Ljóðmæli Helga

Helgi SeljanMóðurbróðir minn, Helgi Seljan, fyrrum alþingismaður, gaf nýlega út ljóðabók sína þar sem eru ýmisleg ljóð úr öllum áttum eftir hann, en hann hefur alla tíð verið mjög hagmæltur og ort talsvert í gegnum tíðina, bæði fyrir og eftir að hann sat á þingi á áttunda og níunda áratugnum fyrir Austurlandskjördæmi.

Hafði virkilega gaman að lesa bókina og fara yfir ljóðin, enda mörg þeirra virkilega falleg og bera vel vitni ást hans til Austfjarða og sum bera vel vitni stjórnmálaskoðunum hans, en hann var snemma vinstrimaður og hefur í áratugi unnið í stjórnmálum, bæði fyrir Alþýðubandalagið og Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

Finnst eitt ljóð sérstaklega fallegt og læt það fylgja hér með:

Friðarbæn

Helgnýr heiminn skekur,
herlúðrarnir gjalla.
Feigðarvofu vekur
vítt um heima alla.
Harm ber fólk í hljóði,
hugsjónirnar víkja.
Vargöld, vígaslóði,
vá og skelfing ríkja.

Hatrið grimma gellur,
geigvænt fylgir stríðum.
Sprengjufjöldi fellur,
feigðarboði lýðum.
Ríkir grimmdin gráa,
gjafi illra verka.
Vei þeim veika og smáa,
valdið er hins sterka.

Máttvana fólk mænir
í myrkrið ógnarsvarta.
Hljóðar bærast bænir
bljúgar innst frá hjarta.
Stríðsins hopi helsi,
hatrið burtu víkir.
Gefist friður, frelsi,
fagurt kærleiksríki.


Hjálmar gefur kost á sér gegn Guðna

Hjálmar Árnason Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sætið á lista flokksins í prófkjöri þann 20. janúar nk. Þar með gefur hann kost á sér gegn Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins, sem er sitjandi leiðtogi flokksins í kjördæminu og hefur leitt framboðslista á Suðurlandi frá árinu 1995 en setið á þingi frá árinu 1987. Þetta hljóta að teljast mikil tíðindi og fróðlegt verður að sjá hvernig prófkjörið fari.

Hjálmar hefur verið alþingismaður Framsóknarflokksins frá árinu 1995, 1995-2003 fyrir Reykjaneskjördæmi og síðan fyrir Suðurkjördæmi. Hann skipaði annað sætið á lista flokksins síðast. Guðni hefur verið sem óskoraður héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi síðan að Jón Helgason, fyrrum dómsmála- og landbúnaðarráðherra, hætti í stjórnmálum árið 1995. Það hlýtur að vera ekki beint sunnlenskum bændahöfðingjum að skapi að Guðni fái mótframboð og sunnlendingar hljóta að passa upp á "sinn mann" enda er Guðni vinsæll til sveita fyrir verk sín.

Það má eiga von á spennandi leiðtogarimmu milli þeirra Guðna og Hjálmars. Nú stefnir reyndar í spennandi prófkjör heilt yfir. Ísólfur Gylfi Pálmason, bróðir Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrum heilbrigðisráðherra og ritara Framsóknarflokksins, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn 1995-2003 en féll af þingi í kosningunum árið 2003 hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér að þessu sinni og helga sig sveitarstjórnarmálum, en hann er sveitarstjóri í Hrunamannahreppi. Það losnar því um varaþingsæti sem nú er og verður spennandi rimma um næstu sæti, en meðal þeirra sem gefið hafa kost á sér eru þjóðfélagsrýnirinn Bjarni Harðarson og Eygló Harðardóttir í Eyjum.

Guðni Ágústsson En menn munu fyrst og fremst fylgjast með leiðtogaslagnum sem verður líflegur. Allir sjá að Guðni mun sækja fram af hörku, enda miklu fyrir hann að tapa missi hann leiðtogastólinn. Heldur verður það nú að teljast ólíklegt að Guðni tapi slagnum en Hjálmar tekur mikla áhættu með sínu leiðtogaframboði, enda hætt við að sunnlendingar kjósi annan en hann í annað sætið.

Það var áfall fyrir Hjálmar að verða ekki ráðherra í vor, enda sitjandi þingflokksformaður en vissulega ekki kjördæmaleiðtogi. Hann hafði reyndar fengið alvarlegt hjartaáfall nokkrum mánuðum fyrr og verið utanþings nokkurn tíma vegna þess. Hjálmar virðist hafa náð sér að fullu og reynir nú að marka sér stöðu sem kjördæmaleiðtogi framsóknarmanna. Það er merkileg ákvörðun í stöðunni.

Aðstoðarmaður Guðna Ágústssonar er Eysteinn Jónsson, sonarsonur Eysteins Jónssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins. Eysteinn yngri er nú leiðtogi Framsóknarflokksins innan A-listans sem er sameiginlegt framboð Framsóknar og Samfylkingar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Hann er því héraðshöfðingi í sveitarfélagi Hjálmars Árnasonar. Fróðlegt er að vita hvorn hann styður. Væntanlega styður hann Guðna, enda aðstoðarmaður en þetta er fróðleg staða sem Eysteinn er í núna fyrir þetta prófkjör.

En þetta verður líflegt prófkjör. Held annars að það sé rétt hjá mér að þetta er í fyrsta skiptið sem Guðni Ágústsson fer í prófkjör á sínum langa stjórnmálaferli.

mbl.is Hjálmar Árnason gefur kost á sér í efsta sætið í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostuleg rimma Björns Inga og Dags

Björn Ingi Hrafnsson Það er ekki hægt að segja annað en að rimma þeirra Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs, og Dags B. Eggertssonar, leiðtoga Samfylkingarinnar í borgarstjórn, í Kastljósi í gær hafi verið hvöss. Þar tókust þeir á með harkalegum orðum og sérstaklega kom Björn Ingi fram með hvössum hætti og tók umræðuna og stýrði henni með mjög áberandi hætti. Mér fannst vissulega merkilegt að horfa á þennan debatt. Langt er síðan við höfum séð annað eins hressilegt rifrildi.

Ég verð þó að viðurkenna að mér fannst Björn Ingi skjóta ansi langt framhjá markinu þegar að hann gerði ráðningu frænda míns, Helga Seljans, sem dagskrárgerðarmanns hjá Sjónvarpinu að umræðuefni í þessu spjalli og beindi sérstaklega sjónum að því. Það er eiginlega ekki hægt annað en gera kröfu til þess að umræðan haldist á aðeins hærra plani en svo að reynt sé að vega að þeim sem stjórna umræðunni og eru að vinna sín verk eftir því sem ritstjóri þáttarins hlýtur að leggja línur með. Auk þess finnst mér þetta ekki vera hluti málsins.

