Skrifað gegn kvenréttindum á Moggablogginu

Ég verð að viðurkenna að ég kipptist við að líta á vef eftir miðnættið þar sem síðuritari hreykir sér mjög af því að vera á móti kvenréttindum og talar mjög niður til kvenna. Hann virðist telja það til vinsælda fallið. Þetta er víst sami maður og Elías Halldór á að hafa talað um í barnaklámsmálinu margfræga sem varð eitt helsta mál liðinnar viku. Ég veit svosem ekki hvað skal halda um það mál, en hitt veit ég að fyrrnefnd skrif viðkomandi manns eru ógeðsleg og með hreinum ólíkindum að nokkur einstaklingur skrifi með þeim hætti til kvenna. Svo eru konur bloggvinir hans, meira að segja stoltar konur. Þetta er allt mjög með ólíkindum.

Það er viðbúið að á opið bloggkerfi safnist saman fólk úr öllum áttum, sem vill tjá sig einhverra hluta vegna. Sumir eru málefnalegir og heiðarlegir í sínum skrifum. Þá er gaman að lesa. Það er hinsvegar ekki gaman að líta á vefi með skrifum af því tagi sem viðkomandi einstaklingur virðist hreykja sér mjög af að stunda. Ég hélt á þeim tímum sem við lifum á væri samstaða um það í samfélaginu að staða kvenna ætti að vera jöfn okkar karlanna. Það teljast mannréttindi að kynin standi jöfn. Það verður að standa vörð um það. Það er auðvitað ömurlegt að lesa skrif þar sem konur eru talaðar niður í duftið hér á þessu bloggkerfi.

Þegar að ég byrjaði á spjallvefunum var oft gaman að skrifa og ég naut þess tíma mjög. Það kom þó að því að lið sem var beinlínis að skemma vitræna umræðu lagði spjallvefina að mestu í rúst. Þetta var fólk sem gat með engu móti verið málefnalegt. Þetta fólk lagði Innherjavefinn á vísir.is í rúst og lagði síðar málefnin.com í rúst. Þar er nú steindatt samfélag að mestu sýnist mér. Ég leit í vikunni í fyrsta skipti á málefnin síðan í febrúar. Ég fékk mig fullsaddan af þeim vef þá er vefstjórinn þar bar út um mig ósanna kjaftasögu og braut eigin málverjaboðorð. Það var ekkert spennandi að líta þar aftur og ég er dauðfeginn að hafa hætt þar á þeim tíma.

Þar virðist hnefalögmálið og pólitískt fyrirframséð hatur ríkja á milli fólks. Óþolandi ómálefnalegt andrúmsloft semsagt. Það er eins og það er. Ég fer ekkert leynt með að ég sakna örlítið gömlu spjalldaganna þegar að málefnalegt spjall skipti máli milli fólks. Ég sakna þó alls ekki þess andrúmslofts sem var þar þó undir lokin í minni tíð. Það er leiðinlegt ef sömu leiðindi og ómerkilegheit berast hingað á Moggabloggið finnst mér. En það er þó valkostur okkar að sniðganga þau blogg sem okkur mislíkar og halda okkur við hin, enda eru margir frábærir pennar hér.

Ég þekki ekkert viðkomandi mann sem skrifar þessi ömurlegu orð á sinn vef. Þau verða þó til þess að ég tel ekki rétt að líta þar framar, þó umdeildur maður sé eftir uppljóstranir Elíasar Halldórs. Orðbragð hans í þeim væntingum að reyna að halda vinsældum sínum með því að ráðast að konum og sjálfsögðum mannréttindum þeirra hjálpa ekki málstað hans sem var þó orðinn frekar veikburða fyrir.

Bloggpælingar

Þegar að vinur minn, Gestur Einar Jónasson, bauð mér í morgunspjall til sín og Hrafnhildar á Rás 2 í mars spurði hann mig að því hvers konar bloggari ég væri og vildi vera þekktur fyrir rétt áður en við fórum í loftið. Ég svaraði því einfaldlega til að ég vildi skrifa um þjóðmál og pælingar um það sem er að gerast. Ég hef mikið skrifað alla tíð um stjórnmál. Það er einfaldlega mér í blóð borið að hafa skoðanir á þeim. Ég kem af fólki með mjög heitar skoðanir, úr víðu pólitísku landslagi, fólki sem tjáir sig afgerandi, og hef alla tíð haft gríðarlegan áhuga á stjórnmálum. Það vita svosem allir sem eitthvað hafa kynnst mér.

Það hefur alla tíð verið þannig að ég skrifa lítið um prívatmál á mínu bloggi. Það hefur alla tíð verið skýrt að hér eru pælingar að mestu útfrá þjóðmálum. Ég byrjaði reyndar að blogga í rólegheitum á blogspot fyrir rúmum fimm árum. Það átti upphaflega að vera lítið og sætt blogg fyrir vini og ættingja, sem vildu heyra í mér hljóðið og lesa skoðanir mínar. Eftir að ég fór að taka að ráði þátt í pólitísku starfi efldist þetta allt og ég opnaði vef fyrir fjórum árum sem lengi var flaggskip mitt á netinu. Það var ómetanlegur tími. Það voru viðbrigði fyrir mig þegar að ég ákvað að hætta að uppfæra hann. Ég held þó í hann enn eins og ég skildi við hann.

Bloggpælingarnar hafa sífellt orðið meira áberandi. Ég fann mér farveg á tveim vefsíðum, bloggpælingum og öflugri prívatsíðu, þar sem ég skrifaði langa pistla vikum saman. Að því kom að mér fannst sá vettvangur búinn. Ég vildi breyta til. Á þessum tíma var ég á krossgötum í pólitísku starfi. Ég varð fyrir vonbrigðum með stöðu mína og ekki síður þá sem ég hafði lengi unnið með í pólitísku starfi og hafði áður treyst. Það varð visst uppgjör hjá mér á þeim tímapunkti og ég ákvað að breyta stórlega til. Í kjölfar þess að standa á þeim krossgötum ákvað ég að hætta virku flokksstarfi að mestu. Það var rétt ákvörðun.

Síðasta haust kom ég hingað. Það var nýr og ferskur vettvangur sem gaf mér mikið. Hér hef ég skrifað um það sem mér hefur dottið í hug og langað að tala um. Þar eru fréttir dagsins í dag og málefni annarra tíma efst á baugi. Ég hef alla tíð haft gríðarlega gaman af að stúdera söguna og þess sést merki hér. Það má vel vera að sumum leiðist þetta sögugrúsk mitt og ennfremur hvernig ég skrifa um það sem er að gerast. Það hefur aldrei staðið til að þetta yrði blogg nær alveg um mig heldur um þau málefni sem ég met mest og hef alla tíð spáð mest í. Þessi vefur hefur verið mér mikilvægur og hér hef ég haft mitt pláss.

Stór þáttur þess hversu góður þessi vettvangur er telst auðvitað það að Mogginn opnar á það að við hér getum kommentað á fréttirnar sem eru í gangi. Það hef ég nýtt mér vel. Það má vel vera að sumum hafi alla tíð fundist ég langorður og fara of ítarlega yfir mál, það er mín ákvörðun og ég haga mínum seglum eftir því sem ég vil. Það að fara hingað á Moggabloggið var rétt ákvörðun og ég hef notið þess mjög að skrifa hér. Því held ég áfram svo lengi sem ég hef áhugann. Það að vera ekki lengur eins tengdur einum stjórnmálaflokki er líka ágætt í sjálfu sér. Ég er ófeiminn við að skjóta á þá sem ég hef unnið með ef ég tel það rétt.

Mín bloggtilvera hér skiptir mig máli og það skiptir mig líka máli að aðrir vilji lesa og skilji eftir komment. Það er vonlaust að vera algjörlega sammála öllum, en þess þá mikilvægara að stofna til málefnalegs spjalls við þá og eins hina sem vilja kommenta. Ég hef alla tíð reynt að vera málefnalegur og sleppt stóryrðum í garð fólks. Þannig var ég alinn upp og það er sá grunnur sem ég hef byggt á. Þannig verð ég alla tíð.

Það voru sviptingar á Moggablogginu um helgina. Nokkrir mætir félagar söðluðu um og yfirgáfu okkur. Það er eftirsjá af þeim. En það kemur ávallt fólk í skörðin sem losna. Sjálfur vil ég vera hér, þetta er vettvangur sem ég vil nýta mér og tel mig hafa fundið þann stall sem ég vil sjálfur halda áfram. Þeim sem hafa hætt hér vil ég þakka bloggvináttuna, en henni er nú sjálfhætt eftir að vefir þeirra dóu hér. Ég fylgist með þeim áfram á nýjum blogglendum.

John Prescott hættir - hver verður varaleiðtogi?

John Prescott Gamla verkalýðskempan, John Prescott, varaleiðtogi Verkamannaflokksins, mun í dag hverfa úr forystu flokksins og tilkynnt verður á flokksþingi í Manchester um það hver taki við af honum og verði við hlið Gordon Brown, verðandi forsætisráðherra, í forystusessi. Brown tekur við forystu Verkamannaflokksins af Tony Blair með formlegum hætti eftir hádegið í dag og mun verða forsætisráðherra eftir hádegið á miðvikudag er Elísabet II hefur veitt honum umboð til stjórnarmyndunar.

Það hefur verið ljóst um langt skeið að John Prescott færi ekki fram í næstu þingkosningum og myndi víkja úr forystu breskra stjórnmála á sama tíma og Tony Blair yfirgæfi sviðið. Það kemur fáum á óvart að Prescott hætti í stjórnmálum. Hann hefur átt erfitt síðustu árin og hafa vandræði hans einkennst af skaðlegum hneykslismálum og innri erfiðleikum í hjónabandi hans. Erfiðasta hneykslið sem skók stjórnmálaferil hans og innviði flokksins var þegar að upp komst rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi vorið 2006 að hann hefði átt í ástarsambandi við ritara sinn á árunum 2002-2004.

Um tíma héldu stjórnmálaspekúlantar í Bretlandi að hinn gamalreyndi og harðskeytti sjóarajaxl frá Hull myndi segja af sér vegna málsins. Svo fór þó ekki. Staða hans veiktist þó gríðarlega eftir kosningarnar, enda svipti Blair hann veigamiklum sess sínum sem ráðherra stjórnsýslu- og sveitarstjórnarmála. John Prescott, sem er fæddur árið 1938, hefur verið þingmaður Verkamannaflokksins frá 1970 og lengi virkur í innsta kjarna flokksins. Hann varð varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994, er Blair var kjörinn leiðtogi í stað John Smith og hefur frá kosningasigrinum fyrir áratug verið aðstoðarforsætisráðherra Bretlands.

Frá vorinu 2006 hefur hann verið semsagt aðstoðarforsætisráðherra án ráðuneytis, hann varð því eiginlega bara táknræn toppfígúra í forystu Verkamannaflokksins og var þar sem hann var eingöngu vegna þess að hann þurfti hlutverk í ljósi stöðu sinnar. Hann var rúinn allri stöðu í raun. Mikil og harðskeytt umræða hófst reyndar eftir ráðherrahrókeringarnar vorið 2006 þar sem Tony Blair lét hnífinn ganga og slátraði bæði Jack Straw og Charles Clarke um það hvort að Prescott væri hyglað sérstaklega til að hafa hann góðan, enda hefur hann lengi skipt miklu fyrir Tony Blair til að halda vissum kjörnum Verkamannaflokksins stilltum.

John Prescott hefur löngum verið þekktur sem harðjaxl og óvæginn í pólitískum verkum. Einkalíf hans hefur lengi verið honum fjötur um fót. Þó að lengi hefði verið í gangi orðrómur um að hann hafi haldið framhjá konu sinni áttu fáir Bretar von á því sem gerðist í fyrravor og hann stóð þá tæpar en nokkru sinni. Í kveðjuræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins í september 2006 í Manchester bað Prescott flokkinn og félaga sína í forystu hans afsökunar á framferði sínu. Þótti ræðan einlæg miðað við hver það var sem flutti hana, enda hann ávallt haft á sér yfirbragð þess að vera hrjúfur og harkalegur. Hann hefur aldrei verið hinn mildi.

Það berjast sex sterkir þingmenn Verkamannaflokksins um varaleiðtogastöðuna. Það er því búist við að mjótt verði á munum. Alan Johnson, Hazel Blears, Harriet Harmann, Hilary Benn, Peter Hain og Jon Cruddas takast á um þetta veigamikla embætti við hlið leiðtogans. Veðbankar spá menntamálaráðherranum Johnson sigri. Hann hlaut flestar tilnefningar innan þingflokksins í aðdraganda kjörsins og þykir sterkur og sækir stuðning í verkalýðskjarnann rétt eins og Prescott. Hefur Prescott reyndar lýst opinberlega yfir stuðningi sínum við hann. Það hefur þó ekki verið útilokað að Hilary Benn og Harriet Harman næðu þessu.

John Prescott hefur verið einn litríkasti stjórnmálamaður Bretlands í áratugi. Það verður fróðlegt að sjá hver muni taka sess hans. Það er vissulega sjónarsviptir af Prescott nú þegar að hann yfirgefur framlínupólitík og tekur sæti á öftustu bekkjunum það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Hann hefur verið umdeildur og litríkur, og pressan hefur dýrkað að birta alla hans skandala. Það er ekki beint við því að búast að Brown og eftirmaðurinn muni halda því merki hans á lofti.

Ljótasti hundur heims ber nafn með rentu

Ljótasti hundur heims Ég hló eins og galinn maður yfir kvöldfréttunum er myndir voru sýndar frá vali ljótasta hunds heims. Það er óhætt að segja að sigurvegarinn hafi verið skelfilega ljótur greyið. Hundurinn Elwood er svo ófrýnilegur að það er eiginlega með ólíkindum að einhver vilji eiga hundspottið. Það virðast engin mörk fyrir því hvað einn aumingjans hundur getur verið innlega og suddalega ljótur.

Sam Fannst þó hann Elwood greyið vera eins og mildasti ljósglampi miðað við þann sem var valinn í fyrra og hét Sam að mig minnir. Fann mynd af honum eftir mjög langa leit. Hann var svo ófrýnilega ljótur að margir voru hræddir við hann. Sam var víst meinlaus en hafði svo ljóta ásýnd að fólk varð skelkað við það eitt að sjá mynd af honum. Sam greyið drapst reyndar tiltölulega skömmu eftir valið.

