11.4.2007 | 12:56
Goðsögn í lifanda lífi - hús Cash brennur

Ég skrifaði einmitt um þá kvikmynd hér að kvöldi páskadags og fór yfir skoðanir mínar á myndinni og helstu hliðum hennar. Þetta er auðvitað mjög sterk mynd, bæði í frásögn og öllum umbúnaði. Túlkun Joaquin Phoenix á söngvaranum var óaðfinnanleg, ekki aðeins lék hann Cash heldur túlkaði lögin hans með bravúr. Reese Witherspoon fékk óskarinn fyrir túlkun ferilsins í hlutverki June og markaði sig sem alvöru leikkonu með öll tækifæri í bransanum.
Heimili Cash-hjónanna í Henderson í Tennessee var þeirra helgasti reitur í lífinu. Þar áttu þau heima allan sinn búskap, allt frá giftingunni árið 1968 þar til yfir lauk árið 2003. Nú berast fréttir af því að það sé brunnið. Það eru nokkur tíðindi. Þar vann Cash nær alla tónlist sína frá árinu 1968 og þar var unnið að hinum ógleymanlegu plötum með Cash undir lok ferilsins sem römmuðu allt ævistarf hans inn í glæsilega gylltan ramma. Myndbandið við hið frábæra lag, Hurt, var þar tekið upp. Þetta hús átti sér merka sögu, einkum var byggingarstíllinn eftirminnilegur. Nýlega hafði Barry Gibb, úr Bee Gees, keypt húsið.
Í tónlistarspilaranum hér er að finna fjögur lög með Johnny Cash; Ring of fire, Hurt, On the Evening Train og We´ll Meet Again. Fyrstnefnda lagið er eitt af vinsælustu lögum ferils hans en hin eru af hinum eftirminnilegu plötum undir lok ferilsins með síðustu hljóðritununum, árin 2002 og 2003. On the Evening Train er yndislegt lag, fallegur texti og túlkunin er næm. Hurt er sterkt lag, sem rammar inn ævi söngvarans við leiðarlok. Mögnuð túlkun. We´ll Meet Again er þekktast í túlkun Veru Lynn frá stríðsárunum og hljómaði t.d. í kvikmyndinni Dr. Strangelove.
Að lokum er þar einn frægasti dúett þeirra Johnny og June; Jackson, algjört klassalag. Þarna er frægasta útgáfa þess, úr tónleikunum frægu úr Folsom-fangelsinu.
![]() |
Hús Johnny Cash brann til grunna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2007 | 23:12
Jæja... þá vitum við það

Með þessari niðurstöðu mun Larry Birkhead eflaust fá fullt forræði yfir Dannielynn Smith. Með því öðlast hann full völd í víðfrægu erfðamáli milli Önnu Nicole og fjölskyldu olíuauðjöfursins J. Howard Marshall, sem Anna Nicole Smith giftist árið 1994, en málinu lauk aldrei meðan að Anna Nicole lifði. Stelpan er einkaerfingi hinnar frægu fyrirsætu og leikkonu. Jafnframt er ljóst að Birkhead ríkir yfir dánarbúi hinnar frægu stjörnu, enda er stelpan litla aðeins hálfs árs gömul og mun ekki hljóta völd yfir sínum málum fyrr en eftir rúm sautján ár. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hann nýtir völd sín í málinu.
Dramatík virðist því ætla að halda áfram á fullum krafti í kringum Önnu Nicole Smith þó að hún hafi nú sjálf hinsvegar yfirgefið hið jarðneska líf. Hún lifði og dó í kastljósi fjölmiðla. Ekki er við því að búast að þessi niðurstaða og dauði hennar bindi í raun enda á umfjöllunina. Ég hef stöku sinnum dottið inn í þáttinn Entertainment Tonight á Sirkus, rétt fyrir kvöldfréttir á Stöð 2. Það er alveg kostulegur þáttur. Það hvernig þetta mál hefur verið velt upp fram og til baka hefur vissuega verið með nokkrum ólíkindum alveg. Þetta virðist vera endalaus vella og umfjöllunarefni.
Að mínu mati er saga Önnu Nicole Smith hrein sorgarsaga - saga hennar er táknmynd þess að ríkidæmi og frægð þarf ekki að tákna gleði og hamingju. Það getur verið hrein hefnd að festast í þessu lífi. Hún er skólabókardæmi eflaust um það að fjölmiðlar geta fylgt fólki út yfir gröf og dauða. En já, ég vona að þessu máli sé nú hreinlega lokið. Þetta er orðið ágætt, er reyndar fyrir löngu orðið einum of. Það er vonandi að fjölmiðlar geti nú leyft þessari konu hreinlega að hvíla í friði.
![]() |
Birkhead er faðir Dannielynn Smith |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.4.2007 | 20:07
Litlaust stjörnuhjal
Díana, prinsessa af Wales, lifði í kastljósi fjölmiðlanna í mjög langan tíma. Kaldhæðni örlaganna voru líka þau að hún dó í myndavélablossa í París. Það var tragísk saga í meira lagi. Rými stjarnanna er oft ekki mikið. Líf þeirra hlýtur æði oft að vera litlaust og leiðinlegt. Einkalíf stjarnanna verður almannaeign merkilegt nokk. Það er ekki langt síðan að íslenskur tónlistarmaður varð heimsfrægur á einni nóttu. Glys frægðarinnar sligaði einkalífið hans eins og frægt varð. Frægðin varð dýrkeypt.
Ég veit ekki hvað mér kemur svosem við með hverjum Britney Spears er þá stundina og hverjir sofa hjá henni. En það virðist samt vera okkur mikilvægt. Veit ekki af hverju. Þessi glamúr og glysheimur er að verða ansi þreyttur finnst mér.
![]() |
Britney á föstu með rúmlega tveggja metra körfuboltamanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.4.2007 | 19:32
ESSO heyrir sögunni til - lækkar bensínið?

Eitt sinn voru olíufélögin mikil tákn í pólitík. ESSO var olíufyrirtæki framsóknarmanna og mjög sterkt sérstaklega í sveitabyggðunum og framsóknarbæjunum, t.d. hér á Akureyri og víðar um landið. Skeljungur var olíufyrirtæki sjálfstæðismanna eins og flestir vita og svo var ESSO tákn vinstrimannanna en Héðinn Valdimarsson var lengi ein helsta driffjöður Olíuverslunar Íslands, Olís.
Talað er um að fyrirtækið muni taka yfirheitið Naust, en það hefur þó ekki enn verið staðfest. Með nafnabreytingunni sparar Olíufélagið fimmtíu milljónir króna árlega, enda þurfti félagið að greiða fyrir afnot af nafninu. Það vonandi lækkar bensínverðið, en einhvernveginn hallast ég þó að því að svo verði nú ekki.
![]() |
Esso-merkið kostar fimmtíu milljónir á ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.4.2007 | 16:48
Sjálfstæðisflokkurinn sterkur í Reykjavík suður
Skv. kjördæmakönnun Gallups í Reykjavík suður mælist Sjálfstæðisflokkurinn nú með fimm kjördæmakjörna þingmenn þar. VG mælist stærri en Samfylkingin þar og hafa báðir flokkar tvo kjördæmakjörna menn, Samfylking og Framsóknarflokkur missa báðir kjördæmakjörna þingmenn, yfir til Sjálfstæðisflokks og VG. Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin ná skv. þessu því ekki kjördæmakjörnum manni inn.
Sjálfstæðisflokkur: 40,4% (38,3%)
VG: 23,6% (9,3%)
Samfylkingin 22,6% (33,3%)
Framsóknarflokkur: 4,9% (11,3%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,2% (6,6%)
Íslandshreyfingin: 4,1%
Þingmenn skv. könnun
Geir H. Haarde (Sjálfstæðisflokki)
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Kolbrún Halldórsdóttir (VG)
Álfheiður Ingadóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Samfylkingu)
Ágúst Ólafur Ágústsson
Fallin skv. könnun
Jónína Bjartmarz
Sæunn Stefánsdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Mörður Árnason
Þetta er merkileg niðurstaða. Framsóknarflokkurinn tapar miklu fylgi og Jónína Bjartmarz og Sæunn Stefánsdóttir eru órafjarri þingsæti. Frjálslyndir falla niður og eru jafnir Íslandshreyfingunni sem virðist ekki beint vera að fá það fljúgandi start sem talað var um. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel með fimm kjördæmakjörna og gætu eygt möguleika á sjötta manni í þessari stöðu, Dögg Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanni. Samfylkingin tapar nokkru fylgi og missir einn kjördæmakjörinn mann í stöðunni og Mörður Árnason er kolfallinn af þingi skv. þessu. VG bætir miklu við sig.
Þetta er allavega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna.
![]() |
VG og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi í Reykjavík suður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2007 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
10.4.2007 | 15:22
Verður lokaspretturinn drjúgur fyrir Framsókn?
Framsóknarflokkurinn kynnti í dag stefnumál sín. Þar er talað hreint út um lykilmál kosningabaráttunnar og í boði mörg fögur fyrirheit, eflaust verður nóg reyndar af þeim hjá öllum flokkum. Greinilegt er að Framsókn fer fram undir merkjum slagorðsins: Árangur áfram - ekkert stopp, sem hefur verið áberandi undanfarnar vikur. Athyglisvert er að renna yfir loforðalistann. Sumt kemur á óvart, sumt alls ekki. Það er eins og gengur eflaust.
Það eru 32 dagar til alþingiskosninga. Í nýjustu skoðanakönnun Gallups mælist Framsóknarflokkurinn með 8% fylgi, tíu prósentustigum undir kjörfylginu sem er örlitlu minna fylgistap en Samfylkingin mælist með þar. Það fylgi myndi færa Framsókn 5-6 þingmönnum í besta falli. Það yrði sögulegt afhroð fyrir þennan forna flokk valda og áhrifa alla sögu sína, allt frá stofnunarárinu 1916. Í slíkri stöðu mælast tveir ráðherrar utan þings og fólk í baráttusætum sæti eftir með sárt ennið. Ofan á allt markar sú staða þann veruleika að formaður Framsóknarflokksins er utanþings. Hvað gerist verði sá veruleiki ofan á; formaðurinn landlaus og flokkurinn í sögulegu fylgisfalli? Endurhæfing tæki eflaust við.
Það er eldgömul saga að Framsóknarflokkurinn mælist mun lægri í skoðanakönnunum en það sem svo kemur að leikslokum upp úr kjörkössunum á kjördegi. Í þingkosningunum 2003 háði Framsóknarflokkurinn mikla varnarbaráttu um allt land. Það voru síðustu þingkosningar Halldórs Ásgrímssonar á löngum stjórnmálaferli. Lengst af kosningabaráttunni mældist hann ekki inni í Reykjavík norður, þar sem hann fór þá fram eftir áratuga framboðssögu í Austurlandskjördæmi hinu forna. Halldór náði kjöri við annan mann, Árna Magnússon, sem varð félagsmálaráðherra eftir kosningarnar og stefndi framan af í að verða krónprins Framsóknarflokksins.
Þær kosningar voru reyndar ótrúlega sigursælar fyrir Framsóknarflokkinn. Hann vann mjög merkan sigur þá á skoðanakönnunum. Hér í Norðausturkjördæmi höfðu flestir stjórnmálaskýrendur átt von á spennandi slag Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Með ævintýralegum lokaspretti á síðustu tíu dögum baráttunnar tók Framsókn kjördæmið með trompi og vann er á hólminn kom glæsilegan kosningasigur með rúmlega 30% og hlaut fjóra kjördæmakjörna. Öllum að óvörum komst Birkir Jón Jónsson inn á þing undir lok talningar og felldi út bloggvinkonu mína, Láru Stefánsdóttur, sem komst með annan fótinn inn á þing eina örskotsstund en missti svo af þingsætinu.
Það er því alveg ljóst að fólk hér og eflaust víðar um land vanmetur Framsóknarflokkinn ekki svo glatt. Hitt er svo aftur annað mál að Framsókn liggur örlitlu neðar nú en var í könnunum Gallups mánuði fyrir kosningar, en er að mörgu leyti ekkert mikið betur á sig kominn þó. Þá var lokasprettur Framsóknar mjög drjúgur. Stór ástæða hins ævintýralega sigurs Framsóknarflokksins hér í Norðaustri fyrir fjórum árum var góður framboðslisti sem hafði tengingar um allt kjördæmið og ennfremur sterk aldursdreifing. Það er enginn vafi á því í mínum huga að sterk staða ungliða þá hafði mikið að segja. Þar var ungu fólki treyst fyrir áhrifum og fólk kaus það inn þá.
Einn stóri þáttur þess hversu vel gekk vorið 2003 fyrir Framsóknarflokkinn var pólitísk reynsla Halldórs Ásgrímssonar. Hann hafði þriggja áratuga stjórnmálaferil að baki, var sjóaður í bransanum og sigldi fleyinu til hafnar. Þrátt fyrir að Íraksstríðið hafi byrjað á lykilpunkti kosningabaráttunnar hafði það engin áhrif þá. Halldór stóð sig vel sérstaklega síðustu fimm sólarhringana og var mikilvægur hlekkur í varnarsigrinum. Halldór var markaðssettur sem fyrr sem kletturinn í hafinu, leiðtoginn á miðjunni. Sú markaðssetning gekk. Halldór var í oddastöðu að kosningum loknum. Samfylkingin bauð honum forsæti ríkisstjórnar og hann spilaði stöðuna vel eftir það.
Halldór náði samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum um að verða forsætisráðherra 16 mánuðum eftir kosningar og hann varð eftirmaður Davíðs Oddssonar í september 2004. Halldór sá aldrei til sólar í forsætisráðuneytinu, því sem átti að verða hápunktur stjórnmálaferils hans, lokapunktur glæsilegs ferils. Íraksmálið spilaði lykilþátt í því hversu örlögin urðu grá. Halldór ákvað að stíga upp eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006, sem urðu vondar fyrir flokkinn þrátt fyrir að vinna sigur á könnunum í Reykjavík. Endalok stjórnmálaferils Halldórs með melódramatískum blaðamannafundi á Þingvöllum vöktu mikla athygli. Það voru nöpur endalok á löngum ferli.
Nýr formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, er í aðalhlutverki í kosningabaráttu flokksins nú. Það mun í raun allt standa og falla með því hvort að hann verður trúverðugur leiðtogi. Hann hefur enga þungavigtarsögu í pólitík að baki. Hann er því mjög ólíkur forvera sínum, sem var sviðsvanur leikari í bransanum. En hann er maður úr kjarnanum og hefur eflt hann, en virðist eiga mikið verk óunnið enn utan kjarnans. Þar ráðast örlög flokksins í vor. Jón hefur þó sjóast mjög í fjölmiðlum. Allra augu verða á honum. Verður hann einhver klettur í hafinu, eða er hann eins og Kolbeinsey, kletturinn sem molnar niður í sæinn?
Stóra spurningin er þó; mun Framsókn enn og aftur vinna sigur á skoðanakönnunum? Þetta verður örlagaríkur mánuður fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins á hvorn veginn sem örlögin ráðast.
![]() |
Framsóknarmenn boða áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.4.2007 | 11:58
Prófessor biður Íslendinga afsökunar
Jæja, þá hefur bandaríski stjórnmálafræðiprófessorinn við Princeton-háskóla í New Jersey beðið íslensku þjóðina afsökunar á umdeildum ummælum sínum sem mikið voru í fréttum í gær. Ég held að þau hafi stuðað ansi marga, maður fann það bara á viðbrögðunum á bloggsíðum og í umræðunni. Einhverjir aðrir litu á þetta sem grín, græskulaust gaman og blaður í bláinn jafnvel.
Ég skrifaði um þetta mál hér í gær og sagði mína skoðun á lykiládeilunni sem hann var í raun að beina að, hvort Bandaríkin ættu að ráðast á Íran, og fjallaði aðeins um það í og með. En orðaval hans má vel vera að hafi verið húmor en þau féllu ekki í kramið hér á Íslandi tel ég. Það hvernig hlutnirnir eru orðaðir ræður oft úrslitum um það hvernig þau verða dæmd.
En viðbrögðin hafa greinilega ekki látið standa á sér til prófessorsins. Greinilegt er að þar hafa Íslendingar verið mjög áberandi við að láta skoðun sína í ljósi, og það með líflegum hætti.
![]() |
Biður þjóðina afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2007 | 23:14
Flokksleiðtogar mætast - lykilbaráttan hefst

Umræðurnar í kvöld voru fyrstu alvöru umræðurnar milli leiðtoga flokkanna fyrir þessar kosningar. Frá síðustu þingkosningum árið 2003 hafa forsætisráðherrarnir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hætt þátttöku í stjórnmálum, en báðir voru lykilmenn í íslenskum stjórnmálum og forystumenn flokka sinna í rúman áratug. Össur Skarphéðinsson var felldur af formannsstóli Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var talsmaður Samfylkingarinnar í kosningunum 2003, sett framfyrir Össur sem formann. Í síðustu kosningum bauð Nýtt afl fram á landsvísu en fékk aðeins 1% atkvæða með Guðmund G. Þórarinsson í brúnni. Sá flokkur er horfinn af sjónarsviðinu nú.
Samkvæmt öllum skoðanakönnunum síðustu mánaða er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur. Undanfarnar vikur hafa VG styrkst í sessi sem annar stærsti flokkur landsins og hefur haft vistaskipti í mælingum á við Samfylkinguna. Samkvæmt öllum skoðanakönnunum eru Samfylkingin og Framsóknarflokkur að mælast mun lægri en í kjörfylginu 2003. Báðir flokkar mælast t.d. í nýjustu könnun Gallups yfir 10% undir kjörfylginu þá. Þá hlutu þessir tveir flokkar þingmeirihluta, 32 þingsæti, en mælast með 18 samtals í fyrrnefndri könnun. Það stefnir því í miklar breytingar. Nýr flokkur, Íslandshreyfingin, er kominn til sögunnar og óvíst hvaðan hann sækir afl sitt, þó kannanir sýni að hann taki af VG.
Í þætti kvöldsins ræddu formenn flokkanna; Geir H. Haarde, Steingrímur J. Sigfússon, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Sigurðsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og Ómar Ragnarsson, lykilmál baráttunnar á þessum tímapunkti. Umræðan var mjög fjölbreytt og formennirnir tókust mismikið á í þessum efnum. Það er margt breytt í stjórnmálunum frá síðustu kosningum. Davíð Oddsson var mjög áberandi stjórnmálamaður og gnæfði mikið yfir umræðunni, jafnvel í sínum síðustu kosningum er mjög var að honum sótt. Fyrir fólk minnar kynslóðar og hina yngri er athyglisvert að fylgjast með kosningabaráttu án hans og ennfremur Halldórs Ásgrímssonar vissulega.
Geir H. Haarde var greinilega í hlutverki landshöfðingjans í þessum umræðum. Hann hefur setið á þingi í tvo áratugi og er sá frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í efstu sætum sem lengsta þingreynslu hefur að baki. Hann ætlar sér greinilega að vera trausti forystumaðurinn, maður reynslu og stöðugleika. Geir varð eftirmaður Davíðs Oddssonar með sterkri kosningu á landsfundi haustið 2005 og ekki urðu nein átök innan flokksins um kjör hans. Geir virðist njóta stuðnings almennings skv. könnunum og mun keyra á þeirri stöðu sinni að vera vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Hann er líka nokkuð ólíkur Davíð og kemur með nýjar hliðar í pólitíkina.
Steingrímur J. Sigfússon hefur styrkst mjög frá þingkosningunum 2003. Þá veiktist VG og missti eitt þingsæti frá kosningunum 1999, þeim fyrstu í sögu flokksins. Í könnunum undanfarinna vikna hefur VG mælst með allt upp í 17 þingsæti og stefnir í að hann verði að óbreyttu hástökkvari kosninganna. Steingrímur J. hefur mesta þingreynslu flokksleiðtoganna og hefur setið á þingi frá árinu 1983. Aðeins Jóhanna Sigurðardóttir mun eiga meiri þingreynslu að baki eftir kosningar. Hann er mjög sjóaður stjórnmálamaður og virkar öryggið uppmálað og hefur greinilega styrkst mjög frá síðustu kosningum. Hann kom fram af miklu öryggi altént í umræðum kvöldsins.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stendur illa samkvæmt könnunum. Óvinsældir hennar hafa aukist mjög frá síðustu kosningum, er hún var með vinsældir á pari við Davíð Oddsson. Auk þess virðist Samfylkingin vera föst í 20% fylgismörkum, um eða 10% undir kjörfylginu 2003. Slíkt yrði mikið áfall fyrir flokk sem hefur verið í forystu stjórnarandstöðunnar. Ingibjörg Sólrún felldi sitjandi formann árið 2005 með loforðum um að Samfylkingin yrði mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn undir hennar stjórn. Það hefur ekki enn tekist. Ingibjörg Sólrún átti misjafna spretti í þættinum, var þó betri í seinni hlutanum en þeim fyrri. Henni gekk mjög illa að svara fyrir vont gengi í könnunum.
Jón Sigurðsson varð formaður Framsóknarflokksins í ágúst 2006 og hafði orðið ráðherra, verandi utanþings, við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar. Hann hafði enga stjórnmálareynslu að baki fyrir það og varð flokksleiðtogi mörgum að óvörum og er enn að vinna sig upp. Eins og fram kom í skrifum mínum hér fyrr í kvöld verður eitt stærsta spurningamerki kosningabaráttunnar hvort að honum tekst að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn, en kjörtímabilið hefur verið ein sorgarsaga fyrir hann og hápunktur þess var vandræðaleg afögn Halldórs. Jón hefur styrkst að mörgu leyti undanfarnar vikur en á enn mjög langt í land, eins og sást af gloppóttri frammistöðu hans í þættinum.
Guðjón Arnar Kristjánsson leiðir flokk sem klofnaði með áberandi hætti í aðdraganda þessara kosninga er stofnandi hans og stuðningsmannahópur hans hélt í aðrar áttir. Innflytjendaumræðan hefur virkað helsta kosningamál þessa flokks undanfarnar vikur og virðist örvæntingarkosningamál flokks í miklum vanda. Eins og vel sást í þessum þætti getur enginn flokkur skrifað upp á tal þeirra og stefnuáherslur í innflytjendamálum. Það virðist því vera sem að hann sé innilokaður þrátt fyrir að enginn vilji gefa út dánarvottorðið í raun nú og heldur í vonina. Guðjón Arnar, sem setið hefur á þingi frá 1999, virkar sem maður á línunni í málinu en virðist vera orðinn gísl annarra afla.
Ómar Ragnarsson er þekktur í hugum landsmanna sem skemmtikraftur, fréttamaður og þúsundþjalasmiður. Hann varð stjórnmálamaður í haust mörgum að óvörum og er nú á 67. aldursári orðinn flokksleiðtogi í fremstu víglínu átakanna. Hann hefur enga stjórnmálareynslu að baki og virðist því hafa frírra spil en ella að tala hreint út og þarf ekki um leið að verja fyrri stefnu eða tal. Það blasir við öllum að umhverfismálin verða leiðarstef hinnar nýju Íslandshreyfingar og um leið ljóst að markmið og stefna úr þeirri áttinni er skýrt. Ómar nýtur þess að vera vanur fjölmiðlamaður sem á auðvelt með að svara fyrir sig. Það ræðst brátt hvort hann hafi sterkan grunn í pólitík.
Þessi þáttur var í heildina mjög áhugaverður og vandaður. Allir leiðtogarnir virðast mjög fókuseraðir í baráttunni og koma vel undirbúnir til leiks. Allir vilja þeir bæta við sig fylgi frá nýjustu könnunum og sumir þeirra munu verða fyrir vonbrigðum, ef marka má kannanir munu tveir þeirra verða fyrir miklu fylgistapi og spurt þá hvað verði um leiðtoga þeirra flokka. Það er barist því bæði fyrir pólitískri framtíð jafnt sem og atkvæðum. Stjórnendur þáttarins héldu mjög vel utan um debattinn.
En kosningabaráttan er nú hafin af fullum þunga. Það verður mikið um auglýsingar, framboðsfundi, frambjóðendur á ferð og flugi um samfélagið, skoðanakannanir og litríkar stjórnmálapælingar. Ég hyggst fjalla um kosningabaráttuna af krafti á lokaspretti hennar, rétt eins og í allan vetur. Það verður um margt að skrifa og pæla á þessum tíma.
Ég held að þetta verði mjög öflug og beitt kosningabarátta. Það stefnir í jafnar kosningar og spennandi úrslit, jafnvel mikla tvísýnu. Það verður áhugavert að fylgjast með þessum kosningum - enginn vafi á því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
9.4.2007 | 19:09
Duga 30 dagar fyrir Jón Sigurðsson?

Þegar að 33 dagar eru til alþingiskosninga velta margir fyrir sér stöðu Framsóknarflokksins. Þessi forni flokkur valda og áhrifa er í dimmum dal þessar vikurnar og stefnir í sögulegt afhroð. Það virðist að duga eða drepast fyrir Jón Sigurðsson í þeirri stöðu sem uppi er. Hann er ekki ofarlega í mælingum á stjórnmálamönnum, mælist fimmtur í röðinni á eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og hefur ekki enn mælst inni í Reykjavík norður, eftir að ákveðið var að hann myndi leiða framboðslista Framsóknarflokksins þar. Staðan er svo sannarlega ekki glæsileg þar er haldið er inn í lokasprett kosningabaráttunnar.
Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Rúmu hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins virðast blikna í samanburði við það sem nú blasir við.
Fyrir viku var Stöð 2 með ítarlegt viðtal við Jón, svokallað leiðtogaviðtal. Þar kom að mörgu leyti fram kostir og gallar Jóns sem stjórnmálamanns. Hann virkar fjölfróður og vandaður maður en honum virðist ekki gefið að geisla mikið út fyrir flokkinn sinn. Það er mín tilfinning að hann passi vel í stórum sal flytjandi fyrirlestra en ekki mjög sterkur í samskiptum maður á mann. Margir nefna svona stjórnmálamenn Nixon-esque. Það er að geta fúnkerað vel á fjöldafundum en ekki sterka í mannlegum samskiptum. Að mörgu leyti virðist honum hafa tekist að byggja sinn kjarna vel en ekki tekist að efla hann og stækka.
Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður fyrir Framsóknarflokkinn. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur í raun. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hann sé ekki eftirminnilegur kjósendum er spurt er út í vinsældir þeirra. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta jafnvel þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn langt í land.

Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn. Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí.
Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan. Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með og hann jafnvel nái ekki inn á þing í höfuðborginni. Verður hann sterkur leiðtogi út árið eða lengur eða biðleikur? Stór spurning.
Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn. En stóra spurningin fyrir Framsóknarflokkinn nú virðist vera: duga 30 dagar fyrir Jón Sigurðsson? Svarið fæst ekki að fullu fram fyrr en síðla kvölds 12. maí en mun afhjúpast að vissu marki þó stig af stigi dag hvern þangað til.
Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.4.2007 | 16:38
Ekki er nú öll vitleysan eins.....
Sjálfur hef ég verið algjörlega andsnúinn innrás í Íran. Það er alveg lágmark að bandamenn komi skikki á stöðu mála í Írak áður en þeir svo mikið sem íhugi að fara inn í önnur lönd. Það er alveg ljóst að staðan í Írak er mjög slæm og fjarri því að lykilmarkmið þess sem gera átti fyrir fjórum árum hafi tekist. Það er alveg fjarstæðukennt að horfa annað á meðan að staðan er með þessum hætti að mínu mati.
Það er víti til varnaðar og mjög afleitt mál telji t.d. Bandaríkjamenn rétt að fara inn í önnur lönd með mörg ókláruð verkefni í gangi og erfiða stöðu sem gnæfir enn í fréttum. Horfði á þáttinn Inside Iraq á Sky News nú eftir hádegið. Það var fræðandi þáttur og augljóst sjónarhorn í þá átt að staða mála í Írak er skelfileg og fer fjarri því batnandi.
![]() |
Nær að sprengja Ísland en Íran |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.4.2007 | 00:51
Ingibjörg Sólrún í vanda - hvað hefur klikkað?
Um fátt hefur verið meira rætt um páskahelgina en slæma útkomu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í könnun Gallups á stöðu stjórnmálaleiðtoganna. Þar mældist hún mjög illa meðal kvenna og varð fjórða í röð þeirra sem landsmenn treysta best. Ingibjörg Sólrún er sá flokksleiðtogi sem flestir voru neikvæðir gagnvart, eða meira en helmingur aðspurðra.
Ég skrifaði hér í gærkvöldi grein um þessa útkomu, sem er auðvitað rosalega vond fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, sem í aðdraganda þingkosninganna 2003 var vinsælasti stjórnmálamaður landsins, jafnan á pari við Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og stundum vinsælli. Hún er nú heillum horfin með arfaslaka stöðu, sem virðist umfram allt kristalla vont gengi Samfylkingarinnar. Það eru enda gömul sannindi að óvinsæll flokksleiðtogi eins og Ingibjörg Sólrún er nú orðin skv. skoðanakönnunum dregur niður flokk sinn er á heildina er litið. Það þarf enga snillinga til að sjá það.
Það er vægt til orða tekið að Samfylkingarmenn sem lesa vefinn hafi verið ósáttir við skrif mín og komið með allskonar undarleg skrif, misjafnlega kostuleg þó. Það er auðvitað alveg ljóst að það sjá allir stjórnmálaskýrendur hvernig landið liggur. Vond mæling Ingibjargar Sólrúnar kemur ofan á allar fyrri kannanir sem sýna vel vonda stöðu Samfylkingarinnar, sem berst í bökkum um allt land og virðist hafa misst um eða yfir 10% af kjörfylginu 2003, sem eru auðvitað mikil tíðindi miðað við að um er að ræða stærsta stjórnarandstöðuaflið. Ingibjörg Sólrún hefur enda aldrei verið ráðherra og ekki gegnt valdamiklu pólitísku embætti í yfir fjögur ár, en hún var borgarstjóri í Reykjavík 1994-2003.
Samfylkingin hefur aldrei setið í ríkisstjórn, svo að ekki er hægt að tala um að þetta fylgistap sé vegna þess að flokkurinn sé óvinsæll vegna einhverra verka sinna á þeim vettvangi. Það að Samfylkingin sé að mælast með svipað fylgistap eða jafnvel meira en Framsóknarflokkurinn, sem hefur verið í ríkisstjórn í tólf ár og leitt ýmis erfið mál, eru stórtíðindi. Það væri hægt að skilja kostuleg ummæli stuðningsmanna Samfylkingarinnar og Ingibjargar Sólrúnar og útúrsnúninga þeirra ef aðeins karlmenn væru að snúa við henni bakinu og kvennafylgið væri sterkt á móti, en það er ekki heldur. Það er enda mesta áfall Ingibjargar Sólrúnar.
Ég skil vel að þessi könnun sé áfall fyrir Samfylkinguna, það er það vissulega. Vonbrigði þeirra eru mikil og það er erfitt að horfast í augu við þessa stöðu. Því verður þó ekkert neitað að staðan er svört, það væri metið sem algjör afneitun ef einhver stjórnmálaskýrandi liti framhjá myndinni sem kannanir nú draga upp. Ingibjörgu Sólrúnu hefur alla tíð verið lýst sem helstu vonarstjörnu vinstrimanna og hún varð formaður Samfylkingarinnar út á stöðu sína sem farsæll leiðtogi í Reykjavík í tæpan áratug og myndin var dregin upp að hún gæti lyft Samfylkingunni upp til hæstu hæða, gert hann að einhverju stóru og miklu. Þær vonir hafa brugðist.
Það varð hér athyglisverð umræða um skrif mín um stöðu Ingibjargar Sólrúnar. Margir höfðu skoðun á því sem ég setti fram. Ég stend við þau skrif, enda tel ég þau vera að lýsa myndinni eins og hún er. Það er öllum ljóst að konurnar eru að fara yfir til vinstri grænna og það hafa orðið umskipti að því leyti að margir hafa ekki trú á stjórnmálaforystu Ingibjargar Sólrúnar. Það þýðir allavega ekki fyrir stuðningsmenn Samfylkingarinnar að lýsa könnun Gallups sem einhverju rugli og reyna að lita heiminn eftir hugsjónum Pollýönnu. Staðan er mjög einföld og þeir væru ekki veglegir stjórnmálaskýrendurnir sem myndu ekki meta stöðuna svona.
Það stefnir í spennandi kosningar. Þegar að rétt rúmir 30 dagar eru til kosninga er Ingibjörg Sólrún í miklum vanda. Það að hún hafi misst fótfestuna meðal kvenna eru dökk tíðindi fyrir hana, það eru líka dökk tíðindi fyrir flokkinn sem hún leiðir. Þessir 30 dagar ráða pólitískri framtíð hennar, það blasir við öllum. Hún á erfitt verkefni framundan, enda er erfitt að vera leiðtogi stjórnarandstöðuflokks sem fer fram gegn tólf ára gamalli ríkisstjórn og vera að mælast pikkfastir tíu prósentustigum undir kjörfylginu æ ofan í æ og með leiðtoga sem mælist ekki með tiltrú landsmanna. Það er mikill örvæntingartúr sem er framundan hjá flokki í slíkri stöðu.
Þannig er staða Samfylkingarinnar skv. könnunum. Það er fjarstæða að ætla að reyna að segja að allar kannanir séu rangar og að þetta sé bara fjarstæða. Það virkar ótrúverðugt þegar að stuðningsmenn flokks í vanda og með leiðtoga í vanda við stýrið reyna að segja að allt sé þar í lagi. En það eru enn 30 dagar eftir vissulega, en það er alltaf sálfræðilega erfiðara að halda inn í lokasprettinn undir en verandi yfir. Það er mjög einfalt mál. Það þarf ekki snjalla stjórnmálaskýrendur til að sjá það. Enda er oft erfitt að rísa úr langri botnstöðu þegar að svo margt gengur illa.
En það verður vissulega fylgst vel með Samfylkingunni og leiðtoganum. En vandræði þeirra verða enn vandræðalegri þegar að fólk horfist ekki í augu við vandann heldur reynir að skjóta sendiboðana sem greina stöðuna með heiðarlegum hætti. Enda er hlegið að þeim stjórnmálaskýrendum sem reyna að greina stöðuna í dag sem góða fyrir Samfylkinguna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
8.4.2007 | 23:26
Kvikmyndapælingar á páskadegi

Joaquin Phoenix verður hinn goðsagnakenndi sveitasöngvari með glans og túlkar hann með bravúr og syngur meira að segja lögin hans með fítonskrafti. Reese Witherspoon brillerar með túlkun sinni á June, sem er hiklaust hennar besta leikframmistaða á ferlinum. Reese sýndi á sér nýja hlið í leik í myndinni og hlaut óskarinn fyrir túlkun sína. Þau eru sterkt par í myndinni og hún er sannkölluð upplifun fyrir kvikmyndaáhugafólk og þá sem meta mikils tónlist Cash. Flott mynd.
Eftir hádegið í dag horfði ég hinsvegar á Ben-Hur. Það var orðið alltof langt síðan að ég hef sett hana í tækið. Þetta er löng og vönduð mynd, sem þarf að horfa á í rólegheitum og njóta til fulls. Það er ekki ofsögum sagt að Ben-Hur sé ein sterkasta kvikmynd sögunnar, en hún hlaut ellefu óskarsverðlaun og hefur alla tíð verið á stalli ef svo má segja. Það er með klassamynd á borð við þessa að maður áttar sig alltaf á einhverju nýja við hvert áhorf. Þessi mynd er enn risastór, þó hún sé að verða hálfrar aldar gömul. Sannkallaður eðall!
Horfði svo á kvikmyndina Arthur með Dudley Moore, Lizu Minnelli og Sir John Gielgud. Ólík mynd, en samt alveg yndisleg. Þetta er auðvitað mjög öflug gamanmynd, en þar er sögð sagan af auðjöfrinum og glaumgosanum Arthur Bach sem lendir í þeirri vondu aðstöðu að þurfa að velja á milli ástarinnar og peninganna. Moore átti túlkun ferilsins í hlutverki Arthurs og hlaut sína einu tilnefningu til óskarsverðlaunanna fyrir. Shakespeare-leikarinn fágaði Gielgud fékk óskarinn fyrir að leika þjóninn kaldhæðna Hobson og sló eftirminnilega í gegn. Það er kaldhæðið að hans er nú frekar minnst fyrir þessa rullu en stóru sviðsverkin sín.
Síðast en ekki síst horfði ég á mynd sem mér hefur nú alltaf verið nokkuð kær; Foul Play með Goldie Hawn, Chevy Chase og Dudley Moore. Foul Play er alltaf viðeigandi vilji maður hlæja og hafa gaman af lífinu. Þar er sögð saga Gloriu sem lendir í ótrúlegum aðstæðum fyrir mikla tilviljun og endar með morðingja á eftir sér um San Francisco. Þessi víðfræga gamanmynd er að mörgu leyti stæling á mörgum bestu töktum meistara Alfred Hitchcock með flottum dassa af húmor. Lag Barry Manilow í myndinni sló í gegn og sama má sama um leik aðalleikaranna þó sennilega hafi Dudley Moore verið senuþjófur myndarinnar. Ein besta mynd ferils Goldie Hawn.
Í tónlistarspilaranum hér er að finna þrjú lög með Johnny Cash; Ring of fire, On the Evening Train og We´ll Meet Again. Fyrstnefnda lagið er eitt af vinsælustu lögum ferils hans en hin eru af hinum eftirminnilegu plötum undir lok ferilsins með síðustu hljóðritununum, árin 2002 og 2003. On the Evening Train er yndislegt lag, fallegur texti og túlkunin er næm. We´ll Meet Again er þekktast í túlkun Veru Lynn frá stríðsárunum og hljómaði t.d. í kvikmyndinni Dr. Strangelove. Að lokum er þar einn frægasti dúett Johnny og June; Jackson, algjört klassalag. Þarna er frægasta útgáfa þess, úr tónleikunum frægu úr Folsom-fangelsinu.
Í spilaranum er ennfremur að finna hið eftirminnilega lag Arthur´s Theme með Christopher Cross úr kvikmyndinni Arthur frá 1981. Það hlaut óskarinn sem besta kvikmyndalagið á sínum tíma og telst með bestu kvikmyndalögum undir lok 20. aldarinnar, víðfrægt lag eftir Burt Bacharach. Alltaf jafn gott.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2007 | 22:43
Gleðilega páska

Þetta hefur verið alveg virkilega góður dagur hjá mér. Það fylgir dögum á borð við þennan að fara í messu, borða góðan mat og njóta þess besta með fínni afslöppun.
Það var ágætt að líta í páskaeggið sitt. Það kemur misjafnlega góð speki úr þeim, en að þessu sinni sást þar málshátturinn; Ekki er allt gull sem glóir.
Horfði á þrjár magnaðar kvikmyndir eftir hádegið og framundir kvöldfréttatíma og horfði á fína sjónvarpsdagskrá í kvöld. Þeir stóðu sig betur í þeim pakkanum á Stöð 2 að mínu mati.
En í heildina mjög góður dagur. Vona að þið hafið öll haft það gott og rólegt í dag. Efast þó um það að allir hafi verið rólegir ef marka má sum kommentin í umræðunni um Ingibjörgu Sólrúnu hér neðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.4.2007 | 01:29
Pólitískt áfall Ingibjargar Sólrúnar

Það er erfiður mánuður framundan fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Þetta er tíminn sem ræður framtíð hennar í stjórnmálum. Það blæs ekki byrlega. Það hefur reyndar verið ljóst mánuðum saman að það hefði syrt í álinn fyrir hana, en staða flokksins og hennar virðist mjög slæm og það er aðeins mánuður til kosninga. Rúmir 30 dagar eru stuttur tími, en gæti verið lengi að líða fyrir einhverja pólitískt. Þetta er eiginlega make or break tími fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, ef svo má segja. Þetta verður örlagaríkur tími. Annaðhvort mun hún og flokkur hennar floppa stórt eða bjarga sér með einhverju sem helst mætti kalla kraftaverk.
Það er ekki annað í stöðunni eins og viðrar núna. Þessi könnun sýnir enda að landsmenn hafa misst traustið á Ingibjörgu Sólrúnu. Á þessum tímapunkti kosningabaráttunnar fyrir fjórum árum hafði hún sterka stöðu meðal kvenna og var vinsælli en Davíð Oddsson í könnunum Gallups. Það er kaldhæðnislegt að bera stöðuna þá saman við það sem gerist nú. Það að Ómar Ragnarsson sé vinsælli meðal kvenna segir söguna mjög sterkt. Það er eflaust mesta áfallið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að hafa konurnar ekki með sér í baráttunni. Að því leyti má segja að ógæfa hennar felist fyrst og fremst. Vinstrikonur hafa færst yfir til vinstri grænna. Það virðast vera stóru umskiptin. Það kristallast þarna.
Það hefðu þótt stórtíðindi í kosningabaráttunni 2003 hefði einhverjum dottið í hug að missa út úr sér að fleiri konur myndu treysta Steingrími J. Sigfússyni til landsmálaforystu en Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem þá var forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Þá gekk Ingibjörgu Sólrúnu vel og margir töldu framan af baráttunni að hún yrði forsætisráðherra. Samfylkingin mældist meira að segja stærri en Sjálfstæðisflokkurinn hjá Gallup í mars og apríl 2003. Svo snerist straumurinn örlítið. Samfylkingin bætti við sig fylgi en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mistókst naumlega að komast inn á þing. Segja má að stjórnmálaferill hennar hafi verið ein sorgarsaga frá kosninganóttinni 2003.
Það hefði þótt kaldhæðnislegt fyrir ári í mestu þrengingum Halldórs Ásgrímssonar að einhver hefði líkt Ingibjörgu Sólrúnu við hann. En að mörgu leyti er svo komið að tekið er að fjara undan Ingibjörgu Sólrúnu, jafnvel innan eigin raða, með sama hætti og var tilfellið með Halldór. Það þarf ekki klókan stjórnmálaskýranda til að lýsa þessari stöðu Ingibjargar Sólrúnar sem felst í þessari skelfilegu mælingu fyrir hana sem skelfilegri. Hún virðist föst með flokkinn í lágum fylgismörkum og sjálf hefur hún ekki tiltrú landsmanna. Það að hún sé aðeins vinsælli en Jón Sigurðsson og Guðjón Arnar hlýtur að skelfa hana og flokksmenn hennar.
Eflaust munu Samfylkingarmenn standa með formanni sínum næstu 30 dagana, í gegnum það sem eftir stendur af kosningabaráttunni. Það verður reynt á þeim bænum að snúa vörn í sókn. En þessi staða er fjarri því að vera álitleg fyrir nokkurn stjórnmálaflokk og leiðtoga hans. Þetta er lamandi staða og mjög vond, enda má ekki gleyma því að þetta er stjórnmálamaður sem eitt sinn var talin vonarstjarna vinstrimanna og fékk tækifærið sem formaður flokks síns út á þann sess. Fari kosningarnar svona fyrir flokknum mun það verða mjög áberandi fylgistap, það verður metið pólitískt áfall.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig að andrúmsloftið verður pólitískt fyrir Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir fimm vikur þegar að lokatölur í þessum alþingiskosninum liggur fyrir, dómur landsmanna verður ljós. Verði hann eitthvað í líkingu við skoðanakannanir og dómur landsmanna yfir leiðtoganum verði í einhverjum takti við það sem könnun Gallups segir hljóta allra augu að beinast að því hvernig fari fyrir forystu flokksins.
Það eru örlagaríkar vikur framundan fyrir flokk og formann. Það munu allir stjórnmálaskýrendur fylgjast vel með því hvort að stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins verði fyrir skell af þessu tagi. Kannski verður það stóra spurningamerki kosningabaráttunnar hvort að sá flokkur sem verði fyrir mestum skakkaföllum verði stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Mikil verða nú tíðindin fari það svo.
7.4.2007 | 19:17
Ómar mun vinsælli en Ingibjörg Sólrún - konur segjast frekar neikvæðar en jákvæðar í garð ISG

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, og Ómar eru allir vinsælli meðal kvenna en Ingibjörg Sólrún. Nú sem fyrr er Geir H. Haarde vinsælasti leiðtoginn. Tæplega 56% segjast jákvæðir í hans garð. Næstur er Steingrímur J. Sigfússon með 51%, 43% nefna Ómar Ragnarsson, 28% nefna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og 25% nefna Jón Sigurðsson. Fæstir, eða 23%, nefna Guðjón Arnar Kristjánsson.
Flestir eru neikvæðastir í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, eða 51%. 41% nefna nafn Guðjóns Arnars Kristjánssonar í þessu samhengi á meðan að 37% nefna Jón Sigurðsson. Þriðjungur aðspurðra nefna Ómar Ragnarsson en aðeins 19% nefna Geir H. Haarde. Það er því ljóst þarmeð að Geir er bæði vinsælasti stjórnmálamaður landsins og sá sem fæstir eru neikvæðastir fyrir. Er spurt er eftir kynjum styðja flestir karlar Geir, næst koma Steingrímur, Ómar, Ingibjörg Sólrún, Jón og Guðjón Arnar, sama röð og hvað varðar vinsældirnar semsagt.
Eins og fyrr segir nefna flestar konur Steingrím J. Sigfússon sem þann stjórnmálamann sem þær treysta mest, næstir koma Geir og Ómar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er fjórða og því eru aðeins Jón Sigurðsson og Guðjón Arnar Kristjánsson neðar í skori hjá konum en hún. Það hljóta að teljast mikil tíðindi. Í ofanálag eru fleiri konur neikvæðar í garð Ingibjargar Sólrúnar en jákvæðar.
Þessi mæling er mjög góð fyrir Geir H. Haarde og Steingrím J. Sigfússon, sem virðast vera langsterkastir leiðtogar til hægri og vinstri. Mæling Ómars Ragnarssonar hlýtur að teljast mjög sterk fyrir hann, enda er þetta fyrsta mæling hans sem stjórnmálamanns, en hann er nú kominn á fullt í pólitískt vafstur og orðinn áberandi flokksleiðtogi.
Þessi könnun er mikið áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem á sama tímapunkti í aðdraganda þingkosninganna 2003 var vinsælli en Davíð Oddsson og bar höfuð og herðar yfir aðra í mælingum hjá konum er spurt var um vinsælasta stjórnmálamann landsins. Það hafa orðið mikil umskipti og hún veikst umtalsvert.
Það eru aðeins 35 dagar til þingkosninga. Spennan er að magnast mjög - kosningabaráttan fer á fullt eftir helgina með öllum þeim þunga sem henni fylgir. Síðasti mánuðurinn verður mjög kraftmikill vægast sagt. Þessi mæling segir meira en mörg orð um stöðu mála.
Veik mæling Ingibjargar Sólrúnar virðist sýna veika stöðu hennar og Samfylkingarinnar í hnotskurn. Þetta hlýtur að vera altént verulegt áfall fyrir flokk og formann, sem greinilega á mjög undir högg að sækja nú. Þessi könnun segir alla söguna mjög vel hvað það varðar.
![]() |
Geir nýtur mestra vinsælda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2007 | 17:28
Steingrímur J. útilokar ekki einkaframkvæmd
Mér fannst það mjög merkilegt að sjá á kosningafundi Stöðvar 2 í Norðausturkjördæmi á miðvikudagskvöldið að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, útilokaði ekki að Vaðlaheiðargöngin yrðu einkaframkvæmd. Þetta er nýtt hljóð úr horni vinstri grænna og vakti mikla athygli mína, sem og þeirra sem sátu þennan fund með mér í Safnaðarheimilinu og eflaust þeirra sem horfðu á þáttinn í sjónvarpinu.
Er Steingrímur J. greinilega mun opnari fyrir þessum valkosti en Kristján L. Möller, leiðtogi Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Hann og Samfylkingin hefur reyndar sett það nú á oddinn að göngin verði að öllu leyti ríkisframkvæmd. Ég er ekki sömu skoðunar og tel að þetta eigi að gera með þeim hætti sem rætt hefur verið um. Þetta er mjög arðbær framkvæmd og mér finnst það fjarstæða að loka á einkaframkvæmdarkostinn. Er ánægjulegt að Steingrímur J. er sömu skoðunar og telur altént ekki rétt að loka á það.
Vaðlaheiðargöngin verða klárlega rædd í kosningabaráttunni í vor. Það er þýðingarmikil framkvæmd í huga okkar hér. Eigi að koma álver við Bakka þarf að opna svæðin mun betur en nú er með veginum um Víkurskarð, sem er auðvitað fyrir margt löngu orðinn úreltur samgöngukostur, enda þurfa veður ekki að verða mjög válynd til að leiðin sé lokuð og aka verður fyrir Dalsmynnið til að komast austur fyrir. Slíkt er óviðunandi, göng verða þar að koma. Þetta sjá allir sem með einhverju móti kynna sér svæðið og fara þar um. Enda get ég ekki betur séð en að allir flokkar séu með þennan gangnakost á borði sínu.
Mér fannst Valgerður Sverrisdóttir spyrja rétt þegar að hún beindi því til Kristjáns Möllers á þessum kosningafundi hvaða gangnaframkvæmd eigi að setja aftur fyrir ef Vaðlaheiðargöng verða að öllu leyti ríkisframkvæmd. Það er algjörlega óviðunandi að fresta t.d. göngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Af tengslum mínum austur og ferðalögum veit ég sem er að gömlu göngin um Oddskarðið eru barn síns tíma og hafa verið nær alla tíð. Þau eru óviðunandi samgöngukostur nú um stundir og úr því verður að bæta á næsta kjörtímabili, mjög snemma á því. Þeim er ekki hægt að fresta.
Vaðlaheiðargöng eru líka lykilframkvæmd hér fyrir norðan og allir gera sér grein fyrir því að þau eru ekki framtíðarmúsík, þau eru mál sem verður að koma af stað mjög fljótlega. Ég tel að það eigi að halda sama kúrs og fagna því að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, útilokar ekki einkaframkvæmd og tel það vera mjög jákvætt útspil af hans hálfu á sömu stund og Samfylkingin allt að því útilokar einkaframkvæmd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2007 | 15:32
Kaupþing vill ekki hryðjuverkamenn í viðskipti

Er þetta merki um nútímann í bankaviðskiptum? Eru íslenskir bankar orðnir svo alþjóðlegir að þeir double check-a hvort að viðskiptavinir þeirra séu nokkuð svo alþjóðlegir að þeir séu orðnir hryðjuverkamenn meðfram daglegu lífi hér heima á Fróni? Þetta er að vissu marki skondið en líka svo kostulega fyndið að einhverju leyti. Ég þurfti eiginlega að lesa þessa frétt tvisvar til að trúa því.
Hefði hlegið meira hefði þetta birst 1. apríl, en hann er nú nýlega liðinn, svo að ekki gat það passað. En kómískt er þetta óneitanlega. Er þetta kannski forboði um að maður fái svona spurningu þegar að maður fær sér tryggingu, jafnvel lífstryggingu. "Heyrðu ertu nokkur í hryðjuverkum?" Svona er víst Ísland í dag.
![]() |
Ertu hryðjuverkamaður? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.4.2007 | 00:18
Glæsilegur sigur Jógvans í X-Factor
Mér fannst allt frá upphafi X-Factor-keppninnar að Færeyingurinn Jógvan Hansen væri stjarnan sem mest væri varið í af öllum fjöldanum. Glæsilegur og afgerandi sigur hans í keppnislok kemur mér ekki á óvart, enda bar hann algjörlega af. Mér fannst hann, Guðbjörg, Hara og Siggi Ingimars vera í algjörum sérflokki í keppninni. Kannski var Inga Sæland líka hinn duldi sigurvegari, enda var hún ekki beint staðalímynd í svona keppni.
Jógvan sannaði í kvöld úr hverju hann er gerður, tók mjög ólík lög og sérstaklega var áhugavert hjá honum að blanda saman Lionel Ritchie og Bon Jovi. Nýja frumsamda lagið var líka sem sniðið fyrir hann. Og sigurinn var afgerandi, krýning er rétta orðið. Þjóðin heillaðist af Færeyingnum metnaðarfulla.... og hún kaus hann. 70% kosning Jógvans segir allt sem segja þarf. Hann kom, sá og sigraði. Einfalt mál það. Og ég held að hann eigi farsæla framtíð fyrir sér í söngnum.
Held að það sé rétt munað hjá mér að hann endaði aldrei á botninum í gegnum alla keppnina. Segir meira en mörg orð um stöðu mála. Hann fékk líka mikla skólun á samstarfinu við umboðsmann Íslands, Einar Bárðarson, sem er auðvitað hreinn meistari á sínu sviði. En Hara er líka sigurvegari að vissu marki. Þær heilluðu þjóðina, voru flott dúó saman og alveg eldfimar, þær munu alveg hiklaust slá í gegn ekkert síður. Var reyndar rosalega svekktur þegar að Siggi var sendur heim fyrir miðja keppni, enda átti hann ekki skilið að fara út svo snemma. Sorglegt bara.
Var rafmagnað andrúmsloft er úrslitin voru tilkynnt. Bæði stóðu Jógvan og Hara sig vel í kvöld en þetta var að mínu mati alveg tryggt hjá Færeyingnum. Hef ekki verið í vafa um sigur hans meginhluta keppninnar. Var framan af hræddur um að erlendur uppruni hans, þó kominn sé frá frændþjóð okkar fornri og góðri, myndi spilla fyrir möguleikum hans, en það gerði það sem betur fer ekki. Enda á talent að njóta sannmælis.
En já, þetta voru gleðileg úrslit. Sendi Jógvan mínar bestu kveðjur með glæsilegan sigur og óska honum að sjálfsögðu velgengni á tónlistarbrautinni, en þar liggur farsæld hans mun frekar en í því að klippa hár fólks. Það er eflaust rífandi stemmning í Færeyjum núna. Þau í Klakksvík hljóta að vera gargandi glöð. Sendi auðvitað góðar kveðjur til frænda okkar í Færeyjum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.4.2007 | 15:51
Á föstudaginn langa

Ungum var mér kennt að meta skáldskap Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Amma mín var mjög hrifin af ljóðum hans og átti ljóðabækur hans. Erfði ég þær bækur og nýt þeirra nú. Hann var fremsta skáld landsins á 20. öld - að mínu mati tókst fáum íslenskum skáldum betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn.
Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Hann var alþýðuskáld sem snerti við fólki. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.
Eitt fallegasta kvæði Davíðs er án nokkurs vafa Á föstudaginn langa, sem margir kalla Ég kveiki á kertum mínum. Um er að ræða táknrænt og fallegt ljóð sem telst með því besta sem hann orti á löngum skáldferli sínum. Þetta ljóð snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Það er við hæfi að líta á það á þessum helga degi.
Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.
Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.
Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.
Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.
Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor,
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.
Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.
Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.
Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.4.2007 | 14:26
Sorgleg endalok á föstudaginn langa
Það var frekar dapurlegt að heyra þá frétt fyrsta í morgunfréttum Ríkisútvarpsins að morgni föstudagsins langa að skemmtiferðarskip hafi sokkið á Eyjahafi og að franskra feðgina um borð sé saknað. Nær allir farþegarnir, 1600 talsins, voru fluttir í land en feðginin voru eftir og urðu örlög þeirra ljós um seinan.
Það er vissulega afrek að tekist hafi að bjarga svo mörgum farþegum farsællega en það að ekki hafi allir komist lífs varpað auðvitað skugga á björgunarafrekið. Það mætti þó kannski segja að mesta afrekið sé vissulega að ekki skyldu fleiri láta lífið þar. Það er hægt að líta misjafnlega á hvernig til tókst við björgunina.
Eftir tíu daga, 15. apríl nk, verða 95 ár liðin frá því að farþegaskipið Titanic fórst. Það var skipið sem aldrei átti að geta sokkið. Það sökk þó í jómfrúarferðinni sinni. Örlög skipsins hafa verið efniviður i margar bækur og frásagnir, sérstaklega í tveim ólíkum en óviðjafnanlegum kvikmyndum frá ólíkum tímaskeiðum. Um daginn horfði ég á gömlu myndina, frá árinu 1953.
Öllu frægari er þó kvikmyndin risavaxna frá árinu 1997. Hún var tæknivætt meistaraverk, stór og öflug, eins og skipið sem er sögusviðið nær alla myndina, frá glæsilegri brottförinni í Southampton til endalokanna miklu sem er færð í glæsilegan en þó svo sorglegan búning. Það atriði kemur sterklega til greina sem sorglegasta og um leið svipmesta augnablik kvikmyndasögunnar.
Titanic varð stærsta kvikmynd 20. aldarinnar, tilnefnd til 14 óskarsverðlauna og hlaut 11, hið mesta í sögu Óskarsverðlaunanna. Lykillag myndarinnar er hér í spilaranum, eitt stórbrotnasta kvikmyndalag sögunnar að mínu mati. Þetta er mynd sem er hollt að sjá reglulega. Kannski maður líti á nokkur brot af henni á eftir.
![]() |
Tveggja farþega af sokknu farþegaskipi saknað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)