11.5.2008 | 15:22
Íslendingar elska að dýrka og hata Eurovision
Þátturinn þar sem Eurovision-lagið var valið varð vinsælasti sjónvarpsþáttur vetrarins og margir kusu í kosningunni um sigurlagið í febrúar. Þó að við höfum farið upp og niður í keppninni; hlotið sæti í topp tíu-hlutanum, fengið ekkert stig, orðið þrisvar í röð í 16. sæti eða mistekist að komast á úrslitakvöldið þrjú ár í röð er áhuginn ekkert minni.
Og allir hafa sínar skoðanir á því hvað Eurovision sé. Enda sást það vel af þeim lögum sem kepptu í keppninni heima, mjög ólík voru þau og enginn ekta Eurovision-keimur af þeim öllum svosem. Enda á að þora að gera eitthvað spennandi og prófa eitthvað nýtt. Gillz má nú ekki gleyma því að aðeins eru tvö ár síðan að við sendum Silvíu Nótt, karakterfígúru skapaða af góðri leikkonu og söngkonu, í keppnina og flippuðum vel út. Það flipp skilaði okkur ekki sæti á úrslitakvöldið.
Þannig að við höfðum prófað mjög margt í tilraunum okkar til að komast alla leið og þurfum ekkert að kvarta yfir því. Sennilega er Gillz bara sár yfir því að ná ekki að koma Merzedes Club til Serbíu. En val þjóðarinnar var afgerandi í febrúar. Eurobandið fékk helmingi fleiri atkvæði en þau og unnu heiðarlega og vel fyrir sínum farmiða. Og auðvitað eigum við öll að styðja okkar fólk.
Hef heyrt svo marga segja í gegnum árin að þeir fylgist nú ekki með Eurovision og hafi engan áhuga á þessu. Það er venjulegast fyrst að skjánum þegar að keppnin fer fram og fylgist með. Þarf svosem ekkert að skammast sín fyrir það. Tónlist er stór hluti af tilveru okkar og þetta keppnisform lifir í gegnum allar hremmingar okkar í keppninni fyrr og nú.
Við vorum mjög nálægt því að vinna keppnina fyrir tæpum áratug þegar að Selma Björnsdóttir söng All Out Of Luck, besta Eurovision-lag okkar fyrr og síðar. Höfum upplifað hæðir og lægðir í keppninni, flestir hafa gert það. Finnst ekkert aðalatriðið endilega að vinna. Finnst aðalatriðið að lagið okkar í ár komist í úrslitakeppnina. Hálfur sigur næst með því.
![]() |
Skilja ekki Júróvisjón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2008 | 23:54
Obama á sigurbraut - útgönguleið fyrir Hillary

Niðurstaðan í forkosningunum á þriðjudag var mikið áfall fyrir Hillary. Henni mistókst að ná afgerandi sigri í Indiana og ná að halda í við Obama í Norður-Karólínu, en alltaf var ljóst að hann myndi taka fylkið. Sigur þar var held ég aldrei raunhæfur möguleiki fyrir Hillary. Tölfræðin í þessum slag er mjög einföld; Hillary nær ekki útnefningunni nema þá að Obama verði einfaldlega rændur sigri, sem hann hefur náð á öllum sviðum; í þingfulltrúum, fjölda fylkja og atkvæðafjölda.
Eina vonin fyrir Hillary nú er að Michigan og Flórída verði tekin með í dæmið og að ofurfulltrúarnir sjái að Obama geti ekki náð alþýðufylginu og veðji þess í stað á hana. Æ ólíklegra er að þetta muni skipta máli og sýnist mér á öllu að þessi slagur verði búinn í síðasta lagi eftir rúma viku þegar að kosið er í Oregon og Kentucky. Þá muni Obama hafa náð útnefningunni eða verði það nærri henni að einfaldlega verði þá lýst yfir sigri; ekki verði beðið eftir að forkosningaferlinu ljúki þann 3. júní í Montana. Enda varla þörf á því í stöðunni.
Þegar að Obama fór í þinghúsið í Washington hópuðust þingmenn saman í kringum Obama, hvort sem þeir höfðu stutt hann eða Hillary. Var engu líkara en hann hefði þegar hlotið útnefinguna. Hann fékk móttökur sem hæfir sigurvegaranum einum. Æ augljósara verður að ofurfulltrúarnir veðja frekar á Obama nú og erfitt að sjá atburðarás sem snúi við því sem gerst hefur síðustu dagana. Andrúmsloftið í þinghúsinu sagði meira en mörg orð um hvernig pólitísku vindarnir blása í Demókrataflokknum.
Því er ekki viðeigandi lengur að tala um þetta sem alvöru kosningaslag. Þetta er búið og tímaspursmál aðeins hvenær Obama nær hnossinu mikla. Óvarlegt að mæla það í vikum, mun frekar í innan við hálfum mánuði, 8 til 10 dögum sennilega, jafnvel ekki svo mikið í sjálfu sér. Í þeirri stöðu spyrja sig allir að því hver verði útgönguleið Hillary Rodham Clinton. Þetta verður ekki árið þar sem kona verður í fyrsta skipti alvöru forsetaefni annars af stóru flokkunum, eins og margir höfðu spáð fyrir ekki löngu síðan.
Allt mun það ráðast af því hvenær Hillary áttar sig á stöðunni, eða öllu heldur sýnir merki þess að taflið er tapað, ekki sé unnt að sigra þessa refskák sem hún og Bill hafa spilað síðustu vikurnar eftir því sem harðnað hefur á dalnum. Barack Obama sendi skýr skilaboð í vikunni um að hann gæti vel hugsað sér að hún yrði varaforsetaefni hans í kosningunum. Hillary hefur unnið baki brotnu í baráttunni, verið dugleg og mjög einbeitt í sinni baráttu í erfiðri stöðu. Þrátt fyrir það varð þetta ekki árið hennar.
En hún hefur styrkleika sem Obama vantar, sem hann þarf að virkja í sannleika sagt. Hún heillar fjölda fólks sem honum hefur mistekist að fá til að kjósa sig, enda hefði hann náð útnefningunni fyrir allnokkru ef svo hefði orðið. Kannanir sýna að flokkurinn er illa klofinn og margir sem studdu Hillary geti ekki hugsað sér að styðja Obama sem forseta Bandaríkjanna. Gæti hinsvegar hugsað sér að styðja framboð með baráttukonunni sem þeir studdu heilshugar allt til endalokanna.
Hillary er komin í þá stöðu að fyrr en síðar verður hún að spyrja sig um hver verði pólitísk framtíð hennar. Langur slagur úr þessu mun skaða ekki aðeins hana heldur sögulega pólitíska arfleifð eiginmanns hennar sem 42. forseta Bandaríkjanna, hins vinsæla og heillandi forseta sem markaði söguleg þáttaskil með forsetasetu sinni, þó umdeildur hafi verið. Hún vill eiga sér pólitískt líf handan þessarar baráttu og leitar að útgönguleið.
Hillary veit að boð um varaforsetaútnefningu er ekki það sem stefnt var að, en yrði samt sem áður söguleg þáttaskil fyrir sig og konur - sárabót fyrir tapið í þessu um margt sögulega pólitíska einvígi fyrstu konunnar og fyrsta blökkumannsins sem berjast um Hvíta húsið með raunhæfa möguleika á því að hljóta hnossið. Hún yrði fyrsta konan sem varaforseti ef Obama myndi vinna, en ella búa í haginn fyrir forsetakosningarnar 2012.
Ef Obama tapar myndi hún því eiga sér líf og ná að eiga tækifæri; hvort heldur yrði sem forsetaefnið sem sætti sig við tap og hóf sig upp úr þeim öldudal með sögulegum pólitískum sáttum eftir harðan slag. Hún gæti orðið fyrsti kvenvaraforsetinn eða flokksleiðtogi demókrata í öldungadeildinni og forsetaefni síðar með sáttum. En þessi möguleiki verður ekki opinn endalaust, heldur ræðst af því hvenær hún sættir sig við endalokin.
Ted Kennedy hefur af gömlum vana talað gegn Clinton-hjónunum og lét sér fátt um finnast um augljóst boð Obama til Hillary um sameiginlegt framboð og um leið að ljúka þessum harðvítuga slag með sáttum. Stuttu síðar hafði Ted slegið af orðalaginu og leiðrétti það sem hann raunverulega meinti. Augljóst var hver tók í þá spotta.
Hillary ræður því úr þessu hversu erfiður slagurinn verði fyrir Demókrataflokkinn og hvort alvöru sættir náist. Í taflinu getur hún samið sig út sem taktískan sigurvegara með því að ná sáttum á mikilvægu augnabliki, þrátt fyrir tapað pólitískt tafl og erfiða stöðu. Í tapi getur nefnilega viss sigur falist, er til lengri tíma er litið.
![]() |
Búið spil fyrir Clinton? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.5.2008 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.5.2008 | 17:38
Hver segir satt í handtökumáli Jóns Ásgeirs?

Eflaust munu fylkingar þeirra sem takast á í þessu máli vera eftir þeim sem dýrka Baug og þola ekki Baug. Þetta er eins og að fylgjast með knattspyrnuleik á milli Vals og KR; stuðningsmennirnir halda með sínu "liði" út í eitt og gefa aldrei eftir sama hvað er. Sumar umræðurnar um Baug hljóma eins og keppni um hver geti verið bestur í að upphefja einhvern og tala niður til annarra. Gjörsamlega óþolandi, enda kemur ekkert vitrænt út úr þessu.
Þetta mál er þess eðlis að mikilvægt er að úr því fái skorið hver fer með ósannindi og hver segir satt í þessu yfirlýsingaflóði síðasta sólarhringinn. Skiptir þar engu hver elskar mest að dýrka Baug eða hata það.
![]() |
DV stendur við frásögn sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2008 | 14:42
Eru erlendar konur að koma hingað í vændi?
Löngu þekkt staðreynd er að vændi, sem margir nefna elstu atvinnugreinina, sé til staðar á Íslandi, við erum hvorki fullkomnari né öðruvísi í þeim efnum en aðrar þjóðir að þar eru til skuggahliðar. Þær hafa verið að koma æ betur fram á síðustu árum. Það hefur ekki komið vel fram hversu útbreitt vændi er hér á Íslandi, en það virðist vera að flestir kenni það við félagslega erfiðleika eða fátækt af einhverju tagi. Vændi gefur af sér peninga og það blasir við að það hefst einkum til að geta safnað saman peningum.
Jafnan hefur verið skilningur flestra að íslenskar konur hafi yfirleitt um betri kosti að velja en fara út í vændi. Samt virðist það viðgangast hér. Flestir virðast tala um vændi til að afla sér peninga fyrir eiturlyfjum og einhverjum nauðsynjavörum. Viðskipti sem geta tryggt viðurværi fólks. Það er dapurlegt að svo illa sé komið fyrir fólki að það sé tilbúið að selja sig fyrir peninga en sá veruleiki er er ekki bara bundinn við önnur lönd, þó sumir hafi viljað horfa framhjá vanda hér heima.
Nú er því velt fyrir sér hversu algengt sé að erlendar konur komi einmitt hingað til að selja þjónustu sína. Athygli vakti fyrir ári þegar að rússnesk kona kom hingað til lands gagngert til að stunda vændi, dvaldist á hóteli í Reykjavík þar sem blíða hennar var seld. Man vel eftir því þegar að fréttamaðurinn Guðjón Helgason bankaði á herbergishurðina hennar og hún opnaði og bandaði út höndunum í allar áttir þegar að hún sá myndavélina, ekki mjög áfjáð í viðtal.
Vændi er ólöglegt en refsilaust á Íslandi nema þriðji aðili tengist málinu. Ljóst er að einstaklingur sem selur líkama sinn á bágt að einhverju leyti. Oft er deilt um hvort að vændi og mansal sé eitt og hið sama. Um fátt hefur verið deilt meira en um það hvernig eigi að taka á vændi, þær deilur hafa verið þvert á stjórnmálalínur.
Nú er allavega komið nýtt álitaefni í þessu, hvort að erlendar konur komi hingað sérstaklega til að veita sína þjónustu eins og sú rússneska fyrir ári.
![]() |
Til Íslands til að veita kynlífsþjónustu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2008 | 11:52
Landsbankaræninginn í Hafnarfirði játar

Skil reyndar ekki af hverju reynt er að ræna banka nú til dags. Ekki er mikið af peningum aðgengilegir hjá gjaldkerum nú til dags og því harla tilgangslaust að reyna að ná háum upphæðum með því að taka þátt í slíku ráni.
Mikla athygli vakti að ræninginn var klæddur í hettupeysu merktri bandaríska íshokkíliðinu Pittsburgh Penguins. Fróðlegt að vita hvort að hann er íshokkíáhugamaður eða þetta hafi verið bara gervi.
![]() |
Bankaræningi handtekinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2008 | 05:10
Opinská uppljóstrun stjörnu sem er stolt af sínu

Myndin af Mischu sýnir unga konu sem er stolt af sínu útliti og er slétt sama þó að það sé ekki blessað af öllum þeim sem vilja hafa allar stjörnurnar eins og í einhverju kapphlaupi við að þóknast öðrum. Nú til dags heyrum við svo mikið af krassandi lýsingum þar sem stjörnurnar vilja verða fullkomnari en allt að þessi tjáning hennar kemur sem ferskur vindblær, þar sem allt háfleyga blaðrið er tónað niður.
Enda er það fréttaefni að fræg kona tali svo opinskátt einmitt um að vera sátt við sitt og að hún geri sig ánægða með lífið sem hún á, er ekki að toppa alla aðra með því að beygja sig fyrir tali hinna sjálfskipuðu álitsgjafa á lífsstandard stjarnanna. Vonandi er kominn tími til að stjörnurnar átti sig á því að það þurfa ekki allir að vera fastir í sama móti sérvalinna sérfræðinga um líf og framkomu fræga fólksins.
Þarna kemur kona sem er stolt með sitt og hikar ekki við að segja það. Ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir svona þrusukonu.
![]() |
Alsæl með líkamann þrátt fyrir appelsínuhúð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2008 | 00:36
Kópavogur með Íslandsmetið í Útsvari

Hef fylgst með Útsvari af miklum áhuga í vetur. Þetta er ágætis spurningaþáttur, í og með svolítið dreifaralegur og skemmtilega hallærislegur í einfaldri umgjörð sinni. Litasamsetningin í settinu og kynningarstiklunni, auk hins einfalda en smellna stefs er hallærisleg en flottur heildarpakki utan um pottþétt form á sjónvarpsefni sem allir fylgjast með, allavega með öðru auganu þó þeir vilji ekki viðurkenni það og stundum þeim báðum.
Alltaf er gaman að horfa á spurningaþætti og stemmningin var hin besta í þessum pakka. Þóra og Sigmar hafa staðið sig vel að halda utan um þáttinn. Liðin oftast nær verið mjög góð og fókusinn er hraður og góður. Sumir ekki tekið sig alvarlega, sem er mjög gott í og með. Enda á þetta að vera mest til gamans gert og baráttuhugurinn í keppninni á að vera að standa vörð um heiður sinnar heimabyggðar. Flott líka að hafa fólk með ættartengsl en sem býr ekki lengur þar, auk þess sem nýbúar taka þátt að auki.
Þetta voru þættir sem renna vel í gegn og þeir sem hafa virkilega gaman af spurningaþáttum áttu mjög auðvelt með að falla inn í stemmninguna í þessum, hvort sem fylgst var með frá upphafi eða bara til að fylgjast með keppni þar sem heimabyggðin tók þátt. Gott að vita að þátturinn muni halda áfram næsta vetur. Þóra var sérstaklega flott í kvöld, en ég taldi á tímabili að hún myndi kannski eiga barnið sitt í þættinum, eða kannski í einhverju auglýsingahléinu, þó stutt séu.
Fannst samt spes að enginn skyldi þekkja matarmenninguna sem mæld er í Sæmundi og Eyvindi. Sko, þetta er ekki flókið. Sæmundur í vinnugallanum er mjólkurkexið frá Frón og Sæmundur í sparigallanum er kremkexið frá Frón. Spurt var um hið síðarnefnda í lokaspurningunni, sem reyndar var bara metin á fimm stig. Reykvíkingarnir horfðu þess í stað til Eyvindar og giskuðu á kjöt í karrý.
Eyvindur er nafn yfir súpukjöt í hinum ýmsu myndum. Kjöt í karrý, sem nota bene er uppáhaldsmaturinn minn, er nefnt hjá gárungunum því miður geðslega nafni Eyvindur með hor. Kjötsúpa er nefnd bara Eyvindur og kubbasteik, steikt súpukjöt, er auðvitað Eyvindur í sparifötunum.
Viðeigandi lokaspurning að taka fyrir þessa skemmtilegu matarmenningu og orðalag tengd henni. Verst af öllu að enginn landsbyggðarbær komst í úrslitin. Auðvitað vorum við ósátt hér með að Pálmi, Erlingur og Arnbjörg Hlíf komust ekki í úrslitin, en hey, það gengur bara betur næst!
![]() |
Kópavogur vann Útsvar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2008 | 15:46
Hvað segir DV um yfirlýsingar Elínar og Haraldar?
Illa er komið fyrir Jóhanni og þeim sem birtu þessa frétt ef þeir hafa ekki verið með traustar heimildir fyrir þessari fréttaskýringu og því sem kom þar fram. Mikilvægt er að fá alla þætti þessa máls á borðið, einkum eftir þessar yfirlýsingar, og heyra hvað DV hafði á bakvið umfjöllunina, hvaða heimildir hafi legið þar að baki og hvers vegna þessar sögusagnir voru birtar.
Illa er komið fyrir þeim sem skrifaði þessa umfjöllun ef ekkert er á bakvið nema hugboðið eitt um að þetta hafi kannski gerst og því mikilvægt að allt sé lagt á borðið og sagt hvers vegna þetta var fullyrt. Ef ekki er orð á móti orði og mikilvægt að fá hið rétta fram.
![]() |
Ríkislögreglustjóri segir DV fara með ósannindi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.5.2008 | 14:08
Guðmundur í Byrginu með dýflissu í Hafnarfirði

Mun meðal annars Guðmundur hafa sagt við einn sjúklinginn að hann hafi hannað dýflissuna sína sérstaklega fyrir hana. Þetta mál verður sífellt ógeðslegra og eiginlega ótrúlegt hvað þetta gat gengið lengi, bæði að Guðmundur misnotaði sjúklingana og brotið hugarástand þeirra og auk þess fékk peninga úr ríkissjóði.
Í ljósi þess að Byrgið átti að reka sem meðferðarheimili fyrir langt leidda fikla og drykkjusjúklinga, rekið á kristilegum grunni og dýrkunin í kringum Guðmund var rekin á trúarlegum nótum, er þetta hæfileg refsing og góður endapunktur á þessu sorglega máli.
![]() |
Ósáttur við dóminn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2008 | 01:26
Ekki átti að sýna handtöku Jón Ásgeirs á RÚV

Umfjöllun DV vekur mjög margar spurningar og mikilvægt er að Sjónvarpið svari hreint út fyrir sig, enda vegið að trúverðugleika fréttastofunnar og gefið í skyn að tengingar í innsta hring við fréttastjórann hafi skipt máli við að færa þeim slíka stórfrétt í hendurnar. Enn hefur því ekki verið svarað með vissu hvort að handtaka hafi átt Jón Ásgeir þennan dag og sýna almenningi hann í járnum sérstaklega í fréttaumfjöllun ríkisstöðvarinnar.
Slík umfjöllun er það alvarlegt mál að mikilvægt að fara í saumana á því og fá hið sanna á borðið. Einkum er gott að fréttastofa Sjónvarpsins sitji ekki þegjandi undir slíkri umfjöllun og komi með afgerandi yfirlýsingu. Áhugavert væri þó að fá svar við handtökukjaftasögunni sem slíkri, nú þegar að Sjónvarpið hefur hafnað umfjöllun Jóhanns Haukssonar.
Ef umfjöllun Jóhanns er röng að öllu leyti eða einhverju og byggð aðeins á ósönnum kjaftasögum er það auðvitað mjög alvarlegt mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2008 | 00:49
Meat Loaf vill ekki fara í svala goluna á Fróni

Þá kannski veit kappinn að felur nú ekki feigðina í sér að horfa til Íslands að sumarlagi. Kannski er hægt að sleppa Grænlandi í túrnum, en Ísland er nú paradís og þeir sem þola ekki svala sumargoluna eru nú ansi kveifarlegir, svo ekki sé nú meira sagt. En hann kannski heldur að Ísland sé kaldara en Grænland. Hvað ætli það séu nú margir um víða veröld sem halda að hér búi allir í snjóhúsum? Tja allavega ekki Al Gore.
Meatloaf er einn af þessum sannkölluðu ekta karakterum tónlistarsögunnar, mjög sérvitur en snillingur á sínu sviði. Hefur líka verið duglegur í að leika í kvikmyndum, flestir ættu allavega að muna eftir honum í Fight Club, enda vona ég að flestir hafi nú séð þá eðalræmu Finchers.
En nú rétt áður en allir ellismellir tónlistarsögunnar koma hingað væri nú gaman að fá Meatloaf til að halda ekta tónleika. Annars eru nokkrir þeirra á leið í sumar. Enn þurfum við þó að bíða eftir Rolling Stones. Þeir kannski koma í eitthvað lokað afmæli íslensks auðjöfurs þegar að hlutabréfin fara að hækka aftur. Hver veit?
![]() |
Meat Loaf aldrei aftur til Íslands? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2008 | 19:54
Veik vörn hjá veikburða borgarstjóra
Furðulegt er orðalag borgarstjórans að leiki vafi á því að saman fari að vera verkefnatengdur starfsmaður og nefndaformaður yfir sviðinu að þá muni hann víkja úr nefndinni. Held að það þurfi ekkert að velta því fyrir sér. Sem hverfisformaður miðborgar er Jakob F. Magnússon orðinn tilsjónarmaður með verkum sínum sjálfs og enginn vafi ætti að leika á því að þetta fari engan veginn saman. Ummælin um launakjörin vekja svosem líka athygli, enda ætti það ekki að vera neinn sómi að gera eitthvað sem tíðkaðist í tíð R-listans.
Sjálfstæðisflokkurinn var varla í minnihluta í tólf ár til þess að læra það eitt að apa upp eða verja verklag sem ættað er úr valdatíð R-listans. REI-málið var þó varið með tilvísan til Línu.net og nú er ráðning starfsmanns varin með tilvísan til R-listans. Vissulega er borgarstjórinn ekki sjálfstæðismaður lengur en hann situr í þeirra umboði og í meirihluta með þeim innanborðs. Því er hann ekki eins landlaus og margir telja. Umboð hans sem kjörins fulltrúa úr kosningum er mjög skýrt og um leið þeirra sem styðja hann sem borgarstjóra.
Þögn þeirra vekur því athygli og eðlilegt að þeir tjái sig alveg heiðarlega hvað þeim finnst um málið. Vilji þessi meirihluti verja afleitt verklag sitt með fornum vinnubrögðum R-listans eru þeir á villigötum. Reyndar finnst mér borgarstjórinn vera mjög veikburða í sínu hlutverki. Hann er eyland í veigamiklum skipulagsmálum og borgarfulltrúar í samstarfi við hann verða að fara í spjallþætti til að verja skoðanir hans í þeim efnum - sem enginn annar í meirihlutanum virðist þó bakka upp og hann hefur pólitískt bakland sem virðist mjög veikt.
Sumir frjálslyndir stuðningsmenn Ólafs F. Magnússonar fyrri tíðar skrifa nú eins og þeir hafi aldrei komið nálægt þessum stjórnmálamanni. Meðal þeirra er varaformaður Frjálslynda flokksins. Hann brosti þó kampakátur er Ólafur F. varð frjálslyndur á landsfundi þeirra fyrir þrem árum og var mjög ánægður með liðsstyrk hans. Ekki vill sá hinn sami þó kannast við hann nú. Þetta fólk vann baki brotnu að því að tryggja þessum manni það umboð sem hann hefur nú sem kjörinn fulltrúi. Skrifin verða furðuleg í því ljósi.
Ólafur F. og Jakob Frímann eru báðir hinir mætustu menn. Því ættu þeir að taka á þessu máli af sóma áður en þeir skaðast meira af því. Vörnin er veik þegar að málstaðurinn er veikur. Ætli sjálfstæðismenn sér að verja þennan málflutning með tilvísan til ráðningamála gamla R-listans er illa fyrir þeim komið.
![]() |
„Ráðning í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.5.2008 | 18:10
Sextugsafmæli í skugga stjórnmálahneykslis
Í dag eru sex áratugir liðnir frá stofnun Ísraelsríkis. Merkilegur dagur. Afmælið hefur þó fallið í skuggann á hneykslismálum tengdum Ehud Olmert, forsætisráðherra, en hann hefur veikst mjög í sessi síðustu dagana og búist jafnvel við að hann segi af sér á næstu dögum. Olmert hefur aldrei náð að tryggja stöðu sína vel eftir að Líbanon-skýrslan var opinberuð fyrir ári, en honum tókst með pólitískum klækjum að halda velli þá.
Rúmum tveim árum eftir að pólitíski skriðdrekinn Ariel Sharon hvarf af sjónarsviði stjórnmálanna í Mið-Austurlöndum vegna alvarlegra veikinda hefur Olmert tekist að grafa algjörlega undan trúverðugleika sínum og Kadima, flokksins sem Sharon stofnaði skömmu fyrir leiðarlokin og Olmert leiddi til kosningasigurs í mars 2006 - fyrst og fremst vegna minningarinnar um stjórnmálamanninn Ariel Sharon. Hann hélt völdum á bylgju samúðar og styrkleika Sharons fyrst og fremst.
Ári eftir að Ariel Sharon fékk heilablóðfallið sem sló hann út af hinu pólitíska sviði spurðu ísraelskir fréttaskýrendur hvað Sharon myndi eiginlega segja ef hann vaknaði við það stjórnmálaástand sem væri í Ísrael þá miðað við hina traustu stjórn hans á málum allt þar til í janúar 2006. Þetta var fyrst og fremst grín vissulega en um leið fúlasta alvara. Það var allt gjörbreytt. Olmert hafði mistekist að taka völdin föstum tökum og gert afdrifarík mistök æ ofan í æ. Það syrtir sífellt meir í álinn hjá honum.
Ekki er undrunarefni að talað sé um mikilvægi þess að Ehud Olmert eigi að segja af sér. Ég tel að hann eigi að gera það, fyrst og fremst til að tryggja það að þau þáttaskil sem Ariel Sharon vildi tryggja með tilkomu Kadima klúðrist ekki algjörlega. Likud styrkist sífellt og að öllu óbreyttu mun Likud verða endurbyggt sem lykilafl að nýju. Kadima er rúin trausti. Það eina sem Olmert getur gert er að segja af sér meðan stætt er fyrir hann.
Viðeigandi væri nú að Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og næst valdamesti stjórnmálamaður Ísraels tæki við. Hún er fimmtug, sterk stjórnmálakona sem boðar nýja tíma í ísraelskum stjórnmálum og hefði í raun frekar átt að taka við Kadima en Olmert, sem þrátt fyrir langan stjórnmálaferil hefur ekki staðið undir væntingum.
![]() |
Ísraelsríki sextíu ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2008 | 16:01
Sálfræðileg álitaefni í sorglegu máli

Sálfræðilega er mál Fritzl-fjölskyldunnar mjög mikilvægt. Um er að ræða stórfrétt, enda er þetta mál harmleikur í alla staði og merkilegt rannsóknarefni. Ekki eru mörg dæmi um svo skelfilega misnotkun innan fjölskyldu á síðustu áratugum og jafnvel alla tíð, einkum vegna þess hversu lengi það stóð. Allavega er þetta mál sem hefur vakið heimsathygli og spurningar um hversu lengi það taki að byggja upp svo mikinn skaða.
Pressan lýsir Fritzl sem djöfli í mannsmynd. Eðlilega. Hann hefur verið dæmdur af allri heimsbyggðinni vegna sinna viðurstyggilegu verka. Ekki munu næstu skref aðeins snúast um að koma fjölskyldu hans, dóttur og börnunum sem hún eignaðist í kynlífsdrottnun undir stjórn föður síns, út í samfélagið, heldur líka að sálgreina gerandann.
Sálfræðilega er mikilvægt að skyggnast inn í svo sýktan huga; fá svör við spurningunum áleitnu og átta sig á því afli sem knúði hann í þennan blekkingarleik og misnotkun á eigin barni. Fyrir nokkrum dögum var rætt við sálfræðing um þessi mál í bresku viðtali. Hann talaði um mörg mál sem viðmiðun en hafði samt ekkert mál sem dæmi um nákvæmlega þetta.
Sennilega verður það stóra málið þegar að róast yfir málinu að fara yfir sálfræðilegu hliðarnar. Eftir hálfan þriðja áratug án dagsljóssins hlýtur að þurfa mikið verk til að gefa fólki úr svo sorglegri vítiseinangrun annað líf. Við tekur annað líf, enda fer konan brotin út í annað samfélag en hún upplifði fyrir löngu síðan.
Og hvernig er hægt að færa afkomendur blóðskammarinnar lífið, sum eru um tvítugt fyrst að upplifa lífið. Áleitin viðfangsefni blasa við til að gefa þolendum tækifæri til að upplifa það líf sem við teljum sjálfsagðast af öllu í veröldinni.
Finnst samt verst af öllu að yfirvöld sváfu á verðinum og veittu Fritzl tækifæri til að gera sín ógeðslegu verk án þess að kanna aðstæður á heimilinu. Þau mistök voru mikil og mér sýnist yfirvöld hafa staðfest þau nú.
![]() |
Fritzl: „Vissi að þetta var rangt af mér“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2008 | 14:36
Ólga í Ráðhúsinu vegna launakjara Jakobs

Eitt er að Jakob gegni starfinu, en annað er að hann sé formaður í sömu borgarnefnd og starfið heyrir undir og eigi að hafa eftirlit með sjálfum sér. Auk þess finnst mér það mjög áleitin spurning hvort að eðlilegt sé að hann fái þessa stöðu án auglýsingar. Talað hefur verið um að sambærileg staða hafi verið auglýst fyrir nokkrum mánuðum og ekkert gert með umsóknir um hana. Þetta er auðvitað ekkert nema pólitísk ráðning og furðulegt að borgarstjóri neiti því.
Finnst borgarmálin sífellt verða ídeótískari og vitlausari. Ekki óraði manni fyrir í ársbyrjun þegar að enn einn meirihlutinn var myndaður að lægra yrði komist í vitleysunni en fólki þar hefur tekist það. Þetta er niðurlægingartímabil fyrir reykvísk stjórnmál og mér finnst enginn rísa yfir vitleysuna sem þar hefur átt sér stað síðasta hálfa árið.
![]() |
Spurt um ráðningu Jakobs Frímanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2008 | 14:00
Dagný Linda hættir keppni

Dagný Linda Kristjánsdóttir, fremsta skíðakona landsins síðustu árin, hefur nú ákveðið að hætta keppni á hátindi síns ferils vegna meiðsla. Þetta eru svipleg tíðindi og áfall fyrir skíðaíþróttina enda hefur Dagný Linda verið í fararbroddi í íþróttinni og staðið sig mjög vel. Af henni er mikil eftirsjá, en ég skil þessa ákvörðun, eins erfið og hún hlýtur þó að hafa verið fyrir Dagnýju Lindu sem hefur frá æskuárum iðkað skíðin af miklum krafti.
Hún hefur hlotið mikinn stuðning bæjarbúa hér og verið valin íþróttamaður ársins hér ár eftir ár, hlotið styrki og verið mikils metin. Enda á hún það allt skilið og gott betur en það, hefur staðið sig vel og átt glæsilegan feril, sem er okkur öllum hér fyrir norðan til sóma.
Hún hefur verið afgerandi forystukona í skíðaíþróttinni og gert góða hluti, ekki aðeins hér heima heldur um víða veröld. Dagný Linda getur sannarlega verið stolt af sínu.
![]() |
Dagný Linda leggur skíðin á hilluna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2008 | 12:23
Mótmæli við þinghúsið - bílstjórar minna á sig
Eftir að hafa sleppt mótmælum í hálfan mánuð, frá umdeildum mótmælum við Rauðavatn sem leiddu til lögregluaðgerða, minna atvinnubílstjórar nú enn og aftur á sig og sína baráttu, sem hefur orðið æ umdeildari eftir því sem frá hefur liðið, þó flestir séu hlynntir því að lækka eldsneytisverðið auðvitað.
Þeir eru greinilega hvergi nærri hættir baráttunni. Bílstjórarnir tóku sér pásu að ég tel meðvitað, enda sködduðust þeir frekar en styrktust á afleitu orðavali talsmannsins, lætin á Kirkjusandi og furðuleg mótmæli við Bessastaði þegar að Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, kom til landsins.
Væri reyndar fróðlegt að vita hver strategía bílstjóranna er ef þeir halda mótmælum áfram. Ætla þeir að fara í stóra stoppið margumtalaða? Ætli sér að lama höfuðborgarsvæðið með mótmælum, leggja bílum sínum og skilja þá eftir á aðalumferðaræðum borgarinnar? Sennilega myndu lætin við Rauðavatn hverfa í skugga þess sem myndi gerast í kjölfar þess.
Bílstjórarnir höfðu mikinn stuðning almennings fyrst en hann hefur dvínað mjög að undanförnu, að mestu vegna taktískra mistaka í mótmælunum. Ekki virðist það hafa slegið þá út af laginu.
![]() |
Flautað við Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2008 | 02:20
Áhugaverður Kompásþáttur
Mér finnst afleitt að reynt sé að fela gögn málsins og ekki megi kanna það sem þar stendur. Skil mjög vel baráttu ættingjanna, enda er mikill munur á hvort að fólk taki eigið líf eða sé myrt og ekki hægt að lifa við þá óvissu. Auk þess virðist vera sem málið hafi aldrei verið klárað og þar hefði mátt kanna mun betur og fara yfir málavöxtu.
Eftirmálar nú vegna framleiðslu þessa þáttar og yfirlýsingar sem ganga á milli aðila vekja mjög margar spurningar um þetta mál, sem aldrei hefur verið klárað með sómasamlegum hætti. Grunnkrafa er að mál séu könnuð almennilega og reynt að ganga úr skugga um að allt sé reynt til að upplýsa svo dapurleg mál.
Eftir því sem meira er litið á málið verða spurningarnar fleiri en nokkru sinni svör yfirvalda í rannsókn á sínum tíma. Sérstaklega er athyglisvert að þeir sem komu fyrstir að vettvangi eru aldrei spurðir um aðstæður og leitað eftir viðbrögðum þeirra. Vinnubrögðin þarna vekja margar spurningar.
Vonandi mun spurningum fortíðarinnar verða svarað.
Kompásþátturinn
![]() |
Yfirlýsing frá Kompási |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2008 | 19:50
Umdeild pólitísk ráðning Jakobs Frímanns
Mér finnst það á gráu svæði að Jakob Frímann Magnússon, sem formaður í nefnd á vegum Reykjavíkurborgar, sé á sama tíma verkefnaráðinn til sama stjórnvalds án auglýsingar. Launakjörin, sem eru mjög rífleg, ofan á nefndakjörin, vekja að sjálfsögðu fleiri spurningar. Finnst þetta í sjálfu sér ekki hótinu betra en þegar umdeilt varð að Óskar Bergsson væri verkefnaráðinn til Faxaflóahafna á sama tíma og hann var formaður framkvæmdaráðs.
Finnst eðlilegt að spurt sé hvoru megin við borðið Jakob Frímann sitji. Þó að hann hafi ekki setið á framboðslista í síðustu borgarstjórnarkosningum og hafi örlítið aðra stöðu en Óskar Bergsson hvað það varðar er ekki deilt um að hann gegnir nefndastörfum fyrir borgina og er pólitískur fulltrúi í nefndakerfinu, maður sem situr í skjóli borgarstjórans í Reykjavík. Í ljósi þess verður ráðning hans mjög sérstök og eðlilegt að hún sé umdeild.
Samkvæmt fréttum síðdegis hefur Jakob Frímann hærri laun sem verkefnaráðinn yfirmaður miðborgarmála og formaður í borgarnefnd en kjörnir pólitískir fulltrúar, óbreyttir borgarfulltrúar. Á það kannski að vera þannig að Jakob Frímann eigi sem formaður hverfisráðsins að hafa eftirlit með verkum sem hann gerir sjálfur sem verkefnatengdur starfsmaður. Held að það sé mjög á gráu svæði.
Í ljósi stöðu Jakobs Frímanns verður ekki betur séð en að hann sé pólitískt valinn fulltrúi til starfa og það ráði úrslitum um valið á honum í stöðuna. Eðlilegast væri í stöðunni að Jakob Frímann gegndi öðru starfinu en segði sig frá hinu. Nema þá að telja eigi fólki trú um að hann eigi að hafa eftirlit með sjálfum sér.
![]() |
Gengið frá ráðningu Jakobs Frímanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.5.2008 | 19:19
Bankaræninginn er íshokkíáhugamaður
Enn er ekki búið að finna bankaræningjann, en margar vísbendingar borist um hann skv. fréttum. Eitt er þó vitað um hann með vissu. Þar fer þó greinilega íshokkíáhugamaður, ef marka má klæðaburðinn. Enda var hann klæddur í hettupeysu merktri bandaríska íshokkíliðinu Pittsburgh Penguins.
Eitthvað vita þeir þó allavega og vonandi færast þeir nærri lausn. Hvað ætli það séu margir sérstakir áhugamenn um Pittsburgh Penguins á höfuðborgarsvæðinu? Ekki nema von að spurt sé. Nema þá að þetta hafi bara verið gervi?
![]() |
Ræninginn ófundinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)