Set hér inn myndir af þeim báðum. Þið getið valið hvorum ykkar finnst ljótari, en eitt er ljóst að hvorugur eru þeir eins og ljúfu hundarnir hérna í íslensku sveitasælunni.

mbl.is Ljótasti hundur heims krýndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum sögunni meiri gaum á vef bæjarins

Akureyri Fram kom í máli Elínar Margrétar Hallgrímsdóttur, formanns Akureyrarstofu, í framsöguræðu um málaflokk sinn á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag að framundan væri vinna við algjöra uppstokkun heimasíðu bæjarins. Þar á að skipta heimasíðunni upp í allt að þrjá til fjóra vefi, sem valið sé úr, þar verði t.d. sérstakur vefur með kynningu á bænum fyrir þá sem hafa í hyggju að ferðast hingað til Akureyrar og njóta þar lífsins og svo fyrir bæjarbúa sem vilja kynna sér það sem er að gerast í bænum, grunnmál og stöðu þeirra.

Þetta er svo sannarlega gott og blessað. Þó að vefur Akureyrarbæjar hafi alla tíð að mínu mati verið stórglæsilegur, upplýsandi og vandaður, í raun í fararbroddi vefsetra sem er á vegum íslensks sveitarfélags hefur mér alltaf fundist hann eiginlega ofhlaðinn. Kannski kippast einhverjir við þegar að ég segi þetta en ég segi það samt. Mér finnst sumar upplýsingar of flóknar að finna og vefurinn er stundum of mikið völundarhús er leita þarf snöggt að ýmsu smálegu sem oft blasir ekki við. Ég hef heyrt á fleirum að þeir upplifa hið sama.

Með einföldun vefsíðunnar og að skipta henni upp í nokkur svið sem hver og einn velur úr er betra að tína fram lykilpunkta þess sem fólk vill skoða með heimsókninni á vef Akureyrarbæjar. Að mjög mörgu leyti er heimasíða Akureyrarbæjar andlit bæjarins. Vefurinn þarf að vera svalur frontur stjórnsýslu, afþreyingar, upplýsinga og lykilpunkta, bæði fyrir þá sem búa í bænum og vilja kynna sér betur málefni sveitarfélagsins og eins þess sem er í ferðahug hingað norður. Við eigum að sinna öllum hliðum, því vefurinn á ekki bara að þjónusta mig og þig á Akureyri heldur líka þann sem vill heimsækja okkur, jafnvel í sumar, hver veit.

Mér finnst hafa tekist vel til með stofnun Akureyrarstofu. Þar eru undir sama hætti markaðs-, menningar- og ferðamál Akureyrarbæjar og mun hún aðallega einbeita sér að Akureyri en verða vissulega jafnframt þátttakandi í samvinnuverkefnum hér í Eyjafirði og annars staðar. Elín Margrét fór vel yfir öll þau mál í framsögu sinni á þriðjudag og þakka ég henni greinargóða umfjöllun. Eitt finnst mér þó vanta og það stórlega. Það er að hlúa betur að sögu Akureyrarbæjar, á netinu, og það auðvitað á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Að mínu mati væri vel til fundið að safna saman á vef bæjarins samantekt um bæjarstjóra í sögu Akureyrarbæjar, bæjarfulltrúa í langri sögu sveitarfélagsins og heiðursborgara Akureyrarbæjar. Þetta er umfjöllun sem hvergi er til staðar. Ég hef alla tíð verið aðdáandi sögunnar og viljað veg hennar sem mestan, alltaf haft gaman að lesa og skrifa um fortíð jafnt sem nútíð, t.d. í pólitík og talið mikilvægt að halda ýmsum til haga. Það er mikilvægt að hlúa að þessum þáttum á vegum bæjarins.

Jón Hjaltason hefur ritað nokkur afburðagóð rit af sögu Akureyrarbæjar, rit sem hann á heiður fyrir, enda vönduð og vel úr garði gerð. Það væri vel til fundið að fá Jón eða einhvern annan sögulega þenkjandi mann til að taka þessar upplýsingar saman, sem varla er mikið vandamál, nú eða hreinlega birta meira á vefnum úr bókum Jóns um sögu Akureyrarbæjar, sem reyndar full þörf er á að halda áfram, enda endar saga bæjarins ekki við síðasta bindi Jóns.

Vefur Akureyrarbæjar á að vera stolt okkar og flaggskip hér í kynningu á bænum. Jafnframt þarf að huga þar að sögu bæjarins, sem er merk og áhugaverð. Ungir sem eldri Akureyringar líta oft á vef sveitarfélagsins og þar væri söguhorn vel þegið með öllum öðrum mikilvægum upplýsingum. Þetta eru verkefni sem ber að vinna að við uppstokkun heimasíðu bæjarins sem nú stendur yfir.

Litrík umræða í bloggheimum um barnaklámsmál

Það er óhætt að mikil umræða hafi orðið í samfélaginu og í netheimum í kjölfar skrifa Elíasar Halldórs Ágústssonar, fyrrum kerfisstjóra í Reiknistofnun Háskóla Íslands, hér á Moggablogginu um barnaklámsmál og uppljóstranir hans um að tveir Moggabloggarar hafi verið þeir sem um ræði í því tilfelli. Það er auðvitað stóralvarlegt mál sé það rétt að lögreglan hafi fengið ábendingar um málið á sínum tíma, árið 1999, og ekki aðhafst neitt. Stór hluti umræðunnar snerist um að fá nöfn viðkomandi, en Elías Halldór gaf engin nöfn upp en kom umræðu af stað. Ekki leið á löngu þar til flestir töldu sig komna á slóð viðkomandi og um fátt er meira talað nú en viðkomandi menn.

Það er erfitt að fullyrða neitt um málið svosem, nema þá að það er háalvarlegt. Þetta eru ásakanir af því tagi að lögreglan á að taka þær upp og fara yfir stöðu þess frá öllum hliðum. Annað er varla líðandi. Þar sem að nöfn viðkomandi sem Elías Halldór gefur upp að hafi staðið að baki þessu eru orðin opinberuð að því er virðist má leiða getum að því að bálið magnist enn frekar. Svo er allavega þegar hægt að sjá hér í bloggkerfinu. Þetta er auðvitað mál sem vekur heitar skoðanir og hugleiðingar. Það er viðbúið þegar að fram koma skrif af þessu tagi að þeir sem lesa vilji fara næsta skref og leiða málið til lykta. Sumir hafa verið duglegri en aðrir í þessu ef marka má skrif hér.

Barnaklámsmál af því tagi sem Elías Halldór Ágústsson opinberar eru þess eðlis að miklu meira en eitt bloggkerfi nötrar í raun. Þessi umræða hefur farið sem eldur í sinu um samfélagið. Ísland í dag hefur tekið málið upp og það virðist bara rétt að byrja. Það verður fróðlegt að sjá hvert framhaldið verði nú þegar að þetta er komið í hámæli og greinilegt er að Moggabloggararnir sem um ræðir hafa tekið skrifin verulega til sín og er greinilega ekki sama um þá umfjöllun sem hafin er. Það verður svo auðvitað athyglisvert að sjá hvort að slóð málsins verði rakin að fullu og hvernig það verði rannsakað, sem hlýtur að blasa við að verði gert.

Sé það rétt að lögreglan hafi skellt skollaeyrum við þessu máli fyrir átta árum er það svo í sjálfu sér stóralvarlegt mál sem ekki má þaga í hel frekar en hitt málið sjálft.

Tony Blair kveður forystu alþjóðastjórnmálanna

Tony Blair Ég horfði á síðasta blaðamannafund Tony Blair á forsætisráðherraferlinum í nótt í beinni útsendingu frá Brussel. Það er komið að endalokum hjá Blair í forystu alþjóðastjórnmála. Gordon Brown tekur við Verkamannaflokknum á morgun á flokksþingi í Manchester og á miðvikudag segir Blair af sér á fundi með Elísabetu II í Buckingham-höll og keyrir frá þeim fundi sem óbreyttur þingmaður flokksins á leið í langt sumarfrí sennilega. Alls óvíst er reyndar hvort Blair muni áfram gegna þingmennsku.

Margar sögur hafa gengið af fyrsta fundi Elísabetar II og Tony Blair föstudaginn 2. maí 1997 þegar að hann tók við völdum í Bretlandi eftir sögulegan kosningasigur, þann stærsta í sögu Verkamannaflokksins. Þá brotnaði Íhaldsflokkurinn nær í mél og var smár og beygður. Hann var maður allt annarra tíma en hún á alþjóðavettvangi og fulltrúi nýrra tíma, eins og átti eftir að sjást í deilum þeirra bakvið tjöldin eftir dauða Díönu, prinsessu af Wales, í ágúst 1997 þar sem Blair leiddi byltingu fólksins gegn konungsfjölskyldunni sem sat þögul hjá í sorgarferli almennings, þar til að Blair tók völdin og Elísabet II fór til London og ávarpaði þjóð í sorg.

Eins og fyrr segir hafa margar sögur gengið af fundinum í Buckingham-höll. Honum er lýst nákvæmlega í kvikmyndinni The Queen með bravúr að flestra mati, talin raunsönn lýsing á fyrsta fundi þessara fulltrúa gerólíkra tíma í breskri sögu. Tony Blair var fyrsti forsætisráðherrann á valdaferli drottningar sem fæddur var eftir að hún tók við krúnunni árið 1952 og væntanlega mun svo fara að hann verði sá eini, nema að David Cameron verði forsætisráðherra árið 2009, sem hægrimenn eins og ég vona auðvitað mjög, og Elísabet II þá enn á drottningarvakt. Blair-hjónin voru fyrir valdaferilinn miklir andstæðingar gamla valdsins og Cherie Blair átti aldrei erfitt með að stuða drottninguna og valdakjarnann hennar t.d. í kosningabaráttunni 1997 og við eftirmála dauða Díönu prinsessu.

Tony Blair virðist þó hafa lært að virða drottninguna og meta. Það sést vel í kvikmyndinni The Queen. Það sást merkilega vel í aðdraganda útfarar Díönu. Drottningin hefur þó aldrei verið unnandi Blairs og sögusagnir herma að hún hafi talið dagana mjög lengi eftir að losna við Blair. Það komst í pressuna um daginn að drottningin teldi Blair hafa verið misheppnaðan stjórnmálamann og ekki staðið undir væntingum. Það eru orð að sönnu, lítum bara á skoðanakannanir. Það er flestum ljóst að drottningin fagnar því að Gordon Brown taki við völdum. Hann er Skoti, intellectual-týpa og maður hugsjóna. Það væri eflaust gaman að vera fluga á vegg á fundi þeirra á miðvikudag.

Tony Blair talaði af krafti á sínum síðasta blaðamannafundi. Skarð hans verður auðvitað mikið fyrir breska fjölmiðla sérstaklega, enda hafa þeir lengi hossað honum, sérstaklega fyrir Íraksstríðið og sumir allt til endalokanna meira en aðrir. Blair hefur verið maður sviðsljóssins, tilbúinn til að gera allt fyrir spinnið, plottið og myndavélablossana. Athyglin hefur verið honum mikilvæg. Brown er maður annarrar gerðar, hann er mikill hugsuður en um leið meiri pólitíkus á bakvið tjöldin og er mun litlausari sem persóna en hinn litríki Blair sem sjarmeraði Breta fyrir áratug og var lengi vel dálæti þeirra, stolt og yndi. Eða allt þar til að hans glampi hvarf með sprengjublossunum í Bagdad.

Blair hefur verið í vörn allt frá því að hann missti út úr sér í þrengingum að hann myndi ekki fara í fjórðu kosningarnar. Það eru þrjú ár frá þeim dómgreindarskorti sem hefur þurrkað hans glansa upp mun hraðar en eiginlega Íraksmálið, þó eflaust sé það blanda af því öllu sem blasi við þegar að gerðar eru ástæður þess að hann fer hrakinn og veðraður frá völdunum sem Bretar fólu honum með landslide-stórsigri fyrir áratug og var hylltur sem þjóðhetja er hann kom sem forsætisráðherra fyrst í Downingstræti af sínu fólki. Hann verður ekki hylltur við lokin og flestir lykilmenn Brown-kjarnans hafa talið dagana óralengi eftir að hann færi frá völdum.

Nú er komið að því. Það er kaldhæðnislegt að síðasti blaðamannafundurinn, síðasti sviðsljómi þessa sigursæla leiðtoga jafnaðarmanna sem hefur hrakist frá völdum hægt og hljótt á sviptingasömum þrem árum, hafi verið í húsakynnum Evrópusambandsins í Brussel. Margir þeirra sem þar voru hafa fjallað um það eitt mánuðum saman hvenær að hann muni nákvæmlega hætta og hversu lengi hann myndi vera fyrir Gordon Brown þeim Tony og Cherie til mikilla vansa.

Ég hélt reyndar um tíma að hinn svefnlausi Tony Blair myndi vitna á þessari örlagastundu ferils síns til Richards Nixons sem sagði árið 1962 er hann ætlaði sér að hætta í pólitík eftir að hafa tapað ríkisstjóraslag í Kaliforníu og áður forsetakosningunum 1960 fyrir JFK: "You won´t have Nixon to kick around anymore, because, gentlemen, this is my last press conference."

Það gerðist þó ekki. Þess í stað kláraði hann fundinn og sagði lágt er hann gekk frá púltinu og eflaust til að halda beint í háttinn. "Well, then it´s off to bed". Kaldhæðnisleg lokaorð eins valdamesta stjórnmálamanns heims á sínum síðasta blaðamannafundi á fjölmiðlavænum stjórnmálaferli.

Eyjan fer af stað - kjaftasagan um Egil var rétt

Egill Helgason Nýja bloggsamfélagið Eyjan hefur opnað. Kjaftasagan um að Egill Helgason myndi blogga þar varð svo sannarlega rétt. Hér skrifaði Egill í þrjár vikur. Auk hans skrifa þarna um tuttugu bloggarar, tíu til ellefu þeirra sýnist mér að hafi skrifað hér á Moggablogginu. Miklar kjaftasögur gengu um það í vikunni hverjir myndu skrifa þarna og reyndust þær allar réttar sýnist mér.

Merkilegast þykir mér að sjá Friðjón R. Friðjónsson skrifa þarna, en hann var 2. varaformaður SUS hluta þess tíma sem ég var í stjórninni, ásamt þeim Guðmundi Svanssyni og Tómasi Hafliðasyni. Svo er auðvitað athyglisvert að Þráinn Bertelsson skrifar þarna. Ekki kemur að óvörum að sjá pólitíkusana Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, og Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa, blogga þarna á vefsetri Péturs og Andrésar. Merkilegt að sjá Björgvin á Bæjarslúðrinu austfirska skrifa þarna.

Nöfnin þarna eru annars að mér sýnist þessi:
  • Andrés Jónsson
  • Andrés Magnússon
  • Arna Schram
  • Björgvin Valur Guðmundsson
  • Björn Ingi Hrafnsson
  • Egill Helgason
  • Friðjón R. Friðjónsson
  • Grímur Atlason
  • Guðmundur Rúnar Svansson
  • Hafrún Kristjánsdóttir
  • Helga Vala Helgadóttir
  • Magnús Sveinn Helgason
  • Pétur Gunnarsson
  • Pétur Tyrfingsson
  • Tómas Hafliðason
  • Þorbjörg Gunnlaugsdóttir
  • Þráinn Bertelsson
  • Össur Skarphéðinsson

    Ég fór yfir þetta í gær í þessum skrifum og nefndi nöfnin sem hafa verið í umræðunni. Auðvitað voru þau öll rétt, enda hefðu þau sem áður hefðu verið nefnd tekið fyrir það á bloggum sínum hefði sá orðrómur verið rangur. En það er skiljanlegt að fólk vilji færa sig til sé það ekki sátt að einhverju leyti og eða vilji mynda aðra elítu á vefnum, einskonar vefrit í blokkarformi.

    Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur þarna. Þetta samfélag verður allavega líflegt. Á moggablogginu heldur lífið áfram eins og ekkert hafi gerst. Það koma alltaf einhverjir í annarra stað. Það sýnir sagan okkur frá opnun fyrir ári.

    Ég ætla mér að skrifa áfram hér mínar pælingar. Hér líður mér vel og engin ástæða til að hreyfa sig um set. Það hefur enda aldrei komið til greina að færa sig frá því að ég opnaði hér í september 2006.

mbl.is Nýr fjölmiðill tekur til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskaakstur í miðborg Reykjavíkur

Það var mjög dapurlegt að heyra fréttir af hraðakstrinum í miðborg Reykjavíkur sem lauk með því að ekið var á Hamborgarabúllu Tómasar. Þetta er auðvitað stóralvarlegt mál, það er skelfilegt að hraðakstur af þessu tagi sé inni í miðri borg. Þetta telst varla slys, heldur hreinlega manndrápsakstur að mínu mati. Það getur varla öðruvísi endað en með skelfingu þegar ekið er af þessu tagi. Þetta getur orðið að tilræði við gangandi vegfarendur, sem fyrir tilviljun geta orðið fórnarlömb þess sem fylgir hraðakstrinum, enda þarf lítið að gerast til að ökumennirnir missi stjórn á stöðunni.

Það er vonandi að ungmennin þrjú sem lentu í þessu nái fullri heilsu. Það eru samt blendnar tilfinningar sem fylgja þessu máli, það er alveg ljóst. Það er auðvitað algjört sjálfskaparvíti að stunda hraðakstur inni í miðri borg og getur farið verulega illa. Það gerðist í þessu tilfelli og það hefur gerst áður. Það voru tilfelli t.d. á síðasta ári sem voru svipuð þessu. Banaslys fylgdu í sumum tilfellum. Þetta er dapurleg þróun, enda virðist vera sama þó að klifað sé á því að hraðakstur eða hreinn kappakstur geti orðið fólki að bana að staðan virðist lítið sem ekkert breytast til hins betra.

Það þarf að stokka málin upp enn frekar. Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands, kom reyndar með góðan punkt í kvöldfréttum þar sem hann kom með sitt mat að breyta þurfi ökunámi á Íslandi og eyða meira púðri í djúpa innrætingu. Það er margt til í því. Eitthvað þarf allavega að gera. Það blasir við. Þetta er þróun sem á ekki að sætta sig við. Til þess er hún enda í senn bæði of drungaleg og sorgleg.

mbl.is Þungt haldin eftir umferðarslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur Akureyrarbær yfir flugvöllinn í bænum?

Akureyrarflugvöllur Það vakti mikla athygli er Sjálfstæðisflokkur og Samfylking mynduðu meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar að þar kom fram vilji flokkanna að Akureyrarbær myndi taka við rekstri Akureyrarflugvallar. Nú hafa Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, og Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs, skerpt á þessari skoðun með mjög áberandi hætti og vilja láta á þetta reyna.

Kristján L. Möller, s
amgönguráðherra og leiðtogi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að flugbrautin á Akureyrarflugvelli verði lengd við fyrsta tækifæri og að það yrði jafnframt skoðað hvort að bærinn tæki við vellinum. Hann tekur með öðrum orðum ekki fyrir þann valkost og heldur honum galopnum. Eflaust hefur Kristján rætt þessi mál vel áður við Hermann Jón, en þeir þekkjast vel úr kjördæmastarfinu og ráðherrann kemur oft við hjá flokksfólki sínu hér í bæ og er eflaust vel inni í þessum málum öllum sem um er að ræða.

Sigrún Björk tók sérstaklega fram í ræðu á bæjarstjórnarfundi í Ráðhúsinu á þriðjudag að þessa tillögu þyrfti nú að skoða betur en áður. Vilji hennar og annarra bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins virtist skýr. Hermann Jón hefur tekið undir þessa skoðun með áberandi hætti, síðast í viðtali við Svæðisútvarpið hér. Þetta er reyndar skoðun sem þarf ekkert að kanna að því er virðist enda er hún grúnderuð í meirihlutasamningi flokkanna og full samstaða virðist innan meirihlutans um þennan valkost. Boltinn virðist mun frekar vera staddur því hjá samgönguráðherranum, þingmanni kjördæmisins.

Sérstaklega er þó gleðilegt að samgönguráðherra hefur tekið afdráttarlaust fyrir að stækka eigi Akureyrarflugvöll. Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, dró lappirnar í því máli alltof lengi að mati okkar hér eins og ég hef margoft farið yfir í mínum skrifum á þessum vef. Völlurinn verður ekki alvöru millilandaflugvöllur fyrr en hann hefur verið lengdur og mun ekki geta staðið undir nafni sem lykiltenging Akureyrarbæjar og Norðurlands alls við höfuðborgarsvæðið og útlönd fyrr en sú lenging hefur átt sér stað. Það er algjört lykilmál hér nú.

Akureyrarbær hefur eflaust í hyggju með því að taka yfir völlinn að markaðssetja flugvöllinn talsvert betur en nú er gert og reyna að laða að sér lággjaldaflugfélög. Það skiptir máli. Þetta er kostur sem mikilvægt er að skoða. Ekki virðist skorta pólitíska samstöðu hér á Akureyri. Afstaða bæjarstjórans og bæjarfulltrúa meirihlutaflokkanna liggur skýr fyrir. Það er mikilvægt að taka næsta skref og kanna þetta betur.

The Last Hurrah in Brussels

Tony BlairTony Blair, forsætisráðherra Bretlands, er nú staddur í Brussel á leiðtogafundi ESB sem verður síðasta stóra embættisverk hans á stjórnmálaferlinum, en hann lætur af völdum á miðvikudaginn. Það sem átti eflaust að verða afslöppuð kveðjustund hans í framlínupólitík sem myndi sýna styrk hans sem stjórnmálamanns varð að hinu gagnstæða. Fundurinn hefur markast af átökum um hvert skuli stefna í málefnum Evrópusambandsins og ekkert víst enn í þeim efnum.

Fyrirfram var ljóst að tekist yrði á um framtíðina í Brussel og að þar yrðu Bretar og Pólverjar erfiðastir við að eiga. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur stýrt fundinum eins og herforingi en sérstaklega átt erfitt með að eiga við Pólverjana, sérstaklega eftir ummæli Lech Kaczynski um skarðan hlut Pólverja í samstarfinu í ljósi þess að þeir væru mun fleiri ef Þjóðverjar hefðu ekki stefnt til seinni heimsstyrjaldarinnar. Það varð sem olía á eldinn.

Blair virðist hafa gefið eftir fyrir kröfum Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í Brussel og sagt er að til hvassra orðaskipta hafi komið milli Blairs og Browns í síma síðdegis þar sem þeir fóru yfir stöðu mála. Tony Blair er að mörgu leyti orðinn stórlega skaddaður sem stjórnmálamaður, vald hans og kraftur hefur veikst mjög í gegnum orrahríðir undanfarinna mánaða. Sérstaklega hafa innri væringar innan Verkamannaflokksins veikt hann, en þar er að mestu um að kenna átökum um hversu lengi hann myndi vera við völd.

Svo virðist sem að Tony Blair sé eiginlega dauðfeginn að losna brátt við skyldur stjórnmálaforystunnar. Hann og fjölskyldan munu halda beint í frí á ónefndum stað við Miðjarðarhafið í næstu viku eftir að hann hefur látið af embætti eftir hádegi á miðvikudag. Í Brussel fer lokarimma hans í stjórnmálum þó fram. Á meðan að hann nýtur þar lokaglampans síns á löngum stjórnmálaferli er Gordon Brown þegar byrjaður að setja saman ráðuneyti sitt í London og hefur boðið mönnum utan þings og Verkamannaflokksins ráðherrasæti. Fræg rimma hefur verið vegna þeirra mála milli Browns og forystumanna frjálslyndra.

Tony Blair hefur verið í stjórnmálum í yfir tvo áratugi og í rúman áratug verið maður sem hefur mikil alþjóðleg völd og áhrif. Þeim lýkur senn og stjórnmálaferlinum líka. Það er þó varla við því að búast að hann hverfi úr blossa alþjóðastjórnmálanna, enda er Bandaríkjamönnum sýnilega mikilvægt að halda honum í sviðsljósinu áfram, enda vita þeir hvað þeir höfðu með Tony Blair en ekki hvað þeir fá með Gordon Brown sem á miðvikudag stígur úr skugganum og tekur sæti á hástallinum mikla.


mbl.is Samkomulag milli Þjóðverja og Pólverja um atkvæðavægi innan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um Hafró

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Greinilegur ágreiningur er innan ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um Hafrannsóknastofnun. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, tjáir þá skoðun á vefsíðu sinni að skilja eigi Hafrannsóknastofnun frá sjávarútvegsráðuneytinu. Varla er við því að búast að t.d. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fyrrum sjávarútvegsráðherra, og fleiri ráðherrar Sjálfstæðisflokksins taki undir þá skoðun.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var ekki beint parhrifin í fréttum Stöðvar 2 rétt í þessu. Fróðlegt væri að heyra skoðun Einars Kristins Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, en hann hefur varla undan því að svara því sem fulltrúar stjórnarflokkanna segja opinberlega um málaflokk hans, en mikla athygli vöktu um daginn nærgætin svör hans við hinni frægu þjóðhátíðarræðu Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, sem yfirskyggðu ræðu forsætisráðherrans sem þó var flutt í kastljósi fjölmiðla í beinni útsendingu.

Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður og Vestfjarðajaxl með meiru, er eflaust glaður yfir þessum skrifum Össurar. Mikla athygli vakti rimma Árna M. Mathiesen og Einars Odds í vikunni, þar sem Árni skaut föstum skotum vestur til Einars Odds. Var það með hvassari átökum þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem ég man eftir að hafi átt sér stað eftir formannskjör Davíðs Oddssonar fyrir einum og hálfum áratug, en flokkurinn logaði oft í skotum kjörinna fulltrúa á áttunda og níunda áratugnum, er hann klofnaði með áberandi hætti, t.d. með myndun ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, þáverandi varaformanns, í trássi við flokksstofnanir.

Það verður fróðlegt að sjá hvor skoðunin verður ofan á innan ríkisstjórnarinnar, en skýr ágreiningur um aðferðir í málefnum Hafrannsóknastofnunar og hverjum hún muni tilheyra er til staðar.

Nýtt bloggsamfélag - Egill bloggar á Eyjunni

Egill Helgason Nýja bloggsamfélagið Eyjan mun víst eiga að opna í dag. Kjaftasögurnar segja að Egill Helgason muni blogga á Eyjunni, en hann hefur bloggað hér á Moggablogginu í þrjár vikur, eða frá því að honum var úthýst af vísi.is eftir fjölmiðlaátök í gúrkutíð að sumri við fjölmiðlaveldið 365. Það verður fróðlegt að sjá á næstu dögum hvort kjaftasögurnar eru réttar.

Egill hefur reyndar ekki bloggað hér í nokkra daga, en dvelst í blíðunni á eyjunni Folegandros. Lista yfir bloggnöfnin sem þá voru komin á Eyjuna var skúbbað fyrir nokkrum dögum án þess að nokkur sýnileg mótmæli kæmu við því og því greinilegt að það fólk ætlar að skrifa þar eftir boð þar um, enda verður ekki um að ræða opið bloggsamfélag eftir mínum heimildum, heldur fyrirfram ákveðinn pennavettvang sem mynda samfélagið sem um ræðir.

Þau nöfn eru:
Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi
Helga Vala Helgadóttir, varaþingmaður
Habba Kriss, sálfræðingur og systir Sigga Kára
Grímur Atlason, bæjarstjóri í Bolungarvík
Freedomfries, ameríska bloggið skemmtilega
Hux (Pétur Gunnarsson) stjóri
Andrés (Jónsson) stjóri
Andrés M. blaðamaður
Pétur Tyrfingsson, sálfræðingur
Obba (eiginkona Ágústs Ólafs Ágústssonar)
Arna Schram, formaður Blaðamannafélagsins
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.

Merkilegur listi þetta. Ekki vekur mikla undrun að sjá nafn Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra og fyrrum formanns Samfylkingarinnar, en hann og Andrés eru vel tengdir. En enn er smellt er á eyjuna.is kemur melding um innskráningu og ekkert enn verið opnað. Það verður fróðlegt að sjá það sem blasir við þegar að hurðin opnast. Reyndar gat maður litið á grunninn að nýrri síðu Björns Inga um daginn og hún gaf fyrirheit um hvað er framundan.


Mun Guðrún Ögmundsdóttir fá Jafnréttisstofu?

Guðrún Ögmundsdóttir Kjaftasögurnar segja að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, ætli Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrum alþingismanni Samfylkingarinnar, embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu hér á Akureyri sem brátt verður auglýst laust til umsóknar. Margrét María Sigurðardóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri, sem gegnt hefur embættinu frá því að Valgerði H. Bjarnadóttur var ýtt til hliðar af Árna Magnússyni, þáverandi félagsmálaráðherra, hefur verið ráðin umboðsmaður barna.

Það verður vissulega mjög athyglisvert ef Guðrún, sem var alþingismaður Reykvíkinga í átta ár og borgarfulltrúi þar áður í sex ár í Reykjavík, myndi flytja til Akureyrar og taka við Jafnréttisstofu í Borgum við Norðurslóð. Guðrún var á þingferli sínum mjög ötull talsmaður mannréttinda og jafnréttis og var vissulega framarlega í flokki talsmanna velferðarmála innan Samfylkingarinnar áður en henni var hafnað í prófkjöri í nóvember 2006. Hún þorði að fara gegn straumnum í fjölda málaflokka en naut þess ekki er á hólminn kom.

Guðrún var umsækjandi um embætti umboðsmanns barna, stöðuna sem Margrét María fékk. Það hafði verið í umræðunni hvort henni væri ætlað verkefni. Nú þegar að Jafnréttisstofa losnar er ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hverjir hafi áhuga. Jóhanna Sigurðardóttir mun sem félagsmálaráðherra og yfirmaður jafnréttismála veita embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Jóhanna og Guðrún voru saman á þingi um langt skeið og þekkjast vel. Það verður fróðlegt að sjá hvort hún skipar sína fyrrum samstarfskonu.

Það verður reyndar fróðlegast af öllu að sjá hvort að Valgerður H. Bjarnadóttir, fyrrum framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi á Akureyri, sæki um stöðuna sem hún gegndi um árabil. Það verður athyglisvert að sjá hvort að hún fái stöðuna sæki hún um.

50 dagar liðnir - er Madeleine stödd á Möltu?

Madeleine McCann Það eru 50 dagar liðnir frá því að Madeleine McCann hvarf sporlaust í bænum Praia de Luz á Algarve í Portúgal. Því er minnst um allan heim í dag með því að sleppa fimmtíu gulum blöðrum út í loftið. Það var gert hér í Reykjavík eins og sést í meðfylgjandi frétt. Mikil dulúð hefur umlukið málið allt frá fyrsta degi.

Madeleine var numin á brott af hótelherbergi en foreldrar hennar höfðu skilið hana þar eftir á meðan þau fóru og fengu sér kvöldverð. Málið allt er hið undarlegasta og hefur það verið miðpunktur fjölmiðlaathygli af skiljanlegum ástæðum allt frá fyrsta degi. Ljóst er að portúgalska lögreglan vann málið allt of hægt í upphafi og klúðraði augljóslega rannsókninni strax á upphafsstigi.

Nú beinast sjónir að vísbendingum um að hjón hafi séð stelpu sem líkist Madeleine McCann á Möltu. Þær vísbendingar þykja vera sterkar og er nú verið að kanna þær. Það er þó ljóst að eftir fimmtíu daga leit minnka sífellt vonir um árangur í leitinni. Það hefur þó gerst að börn hafi verið týnd árum saman en jafnvel fundist. Þetta tilfelli þykir þó sérstaklega dularfullt og fjölmiðlaathyglin er gríðarleg.

Það er ljóst að McCann-hjónin eru í sjokki. Þau litu af dóttur sinni og kenna sér eflaust um hvernig fór. Það verður þeim þung byrði ef Madeleine finnst látin eða jafnvel finnst aldrei, þess eru auðvitað dæmi að krakkar hafi horfið við svipaðar aðstæður, en aldrei fundist. Það eru dapurleg örlög.

mbl.is Blöðrur til marks um samkennd með fjölskyldu Madeleine
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinsæll forseti á pólitískum hættuslóðum

George W. Bush Pólitísk staða George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, heldur sífellt áfram að versna. Nú er hann orðinn óvinsælli í könnunum en Richard M. Nixon var á Watergate-tímanum, en hann sagði af sér forsetaembættinu vegna þess sögulega hneykslismáls beygður og smáður í ágúst 1974. Pólitísk örlög Bush eru að verða ansi grá og guggin, staða hans heldur aðeins áfram að versna og aðeins spursmál hversu melódramatísk afgangur kjörtímabilsins verði fyrir hann.

Kjörtímabili hans á forsetastóli mun ljúka þann 20. janúar 2009. Hann getur ekki gefið kost á sér til endurkjörs - það líður því að lokum forsetaferils þessa umdeilda forseta. Það er ljóst að forsetinn er einn sá óvinsælasti í sögu landsins. Meira en 2/3 hluta landsmanna hafa misst traust og trú á forystu hans og telja honum hafa orðið á. Það er greinilegt að lokasprettur forsetaferilsins verður honum erfiður og viðbúið að brátt syrti æ meir í álinn milli demókrata og repúblikana en nú þegar orðið er.

George W. Bush hafði aðeins einu sinni á sex ára forsetaferli beitt neitunarvaldi gegn lögum frá þinginu á forsetaferlinum áður en repúblikanar misstu bæði öldungadeildina og fulltrúadeildina í nóvember 2006. Síðan hefur hann tvisvar beitt neitunarvaldi og viðbúið að það muni gerast æ oftar á næstunni. Greinilegt er að forsetinn leggur sérstaka áherslu á að þingið gefi hinni nýju hernaðaráætlun sinni og Bob Gates, varnarmálaráðherra, færi á að sanna sig og verða sett í framkvæmd af krafti. Viðbúið er að demókratar sætti sig ekki við fjölgun hermanna í Írak og auka stríðsreksturinn þar eins og staðan er orðin. Forsetinn hefur ekki lengur meirihluta á þingi bakvið hernaðarplan sitt og þar er orðið algjörlega stál í stál.

Stóri vandi Bush forseta nú er tvíþættur; hann hefur misst tiltrú landsmanna og hann hefur ekki þingið á bakvið sig lengur. Hann er því mun einangraðri sem forseti en margir forvera sinna. Sumir forsetar hafa getað sætt sig við að hafa þingið ekki með sér en eiga mun erfiðar með að segja sína skoðun vitandi að þjóðin fylgir honum ekki eftir. Það er þung byrði að bera - þá byrði ber Bush nú, jafnvel allt til loka forsetaferilsins, hver veit? Allavega hefur mjög þyngst yfir honum sem forseta, það hefur mjög margt breyst.

Bush forseti veit vel að pólitísk arfleifð hans ræðst mikið af því hvernig fer á næstu 20 mánuðum, það sem eftir lifir valdaferilsins. Hann veit að demókratar ráða þinginu og virðast hafa almenningsálitið með sér. Merki þess hversu gríðarlega hann hefur veikst pólitískt sjást í því hversu snemma kosningabaráttan um val á eftirmanni forsetans hefst. Hún mun aldrei standa lengur en að þessu sinni, hófst þegar á fullu í janúar. Það er jafnan sterkt merki þess hvort forseti sé sterkur eða veikur.

Öll vitum við hvað er að gerast núna. Baráttan um Hvíta húsið er hafin með sama krafti og kjósa ætti í forkosningum í næsta mánuði. Nú veltur allt á hvernig að Bush gengur að vinna með demókrötum. Hann vann með þingi undir yfirráðum demókrata í Texas meðan að hann var ríkisstjóri þar. En nú er þolraunin erfiðari - jafnframt um meira að tefla. Hann mun eiga erfitt í þessari stöðu.

Það að vera stríðsforseti í vonlausu stríði er ekki fallið til vinsælda. Öll munum við eftir Texas-búanum Lyndon B. Johnson, ekki satt?

mbl.is Bush óvinsælasti forseti Bandaríkjanna í 35 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur sigur - nýjir tímar í kvennaboltanum?

Mörkum fagnað Það var yndislegt að sjá íslenska kvennalandsliðið bursta hið serbneska á Laugardalsvelli í sumarblíðunni í kvöld, 5-0. Glæsilegur sigur, stelpurnar áttu hann svo sannarlega skilið. Liðsandinn og stemmningin skein af liðinu og þær fóru algjörlega á kostum. Það er alveg greinilega að blómstra þetta landslið og þjálfari og leikmenn samstíga í góðum verkum. Þarna er gott starf til fjölda ára að skila sér svo sannarlega.

Það eru nýjir tímar í kvennaboltanum. 6000 manns voru á Laugardalsvelli. Þetta er auðvitað stórglæsilegt, loksins er kvennaboltinn að fá verðskuldaðan sess. Kvennaliðinu gengur mun betur en karlaliðinu og það er í ljóma sigursældar og góðs árangurs. Svo góður árangur byggir ekki bara góða liðsheild heldur tryggir að landsmenn vilja fylgjast með. Landsmenn hafa sjaldan stutt eins vel við bakið á kvennalandsliðinu í kvöld, enda var þetta glæsilegt móment fyrir kvennaboltann að mínu mati. Þetta var mikið sigurkvöld fyrir þær sem hafa leitt þetta starf árum saman og sjá nú afrakstur þess.

Staða íslenska kvennaliðsins er góð í riðlinum. Þær leiða hann með þrjá sigra og níu stig. Þetta er auðvitað stórmerkilegur árangur. Það er alveg ljóst að þetta er lið sem getur gert enn betri hluti en þá sem áður hafa átt sér stað. Það er þó ekkert gefið fyrr en yfir lýkur og framundan eru erfiðir leikir. En þetta er lið sem getur fært góða sigra, liðsheildin er öflug og landsmenn styðja stelpurnar 110%. Það allt skiptir máli. Þetta er blanda sem getur varla klikkað. Það sjáum við vel á þessu fagra júníkvöldi.

Íslensku stelpurnar fá gott start í landsleiknum

Stelpurnar hita upp Íslensku stelpurnar hafa fengið fljúgandi gott start í landsleiknum við þær serbnesku. Staðan í hálfleik er 2-0 fyrir íslenska liðið. Það er mjög skemmtilegt að sjá leikgleðina í íslenska kvennalandsliðinu. Það er að standa sig súpervel og hafa unnið gríska og franska liðið í undankeppni EM í Finnlandi 2009.

Það var strax á þriðju mínútu sem fyrsta markið kom og hið seinna kom tuttugu mínútum síðar. En það vinnur enginn leik í hálfleiknum svo að það verður áhugavert að sjá hvernig gengur í seinni leikhluta, en þetta er allavega gott start og skemmtilegt að sjá til liðsins. Það er altént mikill munur á stöðu kvennalandsliðsins og karlalandsliðsins, en þar gengur lítið sem ekkert upp.

En við tökum þetta. Stelpurnar eru flottar og eru að sýna sinn kraft heldur betur með hverjum sigrinum. Það er mikilvægt að hlúa vel að þessu góða liði og það skiptir máli að við fylgjumst með því með sama áhuga og karlaliðinu. Það hefur vantað talsvert upp á það, en svona frábær árangur ætti að tryggja það að við styðjum þær af krafti.

Það sem ég skil þó ekki er tímasetning leiksins, en hann hefst á tíunda tímanum. Ekki það að skemmtilegt er að horfa á bolta í júnísólinni. En samt spes tími.

mbl.is Fimm marka sigur Íslands á Serbum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki tjaldsvæði fyrir ungmenni á Akureyri um versló

Ein með öllu Akureyrarbær hefur tekið þá ákvörðun að hætta með sérstök unglingatjaldsvæði á fjölskylduhátíðinni Einni með öllu hér á Akureyri um verslunarmannahelgar. Lögð er áhersla á að hátíðin sé fjölskyldumiðuð að öllu leyti. Tjaldsvæði að Hömrum og hér við Þórunnarstræti verða kynnt sem fjölskyldutjaldsvæði. Ekki verður boðið uppá sérstök einstaklingstjaldsvæði í bænum.

Akureyrarbær mun styrkja samkomuhaldið með undirbúningsvinnu, hreinsun á tjaldsvæðum og annarsstaðar í bænum, akstri strætisvagna til og frá tjaldsvæðum o.fl. Jafnframt mun bærinn veita styrk til hátíðarinnar að upphæð kr. 1.500.000 með því skilyrði að styrknum verði varið til að auka framboð á skemmtun og afþreyingu fyrir börn og fjölskyldufólk og til aukinnar gæslu.

Ég fagna þessari ákvörðun. Það var Akureyrarbæ mjög til vansa að sjá ástandið á þessari hátíð á ungu fólki, sérstaklega á síðasta ári er það keyrði yfir öll mörk. Þetta er hið eina rétta eins og staða mála er orðin, sérstaklega í ljósi þess sem gerðist hér um síðustu helgi. Íbúar hér krefjast þess að málin séu stokkuð upp.

Er aftur komið í tísku að sauma?

Biðröð í saumavélar Einu sinni var engin kona myndarleg húsmóðir á sínu heimili nema að sauma og sýna myndarbrag í saumamennsku. Með árunum hafa tímarnir breyst. Nú virðist vera aftur komið í tísku að sauma, tja allavega ef marka má biðröðina sem myndaðist í Kringlunni í dag er breska fyrirtækið Jerry Fried hóf að selja Necchi saumavélar.

Fannst þessi frétt mjög athyglisverð, enda taldi ég enga sérstaka bylgju vera í þá átt að konur saumuðu. Ég man að ömmur mínar báðar voru miklar saumakonur, áttu saumavélar og sinntu þeim verkum með miklum dugnaðarhætti. Móðir mín verður seint þekkt fyrir saumaskap eða að eyða tíma sínum í saumavélabras. Veit svosem ekki hvernig nútímakonur í dag gera hlutina, en mér finnst margar þeirra ekki líklegar til að standa í biðröð eftir slíkum vélum.

Það er svosem ánægjulegt ef einhver saumamennskubylgja kemur aftur. Það segir þessi eftirspurn eftir saumavélum okkur klárlega.

mbl.is Saumavélar streyma út í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband