22.3.2007 | 14:59
Ómar leiðir Íslandshreyfinguna - framboð kynnt

Það eru vissulega stórtíðindi að Ómar leiði framboðið og verði lykilforystumaður þess í kosningabaráttunni. Þetta þýðir um leið að hann verður í öllum lykilviðtalsþáttum baráttunnar með öðrum formönnum stjórnmálaflokka og tekur meginslaginn sem alvöru leiðtogi. Ómar er okkur öllum vel þekktur sem fréttamaður, skemmtikraftur og þúsundþjalasmiður - nú verður hann hinsvegar stjórnmálamaður og kemur fram sem slíkur í kosningabaráttu næstu 50 dagana.
Framboðið er kynnt á þeim degi þegar að nákvæmlega 50 dagar eru til alþingiskosninga. Nú reynir á kraft þess og styrkleika. Ómar verður elsti stjórnmálaleiðtoginn í slagnum. Hann verður 67 ára, það sem flestir kalla löggilt gamalmenni, þann 10. maí, tveim dögum fyrir alþingiskosningar. Nú reynir á hvernig hann sé sem alvöru leiðtogi. Það verður fróðlegt að sjá.
Reyndar hefur framboð hans blasað við lengi, eða allt frá því í haust er hann hætti sem fréttamaður til að tala hreint út og ákveðið um umhverfismál. Þar birtist okkur eldhugi og baráttumaður sem hikaði hvergi. Þar birtist stjórnmálaleiðtogi.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þau leggja upp baráttuna undir forystu Ómars sem flokksformanns og Margrétar sem varaformanns. Margir töldu þetta verða hreyfinguna hennar. Svo virðist ekki eiga að vera að öllu leyti.
Var kannski deilt um einmitt þetta síðustu dagana, átökin sem ég nefndi á mánudag? Hver veit. En nú reynir á þetta. Nú hefst hiti og þungi baráttunnar. Hefur þetta framboð einhvern hljómgrunn. Ætli Gallup svari því ekki brátt fyrir okkur.
Eitt annað; framboðið virðist hafa fengið að bjóða fram með broddstaf. Í verður það, rétt eins og hjá Ísafjarðarlistanum í sveitarstjórnarkosningunum fyrir tæpu ári.
![]() |
Ómar formaður og Margrét varaformaður Íslandshreyfingarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2007 | 13:51
Stöð 2 sendir út hádegisfréttir frá Akureyri
Vil lýsa yfir ánægju minni með þetta - það eru vissulega stórtíðindi að einkareknir fjölmiðlar geri betur en sá ríkisrekni. Á það verður að benda. Það er enda tímaskekkja að ríkið reki fjölmiðla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2007 | 12:26
Nýtt framboð kynnt - að geta sagt frá hlutunum
Þá á að kynna hið nýja hægri græna stjórnmálaafl í dag. Allar þær sögusagnir sem ég hef birt um þetta nýja framboð hafa ræst. Ég sagði fyrstur allra frá því að Margrét myndi yfirgefa Frjálslynda flokkinn, hvernig miðaði við stofnun nýs framboðs, tímasetningu framboðsins og fleiri hlutum. Það er mjög gott að geta sagt einhverjar fréttir og hafa eitthvað að segja um hlutina.
Eina sem mögulega rættist ekki var kjaftasagan um að framboðið héti Íslandsflokkurinn, en nafnið var ekki fjarri því. Í byrjun vikunnar skrifaði ég um að ósætti væri milli Margrétar og Ómars. Því neitaði enginn, ekki einu sinni forystufólk framboðsins. Það spurði mig reyndar einn í morgun hvort að ég væri í þessum vinnuhópi, ég virtist vita meira en margir aðrir um þessi mál. Það er langt síðan að ég sagði að ég væri ánægður í mínum flokki og sjálfstæðismenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér.
En ég er áhugasamur um stjórnmál. Þetta er nýtt framboð sem fáir vita hvert muni sækja fylgi sitt. Takist þeim vel til munu þau sópa fylgi á breiðum skala. En það er allt undir þeim komið. Ný framboð eru enda mun meiri óvissuþáttur en hin. Óþekkt stærð er meira spennandi en aðrar að skiljanlegum ástæðum. Það er mjög einfalt mál.
Ég sé að Jakob Frímann kynnir framboðið með Ómari og Margréti. Honum eru greinilega ætlaðir einhverjir hlutir þarna. En ekki fleiri kjaftasögur og pælingar; nú sjáum við á tromp þessa fólks og hvað það hefur fram að færa. Það hefur verið beðið lengi eftir framboðinu og flestir spenntir að heyra og sjá meira.
![]() |
Kynna framboð Íslandshreyfingarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2007 | 22:43
Suðurlandsveg verður að tvöfalda

Ég hvet alla til að smella á sudurlandsvegur.is og skoða þar góðan vef þeirra sem berjast fyrir tvöföldun. Ég ritaði þar fyrir nokkrum mánuðum nafn mitt í áskorun til samgönguráðherra um að tvöfalda Suðurlandsveg, án tafar. Það er svo sannarlega mikilvægt að bæta úr samgöngum þar. Þessi slys öll segja sína sögu vel.
Ég stend með Sunnlendingum í þeirra baráttu - Suðurlandsveg verður að tvöfalda án tafar!
![]() |
Suðurlandsvegur lokaður áfram vegna alvarlegs umferðarslyss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.3.2007 | 22:05
Chirac lýsir yfir stuðningi við Sarkozy

Hvorki Chirac né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, tjáðu nokkurn stuðning við Sarkozy fyrr en nú, en forsætisráðherrann tilkynnti um stuðning við Sarkozy þann 12 mars sl, degi eftir ræðu forsetans. UMP-hægriblokkin var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti og eiginlega má segja að völdin hafi hægt og hljótt fetað frá forsetanum og til innanríkisráðherrans klóka. Hann stendur nú eftir sem óskoraður leiðtogi franskra hægrimanna.
Það bauð sig enginn fram gegn Sarkozy innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Sarkozy var svo staðfestur sem forsetaefni hægriblokkarinnar í janúar. Hann hlaut þó aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningunni sem fram fór. Það þótti mikið áfall, enda sagði það með afgerandi hætti að hann væri ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar og armur forsetans horfði þögull á útnefningarferlið sem byggði upp Sarkozy sem leiðtoga hægriblokkarinnar. Allt fram til þessarar stundar hafa lykilmenn forsetans ekki útilokað að hann færi fram sem óháður, en hann bakkaði út með nokkrum glans þó. Vill hann væntanlega tryggja einingu nú.
Það hefur verið greinilegt kalt stríð milli aðila og farið eiginlega sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund og lok kjörtímabils forsetans. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Raffarin og skyldi velja Villepin. En nú á að grafa stríðsaxir og allt traust er nú lagt á að Sarkozy haldi hægrimönnum við völd. Hægrimenn halda sameinaðir til kosninga. Það er gleðiefni.
Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram eftir mánuð. Þar eru tólf frambjóðendur í kjöri. Lengst af þótti öruggt um að Sarkozy og Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista, myndu berjast um forsetaembættið. Nú hefur hinsvegar miðjumanninum Francois Bayrou tekist að saxa á þau og virðist eiga raunhæfa möguleika á að slá annað þeirra út. Nýjustu kannanir sýna að möguleikar hans aukast til muna nái hann í seinni umferðina. Hann myndi sigra hvort þeirra sem væri við þær aðstæður. Sarkozy hefur haft forskot á Royal nú um nokkuð skeið.
Þetta verða svo sannarlega spennandi kosningar. Fróðlegt verður að sjá hver mun hljóta kjör á forsetastól og ríkja í Elysée-höll frá 17. maí, er Chirac hverfur af hinu pólitíska sviði. Verður seinni umferðin Sarko-Sego stund eins og svo lengi hefur verið spáð, eða mun Bayrou koma á óvart? Með þessum kosningum verður víða fylgst enda er forseti Frakklands einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims.
![]() |
Chirac lýsir yfir stuðningi við Sarkozy |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2007 | 17:12
Landsframboð Íslandshreyfingar kynnt á morgun

Framboðslistar nýs framboðs munu nú vera í vinnslu og væntanlegir innan skamms. Allir tengja framboðið fyrst og fremst við Margréti Sverrisdóttur, starfandi borgarfulltrúa F-listans og fyrrum framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, og fjölmiðlamanninn Ómar Ragnarsson. Brátt verður ljóst hverjir skipa efstu sæti flokksins um allt land. Það verður fróðlegt að sjá hulunni svipt af því stig af stigi. Fyrst og fremst virðast þarna vera framarlega nánustu stuðningsmenn Margrétar Sverrisdóttur og þeir sem standa með Ómari í umhverfismálum og koma t.d. úr Framtíðarlandinu.
Það er mikið mál að stofna nýjan stjórnmálaflokk á landsvísu. Það verður fróðlegt að sjá hver krafturinn í þessu nýja framboði verður. Hef ég nokkuð fjallað um það síðustu dagana. Það er svosem ekki furða, enda er þetta nýja framboð athyglisvert og fáir vita hversu stóra rullu það spilar í kosningunum. Það bíða enda flestir eftir því að helstu forystumenn þess sýni á spil sín og hvaða tromp leynist þar.
Það eru rúmir 50 dagar til kosninga og mesti hiti baráttunnar að hefjast. Það verður fróðlegt að sjá hversu breið hreyfing fólks þetta er og ekki síður hvernig hún mælist á næstunni. Þá ætti að vera auðveldar að ráða í stöðu hennar. Eins og er virðist hún enda vera alveg sem óráðin gáta, gáta sem flestir flokkar vilja ráða og eiga eitthvað svar við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2007 | 15:24
Banaslys í umferðinni
Það er sorglegt að heyra af enn einu banaslysinu í umferðinni. Þetta er annað banaslysið á árinu 2007 - og það gerist á Suðurlandsvegi. Það hefur lengi verið talað um hætturnar þar - vonandi verður leiðin þar um brátt tvöfölduð. Árið 2006 var eitt það sorglegasta í umferðinni hérlendis. Rúmlega 30 einstaklingar létu þá lífið í umferðarslysum hérlendis.
Það var mjög napurt ár, enda veit ég að margar fjölskyldur voru í sárum á þeim krossgötum, sem þeim fylgdu. Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu mánaða og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa munu vonandi fá okkur til að hugsa vel um umferðarmál.
Ég votta aðstandendum samúð mína.
![]() |
Kona lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2007 | 13:56
Steingrímur J. fetar í fótspor Ólafs Ragnars
Það hafa allir tekið eftir því að Steingrímur J. Sigfússon hefur skipt mjög um gír. Hann leikur nú landsföðurtýpu af rólegu og yfirveguðu gerðinni - túlkar lykilforystumann til vinstri í taktföstu sólóspili. Þetta kristallaðist vel er hann eiginlega var rólegastur allra í pólitíska karpinu í Silfri Egils um síðustu helgi. Svo virðist sem að Steingrímur J. sé að feta í fótspor Ólafs Ragnars Grímssonar, hins forna samstarfsmanns í blíðu og stríðu í innanflokkserjum í Alþýðubandalaginu, í að leika fágaðan og rólegan statesman á örlagastundu ferils síns.
Fyrir ellefu árum breyttist Ólafur Ragnar úr pólitískum vígamanni í ljúfasta lamb sem lækkaði röddina og var orðinn hinn mjúki og yfirvegaði maður. Sú karakterbreyting tryggði honum umfram allt mjúka vist á Bessastöðum, tækifæri ferilsins til að leika leiðtoga. Á einni nóttu laðaði hann til sín fylgi úr öllum áttum; meira að segja fólk sem aldrei hefði dottið í hug að kjósa hann fyrr. Stór þáttur þessa var vissulega eiginkona Ólafs Ragnars, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, sem heillaði þjóðina upp úr skónum, en breytingin á hjúpnum utan um persónu hans spilaði líka lykilþátt í því hversu vel honum gekk. Það kom einfaldlega til sögunnar ný týpa.
Allir sem sáu eldhúsdagsumræður á þingi fyrir viku sáu Steingrím J. með skrifaða ræðu. Hann var eins og nýr maður. Byrjað var að lesa fallegt ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Steingrímur J. kom bjartsýnn og undirbúinn, eiginlega í stífelsisbúningi. Þeir sem hafa upplifað stjórnmálin hér undanfarin ár við bardagamanninn og strigakjaftinn Steingrím J. kipptust nokkuð við, enda kom þarna allt önnur týpa og mjög niðurtónuð. Þarna kom forsætisráðherraefni vinstri grænna. Staða VG er orðin þannig í dag að hann er í versta falli á pari við Samfylkinguna, ellegar hreinlega orðinn stærri. Það eru ný tíðindi og á það er sett ný nálgun. Nú er Steingrímur J. kominn með annan verðmiða og það á greinilega að sýna vel að þar fari leiðtogi í þungavigt.
En tekst þessi markaðssetning? Allir sem hafa lesið pólitíska ævisögu Margrétar Frímannsdóttur, fráfarandi alþingismanns, sjá beiska sýn á þennan stjórnmálamann sem hún vann svo lengi með í Alþýðubandalaginu. Margréti tókst að leggja hann í póstkosningu innan Alþýðubandalagsins um eftirmann Ólafs Ragnars Grímssonar á formannsstóli og marka sér sess. En Steingrímur fetaði eigin leiðir eftir það og er nú tólf árum síðar orðinn aðalleikari til vinstri, hærra verðlagður en gamla vonarstjarnan í Samfylkingunni sem hefur upplifað sannkallaða kreppu allt frá því að hún yfirgaf borgarstjórastól í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Margrét Frímannsdóttir lýsir Steingrími J. ekki beint sem femínista og umhverfisverndarsinna í pólitísku ævisögunni, öðru nær. Þar er talað mjög kalt og ákveðið um þennan mann sem nú virðist hafa tekið allt vinstrilitaðasta fylgið til sín. Enda er við því að búast að þeir sem nú stjórna flokknum hennar hjóli nú í Steingrím. Ekki nema von að Margréti sárni; hann hefur stofnað hið nýja Alþýðubandalag, hefur tekið allt þetta fylgi frá Samfylkingunni. Það sem meira er að hann sækir líka annað. Þetta er orðinn örlagavaldur að óbreyttu í íslenskum stjórnmálum. Slík fylgisaukning yrði söguleg og tryggði bændasyninum frá Gunnarsstöðum lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum.
Hann er kominn í rulluna og hefur breytt sér. En ætla kjósendur að gleypa við þessari túlkun? Samþykkja að Steingrímur J. sé orðinn rólegur statesman? Kannski verður þetta stóra spurning kosningabaráttunnar að þessu sinni. Hver veit? Kannski mun svona karakterbreyting, extreme makeover, verða honum jafnfarsæl og pólitíska refnum á Bessastöðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2007 | 00:27
Íslandshreyfingin kynnt í vikunni - merkt með I
Nú blasir við að nýr hægri grænn stjórnmálaflokkur Íslandshreyfingin - lifandi land verði kynnt opinberlega í vikunni. Mun flokkurinn bjóða fram undir bókstafnum I, enda mun ekki hefð fyrir framboðum með broddstaf, sem fylgir framboði með upphafsstafinn Í.
Biðin eftir þessum flokki hefur staðið í tæpa tvo mánuði og blasað við að til framboðs í þessum takti kæmi eftir að Margrét Sverrisdóttir yfirgaf Frjálslynda flokkinn í janúar. Flestir bíða eftir að sjá mannskap þessa framboðs og aðrar áherslur auk umhverfismála, enda getur varla verið að þetta framboð keyri aðeins á einu máli alla baráttuna í gegn og til næstu fjögurra ára.
Þessi hreyfing hefur verið persónugerð í Margréti og Ómari Ragnarssyni, fréttamanni. Orðrómur var um það í vikubyrjun að ágreiningur hefði orðið þeirra á milli um áherslur og meginlínur skipan forystu. Verður fróðlegt að sjá hvernig að þessi nýji flokkur verður mannaður, hvort hann fari fram um allt land, hverjar línur hans verða og hvernig forysta hans verði. Einnig hvernig hann verði keyrður áfram.
Spurningar hafa verið mjög áberandi um þetta framboð og fátt komið öruggt, en brátt virðast fást svör við þeim öllum. Það styttist í lok framboðsfrests og öllum ljóst að tíminn er að renna út fyrir þessa hreyfingu og forystu hennar. Nafninu hefur verið skúbbað og eins og fyrr hefur komið fram hér er vefsetur hreyfingarinnar; www.islandshreyfingin.is.
Fyrir okkur sem tilheyrum öðrum flokkum verður fróðlegt með að fylgjast hvernig þetta framboð verði kynnt og hvernig rammi þess verður. Svo verður auðvitað athyglisvert að sjá hvort að það hafi áhrif og verði jafnvel afl sem safnar fylgi úr öllum áttum. Það verður fróðlegt að sjá svo í ofanálag hvernig að það mælist í könnunum, en Gallup spyr nú um stöðu þess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.3.2007 | 13:18
Ætlar Ingibjörg Sólrún að stöðva álversstækkun?
Það verður seint sagt að pólitísk staða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Samfylkingarinnar sé glæsileg. Hún reynir allt sem hún mögulega getur núna til að byggja sig aftur upp og að reyna að gera lítið úr innri ólgu innan flokksins. Nú er gamla góða plata þeirra vinstrimanna um að Morgunblaðið sé í baráttu gegn þeim sett á enn eina ferðina, en hún er nú orðin frekar rispuð í gegn. Virkar satt best að segja ekki sannfærandi lengur.
Það er gaman að fylgjast með örvæntingunni innan Samfylkingarinnar sem virðist vaxa dag frá degi. Össur er kominn í áberandi sólóspil og leikur sína eigin rullu innan flokksins, enda skiljanlegt með sína fylgismenn á flestum póstum í vörninni á framboðslistum um allt land á meðan að Ingibjörg Sólrún lítur orðið út eins og Ásgeir Sigurvinsson á hliðarlínunni kortéri áður en hann var rekinn sem landsliðsþjálfari. Það virðist vera að sliga Ingibjörgu Sólrúnu mjög að vera orðin prímadonnan sem getur ekki sungið er á hólminn kemur, rekur bara upp skaðræðisgól en ekki fagran óperettusöng eftir alla söngþjálfunina í gegnum árin.
Það er mjög sérstakt að fylgjast með Samfylkingunni. Ingibjörg Sólrún er farin að minna mig allverulega á ósynda konu sem hent er í djúpu laugina og reynir að svamla eitthvað án þess að geta í raun komist um laugina án hjálpar. Þar er gamla sundreglan að sannast dag frá degi; annaðhvort skal sökkva eða reyna eitthvað til að redda sér. Staða hennar hlýtur að vera þeim vonbrigði sem kusu hana til formennsku. Ekki hefur róðurinn verið eins sigursæll og stefnt var að. Væntingar þeirra sem studdu hana gegn Össuri var að hún gerði Samfylkinguna að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir standa brostnar vonir og væntingar.
Viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu á Stöð 2 í gær vakti mikla athygli mína. Þar var reynt að sýna gamla takta og láta eins og við værum enn á árinu 2003, kortéri eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli. En svo er ekki og við erum víst stödd á árinu 2007, með Samfylkinguna í frjálsu falli og fasta í mikilli fylgisdýfu, um eða rétt yfir 20%, fjarri öllum markmiðum um mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og farinn að líta upp til Steingríms Jóhanns og vinstri grænna, sem forðum daga voru smælingjar í augum þeirra. Svo er ekki nú. Nú lítur Ingibjörg Sólrún og félagar hennar upp fylgislega séð til vinstri grænna og Steingrímur J. er orðinn alvöru forsætisráðherraefni og spilar eigið sóló taktfast.
Ingibjörg Sólrún ýjaði að því fannst mér að það skipti engu máli hvað Hafnfirðingar ákveddu eftir ellefu daga, hún hefði sína skoðun á því og hikaði ekki frá henni. Til hvers er íbúakosning í Hafnarfirði ef ekkert verður að marka hana? Yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar virkuðu mjög afdráttarlausar og afgerandi. Þar hafa menn skoðun og hika ekkert frá henni, hvað sem öllu íbúalýðræði gildir. Er kannski kosningin í Hafnarfirði marklaus? Það verður allavega fróðlegt að sjá í hvaða átt Samfylkingin snýst samþykki Hafnfirðinga stækkun. Munu Össur og Ingibjörg Sólrún þá styðja stækkun? Það reynir á það brátt.
Ingibjörg Sólrún á mikið verk fyrir höndum. Þetta verður erfið barátta, flokkurinn og hún eru á vondum slóðum 50 dögum fyrir kosningar. Allt virðist að snúa á versta veg. Alþýðubandalagið er gufað upp úr Samfylkingunni og flóttinn heldur sífellt áfram. Samfylkingin er að verða eins og sökkvandi skip undir skipstjórn Ingibjargar Sólrúnar sem allir hoppa af, meira að segja konurnar samkvæmt skoðanakönnunum. Merkileg örlög það. Stóru tíðindi þessa tímapunkts er einmitt flóttinn úr Samfylkingunni yfir til Steingríms J.
Getur gömul vonarstjarna staðið slíkan skell af sér, verði hann endanlega að veruleika í maí? Við fáum brátt svarið við því. En við vitum þó að við hverja mælingu minnkar átórített Ingibjargar Sólrúnar til muna. Við erum öll það snjöll að við vitum það. Og við vitum líka að flokkur og leiðtogi í endalausri lægð virka sem lúserar. Enda er örvæntingin að taka öll völd - meira að segja hjá konunni sem allir töldu vera bjargvætt Samfylkingarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
20.3.2007 | 00:47
Óhugnaður
Fróðlegt er að sjá ábendingar um klámauglýsingar á tölvuleikjasíðum, sem tengdar eru íslenskum leikjasíðum, sem og annarsstaðar á netinu. Þetta er mjög skelfilegt bara. Hvet fólk til að lesa ummæli Petrínu Ásgeirsdóttur, hjá Barnaheillum, sem er í fréttinni hér fyrir neðan.
Þetta er óhugnaður sem berjast verður gegn með öllum tiltækum ráðum að mínu mati.
![]() |
Um 30-40% ábendinga barnaklám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.3.2007 | 19:32
Er ágreiningur milli Ómars og Margrétar?

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Það hefur heyrst að Margrét Sverrisdóttir vilji afgerandi forystusess í framboðinu en Ómar vilji horfa í aðrar áttir og ekkert fastsetja neitt slíkt eða persónugera hreyfingun algjörlega stuðningsmannahópi Margrétar einvörðungu.
Öllum er ljóst að umhverfismálin hafa verið mjög sterk í kynningu framboðsins, það sé merkt sem hægri grænt. Það að nýja framboðið sé titlað hreyfing hefur mörgum þótt vera í takt við VG, sem ber einmitt heitið Vinstrihreyfingin - grænt framboð. Enda tala gárungarnir um Íslandshreyfinguna - grænt framboð, enda er þetta nýja framboð með subtitle.
En það verður fróðlegt að sjá hvað gerist og hvenær hulunni verður svipt af hægri græna framboðinu, sem hefur verið að myndast hægt og hljótt frá því að Margrét Sverrisdóttir yfirgaf Frjálslynda flokkinn fyrir tveim mánuðum og fetaði saman til nýrrar pólitískrar framtíðar með Ómari Ragnarssyni.
19.3.2007 | 17:19
Netbarátta við femínistana?
Einn góður vinur minn spurði mig á förnum vegi í dag hvort að ég væri kominn í einhverja ritdeilu við femínistana vegna skrifa minna gegn þekktum ummælum um nýlegt auglýsingablað Smáralindar. Sagðist ekki vita það hreinlega. Hef þó ekki óskað eftir einhverju stríði við þá. Hef þó verið hugsi yfir þessu eiginlega síðustu dagana. Tel þó ekkert að því að ég hafi skoðanir á skrifum annarra og sé hugsi yfir því máli öllu. Öll höfðum við skoðanir á því máli annars.
Skrifin gegn þessu auglýsingablaði skóku netheimana og auðvitað var það rætt víða. Sagði mitt mat á því. Enda bara eðlilegt. Hér hef ég skoðanir á flestu sem er í gangi. Tel mig ekki vera í stríði eða deilu við femínistana. Þær hljóta að telja mig geta sagt mínar skoðanir án þess að tryllast yfir því. Það er nú fjarstæðukennt ef að femínistar telja skoðanir mínar hefta sitt skoðanafrelsi. Femínistar hafa tjáð sínar skoðanir óhikað og það er ekkert nema eðlilegt.
En svona er þetta bara. Annars tjá femínistar sína skoðun hér bara ef þær vilja. Það er eins og það er bara. Ég get aldrei skrifað hér svo allir séu sammála. Ef einhverjir eru ósammála tjá þeir bara sína skoðun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.3.2007 | 13:55
Íslandshreyfingin mun það verða

Ekki kemur það mér á óvart að Ómar Ragnarsson sé búinn að festa Í sem listabókstaf en þessi nafngift finnst mér reyndar vera mjög í anda Ómars. Eins og ég skrifaði áðan hefur þessi hreyfing ekki enn sýnt á spil sín og gefið sig upp. Það verður fróðlegt að sjá hver tromp þessarar hreyfingar eigi að vera er á hólminn kemur.
Kosningamaskínunni verður kannski brátt flashað á léninu; www.islandshreyfingin.is, eða hvað? Sigurlín Margrét Sigurðardóttir á þetta lén líkt og það sem áður var merkt Íslandsflokknum. Það er skráð 14. mars sl. eða miðvikudaginn síðasta. Þetta telst sennilega betra nafn, en hitt var svona svolítið sláandi.
Það eru rúmir 50 dagar til kosninga. Áhrif nýs hægri græns framboðs eru óviss á þessari stundu. Það gæti allt eins orðið örlagaríkt afl í kosningabaráttunni, einnig gæti það floppað. Gengi þessa framboðs verður eitt af spurningamerkjum þessarar kosningabaráttu.
Því er erfitt að spá í stöðuna á þessari stundu. Greinilegt þó að stefnir í spennandi kosningar, spennandi fyrst og fremst fyrir stjórnmálaspekúlantana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.3.2007 | 12:39
Hvað varð eiginlega um Íslandsflokkinn?

Ekki varð sú raunin. Bið einkennir stemmninguna núna fyrir flokknum. Of löng bið getur slagað alla pólitíska stemmningu, þetta segir sagan okkur. Bíði pólitískar vonarstjörnur of lengi verða þær að gömlum lummum. Það er segin saga að erfitt er að koma upp landsframboði. Þarf mikinn mannskap og öflugan kjarna í öllum kjördæmum til að bera slíkt uppi. Veit ekki hvort hópurinn hefur þann kjarna.
Fróðlegt verður að sjá þegar að þetta framboð verður loks kynnt formlega. Margir bíða spenntir, enda áhugavert að sjá hverjir skipa forystusveitina með þeim sem helst hafa verið merktir framboði. Fyrst þá verður hægt að gefa honum mælingu og meta sóknarkraft hans utan höfuðborgarsvæðisins, sem hlýtur að vera aðalbækistöð framboðs af þessu tagi.
Það verður áhugavert að sjá Íslandsflokkinn verða eitthvað. En biðin er að vera löng. Ólík er allavega saga Borgaraflokksins, sérframboðs Alberts Guðmundssonar, fyrir tveim áratugum, og þessa framboðs. Albert fór um allt landið og kom framboðinu upp á örfáum dögum. Framboðið varð örlagavaldur í þeim kosningum.
En biðin eftir Íslandsflokknum er orðin áberandi. En þar hljóta tjöldin brátt að falla og áhorfendur að sjá hvað leynist þar á bakvið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2007 | 23:38
Hálft ár á Moggablogginu
Ég er kominn með fjöldann allan af góðum bloggvinum. Meirihluti bloggvina minna hafa óskað eftir að tengjast mér. Hef kynnst miklum fjölda af mjög góðu fólki, fólki úr öllum flokkum og með ólíkar skoðanir á málunum, og svo hafa böndin við gamla og góða vini í bloggheimum, fólk sem ég hef þekkt lengi, styrkst sífellt með tengslum hér. Er kominn með góðan hóp bloggvina. Allt er þetta fólk sem ég met mikils og ég hef gaman af að kynnast nýju fólki. Fæ góð komment á skrifin og heyri skoðanir úr ólíkum áttum.
Fór yfir skoðanir mínar á moggablogginu í viðtali við Gest Einar Jónasson og Hrafnhildi Halldórsdóttur á Rás 2 fyrir nokkrum dögum. Sagði þar mínar skoðanir. Er mjög ánægður með allt hér og tel þetta vera eins og best verður á kosið. Er mjög sáttur við minn hlut. Vil þakka lesendum mínum fyrir að líta við og lesa skrifin og öllum þeim sem kommenta hér á skrifin og segja sína skoðun vil ég þakka fyrir að tjá sig hér.
Ætla mér að vera mjög duglegur að skrifa fram að kosningum og analísa kosningarnar og eftirmála þeirra mjög vel. Þetta verður spennandi tími og ég ætla að vera mjög áberandi við að skrifa. Ég hef þá stöðu núna að vera ekki að vinna í eldlínu kosningabaráttu flokksins míns og verð ekki sitjandi á kosningaskrifstofu daginn út og inn að þessu sinni. Ætla að taka annan vinkil á þetta að þessu sinni. Það verður mjög gott, ég ætla líka að vera beittur í þeim skrifum. Mesti hitinn á það er að hefjast nú. Sumarið verður svo ljúft bara.
Vonandi eigum við samleið næstu vikurnar. Allar ábendingar eru góðar ábendingar hér og mjög notalegt að heyra í þeim sem hafa skoðanir á mínum skoðunum. Eina sem ég krefst er að fólk sé málefnalegt og tali á kurteisislegum nótum. Nafnleysi er ekki liðið hér. Geti fólk ekki skrifað heiðarlega og undir nafni er skoðunin dauð að mínu mati.
Eins og ég sagði í viðtalinu finnst mér gott að fá komment og fagna því ef aðrir hafa skoðun á því sem mér finnst, enda eru pælingarnar hér mínar og þær eru lifandi og ákveðnar.
18.3.2007 | 22:03
Hægrisveifla í Finnlandi - ný stjórn í pípunum
Það er ljóst að hægrimenn eru sigurvegarar finnsku þingkosninganna, bæta við sig nokkru fylgi á meðan að Miðflokkurinn heldur þó naumlega velli sem stærsti flokkur landsins. Finnskir jafnaðarmenn verða fyrir mestu skakkaföllum sínum í tæpa hálfa öld og eru þriðju stærstir, aðeins í annað skiptið í finnskri stjórnmálasögu. Það er ljóst að sigurvegar kvöldsins eru tveir; hægrileiðtoginn Jyrki Katainen og forsætisráðherra Matti Vanhanen.
Mér sýnist á nýjustu tölum, sem eru mjög nærri því að vera lokatölur að innan við prósent skilji að Miðflokkinn og Hægriflokkinn. Þetta er sterk staða fyrir báða flokka, þó miðjumenn missi tæp tvö prósent vissulega, og svo virðist vera að þeir muni ræða myndun ríkisstjórnar í kjölfar þessa. Orðrómurinn í Finnlandi er sá að þeir hafi báðir áhuga á að vinna saman og mynda sterka stjórn, miðhægristjórn í stað miðvinstristjórnar. Skil því miður ekki vel finnska vefmiðla vegna tungumálavandræða með finnskuna en hún er ekki beint auðveld, en ég sé vel í gegnum aðra norræna vefmiðla að það stefnir í svona stjórn.
Það hefur verið rætt um þennan möguleika þónokkurn tíma. Væri auðvitað hið besta ef að hann yrði sá sem yrði að veruleika. Tel yfirgnæfandi líkur á því. Stjórnarandstöðuvist yrði erfið fyrir kratana, þeir hafa ríkt samfellt frá 1994, í forsæti 1994-2003, og voru lengi ráðandi afl fyrir 1991 er þeir misstu völdin með eftirminnlegum hætti. Það er greinilegt að Eero Heinaluoma, fjármálaráðherra, hefur mistekist að efla flokkinn eftir að tapa forystusessi síðast, síðustu kosningum Paavo Lipponen í forystusveitinni.
Það er ánægjulegt hversu sterkur Jyrki Katainen, leiðtogi hægrimanna, mælist sem leiðtogi í sínum fyrstu kosningum. Flokkurinn er hársbreidd frá því að verða stærstur og hann er orðinn alvöru afl sem getur krafist einhvers og mun vonandi fá völd eftir þennan góða sigur. Hef aðeins kynnt mér Katainen og líkað vel við hann. Katainen er bara sex árum eldri en ég, er fæddur árið 1971. Hann er því maður nýrra tíma í finnskum stjórnmálum. Hans bíða tækifæri til forystu í Finnlandi, einfalt mál það. Það verða kynslóðaskipti með honum.
Mjög glæsilegt þetta hjá Katainen og finnskum félögum til hægri!
![]() |
Hægrimenn sigurvegarar kosninganna í Finnlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2007 | 20:56
Finnska stjórnin heldur - Vanhanen áfram við völd?
Það er nú ljóst að finnska ríkisstjórnin, mynduð af Miðflokknum, Þjóðarflokknum og Jafnaðarmannaflokknum, hélt velli í þingkosningum í dag. Miðflokkurinn virðist verða aðrar kosningarnar í röð stærsti stjórnmálaflokkur Finnlands, en leiðtogi þeirra, Matti Vanhanen, hefur verið forsætisráðherra frá sumrinu 2003. Það hefur verið hefð í Finnlandi að leiðtogi stærsta flokksins myndi stjórn og fái umboð þingsins til þess. Það var sögulegt að jafnaðarmönnum mistókst í fyrsta skipti um langt skeið að ná slíkri stöðu eftir kosningarnar 2003. Nú stefnir í að þeir verði með þriðja stærsta flokkinn, sögulegt fall það.
Svo virðist vera sem að jafnaðarmenn útiloki ekki að leiðtogi þeirra, Eero Heinaluoma, fjármálaráðherra, verði forsætisráðherra. Það er því talið líklegt að miðjumenn leiti til hægriflokksins um að mynda stjórn og ná samkomulagi við þá um að styðja Vanhanen. Ferlið við kjör forsætisráðherra er með þeim hætti að fyrst ber að tilnefna leiðtoga stærsta flokksins. Fái hann ekki kosningu í fyrstu umferð getur forsetinn, Tarja Halonen, tilnefnt sjálf forsætisráðherraefni og lagt fyrir þingið. Nái það ekki fram að ganga fer fram þriðja umferðin og þá geta fleiri en einn verið í kjöri. Einfaldur þingmeirihluti ræður því úrslitum.
Það er því ljóst að ef Vanhanen hefur ekki meirihluta í fyrstu umferð muni forsetinn væntanlega tilnefna Heinaluoma, enda er Halonen forseti jafnaðarmaður og gegndi þingmennsku og ráðherrastörfum í nafni Jafnaðarmannaflokksins um árabil; þingmaður 1979-2000 og var t.d. utanríkisráðherra Finnlands 1995-2000. Hún var kjörin forseti Finnlands í stað Martti Ahtisaari árið 2000. Það vakti athygli þá að Jafnaðarmannaflokkurinn tilnefndi frekar Halonen í forsetaembættið heldur en Ahtisaari, sitjandi forseta, en bæði voru þekkt fyrir áralöng störf í nafni flokksins. Halonen var endurkjörin forseti árið 2006, m.a. í kosningabaráttu gegn Vanhanen forsætisráðherra.
Það er því alls óvíst hvort að Vanhanen verði áfram forsætisráðherra þrátt fyrir að hafa tryggt flokknum stöðu sem stærsta flokksins aftur. Það veltur mjög á hvort að hann geti samið við Hægriflokkinn muni kratarnir ekki kjósa hann í fyrstu umferðinni í þinginu og samstaða næst gegn vali forsetans í annarri umferð, sem við blasir eins og fyrr segir að verði Heinaluoma, sem hefur leitt kratana frá árinu 2005 er Paavo Lipponen, þingforseti og fyrrum forsætisráðherra, hætti formennsku þar.
Vanhanen varð forsætisráðherra eins og fyrr segir sumarið 2003. Hann tók við embættinu af Anneli Jäätteenmäki, sem varð fyrsta konan á forsætisráðherrastóli eftir sögulegan kosningasigur þrem mánuðum áður. Hún varð að víkja eftir að upp komst að hún varð uppvís að lygum um hvernig trúnaðarskjöl úr utanríkisráðuneytinu komust í hendur hennar fyrir kosningarnar er hún var í stjórnarandstöðu. Almennt var litið á Jäätteenmäki sem brautryðjanda fyrir finnskar konur í stjórnmálum þegar hún tók við embætti sínu.
Jäätteenmäki hlaut vond eftirmæli og hrökklaðist frá embætti með skömm. Í kjölfar afsagnarinnar í júní 2003 fordæmdu t.d. öll finnsku dagblöðin hana, t.d. blöð sem fram til þess tíma studdu hana mjög í kosningabaráttunni og voru málsvarar Miðflokksins. Hún hélt því fram í kosningabaráttunni í mars 2003 að Paavo Lipponen, þáv. forsætisráðherra og leiðtogi jafnaðarmanna, hefði sagt ráðamönnum í Bandaríkjunum, meðal annars George W. Bush forseta, að Finnar vildu ganga í bandalagið gegn stjórn Saddams Husseins, þvert á yfirlýsta hlutleysisstefnu Finnlands.
Lipponen sagði að enginn fótur væri fyrir þessari ásökun og stjórnin hefði ekki horfið frá hlutleysisstefnunni í utanríkismálum. Ásökunin skipti sköpum í kosningunum og tryggði Miðflokknum fylgisaukningu og sigur í kosningunum. Niðurstaðan varð sú að Miðflokkurinn leiddi stjórnarsamstarf þriggja flokka, þ.á.m. með Jafnaðarmannaflokki Lipponens fv. forsætisráðherra, sem varð forseti finnska þingsins og tók ekki sæti í stjórninni. Lipponen er enn forseti þingsins en hverfur senn úr finnskum stjórnmálum.
Vanhanen var varnarmálaráðherra Finnlands er hann öllum að óvörum varð forsætisráðhera við fall Jäätteenmäki. Henni var ekki sætt eftir að upplýsingar komu fram um að hún hafði sagt þingi og þjóð ósatt. Hún sagðist að mig minnir á þessum tíma ekki hafa óskað eftir trúnaðarskjölum og verið mjög undrandi þegar hún hefði fengið úrdrætti úr þeim á faxi. Nokkrum klukkustundum eftir að hún sagði þetta skýrði aðstoðarmaður Halonen forseta frá því að hann hefði sent Jäätteenmäki skjölin á faxi eftir að hún hefði falast eftir þeim og gefið honum upp leynilegt faxnúmer sitt.
Þessi afhjúpun varð til þess að þingmenn Miðflokksins sneru baki við forsætisráðherranum. Leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja, Miðflokksins, Jafnaðarmannaflokksins og Þjóðarflokksins, sameinuðust um Vanhanen, sem hefur setið við völd síðan þetta heita finnska pólitíska sumar. Hann sat síðustu sex mánuði ársins 2006 í forsæti ESB. Hann er vinsæll og græddi meira að segja á heitu einkalífi, en ástkona hans gaf út bók um samband þeirra og sagði hann hafa sagt sér upp með SMS-skilaboðum, en Vanhanen skildi í kastljósi fjölmiðla árið 2005.
Stóra spurningin nú er því; mun Vanhanen verða áfram forsætisráðherra. Verður mjög spennandi að sjá.
![]() |
Miðflokkurinn með mest fylgi í finnsku kosningunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2007 | 14:57
Undarleg skrif Salvarar - lífseig netumræða
Það er öllum ljóst að með því að taka út umdeildu færsluna og að lokum vefinn viðurkenndi Guðbjörg Hildur að henni varð á og það stórlega. Það sem olli því þó að ég skrifaði fleiri en eina færslu um málið voru merkileg viðbrögð sumra sem skrifuðu með þeim hætti að ég væri að ráðast að málfrelsi Guðbjargar Hildar. Undir slíkum skrifum gesta á mínum eigin vef gat ég ekki setið þegjandi og fór yfir málið aftur. Enda er eitt að gagnrýna orðavalið og annað að gagnrýna það að fólk hafi skoðanir. Þetta eru tvö mál.
Ég skal fúslega taka undir það að Guðbjörgu Hildi er frjálst að hafa skoðanir. Það er eitt að hafa þá skoðun að auglýsingablað Smáralindar sé illa framsett og illa stúderuð. Annað er hinsvegar að kalla fyrirsætuna hóru og tala um að hún sé þess reiðubúin að vera tekin aftan frá eða setja skaufa upp í sig. Það voru orð Guðbjargar Hildar. Það orðalag misbauð mér og það orðalag var þessari konu til skammar! Ég fer ekki ofan af því Salvör mín, og þið hin sem lesið þetta jafnvel.
Öll höfum við skoðanir. Orðum við skoðanirnar illa eða förum yfir mörkin fáum við rauða spjaldið framan í okkur. Fannst reyndar fyndnast að Salvör tekur saklausustu ummæli Guðbjargar Hildar og setur í myndakassa. Saklaust og gott, en hvað varð um sterkustu orðin Salvör mín? Þetta er frekar ankanalegt og varpar rýrð á skrif þín.
Hafði ekki hugsað mér að skrifa meira um þetta. En ég sit ekki þegjandi hjá þegar að fólk sakar mig um að vega að skoðanafrelsi fólks og eða að ganga yfir strikið. Salvör ætti þá að lesa grófustu ummæli Guðbjargar Hildar Kolbeins og spyrja sig að því hvort að fólk eigi að skrifa svona um 14 ára stelpu.
Það finnst mér. Í ofanálag finnst mér að meirihluti fólks hafi talað og það með afgerandi hætti. Svona skrifar fólk ekki. Fólk horfir ekki þegjandi á það. Það er lexía málsins og það er ég ánægður með. Einfalt mál það!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
18.3.2007 | 02:02
Starfslok á Alþingi - margir alþingismenn hætta

Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrum ráðherra og þingforseti, hættir nú á Alþingi eftir langan og glæsilegan stjórnmálaferil. Hann hefur nú setið lengst allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það var vel við hæfi að síðasta þingræða Halldórs hafi verið um íslenska fánann, að setja þjóðfánann í þingsal, laust fyrir miðnættið. Mér finnst sjónarsviptir af Halldóri. Ég hef náttúrulega lengi unnið með honum í flokksstarfinu hér fyrir norðan og hann hefur skilað hér farsælu og góðu starfi. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum.
Fram kom við starfslok þingsins, þessa 133. löggjafarþings að þessu sinni að 114 frumvörp hefðu orðið að lögum og 29 þingsályktanir verið samþykktar. Seinasta starfsdag þingsins voru mál á færibandi í gegnum þingið og mikill hraði var á afgreiðslu og umfjöllun um stórmál þingvetrar. Voru afgreidd um eða yfir 50 þingmál á rúmlega fimm klukkutímum. Hraðinn var mikill undir lokin og var fjöldi mála afgreiddur með leifturhraða. Þetta er úrelt verklag að mínu mati. Lengja á starfstíma þingsins. Það á að koma saman undir lok ágúst eða byrjun september og starfa fram í júní, hið minnsta. Segja má að núverandi starfskerfi þingsins sé mjög gamaldags og í takt við liðna tíma.
Mér telst til að 21 alþingismaður kjörinn árið 2003 sé ekki lengur á þingi, hafi ákveðið að hætta í stjórnmálum við þessar kosningar eða horfið frá störfum fyrr en ella. Hæst ber að sjálfsögðu að forsætisráðherrarnir fyrrverandi, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hættu í stjórnmálum á kjörtímabilinu eftir langa þátttöku í stjórnmálum og að hafa leitt flokka sína í farsælu stjórnarsamstarfi flokka sinna samfleytt í rúmlega áratug. Auk fyrrnefndra hættu þau: Árni Magnússon, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Gunnar I. Birgisson, og Tómas Ingi Olrich. Árni Ragnar Árnason, sem var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, lést eftir erfið veikindi árið 2004.
Þeir þingmenn sem sátu sinn síðasta þingfund í kvöld og verða ekki í endurkjöri eru Halldór Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir (Sjálfstæðisflokki), Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Jón Gunnarsson (Samfylkingunni), Jón Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Dagný Jónsdóttir (Framsóknarflokki). Það eru því þónokkur tímamót á þingi í kvöld og fjöldi stjórnmálamanna sem sett hafa mark sitt á sögu Alþingis að hverfa af hinu pólitíska sviði.
Ég held að á engan sé hallað er sagt er að Halldór Blöndal hafi verið áberandi í sögu Alþingis. Segja má að hann hafi í raun verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961 og setið þingflokksfundi meginhluta þess tíma, í formannstíð 7 af 8 formönnum flokksins. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar kjörinn fulltrúi, fyrst sem varaþingmaður flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1971-1979. Hann hefur setið á þingi sem aðalmaður í 28 ár, frá desemberkosningunum 1979.
Ég mun í lokin fara yfir meginpunkta þeirra 21 einstaklinga sem setið hafa á þingi en annaðhvort hætt þar á kjörtímabilinu eða hverfa af þingi við alþingiskosningarnar 12. maí nk.
Létu af þingmennsku fyrir lok kjörtímabils
Davíð Oddsson
alþingismaður 1991-2005
borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991
forsætisráðherra 1991-2004
utanríkisráðherra 2004-2005
formaður Sjálfstæðisflokksins 1991-2005
varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1989-1991
Halldór Ásgrímsson
alþingismaður 1974-1978; 1979-2006
sjávarútvegsráðherra 1983-1991
dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989
utanríkisráðherra 1995-2004
forsætisráðherra 2004-2006
formaður Framsóknarflokksins 1994-2006
varaformaður Framsóknarflokksins 1980-1994
formaður fjölda þingnefnda á þingferlinum
Tómas Ingi Olrich
alþingismaður 1991-2004
menntamálaráðherra 2002-2003
formaður utanríkismálanefndar 1997-2002
Árni Ragnar Árnason
alþingismaður 1991-2004
formaður sjávarútvegsnefndar 2003-2004
Guðmundur Árni Stefánsson
alþingismaður 1993-2005
heilbrigðisráðherra 1993-1994
félagsmálaráðherra 1994
varaformaður Alþýðuflokksins 1994-1996
forsætisnefnd 1995-2005
Bryndís Hlöðversdóttir
alþingismaður 1995-2005
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004
Gunnar I. Birgisson
alþingismaður 1999-2006
formaður menntamálanefndar 2002-2005
bæjarstjóri í Kópavogi frá 2006
Árni Magnússon
alþingismaður 2003-2006
félagsmálaráðherra 2003-2006
Gefa ekki kost á sér til endurkjörs
Halldór Blöndal
alþingismaður 1979-2007
landbúnaðarráðherra 1991-1995
samgönguráðherra 1991-1999
forseti Alþingis 1999-2005
formaður fjölda þingnefnda á þingferlinum
Jón Kristjánsson
alþingismaður 1984-2007
heilbrigðisráðherra 2001-2006
félagsmálaráðherra 2006
formaður fjárlaganefndar 1995-2001
forsætisnefnd 2006-2007
Margrét Frímannsdóttir
alþingismaður 1987-2007
formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000
varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003
þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2004-2006
Rannveig Guðmundsdóttir
alþingismaður 1989-2007
félagsmálaráðherra 1994-1995
forseti Norðurlandaráðs 2004-2005
varaformaður Alþýðuflokksins 1993-1994
þingflokksformaður Alþýðuflokksins 1993-1994; 1995-1996
þingflokksformaður jafnaðarmanna 1996-1999
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 1999-2001
forsætisnefnd 2005-2007
formaður félagsmálanefndar 1991-1994
Sólveig Pétursdóttir
alþingismaður 1991-2007
dómsmálaráðherra 1999-2003
forseti Alþingis 2005-2007
forsætisnefnd 2003-2005
formaður allsherjarnefndar 1991-1999
Sigríður Anna Þórðardóttir
alþingismaður 1991-2007
umhverfisráðherra 2004-2006
forseti Norðurlandaráðs 2000-2001
þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1998-2003
forsætisnefnd 2006-2007
formaður menntamálanefndar 1991-2002
formaður utanríkismálanefndar 2002-2003
formaður umhverfisnefndar 2003-2004
Guðmundur Hallvarðsson
alþingismaður 1991-2007
formaður samgöngunefndar 2001-2007
Jóhann Ársælsson
alþingismaður 1991-1995; 1999-2007
Hjálmar Árnason
alþingismaður 1995-2007
þingflokksformaður Framsóknarflokksins 2003-2007
formaður iðnaðarnefndar 1999-2003; 2006-2007
formaður félagsmálanefndar 2003-2004
Guðrún Ögmundsdóttir
alþingismaður 1999-2007
Dagný Jónsdóttir
alþingismaður 2003-2007
formaður félagsmálanefndar 2006-2007
Jón Gunnarsson
alþingismaður 2003-2007
Sigurrós Þorgrímsdóttir
alþingismaður 2006-2007
![]() |
Fundum Alþingis frestað fram á sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)