Ég hef ekki heyrt mikið um skoðanir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokkins og eða borgarstjórans í Reykjavík um þessi ráðningarmál framsóknarmanna. Er svolítið hissa á fjölmiðlamönnum að heyra ekki úr þeirri áttinni, tja nema að engin séu viðbrögðin. Annars finnst mér margt í þessum ráðningum vekja upp spurningar og skil vel að deilt sé á vinnulagið. Það sem mér fannst merkilegast í gærkvöldi var að heyra leiðtoga Framsóknarflokksins í borgarstjórn tala við Dag um verk hans manna í fyrri meirihluta. Síðast þegar ég vissi var Framsóknarflokkurinn hluti af þeim liðnu tímum, enda hefur hann verið samfellt í meirihluta einn flokka nú frá árinu 1994 til dagsins í dag. R-listinn hefði t.d. aldrei náð völdum í borginni nema vegna þess að Framsókn lagði þar hönd á plóg.

Guðfinna S. Bjarnadóttir, verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi rektor Háskólans í Reykjavík, hefur nú svarað með hvössum hætti ummælum Björns Inga um kennaratign Dags Eggertssonar við Háskólann í Reykjavík. Þar talar hún auðvitað með allt öðrum hætti og félagi hennar í væntanlegri framboðssveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, á vef sínum í gærkvöldi. Skiljanlegt er að hún vilji verja heiður HR í þessari stöðu, en auðvitað vakna þó margar spurningar um aðkomu Dags að HR eins og staðan er.

En heilt yfir er þetta ekta meirihluta- og minnihlutaumræða um ráðningar. Það er svosem ekkert nýtt, en þetta var óvenjuhvasst vissulega í Kastljósi í gær. Það er svosem varla furða að minnihlutinn í borginni reyni að sprikla eitthvað í þeirri stöðu sem við þeim blasir.

mbl.is Forsvarsmenn HR gagnrýna formann borgarráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðagangur í flokksblaði Framsóknar

FramsóknÞað er ekki hægt að segja annað en að vandræðagangur einkenni blað Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi þar sem frambjóðendur í kjördæmaforvali flokksins í janúar eru kynntir. Hjörleifur Hallgríms, fyrrum ritstjóri Vikudags hér á Akureyri, sem sækist eftir þriðja sæti á lista flokksins keypti forsíðuauglýsingu blaðsins sem þekur nær alla forsíðuna. Er varla við öðru að búast en að öðrum frambjóðendum misbjóði þetta, enda varla sitja frambjóðendurnir 22 í forvalinu við sama borð. Eftir því sem ég hef heyrt er mikil reiði og gremja með þessa auglýsingu meðal framsóknarmanna.

Það hefði eflaust heyrst eitthvað mjög hátt hljóð úr horni hefði slíkt gerst í frambjóðendablaði okkar sjálfstæðismanna í bæjarprófkjörinu hér á Akureyri í febrúar og eða í frambjóðendablaðinu sem gefið var út fyrir kjördæmisprófkjör Sjálfstæðisflokksins nú í nóvember. Þess var enda sérstaklega gætt innan Sjálfstæðisflokksins og vel stýrt af Önnu Þóru Baldursdóttur, formanni kjörnefndar í báðum prófkjörunum, að allir frambjóðendur hefðu jafnmikið pláss og meira að segja var þess gætt að æviágrip eins frambjóðenda væri ekki lengri en annarra. Vissulega höfðu þó 20 frambjóðendur hér á Akureyri mun minna pláss til umráða en 9 frambjóðendur í kjördæmisprófkjörinu.

Hjörleifur Hallgríms græðir varla mikið á svona vinnubrögðum en enn undarlegra er að blaðstjórn hafi samþykkt þessa auglýsingu. Þetta er eins vandræðalegt og frekast getur verið. Annars er Hjörleifur þekktur af undarlegum vinnubrögðum og kostulegu verklagi. Þegar að hann var ritstjóri Vikudags var hann vanur að láta þá sem ekki vildu dansa eftir duttlungum hans og dyktum fá það óþvegið á síðum Vikudags, en sem betur fer hafa heiðarlegri og betri vinnubrögð verið tekin þar upp eftir að hann hætti að gefa út blaðið og nýjir eigendur tóku við því. Það er allavega allt annað að lesa blaðið eftir þessar breytingar.

Frægt varð þegar að Hjörleifur sendi föðurbróður mínum, Guðmundi Ómari Guðmundssyni, formanni Félags byggingarmanna í Eyjafirði og fyrrum bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins á Akureyri og formanns Framsóknarfélags Akureyrar, kaldar kveðjur í apríllok 2005. Í blaðinu þá átti að vera auglýsing frá fjórum stéttarfélögum vegna verkalýðsdagsins 1. maí. Neðst í auglýsingunni þar sem Félagi byggingamanna var boðið að auglýsa, en afþakkaði pent, stóð orðrétt: "Hér átti að vera kveðja frá félagi byggingamanna, Eyjafirði, en er ekki að sinni því Guðmundur Ómar formaður er í fýlu við ritstjóra Vikudags.".

Það var vissulega svo að félagið auglýsti ekki í blaðinu vel á annað ár í ljósi þess að því þótti umfjöllun blaðsins um visst mál á sínum tíma vera köld kveðja í sinn garð. Það var enda auðvitað þess en ekki annarra hvort það auglýsti í sínu nafni. Þessi vinnubrögð ritstjórans voru mjög barnaleg. Það var enda með hreinum ólíkindum að þau félög sem þó borguðu hlutdeild í verkalýðsauglýsinguna hafi verið boðið upp á svona aðför að Mugga og félaginu sem hann stýrir. Þetta voru ómerkileg og lúaleg vinnubrögð sem ritstjóri þessa blaðs viðhafði og til vitnis vinnubrögðum hans.

Áður hafði þetta blað bæði sent mér persónulega og því flokksfélagi innan Sjálfstæðisflokksins sem ég var formaður í nokkur ár hörð skot og fjallaði með kostulegum hætti almennt um mörg málefni í bæjarlífinu. Ég vona að framsóknarmönnum á Akureyri og víðar beri gæfa til að hafna Hjörleifi og kjósa Höskuld Þórhallsson í þriðja sætið á lista flokksins. Þar fer framtíðarmaður fyrir Framsókn hér á þessu svæði, það mun svo sannarlega Hjörleifur fyrrnefndur ekki verða.


Tilnefningar til Golden Globe-verðlaunanna kynntar

Golden Globe Tilnefningar til Golden Globe-verðlaunanna voru tilkynntar í Los Angeles í dag. Mikla athygli vekur að kvikmynd Alejandro González Iñárritu, Babel, hlaut flestar tilnefningar, einni fleiri en The Departed í leikstjórn Martin Scorsese. Clint Eastwood hlaut tvær leikstjóratilnefningar; fyrir Flags of our Fathers og Letters From Iwo Jima, en hvorug þeirra var þó tilnefnd sem besta kvikmyndin í flokki dramatískra kvikmynda. Breska leikkonan Helen Mirren er tilnefnd til þriggja leikverðlauna og virðist nær örugg um sigur í dramaflokknum fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu.

Kvikmyndin Dreamgirls hefur verið að fá mikið lof vestanhafs og er tilnefnd til fimm verðlauna; þ.á.m. fyrir leik Eddie Murphy, Beyonce og svo auðvitað Jennifer Hudson, sem þykir senuþjófur myndarinnar og er nær örugg um sigur í sínum flokki. Hudson féll úr keppni í American Idol árið 2004 en er nú þegar orðin frægari en allir keppendurnir sem urðu fyrir ofan hana í keppninni. Kvikmyndin Borat er tilnefnd í flokki gamanmynda og söngleikja og Sacha Baron Cohen er tilnefndur sem besti leikari í þeim flokki. Góð tíðindi það. Kvikmyndin Little Miss Sunshine fékk fjölda tilnefninga og aðalleikkona myndarinnar, Toni Collette, hlaut tvær leiktilnefningar.

Leonardo DiCaprio er tilnefndur fyrir tvö hlutverk í dramaflokknum; í Blood Diamond og The Departed. Flest þykir þó benda til að Forest Whitaker vinni verðlaunin fyrir frábæra túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland. Gamla brýnið Peter O'Toole fær tilnefningu fyrir comeback-ið sitt í myndinni Venus og fróðlegt verður að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu í janúar. Hann hefur enda eins og flestir vita hlotið átta óskarstilnefningar nú þegar en aldrei unnið. Hann fékk hinsvegar heiðursóskar árið 2003. Warren Beatty mun fá Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin á Golden Globe þetta árið.

Bendi annars á tilnefningar til Golden-Globe verðlaunanna. Verðlaunin verða afhent í 64. skipti í Los Angeles þann 15. janúar nk.


mbl.is Babel með flestar tilnefningar til Golden Globe verðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Johnson í lífshættu - demókratar óttast hið versta

Tim Johnson Öldungadeildarþingmaðurinn Tim Johnson liggur milli heims og helju eftir heilaskurðaðgerð á sjúkrahúsi í Washington í morgun. Falli hann frá munu repúblikanar halda völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings, enda myndi fráfall hans leiða til þess að repúblikaninn Mike Rhodes, ríkisstjóri í S-Dakóta, myndi velja eftirmann hans í deildinni, sem myndi sitja til næstu kosninga. Búast má við að yfirlýsing verði gefin út frá spítalanum á hverri stundu um eðli veikinda hans, en CNN segir að heilsu hans hafi hrakað mjög síðustu klukkustundirnar.

Demókratar óttast nú hið versta og til marks um það fór Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, sem á að öllu eðlilegu að verða meirihlutaleiðtogi í þingdeildinni þann 3. janúar, á sjúkrahúsið síðdegis í gær og var þar langa stund með fjölskyldu þingmannsins. Við öllum blasir að það mun velta á heilsu Johnsons hvort demókratar geta tekið við völdum í öldungadeildinni. Nái hann ekki heilsu mun koma til þess að Dick Cheney, varaforseti, fái oddaatkvæðið í öldungadeildinni þar sem eftir er af forsetaferli George W. Bush, fram til janúarmánaðar 2009.

Það verður mjög fylgst með heilsu Tim Johnsons, enda velta valdahlutföll í valdameiri þingdeild Bandaríkjaþings á því hvort hann heldur heilsu eður ei. Tim Johnson hefur setið í öldungadeildinni frá árinu 1996 og var endurkjörinn í kosningunum 2002. Johnson verður sextugur síðar í þessum mánuði. Hann greindist með krabbamein árið 2004 en náði sér af því. Eiginkona hans hefur tvívegis verið greind með krabbamein.

Svikalogn í Frjálslynda flokknum

Frjálslyndir Forystumenn innan Frjálslynda flokksins hafa samið nokkurra vikna vopnahlé en varla er hægt að kalla það friðartal annað en svikalogn. Það stefnir í harðvítug valdaátök innan flokksins í næsta mánuði. Merkilegustu tíðindi svokallaðs sáttafundar innan miðstjórnar flokksins sem fram fór á Kaffi Reykjavík var að Margrét Sverrisdóttir, tekur sér launað leyfi sem framkvæmdastjóri en sinnir engu að síður undirbúningi flokksþingsins.

Allar líkur eru á því að Margrét gefi kost á sér til formennsku í Frjálslynda flokknum og sögusagnir ganga um að hún hafi jafnvel í hyggju að gefa kost á sér í fyrsta sætið á framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi og sækist því eftir að steypa Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins, sem leitt hefur flokkinn fyrir vestan allt frá stofnun, fyrst í Vestfjarðakjördæmi árið 1999 og svo í Norðvesturkjördæmi árið 2003. Öruggt er að Margrét gefi bæði kost á sér til formennsku og varaformennsku tapi hún fyrir Guðjóni.

Greinilegt er á öllu að Guðjón Arnar og Magnús Þór Hafsteinsson hafa myndað bandalag sín á milli um að styðja hvorn annan og reyna að verjast atlögu Margrétar Sverrisdóttur að þeim á flokksþinginu. Það stefnir í hörkuátök og þetta svikalogn er aðeins sett á til að settla málin yfir hátíðirnar og reyna að lægja helstu öldur innan flokksins sem stofnunar. Eftir stendur trúnaðarbrestur og hörð átök milli arma í Frjálslynda flokknum. Við öllum blasir að heift er undir niðri og tal Margrétar og Magnúsar Þórs síðustu vikuna sannfæra menn um það umfram allt annað. Sérstaklega vöktu ummæli Magnúsar Þórs athygli í gær, en hann sagðist þar ekki víkja fyrir Margréti.

Margrét er greinilega farin af stað á fullu. Við blasir að eitthvað er plottað bakvið tjöldin. Öllum er ljóst að flokksþing Frjálslyndra í næsta mánuði verður vettvangur lykilátaka um forystusveit flokksins og þar verður kosið um áherslur í starfinu, ekki bara persónur væntanlega. Mesta athygli stjórnmálaáhugamanna nú vekur hvaða tímapunkt Margrét Sverrisdóttir muni velja til að tilkynna formlega um framboð sitt til forystu í flokknum. Sennilega verður það frekar fyrr en seinna, eins og sagt er.

mbl.is Sátt um að Margrét fari í leyfi fram að landsþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ná demókratar ekki völdum í öldungadeildinni?

Tim JohnsonTim Johnson, öldungadeildarþingmaður demókrata í S-Dakóta, liggur lífshættulega veikur á sjúkrahúsi í Washington eftir að hafa veikst snögglega í gær og sögusagnir sem CNN hefur greint frá segja að hann muni gangast undir heilauppskurð eftir örfáa klukkutíma. Geti Johnson ekki tekið sæti á þingi mun Michael Rounds, ríkisstjóri í S-Dakóta, skipa nýjan þingmann fylkisins fram til þingkosninganna 2008. Rounds er repúblikani og myndi því skipa repúblikana í þingsætið.

Mikið er í húfi fyrir demókrata í þessari stöðu í ljósi lífshættulegra veikinda Johnsons. Fjarvera hans frá þingstörfum mun snúa öldungadeildinni aftur yfir til repúblikana, enda hafa repúblikanar 49 þingsæti eftir þingkosningarnar fyrir rúmum mánuði en demókratar og samherjar þeirra hafa 51 þingsæti. Formleg valdaskipti eiga að verða í öldungadeildinni þann 3. janúar nk. er kjörtímabili fráfarandi þings lýkur formlega.

Fari svo að repúblikani myndi taka sæti Johnsons í öldungadeildinni er Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, kominn þar með oddaatkvæðið og Bush-stjórnin heldur því velli í þingdeildinni. Bandarískir fjölmiðlar velta mikið fyrir sér heilsu Johnsons, sem eðlilegt er í ljósi þess að um er að tefla yfirráðin yfir öldungadeildinni. Athygli vekur hvað lítið var sagt um veikindi þingmannsins opinberlega í gærkvöldi en nú hefur verið staðfest að hann berst fyrir lífi sínu.


mbl.is Bandarískur öldungadeildarþingmaður fær heilablóðfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Hillary Clinton að missa tökin á stöðunni?

Hillary Rodham Clinton Eftir sigurför þeldökka þingmannsins Barack Obama til New Hampshire er nú um fátt meira rætt vestanhafs en hvort hann fari í forsetaframboð fyrir demókrata í kosningunum 2008. Fram til þessa hefur það verið metið nær öruggt að Hillary Rodham Clinton yrði frambjóðandi flokksins árið 2008 og myndi eiga auðvelt með að næla í útnefninguna í forkosningum Demókrataflokksins. En það er ekki tekið út með sældinni að vera lengi í forystu svona kapphlaups og það getur snúist upp í öndverðu sína er á hólminn kemur að lokum.

Fyrir forsetakosningarnar 2004 var mikið skorað á Hillary Rodham Clinton að gefa kost á sér gegn George W. Bush. Þá hefði hún getað snúið allri samkeppni upp bara með því að blikka augunum til flokksmanna. Hillary fór ekki fram enda vildi hún standa við loforð til íbúa í New York um að klára kjörtímabil sitt. Hún var hyllt sem sigurhetja væri á flokksþinginu í Boston árið 2004 og þau hjónin voru stjörnur þingsins þar sem krýna átti John Kerry sem forsetaefni flokksins í heimaborg sinni. Stjörnumáttur þeirra var þar yfirgnæfandi allt þingið, þó sérstaklega væri gætt upp á að þau kæmu saman fram bara fyrsta þingdaginn.

Það verða mikil tíðindi ef Hillary færi fram eins og staðan er orðin nú og myndi tapa fyrir t.d. Barack Obama eða einhverjum öðrum, enn hefur t.d. Al Gore, varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Clintons 1993-2001 og forsetaefni flokksins árið 2000, ekki enn gefið upp hvort hann fari fram og hann hefur ekki enn sagt nei við þeim spurningum. Það má telja það svo að Hillary fari ekki fram nema telja sig örugga um útnefninguna og lykilstuðning um allt land. Líkur á því eru að minnka umtalsvert. Fari Obama fram verður útséð um að hún geti unnið stórt. Obama er enda þingmaður Illinois og eins og flestir vita er Hillary fædd þar og uppalin og bjó þar til fjölda ára, en varð síðar ríkisstjórafrú í Arkansas og er nú þingmaður New York.

Eins og ég benti í bloggfærslu hér neðar á síðunni var sigurför Obama til New Hampshire svo áberandi að hún er borin saman við það þegar að John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, kom þangað fyrir hálfri öld og lagði grunninn að lykilsigri sínum þar sem markaði hann sem forsetaefni demókrata og það sem tók við í sögulegum forsetakosningum sama ár þar sem hann lagði Richard M. Nixon, sitjandi varaforseta, að velli. Obama þykir hafa sjarmann og útgeislunina sem Kennedy hafði og virðist maður nýrra tíma meðal demókrata, ekki ósvipað því sem Bill Clinton var á sínum tíma. Fram að þessu hefur Hillary þótt stjarna á sviði flokksins. En er Hillary búin að missa sinn sjarma? Er hún að missa tökin á stöðunni? Þetta eru stórar spurningar óneitanlega.

Hillary hlýtur að hugsa málin vel næstu vikurnar um hvort hún fari fram. Varla fara bæði Hillary og Obama fram eins og staðan er. Margir hafa nefnt að sterkt væri að þau yrðu leiðtogapar flokksins. Það hefur hinsvegar breyst, enda hefur staða Obama styrkst mjög síðustu vikurnar og hann virðist geta komist langt án allrar hjálpar. Við þetta hljóta Clinton-hjónin að vera hrædd, enda hefur Hillary verið markaðssett sem stjarna flokksins og með hinn fullkomna pólitíska maka sér við hlið. Þær sögusagnir ganga svo að Clinton forseti gæti orðið varaforsetaefni eiginkonu sinnar. Það er ekkert í lögum sem bannar það, en sögulegt yrði það næði Hillary útnefningunni.

Það eru spennandi forsetakosningar framundan í Bandaríkjunum. Þetta verða fyrstu forsetakosningarnar frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti eru í kjöri og miklar breytingar blasa við Repúblikanaflokknum rétt eins og Demókrataflokknum. Repúblikanamegin stefnir flest í uppgjör Rudolph Giuliani og John McCain og ljóst er að hasar verður hjá demókrötum. Nú eru allra augu á Hillary og Obama, fleiri spá þó væntanlega í stöðu Hillary og fróðlegt að sjá hvernig hún spilar út næstu leiki í stöðunni í kjölfar sterkrar stöðu Barack Obama.

Peter Boyle látinn

Peter Boyle Jæja, þá er hörkutólið og leikarinn Peter Boyle fallinn frá, 71 árs að aldri. Hann átti að baki litríka ævi og stórbrotinn leikferil, sem markaðist af ólíkum og fjölbreyttum hlutverkum. Mín kynslóð og þær yngri munu sjálfsagt minnast hans helst sem fjölskylduföðurins Frank Barone í Everybody Loves Raymond. Svo mikið er nú víst að stórleikur hans og hinnar stórbrotnu Doris Roberts í hlutverkum Barone-hjónanna settu svip sinn á þáttinn allt þar til yfir lauk. Það var reyndar kaldhæðnislegt að hann fékk aldrei Emmy fyrir að leika Barone, en tilnefndur sjö sinnum.

Persónulega fannst mér hann bestur í sínu fyrsta stjörnuhlutverki, sem skrímslið í eðalmynd Mel Brooks Young Frankenstein. Það er stórfengleg kvikmynd sem ég passa mig á að sjá reglulega, enda með betri myndum Brooks, sem ég hef alltaf haft virkilegt dálæti á. Húmor hans og myndir hitta alltaf í mark. The Young Frankenstein hefði ekki orðið nema svipur hjá sjón án Boyle og svo auðvitað Gene Wilder og Marty Feldman sem áttu þar ekki síðri stórleik. Hans fyrsta var reyndar Joe árið 1970 og hún er enn í dag mjög góð.

Peter Boyle átti svo auðvitað stjörnuleik í kvikmyndinni The Candidate árið 1972, en þar lék hann Marvin Lucas, kosningastjóra forsetaframbjóðandans Bill McKay (sem leikinn var af Robert Redford). Rock solid eðalmynd sem vert er að mæla með og þeir sem hafa áhuga á pólitískum fléttum og pælingum verða svo sannarlega að sjá hana. Ekki má svo gleyma tímamótamyndinni Taxi Driver frá árinu 1976 en þar lék Boyle leigubílstjóra og félaga Travis Bickle (meistaraleg túlkun hjá Robert De Niro). Það verður enginn kvikmyndaáhugamaður að fullu fyrr en hann hefur sest niður og horft á þá snilld sem Taxi Driver er.

Ekki má gleyma Johnny Dangerously, einni af þessum gamanmyndum sem allir verða að sjá, en þar fór Boyle á kostum sem gengisforinginn svipmikli Jocko Dundee. Í Malcolm X (sögu blökkumannaleiðtogans sem var myrtur árið 1965 en í myndinni túlkaður stórfenglega af Denzel Washington) lék hann lítið en eftirminnilegt hlutverk kapteins Green. Hann var svo auðvitað réttur maður á réttum stað í The Santa Clause árið 1994 sem Herra Whittle. Ox Callaghan gleymist engum í túlkun Boyle sem séð hafa While You Were Sleeping og Boyle var flottur sem Buck Grotowski í Monster´s Ball. Svona mætti lengi telja er litið er yfir feril hans.

Síðast en ekki síst verður að telja upp túlkun hans á Clyde Bruckman, sem setti svip sinn á hina frábæru sjónvarpsþætti The X-Files, en Boyle fékk Emmy fyrir þá túlkun sína. Peter Boyle kvæntist Loraine Alterman árið 1977. Hún var blaðamaður á tónlistartímaritinu Rolling Stone er þau kynntust. Í gegnum hana kynntist Boyle hjónunum Yoko Ono og John Lennon. Lennon varð svaramaður Boyles í brúðkaupi hans og Alterman árið 1977 og vinskapur þeirra var mjög mikill, allt þar til yfir lauk, en 26 ár eru nú liðin frá því að Lennon var myrtur í New York. Boyle og Alterman áttu tvær dætur.

Boyle var mjög heilsulaus í seinni tíð. Hann fékk heilablóðfall árið 1990 og missti þá málið í nokkra mánuði. Hann byggði sig upp í að leika aftur. Árið 1999, við tökur á Everybody Loves Raymond, fékk hann hjartaáfall en hélt aftur til starfa við þættina eftir stutta sjúkrahúslegu. Nýlega greindist Boyle með beinmergskrabbamein en hann lék allt fram í andlátið.

mbl.is Leikarinn Peter Boyle látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán Jón fer til Namibíu

Stefán Jón Hafstein Það eru mikil tíðindi að Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi, ætli að hvíla sig á pólitíkinni og halda til verka í þróunarmálum í Namibíu. Hefur hann verið ráðinn til verksins í tvö ár og tekur því leyfi frá pólitískum verkefnum fyrir Samfylkinguna og Reykjavíkurborg þann tíma og tekur  Oddný Sturludóttir sæti Stefáns Jóns í borgarstjórn því næstu tvö árin.

Það var mikið áfall fyrir Stefán Jón að verða þriðji í prófkjöri Samfylkingarinnar í febrúar, á eftir Degi B. Eggertssyni og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, enda var hann leiðtogi Samfylkingarinnar innan R-listans kjörtímabilið 2002-2006 og formaður borgarráðs hluta síðasta kjörtímabils. Það var honum ennfremur áfall að verða ekki borgarstjóri eftir afsögn Þórólfs Árnasonar vegna olíumálsins fyrir tveim árum.

Mér finnst það flott hjá Stefáni Jóni að skipta um gír og verkefni. Það er hressandi fyrir alla að breyta til og stokka upp líf sitt og verkefnin sem þeir sinna. Ég vona að Stefáni Jóni gangi vel í nýjum verkefnum sínum í Namibíu. Það er þarft og gott verkefni sem hann fer út til að sinna og ég held að hann muni standa sig vel þar.

mbl.is Stefán Jón Hafstein ráðinn verkefnastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Namibíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörkulesning í ákæru á hendur olíuforstjórunum

OlíufélöginÞað er mjög athyglisvert að lesa ákæru Boga Nilssonar, ríkissaksóknara, á hendur olíuforstjórunum þremur á tímum samráðsins margfræga. Það er hörkulesning og athyglisverð, svo ekki sé nú meira sagt. Forstjórarnir eru ákærðir sem persónurnar á forstjórastóli, en ekki olíufélögin sem slík, en mörg þeirra hafa skipt um eigendur á síðustu árum og eigendahópar allt öðruvísi samansettir nú en á þeim tíma sem ákært er fyrir í tilfelli forstjóranna.

Ákært er fyrir samráð við gerð tilboða sem varða meðal annars Innkaupasamband Reykjavíkurborgar, Ríkiskaup og Útgerðarfélag Akureyringa, lögregluna og Vestmannaeyjabæ. Ákæran tekur líka til skiptingar markaðar. Það varðar sölu á eldsneyti á Reykjavíkurflugvelli og til erlendra skipa. Í ákærunni eru tilgreind bréfskipti þar sem starfsmenn félaganna ráða ráðum sínum og úthluta félögunum einstökum svæðum.

Hvet alla lesendur til að lesa ákæruna á hendur forstjórunum þrem. Hörkulesning það.


mbl.is Olíufélögin dæmd til að greiða bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuforstjórar á tímum samráðsins ákærðir

Olíufélög Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, hefur gefið út ákæru á hendur Kristni Björnssyni, fyrrum forstjóra Skeljungs, Einari Benediktssyni, forstjóra OLÍS, og Geir Magnússyni, fyrrum forstjóra ESSO. Þeir voru forstjórar olíufélaganna á tímum samráðsins fræga og hafa verið umdeildir vegna þess í huga þjóðarinnar. Ákæra á hendur þeim eru stórtíðindi í málinu, en varla neitt sem kemur að óvörum í ljósi þeirra afbrota sem þeir eru sakaðir um að hafa staðið að á sínum ferli í forystu þessara fyrirtækja.

Gögn í málinu virðast mjög ljós í þá átt að olíufélögin þrjú hafi haft með sér mikið samráð á tímabilinu 1993-2001, eða þar til Samkeppnisstofnun hóf formlega rannsókn sína með því að fara inn í fyrirtækin og afla sér gagna um málið. Fram hefur komið að forstjórar olíufélaganna hafi hist oft á fundum og hafi þar m.a. rætt um væntanleg útboð. Þar hafi jafnframt verið teknar ákvarðanir um hvernig framlegð af viðskiptum yrði skipt á milli félaganna, þannig að það félag, sem fengi viðskipti, greiddi hinum fyrirtækjunum samkvæmt ákveðnu skiptahlutfalli.

En þetta eru tímamót sem verða í dag og það mun svo sannarlega verða athyglisvert að fylgjast með framhaldi þess.

mbl.is Þrír einstaklingar ákærðir vegna samráðs olíufélaganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föðurlegar ráðleggingar til Árna Johnsen

Árni Johnsen Árna Johnsen eru sendar föðurlegar ráðleggingar í dag um að draga þingframboð sitt í Suðurkjördæmi til baka í Staksteinum Morgunblaðsins. Allir sem lesið hafa þennan vef hafa tekið eftir skrifum um mál Árna og ég hef farið yfir skoðanir mínar á pólitískri endurkomu Árna, sem ég tel verulega óheppilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn í ljósi sérstaklega ummæla hans fyrir mánuði þar sem engin iðrun á lögbrotum kom fram. Það leikur enginn vafi á því að þau ummæli og framganga Árna hafi skaðað Sjálfstæðisflokkinn og muni gera enn meir verði af framboði hans.

Enn er ég að fá tölvupóst frá fólki, flestu sem ég hef aldrei hitt eða rætt við augliti til auglitis, sem er að lýsa yfir stuðningi við skrifin hér og minna mig á að ég er ekki einn þeirra skoðana innan Sjálfstæðisflokksins sem ég hef bent á. Það er ánægjulegt, viðbrögðin voru miklu meiri en mig óraði fyrir og það er gleðiefni að heyra skoðanir annarra á skrifunum hér og fara yfir þessi mál. Það er fátt betra en að heyra skoðanir þeirra sem lesa skrifin á því sem þar kemur fram og svo auðvitað fara betur yfir grunn skrifanna. Þetta er mál sem skiptir marga greinilega talsverðu máli.

Ég efast ekki um að Árni eigi margt sér ágætt og ég hef svosem kynnst því að hann hefur margt gott gert fyrir Eyjamenn og ég skil vel að þeir styðji hann. Hinsvegar verðum við að horfa á málin í víðara samhengi en bara því hvað dugar einum manni. Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn ekki hafa efni á þessu framboði satt best að segja við þessar aðstæður og stend því auðvitað við fyrri orð. Það er fróðlegt að lesa Staksteina og fara yfir þau ummæli sem þar koma fram. Þau eru sérstaklega athyglisverð í ljósi tengsla Árna Johnsen við Morgunblaðið. Mér órar varla fyrir öðru en að þar haldi Styrmir Gunnarsson sjálfur á penna. Í því ljósi verða þessir Staksteinar enn merkilegri. Ekki má reyndar gleyma veseninu sem Árni kom Mogganum í árið 2001.

Það styttist í að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi velji framboðslista sinn formlega. Vettvangur þess er kjördæmisþing flokksins. Það verður haldið eftir jólin, í janúarmánuði. Þar gætu stór tíðindi orðið. Sögusagnir eru um að fleiri tillögur um skipan listans komi fram á þinginu og jafnvel verði tillaga um að Kjartan Ólafsson, alþingismaður, sem varð þriðji í prófkjörinu verði borinn fram í annað sætið til höfuðs Árna. Fleiri sögur ganga um breytta uppstillingu á þinginu sem í bígerð sé. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á þessu kjördæmisþingi. Þar ræðst vilji hins almenna flokksmanns í kjördæminu um skipan listans.

Verði Árni annar eftir kjördæmisþingið verður listinn að fara fyrir miðstjórn og hún því að staðfesta Árna formlega sem frambjóðanda flokksins. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hlutirnir þróast næstu vikurnar í þessu máli. Skrif Moggans í dag eru allavega athyglisverð, svo ekki sé nú meira sagt.

Mun Barack Obama slá út Hillary Clinton?

Barack Obama Barack Obama kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kjörinn í öldungadeildina. Tveim árum síðar er um fátt meira talað en að hann fari í forsetaframboð. Í vikunni fór Obama til New Hampshire, þar sem fyrstu forkosningar vegna forsetakosninganna 2008 fara fram eftir rúmt ár, og fékk gríðarlega sterkar viðtökur. Margir segja að pólitísk stjarna sé komin til sögunnar.

Segja má að Barack Obama sé að fá mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hefur fengið í New Hampshire á þessum tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir hálfri öld. Það er ekki undarlegt að þessar sterku viðtökur og kraftur sem einkennir könnunarleiðanur Obama veki honum von í brjósti á sama tíma og uggur hlýtur að einkenna Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmann og fyrrum forsetafrú, og stuðningsmenn hennar.

Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni árið 2008, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og margir horfa sífellt meir og lengur í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði mikil þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.

Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton fyrir einum og hálfum áratug er hann komst í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum. Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu.

Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja. Spenna virðist komin upp meðal demókrata og núningur virðist orðinn milli Obama og Hillary. Bíða flestir nú eftir formlegri ákvörðun hinnar þeldökku vonarstjörnu, sem enn liggur undir feldi að hugsa málin og ætlar að gefa málinu frest fram yfir jólin og gefa upp ákvörðun í janúar.

Það yrðu stórtíðindi færi hann fram og myndi tryggja líflega baráttu um það hver yrði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum eftir tvö ár.

Menntasetur Samfylkingarinnar á Bifröst

Ágúst Einarsson Það eru nokkuð merkileg tíðindi að Ágúst Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands og fyrrum alþingismaður, hafi verið ráðinn rektor Háskólans á Bifröst. Ekki er nema von að gárungarnir séu farnir að nefna skólann á Bifröst menntasetur Samfylkingarinnar, enda ekki hægt að segja annað en að þar séu fyrrum stjórnmálamenn Samfylkingarinnar og forvera hennar mjög áberandi.

Skipan Ágústs í rektorsstöðu á Bifröst gerist innan við tveim árum eftir að hann tapaði fyrir Kristínu Ingólfsdóttur í rektorskjöri í Háskóla Íslands. Ágúst var með öfluga baráttu fyrir rektorsembættinu á sínum tíma og opnaði vefsíðu þar sem hann kynnti áherslur sínar og verk með áberandi hætti. Tap Ágústs í kjörinu var honum mikið áfall, en hann hefur verið prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans frá árinu 2000.

Ágúst var virkur stjórnmálamaður til fjölda ára áður en hann hélt til starfa í Háskólanum. Hann var tvívegis alþingismaður; 1978-1979 fyrir Alþýðuflokkinn og 1995-1999 fyrir Þjóðvaka, flokk Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann gaf kost á sér fyrir Samfylkinguna í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 en náði ekki öruggu þingsæti í prófkjöri og féll af þingi í kosningunum. Ágúst var fyrsti formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 1999-2001 en hætti sem slíkur til að helga sig verkum í Háskólanum. Ágúst er faðir Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar.

Hann situr nú í stjórn Landsvirkjunar fyrir Samfylkinguna og var eitt sinn formaður bankastjórnar Seðlabankans, en sagði af sér sem slíkur árið 1994 í kjölfar þess að flokksbróðir hans, Sighvatur Björgvinsson, þáv. viðskiptaráðherra, skipaði Steingrím Hermannsson þáv. formann Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, sem seðlabankastjóra. Var hann á móti pólitískri skipan í embætti bankastjóra. Ennfremur var Ágúst um tíma formaður samninganefndar ríkisins, af hálfu Alþýðuflokksins, sem hann vann fyrir þar til hann gekk til liðs við Jóhönnu.

Ágúst Einarsson mun að mér skilst taka við rektorsstarfinu á Bifröst þann 15. janúar nk. en Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, hefur verið starfandi rektor skólans frá því að Runólfur Ágústsson hætti störfum þann 1. desember sl. Bryndís og Ágúst kannast vel hvort við annað. Þau sátu saman á Alþingi kjörtímabilið 1995-1999 og voru saman í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar í aðdraganda þingkosninganna 1999. Bryndís sat á þingi í áratug, 1995-2005, og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004. Það má því segja að reynsluboltar frá Samfylkingunni stýri skólanum til verka frá 15. janúar. Þau þekkjast allavega mjög vel.

Runólfur Ágústsson og Ágúst Einarsson eiga margt fleira sameiginlegt en að hafa verið valdir til rektorsstarfa á Bifröst. Þeir leiddu báðir framboðslista hjá Þjóðvaka, skammlífum stjórnmálaflokki Jóhönnu Sigurðardóttur, í þingkosningunum 1995; Ágúst í Reykjaneskjördæmi en Runólfur í Vesturlandskjördæmi. Ágúst komst á þing en Runólfur ekki, en sá síðarnefndi fór síðar til starfa á Bifröst. Forveri Bryndísar sem aðstoðarrektor var Magnús Árni Magnússon, sem tók sæti á Alþingi eftir andlát Ástu B. Þorsteinsdóttur árið 1998. Ágúst, Bryndís og Magnús Árni voru því öll saman á þingi á sama tíma og í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar.

Ekki má gleyma að á Bifröst vinna einnig þau Hólmfríður Sveinsdóttir, fyrrum varaþingmaður Alþýðuflokks og Samfylkingar, Eiríkur Bergmann Einarsson, varaþingmaður Samfylkingar, og Birgir Hermannsson, þekktur analíser Samfylkingarinnar í stjórnmálapælingum og fyrrum aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar í umhverfisráðuneytinu 1993-1995. Merkilegt mjög.

Miklar sögur ganga um digran starfslokasamning Runólfs á Bifröst og talað um 30-40 milljónir í því samhengi. Fróðlegt hvort eitthvað verði fjallað um þau mál.

mbl.is Ágúst Einarsson ráðinn rektor Háskólans á Bifröst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm vinstri grænir töluðu í 45 tíma á þingi

AlþingiÞað er alltaf jafnáhugavert að kynna sér tímamælingar á ræðuhöldum á Alþingi. Sá frétt um þetta núna í kvöld sem vakti nokkra athygli mína. Þar kemur m.a. fram að fimm manna þingflokkur VG talar mest allra þingflokka í þingsal. 5 vinstri grænir töluðu semsagt í 44 klukkustundir og 55 mínútur en 23 manna þingflokkur Sjálfstæðisflokkins kemur næstur með 35 klukkustundir og 22 mínútur.

Aldrei þessu vant er Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ekki ræðukóngur í þinginu. Jón Bjarnason, þingmaður vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, talaði manna mest og lét einn móðinn mása í rúman hálfan sólarhring samtals, eða 13 klukkustundir og 40 mínútur. Steingrímur kom næstur með 10 klukkustundir og 37 mínútur. Enginn kemst nálægt þeim félögum í að geta talað lengi greinilega.

Minnst töluðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Sigurrós Þorgrímsdóttir í Suðvesturkjördæmi og Kjartan Ólafsson í Suðurkjördæmi. Kjartan talaði aðeins í átta mínútur í ræðustóli á haustþinginu en Sigurrós hélt aðeins eina ræðu allt haustmisserið og þá í tvær mínútur um aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni. Þess má geta að Sigurrós er í 22. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum eftir fall í prófkjöri og er því á útleið af þingi.


Endist meirihlutinn út kjörtímabilið?

Hermann Jón, Kristján Þór og Sigrún Björk Þáttaskil eru framundan í bæjarmálum á Akureyri. Níu ára bæjarstjóraferli Kristjáns Þórs Júlíussonar lýkur senn og Sigrún Björk Jakobsdóttir verður bæjarstjóri næstu 30 mánuðina, eða þar til að Samfylkingin fær embætti bæjarstjóra síðasta árið fyrir næstu kosningar. Í pistli á bæjarmálavefritinu Pollinum í kjölfar formlegrar tilkynningar um bæjarstjóraskipti spurði ég sjálfan mig að því hvort að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar myndi endast út kjörtímabilið.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að mér finnist þessi meirihluti fara illa af stað og hafa verið frekar svifaseinn og vandræðalegur í verkum. Það má vissulega skrifa það eitthvað á það að allir bæjarfulltrúar meirihlutans, nema Kristján og Sigrún, eru nýliðar í bæjarstjórn og t.d. hafði Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, ekki verið aðalmaður áður, enda hleypti Fía (Oktavía Jóhannesdóttir) honum mjög sjaldan inn í bæjarstjórn, og auðvitað alls ekki eftir að hún sagði skilið við Samfylkinguna hálfu ári fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, en í aðdraganda þeirra hafði allt logað í óeiningu innan flokksins. Þetta er því upp til hópa meirihluti nýliða, sem er í sumum tilvikum gott en í fleiri tilvikum afleitt.

Ég efast ekki um að bæjarfulltrúar meirihlutans séu vinnusamir. Það sem mér finnst vera mjög áberandi er að erfitt er að ná samstöðu um mál og keyra samstíg til verka. Það gæti alveg farið svo að það yrði banabiti þessa meirihluta fyrr en síðar, en vonandi geta menn hafið sig yfir innri ágreining um viss lykilmál og stjórnað bænum með samhentum og öflugum hætti. Þegar að hálft ár er liðið frá síðustu kosningum finnst mér hafa vantað verulega upp á festu og kraft við stjórn bæjarins. Þetta er atriði sem mér finnst mjög áberandi og hafa komið vel fram á bæjarstjórnarfundum og að mér skilst líka sést inni í nefndum bæjarins, þar sem talað er í ólíkar áttir.

Mér telst til að meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hér sé fyrsta samstarf þessara flokka eftir að Samfylkingin kom til sögunnar árið 2000. Í kosningunum komu fram ólíkar áherslur þessara flokka til fjölda mála. Það gekk ágætlega að koma á samstarfi flokkanna eftir kosningar. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í kosningunum og við tóku fyrst meirihlutaviðræður minnihlutaaflanna kjörtímabilið 2002-2006 sem náðu saman sex bæjarfulltrúum. Þær viðræður runnu út í sandinn. Síðan hófust viðræður þessara tveggja flokka. Það lá fyrir strax að kosningum loknum að þetta væri sterkasti samstarfskosturinn í stöðunni og í raun vilji bæjarbúa að þau ynnu saman.

Deila má um hvernig samið var um málin eftir kosningar. Strax í þeim samningum sást merki þess að tveir bæjarstjórar yrðu á kjörtímabilinu, enda náðist ekkert samkomulag um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið. Ég taldi allt frá kosningum stöðuna með þeim hætti að bæjarstjórarnir yrðu þrír, enda ekki óeðlilegt í stöðunni sem uppi var að Kristján Þór Júlíusson sæktist eftir að leiða framboðslista flokksins í kjördæminu myndi Halldór Blöndal, farsæll kjördæmaleiðtogi, draga sig í hlé eftir litríkan stjórnmálaferil. Það fór enda svo að Kristján Þór gaf kost á sér við ákvörðun Halldórs um að hætta og hann vann góðan sigur í prófkjöri meðal flokksmanna.

Stöðugleiki hefur einkennt níu ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs. Það hefur verið öflugt tímabil, sem ég sem sjálfstæðismaður er mjög stoltur af. Mér finnst blikur á lofti á þessu kjörtímabili og finnst staðan breytt. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta muni ganga en ég yrði ekki hissa þó að þessi meirihluti myndi springa fyrir lok kjörtímabilsins.

Algjörlega til skammar

Lögregla á vettvangi Það nísti mig algjörlega inn að beini að heyra í gær lýsingar lögreglu á framkomu sumra vegfaranda á Vesturlandsvegi á sunnudagskvöldið í kjölfar alvarlegs umferðarslyss. Þar lést tæplega þrítugur maður og nokkrir slösuðust þar mjög illa. Mér finnst þetta algjörlega til skammar þeim sem svona komu fram og þetta er ljótur vitnisburður á hugsunarhætti fólks sem þarna birtist.

Það er ömurlegt að lesa að fólk sem er á vettvangi slyss af þessu tagi sýnir ekki fólkinu þá virðingu að bíða meðan að hlúð er að slösuðum. Sérstaklega athyglisvert er að lesa lýsingu Kristins Inga Péturssonar, sem kom að slysinu, á aðstæðum og því hvernig framkoma fólks á slysstað var. Ég sem sjálfur hef lent í alvarlegu slysi veit mjög vel að allt snýst þar um að sjúkrabíll geti komist á svæðið og læknar og sjúkralið geti hlúð að fólki. Það snýst allt um fyrstu viðbrögð og þeir sem starfa við þessi verk verða að geta athafnað sig án þess að fólk, sem greinilega er á kafi í eigin lífsgæðakapphlaupi og hugsar ekki um aðra, trufli það.

Fólk verður alvarlega að fara að hugsa sinn gang að mínu mati. Það er til marks hnignandi samfélagi að mínu mati að heyra af svona skítlegri framkomu fólks á slysstað, þar sem fólk hefur slasast alvarlega og þarf að aðhlynningu að halda. Geti fólk ekki sýnt slíkum störfum þá virðingu að bíða og eða að leggja því hjálparhönd er eitthvað mikið orðið að þessu samfélagi sem við lifum í. Við þurfum svo sannarlega að fara að horfa í spegil og spyrja okkur sjálf hvað skiptir mestu máli í lífinu.

mbl.is Framkoma á slysstað gekk fram af vegfaranda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór og Sigrún Björk blogga

Sigrún Björk og Kristján Þór Mér finnst það mikið gleðiefni að Kristján Þór Júlíusson, nýkjörinn leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fráfarandi bæjarstjóri hér á Akureyri, heldur áfram að blogga á vef sínum eftir prófkjör flokksins í síðasta mánuði. Það er svo sannarlega mikilvægt að hann skrifi þar áfram.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn eigi að blogga og því er það ekkert nema hið besta mál að kjördæmaleiðtogi okkar hafi heimasíðu og skrifi milliliðalaust til kjósenda. Svona eiga stjórnmálamenn að vera og þeir mættu vera fleiri sem skrifa á vefi sína eftir prófkjörin, enda virðast þeir deyja of oft eftir prófkjör flokkanna, sem verður auðvitað táknmynd líflausra stjórnmálamanna.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, verðandi bæjarstjóri, er að fara að blogga líka, en hún opnar bráðlega bloggvef hér á blog.is og bætist við samfélagið okkar, sem er ört vaxandi. Við sjálfstæðismenn á Akureyri getum verið stoltir af því að þrír af fjórum bæjarfulltrúum okkar blogga, en Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar, hefur bloggað reglulega að undanförnu á vef sínum.

Þetta er mjög ánægjulegt og ég fagna því að bæjarfulltrúar séu með lifandi og hressilega vefi skoðana.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband