Eignarétturinn ræður för á Vatnsstíg

Í sjálfu sér þarf ekki að vera undrandi á því að lögreglan láti til skarar skríða gegn þeim sem dveljast í óleyfi í húsi í eigu annars aðila sem vill ekki bera ábyrgð á því. Þetta gat varla endað öðruvísi. Þeir sem fara fram þannig að eignarétturinn sé aukaatriði eru satt best að segja ekki mjög trúverðugir, enda er hann varinn vel í stjórnarskrá. Almennt lítum við öll á að eign okkar verði ekki af okkur tekin með rangindum.

Hinsvegar er leitt hversu mikil harka er í þessum aðgerðum. Þetta hefði getað endað með friðsamlegri hætti en varla er við því að búast að lögreglan hafi langlundargeð til að bíða þegar ljóst er hver á húseignina sem um ræðir. Varla var hægt að skilja málið öðruvísi en frestur hafi verið veittur og öllum ljóst hvað gerðist ella.

mbl.is Sextán handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð frammistaða hjá Illuga - ömurleg staða

Mér fannst Illugi Gunnarsson standa sig vel í umræðuþætti Sjónvarpsins í kvöld. Hann var eini frambjóðandinn sem kom með heilsteyptar lausnir í umræðuna. Flestir hinir í panelnum voru arfaslakir og sérstaklega fannst mér Þráinn Bertelsson vera eins og álfur út úr hól, afsakið orðalagið. Ég hef alltaf verið mjög ánægður með Illuga. Hann talar mannamál, er ekki með skítkast og árásir í aðrar áttir, er málefnalegur og segir eitthvað af viti.

Augljóst er að efnahagshrunið og styrkjamálið er Sjálfstæðisflokknum erfitt núna. Verst af öllu er að flokksforystan hefur ekki enn klárað tímasprengjuna sem felst í styrkjaskandalnum. Erfitt er fyrir heiðarlegt fólk í framboði að taka slaginn við þessar aðstæður í nafni Sjálfstæðisflokksins og þurfa að verjast umræðunni í kringum þá sem ætla að láta flokkinn taka skellinn fyrir nokkra menn sem sjá ekki sóma sinn í að víkja með hagsmuni flokksins að leiðarljósi.

Víða um land er vandað fólk í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn, heiðarlegt fólk, sem á betra skilið en flækjast í þessa ömurlegu umræðu og þurfa að bera blak af þeim sem eiga það varla skilið.

mbl.is Allt of háir styrkir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún sótti styrki til fyrirtækja

Mér fannst holur hljómur í iðrun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, þegar talið barst að styrkveitingum til Samfylkingarinnar. Hún sótti jú sjálf styrki til fyrirtækja og hafði milligöngu um að vinna í þeim málum, eitthvað sem Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði ekki. Þó vinnubrögðin í Sjálfstæðisflokknum séu ámælisverð, enda hef ég gagnrýnt þau æ ofan í æ, gekk Ingibjörg Sólrún mun lengra en Geir gerði nokkru sinni. Mér finnst hálfskrítið að hlusta á það núna að þetta hafi verið óheppilegt.

Ég get ekki skilið hvernig siðferðið hefur breyst á þessum tíma. Það sem er rangt núna og siðlaust hlýtur að hafa verið siðlaust og ómerkilegt að öllu leyti á þessum tíma sem um ræðir, á árinu 2006. Mér finnst siðferði ekki eiga að vera tískustraumur. Annað hvort gera stjórnmálamenn hlutina vel og fylgja sannfæringu sinni og hafa siðferðið í lagi eða þeir eru handónýtir og nauðaómerkilegir. Iðrun núna breytir afskaplega litlu þegar siðferðið er annars vegar. Annað hvort standa stjórnmálamenn í lappirnar eða falla flatir niður.

Siðferði á ekki að vera aukaatriði í stjórnmálum.

mbl.is Ingibjörg: Styrkir til flokksins óeðlilegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgið hrynur af Sjálfstæðisflokknum

Augljóst er af skoðanakönnun Gallups í Reykjavík norður að fylgið er að hrynja af Sjálfstæðisflokknum eftir atburði síðustu dagana. Fólk sættir sig ekki við þau vinnubrögð sem tengjast nokkrum mönnum innan Sjálfstæðisflokksins og hugsar sér til hreyfings, hvort sem það eru almennir kjósendur úti í bæ eða fólk sem hefur verið flokksbundið í Sjálfstæðisflokknum lengi.

Þetta eru alvarleg skilaboð til forystu Sjálfstæðisflokksins, sem mikilvægt er að hugsa vel um áður en næstu skref verða ákveðin. 

mbl.is Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór á að opna prófkjörsbókhaldið

Þá er ljóst það sem öllum mátti ljóst vera strax í gær. Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild til að taka út störf Guðlaugs Þórs hjá Orkuveitunni. Þessi tilraun til að þvo af sér skítinn virkaði ekki, enda fyrirfram dæmd til að ganga ekki upp að því leyti að klára málið. Eina leiðin fyrir Guðlaug Þór til að bjarga sjálfum sér er að leggja sjálfur spilin á borðið. Hann á að opna prófkjörsbókhaldið frá árinu 2006 og sýna hverjir voru helstu bakhjarlar hans á þeim tíma í persónulegri pólitískri baráttu. Á meðan svo er ekki mun vafinn naga bæði hann og flokkinn inn að beini.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef ákaflega litla þolinmæði fyrir því að horfa á svona skítabix halda áfram að versna og versna þegar ellefu dagar eru til þingkosninga. Þetta er átakanlegt mál fyrst og fremst fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Mér finnst alveg óþarfi að vera að hugsa um einstaka persónur umfram flokkshag. Að þeir sem komnir eru í svona fúafen skuli leyfa sér að draga flokkinn með sér í því falli eru ekki merkilegir í mínum augum.

Þetta mál þarf að klára fljótt og vel. Geti Guðlaugur Þór ekki opnað bókhaldið og sýnt á sín spil strax á hann að sjá sóma sinn í að víkja, flokksins vegna.

mbl.is Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór dregur flokkinn með sér í svaðið

Augljóst er að atburðarás helgarinnar hefur í engu klárað styrkjamálið í Sjálfstæðisflokknum, eins og ég spáði í gær. Þetta bara versnar og versnar fyrst ekki var tekið afdráttarlaust á málinu strax. Vandséð er hvernig flokksbundnir sjálfstæðismenn geti sætt sig við að Guðlaugur Þór Þórðarson leiða lista flokksins í Reykjavík suður eftir allt sem á undan er gengið, ef heill og hagur flokksins á að vera í fyrirrúmi.

Mér þykir tengslin við REI-málið orðin ansi augljós og eina leiðin til að slá á efasemdir um tengsl Vilhjálms og Guðlaugs er í raun að opna prófkjörsbókhaldið, ef þeir vilja hreinsa sig alveg. Þessi augljósa spilling og efasemdir um mútur munu ekki verða hreinsaðar af Sjálfstæðisflokknum svo glatt. Sukk og svínarí nokkurra manna og efasemdir um verklag þeirra hefur rýrt traust á flokknum umtalsvert.

Guðlaugur Þór fer með mál sitt til Ríkisendurskoðunar. Stóri vandi hans og Sjálfstæðisflokksins er þó sá að alþingiskosningar verða eftir tólf daga. Það er ekki tími til annars en taka stórar ákvarðanir og klára málið fumlaust, eitthvað sem átti að gera um helgina en mistókst því ekki var gengið hreint til verks.

mbl.is Óskar úttektar á störfum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiður og siðferði verður undir í siðleysinu

Ég er sammála Birni Bjarnasyni um að heiður Sjálfstæðisflokksins verður ekki metinn til fjár. Í gegnum áttatíu ára flokkssögu hafa kjósendur treyst forystumönnum hans fyrir því að leiða íslensk stjórnmál. Ofurstyrkirnir hafa reynt á siðferði þeirra sem treyst var fyrir heiðri flokksins á undanförnum árum en stóðu ekki undir því trausti, því miður, og skilja við flokkinn í mjög vondri stöðu.

Vissulega er þetta mál dapurlegt fyrir flokksheildina en það afhjúpar því miður spillt og rotin vinnubrögð sem eru engum til sóma, allra síst þeim sem fjöldi sjálfstæðismanna um allt land treysti af heilindum og einlægni. Margir styðja sjálfstæðisstefnuna af hugsjón og hafa lagt mikið á sig fyrir þennan flokk á þeim forsendum en ekki til að flækjast inn í sukk og svínarí nokkurra manna.

Pistill Björns er annars áhugaverð samantekt á atburðarás helgarinnar og setur hlutina í gott sjónarhorn. Sérstaklega fannst mér merkilegt að lesa sjónvarpsviðtölin við Guðlaug Þór, sjá áherslurnar og tjáninguna á vissum stöðum á prenti. Stundum er betra að lesa viðtöl en hlusta á þau.

En að öðru; ég hló aðeins þegar ég opnaði páskaeggið mitt í dag. Málshátturinn var: Margur verður af aurum api. :)

mbl.is Heiður Sjálfstæðisflokksins ekki metinn til fjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atburðarásin í styrkjamálinu skýrist

Mér finnst mjög mikilvægt að það sé orðið opinbert að hvorki Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir né Kjartan Gunnarsson hafi vitað af styrkjum frá FL Group og Landsbankanum. Mér finnst það mjög alvarlegt mál að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri hans hafi vélað um þessi mál án þess að hafa aðra í forystunni með í ráðum og reynt að hylma yfir slóðina, eins og skilja má af fréttaflutningi síðustu daga. Atburðarásin í málinu skýrist því óðum og nöfn þeirra sem höfðu frumkvæði að styrkjunum og voru milliliðir hafi komið fram.

Þetta mál tengist aðallega Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem leitaði eftir því að styrkjum yrði aflað og ennfremur voru formaður flokksins og framkvæmdastjóri greinilega vel meðvitaðir um hvað var að gerast, án þess að aðrir í forystusveitinni fengju að vita af því. Mér finnst þessi vinnubrögð vægast sagt ámælisverð. Þetta er siðleysi af verstu sort og mér finnst þeir ekki beint merkilegir sem höfðu aðild að málinu. Þetta er siðlaus verknaður og auðvitað er talað um að þetta hafi verið mútur eða óeðlilegar greiðslur. Tengslin inn í REI tryggja það.

Mér fannst kattaþvottur Geirs H. Haarde fyrir nokkrum dögum með hreinum ólíkindum. Þeir hljóta að vera eitthvað veruleikafirrtir sem töldu að slíkur kattaþvottur hafi getað tekið á málinu og klárað. Fréttaflutningur Morgunblaðsins var líka til sóma, enda fæ ég ekki betur séð en fréttaskrif Agnesar Bragadóttur hafi verið algjörlega rétt og fréttin vel unnin hjá henni, enda rétt.

Það var mjög mikilvægt að almennir flokksmenn væru upplýstir um þetta alvarlega siðleysi sem átti sér stað á vaktinni hjá Geir Haarde og þeim sem unnu í umboði hans. Ábyrgð Guðlaugs Þórs er öllum ljós og í raun má segja að það sé flokknum til vansa að hann hafi ekki vikið með heill og hag flokksins að leiðarljósi.

mbl.is Fráleitt að draga nafn Kjartans inn í atburðarásina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkjamálið eltir flokkinn í kosningabaráttuna

Enginn vafi leikur á því að styrkjamálið mun hundelta Sjálfstæðisflokkinn inn í kosningabaráttuna. Þar sem ekki var gengið hreint til verks og málið klárað algjörlega tekur forysta flokksins í Reykjavík og á landsvísu talsverða áhættu, ekki aðeins fyrir sig heldur og frambjóðendur í baráttusætum um allt land, til að þóknast nokkrum mönnum sem sumir telja ekki hægt að fórna þó þeir hafi staðnir að tvískinnungi og því að fara ekki rétt með mikilvæga þætti atburðarásarinnar og verið teymdir út á braut sannleikans í erfiðu máli á viðkvæmum tíma.

Vel má vera að einhverjir telji rétt að taka þessa áhættu vitandi að hún getur farið á versta veg, ekki aðeins fyrir þá sem komu ekki hreint fram heldur flokksheildina sem slíka. Þeir sem taka svona á málum hafa gleymt hinum margfrægu orðum fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins að enginn einn maður sé merkilegri en sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn. En það er kannski eftir öðru að það gerist aftur. Þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson klikkaði sem leiðtogi flokksins í borgarmálunum var löngum tíma varið í að reyna að bjarga honum án árangurs.

Ég er einn af þeim sem þykir mjög vænt um Sjálfstæðisflokkinn, hef verið þar lengi flokksbundinn og lagt honum margt til, bæði persónulega í innra starfinu með trúnaðarstörfum, að mörgu leyti óeigingjörnum, og ég hef kosið hann og talað máli hans árum saman í góðri trú. Vægt til orða er tekið að ég sé hundfúll með hvernig staðið var að málum. Ég er þó líka ósáttur við niðurstöðuna. Það er skítalykt af henni.

Ég er ekki sannfærður um að styðja Sjálfstæðisflokkinn að þessu sinni. Þeir sem geta ekki gengið hreint til verks eiga ekki að auglýsa sig undir því slagorði.

mbl.is Nöfn fyrirtækja ekki rædd í miðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór hvatti stjórnendur til að styrkja

Ljóst er nú að Guðlaugur Þór Þórðarson hvatti Þorstein M. Jónsson, varaformann stjórnar FL Group, og Steinþór Gunnarsson, framkvæmdastjóra verðbréfasviðs í Landsbankanum, til að leita eftir styrkjum frá fyrirtækjunum í desember 2006. Gott er að fá það á hreint hverjir voru milligöngumenn og hvernig saga þessara mála er að vissu leyti. Enn er þó spurningum ósvarað að mínu mati og efasemdirnar eru vægast sagt vondar fyrir flokksheildina. Kjaftasögurnar grassera enn.

Ég tel að þetta mál hafi skaðað Sjálfstæðisflokkinn gríðarlega. Fyrir öllu er að afhjúpa alla þætti þess og gera það algjörlega upp. Ég finn það þó á fjölda fólks að því finnst þetta vandræðaleg redding mun frekar en endanleg niðurstaða málsins. Mér finnst mikilvægt að menn sem tóku þessar ákvarðanir, tóku við styrkjunum og höfðu milligöngu um það axli ábyrgð. Á meðan svo er ekki vofir þetta leiðindamál yfir.

Hvað sjálfan mig varðar hef ég verið flokksbundinn sjálfstæðismaður frá árinu 1993, gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hann og stutt forystumenn hans í góðri trú. Mér finnst margir hafa brugðist trausti mínu og trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins hefur beðið hnekki vegna siðleysis þeirra sem voru við völd í flokknum. Ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að margir hafi brugðist í þeim efnum.

Ég finn vel að þeir sem hafa stutt flokkinn og talað máli hans eru illa sviknir yfir vinnubrögðunum. Eðlilegt er að þetta fólk hafi tjáð sig afdráttarlaust og sé nóg boðið. Nú verður að ráðast hvort þessi niðurstaða sé nægileg til að forðast alvarlegan álitshnekki. Ég efast um það, satt best að segja að nóg hafi verið gert.

mbl.is Söfnuðu fé fyrir flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleikinn í húfi - afhjúpa þarf málið

Guðlaugur Þór Þórðarson ætlar greinilega að verjast meðan stætt er í styrkjamálinu. Enn hefur hann hinsvegar ekki svarað með trúverðugum hætti um af hverju hann sagði ekki allan sannleikann strax á miðvikudag í stað þess að láta teyma sig út í það á fimmtudegi hvað væri satt og hvað ekki. Þessi vafi er stór þáttur í því að margir sjálfstæðismenn efast um heiðarleika Guðlaugs Þórs og hvað hann vissi og hvenær.

Mér finnst mjög mikilvægt að þessi saga verði öll afhjúpuð. Hann verður þá að gefa upp hverja hann hafði samband við og tóku þetta verkefni af sér. Þetta styrkjamál er því miður ekki eitt óútskýrt, enda er öllum ljóst að talað er um tengslin þar við REI-málið og átakapunkta þess. Þar brugðust forystumenn Sjálfstæðisflokksins og véluðu óeðlilega um lykilmál í óheillabandalagi með auðmönnum.

Um helgina verður að afhjúpa um alla þræði þessara mála og klára það með trúverðugum hætti. Kominn er tími til að nöfn verði afhjúpuð og allt lagt á borðið, ekki bara nokkrir hlutar atburðarásarinnar. Trúverðugleikinn er undir í þessu máli. Án hans á Sjálfstæðisflokkurinn ekki möguleika á að endurheimta traust almennra flokksmanna.

mbl.is Guðlaugur ítrekar fyrri yfirlýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngum hreint til verks!

Ég bíð enn eftir því að forysta Sjálfstæðisflokksins gangi hreint til verks og klári styrkjamálið með sóma, fyrir flokksmenn um allt land og þá sem hafa stutt þennan flokk í góðri trú á hugsjónir og stefnumál hans í gegnum árin. Engin ró mun skapast um þetta mál á meðal almennra flokksmanna fyrr en upplýst hefur verið hvernig staðið var að málum, hverjir sóttu þessa styrki til fyrirtækjanna og höfðu milligöngu um það.

Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki ná að fóta sig sem trúverðugt afl fyrr en það er að baki og ljóst hvernig þetta var gert. Eðlilegast væri að þeir sem höfðu beina milligöngu í þessum efnum stígi fram og taki ábyrgð. Annars mun tortryggnin og efinn skaða meira en orðið er. Almennileg vorhreingerning er það sem skiptir meginmáli nú.

Ég tel mikilvægast að allir sem bera ábyrgð axli hana, flokksins vegna. Allar hundakúnstir bakvið tjöldin til að forðast það uppgjör er dæmd til að mistakast hrapallega.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðleysi forystunnar á Geirstímanum afhjúpað

Sífellt betur kemur í ljós hversu siðlaus forysta Sjálfstæðisflokksins var í formannstíð Geirs H. Haarde, honum til ævarandi skammar. Fólkið sem komst til valda innan flokksins á þessum tíma hefur skemmt gríðarlega fyrir trúverðugleika flokksins og á að sjá sóma sinn í að víkja úr toppstöðum áður en almennir flokksmenn fara að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum í massavís.

Ég get ekki hugsað mér að styðja Sjálfstæðisflokkinn að þessu sinni nema það fólk sem hefur brugðist flokksmönnum og verið staðið að sukki og svínaríi sé sparkað út. Nóg er komið af þessu helvítis kjaftæði og þörf á vorhreingerningu.

Göngum hreint til verks!


mbl.is Þingflokkur fundar í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á föstudaginn langa

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi Í dag er föstudagurinn langi - einn helgasti dagur kristinna manna um allan heim. Það er við hæfi að nota daginn til að íhuga vel og njóta kyrrðar. Að mörgu leyti er föstudagurinn langi sá dagur ársins þar sem kyrrðin nýtur sín best - hægt er að hugsa vel málin og sjá hlutina í öðru ljósi en alla aðra daga. Það er notalegt að geta með þessum hætti séð hlutina í allt öðru samhengi en í erli annarra daga.

Ungum var mér kennt að meta skáldskap Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hann var fremsta ljóðskáld landsins á 20. öld - að mínu mati tókst fáum íslenskum skáldum betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld.

Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Hann var alþýðuskáld sem snerti við fólki. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.

Eitt fallegasta kvæði Davíðs er án nokkurs vafa Á föstudaginn langa, sem margir kalla Ég kveiki á kertum mínum. Um er að ræða táknrænt og fallegt ljóð sem telst með því besta sem hann orti á löngum skáldferli sínum. Þetta ljóð snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Það er við hæfi að líta á það á þessum helga degi.


Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.

Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor,
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.

Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.

Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.

Ógeðfelld árás

Mér finnst þeir menn alltaf lágkúrulegir og ógeðslegir sem berja konur og reyna með því að auka vald sitt eða hefna sín á þeim. Varla er hægt að sýna meira óeðli og hrottaskap. Þeir eiga sér einfaldlega engar málsbætur. Árásin í Vesturgötu er gott dæmi um þetta óeðli - sorglegt í alla staði.

Annars þarf ofbeldi ekki alltaf að vera líkamlegt. Andlegt ofbeldi er engu skárra og gott dæmi að konur sé bugaðar af andlegu ofbeldi maka frekar en líkamlegu. Vissulega er hægt að bæla fólk með því - slíkt ofbeldi er og verður jafnt því þegar að fólk er jafnvel barið sundur og saman.

mbl.is Gengu í skrokk á 19 ára stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór verður að víkja

Mér finnst yfirlýsing Guðlaugs Þórs Þórðarsonar fjarri því eyða efasemdum um hlutdeild hans í styrkjamálinu. Hann er að stórskaða flokkinn og ætti að sjá sóma sinn í að víkja. Heimildir bæði RÚV og Moggans eru afdráttarlausar um aðkomu hans að styrkjunum og mér finnst varla hægt að bjóða flokksmönnum upp á getgátur um þetta það sem eftir lifir kosningabaráttunnar. Ekki er hægt að klára þetta mál með sóma nema viðurkenna þátttöku í styrkjasiðleysinu og þeir víki sem þar komu nálægt.

Þetta er lágmarkskrafa hins almenna flokksmanns. Þeir sem ætla sér að sitja sem fastast og ætla að draga flokkinn með sér í því falli ættu að muna það sem Jóhann Hafstein, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði forðum daga, að enginn einn maður væri merkilegri en Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur.

Mér finnst að forysta Sjálfstæðisflokksins á síðustu þremur árum eigi að skammast sín og biðja almenna flokksmenn opinberlega afsökunar á siðleysi sínu. Þau brugðust sjálfstæðisfólki um allt land sem unnið hefur fyrir flokkinn og stutt það í góðri trú.

mbl.is Guðlaugur Þór: Ég óskaði ekki eftir styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð Guðlaugs Þórs - afsögn óhjákvæmileg

Ljóst er nú að Guðlaugur Þór Þórðarson ber meginábyrgð á því að sækja styrki til FL Group og Landsbankans, þó hann hafi ekkert við það vilja kannast í gær. Allir þræðir í þessu máli og fleirum liggja til hans. REI-málið og prófkjörið 2006 verður allt miklu skýrara þegar þessar tengingar hafa verið raktar beint til hans. Þetta er sorglegt mál og er gott dæmi um það þegar menn villast af leið og falla í pyttinn, bregðast trausti flokksfélaga sinna.

Ég segi fyrir mig að ég vil ekki sjá svona spillingarpésa í forystu Sjálfstæðisflokksins og ég vona að hann sjái sóma sinn í að víkja úr leiðtogasætinu í Reykjavík suður og helst af þingi strax. Á þessu máli þarf að taka, annað hvort af hálfu Guðlaugs, sem lagði ekki spilin á borðið strax heldur lét aðra taka ábyrgðina fyrir sig, eða almennra flokksmanna sem eiga ekki að sætta sig við vinnubrögðin.


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir tekur skellinn - persónulega hrunið

Ég verð að segja eins og er að álit mitt á Geir H. Haarde er ekki mikið eftir yfirlýsingu kvöldsins. Hafði mikla trú á Geir og kaus hann af góðri trú sem formann Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 2005 og taldi hann mikinn sómamann sem tæki aðeins grandvarar og réttar ákvarðanir. Ég hef oft borið blak af honum. Það álit er í besta falli stórlega skaddað eftir þetta, ella hrunið algjörlega. Mér finnst ekki hægt að verja hann framar eftir þetta.

Þessi vinnubrögð, styrkveitingin og allar hliðar þess, er skólabókardæmi um siðleysi og vilji Geir taka ábyrgð á því tekur hann á sig fallið sem því fylgir af minni hálfu. Svo er það nærtækasta skýringin að Geir sé að taka skellinn mikla fyrir aðra sem unnu í umboði hans og enn eru á sviðinu. Ill örlög eru það.

Ný forysta Sjálfstæðisflokksins klárar málið annars með sóma og er þeim til mikils vegsauka. Þar er tekið fumlaust af skarið og málið klárað, eins og ég vonaðist eftir. En menn verða að marka sér siðferði og taka af skarið í þeim efnum en ekki falla í sukkpyttinn.


mbl.is Geir segist bera ábyrgðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni verður að taka á FL-málinu

Ég finn mikla reiði meðal sjálfstæðismanna um allt land vegna 30 milljóna styrks FL Group til Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verður að taka á þessu máli strax í dag. Ekki má bíða með að klára málið, bæði með því að upplýsa það og auk þess að láta þann sem gekk á eftir þessum styrk axla ábyrgð. Algjörlega ótækt er að humma það fram af sér og verður að koma fram mat forystu Sjálfstæðisflokksins á því sem fyrst.

Sé það rétt, sem flest virðist benda til, að Andri Óttarsson hafi haft milligöngu um þennan styrk verður honum ekki sætt lengur sem framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins að mínu mati. Ef forystan getur ekki tekið á því og afhjúpað hver gekk bónleiðar til FL Group er hún í miklum vanda.

Kjartan Gunnarsson hefur nú þegar sagt það, sem allir máttu svosem vita, að hann bar enga ábyrgð á þessu máli, enda öll völd í Valhöll komin annað á þeim tímapunkti sem styrkurinn kom. Því beinast öll bönd að framkvæmdastjóranum Andra.

Heiðarlegast væri að menn viðurkenndu ábyrgð á þessari óheillavænlegu og siðlausu styrkveitingu.

mbl.is Miðstjórn Sjálfstæðisflokks sat á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver sótti styrkinn til FL og í hvaða tilgangi?

Sé það rétt, eins og fram kemur í vísisfrétt í hádeginu, að 30 milljón króna styrkurinn hafi verið sóttur til FL Group, þarf Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, að segja af sér og taka algjörlega til í yfirstjórn flokksins í Valhöll eigi flokkurinn að eiga séns á því að ná einhverjum trúverðugleika aftur. Gera þarf upp þetta mál fumlaust og af ábyrgð sem fyrst af nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins sem ekki er tengdur þessu máli og ætti að telja mikilvægt að klára það sem allra fyrst.

Ég vil fá svör frá yfirstjórn Valhallar um þessi mál sem fyrst og öll spil á borðið með verkferla í þessu styrkjamáli. Hver sótti styrkinn og í hvaða tilgangi. Ég sé reyndar REI-málið og allt það fjandans makk nokkurra manna við auðmenn í öðru ljósi eftir þetta og í raun má segja að það lýsist margar myrkar atburðarásir upp.

En algjörlega ólíðandi er að láta kjaftasögurnar grassera. Klára þarf málið fljótt og vel. Reyndar vekur athygli að Samfylkingin skellir í baklás og vill ekki gefa upp styrktaraðila á árinu 2006 og upphæðir sem vekur aðeins enn fleiri spurningar.

mbl.is Hafði ekki hugmynd um þetta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband