"Verndum unga fólkið"

Stefán Friðrik

Svona hljómaði slagorð Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, í prófkjörsbaráttu okkar sjálfstæðismanna. Hjalti Jón mun, ef að svipuð úrslit verða í næstu kosningum og þeim síðustu, verða bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í vor. Hann hafði er hann gekk í flokkinn undir lok síðasta árs aldrei starfað fyrir flokkinn eða mætt þar á fundi. Mér datt satt best að segja þetta slagorð Hjalta Jóns Sveinssonar í hug þegar að ég hugsa til prófkjörsins um seinustu helgi. Öllum ungliðunum sem í prófkjörsbaráttunni voru var hafnað í þessu kjöri. Ekkert okkar náði inn á topp tíu og við röðuðum okkur í neðstu sætin. Það er mikilvægt í kjölfar þessa prófkjörs að hlúð sé að félaginu okkar, Verði. Staðan er mjög döpur þykir mér. Mér sem formanni félagsins sárnaði vissulega að okkar verk voru ekki metin sem skyldi, hvorki af forystu flokksins hér á Akureyri né almennum flokksmönnum.

Margir þeirra studdu okkur ekki en svo virðist vera sem að við eigum bara að vera í bakgrunni og ekki krefjast metnaðar í pólitísku starfi nema þá mögulega innan SUS. Þetta eru vond skilaboð í ungliðapólitíkinni. Nokkur okkar hafa verið í pólitík af alvöru. Bæði ég og Guðmundur Egill Erlendsson höfum verið formenn Varðar. Verkum okkar er algjörlega hafnað og það með svo afgerandi hætti að það blasir við öllum sem þekkja okkur og þekkja flokkinn hér á staðnum. Útkoma okkar ungliðanna hlýtur að verða umhugsunarefni. Fyrir mig var þetta enginn heimsendir. Ég á alveg einstaklega góða fjölskyldu og góða vini sem hafa sýnt mér velvild og stuðning seinustu daga. Það er einstakt að eiga svona góða að. Það jafnast ekkert á við það. Fyrst og fremst þótti mér svo innilega vænt um það að fólkið mitt, sem sumt hefur aldrei stutt flokkinn, gekk í hann til að styðja mig. Ég get aldrei þakkað fyrir það með nægilega góðum hætti.

Verndum unga fólkið sem hefur metnað og áhuga á stjórnmálastörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri - það hefur jú áhuga á að vera með í forystunni en ekki bara að hella upp á kaffi eða sópa gólfin! Flokkurinn hér er veikari ef unga fólkið telur hag sínum betur borgið í öðru en stjórnmálum. Ég vona að kjörnefnd beri gæfu til þess að meta verk þess unga fólks sem hér starfar í stjórnmálum fyrir flokkinn - fólki sem hefur eytt öllum sínum frístundum fyrir flokkinn. Án ungs fólks getur Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri ekki höfðað til ungs fólks.

stebbifr@simnet.is


Kærar þakkir fyrir vináttuna

Stefán Friðrik

Síminn hefur varla stoppað hjá mér síðan á ellefta tímanum í gærkvöldi. Vinir mínir, allsstaðar af um landið og jafnvel utan úr heimi, hafa hringt í mig til að ræða stöðu mála. Ungliðar (vinir mínir) um allt land eru að leita einhverra skýringa á því af hverju sjálfstæðismenn á Akureyri hafna mér og mínum verkum - umfram allt hafna ungliðum í þessu prófkjöri. Hvað hafi gerst í prófkjörsslagnum hér undanfarnar vikur - hversvegna forystu flokksins hér í bæ hafi ekki borið gæfa til að styðja okkur. Spurningar eru mjög margar - en ég hef engin svör.

Yfir mig hefur rignt tölvupósti og SMS-skeytum. Ég á greinilega góða vini - vini sem þykja vænt um mig. Ég vildi bara skrifa og segja: takk fyrir allt! Ég veit núna hverjir eru vinir í raun! Sorglegt að segja að þá veit ég líka enn betur eftir þennan prófkjörsslag hverjir eru viðhlæjendur manns. Ég lærði margt á þessum prófkjörsslag - við skulum orða það þannig bara. Fyrst og fremst þekki ég orðið vinátta betur núna. Sannir vinir eru ómetanlegir! Þeir sem hafa haft samband munu alltaf verða hátt skrifaðir í mínum huga.

Stebbi


stebbifr@simnet.is


Ungliðum hafnað í prófkjöri á Akureyri

Stefán Friðrik

Úrslit eru nú ljós í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa haft samband við mig í kvöld í kjölfar þeirra úrslita - það met ég mjög mikils. Vinátta sannra vina er einstök og engin orð eru mér nógu góð held ég til að lýsa henni vel á þessari stundu. Eftir stendur að ungliðastarfinu sem ég hef leitt í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var hafnað í dag í þessu prófkjöri - niðurstaðan er pent orðuð þannig að ungliðum í Sjálfstæðisflokknum var hafnað hér á Akureyri í dag. Eiginlega er það dapurlegra en orð fá lýst. Vegna þess að ég og annar ungliði slógumst um sömu sæti föllum við báðir niður og hröpum listann á enda. Ég verð greinilega verr úti.

Ég tek þessum úrslitum eins og þau eru. Ég vil þakka þeim sem studdu mig til verka hér. Ég stefndi hátt því að ég vildi að ungt fólk kæmist hér til forystu. Okkur var hér hafnað og ekkert sem hægt er að gera í því nema taka því af karlmennsku. Ég hefði getað stefnt á neðri sætin af þeim sem kosið var um og náð með því betri árangri. En þetta er eins og það er og þessi áhætta varð mér dýrkeypt. Verst af öllu er að eldra fólkið í flokknum studdi ekki okkur ungliðana. Það sést eiginlega allra best á því að í 13 efstu sætunum er yngsti aðilinn 36 ára gömul. Þetta er sannkallað kjaftshögg fyrir okkur ungliðana - okkur er alveg hafnað af þeim eldri.

Hinsvegar mun ég íhuga stöðu mína vel í kjölfarið. Tek ég mér nú gott hlé frá skrifum og huga að sjálfum mér næstu dagana. Satt best að segja er margt skemmtilegra en pólitík.

Stefán Friðrik Stefánsson


stebbifr@simnet.is


Ungt fólk í forystu!

Stefán Friðrik Stefánsson

Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 fórum við sjálfstæðismenn fram undir kjörorðinu: Kraftur í stað kyrrstöðu. Það hefur sannast, svo ekki verður um villst, að kraftur hefur verið mikill hér og verið áþreifanlegur og sést í öllum tölum síðan, þegar farið er yfir stöðu mála. Kraftur kom í stað kyrrstöðu undir forystu okkar sjálfstæðismanna í samstarfi okkar fyrst við Akureyrarlista og síðar Framsóknarflokk, og hefur verið til staðar í valdatíð okkar í bænum.

Akureyri er í öndvegi sveitarfélaga, enda vel hér haldið á málum og staða bæjarins mjög sterk og kraftmikil þegar litið er til framtíðar. Við sem búum á Akureyri vitum vel og finnum á samfélaginu okkar hversu öflugt og kraftmikið það er. Segja má að lykilorð seinustu ára hér á Akureyri séu vöxtur og kraftur. Á yfirstandandi kjörtímabili var sameining Akureyrar og Hríseyjar samþykkt og hefur gengið vel að vinna með Hríseyingum - sameiningin gekk mjög vel.

Í dag fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Þar sækjum við sjálfstæðismenn fram í aðdraganda kosninga og veljum framboðslista okkar í kosningunum þann 27. maí - forystusveit flokksins á næsta kjörtímabili. Mikilvægt er að vel takist til og að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri kom þar sterkur út - flokkurinn verði öflugur og samhentur í komandi verkefnum. Í prófkjörinu gefa 20 einstaklingar kost á sér - ég er þeirra á meðal.

Ég hef verið flokksbundinn í rúman áratug, tekið þátt í ungliðastarfi flokksins mjög lengi, verið í stjórn SUS frá 2003 og formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér í bænum, frá árinu 2004. Ég hef mikinn áhuga á stjórnmálum, hef skrifað mikinn fjölda pistla um stjórnmál til fjölda ára á vef mínum, www.stebbifr.com, og kynnt skoðanir mínar á málefnum samtímans af þeim krafti sem einkennir netskrifin.

Hef ég mikinn áhuga á að taka þátt í kosningunum í vor - vinna hag flokksins sem mestan. Umfram allt vil ég leggja mitt af mörkum fyrir flokkinn í forystusveit framboðslistans okkar í kosningabaráttunni í vor. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefur leitt bæjarpólitíkina í átta ár og hefur sá tími einkennst af kraftmikilli uppbyggingu á mörgum sviðum. Farsæl forysta okkar hefur skipt Akureyri miklu máli og getum við verið stolt af verkum okkar. En alltaf eru næg verkefni framundan.

Að mínu mati eru framundan mjög spennandi tímar fyrir Akureyringa. Prófkjörsbaráttan seinustu vikur hefur verið mjög gefandi - ég hef kynnst nýju fólki og fundið kraftinn í þeim sem hafa unnið í flokknum hér til fjölda ára. Fyrst og fremst hef ég kynnst því að Akureyringar hafa brennandi áhuga á málefnum sveitarfélagsins. Ég hóf þessa baráttu mína seint á síðasta ári með jákvæðni og bjartsýni umfram allt sem veganesti.

Hef ég unnið þessa baráttu á mínum vegum með þeim hætti og hagað skrifum og baráttuandanum með þessi grunngildi að leiðarljósi. Ég er mjög þakklátur þeim sem hafa sýnt mér velvilja og stuðning í þessum prófkjörsslag. En nú er komið að úrslitastund.

Ég býð mig fram til að taka fullan þátt í kosningabaráttunni í vor. Ég vil leggja fram mína reynslu í stjórnmálum og félagsstörfum og vinna fyrir flokkinn minn í forystusveit sigurliðsins okkar í vor. Til þess þarf ég stuðning þinn!

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fer fram á morgun. Utankjörfundarkosningu er nú lokið og aðeins rúmlega 12 tímar þar til að kjörstaðir í Hamborg við Hafnarstræti 94 munu opna. Það styttist því óðum í úrslitastund í prófkjörinu - er því lýkur hefst næsta barátta. Hún er miklu mun mikilvægari en þessi. Kosningarnar í vor eru aðalmarkmiðið í mínum huga. Það verður gaman að taka þátt í þeirri baráttu við andstæðinga flokksins okkar. Hvernig svo sem þetta prófkjör fer mun ég vinna af krafti með flokknum í vor og taka þátt í því starfi sem mikilvægast er. Ég hef alltaf stutt Sjálfstæðisflokkinn - hann er mitt heimili í stjórnmálabaráttu. Því mun ekkert geta breytt.

Seinustu dagar hafa verið mjög annasamir. Ég hef upplifað það að vera þátttakandi í prófkjöri sé mjög tímafrekt. Þó er það mjög skemmtilegt verkefni. Það er í mörg horn að líta í slíkri vinnu - umfram allt er þetta gefandi vinna. Enda er gaman að tala við flokksfélagana og heyra í þeim hljóðið með stöðu mála og umfram allt heyra hvernig hjarta bæjarbúa slær í garð flokksins og stefnumálanna okkar. Símtölin sem ég hef átt við fólk hafa verið mörg en mjög ánægjuleg. Þegar að ég lauk við að hringja út síðdegis í dag komst ég að því að ég er einn hlekkur í stórri keðju. Þessi keðja er ótrúlega sterk og öflug. Það er mjög ánægjulegt að vera þátttakandi í þessum hóp - vera virkur þátttakandi í flokksstarfinu. Ég er stoltur af því.

Framundan er prófkjörsdagur hjá okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri. Þá ræðst hverjir leiða lista okkar í vor. Hvernig svo sem kosningin fer mun ég gera allt mitt til að tryggja að 27. maí verði sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins. Umfram allt vona ég að morgundagurinn, 11. febrúar, verði sigurdagur Sjálfstæðisflokksins - flokkurinn sigri í þessu prófkjöri. Það er mikilvægast af öllu að við komum út úr því með sterkan og samhentan lista öflugs og góðs fólks - fólks sem er vinnusamt og samhent í því að vinna af bjartsýni og krafti fyrir flokkinn og grunnstefnu hans, sjálfstæðisstefnuna.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Tveir dagar eru í prófkjör. Eins og fyrr hefur komið fram er mjög mikið að gera hjá mér. Mikil vinna þessu tengd og í mörg horn að líta. Satt best að segja verð ég feginn eftir helgina að geta hugleitt annað en prófkjörið. Reyndar markar laugardagurinn í mínum huga upphaf kosningabaráttu flokksins. Þá eru rétt innan við 100 dagar í kosningar og lokabaráttan - sú mikilvægasta - tekur við af fullum krafti. Hlakkar mér mjög til þeirrar baráttu. Ég hitti eldri mann á Glerártorgi í dag og hann sagðist vera illa svikinn ef ég væri ekki afkomandi Stefáns Jónassonar. Sagði ég honum að svo væri og hann varð svo glaður við að sjá mig og hafði margar sögur að segja af þeim tíma er hann ungur vann hjá langafa. Margar skemmtilegar sögur sem gaman var að heyra. Hann ætlaði að styðja mig og var ekkert nema góðu orðin í minn garð. Mat mikils að heyra í honum, svo og öllum þeim sem ég hef hringt í seinustu dagana.

Nú var ég rétt áðan að koma af Hótel KEA. Þar var eini sameiginlegi fundurinn með okkur frambjóðendum. Þrír þeirra gátu ekki setið fundinn. Fyrirkomulagið var þannig að 10 spurningar voru settar upp og áttum við að svara tveim þeirra. Drógum við bæði um röð okkar og hvaða spurningar við myndum taka. Varð ég sjöundi í röðinni af okkur 17. Gekk fundurinn mjög vel - fjölmenni var og mjög áhugavert spjall sem við áttum við fólk bæði fyrir og eftir fundinn. Fundurinn var vel skipulagður af Gísla Aðalsteinssyni formanni málfundafélagsins okkar, Sleipnis. Vonandi er þetta aðeins gott og spennandi upphaf að ekta málfundum hjá Sleipni - hlakkar mér til spennandi málfunda um áherslur. Umfram allt lifandi og spennandi funda, svipuðum þeim og var fyrir viku. Gísli er að standa sig vel í uppsetningu svona funda að mínu mati. Fundinum var svo stjórnað með bravúr af Jónu Jónsdóttur varaformanni Varðar.


Fengum við semsagt 10 spurningar en ég dró upp þær sem voru nr. 2 og 6. Satt best að segja hefði ég mun frekar viljað nr. 1 og 3. Svaraði ég spurningunum fyrir fundinn en notaðist við punkta á fundinum til að fara eftir. Set ég hérmeð inn spurningarnar 10 og svörin við þeim öllum.


1. Ef ekki verður af því að álver verði reist á Norðurlandi á næstu árum, hvað eigum við Akureyringar þá að gera í okkar atvinnumálum?

Svar: Það er mjög mikilvægt að menn tryggji samstöðu um álver á Norðurlandi. Það er lykilatriði eins og staða mála er. Nú bíðum við dóms Alcoa um staðarval. Mikilvægt er að menn fari eftir því vali og horfi eftir það fram á veginn og tryggð sé samstaða og kraftur í kringum það val og framtíðin sé byggð upp eftir því mati. Er það von mín að fólk sameinist um valið í byggðum Norðurlands - sú samstaða er mikilvæg eigi okkur að auðnast að tryggja stóriðju, sem almenn sátt virðist að mestu um. Beri okkur ekki gæfa til að ná samstöðu og tryggja þessu uppbyggingu verðum við að styrkja þær stoðir sem við höfum til staðar.

Að mínu mati verða fleiri atvinnutækifæri og fjölbreyttara atvinnulíf helstu áherslumál unga fólksins hér á Akureyri í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Enda býr hér vel menntað fólk og fólk kemur víðsvegar að af landinu til að nema í menntaskólunum og háskólanum. Það hefur valið sér hér búsetu og vill geta gengið að góðum störfum - búa við góð tækifæri. Það er að mínu mati ekki hlutverk hinna kjörnu fulltrúa almennings á sveitarstjórnarstiginu að þenja út starfsemi sveitarfélaganna eða að sjá til þess að þar sé fjölbreytt atvinnulíf með beinum hætti, en þeir verða að tryggja góð skilyrði á staðnum.

Þeir þurfa að hlúa að umgjörð sveitarfélagsins svo að það blómstri sem best og verði öflugt og gott - notaleg umgjörð fyrir gott atvinnulíf.


2. Er fíkniefnamisnotkun ungmenna verulegt vandamál á Akureyri? Ef svo er hvað vilt þú þá að bæjarstjórn geri í málinu?

Svar: Ég tel já að fíkniefnamisnotkun í bænum sé mikið vandamál. Við sáum vel í fyrra að staðan er slæm. Hinsvegar brugðust bæjarbúar við þeirri ógn með samhentum og öflugum hætti. Við lyftum upp rauða spjaldinu gegn dópdraugnum í aprílmánuði í fyrra og náðum athygli allra landsmanna - við sögðum skoðun okkar og það án orða og af miklum krafti. Við getum verið stolt af því, enda náðum við athygli annarra í þeim táknrænu mótmælum. Aukin fíkniefnaneysla ungs fólks er vissulega mikið áhyggjuefni sem verður að taka á af festu. Það vinnst ekki nema með samhentu átaki bæjaryfirvalda, stofnana, einstaklinga, yfirvalda og samtaka.

Aðkoma foreldra skiptir líka mjög miklu máli. Engin ein allsherjarlausn er til á málinu - ef hún væri til væri búið að leysa þennan vanda. En vandinn er til staðar en lausnin fellst í samhentum viðbrögðum fyrrnefndra aðila og því að samfélagið viðurkenni vandann og horfist í augu við hann. Það er lykilatriði að við náum tökum á þessum vanda.


3. Ef þú ættir að velja aðeins eitt atriði til að bæta grunnskóla bæjarins hvað mundirðu þá vilja gera?

Svar: Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur valfrelsi á skólastiginu. Að mínu skiptir gríðarlega miklu máli að fólk eigi val - val er án nokkurs vafa framtíðin í skólamálum í pólitík samtímans. Það er mjög mikilvægt að tryggja að fersk hugmyndafræði og tillögur séu ávallt til vinnslu og við sjálfstæðismenn verðum að tryggja að við séum rödd þess ferskleika - sækjum ávallt fram af krafti. Að mínu mati er góð fyrirmynd fyrir okkur hér staða mála í Garðabænum, en það var mjög áhugavert og spennandi að fylgjast með því hvernig að Ásdís Halla Bragadóttir markaði sér skref á pólitískum ferli sínum með valfrelsi og öflugum valkostum í skólamálum á bæjarstjóraferli sínum.

Ég vil feta í sömu átt - ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.

Við eigum að stefna í sömu átt og mótuð var í Garðabæ - hafa sama metnað og sama kraft að leiðarljósi hér. Valfrelsi í skólamálum er framtíðin!


4. Telur þú það eigi að nota þær heimildir sem að bæjarstjórn hefur til að gera skoðanakönnun meðal íbúa samhliða sveitarstjórnarkosningum? Ef svo er hvaða málefni ættu þá erindi í slíka skoðanakönnun og hvaða málefni ættu ekki erindi?

Svar: Já það tel ég. Það mætti til dæmis íhuga mörg málefni sem gætu verið sett í dóm íbúa sveitarfélagsins. Sérstaklega tel ég mikilvægt að hafa þar í huga skipulagsmál. Oft á tíðum er deilt harkalega um skipulagsmál og sitt sýnist hverjum. Enda eru skipulagsmál sá málaflokkur sem flestir takast á um oftast nær. Mjög oft er um að ræða mál sem skerst þvert á pólitískar línur almennt og samstaða ekki um aðgerðir í málum eftir einföldum flokkslínum.

Verði deilur miklar um mikið hitamál tel ég vænlegt að leggja málið í dóm fólksins: fá þeirra mat. Það er í sjálfu sér eðlilegt að leita til íbúa í þeim tilfellum og láta þá skera úr um slík hitamál með atkvæði sínu. Vilji meirihlutans ræður þá för.


5. Ef þú gætir valið eitthvað eitt til að gera skipulagsmál bæjarins betri en þau eru í dag hvað mundirðu þá helst vilja ná fram?

Svar: Ég tel mjög mikilvægt að þétta byggð á miðbæjarsvæðinu. Þar eru lykilsvæði sem gott er að byggja á og það á að gera að mínu mati. Það er það mál sem ég tel helst blasa við og skipta máli. Fagna ég niðurstöðum íbúaþingsins í september 2004 og tillögum yfirvalda um nýjan miðbæ sem nú bíða afgreiðslu. Ef marka má þær munu um 330 íbúðir verða reistar á miðbæjarsvæðinu Mér líst vel á þessar tillögur - verður áhugavert að sjá þær verða að veruleika. Skiptir að mínu mati höfuðmáli að vinna vel að því að endurskipuleggja hjarta bæjarins okkar, miðbæjarins. Það er forgangsmál!


6. Á Akureyrarbær að selja hlut sinn í Landsvirkjun? En hvað með Norðurorku?

Svar: Tel ég rétt að sveitarfélögin fari með formlegum hætti úr rekstri Landsvirkjunar og selji hlut sinn. Viðræður voru við okkur hér á Akureyri og í Reykjavík um þessi mál en þeim viðræðum var slitið nýlega vegna þess að R-listinn sálugi, sem geispaði golunni síðastliðið sumar en stjórnar enn eins og vofa, gat ekki náð samstöðu um málið. Tel ég mikilvægt að þetta mál verði klárað með ábyrgum og öflugum hætti á næsta kjörtímabili. Ætti það að verða auðveldara eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við völdum í Reykjavík og Vilhjálmur Þ. verður orðinn borgarstjóri. Ég tel ekki rétt að Akureyrarbær selji hlut sinn í Norðurorku.


7. Hvernig á fyrirkomulag sorpmála á Akureyri að vera í framtíðinni?

Svar: Mikilvægt er að sveitarfélögin í Eyjafirði komi sér sem fyrst saman um framtíðartilhögun í sorpmálum. Það er að mínu mati lykilatriði á næsta kjörtímabili. Samkomulag um þessi mál verður að koma til sem allra fyrst. Tel ég mikilvægast að leggja áherslu á samkomulag í þessum efnum og tel vænlegast að gera ráð fyrir byggingu förgunar- flokkunar- og mótttökustöðvar fyrir sorp allra Eyfirðinga. Ég tel að hugi beri því að sorpbrennslu.


8. Af hverju á Akureyrarbær að styrkja íþróttafélög? Þarf að breyta einhverju í samskiptum íþróttafélaga og bæjarins?

Svar: Það er mikilvægt að tryggja faglegt og umfram allt öflugt íþrótta- og tómstundastarf. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að bæjaryfirvöld tryggi góðan grundvöll fyrir íþróttastarfsemi. Íþróttir- og tómstundaiðkun er fólki nauðsynleg og það er mikilvægt að öflugt starf íþróttafélaganna sé tryggt. Það er mikilvægt að hlúa vel að íþróttastarfi og tryggja að það sé alltaf blómlegt.


9. Ef þú ættir að velja eitt atriði til að bæta hag aldraðra Akureyringa hvað myndir þú þá helst vilja gera?

Svar: Fyrst og fremst þarf ávallt að hlúa vel að öldruðum. Það er og verður alltaf lykilmarkmið. Þeir, sem hafa lokið sínu ævistarfi, eiga það svo sannarlega skilið að vel sé að þeim búið. Ávallt þarf að hafa það sem markmið að aldraðir séu virkjaðir til samfélagsþátttöku og tryggt að hlúð sé vel að þeim. Mikilvægur þáttur í nútímasamfélaginu er að tryggja að fólk geti sem allra lengst dvalið á eigin heimili.

Það á ávallt að vera forgangsmál okkar unga fólksins að tryggja að eldri borgarar geti lifað í sátt við aðstæður sínar - tryggja þarf ávallt hamingju allra kynslóða. Tryggir það sátt allra. Við sem erum ung verðum alltaf að hafa að leiðarljósi hag eldri borgara, forfeðra okkar. Tryggja hag þeirra sem sköpuðu hið góða samfélag sem við lifum í - samfélag tækifæra nútímans.


10. Á Akureyrarbær að leita eftir að taka við frekari verkefnum frá ríkisvaldinu? Ef svo er hver ættu þau verkefni þá að vera?

Svar: Huga mætti að því að sveitarfélögin tækju yfir rekstur framhaldsskólanna. Ennfremur mætti íhuga t.d. að sveitarfélagið ræki Akureyrarflugvöll. Endalausar pælingar vakna í mínum huga, en þær eru mun víðfeðmari en til næsta kjörtímabils.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Þrír dagar eru í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Hjá mér er allt á fullu nú seinustu dagana. Ég hef hringt mörg símtöl seinustu daga og unnið í því að allt mitt fólk sem ekki verður í bænum kjósi fyrir lok utankjörfundarfundarkosningar á morgun. Á lokasprettinum er í mörg horn að líta. Ég hef staðið sjálfur í hringingum, enda legg ég áherslu á að ég sjálfur standi í því að ræða við fólk. Það er mikil vinna auðvitað en mjög gefandi að mörgu leyti. Ég vil skiljanlega ræða persónulega við sem flesta - taka spjall um málefnin. Ætla að vona að ég nái að klára þetta verk fyrir lok baráttunnar. Ef það tekst ekki vil ég færa góðar kveðjur til allra flokksmanna með hvatningu um að kjósa á laugardag. Ég legg mikla áherslu á að kynna mig og verk mín fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Með það veganesti og svör við spurningum sem vakna kveð ég fólk.

Ég vil eiga notalegt og gott spjall við fólk og láta það íhuga hvernig það vill velja á listann eftir þá kynningu. Ég vil þakka kærlega þeim sem hafa hitt mig á förnum vegi og rætt við mig um slaginn fyrir góðar kveðjur og óskir. Hlýhugur allra er mér ómetanlegur! Stuðningur og góðvilji systkina minna og foreldra er mér ómetanlegur í þessum prófkjörsslag. Satt best að segja var það mér persónulega mjög mikilvægt að finna fyrir miklum stuðningi fjölskyldu minnar og finna baráttuandann meðal fólksins míns. Foreldrar mínir gengu í flokkinn í aðdraganda prófkjörsins - til að styðja mig. Ég vil þakka þeim kærlega fyrir öll hvatningarorðin og stuðninginn. Pabbi og mamma eru kjarnafólk sem alltaf hafa stutt mig í mínum verkefnum. Þau eru mér ómetanleg. Þau þekkja mig best og persónu mína.

Mér er þakklæti efst í huga til allra sem hefur sýnt mér ástúð og kærleika í þessari prófkjörsbaráttu og í því sem ég hef staðið í seinustu vikur, bæði þessu kjöri og öðru sem gerst hefur. Hvernig svo sem prófkjörið fer mun ég ávallt meta mikils það að hafa kynnst nýjum vinum í slagnum og lært að meta enn betur vini mína og fjölskyldu - sem vilja styðja mig í mínum verkefnum. Sannir vinir eru einstakir. Allir sem hafa sent mér kveðjur - fólk um allt land - hefur öðlast ómetanlegan sess í huga mér. Þið eruð öll mér ómetanleg!


Mitt í önnum lokaslagsins er alveg með ólíkindum að sjá auglýsingu eins frambjóðanda í prófkjörinu í glugga við hliðina á Hamborg, aðstöðu flokksins í miðbænum. Ég hef satt best að segja ekki fyrr hugleitt að tala illa um meðframbjóðendur mína eða kosningabaráttu þeirra. Að mestu leyti er um að ræða hið besta fólk sem er tilbúið til að vinna flokknum okkar gagn með því að leggja á sig að gefa kost á sér í nafni hans. En það er ekki hægt annað en að tala um auglýsingar frambjóðandans í þessu tilfelli. Baldur Dýrfjörð sækist eftir þriðja sætinu í þessu prófkjöri eins og ég. Það er eiginlega fyrir neðan allt að hann skuli auglýsa í næsta húsi við aðstöðu flokksins og vekur miklar spurningar.

Ef marka má það sem ég hef heyrt í dag hefur Anna Þóra Baldursdóttir formaður kjörnefndar, kvartað yfir þessari auglýsingu. Er það ekki óeðlilegt. Veit ég ekki hvað frambjóðandinn gerir við kvörtunum kjörnefndar en satt best að segja hlýtur það að fara svo að hann taki auglýsingarnar niður. Um fátt hefur verið meira talað á lokasprettinum, enda er þarna gengið mjög langt að mínu mati. Þessar auglýsingar á þessum stað eru að mínu mati fyrir neðan öll mörk í þessum slag.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Fjórir dagar eru nú í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Utankjörfundarkosning hefur staðið seinustu daga og lýkur á fimmtudag. Þeir sem vilja kjósa eiga að fara í Kaupang við Mýrarveg milli kl. 13:00 og 18:00 og í Valhöll við Háaleitisbraut á milli kl. 9:00 og 17:00. Ég vil á lokasprettinum þakka fyrir góðar og hlýjar kveðjur frá þeim fjölmörgu flokksmönnum sem ég hef rætt við seinustu daga. Ég met mikils góð orð öflugra stuðningsmanna - fólks sem ætlar að styðja mig í þessu prófkjöri og ennfremur met ég mikils stuðning ættingja minna - sá stuðningur er mér ómetanlegur. Allt þetta met ég mikils núna á lokasprettinum. Fyrst og fremst vona ég að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri verði sigurvegari prófkjörsins á laugardag - útkoman verði sterkur og góður framboðslisti sjálfstæðismanna í kosningunum í maí.


Í dag tilkynnti Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi, um framboð sitt í bæjarstjórnarkosningunum í maí. Stefnir hann að því að leiða áfram L-listann, Lista fólksins, í þeim kosningum. Oddur Helgi telst vissulega nokkur kraftaverkamaður í pólitík. Honum átti að bola burt fyrir kosningarnar 1998 úr bæjarfulltrúahópi Framsóknarflokksins, þar sem hann hafði tekið sæti sem aðalmaður árið 1997. Hann lét ekki bjóða sér varamannssæti á ný og fór í sérframboð og komst inn, þvert á margar spár. Fyrir síðustu kosningar bætti hann verulega við sig fylgi og fór inn við annan mann á lista, Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Oddur Helgi og Marsibil Fjóla hafa verið lítt áberandi á kjörtímabilinu og ekki mikið við að taka afstöðu til mikilvægra mála. Er oft erfitt að sjá hvar þau standa í málum og því verið minna áberandi, en önnur minnihlutaöfl - alltsvo Samfylkingin áður en hún hvarf í bæjarstjórn um jólin þegar að bæjarfulltrúi þeirra fór í annan flokk.

Oddur kynnti framboðið í dag á blaðamannafundi í fyrirtæki sínu, Blikkrás, og greinilega til í slaginn sem framundan er. Ef marka má yfirlýsingu Odds Helga og Lista fólksins í dag um framboð stefnir L-listinn á að bæta við sig manni í bæjarstjórn. Þau eru því að leggja mörkin við að ná inn þriðja bæjarfulltrúanum. Þess sáust merki í grein í Vikudegi í síðasta mánuði að Oddur Helgi væri kominn í gírinn er hann réðst að bæjarstjóranum með áberandi hætti. En já Oddur virðist vera kominn af stað á fullu. Ætlar L-listafólk að kynna framboðslista sinn fyrir komandi kosningar þann 18. mars - rúmum tveim mánuðum fyrir kosningar. Ef marka má orð Odds Helga í dag kom aldrei til greina í hans huga að fara aftur yfir í Framsóknarflokkinn, þrátt fyrir væntanleg leiðtogaskipti þar. Verður fróðlegt að sjá hvort að Oddur heldur fylginu sínu.


Það er orðið langt síðan að ég hef farið í bíó. Ætla mér að líta þangað í kvöld og sjá Munich - nýjustu kvikmynd Steven Spielberg. Lýsir hún því ástandi sem varð á Ólympíuleikunum í München árið 1972 sem leiddi til harmleiks. Myndin hefur fengið góða dóma og ég hlakka til að sjá hana.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:


Hlúum vel að öldruðum

Vel hefur komið fram í könnunum á síðustu árum að Íslendingar telja sig vera með hamingjusömustu þjóðum heims. Hér nýtur fólk velsældar og lifir góðu og hamingjusömu lífi – lífi tækifæranna. Það metum við öll svo mikils. Eins og við vitum öll eru lífsgæði mikil hjá Íslendingum og framfarir á flestum sviðum mannlífsins. Ungt fólk horfir með gleði til framtíðarinnar – lífsins sem er framundan eftir nám. Tækifærin eru svo mörg sem blasa við ungu fólki í dag. Þegar að ungt fólk fetar framtíðarveginn eru áskoranir og velsæld sem blasa við. Þetta góða og öfluga samfélag var skapað af þeim sem eldri eru, elstu kynslóðunum.

Sú kynslóð sem nú er komin á efri ár lagði grunn að þeirri hagsæld og bjó í haginn fyrir þau tækifæri sem við yngra fólkið njótum svo vel á okkar tímum. Eldri kynslóðirnar byggðu upp t.d. atvinnulífið alveg og það nánast frá grunni, lagði drögin af skólakerfinu sem ungt fólk menntast í og heilbrigðiskerfið sem hefur náð betri árangri en í flestum löndum. Eldri kynslóðirnar sér með eigin augum afrakstur verka sinna – þá byltingu sem átt hefur sér stað í aðbúnaði og umgjörð samfélagsins. Staðreyndin er ennfremur sú að þessi kynslóð er umfram allt mun nægjusamari en þær sem yngri teljast. Þrátt fyrir það á ávallt að búa eins vel að henni og kostur er til.

Það hefur oft verið sagt að það sé langbesti og öflugasti mælikvarðinn á samfélag nútímans hversu vel þau búi að þeim sem elstir eru og yngstir. Það á alltaf að vera mat okkar að hlúa sem allra best að þessum hópum samfélagsins. Þeir sem elstir eru verða að njóta virðingar okkar það þarf að búa sem allra best að henni: því fólki sem hefur lagt grunninn að samfélaginu okkar. Oft vill það gerast að þegar að fólk verður veikt eða of gamalt að það verður utanveltu í samfélaginu. Það má aldrei gerast að elsta kynslóðin sé afskipt í ríkidæmi nútímans. Við unga fólkið verðum ávallt að horfa til gamla fólksins og setja okkur það markmið að eldri borgarar njóti afraksturs erfiðis síns.

Þeir, sem hafa lokið sínu ævistarfi, eiga það svo sannarlega skilið að vel sé að þeim búið. Ávallt þarf að hafa það sem markmið að aldraðir séu virkjaðir til samfélagsþátttöku og tryggt að hlúð sé vel að þeim. Mikilvægur þáttur í nútímasamfélaginu er að tryggja að fólk geti sem allra lengst dvalið á eigin heimili. Það á ávallt að vera forgangsmál okkar unga fólksins að tryggja að eldri borgarar geti lifað í sátt við aðstæður sínar – tryggja þarf ávallt hamingju allra kynslóða. Tryggir það sátt allra. Við sem erum ung verðum alltaf að hafa að leiðarljósi hag eldri borgara, forfeðra okkar - þeirra sem sköpuðu hið góða samfélag sem við lifum í.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Kristján Stefánsson (1920-2006)

Í dag kvöddum við í fjölskyldunni hinstu kveðju ömmubróður minn, Kristján Stefánsson, við fallega athöfn í Akureyrarkirkju. Sr. Svavar Alfreð Jónsson flutti góða minningarræðu um æviágrip og verk Kidda. Voru margir sem komu að jarðarförinni, enda hafði Kiddi eignast á lífsins leið gríðarlega stóran og fjölmennan vinahóp. Athöfnin var í senn látlaus en virðuleg. Tónlistin var vel valin, t.d. forspilið var Intermezzo úr óperunni Cavalleria Rusticana, var það vel í takt við tónlistaráhuga þeirra hjóna, en þau hafa alla tíð verið miklir óperuunnendur. Eftir athöfnina var erfidrykkja í safnaðarheimilinu og kom þar saman mikill fjöldi fólks.

Í dag birtist minningargrein mín um Kidda í Morgunblaðinu og kveð ég hann þar með fyrir hönd fjölskyldu minnar. Það var napurt upp í kirkjugarði þegar að Kiddi var borinn til hvílu og kuldinn minnti okkur á að það er febrúar. Það er þó alveg snjólaust. Áttum við rólega og góða kveðjustund í kirkjugarðinum. Áður en ég fór þaðan fór ég að þeim leiðum sem mér tengjast og átti þar stutta stund með sjálfum mér. Allt frá bernskuárum mínum hefur Kiddi verið mér mjög kær og verður seint hægt að þakka til fulls allt það góða sem hann hefur gert fyrir mig og fjölskyldu mína. Hann og Stína voru alla tíð mikil stoð fyrir okkur. Eru samverustundir fyrri ára mjög kærar í minningunni.

Á svona stundum sér maður best hvað fjölskylda getur verið samhent og sterk. Ekkert jafnast á við traust fjölskyldubönd. Við leiðarlok kveð ég Kidda með virðingu og þökk fyrir allt sem hann var mér á ævi minni. Minningin um einstakan og traustan mann mun lifa í huga mér alla ævi.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Það styttist í lok prófkjörsbaráttunnar hjá okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri. Eftir sex daga göngum við að kjörborðinu og kjósum forystufólk okkar hér í bænum næstu fjögur árin. 20 frambjóðendur eru í kjöri. Utankjörfundarkosning er þegar hafin. Hún mun standa allt til 9. febrúar. Hún fer fram hér á Akureyri að skrifstofu flokksins í Kaupangi við Mýrarveg: mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga á milli kl. 16:00 og 18:00. Ennfremur er hægt að greiða atkvæði á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll að Háaleitisbraut 1 í Reykjavík, virka daga kl. 9:00-17:00. Ég vil hvetja námsmenn í borginni sem eru héðan frá Akureyri um að fara í Valhöll og greiða atkvæði - taka þátt. Ef fólk verður ekki heima um næstu helgi hvet ég alla til að fara í Kaupang á morgun og kjósa. Það er mikilvægt að flokksmenn greiði atkvæði og velji forystusveit flokksins í kosningunum í maí.

Mörgum finnst prófkjörsbaráttan hér litlaus og skal ég taka undir það. Þó hafa sumir verið í þessu af alvöru: auglýst og skrifað greinar. Er ég einn þeirra. Er ég í þessari baráttu af fullkominni alvöru. Ég hef starfað í Sjálfstæðisflokknum í mörgum verkefnum í rúman áratug, verið flokksbundinn frá 1993 og hef starfað í Sjálfstæðisflokknum hér á Akureyri um nokkurn tíma í forystusveit félaganna. Hef ég áhuga á stjórnmálum og því er það auðvitað sjálfsagt að skella sér í slaginn og láta á þetta reyna. Það er um að gera að taka þátt af þeim krafti sem á að einkenna starfið. Við erum þónokkur í þessum prófkjörsslag sem höfum verið í flokksstarfinu lengi og ennfremur er þarna fólk sem gekk í flokkinn fyrir örfáum vikum og sækist eftir efstu sætum í fyrstu atrennu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig lista flokksmenn velja.


Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sigraði með yfirburðum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Nesinu í gær. Var sigur hans sérstaklega glæsilegur vegna þess að hann hlaut mótframboð í efsta sætið. Bjarni Torfi Álfþórsson bæjarfulltrúi, bauð sig fram í fyrsta sætið, en hafnaði í áttunda sætinu og er því á útleið úr bæjarstjórn Seltjarnarness. Var þetta í fyrsta skipti í bæjarmálunum á Seltjarnarnesi sem forystumaður flokksins hlaut mótframboð. Staða Jónmundar er mun sterkari nú en áður eftir þennan góða sigur. Jónmundur var kjörinn forystumaður flokksins í prófkjöri árið 2002 og tók við embætti bæjarstjóra af Sigurgeir Sigurðssyni sem verið hafði bæjarstjóri þar í rúma fjóra áratugi. Jónmundur hlaut 815 atkvæði í fyrsta sætið en rúmlega 1200 kusu í prófkjörinu. Hann hlaut því 2/3 greiddra atkvæða.

Í næstu sætum á eftir urðu Ásgerður Halldórsdóttir forseti bæjarstjórnar, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Þór Sigurgeirsson og jöfn í næstu sætum urðu Sólveig Pálsdóttir og Ólafur Egilsson sendiherra. Bjarni Torfi stefndi hátt en varð fyrir miklum skelli og hlaut ekki nema rúmlega 30% atkvæða í fyrsta sætið. Hlýtur það að vera honum mikið áfall, rétt eins og sigurinn er mikill persónulegur sigur bæjarstjórans. Nú er prófkjörið að baki og sterkur listi kemur út úr því fyrir flokksmenn á Nesinu. Ég vil óska þeim góðs í kosningabaráttu næstu mánaða. Vonandi mun Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi vinna öflugan og góðan kosningasigur í bæjarstjórnarkosningunum 27. maí nk. og halda þeim sterka meirihluta sem flokkurinn hefur haft í tæplega hálfa öld.


Ein af helstu fréttum vikunnar er ráðning Þorsteins Pálssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í ritstjórastól Fréttablaðsins. Það eru mikil þáttaskil að Þorsteinn Pálsson taki við forystusess á flaggskipi Baugsmiðlanna á prentmarkaði. Lengi hafði verið rætt um að hann yrði yfirmaður á Mogganum er Styrmir Gunnarsson myndi víkja af þeim stól. En það hljóta að teljast einhver mestu tíðindi fjölmiðlamarkaðarins hérlendis á seinustu árum að fjölmiðill í eigu Baugs hafi ráðið forvera Davíðs Oddssonar á formannsstóli til ritstjórastarfa. Þorsteinn var auðvitað fjölmiðlamaður til fjölda ára og er enn titlaður blaðamaður í símaskránni. Hann var ritstjóri Vísis í ein fjögur ár. Allavega var hann ritstjóri þegar að blaðið fjallaði af krafti um Geirfinnsmálið og lenti í miðpunkti þess er Ólafur Jóhannesson þáv. dómsmálaráðherra, úthúðaði blaðinu í frægri þingumræðunni.

Annars kemur þetta ekki á óvart. Ari Edwald, sem nú hefur tekið við yfirstjórn Baugsmiðlanna, var pólitískur aðstoðarmaður Þorsteins Pálssonar og vitanlega treystir hann honum manna best til verka. Það á greinilega að skerpa línurnar á Baugsmiðlunum. Merkilegast er þó að Styrmir og Þorsteinn stýri stærstu prentmiðlum landsins, tveim óskyldum blöðum. Það hefðu þótt mikil tíðindi fyrir nokkrum árum er Þorsteinn var einn af áhrifamönnum Sjálfstæðisflokksins. Það sést mjög vel á fréttum seinustu daga og bloggskrifum Samfylkingarþingmanna að Samfylkingarfólk er grautfúlt yfir Baugsmönnum þessa dagana. Það er skiljanlega fúlt þegar að liðið sem það hefur verið að "fíla í botn" hættir að veita þeim athygli. Skil mjög vel gremju þeirra, miðað við fyrri skrif og talsmáta sama fólks seinustu árin: allar strokurnar og klappið fyrir vissum mönnum. Það er ekki annað hægt en að hlæja að þessu öllu saman í raun og veru.

Það verður þó fyndnast af öllu að sjá Þorstein Pálsson og Sigurjón Magnús Egilsson setjast niður saman að búa til eitt stykki dagblað saman í boði Baugs og með Kára Jónasson með þarna mitt á milli. Hlakka til að sjá þetta blað sem kemur út úr þessu.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Í dag eru hundrað ár liðin frá því að Verkamannafélag Akureyrar var stofnað. Það félag var forveri margra helstu verkalýðsfélaganna sem nú starfa hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Stofnun Verkamannafélags Akureyrar á þessum degi fyrir hundrað árum markaði upphaf samfellds starfs verkalýðsfélaganna í bænum og hér við fjörðinn. Haldið var upp á afmælið í dag hér í bænum og kom forseti Íslands hingað norður og heiðraði félögin sem síðan hafa starfað með nærveru sinni. Í tilefni þessa var vígður minnisvarðinn Samstaða, eftir listamanninn Jóhann Ingimarsson (sem rak húsgagnaverslunina Örkin hans Nóa til fjölda ára við Ráðhústorgið) eða Nóa eins og flestir gamalgrónir Akureyringar, eins og ég og fleiri þekkja hann. Verkið er staðsett við tjörnina við Strandgötu á Akureyri og er gjöf Kaupfélags Eyfirðinga til hins vinnandi manns í bænum á þessu aldarafmæli.

Þótti mér leitt að komast ekki að athöfninni vegna annarra verkefna í morgun. Fór athöfnin vel fram, og undir berum himni í góðu veðri, ef marka má frásögn eins þeirra sem var viðstaddur og sagði mér frá athöfninni. Verkið er staðsett skammt frá æskuheimili ömmu minnar, Hönnu Stefánsdóttur, en langafi minn, Stefán Jónasson útgerðarmaður, byggði sér hús að Strandgötu 43 og rak útgerð þar skammt frá til fjölda ára. Ávörp við athöfnina fluttu Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, sem gaf myndverkið og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, sem afhjúpaði minnisvarðann. Að lokum las Þráinn Karlsson leikari, ljóðið Söngur verkamanna, eftir Kristján frá Djúpalæk. Ljóðið er frá árinu 1953 og var frumflutt á 10 ára afmæli Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar (yngri félagsins).

Eftir hádegið var opnuð sýning í Alþýðuhúsinu á Akureyri, Skipagötu 14, þar sem flestöll verkalýðsfélögin á Akureyri eru til húsa. Þar voru til sýnis myndir og munir sem tengjast þessari aldagömlu sögu og einnig var þar boðið upp á kaffi og með því. Ég leit þangað eftir hádegið og átti þar gott spjall við fjölda fólks. Föðurbróðir minn, Guðmundur Ómar Guðmundsson, hefur í tæpa þrjá áratugi verið formaður Félags byggingamanna og forvera þess, Trésmíðafélags Akureyrar, og var um skeið forseti Alþýðusambands Norðurlands - tók við því embætti af Þóru Hjaltadóttur fyrir eitthvað um 15 árum. Ég hef því lengi fylgst með verkum félaganna hér og verkum Mugga í forystu sinna félaga. Eftir að hafa litið á sýninguna fór ég í Iðnaðarsafnið á Krókeyrinni. Þar er glæsilegt safn, sem hefur verið ötullega byggt upp af Jóni Arnþórssyni og hvet ég Akureyringa jafnt sem gesti okkar til að líta þangað.

Ég vil óska verkalýðsfélögunum hér á Akureyri, sem og almennu verkafólki hér í bænum, innilega til hamingju með þetta merka afmæli. Hvet ég jafnframt alla til að líta á sýninguna í Skipagötunni og kynna sér merka sögu félaganna sem staðið hafa vörð um hag verkafólks í bænum á þessum hundrað árum.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik Stefánsson

Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:


Öflug menningarstarfsemi

Einn af kostum Akureyrar er blómlegt og öflugt menningarlíf. Það er alveg óhætt að fullyrða að menningarlífið hér norðan heiða sé engu líkt, í raun, sé miðað við íbúafjölda og framboð menningarviðburða. Akureyri hefur brag stórborgar hvað menningarlíf varðar. Hér er hægt að velja úr glæsilegum listviðburðum og njóta þeirrar sömu listaflóru og í raun og er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég ræði við sumt vinafólk mitt á suðurhluta landsins, sem sumt álítur mig vera staddan á hjara veraldar, bendi ég þeim á vef bæjarins og svo vefi listasafnsins og menningarvefi og þá verður þeim ljóst að hér er allt í boði sem lista- og menningarvinir þurfa á að halda.

Leikhúsið okkar er fyrsta flokks, listasafnið er stórfenglegt og fullt er af skemmtilegum viðburðum í Listagilinu okkar og sköpuð þar litrík og góð list. Við eigum öflugan Myndlistaskóla, Tónlistaskóla og svona má lengi telja. Menning og listir er fyrsta flokks hér. Marga þekki ég sem farið hafa norður í vetur og litið á leikritið Fullkomið brúðkaup í Leikhúsinu. Hefur sú sýning gengið vonum framar, verið sýnd margoft fyrir fullu húsi og hlotið góða gagnrýni hjá leiklistarspekingum dagblaðanna. Nú er svo komið að þessi ærslafulla og stórfenglega sýning stefnir í að vera metsýning í sögu Leikfélagsins. Aðeins uppsetningin á My Fair Lady fyrir tveim áratugum er enn vinsælli. Nú hafa rúmlega 10.000 manns litið á sýninguna.

Í fyrra var önnur öflug sýning þar í boði – Óliver, sem hlaut góða dóma og var sýnd fyrir fullu húsi margoft. Með markvissu og góðu vali á uppsetningum á síðasta leikári tókst að bæta rekstrarstöðu LA verulega. Var þá um að ræða besta leikár félagsins í heil 17 ár. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma var afgangur af rekstrinum. Hátt í 18.000 manns sáu sýningar LA á síðasta leikári og var enginn vafi á því að söngleikurinn Óliver var aðalaðdráttaraflið síðasta vetur - komust færri að en vildu að lokum á þá frábæru sýningu. Með ráðningu Magnúsar Geirs Þórðarsonar í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Er það mikið gleðiefni að mati okkar sem unnum leikhúsinu og leiklistinni.

Nú seinustu mánuði hafa svo að auki verið mjög spennandi sýningar á Listasafninu – metnaðarfull dagskrá eins og ávallt. Þessa dagana er þar sýningin Hraunblóm þar sem eru til sýnis verk eftir fjölda listamanna. Er það mikið gleðiefni að sjá hversu öflugt Listasafnið okkar er. Það er mikilvægt að allir gestir okkar líti á safnið og kynni sér það sem þar er, rétt eins og við reynum að fá sem flesta í leikhúsið. Annað mikið tromp er tónlistarlífið. Fyrir skömmu voru í Glerárkirkju tónleikar þar sem spilaðir voru Konsert í C dúr eftir Wolfgang Amadeus Mozart (250 ár eru nú um þessar mundir liðin frá fæðingu hans) og Sinfónía nr. 1 eftir Johannes Brahms. Í fyrra var mikill hápunktur menningarlífsins tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands ásamt söngvurunum Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Jóhanni Friðgeir Valdimarssyni.

Við hér fyrir norðan getum verið stolt af góðu orðspori Akureyrarbæjar sem menningarbæjar – miðstöðvar lista og menningar. Það er mikilvægt að við stöndum vörð um þetta orðspor og vinnum alltaf að því að treysta undirstöður þeirra lista sem við viljum að blómstri með þeim öfluga hætti og verið hefur á seinustu árum.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Pantaði mér í dag flugferð til Austurríkis. Þangað fer ég eftir nákvæmlega mánuð á ráðstefnu Demyc að hálfu SUS. Förum við nokkur í þá ferð - formaður og varaformaður SUS og forystufólkið í utanríkismálanefndinni. Hlakka til að fara þessa ferð. Ég hef aldrei til Austurríkis farið og líst því vel á að fara. Þetta verður góð og gagnleg ferð. Fyrst og fremst hlakkar mér aðallega til að skella mér eitthvað í burt og slappa af. Seinustu mánuðir hafa verið mjög þungir hjá mér - mikil keyrsla og nóg um að vera á mörgum póstum, bæði í einkalífinu og í stjórnmálunum. Næg verkefni og nægar áskoranir hafa blasað við mér. Það verður gaman að fara til Vínar. Munum við fara til Wolfgang Schüssel kanslara, í morgunverð og skoða kanslarabústaðinn í miðborg Vínar og ennfremur fara í þinghúsið.

Félagi minn, Páll Heimisson, sem stýrir nefndinni okkar, hefur staðið sig vel í að undirbúa þetta að okkar hálfu og hlakkar mér til að skella mér í þetta. Við munum skemmta okkur vel saman úti og verður eins og ávallt er farið er í slíkar ferðir gaman að hitta erlenda hægrimenn og ræða stöðu mála - alþjóðamálin með víðum hætti.


Í kvöld áttust leiðtogaefni Samfylkingarinnar: Dagur B. Eggertsson, Stefán Jón Hafstein og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, við í Kastljósinu. Prófkjör flokksins verður um þarnæstu helgi - sömu helgi og prófkjör okkar sjálfstæðismanna á Akureyri. Í skugga þessara umræðna birtist ný skoðanakönnun Gallups sem sýnir litla breytingu á mælingu flokkanna í borginni fyrir kosningarnar í vor. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 9 borgarfulltrúa ef kosið yrði nú, Samfylkingin 5 og Vinstri grænir 1. 55% aðspurðra sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Missti ég af þessum umræðum - enda lítið heima þessa dagana og mikið á ferðinni á fundum og í fleiru. Ég tel að þetta sé slagur á milli Stefáns Jóns og Dags. Er í raun sama um hver þeirra muni vinna - í raun bendir afar fátt til þess að í þessu prófkjöri sé verið að velja næsta borgarstjóra í Reykjavík. Það er mikið gleðiefni vissulega. Þessi könnun staðfestir það að Samfylkingin fær fleiri borgarfulltrúa en síðast en nær fjarri því meirihlutastöðu.

Fannst mikið gleðiefni að heyra af þessari skoðanakönnun. Átti jafnvel von á einhverju fylgistapi milli kannana vegna prófkjörsbaráttu Samfylkingarinnar. Það er ekki að gerast. Staða Sjálfstæðisflokksins er miklu sterkari á þessum tímapunkti nú en nokkru sinni á síðustu 15 árum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í upphafi kosningaárs ekki verið að mælast sterkari í borginni frá árinu 1990. Líst vel á þessa könnun og stöðuna sem þarna kemur fram.


Jafnframt birtist skoðanakönnun Gallups á fylgi flokkanna á landsvísu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 43% fylgi - bætir við sig 1% frá síðustu könnun. Samfylkingin mælist með 27% og Vinstri grænir með 18%, fylgi beggja flokka er óbreytt frá því síðast. Framsóknarflokkurinn tapar hinsvegar 1% og mælist með 10% fylgi en fylgi Frjálslynda flokksins er það sama og síðast eða 2%. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög sterkt um þessar mundir. Formaðurinn að sinna innra starfinu með miklum krafti með fundaferð um allt land - byrjaður að undirbúa næstu þingkosningar. Geir er allt öðruvísi stjórnandi greinilega en Davíð Oddsson hvað það varðar að hann er rólegri og hefur annað vinnulag. Það er ekkert óeðlilegt, enda eru engir tveir leiðtogar algjörlega eins. Geir er greinilega vinsæll, nýtur mikils trausts landsmanna - hefur sterka stöðu. Þessi könnun staðfestir allavega mjög sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins - sem er mikið fagnaðarefni.


Í kvöld var haldinn fundur hjá okkur sjálfstæðismönnum í Hamborg. Þar var rætt um hvernig fólk liti á Sjálfstæðisflokkinn. Framsögur fluttu Gísli Aðalsteinsson formaður málfundafélagsins Sleipnis, sem er málfundafélag okkar sjálfstæðismanna, og Hlynur Hallsson starfandi alþingismaður VG. Að þeim loknum var lifandi og góð umræða um stjórnmál. Helgi Vilberg ritstjóri Íslendings og fyrrum formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, stýrði fundi. Hafði mjög gaman af þessu og var gaman að hitta aðra frambjóðendur sem og aðra flokksfélaga. Við áttum gott spjall og góða kvöldstund yfir heitum kaffibolla í Hamborg á þessu fimmtudagskvöldi.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik Stefánsson

Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:


Mikilvægi valfrelsis í skólamálum

Ég hef alltaf verið mikill talsmaður frelsisins. Það er mikilvægt að tryggja fólki frelsi til að velja. Allan þann tíma sem ég hef verið virkur í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins hef ég stutt stefnumótun innan Sambands ungra sjálfstæðismanna um að tryggja að það frelsi sem mikilvægt er eigi málsvara í stefnu SUS. Í gegnum tíðina hefur SUS verið í forystusveit á því sviði. Ég hef sem stjórnarmaður í SUS í þrjú ár verið að vinna að því að tala máli frelsisins. Það hefur verið mjög gleðilegt að taka þátt í því í fremstu víglínu að móta stefnu SUS og leiða málaflokka við þá stefnumótun. Einn af þeim málaflokkum sem ég hef metið mest að vinna við á því sviði eru skólamálin. Það er alveg óhætt að segja að rödd okkar SUS-ara í skólamálum hafi verið öflug. Þar höfum við talað máli frelsisins – umfram allt.

Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur valfrelsi á skólastiginu. Að mínu skiptir gríðarlega miklu máli að fólk eigi val – val er án nokkurs vafa framtíðin í skólamálum í pólitík samtímans. Ég skrifaði fjölda greina á heimasíðu mína, www.stebbifr.com, árið 2004 þegar að málefni leikskólans Hólmasólar voru til umræðu, er Samfylkingin gagnrýndi ákvarðanir meirihlutans og fór yfir mínar skoðanir vel. Þar talaði ég máli þess að innleiða nýja stefnu í skólamálum: tryggja frelsi fólks til að velja í skólamálum. Það er mjög mikilvægt að tryggja að fersk hugmyndafræði og tillögur séu ávallt til vinnslu og við sjálfstæðismenn verðum að tryggja að við séum rödd þess ferskleika - sækjum ávallt fram af krafti.

Að mínu mati er góð fyrirmynd fyrir okkur hér staða mála í Garðabænum, en það var mjög áhugavert og spennandi að fylgjast með því hvernig að Ásdís Halla Bragadóttir markaði sér skref á pólitískum ferli sínum með valfrelsi og öflugum valkostum í skólamálum á bæjarstjóraferli sínum. Ásdís Halla mat orðið frelsi mikils – enda einn af fyrrum forystumönnum okkar í SUS. Við öll sem unnum með Ásdísi Höllu í forystusveit SUS og höfum verið þar síðan vitum öll að stefna okkar átti öflugan málsvara í henni á meðan að hún leiddi meirihluta okkar sjálfstæðismanna í Garðabæ – hún þorði í þessum málaflokki: umfram allt þorði að starfa eftir skoðunum og áherslum okkar í SUS. Það hef ég alla tíð metið mjög mikils.

Það hefur verið ánægjulegt að kynna sér stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og nú er nýr skóli opnar á þessu ári í Sjálandshverfi mun þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir – horft til framtíðar, farið eftir áherslum sem eru réttar: fylgt eftir áherslum þess frelsis sem mestu skiptir. Í Garðabæ tókst að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar.

Ég vil feta í sömu átt – ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.

Við eigum að stefna í sömu átt og mótuð var í Garðabæ undir pólitískri forystu Ásdísar Höllu - hafa sama metnað og sama kraft að leiðarljósi hér. Valfrelsi í skólamálum er framtíðin!

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Ég vil þakka kærlega fyrir þá pósta og kveðjur sem ég hef fengið send til mín. Ég er ekki alveg stemmdur í skrif í dag en reyni að koma mér í gírinn sem þarf til þess á morgun. Færi þess í stað hér í dag upp færslu föstudagsins en þá birti ég eftirfarandi grein mína, en hún birtist í Vikudegi fimmtudaginn 26. janúar sl.

Stefán


Öflugt og vaxandi sveitarfélag

Það er mjög þægilegt að búa á Akureyri – samfélagið er notalegt og bæjarbragurinn er góður. Þetta er góður staður – enda er það notalegt að þegar maður fer út í búð, í bíó eða jafnvel í leikhús að þekkja flest andlitin og þekkja þá sem maður hittir á förnum vegi. Hér er enda allt sem við metum mikils: góðar og greiðar samgöngur, fjölbreytt menningarstarfsemi, framúrskarandi skólar, faglegt íþrótta- og tómstundastarf og snyrtilegt samfélag.

Að mínu mati verða fleiri atvinnutækifæri og fjölbreyttara atvinnulíf helstu áherslumál unga fólksins hér á Akureyri í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Enda býr hér vel menntað fólk og fólk kemur víðsvegar að af landinu til að nema í menntaskólunum og háskólanum. Það hefur valið sér hér búsetu og vill geta gengið að góðum störfum – búa við góð tækifæri. Það er að mínu mati ekki hlutverk hinna kjörnu fulltrúa almennings á sveitarstjórnarstiginu að þenja út starfsemi sveitarfélaganna eða að sjá til þess að þar sé fjölbreytt atvinnulíf með beinum hætti, en þeir verða að tryggja góð skilyrði á staðnum. Þeir þurfa að hlúa að umgjörð sveitarfélagsins svo að það blómstri sem best og verði öflugt og gott – notaleg umgjörð fyrir gott atvinnulíf.

Akureyri þarf ávallt að vera í fremstu röð - vera besti kosturinn til að búa á – til að fá góð störf, lifa við bestu tækifærin sem bjóðast og njóta þess besta sem til er. Það er forgangsmál að auka atvinnutækifæri og gera Akureyri að staðnum sem vissulega er gott að heimsækja en enn betra er að búa á. Frá árinu 1998, seinustu tvö kjörtímabil, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í meirihluta í bæjarstjórn Akureyrarbæjar síðustu árin og verið í forystu bæjarmálanna. Kjörnir fulltrúar flokksins hafa á þessum tíma unnið með miklum krafti að því að bæta umgjörð sveitarfélagsins – tryggja að það sé blómlegt og kraftmikið.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 11. febrúar gefa 20 einstaklingar kost á sér - ég er þeirra á meðal. Ég hef verið flokksbundinn í rúman áratug, tekið þátt í ungliðastarfi flokksins mjög lengi, verið í stjórn SUS frá 2003 og formaður Varðar, félags ungra, frá árinu 2004. Ég hef mikinn áhuga á stjórnmálum, hef skrifað mikinn fjölda pistla um stjórnmál til fjölda ára á vef mínum, www.stebbifr.com, og kynnt skoðanir mínar á málefnum samtímans af þeim krafti sem einkennir netskrifin. Það er mjög skemmtilegt að skrifa á netinu – enda er það lifandi og góður vettvangur.

Ég sækist eftir þriðja sætinu á lista flokksins og vona að sú reynsla sem ég hef öðlast í stjórnmálum og í félagsstörfum nýtist bæjarfélaginu á næsta kjörtímabili. Framtíðarsýn mín er að Akureyringar verði ávallt stoltir af sveitarfélaginu sínu. “Hér vil ég búa – við öll lífsins gæði” er gott slagorð sem gildir um okkur hér. Það er mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri farsælu braut sem við sjálfstæðismenn á Akureyri höfum mótað og Akureyri verði í forystusveit sveitarfélaga á komandi árum – sem og á síðustu átta árum undir okkar forystu.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Minningarkrossinn í Kirkugarði Akureyrar

Mér er orða vant á þessum sunnudegi - ætla þó að reyna að segja eitthvað. Ömmubróðir minn, Kristján Stefánsson, lést í gær eftir erfið veikindi. Eftir standa í huga mér ógleymanlegar minningar, minning um mann sem alltaf var tilbúinn til að fórna sér fyrir mig, tilbúinn til að styrkja mig og styðja alla mína ævi. Kiddi frændi var í mínum huga einstakur maður - alla tíð fórnaði hann sér fyrir fjölskylduna sína og var að svo mörgu leyti eins og Hugrún systir hans sameiningartáknið þegar að eitthvað bjátaði á. Það var alveg einstakt að eiga Kidda og konu hans, Kristínu Jensdóttur, að. Það var einstakt að geta leitað til þeirra í Hríseyjargötu, þar sem þau byggðu sér glæsilegt heimili. Það var heimili hjartahlýju og kærleika - það er erfitt með nægilega góðum orðum að lýsa þeim.

Stína og Kiddi voru mér ómetanlegur styrkur á erfiðum tímum á ævi minni og hafa verið stór hluti tilveru minnar. Nú hafa þau bæði kvatt - með stuttu millibili, en Stína lést vorið 2004. Þá kvaddi ég hana með þessum orðum. Tæpt ár er síðan að Huja frænka kvaddi. Það hefur verið dapurlegt að horfa upp á hversu hratt Kidda hefur farið aftur seinustu mánuði en að mörgu leyti er hvíldin hið besta þegar að svo er komið málum. En minningin lifir.

Við biðjum góðan Guð að launa
gæðin öll og þína tryggð
ástkær minning þín mun ávallt lifa
aldrei gleymsku hjúpi skyggð.

Falinn sértu frelsaranum
frjáls í náðarörmum hans
hljótir þú um eilífð alla
ástargjafir kærleikans.
Stefán Fr. Stef. (2005)

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Merkileg tímamót urðu í gær hér á svæðinu er Siglfirðingar og Ólafsfirðingar samþykktu að sameina sveitarfélögin frá og með sveitarstjórnarkosningunum þann 27. maí nk. Í sameiningarkosningunum hér í haust, þann 8. október 2005, var kosið um sameiningu allra sveitarfélaga í Eyjafirði, utan Grímseyjar. Þá felldu öll sveitarfélögin sameiningu - nema Ólafsfjörður og Siglufjörður. Því var auðvitað rökrétt að feta áfram sameiningarleiðina með því að þessi tvö sveitarfélög sem ljáðu máls á sameiningu myndu kjósa um það hvort að þau vildu sameinast. Það hefur nú verið samþykkt með yfirgnæfandi hætti. Á Siglufirði sögðu 86% kjósenda já við sameiningu og 77% Ólafsfirðinga. Það er því alveg ljóst að afgerandi vilji fólks stefnir í þessa átt. Kjörsókn á Siglufirði var rúmlega 60% og var svo um 70% á Ólafsfirði. Með þessu verður til nýtt sveitarfélag þann 1. júní nk - íbúar þess eru rúmlega 2300 manns.

Okkur varð það ljóst í haust að tillaga um sameiningu með þeim hætti sem þá var stillt upp naut ekki fylgis. Fólk vildi ekki taka skrefið þá - af svo mörgum ástæðum. En ég fagna því að smærri skref í þessa átt eru nú stigin. Þau skref sem Ólafsfirðingar og Siglfirðingar hafa nú stigið marka þau tímamót að ferlið er ekki staðnað. Segja má að svipað skref hafi falist í sameiningu Akureyrar og Hríseyjar sumarið 2004. Ég hef alla tíð verið hrifinn af sameiningu sveitarfélaga og því ferli sem markast af meiri samvinnu milli svæða sem hafa sameiginleg verkefni á sveitarstjórnarstiginu og lík grunnsjónarmið að leiðarljósi. Ég vil samfagna fólkinu út með firði með þessa ákvörðun og það hversu afgerandi skilaboð fylgja úrslitunum. Framundan er nú uppbygging á svæðinu samhliða því að Héðinsfjarðargöng verða loks að veruleika. Það verður svo fróðlegt að fylgjast með sameiningarferlinu í firðinum næstu árin - einkum og sér í lagi eftir að göngin verða komin til sögunnar.


Það fór eins og margir spáðu seinustu daga: Baldvin H. Sigurðsson matreiðslumeistari, bar sigurorð af Valgerði Hjördísi Bjarnadóttur bæjarfulltrúa, í prófkjöri VG hér á Akureyri í gær. Fyrir nokkrum vikum var talið nánast formsatriði að Valgerður Hjördís myndi vinna afgerandi sigur. Eftir að hún vann sigur í málaferlum gegn félagsmálaráðherra þótti hún ósigrandi og ætti auðvelt verkefni fyrir höndum í þessu prófkjöri. Hún hefur á nokkrum vikum misst þetta frá sér - með hreint ótrúlegum hætti, einkum í augum okkar sem fylgjumst með pólitíkinni hér. Er Baldvin kom fram þótti mönnum þetta vera grín hjá honum og ekkert væri að marka hann - altént sem leiðtogakandidat. Nú hefur honum tekist að vinna góðan sigur á Valgerði í flokksprófkjörinu. Þetta eru því vissulega nokkur tíðindi. Baldvin hefur verið áberandi hér í bæ - þekktur sem kokkurinn í matvöruversluninni í Hrísalundi og er nú með flugkaffið út á flugvelli. Hann nýtur vinsælda og virðingar margra.

Niðurstöðurnar voru þær að Baldvin sigraði, Valgerður varð önnur, Dilla Skjóldal varð þriðja, Kristín Sigfúsdóttir (systir Steingríms J.) lenti í fjórða, Jón Erlendsson varð fimmti og Lilja Guðmundsdóttir sú sjötta. Eins og fram kom í gær verður svo að vera skv. reglum flokksins að jöfn kynjaskipting sé í efstu sætum: þrjár konur og þrír karlar. Eins og allir sjá af þessu eru þarna fjórar konur og tveir karlar. Það blasir því við að Jón Erlendsson færist upp í fjórða sætið og Kristín niður í það fimmta. Karlmaður verður svo í sjötta sætinu, væntanlega er það Wolfgang Frosti Sahr kennari. Lilja færist niður í það sjöunda vegna kynjakvótans. En eitt vakti mikla athygli mína í gærkvöldi er tilkynnt var um úrslit prófkjörsins. Þar komu ekki fram atkvæðatölur frambjóðenda - munur t.d. á leiðtogaefnunum - og svo stóð að eftir væri enn að ræða niður frambjóðendum í kynjaröð - ekki væri enn vitað hvort allir vilji það sæti sem þeim er boðið.

Það er undarlegt orðalag að tala um "boðið" í ljósi þess að hér er um prófkjör að ræða og fastakosningu í sex efstu sætin. Það er því alveg ljóst að vilji kjósenda liggur fyrir. Valgerður beið lægri hlut og nýr leiðtogi hefur verið kjörinn í VG sem fer fyrir flokknum í kosningunum í vor. Svo er það auðvitað stóra spurningin sem vaknar í ljósi þessa orðalags í yfirlýsingu kjörnefndar VG - ætlar Valgerður að taka annað sætið? Ég stórefast um að hún muni gera það - sá orðrómur hefur farið um bæinn að hún hefði lagt allt undir. VHB væri að sækjast eftir leiðtogasætinu - engu öðru. Væntanlega ræðst þetta fljótlega. Fari svo að Valgerður taki ekki sætið munu allar konurnar sem voru í prófkjörinu hljóta fasta kosningu. Ennfremur er ljóst að næsti karlmaður tekur sjötta sætið, enda geta ekki skv. prófkjörsreglum verið fleiri en þrjár konur í sex efstu sætum. Það verður fróðlegt að sjá stemmninguna í VG hér í bæ næstu dagana.

Orðalag yfirlýsingar kjörnefndar sannfærir mig um það að óróleiki er yfir innan VG. Allt helsta forystufólk flokksins studdi Valgerði til forystu og gerði það með afgerandi hætti. Nú er nýr leiðtogi kominn og óvissa uppi um hvernig Valgerður bregst við tapinu. En fyrir nokkru hefði þetta þótt óhugsandi sem nú hefur gerst. Það er alveg ljóst að það er reiðarslag fyrir Steingrím J. Sigfússon og hans fólk að Valgerður hafi tapað leiðtogakjörinu og það eftir hinn fræga dóm í desember. Það verður merkilegt að sjá hvað Valgerður Hjördís Bjarnadóttir gerir eftir þessi úrslit sem boða stórtíðindi í forystusveit VG í aðalvígi Steingríms J. í hans kjördæmi.


Björn Ingi Hrafnsson bar sigurorð í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík í gær. Hann mun því leiða framboðslista flokksins í kosningunum í vor - það verður í fyrsta sinn í sextán ár sem Framsókn býður fram á eigin vegum í sveitarstjórnarpólitíkinni í borginni. Næst á eftir Birni Inga kom Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi - sem setið hefur í borgarstjórn frá árinu 2002 og þriðji er Óskar Bergsson sem var varaborgarfulltrúi R-listans 1994-2002. Öll sóttust þau þrjú eftir leiðtogastöðunni. Björn Ingi vann nokkuð afgerandi sigur - enda studdur til leiks af forystu flokksins. Það voru gríðarlegar sveiflur í gegnum talninguna. Í fyrstu tölum á sjöunda tímanum í gærkvöldi var Björn Ingi einn leiðtogakandidata í efstu sex sætunum. Eftir því sem leið á kvöldið breyttist staðan og Anna og Óskar sóttu mjög í sig veðrið. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Björn Ingi komist inn í borgarstjórn í vor - varla mun Anna halda sínu sæti.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Í kvöld komst frænka mín, Guðrún Árný Karlsdóttir, áfram á úrslitakvöld Eurovision-keppninnar þann 18. febrúar. Söng hún lagið Andvaka eftir Trausta Bjarnason í keppninni. Guðrún Árný hefur alla tíð verið iðin söngkona, hún vann söngkeppni framhaldsskólanna fyrir sjö árum, árið 1999, fyrir Flensborg með því að syngja hið fræga Celine Dion-lag To love you more og verið áberandi í mörgum söngkeppnum alla tíð síðan. Til dæmis söng hún lagið Með þér í söngvakeppninni fyrir þrem árum, með Dísellu í febrúar 2003. Amma hennar, Árný Friðriksdóttir, er móðursystir mín og Guðrún Árný er eins og margt af okkar fólki mjög söngelsk og virk í tónlistinni. Þetta er glæsilegur árangur hjá frænku - ég óska henni innilega til hamingju!

Annars voru öll lögin í kvöld mjög góð að mínu mati - mun þéttari og betri pakki en var um seinustu helgi. Var sáttur við valið á þeim fjórum lögum sem halda áfram í úrslitakeppnina. Þetta er vönduð og góð dagskrá hjá RÚV í tengslum við Eurovision að þessu sinni. Eurovision-spurningakeppnin með Halla í Botnleðju og Heiðu í Unun er virkilega flott og áhugaverð. Spaugstofan er svo pottþétt í hléinu milli keppninnar og úrslitastundarinnar. Í gærkvöldi fóru þeir algjörlega á kostum í gríninu um keppnina og svo er alltaf gaman hversu vel Pálmi Gestsson nær forsætisráðherranum. Flottur pakki - annars finnst mér stærsti gallinn við keppnina vera kynnarnir sem mér finnst alltof háfleygir miðað við tilefnið. En þetta er mitt mat allavega - gott fólk en einum of alvarlegt.

En föstudags- og laugardagskvöldin eru orðin pottþétt fjölskyldukvöld við imbann - enda varla til það fólk sem í sannleika sagt vill missa af Eurovision og Idol. Þessir tveir stórviðburðir í sjónvarpi sameina ólíkar kynslóðir. Enda hver hefur ekki gaman af tónlist? Rúsínan í pylsuendann í gærkvöldi var einmitt tónlistarþáttur Hemma Gunn. Þessi meistari spjallþáttanna hefur farið á kostum síðasta árið með þátt sinn, Það var lagið. Frábær þáttur með pottþéttum stjórnanda - afslappað og ómissandi!

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Vinstri grænir hér á Akureyri hafa prófkjör sitt í dag. Í kvöld ætti að verða ljóst hvernig efstu sex sæti framboðslista þeirra verða skipuð og hver muni leiða flokkinn í kosningunum þann 27. maí nk. Í kosningunum vorið 2002, þegar að VG bauð hér fyrst fram í sveitarstjórnarkosningum, leiddi Valgerður Hjördís Bjarnadóttir þáv. jafnréttisstýra, lista flokksins og Jón Erlendsson var í öðru sæti. Fylgi VG minnkaði alla kosningabaráttuna 2002 eftir að listinn undir hennar forystu var kynntur. Óhætt er að segja að Valgerður hafi verið umdeild á kjörtímabilinu, en hún varð að hætta sem jafnréttisstýra sumarið 2003, vegna máls sem höfðað var gegn henni er hún sem formaður Leikfélags Akureyrar réði karl umfram konu sem leikhússtjóra. Valgerður stefndi ráðherra vegna starfslokanna og vann í desember 2005 sigur í Hæstarétti, sem leiddi til veikrar stöðu félagsmálaráðherrans, Árna Magnússonar.

Valgerður hefur verið áberandi í bæjarmálunum hér sem eini bæjarfulltrúi VG og verið þekkt fyrir að vera andvíg stóriðjuáformum af öllu tagi - ennfremur ekki feimin við að fara gegn straumnum í umræðunni. Hún sat í bæjarstjórn fyrir Kvennaframboðið 1982-1986 og var þá forseti bæjarstjórnar. Valgerður býður sig nú aftur fram til forystustarfa. Hún hlýtur mótframboð. Bæði Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir og Baldvin Sigurðsson matreiðslumeistari, sem lengi var yfirmaður kjötborðsins hjá Úrval í Hrísalundi en núna yfirmaður kaffiteríunnar í Flugstöðinni hér, bjóða sig fram í fyrsta sætið. Lengi vel töldu menn að um grínframboð væri að ræða hjá Baldvin og að hann ætti lítinn séns á forystusætinu. Menn hafa nú seinustu vikurnar séð vel að Baldvin er full alvara og hefur sótt fram af krafti innan VG - elítuarms kommanna sem þar hafa ráðið för. Allt í einu þykir mörgum sem staða Valgerðar sé í lausu lofti og ekki ljóst um lyktir prófkjörs flokksmanna.

Verður óneitanlega mjög fróðlegt hver úrslit verða í leiðtogakjöri prófkjörsins - hvort að Valgerður eða Baldvin muni leiða VG í kosningunum í vor. Fyrir liggur að það þeirra sem tapar leiðtogakjörinu taki ekki sæti á listanum. Valgerður leggur því allt undir í baráttunni við Baldvin. Eins og annarsstaðar hjá VG verður að vera jöfn kynjaskipting í sex efstu sætin. Það er því ljóst að þrír karlar og þrjár konur munu skipa sex efstu sætin óháð atkvæðafjöldanum. Er ekki óeðlilegt að svona vinnubrögð vekji furðu víða. Níu einstaklingar gefa kost á sér - fimm karlar og fjórar konur. Það er því þegar ljóst að tapi Valgerður munu konurnar hinar þrjár verða sjálfkrafa í forystusveitinni. En það verður merkilegt að sjá hvernig að þetta fari hjá græningjunum hér í bæ í dag.


Sigrún Stefánsdóttir hefur tekið til starfa sem dagskrárstjóri Rásar 2 og yfirmaður RÚVAK hér á Akureyri, hér á Akureyri. Er hún auðvitað flutt í bæinn og vil ég persónulega óska henni til hamingju með starfið og að vera komin hingað norður. Sigrún er reyndar ættuð héðan, en foreldrar hennar, Petrína Eldjárn (systir Kristjáns Eldjárns forseta) og Stefán Árnason, bjuggu til fjölda ára í Suðurbyggðinni. Petrína, móðir Sigrúnar, var auðvitað fædd og uppalin á Tjörn í Svarfaðardal. Nýlega birtist á dagur.net ítarlegt viðtal Svanfríðar Jónasdóttur við Sigrúnu - vil ég benda á það hérmeð, sem og annað úrvalsefni á þeim góða vef.


Úrslitakeppni Idol-stjörnuleitar hófst í Smáralind, þriðja árið í röð, í gærkvöldi. Var mjög áhugaverð og góð keppni. Flestir þátttakendur stóðu sig vel og þetta var ekta fjölskyldukvöld. Var boðinn í kvöldmat ásamt fleirum heima hjá Hönnu systur og fjölskyldu hennar í gærkvöldi og eftir það tók við skemmtilegt Idol-boð eins og Hönnu minni einni er lagið. Var virkilega gaman og við skemmtum okkur öll vel. Það er alveg ljóst að Idol-kvöldin næstu tvo mánuðina verða mjög áhugaverð - ekta fjölskyldukvöld með góðum vinum og ættingjum.


Ásgeir Sverrisson blaðamaður á Morgunblaðinu, var í gær ráðinn ritstjóri Blaðsins. Vil óska honum til hamingju með starfið og vænti góðs af verkum hans á Blaðinu. Hann hefur verið fréttastjóri erlendra frétta hjá Mogganum til fjölda ára og verið áberandi fyrir góð skrif sín um erlend stjórnmál. Hef lengi fylgst með Viðhorfsskrifum hans. Blaðið er vaxandi fjölmiðill og hef ég fylgst vel með því seinustu mánuði. Gott og vel skrifað blað - öflugt í alla staði. Ásgeir mun leiða blaðið í enn betri átt að mínu mati.


Í gær voru 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeus Mozarts - meistara hinna fögru tóna í klassískri tónlist. Þessa var minnst með veglegri tónlistardagskrá sem sýnt var frá í Ríkissjónvarpinu í gær - því miður hafði ég ekki tækifæri til að fylgjast með, en vona að þessari tónlistarveislu verði gerð góð skil með flottri samantekt á vegum RÚV á næstunni. Mozart var einstakt tónskáld - sem heillar fólk um allan heim með fögrum tónverkum sínum sama hætti nú og hann gerði í lifanda lífi.

stebbifr@simnet.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband