðferðum. Í stað hins hefðbundna er Pétur með opna málefnafundi, fundaröð um frelsi og velferð í samfélaginu, til kynningar á sér og sínum stefnumálum í kosningabaráttunni. Mun Pétur stefna að sex fundum og þar verði tekið fyrir eitt mál á hverjum þeirra. Mun Pétur hafa valið sér fundarstjóra sem allir eiga það sameiginlegt að hafa gjörólíkar skoðanir á málum og hann. Meðal þeirra sem verða fundarstjórar eru m.a. Andri Snær Magnason, Guðrún Helgadóttir og Sigursteinn Másson.

Stefnt er að fundum um umhverfismál, málefni aldraðra, stöðu öryrkja, skattamál, Evrópumál og fjármagnskerfið. Munu fundirnir allir verða í Odda í Háskóla Íslands og sá fyrsti mun verða á morgun. Pétur beitti svipaðri taktík í prófkjörsslagnum árið 2002 og hélt þá fjóra fundi í Odda til að kynna sig og var þar frummælandi með einstaklingi á hverjum fundinum fyrir sig sem voru allir vinstrimenn. Þetta mæltist vel fyrir og Pétur náði góðum árangri í því prófkjöri. Ég var einmitt að hugsa um daginn hvernig Pétur myndi hafa baráttuna nú, enda hvergi séð hann vera með vef né skrifstofu.

Þetta verður fróðlegt með að fylgjast. Annars var Pétur með heimasíðu eitt sinn, en það var ekkert annað en prófkjörsvefur svosem fyrir síðustu kosningar, og merkilegt að sjá hvort hann opnar ekki vefinn aftur á lokavikum baráttunnar. Ef marka má auglýsingar síðustu daga stefnir Árni Johnsen að svipaðri fundaherferð í Suðurkjördæmi og hefur þar auglýst fjölda funda um allt kjördæmið fram að prófkjöri, en þeir verða þó ekki eins uppbyggðir og fundir Péturs í Odda.

Það er allavega ekki hægt að segja annað en að þetta sé barátta mjög frábrugðin því sem flestir aðrir gera á þessum tíma þegar að styttist í prófkjörsdaginn.


Óvæntur friðarverðlaunahafi Nóbels

Muhammad Yunus

Það kom skemmtilega á óvart að Muhammad Yunus og Grameen Bank skyldu hljóta friðarverðlaun Nóbels þetta árið. Fyrirfram hafði ég þó talið að það yrði Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands, sem myndi verða fyrir valinu fyrir mikilvægt framlag sitt í þágu alheimsfriðar. Yunus hefur unnið merkilegt starf við Grameen Bank og vissulega við hæfi að verðlauna það. Um Yunus og Grameen Bank er fjallað um ítarlega og vel á þessari vefsíðu.

mbl.is Grameen Bank og stofnandi hans fá friðarverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrautlegt hlerunarmál

Jón Baldvin

Sífellt skrautlegra verður hlerunarmálið sem kennt er við Jón Baldvin Hannibalsson. Í gærkvöldi var Jón Baldvin gestur Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi. Þar var rætt um hlerunarmálið og tengdar hliðar þess. Þar fannst mér ráðherrann fyrrverandi tala um þessi mál enn merkilegar en áður, enda virðist manni þetta vera orðið svo kostulegt að líkist í raun ótrúverðugum reifara. Mér finnst sífellt vera að verða æsilegri atburðarásin öll. Mér finnst persónulega mjög ótrúlegt að einhver maður hafi setið og hlerað daginn út og inn þennan síma. Sé þetta rétt er það þó auðvitað mjög stórt mál og enn og aftur undrast maður af hverju þetta var ekki almenningi ljóst fyrr en nú.

Þögn Jóns Baldvins Hannibalssonar í þessum efnum í heil þrettán ár er æpandi í þessu máli. Það kemur engan veginn heim og saman að einn allra valdamesti maður landsins hafi ekki getað skýrt þjóðinni frá þessu máli, hafi það gerst á þeim tíma. Mér fannst Jón Baldvin alveg kostulegur er hann reyndi eiginlega mun frekar að lýsa Rúmeníu hins alræmda Ceausescu-tíma frekar en því Íslandi sem ég upplifði í upphafi tíunda áratugarins. Það er mjög undarlegt hafi maður sem hafði örlög ríkisstjórnarinnar í hendi, áður slitið tveim ríkisstjórnum, ekki bein í nefinu til að segja þjóðinni stöðu mála hafi hleranirnar gerst og hann komist að einhverju slíku. Hann hafði öll tækifæri til að segja frá þessu, en notaði þau ekki. Mér finnst það mjög alvarlegt mál og hlýtur að kasta rýrð á frásögn hans.

Fannst merkilegt að heyra viðtalið í Kastljósi við Magnús Skarphéðinsson, bróður Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Hann sagðist fyrir tilviljun hafa "dottið inn í" símtal milli Þorsteins Pálssonar, þáv. forsætisráðherra, og Halldórs Blöndals, alþingismanns. Þetta er merkileg uppgötvun. Það væri fróðlegt að heyra meira um það hvernig að Magnús datt inn í símtal milli forsætisráðherra og stjórnarþingmanns. Finnst margt undarlegt í þessum efnum. Fyrst og fremst þarf að færa öll mál upp á borðið, rannsaka þau og fara yfir. Þetta er að verða eins og einn stór reifari sem maður hefur lesið í jólabókaflóðinu.

Það merkilegasta er að þetta eru raunverulegir valdamenn sem segja frá og eiga að hafa lent í svona atburðarás. Það merkilegasta er að enginn sagði frá neinu og allt er hulið á bakvið þagnargler fortíðarinnar. Mér finnst það mjög ámælisvert, í sannleika sagt.


mbl.is Fullyrðir að Jón Baldvin hafi sætt hlerunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gorbachev fer aftur í Höfða

Mikhail Gorbachev

Nú á þessu kvöldi eru tveir áratugir frá því að leiðtogafundinum sögufræga í Höfða lauk. Það var merkilegt að sjá Sovétleiðtogann fyrrverandi Mikhail Gorbachev aftur í Höfða á þessum degi, tveim áratugum eftir að leiðir hans og Reagans forseta skildu, og minnast með forystumönnum úr íslensku þjóðlífi þessa fundar. Þetta kvöld árið 1986 þótti vera kvöld vonbrigða, flestir töldu fundinn misheppnaðan og hans yrði minnst fyrir mistök við að ná samkomulagi. Það fór ekki svo. Þar voru stigin skref í áttina að frægu samkomulagi. Þetta var fundur árangurs í að ljúka kalda stríðinu og reka fleininn í kommúnistastjórnir í Austur-Evrópu.

Þetta var fundur árangurs við að ljúka sögulegum átökum sem stóðu í áratugi. Það er við hæfi að þessi friðarverðlaunahafi Nóbels komi hingað og minnist þessa árangurs nú. Það er líka mjög áhugavert að heyra skoðanir hans á þessum fundi og árangrinum sem náðist í þessari Íslandsför hans. Það varpar vissum skugga að enginn forystumaður vestanhafs frá skyldi koma hingað nú. Reagan forseti er látinn fyrir nokkrum árum, en var veikur í áraraðir þar áður, en það hefði verið vel til fundið að fá t.d. George Schultz, fyrrum utanríkisráðherra, hingað líka. Til að gera sögulega séð upp fundinn í Reykjavík, fundinn sem markaði þáttaskil.

mbl.is Mikhaíl Gorbatsjov heimsótti Höfða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugur baráttufundur stúdenta

Háskóli Íslands

Í dag stóð Stúdentaráð Háskóla Íslands fyrir meðmælum undir yfirskriftinni "Vér meðmælum öll". Þar var verið að minna á gildi menntunar og mikilvægi þess að þau mál séu rædd í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar næsta vor. Líst mjög vel á þetta framtak stúdenta og fagna því að þau setji menntamál á dagskrá fyrir þessar þingkosningar. Það er mikilvægt verkefni og rétt af þeim að gera það og standa með því vörð um sína stöðu og þeirra sem fara í Háskólann á næstu árum.

Bendi fólki á að rita nafn sitt í undirskriftasöfnun stúdenta sem er að finna á netinu. Þetta er flott framtak og um að gera fyrir alla landsmenn að taka þátt í þessu með því að styðja það með því að leggja því lið með nafni sínu.

mbl.is Stúdentar meðmæltu á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegar hugleiðingar Þórarins um VG

Þórarinn Hjartarson

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki daglegur gestur á vefnum Múrinn. En ég leit þangað í gær og sá þar merkilega grein Þórarins Hjartarsonar um VG, flokk Steingríms J. Sigfússonar. Það var athyglisverð lesning. Eins og margir vita er Þórarinn sonur Hjartar E. Þórarinssonar, bróður Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta lýðveldisins. Hjörtur, sem var bóndi á Tjörn og þekktur framsóknarmaður var mikill héraðshöfðingi í Svarfaðardal allt til dánardags árið 1996. Afkomendur hans hafa þótt vera mjög til vinstri. Allir sem þekkja til Þórarins vita að pólitík hans er mjög til vinstri. Hann hefur verið stoltur af þeirri stefnu og hann hefur óhikað haft skoðanir á þjóðmálum alla tíð.

Það er mjög merkilegt að sjá skrif Þórarins um VG. Þar er að finna hárbeitta gagnrýni á starfið innan VG og skipulag á ýmsum grunni. Greinilegt er að hann telur VG ekki nógu vinstrisinnað fyrir sinn smekk og finnur að ýmsu þar innbyrðis. Mikið hefur verið rætt og ritað um málefni VG og hvernig flokkurinn starfar. Það er mikið talað um að Steingrímur J. Sigfússon miðstýri flokknum sem eigin veldi að öllu leyti. Mikið hefur heyrst um inngrip hans í framboðsmálum fyrir kosningarnar 2003, t.d. í Norðvestur- og Suðvesturkjördæmi. Flestir muna t.d. eftir darraðardansinum sem varð um leiðtogastólinn í kraganum þar sem SJS beitti sér.

Það vekur mikla athygli að stjórn kjördæmisráðs VG í Suðurkjördæmi sæki leiðtogaframbjóðanda í Atla Gíslasyni, lögmanni. Það er nokkuð merkilegt að þeir vinstrimenn sem gagnrýndu innkomu Árna M. Mathiesen inn í þingframboð í Suðurkjördæmi þar sem hann fer í prófkjör finni ekki að því hvernig rauðum dregli er hent inn fyrir Atla. En þetta er eins og það er. Það stefnir að auki í merkilegt prófkjör hjá VG í þrem kjördæmum, þar sem sameiginleg kosning verður á lista í kraganum og borgarkjördæmunum. Það eru vissulega nokkuð nýir tímar í prófkjörssögu landsins að þar sé kosið í þrem kjördæmum, en borgin er vissulega eitt sveitarfélag.

Hér í Norðausturkjördæmi verður forval skilst manni, þar sem fólk getur gefið kost á sér og flokksmenn geta nefnt ný nöfn. Er á hólminn kemur er það mál kjörnefndar að stilla upp listanum til kjördæmisþings. Ég er svolítið hissa á Steingrími J. að hafa ekki prófkjör með því lagi og þar sé gefið færi á jafnmikilli spennu og einkennir t.d. nú framboðsmálin hjá okkur sjálfstæðismönnum og samfylkingarmönnum. En kannski er það ekkert undarlegt með hliðsjón af skrifum Þórarins. Það var fróðlegt að lesa hana og sjá hvernig að vinstrisinnaður hugsjónamaður lítur á flokkinn sinn.

Jón Gunnarsson í þingframboð

Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi, hefur nú tilkynnt um þingframboð sitt í kraganum og býður sig fram í fjórða sætið. Hann stefnir því á sama sætið og Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður og bæjarfulltrúi í Kópavogi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og Bryndís Haraldsdóttir, varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Það stefnir því í hörkuspennandi slag um þetta sæti. Um þriðja sætið munu svo allavega berjast þau Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, og Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi.

Eins og vel hefur komið fram áður stefnir flest í að enginn fari fram gegn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, og Bjarna Benediktssyni, alþingismanni, sem hafa gefið kost á sér í fyrsta og annað sætið, en þau eru einu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi kjörnir 2003 sem gefa kost á sér til endurkjörs. Sigurrós varð formlega alþingismaður í Suðvesturkjördæmi í maílok þegar að Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði formlega af sér þingmennsku, en hún tók þó oft sæti á þingi á kjörtímabilinu, bæði við ársleyfi Gunnars og í fæðingarorlofi Þorgerðar Katrínar á þingvetrinum 2003.

Þetta verður því greinilega spennandi prófkjör um neðri sætin, þriðja til sjötta, að öllum líkindum. Það er þó mjög merkilegt að formaður fulltrúaráðsins í Kópavogi berjist við bæjarfulltrúa og þingmann úr Kópavogi um sama sætið. En það er fyrir öllu að spennandi prófkjör verði í kraganum og það er ljóst að nokkur spenna verður á kjördag, 11. nóvember nk.


mbl.is Jón Gunnarsson býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Baldvin og hlerunarmálið

Jón Baldvin

Enn skrautlegri verður atburðarásin í hlerunarmálinu svokallaða sem snýr að Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrum utanríkisráðherra og formanni Alþýðuflokksins. Jón Baldvin hefur nú staðfest sjálfur að hann lét ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995 ekki vita af þessu og væntanlega lét hann ekki heldur samherja sína innan Alþýðuflokksins vita af því heldur. Ef marka má Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeim tíma, sem var nánasti samstarfsmaður Jóns Baldvins í formannstíð hans vissi hann ekki af þessu á þeim tíma sem þetta á að hafa gerst. Þetta er því að öllu leyti verulega flókið og undarlegt mál.

Skv. upplýsingum Jóns Baldvins í viðtali í dag stendur hann fullyrðingar sínar þess efnis að tæknimenntaður maður eigi að hafa sagt við sig að skrifborðssími hans í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraður. Hann segist í gær hafa fengið staðfestingu þessa eftir að hafa talað við fyrrum yfirmann í tæknideild Landssímans. Þetta er nokkuð kostulegt. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvað gerist núna, heldur hvað gerðist og hvernig á þeim tíma sem upp á að hafa komist. Það er með algjörum ólíkindum að Jón Baldvin hafi ekki gert málið opinbert í utanríkisráðherratíð sinni og ekki heldur gert nánum samstarfsmönnum sínum á stjórnmálavettvangi grein fyrir því.

Jón Baldvin virðist velja morgunþátt Jóhanns Haukssonar sem vettvang uppljóstrana af svo stóru tagi. Í morgun var hann þar aftur að ræða þessi mál af krafti. Ég verð að segja það alveg eins og er fyrir mig að ég undrast framgöngu og talanda Jóns Baldvins. Hví var þetta ekki gert opinbert eða rannsakað fyrir þrettán árum? Við hvað á Jón Baldvin að hafa verið hræddur? Við erum ekki að tala um neinn undirmálsmann í íslenskum stjórnmálum. Jón Baldvin gekk frá tveimur ríkisstjórnum á sínum stjórnmálaferli, bæði ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar árið 1988 og svo hljóp hann á brott frá Steingrími og Ólafi Ragnari árið 1991 er hann gekk til stjórnarsamstarfs með Davíð Oddssyni.

Ef marka má talsmáta Jóns Baldvins segir hann nú frá því að yfirmaðurinn hjá tæknideild Símans eigi að hafa tekið eftir ókunnugum manni í tengigrindarsal Landssímans sem hefði setið þar með hlustunartæki. Yfirmaðurinn eigi að hafa hlustað á þegar að maðurinn skrapp frá og þar hafi hann heyrt samtal Jóns Baldvins við háttsettan mann. Mér finnst þetta svo alvarlegt mál að viðkomandi maður á að koma fram og greina frá því sem hann vissi um og undir nafni auðvitað. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það þarf nú allt að koma fram í þessum efnum. Mér finnst þetta vera svo alvarlegt mál í alla staði að öll atriði verði að koma fram. Það er ekki viðunandi að hafa málið svona.

Eftir stendur að Jón Baldvin sat á þessum upplýsingum með að hafa vitað af síminn eigi að hafa verið hleraður í heil 13 ár. Það er ótrúlega langur tími og með ólíkindum alveg hreint að hann hafi ekkert notað málið sér í hag, t.d. þegar að Alþýðuflokkurinn klofnaði og gekk í gegnum mörg siðferðishneykslismál. Það eru því margar spurningar sem eftir standa. Þeim verður að svara. Undarlegast af öllu er að Jón Baldvin hafi ekki greint neinum samstarfsmanni sínum frá þessu, t.d. ekki forsætisráðherranum og dómsmálaráðherranum. Þetta er svo gríðarlega stórt mál að það er engin heil brú í því að ekki hafi málið verið rætt í valdatíð þessarar ríkisstjórnar fyrir 13 árum.

Í gær gagnrýndi Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, Jón Baldvin og framkomu hans síðustu daga, enda hefði hann ekki rætt málið innan ríkisstjórnarinnar. Það vekur enda athygli t.d. að Jón Baldvin nefndi þetta mál ekki í þrengingunum í kosningabaráttunni 1995 og ekki heldur eftir að Davíð sleit samstarfinu við Alþýðuflokkinn vorið 1995. Það eru því margar spurningar í málinu.

Það er ekki nóg fyrir Jón Baldvin að gefa í skyn að samstarfið hafi verið veikt, enda vita allir að hann íhugaði annað stjórnarmynstur í miðju þessu samstarfi. Það kemur fram í ævisögu Steingríms Hermannssonar. Það verður seint sagt að Jón Baldvin hafi verið neyddur til samstarfs við Davíð. Það var jú Jón Baldvin sjálfur sem tryggði að Davíð varð forsætisráðherra árið 1991.


Ólöf Nordal gefur kost á sér

Ólöf Nordal

Ólöf Nordal, framkvæmdastjóri á Egilsstöðum og formaður sjálfstæðiskvenfélagsins á Fljótsdalshéraði, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það er mjög merkilegt að Ólöf gefi kost á sér, að mínu mati. Hún er fyrsti formaður kvenfélags flokksins fyrir austan og hefur verið mjög öflug í starfinu þar eftir að hún fluttist austur fyrir nokkrum árum.

Ólöf er eiginkona Tómasar Más Sigurðarsonar, forstjóra Fjarðaáls (Alcoa) og dóttir Jóhannesar Nordal, fyrrum seðlabankastjóra.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig staða hennar verður í væntanlegu prófkjöri, en það mun væntanlega verða fyrir lok næsta mánaðar og verða samþykkt á kjördæmisþingi um helgina.

mbl.is Ólöf Nordal stefnir á 2. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarsamkomulag undirritað í Washington

Geir H. Haarde og dr. Condoleezza Rice

Dr. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hafa nú undirritað samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um framtíðartilhögun varna Íslands. Með því er búið að ganga frá öllum lausum endum í þeim málum og ný framtíð tekur við í kjölfarið. Reyndar er hún þegar orðin staðreynd, enda er auðvitað herinn farinn af Miðnesheiði og langri sögu Bandaríkjahers á Íslandi því liðin undir lok. Ég hef ekkert farið leynt með það að mér fannst framkoma Bandaríkjastjórnar við okkur er einhliða var tilkynnt um endalok herstöðvarinnar í mars fyrir neðan allar hellur og ekki þeim til sóma.

Varnarsamningurinn var endaspil í stöðu sem við gátum ekki snúið okkur í vil. Það er bara eins og það er. Ég var ánægður með að heyra skoðun Davíðs Oddssonar, fyrrum forsætisráðherra, á þessu máli í fréttatímanum hjá Stöð 2 í kvöld. Við erum algjörlega sammála. Við áttum ekki að láta bjóða okkur neinn afgang heldur að berja hnefanum í borðið. Það má vel vera að við hefðum ekki fengið neitt betra með því en með því hefðum við getað sýnt okkar rétta andlit. Íslendingar eiga að vera menn til að geta af hörku verið eigin herrar og verið ófeimnir að láta til sín taka. Mér hefur fundist það vera því miður skilningsleysi fyrir okkar þarfir í forsetatíð George W. Bush og svo mikið er víst að ekki hefur verið hlustað neitt á okkar hlið. Þetta varð allavega erfiðara eftir að Davíð hætti.

Það er enginn vafi á því að sá sem ber ábyrgð á framkomunni við okkur er Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mér finnst hann eiga lítið skilið af virðingu úr okkar herbúðum og frekar dapurlegt er nú að sá maður sé enn á ráðherrastóli í Pentagon. Það færi vel á því að Bush léti hann gossa fyrir þingkosningarnar til að reyna að bjarga því sem bjargað verður hjá repúblikönum í erfiðri stöðu núna. Rumsfeld átti reyndar að gossa fannst mér sumarið 2004 þegar að fram komu upplýsingar og síðar sannanir um pyntingar stríðsfanga í Írak. Það var óverjandi mál og þá átti að láta ráðherrann fara. Ég ætla að vona að hann hrökklist frá fyrir lok forsetaferils Bush.

Valgerður Sverrisdóttir og dr. Condoleezza Rice

Mér skilst að Condi Rice ætli að koma til Íslands bráðlega í opinbera heimsókn. Það eru svo sannarlega gleðitíðindi, enda kominn tími til að hún komi hingað og kynni sér stöðu mála. Það hefði betur gerst meðan að viðræðurnar stóðu um varnarmálin. Vissulega eru málefni Íslands lítill dropi í úthafi alþjóðastjórnmála. En það hafa lengi verið vinatengsl með þjóðunum og þau eiga stjórnarherrar vestra að virða meira en gert hefur verið á síðustu þrem árunum. Mér fannst t.d. mjög vandræðalegt fyrir ráðherrana okkar þegar að Condi talaði um Írland en ekki Ísland á viðkvæmum punkti blaðamannafundar hennar og forsætisráðherrans. Allavega mín skoðun.

Ég hef alltaf verið talsmaður vestræns samstarfs, góðs samstarfs Íslands og Bandaríkjanna. Mér finnst það skipta almennt séð miklu máli. En það verður að vera samstarf útfrá gagnkvæmri virðingu, það getur ekki bara verið einhliða úr okkar átt, finnst mér. Það verður aldrei neitt úr neinu sem einhliða telst. Einhliða brot á tvíhliða varnarsamningi sem við urðum vitni að lögðu flein í þetta farsæla samstarf sem tekur tíma að laga. Það verður fróðlegt að fylgjast með samskiptum þjóðanna næstu árin, þann tíma sem George W. Bush á eftir á forsetastóli, en nú styttist óðum í forsetaskipti vestanhafs.

mbl.is Rice þekkist boð Valgerðar um að koma í heimsókn til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reffilegur Árni á prófkjörsskrifstofunum

Árni og Björn

Hef verið að fara yfir vefi prófkjörsframbjóðandanna í Reykjavík. Vel gerðar heimasíður og gaman að sjá hversu vel frambjóðendur standa sig í þessum efnum. Það skiptir verulega miklu máli í dag að vera með góða heimasíðu ætli fólk í prófkjör. Heimasíðu með innihaldi og krafti. Það vill enginn sjá lengur illa uppfærða og lítt hugsaða vefi, þeir eru mun frekar til marks um dugleysi frambjóðandanna en hitt.

Gladdist mjög að skoða myndasíður á vefum Björns Bjarnasonar, Sigurðar Kára og Ástu Möller. Þar eru myndir af frænda mínum, Árna Helgasyni úr Stykkishólmi með frambjóðendunum. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað hann er ern og hress. Árni og móðir mín eru systkinabörn. Hefur mér alla tíð þótt mjög vænt um Árna og metið hann mikils. Hann er landsþekktur fyrir störf sín og flokksstarf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Ennfremur er hann vel þekktur fyrir að vera rómaður bindindismaður.

Árni er 92 ára að aldri – reffilegur og virðulegur heiðursmaður. Hann hefur setið alla landsfundi frá árinu 1944 og vel þekktur innan flokksins. Árni er fæddur og uppalinn á Eskifirði. Flutti hann í Hólminn í upphafi fimmta áratugarins og hefur búið þar síðan. Þangað fluttu ennfremur tveir bræður móður minnar, Kristinn og Guðni Friðrikssynir. Settu þeir ekki síður svip á samfélagið þar en Árni.

Ragnhildur, Ásta og Árni

Voru þeir til fjölda ára allir öflugir í starfi flokksins í bænum og var Ellert Kristinsson, frændi minn, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins um tíma í bæjarstjórn Stykkishólms. Árni var árinu yngri en amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir. Voru þau æskufélagar og hélst vinátta þeirra alla tíð. Það er því gaman að sjá þessar myndir og greinilegt að Árni fylgist vel með stjórnmálunum enn og er vel inn í málum í prófkjörsmálunum.

Birti hérna mynd af Árna með Birni Bjarnasyni og hin sýnir hann með Ástu Möller og Ragnhildi Helgadóttur, fyrrum menntamálaráðherra.

Davíð undrast ummæli Jóns Baldvins

Davíð Oddsson

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum forsætisráðherra, staðfesti í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann hafði enga vitneskju um það fyrr en nú að sími Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðuneytinu eigi að hafa verið hleraður. Fátt hefur meira verið rætt í gær og í dag en utanríkisráðherrann hleraði og síminn og ummæli hans um að hann hefði komist að því að hann væri hleraður snemma á tíunda áratugnum, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs. Áður hefur Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, er var þá dómsmálaráðherra, sagst ekki hafa vitað af þessu fyrr en eftir útvarpsviðtalið.

Eins og ég sagði í skrifum mínum hér fyrr í dag vekur verulega mikla athygli að Jón Baldvin skyldi ekki ræða þessi mál við samstarfsmenn sína í ríkisstjórn. Það að Jón Baldvin hafi talið þetta eðlilegt og viljað halda því fyrir sig kemur ekki heim og saman, hreint út sagt. Það vekur líka mikla athygli að Jón Baldvin skyldi ekki fyrr gera þetta opinbert, heldur tala um þetta á árinu 2006. Honum hefði verið í lófa lagið að gera eitthvað í málinu í utanríkisráðherratíð sinni, þegar að hann var einn valdamesti maður landsins. Mér finnst það alvarlegt mál að Jón Baldvin hafi þagað yfir þessu öll þessi ár og það hlýtur að vekja spurningar um hvort öll sagan sé sögð.

Mér finnst vanta verulega stóran bita í þetta púsluspil Jóns Baldvins satt best að segja. Þetta einhvernveginn kemur ekki heim og saman. Það er allavega enginn vafi lengur á því að Jón Baldvin tjáði sig ekki um þessi mál við samstarfsmenn sína í Sjálfstæðisflokknum innan Viðeyjarstjórnarinnar né heldur gerði hann þetta að umræðuefni í alþingiskosningunum 1995 þar sem að hann barðist fyrir pólitísku lífi sínu, eftir klofninginn innan Alþýðuflokksins, er Jóhanna Sigurðardóttir sótti af krafti gegn sínum gamla flokki og Jóni Baldvin. Uppljóstrun þessa hefði gerbreytt kosningabaráttunni þá. Þetta virðist fyrst nú vera rætt milli manna. Það er stórundarlegt hreint út sagt.

Spurning vaknar um það hvort að Jón Baldvin tjáði samstarfsmönnum sínum innan Alþýðuflokksins á ríkisstjórnarárunum um þessa vitneskju sína. Ég trúi því varla að Jón Baldvin hafi einn byrgt þetta innra með sér öll þessi ár. Hafi þetta fyrst verið rætt manna á milli á vinstrivængnum nú á síðustu dögum vekur það verulega stórar spurningar, mun stærri en nú blasa við. Undarlegt þykir mér að fjölmiðlamenn gangi ekki á eftir Jóni Baldvini með þær vangaveltur hvort Rússarnir hafi kannski hlerað hann, í ljósi þess að hann lagði frelsisbaráttu Eystrasaltsríkjanna mikið lið. Hann fór reyndar til Litháen á þeim tíma og lagði líf sitt í hættu fyrir málstaðinn.

Enn merkilegra er það að Davíð Oddsson segir að símar ráðamanna hafi verið skoðaðir með hugsanlegar hleranir í huga árlega og það af NATO og norsku öryggislögreglunni. Það vekur stórar spurningar. Ekkert nema spurningar vakna í þessum efnum eftir þessa uppljóstrun Jóns Baldvins. Það að hann hafi beðið með að tala um þetta í heil 13 ár er með hreinum ólíkindum. Enn verra er svo að Jón Baldvin ýjar að því að lögreglan hafi hlerað símann. Það eru frekar undarlegar dylgjur í sannleika sagt. En allar hliðar þessara mála verða að fara upp á borðið. Það er svo einfalt.


Mikhail Gorbachev kominn til landsins

Mikhail Gorbachev

Mikhail Gorbachev, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, er nú kominn til landsins til að minnast tveggja áratuga afmælis leiðtogafundar stórveldanna sem haldinn var í Höfða í Reykjavík, 11. og 12. október 1986. Það er stórviðburður að Sovétleiðtoginn fyrrverandi komi til landsins og verður fróðlegt að heyra fyrirlestur hans á morgun í Háskólabíói, þar sem hann fer yfir áhrif fundarins á alþjóðastjórnmál. Það var athyglisvert að sjá viðtal Þóris Guðmundssonar, varafréttastjóra Stöðvar 2 við hann í kvöldfréttum fyrir stundu. Þar ítrekaði hann fyrri ummæli sín um að fundurinn hafi markað þáttaskil í viðræðum um takmörkun kjarnorkuvopna og við endalok kalda stríðsins.

Sagðist Gorbachev að þar hafi komið fram í fyrsta skipti í viðræðum sínum með Ronald Reagan að þeir gæti samið og rætt saman málin með sáttatóni. Þó ekki hafi verið undirritaðir samningar um alheimsfrið eða takmörku kjarnavopna hafi þessi fundur grundvöllur alls sem síðar gerðist í alþjóðastjórnmál, er mörkuðu þáttaskil í heimsmálunum. Kom fram það mat hans að þeir hefðu á fundinum sýnt hugrekki, visku og ábyrgð. Það var fróðlegt að heyra skoðun hans á alþjóðastjórnmálum, einkum í ljósi kjarnorkutilrauna stjórnvalda í Norður-Kóreu hina síðustu daga sem mikið hafa verið í fréttum. Það er greinilegt að hann telur blikur á lofti í þeim efnum.

Leiðtogafundurinn í Höfða haustið 1986 spilar veigamikinn sess í Íslandssögunni og er okkur öllum í minnum hafður sem upplifðu þessa tíma. Persónulega gleymi ég aldrei biðinni á sunnudeginum 12. október 1986, þegar að myndavél Sjónvarps einblíndi í nokkra klukkutíma á hurðarhúninn á Höfða. Fundinum seinkaði og flestir töldu heimssögulegan atburð framundan hér á Íslandi. Það voru vonbrigði þegar að fundinum lauk án samkomulags og margir dæmdu hann misheppnaðan. Þetta voru sögulegir tímar og mjög eftirminnilegir. Útsending Sjónvarpsins á þessum tíma var mjög vönduð, en Ingvi Hrafn Jónsson stóð vaktina með sínu liði á fréttastofu Sjónvarpsins alla helgina.

Í gær var góð umfjöllun um leiðtogafundinn í Kastljósi. Þar fórum við um Höfða undir leiðsögn Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra, en hann var borgarstjóri í Reykjavík þegar að fundurinn fór fram. Fundarstaðurinn var eins og fyrr segir Höfði, sem er móttökuhús Reykjavíkurborgar. Það var margt fróðlegt sem fram kom í spjallinu og áhugavert að heyra hlið Davíðs Oddssonar á þessum sögufræga leiðtogafundi Reagans og Gorbachevs, sem fram fór í litlu húsi í Reykjavík, er varð miðpunktur heimsins helgi eina fyrir tveim áratugum.

mbl.is Mikhaíl Gorbatsjov kominn til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóraembættið á Akureyri

Kristján Þór Júlíusson

Ég hef fengið margar spurningar síðustu daga hvernig verði með bæjarstjóraembættið hér á Akureyri fari svo að Kristján Þór Júlíusson sigri væntanlegt prófkjör flokksins í kjördæminu. Það er erfitt að fullyrða eitthvað um það, fyrr en að loknu prófkjöri. Mér finnst þó felast í yfirlýsingu Kristjáns Þórs að sigri hann prófkjörið muni hann hætta sem bæjarstjóri og halda algjörlega í þingframboðið. Í raun liggur með þessu öllu fyrir endanlega að hann fer ekki aftur í bæjarmálaframboð og hefur sagt skilið við bæjarmálin í raun og veru. Það vissu það í raun allir bæjarbúar þegar í vor að hann yrði ekki bæjarstjóri allt kjörtímabilið og skil væru komin á hans langa bæjarstjóraferil.

Það er vissulega nokkur óvissa í loftinu með stöðuna eins og hún er nú. Mikilvægt er að henni verði eytt sem allra fyrst eða í síðasta lagi eftir prófkjörið, sem verður væntanlega fyrir lok næsta mánaðar. Það hefur aldrei farið okkur vel að ekki sé stöðugleiki yfir. Það hefur þó í mínum huga blasað við um langt skeið að hér yrðu þrír bæjarstjórar á kjörtímabilinu. Þegar er ljóst að Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs, verður bæjarstjóri sumarið 2009 og verður bæjarstjóri því síðasta ár kjörtímabilsins. Það hefur varla þurft skynsaman stjórnmálaspekúlant til að sjá að Kristján Þór yrði vart formaður bæjarráðs eftir þá breytingu.

Við sjálfstæðismenn eigum samkvæmt meirihlutasamningi embætti bæjarstjórans í tæp þrjú ár enn. Það er okkar að taka ákvörðun um nýjan bæjarstjóra á Akureyri fari svo að Kristján Þór Júlíusson verði leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að loknu prófkjöri. Það liggur fyrir eftir viðtal Ríkisútvarpsins við bæjarstjórann að hann muni ekki vera í forystu Akureyrarkaupstaðar áfram liggi fyrir að hann taki sæti á Alþingi. Það hlýtur því að vera með þeim hætti að hann hætti sem bæjarstjóri að loknu prófkjörinu sigri hann það, enda liggur þá fyrir að hann taki sæti á Alþingi.

Í öllu falli munum við skipa embætti bæjarstjórans á næstu þrem árum. Fari svo að pólitísk þáttaskil blasi við Kristjáni Þór á næstu vikum, sem reyndar þegar hafa gerst með þessu þingframboði, mun það verða leyst fljótlega. Við eigum nóg af hæfileikaríku og öflugu fólki sem getur tekið við bæjarstjóraembættinu á Akureyri í okkar umboði. Allt mun þetta því ráðast fljótlega, að mínu mati.


Sigrún Björk, Helgi Vilberg og ég

Læt hérmeð fylgja með mynd frá fulltrúaráðsfundinum á mánudag, sem kemur úr tíufréttum Sjónvarps á mánudagskvöldið. Þarna erum við; Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Helgi Vilberg, ritstjóri Íslendings, og ég.

Svimandi verðmunur milli Íslands og Danmerkur

Mjólkurvörur

Það var sláandi að sjá verðmuninn milli verslunar í Danmörku og hér í Hagkaupsverslun heima á fróni sem fram kom í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi. Sérstaklega er með ólíkindum að sjá muninn t.d. á landbúnaðarafurðum, t.d. kjöt- og mjólkurvörum. Þeir Sölvi Tryggvason og Sighvatur Jónsson eiga hrós skilið fyrir vandaða og góða umfjöllun, sem eflaust fékk marga til að hugsa málið verulega. Þetta var vel gert hjá þeim og umfjöllunin vakti vissulega athygli þeirra sem fara í verslun á hverjum degi og kaupa nauðsynjavörur sínar sláandi hærra verði en gengur og gerist á Norðurlöndunum.

Framundan eru tímamót með lækkun matarskattsins, sem er mikið gleðiefni, en betur má þó ef duga skal. Lít á þetta sem fyrsta stóra skrefið á nokkurra þrepa vegferð til að laga matarverð til þess sem eðlilegt á að teljast. Það er þörf á að ganga lengra, en öll metum við það skref sem nú hefur verið stigið.

Jón Baldvin og hleraði síminn

Jón Baldvin

Um fátt er nú meira talað en utanríkisráðherrann hleraða og símann hans. Eins og fram kom í skrifum mínum hér í gær tel ég þetta stóralvarlegt mál og mikilvægt að það verði kannað nánar. Það er mjög undarlegt mál að svo virðist vera að forsætis- og dómsmálaráðherra á þeim tíma sem Jón Baldvin Hannibalsson komst að því að skrifstofusími hans í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraður hafi fyrst vitað af því í gær, rétt eins og aðrir landsmenn. Það er stóralvarlegt mál að Jón Baldvin hafi fyrst í gær talið nauðsynlegt að deila þessum upplýsingum með okkur öllum. Þetta er eitthvað sem hann átti að opinbera vitneskju sína um þá þegar og hann komst að þessu.

Ég verð að taka undir skoðanir vinar míns, Halldórs Blöndals, fyrrum forseta Alþingis og ráðherra, sem fram komu í góðu viðtali við hann og Steingrím J. Sigfússon, formann VG, í Kastljósi í gærkvöldi. Það er nú orðið ljóst að hvorugur af valdamestu mönnum sem áttu að vita um þetta mál frá upphafi vissu ekki af því fyrr en í gær. Ég botna því ekki í þessu fjölmiðlaútspili Jóns Baldvins og þessa tímasetningu nákvæmlega. Hefði hann ekki átt að tilkynna meðráðherrum um þessa stöðu mála og eða einfaldlega að gera stöðuna opinbera á blaðamannafundi á árinu 1993, ef honum hefði verið full alvara með að opna allar hliðar málsins. Það er greinilegt að ekki er öll sagan sögð nú, tel ég.

Allir vita að Jón Baldvin Hannibalsson var ekki í hávegum hafður hjá Rússum eftir að hann spilaði sögulegt hlutverk í því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna árið 1991. Það varð upphafið að endalokum Sovétríkjanna táknrænt séð, enda vildu allar þjóðirnar standa á eigin fótum eftir að Eystrasaltsríkin komu undir sig fótunum. Voru það Rússarnir sem voru að hlera Jón Baldvin og fylgjast með honum? Stór spurning, en vart óeðlileg í stöðunni sem uppi er. Mér finnst margt vanta enn í þessa sögu eftir að hafa kynnt mér hana betur. Af hverju tilkynnir Jón Baldvin fyrst nú um hleraðan síma fyrir 15 árum? Hví gerði hann ekki samstarfsmönnum í ríkisstjórn grein fyrir þessu?

Fannst líka merkileg saga Halldórs Blöndals í Kastljósinu í gær um að samtal hans og Þorsteins Pálssonar, í forsætisráðherratíð Þorsteins, hafi verið hlerað og Magnús Skarphéðinsson hafi takið samtalið upp og það verið spilað. Þetta er eitt þessara mála sem virka með hreinum ólíkindum og vekja mann til umhugsunar um að opna allt upp á gátt. Það virðist fjarstæða að tala um aðeins eina hlið hlerana og leynistarfsemi sé þessi frásögn og öll hlið hennar rétt er meira þeim megin en bara þetta. Svo leiðist mér mjög einhliða blaður Steingríms J. um að sjálfstæðismenn vilji þegja málið í hel. Veit ekki betur en að Halldór hafi flutt ræðu um daginn og hvatt til þess að allt yrði t.d. opnað.

Finnst þetta undarlegt mál og það væri gott að heyra söguna alla af þessu máli. Mér finnst þetta hálfsögð saga sem heyrist frá utanríkisráðherranum hleraða. Hversvegna í ósköpunum varð þetta ekki að umfjöllunarefni á æðstu stöðum meðan að Jón Baldvin Hannibalsson var einn valdamesti stjórnmálamaður landsins fyrir rúmum áratug. Hví gerir hann þetta að fjölmiðlamáli nú þegar að hann er orðinn rólegheitamaður úti í sveit. Þetta er mjög undarlegt mál og mikil þörf á að allir þættir fari upp á borðið og það rannsakað til fulls. Það hefði átt að gera fyrir þessum 13 árum eiginlega þegar að Jón komst að því að hann var hleraður.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband