7.5.2008 | 14:24
Myndir af bankaræningjanum í Hafnarfirði

Þá er lögreglan búin að birta myndir af bankaræningjanum í Hafnarfirði í morgun. Vonandi mun verða hægt að rekja slóð hans með því, enda sést nokkuð vel framan í ræningjann, þó neðri hluti andlitsins sé hulinn með klúti. Þó ræninginn hafi ekki hafi náð að komast undan með háar peningaupphæðir er mikilvægt að birta þessar myndir og upplýsa málið.
Þeir sem kannast við manninn ættu að hringja í Lögguna í númerið 444-1111.
![]() |
Myndir birtar af bankaræningja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.5.2008 | 10:56
Bankarán í Hafnarfirði

Þetta minnir mun frekar á erlendan veruleika í kvikmyndunum en það sem gerist í okkar litla og rólega samfélagi. En samhliða öllum verslunarránunum í skjóli nætur má eiga von á því að skipulögð séu stærri rán þar sem reynt er að ná slatta af peningum. Vonandi mun ganga vel að finna þennan ræningja.
![]() |
Leitað að bankaræningja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2008 | 09:53
Veik staða Hillary - Obama að ná útnefningunni

Stór þáttaskil, Hillary í vil, verða því æ ólíklegri í þessari stöðu og eiginlega erfitt að finna rök fyrir því að ofurfulltrúar styðji Hillary. Eins og staðan er nú virðist taflið það erfitt fyrir Hillary að vonlítið er að halda áfram til að stefna allavega að sigri. Til þess að hafa alvöru rök í áframhaldandi kostnaðarsama baráttu hefði Hillary þurft að sigra í Indiana með þeim mun sem var í upphafi talningar og ná að koma í veg fyrir að Obama næði meira en tíu prósenta sigri yfir henni í Norður-Karólínu.
Kalt mat er því augljóslega þannig að Hillary hafi ekki lengur neitt til að berjast fyrir, þó vissulega vanti Obama enn um 200 þingfulltrúa til að geta náð útnefningunni. Fáir þingfulltrúar eru eftir í forkosningabaráttunni og erfitt að sannfæra ofurfulltrúana um að Obama verði stöðvaður úr þessu; hann hefur allt í senn sigrað í mun fleiri fylkjum, fleiri atkvæði á bakvið sig og fleiri þingfulltrúa.
Fannst merkilegt að sjá stemmninguna þegar að Hillary ávarpaði stuðningsmenn í Indianapolis í nótt. Það var áður en lokatölur í Indiana lágu fyrir og á þeirri stundu minnkaði munurinn á milli þeirra sífellt. Hillary hélt þrumandi ræðu, en þó mun lágstemmdari en hún hefur oft verið. Að baki henni voru feðginin Bill og Chelsea augljóslega nokkuð niðurdregin og reyndu að brosa í gegnum þau svipbrigði að þau væru að fagna einhverju sem væri utan seilingar. Þannig er stemmningin hjá Hillary.
Hún getur haldið áfram en tilganginn til þess vantar augljóslega. Hillary virðist hafa aflýst viðtölum morgunsins og er að fara yfir stöðuna. Kalt mat á stöðunni er sú að Obama er kominn með aðra hendina á hnossið mikla, sem barist hefur verið um síðustu 15 mánuði. Hillary mistókst að höggva skarð í forskot Obama í nótt, þrátt fyrir að ná vissulega merkilegum sigri í Indiana. Hann var þó of tæpur og frekari barátta verður flokknum erfið.
Hillary og Bill hafa kunnað jafnan á tímasetningar. Tap hefur þó ekki þekkst í þeirra orðabók og þau hafa ekki verið þekkt fyrir að leggja árar í bát. Staðan nú er þó orðin það erfið að væntanlega verður það valkosturinn fyrr en síðar, einkum til að Hillary geti átt líf í pólitík handan þessa harðvítuga og kostnaðarsama forkosningaslags.
![]() |
Obama hefur yfirhöndina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.5.2008 | 00:02
Hillary sigrar í Indiana og Obama í N-Karólínu

Norður-Karólína er of mikið blökkumannaríki til að það geti orðið lokapunktur baráttunnar úr þessu. Hefði Obama sigrað í Indiana hefði hann getað náð þar hinum afgerandi lokapunkti í baráttunni við Hillary og sagt með sannfærandi hætti við ofurfulltrúa að hann hefði yfirhöndina í slagnum, sem sumir eru eðlilega farnir að kalla söguna endalausu. Þau hafa bæði sterka stöðu til að taka slaginn alla leið.
Hillary þurfti að sigra í Indiana til að halda lífi í baráttu sinni og henni tókst það með sínu trausta alþýðufylgi og með traustum stuðningi Evan Bayh, öldungadeildarþingmanns þar. Enn hefur henni tekist að bjarga framboði sínu frá endalokunum margumtöluðu og enn tekst Obama ekki að ljúka forkosningaslagnum. Ekki mun það takast úr þessu. Nú fer fókusinn úr þeim hluta baráttunnar til ofurfulltrúanna. Ljóst hefur verið um nokkuð skeið að þeir ráði úrslitum, fyrst að Michigan og Flórída gildi ekki í lokaútkomunni. Enn er óvissan yfir í baráttunni
Þetta hefur verið mjög langur kosningaslagur og sem dæmi má nefna að Indiana skiptir nú í fyrsta skipti einhverju máli í heildarmyndinni frá því að Robert F. Kennedy sigraði þar í forkosningum í maí 1968, mörgum að óvörum, eftir að hafa verið undir og náð að lokum að sannfæra kjósendur í ríkinu. Sá sigur hafði mikil áhrif. Kennedy var myrtur mánuði síðar, að kvöldi dagsins sem hann sigraði í Kaliforníu, sem var einn glæsilegasti pólitíski sigur hans, og var kominn langleiðina að útnefningu flokksins.
Þó að forkosningaslagurinn haldi áfram er ekki mikið þar eftir í pottinum til að berjast um og því munu þau bæði reyna allt sem þau geta til að ná hylli ofurfulltrúanna sem ekki hafa tekið afstöðu. Er allt kemur til alls að loknum löngum slag ráða þeir hver verði forsetaframbjóðandi en ekki þeir sem hafa kosið í öllum þessum forkosningum, eins kómískt og það kann að hljóma.
![]() |
Obama sigraði í N-Karólínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.5.2008 | 22:07
Sarkozy kemur í veg fyrir að Blair verði forseti ESB

Blair hóf afgerandi baráttu fyrir hnossinu rétt fyrir þennan fund í París og hefur ekki farið leynt með áhuga sinn. Ekki kom það svosem að óvörum enda hefur Blair verið nær ósýnilegur eftir að hann hvarf af hinu pólitíska sviði í júní 2007 eftir áratug í Downingstræti. Val á honum sem sáttasemjara kvartettsins í Mið-Austurlöndum markaði hann ekki sem lykilspilara á alþjóðavettvangi af þeim skala sem stjórnmálaleiðtogar, og væntanlega hann sjálfur, ætluðu sér. Til þess var hann bæði of umdeildur og vald hans einfaldlega ekki nógu mikið í slíku embætti.
Orðrómurinn um það að Tony Blair myndi enda sem einskonar alþjóðaforseti Evrópusambandsins hefur staðið eiginlega allt frá árinu 2004, er þess sáust fyrst merki að Blair ætlaði ekki að leiða Verkamannaflokkinn í fjórðu þingkosningarnar í röð né hefði styrk til þess að gera það. Hann var allan valdaferil sinn mikill talsmaður ESB-samstarfsins og var annt um þann vettvang, mun frekar en Gordon Brown væntanlega, en gerði samt ekkert mikið í því að setja ESB-mál á dagskrá í valdatíð sinni, enn hafa Bretar jú ekki tekið upp Evruna t.d. auk þess sem Bretar hika í öðrum málaflokkum.
Örlögin höguðu því einmitt svo til að síðasti blaðamannafundur Blairs á valdaferlinum var reyndar í Brussel, rúmum sólarhring áður en hann lét af leiðtogaembætti í flokknum, helgina áður en hann sagði af sér. Mikil viðbrigði voru fyrir Tony Blair að hætta sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi, eflaust mun meiri en hann gerði sér grein fyrir. Öllum er ljóst að sviðsljós fjölmiðla hefur ekki verið mikið á honum í sáttasemjarahlutverkinu. Staðan sem hann gegndi varð ekki það hlutverk aðalleikara á alþjóðavettvangi sem hann eflaust taldi að fylgdi titlinum veigamikla. Fjölmiðlar hafa ekki fylgt honum eftir, eins og áður.
Auk þess var Blair of markaður sögulega af miklum hitamálum til að vera einhver allsherjarreddari á þessu svæði. Skarð Blairs var mjög mikið fyrir breska fjölmiðla sérstaklega, enda hafa þeir lengi hossað honum, sérstaklega fyrir Íraksstríðið og sumir allt til endalokanna meira en aðrir. Blair hefur verið maður sviðsljóssins, tilbúinn til að gera allt fyrir spinnið, plottið og myndavélablossana. Athyglin hefur líka verið honum mikilvæg. Brown er maður annarrar gerðar, hann er mikill hugsuður en um leið meiri pólitíkus á bakvið tjöldin.
En hann er mun litlausari sem persóna en hinn litríki Blair sem sjarmeraði Breta fyrir áratug og var lengi vel dálæti þeirra, stolt og yndi. Eða allt þar til að hans glampi hvarf með sprengjublossunum í Bagdad. Eflaust er það ástæða þess að frægðarsól Browns er að hníga til viðar eftir aðeins ár á forsætisráðherrastóli.
Ekki var óeðlilegt að Blair horfði til Brussel til að fá pláss við sitt hæfi. En vonin um forsetatignina sögulegu og samevrópsku virðist nú horfin veg allrar veraldar. Rétt eins og Sarkozy gerði Blair að alvöru kandidat hefur hann gert þær vonir að engu nú með því að veðja ekki á hann lengur.
![]() |
Sarkozy hættur stuðningi við Blair í embætti forseta ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.5.2008 | 21:14
Mun David Miliband velta Gordon Brown úr sessi?

Langlíf er sagan af því að Tony Blair hafi helst viljað að Miliband, sem ein af hinum ungu spútnik-stjörnum í skugga leiðtogaferils síns, yrði eftirmaður sinn. Hann hafi hinsvegar ekki talið ráðlegt að berjast gegn því að Gordon Brown tæki við sem flokksleiðtogi og forsætisráðherra fyrir ári. Þá voru samskipti Blair og Brown sannarlega við frostmark eftir ítrekaðar tilraunir Browns til að ná völdum eftir að Blair hafði svikið margfrægt samkomulag þeirra um skiptingu valda við andlát John Smith vorið 1994. Blair var orðinn of veikur til að berjast gegn Brown og fylgismönnum hans.
Taflið hefur snúist við mjög hratt. Á innan við ári er Gordon Brown orðinn jafn veikburða stjórnmálamaður og Tony Blair var eftir áratug við völd. Hann berst fyrir pólitísku lífi sínu, einkum því að leiða Verkamannaflokkinn í næstu þingkosningar. Eftir rósrauða hundrað hveitibrauðsdaga í forsætisráðherraembætti hefur stjórnmálaferill Browns sífellt orðið tragískari og stefnir í algjört skipbrot, hvort sem flokksmenn sparki honum af valdastóli fyrir kosningar eða landsmenn hafni honum í næstu þingkosningum. Afhroðið á fimmtudag var svo skelfilegt fyrir Brown að annað er einfaldlega ekki í kortunum. Íhaldsflokkurinn hefur náð sama flugi og Verkamannaflokkurinn fyrir einum og hálfum áratug.
Miliband virðist vera sá sem flestir horfa til sem framtíðarleiðtoga í flokknum, þegar að Gordon Brown yfirgefur bresk stjórnmál, hvort sem það verður af fúsum og frjálsum vilja eður ei. Miliband varð næstyngsti maðurinn, tæplega 42 ára, við völd í utanríkisráðuneytinu er hann kom þangað í kjölfar þess að Gordon Brown varð forsætisráðherra í júní 2007. Aðeins dr. David Owen var yngri, 38 ára, er hann varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn Jim Callaghan árið 1977. Skipan hans í þennan valdamikla póst í breskum stjórnmálum sýndi og sannaði að hann var krónprins flokksins, líkt og Brown áður.
David Miliband hefur útlit krónprinsins og hann hefur persónutöfra svipað því sem einkenndi Tony Blair fyrir um þrettán til fimmtán árum. Margir hvöttu hann til að gefa kost á sér til leiðtogahlutverks í flokknum. Þrálátar kjaftasögur eru um að Tony Blair og helstu lykilmenn hans hafi hvatt hann sérstaklega til að fara fram. Þá fyrst er hann útilokaði opinberlega framboð komu Blair og hans lykilmenn fram og lýstu yfir algjörum stuðningi við Gordon Brown. Kjaftasagan er einmitt sú að Brown og Miliband hafi samið um skiptingu valda, ekki ósvipað því og Blair og Brown gerðu um miðjan tíunda áratuginn.
Enda skrafað um að Brown hafi óttast Miliband, eðlilega, og því aftengt möguleikann á því að hann færi fram gegn sér. Reynt var að bera á móti kjaftasögunum um að dubba hafi átt Miliband upp til leiðtogahlutverks af Tony Blair og nánustu samherjum hans, en það hefur ekki beint hljómað sannfærandi í ljósi þeirra öruggu heimilda sem fylgdu fréttum t.d. Guardian af málinu. Eflaust var það hagur bæði þeirra Browns og Milibands í upphafi að þeir myndu vinna saman. Brown hafði fyrir ári reynsluna og kraft hins þrautreynda statesman, en Miliand með sjarmann og áruna sem einkennir krónprinsinn.
Saman geta þeir unnið vel, rétt eins og Blair og Brown gerðu saman á sínum tíma í frægu samkomulagi sem í raun tryggði Verkamannaflokkinn sem sterkan valkost og byggði undir veldið mikla sem síðar varð með kosningasigrinum 1997. Hefðu þeir tekið rimmu saman hefði staðan eflaust getað orðið allt önnur og kergjan sem hefði komið með leiðtogaslag þeirra á milli hefði orðið flokknum skaðleg til lengri tíma litið. Samkomulagið tryggði stöðu beggja og þeir nutu vissulega góðs af samkomulagi og náðu valdamiklum embættum í stað þess að efna til leiðtogaslags sem hefði sennilega veikt flokkinn.
Staðan hefur breyst á skömmum tíma. Brown riðar til falls og virðist dæmdur til að missa völdin, eftir eindæma klúður og vandræðalega forystu á örlagatímum í breskri sögu. Valdamissir flokksins í sveitarstjórnum um allt land, sem náði hámarki er Rauða Ken var sparkað af borgarstjórastóli í London, var í raun skilaboð kjósenda um að Brown sé ekki að ná tökum á forystu landsmálanna. Enda líta margir á að flokksmönnum í sveitarstjórnum hafi verið hafnað vegna þess að Brown hafi klikkað í hlutverki sínu sem flokksleiðtogi og forsætisráðherra.
Gordon Brown er auðvitað að eldast. Hann nálgast nú sextugt og er ekki lengur hinn ungi framagjarni maður sem var á tíunda áratugnum er kratarnir komust til valda og honum vantaði sárlega ungan og efnilegan arftaka sér við hlið, bæði til að tryggja sína stöðu og eins flokksins á komandi árum. Brown náði í upphafi markmiðum sínum; hann barðist í þrettán ár fyrir því að hljóta völdin í Downingstræti 10. En forsætisráðherraferillinn hefur að mestu leyti verið sorgarsaga og örlög hans eru ekki lengur á eigin valdi.
Brown situr nú rétt eins og Blair undir lokin upp á náð og miskunn þingmanna á aftari bekkjum þinghússins og verður að sitja og standa eins og þeir vilja. Hann hefur misst frumkvæðið og styrk leiðtogans sem getur stýrt af krafti. Brown hefur nú eins og Blair mann á eftir sér sem getur hjólað í hann þegar að síst skyldi. Utanríkisráðherratign Milibands markaði hann sem alvöru leiðtogakandidat í fyllingu tímans og færði honum gríðarleg völd á alþjóðavettvangi og ennfremur á heimavelli.
Miliband talar hikandi um leiðtogaframboð og virðist styðja Brown. Það getur breyst fljótlega ef sama staða verður óbreytt næstu mánuðina og Brown nær ekki frumkvæðinu í sínar hendur, tekst ekki aftur að verða hinn sterki stjórnmálamaður með afgerandi völd og áhrif. Brown er staddur á sömu vegferð nú og John Major á miðjum tíunda áratugnum, að vera dæmdur til að tapa. Erfitt er að berja þá áru af sér og reyna að ná fyrri styrk og myndugleik.
Miliband hefði getað orðið alvöru keppinautur Browns um völdin í fyrra ef Blair hefði treyst honum fyrir alvöru embættum. Blair var frægur fyrir að rækta ekki upp leiðtoga sér við hlið og missti því tökin á Brown þegar að hann féll sjálfur af stalli. Blair ákvað t.d. að velja ekki Miliband sem utanríkisráðherra vorið 2006, þrátt fyrir sögusagnir, sem hefði með því getað byggt hann upp sem leiðtogakandidat gegn Gordon Brown.
Miliband hefur öðlast þann styrk nú, einkum vegna þess að Brown þurfti á honum að halda á sínum tíma, og hann hefur sjálfur sýnt að þar fer leiðtogaefni. Þess vegna verður hann Gordon Brown skeinuhættastur ef staðan verður óbreytt á næstunni. Ekki er ósennilegt að margir kratarnir líti á Miliband sem einu von flokksins í jafnri keppni við David Cameron í næstu kosningum. Þá skipti kjörþokki meira máli en reynslan.
![]() |
Miliband vill alþjóðlega eftirlitsmenn til Simbabwe |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.5.2008 | 11:33
Háskólakennari grunaður um kynferðisbrot
Eflaust eru fleiri mál gerð upp með þögninni en þau sem verða opinber, því miður. Þetta mál er þess eðlis að eðlilegt er að velta fyrir sér hversvegna maður gerir þetta við börnin sín. Um leið vekur þetta spurningar um hversu mörg slík mál hafi verið þögguð niður. Þetta er mjög alvarlegt mál og sérstaklega sláandi hvað það var lengi hjúpað þögn og leynd.
![]() |
Grunaður um kynferðisbrot gagnvart 5 börnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.5.2008 | 00:33
Kynferðisbrotamál og úrræði innan þjóðkirkjunnar
Fyrr en nú hefur þó mál ekki farið þaðan til lögreglu. Vona sannarlega að ekki hafi neitt komið þar á borð en eðlilegt er að spyrja sig að þessu. Eina sem formaður fagráðsins vildi þó nefna var að málin væru færri en tíu. Man ekki eftir mörgum svona málum, með svo alvarlegri kæru, allavega árum saman hjá þjóðkirkjunni. Man þó auðvitað, eins og flestir, eftir því þegar að Ólafur Skúlason, biskup, var sakaður um kynferðisbrot um miðjan tíunda áratuginn. Nokkrar konur komu þá fram með gamlar sögur af slíkum málum, elsta var orðið allavega 20 ára gamalt.
Þessi mál sköðuðu biskupinn og kirkjuna, eins og nærri má geta, og Ólafur sat ekki lengi á biskupstóli eftir þetta og hætti tveim árum áður en hann þurfti vegna ásakana í þessum efnum. Veit ekki hvort fagráðið er eldra en þetta mál en það væri fróðlegt að vita hvað það hafi lengi starfað.
Svona dapurleg mál vekja athygli og skaða það starf sem unnið er hjá kirkjunni að mínu mati. En mikilvægt að úrræði séu til staðar til að taka á málum innan kirkjunnar sem stofnunar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2008 | 20:05
Organistinn í Selfosskirkju talar um Gunnarsmálið
Þetta mál verður sífellt sorglegra eftir því sem meira heyrist af því í fjölmiðlum. Fjölmiðlavörn prestsins í DV í dag var fljótlega slegin út af borðinu af réttargæslumanni stelpnanna og nú hefur organistinn tjáð sig með nokkuð áberandi hætti í fréttum um þetta viðkvæma mál.
Þetta er mjög dapurlegt í alla staði fyrir þjóðkirkjuna, svo vægt sé til orða tekið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.5.2008 | 19:50
Pólitískur lífróður hjá Gordon Brown

Horfði á viðtalið sem Adam Boulton, Egill Helga þeirra á Sky, átti við forsætisráðherrann. Þar kom Brown ekki vel út. Einhvernveginn er Brown algjörlega að spila sig út þessa dagana. Svolítið merkilegt að sjá eiginlega, enda var hann alltaf sá sterki þegar að hann ríkti í fjármálaráðuneytinu lengur en allir aðrir í breskri pólitík síðustu aldirnar, í ráðuneyti sem menn sátu almennt ekki lengi í. Hinsvegar hefur hann aldrei fundið fjölina sína sem forsætisráðherra eftir að Blair fór.
Gordon Brown hefur alltaf verið úthugsandi pólitískur klækjarefur. Það sást best í valdaátökum hans við Tony Blair bakvið tjöldin árum saman. Hann vann þann slag á sálfræðinni og tók helstu andstæðingana á taugum. Svo fór að hann fékk pólitískt ríkidæmi Tony Blair á silfurfati. Helstu Blair-istarnir lögðu niður skottið og sættu sig við orðinn hlut. Í upphafi náði hann mikilli pólitískri velgengni - eftir að hann daðraði við haustkosningar alltof lengi og guggnaði svo við það hefur hann virkað sem pólitískur heigull.
Pólitísk gæfa getur verið fallvölt. Það sem snýr upp í dag getur fallið niður á morgun. Það er Brown að læra nú eftir litríkan stjórnmálaferil sinn, sem lengst af markaðist af góðu gengi og rósrauðum valdadögum. Nú er veldi hans á fallanda fæti og andstæðingar hans innan flokksins þrengja að honum. Hafa nú sett honum tímaramma um að finna fjölina sína fyrir haustið. Afhroðið á verkalýðsdaginn var svo mikið að allir vita að það eru algjörir draumórar.
Pólitíski klækjarefurinn Brown beið í þrettán ár eftir tækifæri ferilsins, að leiða bresk stjórnmál úr hásætinu við Downingstræti 10. Sá ferill er á leiðinni í vaskinn. Hann er dæmdur til pólitískrar glöturnar fyrr en síðar eftir þessi úrslit sem hafa veikt hann það mjög í sessi að allir vita að hann verður aðeins millibilsleiðtogi. Minnir sífellt meir á John Major sem var dæmdur til að tapa árum saman og tapaði svo stórt að aldrei mun gleymast.
Þetta er staðan sem blasir við Brown og ekki miklar líkur á að hann bjargi sér úr þeirri pressu sem fylgdi hinu auðmýkjandi og sögulega tapi.
5.5.2008 | 11:13
Sr. Gunnar faðmaði stelpurnar og kyssti þær á kinn
Séra Gunnar Björnsson, sóknarprestur á Selfossi, hefur vörn sína vegna hins umdeilda kynferðisbrotamáls með viðtali í DV í dag. Þar segist hann aðeins hafa faðmað og kysst á kinn þær tvær stelpur, sextán og sautján ára, sem hafa kært hann, og telur málið á misskilningi byggt. Ekkert ósiðlegra hafi farið fram. Telur hann málið allt á misskilningi byggt en fari sína leið í kerfinu.
Mikla athygli vekur að séra Gunnar hefji vörn sína á opinberum vettvangi vegna málsins í DV, sem óhjákvæmilega fylgir vegna starfa hans í þjóðkirkjunni, en hann lét Fréttablaðið ekki ná í sig um helgina, eins og fram kemur í netfréttum á vísi.is. Gunnar er í þeirri stöðu vegna starfa sinna að fjallað er um mál af þessu tagi, enda er þögn varla heldur hið rétta í málinu, þó það sé í rannsókn. Maður í þessari stöðu sem fær slíka kæru á sig þarf að taka á sig hita almennrar umræðu.
Rétt er af Gunnari að koma í fjölmiðla og segja sína hlið málsins á þessu stigi, enda mjög sótt að honum skiljanlega vegna þessara ásakana um kynferðisbrot. Málið er áfall fyrir þjóðkirkjuna hvernig sem á er litið og mikilvægt að fram komi hlið prestsins áður en niðurstaða er ljós í rannsókn og réttarkerfinu vegna málsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.5.2008 | 10:55
Símafyrirtækið Tal lifnar við aftur

Þetta var flott vörumerki og við sem færðum okkur yfir í Tal á sínum tíma gerðum það vegna þess að fyrirtækið var flott og boðaði eitthvað svo nýtt og ferskt. Eftirsjá var af Tali þegar að það var lagt niður í sameiningu nokkurra símafyrirtækja síðla árs 2002 og það var sett undir hatt Íslandssíma og hlaut nafn þess. Síðar hét það hinu undarlega nafni Og Vodafone um skeið, svo bara Vodafone að erlendri fyrirmynd.
Nú er Tal að lifna við aftur, nú sem lággjaldasímafyrirtæki á grunni Sko og Hive. Tal er flott nafn og ég tel að það styrki símafyrirtækið að nota þetta gamla nafn liðinna tíma, nafn sem fyrirtækið á, eftir fyrri sameiningar og breytingar í viðskiptalífinu.
Vona svo sannarlega að það verði appelsínugult, gerir það kannski að tískulit ársins rétt eins og gamla Tal gerði fyrir áratug.
![]() |
Boða 20-30% lækkun fjarskipta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2008 | 02:56
Geðveiki harðstjórinn í Amstetten

Eftir því sem meira er fjallað um málið verður óhugur almennings meiri og spurt er hvernig nokkur maður gat komið fram við afkomendur sína með svo djöfullegum hætti. Lýsingarnar á því hvernig hann gat spunnið verk sín áfram allan þennan tíma eru í senn sorglegar og ógnvekjandi. Sá maður sem getur beitt fólk af eigin holdi og blóði svo ógeðslegri meðferð og lýst er í þessari frétt er auðvitað fjarri því að vera heill á geði og væntanlega átti heldur enginn von á því.
Atriðin sem fjallað er um þessa dagana um fyrri afbrot Fritzl vekja upp spurningar um af hverju yfirvöld hafi ekki grunað hann um að loka dótturina og börn hennar af í kjallaranum. Einkum vegna þess að hann var dæmdur kynferðisafbrotamaður og þekktur ofstopamaður. Stórundarlegt er að engar viðvörunarbjöllur skyldu klingja hjá yfirvöldum öll þessi ár. Aðstæður á sjálfu heimilinu voru ekki kannaðar vel þegar að dóttirin hvarf og ekki heldur, eins undarlegt og það hljómar, þegar að barnabörnunum fjölgaði á heimilinu.
Finnst þetta mál, eftir því sem meira kemur í ljós, vera áfellisdómur yfir þeim sem rannsökuðu málið og áttu að kveikja á perunni vegna veigamikilla staðreynda um Fritzl og heimilisaðstæður hans, auk þess karaktereinkenni hans og fyrri afbrot. Þessi djöfull í mannsmynd mun vonandi hljóta makleg málagjöld að lokum.
![]() |
Segir Fritzl ósakhæfan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2008 | 16:51
Sorglegt mál á Selfossi - áfall fyrir þjóðkirkjuna
Kynferðisbrotamál séra Gunnars Björnssonar, sóknarprests á Selfossi, er mikið áfall fyrir þjóðkirkjuna og eðlilega eru sóknarbörn á hans starfssvæði sem og almenningur allur sleginn yfir þessu máli. Hvernig sem aðstæður eru í málinu er verulega sorglegt mál og mikilvægt að fá vel fram málsatvik og upplýsa málið í rannsókn.
Fólk sem ég þekki á Selfossi og hef rætt við um þetta mál eru öll sammála um að sóknarbörn þar séu mjög slegin vegna málsins og allir séu eitt spurningamerki yfir því hversu alvarlegt málið er og hversu víðtæk þessi brot séu sem slúðrað er um og hefur verið kært fyrir. Mikilvægt er að þetta mál sé opinberað og farið yfir alla þætti þess, en ekki þaggað niður og því er umræðan um þetta mál þörf og eðlilegt að fólk spyrji sig um málsatvik og hvort presturinn hafi brotið af sér.
Ætla ekki að dæma séra Gunnar áður en rannsókn hefur lokið, en hvernig sem staða mála er, er alveg ljóst að málið er skaðlegt fyrir prestinn og sérstaklega er eðlilegt að hugsa til þeirra stelpna sem hafa kært. Allt er þetta mál hið sorglegasta en ekki er rétt að fella þyngstu dómana á þessu stigi. Dómstóll götunnar getur ekki dæmt endanlega í þessu máli.
Ekki er nema tvennt í stöðunni; annaðhvort hefur presturinn gerst sekur um alvarlegan glæp og á að segja af sér embættinu eða þá að logið er upp á hann sem hefur ekki síður alvarlegar afleiðingar. Ætla ekki að fella dóm í því, en það er alveg ljóst að meðan vafinn er uppi verður þessi prestur að víkja og hann hefur gert það.
En svona mál er skaðlegt fyrir þjóðkirkjuna sem stofnun. Þar var þó tekið á málinu af ábyrgð og mikilvægt að málsatvik séu rannsökuð og þessu máli lokið með þeim hætti.
![]() |
Umkvörtun vegna sóknarprests barst kirkjunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.5.2008 | 19:04
Presturinn á Selfossi kærður fyrir kynferðisbrot

Gunnar hefur verið prestur á Selfossi frá því að hann hætti störfum á Holti í Önundarfirði í byrjun áratugarins. Hann var mjög umdeildur sem prestur á Holti og voru mikil átök milli hans og sóknarbarna, sem mikið voru í fjölmiðlum. Auk þess var hann áður prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík og náðu deilur þar miklum hæðum ennfremur.
Í báðum tilfellum urðu deilurnar það hástemmdar að skipt var um skrá í báðum kirkjum svo Gunnar kæmist ekki í þær. Hefur lítið verið um slík átök á Selfossi og koma þessar sögur af kynferðisafbrotum, sem eru í rannsókn, sem visst reiðarslag fyrir þjóðkirkjuna.
Alltaf er stóralvarlegt mál þegar að prestar eru sakaðir um svo alvarleg brot og mikilvægt að fá hið sanna í ljós í málinu, rannsaka það og ljúka með þeim hætti sem réttur er í samhengi við niðurstöðurnar.
3.5.2008 | 18:29
Guðni opnar á Evrópuumræðuna í Framsókn

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti merkilega ræðu á miðstjórnarfundi í dag og setti þar Evrópumálin á dagskrá hjá flokknum, í takt við það sem Jón Sigurðsson og Valgerður Sverrisdóttir hafa talað um síðustu dagana, þó vissulega hafi hann ekki talað hreint út um að fara í aðildarviðræður. En hann talar um breytingar á stjórnarskrá líkt og aðrir stjórnmálamenn hafa talað um.
Greinilegt er að greinaskrif Jóns Sigurðssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins, hafa mikil áhrif á stöðu mála innan flokksins og Guðni tekur málið næsta skref með vangaveltum um beinskeytta Evrópuumræðu, pælingar um aðildarviðræður og nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá. Í þeim efnum er hann að segja í raun það sama og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og talar í svipuðum takt og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem hefur verið að velta fyrir sér að móta þurfi vegvísi í Evrópumálum.
Guðni barðist mjög gegn því að feta skrefið í Evrópuátt á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrir þrem árum, þar sem hann og Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, tóku rimmu fyrir opnum tjöldum á þinginu. Held að hann sé fyrst og fremst klókur í þessari stöðu. Hefði hann talað áfram með sama hætti og áður hefði hann veitt Valgerði Sverrisdóttur og þeim fulltrúum Halldórsarmsins sem talað hafa mjög afgerandi í Evrópuátt lykiltækifæri til að hjóla í sig, t.d. í formannskjöri á flokksþingi á næsta ári.
Guðni tekur því næsta skref í takt við þá sem hæst hafa talað í Evrópumálum í Framsókn og heldur kontról á stöðunni. Guðna er eflaust mjög mikilvægt að halda völdum í Framsóknarflokknum. Það gerir hann með því að hlusta og útiloka ekkert en tala heiðarlega um málin og íhuga næstu skref í takt við það að almenningur vill heiðarlega umræðu um þessi mál.
Í raun eru blikur á lofti fyrir Framsókn. Áhyggjuefni hlýtur að vera fyrir flokk og forystumenn hans að ekkert skuli hann hagnast meira á hnignandi gengi Samfylkingarinnar en nýjustu kannanir sýna. Þar er Framsókn að hækka en mjög lítið miðað við kjöraðstæður til að ná byr í seglin. Guðni segir hreint út í dag að hann sé á vaktinni og útiloki ekkert.
Eflaust kallast þetta klókindi hjá Brúnastaða-Guðna.
![]() |
Þarf að breyta stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.5.2008 | 17:01
Fyrsti forsetabíllinn kominn til Bessastaða

Söguna er mikilvægt að varðveita og hugsa vel um. Kannski sjá ekki allir sögulegt mikilvægi í fyrsta forsetabílnum, en ég held að þetta verði til sóma og gott verði fyrir forsetaembættið að eiga þennan bíl uppgerðan og geta átt hann sem minningu um hina liðnu tíma á þeim árum þegar að forsetaembættið var stofnað á sögulegum tímum í sögu þjóðarinnar.
Auk þess er alltaf gaman að sjá gamla og uppgerða bíla. Fjöldi fólks hefur gaman af bílum og margir þeirra stunda það sérstaklega að kaupa gamla bíla og gera upp. Fornbílarnir taka sig alltaf vel út.
![]() |
Fyrsti forsetabíllinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2008 | 15:43
Glæsilegt hjá Man Utd - titillinn innan seilingar

Chelsea og Manchester United eiga spennandi mánuð framundan. Ekki aðeins eru liðin að berjast á heimavelli heldur munu berjast um bikarinn í Meistaradeildinni síðla mánaðar í Moskvu í sögulegum leik þar sem bresk lið berjast í úrslitaleiknum í fyrsta skiptið til þessa.
Þó að Manchester United sé að ná titlinum eiga verður ekkert gefið í Moskvu. En vonandi er þetta allt að smella saman á heimavelli. Held að Man Utd muni ná þessu, enda markatalan vænleg og góð.
![]() |
Manchester United skrefi nær titlinum eftir 4:1 sigur á West Ham |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2008 | 14:21
Reykvíkingar vaktir með íslömsku bænakalli
Þórarinn olli miklu fjaðrafoki í Toronto í Kanada í nóvember, eins og kunnugt er, með verki sínu "Þetta er ekki sprengja". "Listaverkið" sem var eftirlíking af sprengju kom hann fyrir í listasafni í borginni og lét fylgja með myndband sem sýndi sprengingu að mig minnir. Flestir á svæðinu tóku listaverkið fyrir alvöru sprengju, eðlilega, og safnið var rýmt og lögregla kölluð til að aftengja "sprengjuna".
Afrakstur listarinnar var að Þórarni var vikið úr skóla, að mig minnir, og þurfti að dúsa í varðhaldi, enda talinn hryðjuverkamaður með listsköpun sinni. Kannski átti þetta allt að vera einn líflegur spuni, hver veit. Þórarinn er reyndar ekki að finna upp hjólið með hinu umdeilda íslamska bænakalli í Reykjavík. Hannes Sigurðsson, hinn umdeildi yfirmaður Listasafnsins hér á Akureyri, efndi til sama gjörnings fyrir nokkrum árum; lét íslamskt bænaákall óma frá listasafninu. Held að gestir og starfsmenn Akureyrarkirkju sem er mjög skammt frá hafi ekki líkað gjörningurinn vel.
Þarf að spyrja allavega Helga Vilberg, félaga minn og skólastjóra Myndlistarskólans hér á Akureyri, hvernig þetta hafi verið, enda býr hann í næsta húsi við listasafnið og hefur eflaust með því að loka augunum liðið eins og hann væri kominn til Teheran.
Svona gjörningar vekja spurningu um hvað list er. Eða er þetta kannski bara spunarugl eins og maðurinn sagði forðum um nýlistina?
![]() |
Kvartað til lögreglu yfir bænakalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.5.2008 | 11:00
Sama gamla einræðiskúgunin á Kúbu

Valdaskiptin nýlega breyttu ekki miklu. Þó að Fidel Castro færi frá hélt sama kynslóð kommúnista dauðahaldi um völdin með járnhendi án lýðræðislegra kosninga. Hinn roskni Raúl Castro-bróðir tók þar við og var að sjálfsögðu einn í kjöri, nema hvað. Það hefur enda aldrei verið stíll einræðishópsins þar að láta almenning ákveða eitt né neitt.
Það vekur líka nokkra athygli að maður af sömu kynslóð og Castro-bræður tekur við sem næstráðandi. Það eru því ekki mörg skrefin stigin til framtíðar þegar að Castro gefst upp og fer á ellilífeyrir, orðinn heilsulaus og útslitinn af löngum ræðuhöldum og ofríki. Það voru sumir að spá kynslóðaskiptum þar, en það er ekki beint á dagskrá að yngja upp forystuna eftir alla þessa áratugi einræðisins.
Og Castro vakir yfir öllu saman, hann á víst að vera til eilífðarnóns hugsjónastjórnandi flokksins og Kúbu allrar, sérstakur alvaldur í stefnumótun til framtíðar. Það er þá framtíðin sem valin er í einræðinu. En hey, þeir hafa þó allavega leyft tölvurnar loksins á árinu 2008. Jahérna hér.
![]() |
Einkatölvur löglegar á Kúbu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |