6.4.2007 | 02:20
Sjokkerandi uppgötvun

Þetta mál minnir mjög á hina sjokkerandi sögu af Teena Brandon, sem lifði sem maður undir nafninu Brandon Teena og átti kærustur og taldi sjálfum sér og öðrum trú um að líf hans/hennar væri líf karlmanns. Teenu var nauðgað og síðar myrt í desember 1993 þegar að upp komst um bakgrunn karaktersins, enda var samkynhneigð ekki viðurkennd í Nebraska, þar sem þessir atburðir áttu sér stað og olli þessi uppljóstrun sviptingum í smábæ á borð við þetta. Sakamálið sem fylgdi í kjölfarið varð mjög mjög áberandi í Bandaríkjunum og um allan heim og þótti mjög sorglegt.
Þessi ógleymanlega saga, sem var í senn bæði sorgleg og ógleymanleg, var sögð í kvikmyndinni Boys Don´t Cry árið 1999. Í myndinni átti leikkonan Hilary Swank stjörnuleik í hlutverki Teenu/Brandons og hlaut óskarsverðlaunin fyrir stórfenglega túlkun sína. Þessi frammistaða Swank er einn eftirminnilegasti leiksigur i sögu bandarískra kvikmynda síðustu áratugina. Það er svo sannarlega upplifun að sjá þá mynd, þó vissulega sé hún ekkert skemmtiefni.
Datt helst þetta mál í hug þegar að ég heyrði, enda er vissulega með ólíkindum að fólk geti villt á sér heimildir svo lengi og jafnvel reynt að þykjast vera af öðru kyni og vera jafnvel í samböndum af þessu tagi. En þetta er svo sannarlega frétt sem vekur athygli, það þarf ekki að kvarta yfir því.
![]() |
Kærastinn var í raun þrítug kona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.4.2007 | 20:55
Halldór sendir neyðarkall frá Kaupmannahöfn

Halldór Ásgrímsson var aðalleikari í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára - var einn af þeim sem mestu réðu um forystu þjóðarinnar á seinustu áratugum. Hann markaði söguleg pólitísk skref. Það hvernig fjaraði undan honum, í senn miskunnarlaust og kuldalega vægðarlaust, var mjög athyglisvert. Maðurinn sem hafði pálmann í höndunum eftir þingkosningarnar 2003 og gat krafist forsætis út á oddastöðu sína gat ekki nýtt tækifærin og stöðuna. Það varð ekki við neitt ráðið. Hann fjaraði út hratt og áberandi. Forætisráðherraferillinn varð sorgarsaga og ekki varð við neitt ráðið. Spunameistararnir klúðruðu meira að segja endalokunum er á hólminn kom. Halldór fór sneyptur af hinu pólitíska sviði.
Halldór Ásgrímsson er nú kominn í órafjarlægð frá stjórnmálatilverunni á Íslandi. Hann situr nú á friðarstóli í Kaupmannahöfn sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Hann horfir á hnignun Framsóknarflokksins og vandræði flokksins úr fjarlægð. Það blandast engum hugur um að Framsóknarflokkurinn rær lífróður í öllum kjördæmum. Hann á erfitt. Þrír lykilráðherrar flokksins eru á fallanda fæti á höfuðborgarsvæðinu og utanríkisráðherrann, einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar áratugum saman, er í erfiðri stöðu í Norðausturkjördæmi. Kannanir sýna hana eina að mælast inni á þingi í því sem forðum var helsta vígi Framsóknarflokksins. Staðan er dökk.
Þó að tíu mánuðir séu liðnir frá afsögn Halldórs Ásgrímssonar hefur ekkert breyst. Staða Framsóknarflokksins hefur í engu breyst. Hún hefur jafnvel versnað enn ef eitthvað er. Það er eitthvað stórlega að klikka hjá Framsóknarflokknum. Þjóðin finnur ekki samleið með honum lengur og hann á verulega undir högg að sækja; ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur í lykilhéruðum landsbyggðarinnar. Hnignun flokksins í Norðausturkjördæmi er lýsandi fyrir stöðuna. Jón Sigurðsson virðist ekki hafa tiltrú almennings. Það trúir því enginn að hann sé forsætisráðherraefni. Staða hans er ekki góð.
Halldór hefur nú sent úr neyðarkall frá Kaupmannahöfn, vissulega mjög athyglisvert neyðarkall. Hann reynir þar að tala flokkinn upp, talar um kosti hans og greinir gallana. Hann varar við VG. Það er ekki nýtt að heyra úr ranni Framsóknarflokksins. Áralöng beiskja Valgerðar Sverrisdóttur og Steingríms J. Sigfússonar í pólitískum væringum kom vel fram á kosningafundi héðan úr kjördæminu. Það er ekkert ástarhjal. Enda blasir við að VG hefur styrkst mjög einmitt á kostnað Framsóknarflokksins. Þetta veit reyndur höfðingi í Köben.
Í viðtalinu við Ríkisútvarpið í gær sagði Halldór að flokkurinn gjaldi þess að ósekju að hafa staðið að umdeildum málum eins og nýtingu auðlinda og breytingum á fjármálamarkaði sem þó hafi verið forsenda framfara á undanförnum árum. Enda keyrir Framsókn nú og mun gera næstu 40 dagana á slagorðum þess efnis að fólk eigi ekki að kjósa stoppstefnu í vor. Jón Sigurðsson talar mjög ákveðið gegn því að stoppa og hefur frasi hans í þeim efnum verið sett í allar auglýsingar og kynningar. Svona tala allir forystumenn um allt land.
Fari kosningar eins og kannanir sýna er Framsóknarflokkurinn ekki bógur til ríkisstjórnarþátttöku og heldur mæddur og bugaður í endurhæfingu. Svona staða yrði banabeygur fyrir Halldórsarminn svokallaða sem nú stjórnar í gegnum Samvinnumanninn trygga Jón Sigurðsson. Nái hann ekki kjöri á þing eða flokkurinn lendir utan stjórnar fer hann eflaust í gegnum allsherjar uppstokkun og breytingar. Þá verða sennilega kynslóðaskipti. Það verður eflaust mesta rótið innan hans í áratugi. Margir sem þar ríkja munu þá horfa annað.
Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum. Honum hefur oft tekist að redda sér úr miklum krísum á innan við 40 dögum. Verða þessir 40 dagar þó erfiðari en aðrir í aðdraganda kosninga? Það verður fróðlegt að fá svarið við því. En neyðarkall gamla höfðingjans úr fjarlægri heimsborg sannfærir mann þó vel um það að róðurinn er þeim þyngri nú og erfiðari. Þeir eru allavega fáir stjórnmálaskýrendurnir sem setja peningana sína á að Framsókn nái kjörfylginu en eitthvað verður nú samt krafsað.
Það verður vel fylgst með því hvort að Framsóknarflokkurinn vaknar til lífsins bugaður eða hnarreistur að morgni 13. maí og hvort að formaður Framsóknarflokksins verður landlaus pólitískt utan þings eða tekst að redda sér inn í hlýjan stól valdanna eins og Björn Ingi Hrafnsson í Reykjavíkurborg vorið 2006. Þetta verða örlagaríkar kosningar fyrir Framsóknarflokkinn á hvorn veginn sem fer.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.4.2007 | 20:01
Samfylkingin föst í 20% fylgismælingum

Fylgi Samfylkingarinnar virðist því vera að festast í nýjum og mun lægri mörkum en í síðustu tveim alþingiskosningum. Það er áfall fyrir flokk sem hefur viljað byggja sig upp til forystu í ríkisstjórn. Færu kosningar á þessa leið fengi Samfylkingin aðeins 13 þingsæti, einu fleiri en Framsóknarflokkurinn fékk í kosningunum 2003. Það hefði þótt saga til næsta bæjar í kosningunum fyrir fjórum árum þegar að Samfylkingin kynnti Ingibjörgu Sólrúnu sérstaklega sem forsætisráðherraefni að flokkurinn ætti eftir að enda í Framsóknarfylgismælingum.
Þessar mælingar og þessi staða eru mikið pólitískt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Nú er búið að dubba Össur upp til fundaferðalaga um landið með konunni sem auðmýkti hann forðum, felldi hann af formannsstól Samfylkingarinnar eftir fimm ára starf við að byggja upp flokkinn. Kannski telur flokkurinn og forystan sig verða að fara vel með Össur og þetta sé einhver mildileg sátt millum einstaklinga. Má vera. Mun líklegra er þó að flokkurinn telji Össur vera það pólitískt mikilvægan að það verði að flagga honum. Það verði að sýna að Ingibjörg Sólrún og Össur geti unnið saman enn, þrátt fyrir mjög harðvítugt og kuldalegt uppgjör þeirra um forystu flokksins fyrir tveim árum.
Hvað er annars að gerast með varaformann Samfylkingarinnar? Af hverju er hann ekki á fundaferðum um landið með formanni flokksins? Það er greinilega mjög skrítin chemistría þarna á bakvið tjöldin. Þetta er einhver dulin saga um samskipti fólks þarna. Enda er það auðvitað gríðarlega áberandi að formaður og varaformaður flokks fari ekki svona ferðir saman um landið. Enda yrði lesið mjög sterkt í það færi Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, með einhverjum öðrum en Þorgerði Katrínu svona mikilvægan rúnt um landið skömmu fyrir kosningar.
Það verður fróðlegt að sjá stjórnmálaskýrendur greina pólitískan skell fyrir Samfylkinguna af þessum kalíber verði hann að veruleika. Þessi mæling er orðin of föst og áberandi til að henni verði neitað lengur. Fyrst féll Samfylkingin niður og svo festist hún í mörkunum. Þessi staða er vissulega mjög verðugt verkefni fyrir stjórnmálaskýrendur. Það verður líka aðalgreiningarefnið hvort að forystu flokks sem hrynur svona rosalega þrátt fyrir stjórnarandstöðuvist árum saman sé sætt.
![]() |
Ágúst Ólafur: Hætta á að atkvæði detti niður dauð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.4.2007 | 17:08
Pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur

Það stefnir í miklar breytingar fyrir Framsóknarflokkinn í vor, enda eru tveir þingmenn flokksins; Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir að draga sig í hlé. Jón er nú aldursforseti þingflokks Framsóknarflokksins eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar og hefur verið á þingi frá árinu 1984 en Dagný hefur aðeins setið eitt kjörtímabil á þingi og hljóta að teljast stórtíðindi að hún hafi ákveðið að draga sig í hlé eftir svo skamma þingsetu, en hún var presenteruð sem framtíðarefni flokksins hér í síðustu kosningum, eins og kunnugt er.
Í síðustu kosningum vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í afhroð, sé þessi könnun að segja alla söguna nú, sem ég efa ekki að hún geri. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum. Hún mun veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af þessu tagi. Það má reyndar spyrja sig að því að hvort að þau sögulegu tímamót að enginn framsóknarmaður að austan eigi möguleika á þingsæti valdi þeim skráveifu þar. Austfirðingar í stjórnmálum misstu strax tvö þingsæti með vali þessa framboðslista í janúar. Síðast fengu Akureyringar í flokksstarfinu nokkurn skell við val á lista en nú varð sá kaleikurinn Austfirðinga. Það voru stór tíðindi.
Alla tíð frá stofnun Framsóknarflokksins hefur flokkurinn haft afgerandi og sterka leiðtoga fyrir austan. Allir þekkja Halldór Ásgrímsson eldri, Eystein, Vilhjálm frá Brekku, Tómas Árnason, Halldór Ásgrímsson yngri og Jón Kristjánsson. Dagný Jónsdóttir varð svo síðasta vonarstjarna þeirra og hún var mest allra kynnt í kosningunum 2003. Jafnskjótt og hún kom hvarf hún. Þessir menn mörkuðu sögu Framsóknarflokksins að fornu og nýju. Gleymum því ekki. Þeirra hlutur í sögu flokksins er og hefur alla tíð verið talinn afgerandi. Það voru merkilegustu tíðindi aðdraganda þessara kosninga að þeir fyrir austan áttu engan til að fylla skarðið.
Eysteinn Jónsson var pólitískur lærifaðir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann mótaði hann manna mest. Sömu áhrif hafði hann á Tómas og Halldór Ásgrímsson hinn yngri. Eysteinn mótaði heila kynslóð framsóknarmanna fyrir austan. Hann hafði mikil áhrif. Það var enda bjargföst trú mín að þessi gamli baráttumaður og forni forystumaður austfirskra framsóknarmanna hafi snúið sér við í gröfinni vitandi að enginn framsóknarmaður yrði á þingi að austan kjörtímabilið 2007-2011. En framsóknarmenn nyrðra gátu glaðst. Framsóknarmenn á Akureyri eygja nú von á sínum fyrsta þingmanni síðan að Ingvar Gíslason sat á þingi í Höskuldi Þórhallssyni.
En það er ljóst að heilladísirna eru ekki í pólitísku ferðalaginu nú með Framsókn. En þar á greinilega að snúa vörn í sókn. Valgerður beit, eins og ávallt, vel frá sér í umræðunum í gærkvöldi. En mun henni takast að bæta stöðu flokksins. Flestir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja austfjarðaþingmanna Framsóknarflokksins og nokkuð önnur staða uppi nú en var fyrir fjórum árum með lista sem hafði skírskotun í allt kjördæmið.
Eins og staðan er nú eru framsóknarmenn varla að berjast upp á fleiri en tvö sæti nú, en væntanlega mun Birkir Jón, eini sitjandi þingmaður flokksins hér utan Valgerðar sem fer fram, ná kjöri. Það er mjög óvarlegt annað en telja að hann nái inn. Framsókn mun berjast fyrir því að ná inn þriðja manninum. Það yrði talið varnarsigur og myndi flokkast undir sigur í vondri stöðu að ná að komast yfir 20% og ná inn þrem. En ef marka má þessa könnun þarf margt að breytast til að það takist.
En væntanlega telst þetta pólitískur lífróður. Valgerður hefur áður tekið slaginn og átt bæði góða og slæma daga pólitískt. Innan við ár er liðið síðan að Valgerður náði þeim sögulegum áfanga að verða utanríkisráðherra fyrst kvenna. Nú er spurning hvort að sú vegtylla verði henni sigursæl eða pólitísk bölvun sökum mikillar fjarveru erlendis. Halldór Ásgrímsson háði sem utanríkisráðherra mikinn lífróður í síðustu kosningabaráttu sinni fyrir austan árið 1999. Valgerður ætlar ekki að láta það sama endurtaka sig nú.
En það er greinilega við ramman reip að draga fyrir hana og flokkinn. Þessi staða, ef af yrði, myndi verða túlkuð sem mikill persónulegur ósigur Valgerðar Sverrisdóttur og myndi verða upphafið að pólitískum endalokum hennar og í raun má segja að Framsóknarflokkurinn allur sé að fara í endurhæfingu verði skellur flokksins um allt land að veruleika. Þar verður barist þó til hinstu stundar. En það verður mikil þrautaganga.
5.4.2007 | 09:26
Sterk staða Sjálfstæðisflokksins - stjórnin heldur
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig þónokkru fylgi, VG er að missa flugið hratt og ríkisstjórnin heldur velli ef marka má nýjustu könnun Gallups. Engu að síður er VG enn næststærsti flokkurinn þrátt fyrir fylgistap tvær vikukannanir í röð, mælist með 21,1% fylgi nú en hafði 24% fyrir viku og er nú innan við tveimur prósentustigum stærri en Samfylkingin, sem dalar milli vikna og mælist nú með 19,5% en hafði 19,9% fyrir viku.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 6,1% milli vikna. Hann mældist með 34,5% í síðustu viku en hefur nú 40,6% fylgi. Flokkurinn fengi fleiri alþingismenn í slíkri mælingu en hann hefur fengið kjörna áður í sögu sinni. Þetta er besta mæling Sjálfstæðisflokksins í könnunum Gallups í vel á annað ár. Íslandshreyfingin missir fylgi milli vikna. Hún mælist nú með 4,5% en hafði 5,2% í síðustu viku. Frjálslyndir bæta við sig 0,1%, er með 5,4% fylgi í stað 5,3%, og er því enn á mörkum þess að missa þingmenn sína fyrir borð. Framsóknarflokkurinn dalar enn og mælist með 8,1% fylgi í stað 8,3% fyrir viku.
Ríkisstjórnin heldur velli í könnuninni með 48,7% fylgi og 32 þingsæti. Athygli vekur sífellt hrap vinstri grænna, sem eru á hraðri leið niður í 20% mörkin. Engu að síður mælist VG með meira en tíu prósenta fylgisaukningu frá alþingiskosningunum 2003. Framsóknarflokkurinn er aðeins með 8% og hlýtur að vera skollin á gríðarleg örvænting þar, sérstaklega vegna könnunar Félagsvíndastofnunar hér í Norðausturkjördæmi. Þar voru þrír framsóknarmenn fyrir borð og aðeins Valgerður Sverrisdóttir mældist inni. Virðist Framsóknarflokkur eiga erfiða daga fyrir höndum og þeim þar dugar ekkert minna en kraftaverk til að eiga séns á að halda kjörfylginu. Sama gildir um Samfylkinguna.
Þessi mæling hlýtur að vera áfall fyrir Íslandshreyfinguna, sem síðast mældist með þolanlegt start, sem hefur minnkað hægt og hljótt greinilega. Þar er staðan orðin sú að enginn þingmaður mælist inni. Verður fróðlegt að sjá hvað ráð þau Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson hafa upp í erminni. Það að flokknum haldist ekki betur á fylginu flokkast sem áfall fyrir hópinn. Það virðist vera erfið barátta framundan þar að óbreyttu. Sama gildir um frjálslynda sem svamla um í gruggugu vatni og hafa ekkert grætt á innflytjendatillögum sínum, sem hafa drepið kaffibandalagið svokallaða.
Það er merkilegt að sjá könnun þar sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu á meðan vinstriblokkin dalar nokkuð. Það vekur athygli í ljósi þess að bæði Samfylking og VG dala ásamt Íslandshreyfingunni og Framsókn. Það tapa semsagt allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn og segja má að vinstrisveiflan til Samfylkingarinnar og VG sé nú stopp. Þetta er merkilegt landslag sem þarna sést. Fylgið er allavega á miklu flökti og mikil spenna framundan.
Á laugardag eru fimm vikur til alþingiskosninga. Kannanir sýna mjög breytta mynd frá síðustu kosningum. Tilkoma nýrra flokka hefur merkileg áhrif á heildarmyndina og greinilegt t.d. að nýtt hægri grænt framboð hefur helst tekið af því vinstri græna. Hratt fall VG niður listann er táknrænt en flokkurinn hefur tapað umtalsverðu fylgi á skömmum tíma, sex prósentustigum á tveim vikum. Hver veit nema að pælingin um að fleiri framboð hjálpi ríkisstjórninni en skaði stjórnarandstöðuflokkana fái byr undir báða vængi.
Samfylking og VG hafa ekki nema 40% samtals í þessari könnun og eru sem blokk því jafnstór Sjalfstæðisflokknum. Þessi könnun er að því leyti nokkur tímamót. Ríkisstjórnin heldur þar velli í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma. Það er því margt sem vekur mikla athygli nú. En það er enn langt til kosninga.
![]() |
Sjálfstæðisflokkur með rúm 40% og VG með 21% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.4.2007 | 22:05
Sjálfstæðismenn stærstir í NA - Framsókn hrynur
Ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi var birt í kvöld, 38 dögum fyrir kosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2 í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn í mikilli sókn og mælist hér stærstur flokka og með yfir 30% fylgi og í vænlegri stöðu. VG og Samfylking bæta við sig á meðan að Framsóknarflokkurinn hrynur hreinlega. Íslandshreyfingin nær hér nokkru flugi, greinilega á kostnað VG.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mælast með þrjú þingsæti í könnuninni en VG með tvö. Framsóknarlokkur mælist aðeins með einn þingmann og myndi missa þrjá. Frjálslyndir og Íslandshreyfingin mælast ekki með þingmann. Skv. því eru inni; Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Nordal (Sjálfstæðisflokki), Kristján L. Möller, Einar Már Sigurðarson og Lára Stefánsdóttir (Samfylkingu), Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman (VG) og Valgerður Sverrisdóttir (Framsóknarflokki). Ekki var sagt hvaða framboð hefði jöfnunarsætið þó líklegast sé að það færi til VG eða Sjálfstæðisflokks í þessari mælingu.
Sjálfstæðisflokkurinn: 32,1% - fékk 23,5% í kosningunum 2003
Samfylkingin: 25,2% - fékk 23,4% í kosningunum 2003
VG: 21,7% - fékk 14,1% í kosningunum 2003
Framsóknarflokkurinn: 12,3% - fékk 32,8% í kosningunum 2003
Íslandshreyfingin: 5,9%
Frjálslyndir: 2,1% - fékk 5,6% í kosningunum 2003
Stöð 2 var með góða umfjöllun á málum kjördæmisins á fundinum í Safnaðarheimilinu. Þáði ég boð um að sitja fundinn og hafði mjög gaman af að vera þar viðstaddur, fylgjast með umræðunum og sjá hvernig mælist í þessari nýju og athyglisverðu skoðanakönnun. Það voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög Framsóknarflokkurinn er í vörn. Þessi staða er auðvitað reiðarslag fyrir Valgerði Sverrisdóttur og hennar fólk. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, mælist fallinn þarna og þeir missa fyrir borð heil þrjú þingsæti. Valgerður er þar ein, hún var greinilega slegin yfir útkomunni sem skiljanlegt er.
Kristján Þór Júlíusson, kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins og fyrrum bæjarstjóri hér á Akureyri, brosti sínu breiðasta. Í könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn að mælast níu prósentustigum yfir kjörfylginu og í gríðarlegri sókn. Ólöf Nordal er gulltrygg sem kjördæmakjörin í þessari mælingu og mjög stutt er í Þorvald Ingvarsson, lækningaforstjóra og formann Sjálfstæðisfélags Akureyrar. Framsóknarmenn fengu fjóra kjördæmakjörna í þessari mælingu árið 2003 og ég get ekki betur séð en að Þorvaldur sé inni þarna í þessari stöðu sem jöfnunarmaður, mjög stutt í hann sem kjördæmakjörinn meira að segja, hann nagar á hæla sumra þarna.
Kristján L. Möller var greinilega glaður í kvöld. Enda ekki óeðlilegt. Þetta er besta könnunin fyrir Samfylkinguna hér í Norðausturkjördæmi í langa tíð. Vinkona mín, Lára, er inni í þessari mælingu. Það eru vissulega mikil tíðindi, enda er orðið mjög langt síðan að sést hefur í hana í könnun sem þingmannsefni. Það er greinilegt að Samfylkingin er að sækja í sig veðrið og greinilegt að stærstu tromp Samfylkingarinnar eru Akureyrsku konurnar Lára og Margrét Kristín Helgadóttir. Enda munu þau flagga þeim vel til að dassa niður yfirbragð miðaldra karlanna í tveim efstu sætum, þeirra Kristjáns og Einars Más. Möllerinn getur vel við unað þessa stöðu.
Þessi könnun var augljóslega gríðarlegt áfall fyrir VG. Það sá ég á Steingrími og hans fólki á staðnum. Þeir eru vissulega nokkuð yfir kjörfylginu en þetta er fyrsta könnunin um nokkuð skeið sem sýnir Björn Val Gíslason ekki inni. Birst hafa kannanir síðustu vikur sem hafa jafnvel sýnt fjóra vinstri græna á þingi í kjördæminu, ein könnunin sýndi meira að segja sundþjálfarann og varabæjarfulltrúann Dillu Skjóldal inni. Með fullri virðingu fyrir Dillu segi ég hreint að hún fer ekki á þing, nema þá ef einhverjir framan við hana forfallist. Sveiflan til VG er greinilega að hnigna. Það er greinilegt að VG er að tapa mjög til Íslandshreyfingarinnar.
Valgerður Sverrisdóttir var greinilega felmtri slegin þegar að hún fékk þessa könnun í hendur. Hún er nú fyrsti þingmaður kjördæmisins og forystumaður langstærsta flokksins í kjördæminu. Fari þetta á einhvern viðlíka veg og þessi könnun greinir frá er sá sess fokinn út í veður og vind og hún orðin leiðtogi örflokks í kjördæminu. Birkir Jón væri fallinn eins og fyrr segir. Það er því langt í Höskuld Þórhallsson. Enda var þessi staða greinilega mikið áfall fyrir þá framsóknarmenn sem sátu fundinn úti í sal. Framsókn er annars komin af stað á fullu og í dag kom auglýsingablað frá þeim í öll hús kjördæmisins og þeir eru komnir á full swing í auglýsingum heilt yfir.
Íslandshreyfingin er að fá heldur betur gott start hérna á svæðinu. Þau mælast með tæp 6%, þrátt fyrir að hafa hvorki kjördæmaleiðtoga og framboðslista. Þau tóku því auðvitað ekki þátt í þættinum í kvöld. Það er greinilegt að Íslandshreyfingin er að taka mikið fylgi af VG, enda er sveiflan sem verður mjög umtalsverð þaðan. Enda var greinilegt að þetta voru óvæntustu tíðindi könnunarinnar heilt yfir. Þetta var eitthvað sem ég átti allavega ekki von á. Fari Íslandshreyfingin að mælast mikið ofar gæti orðið spurningamerki hvort að þau fari hreinlega að mælast með mann inni. Það verður fróðlegt að sjá hver muni leiða lista þeirra, enda skiptir það máli fyrir framtíðina.
Frjálslyndi flokkurinn á greinilega í talsverðum erfiðleikum. Flokkurinn er ekki að ná flugi hér og virðist eiga erfiða baráttu fyrir höndum. Sigurjón Þórðarson er nýr maður í framboði hér, hann á mikið verk framundan í sinni baráttu og greinilegt að þar vantar þeim talsvert flug til að eiga séns á manni inn. Ef marka má þetta er Sigurjón fallinn af þingi. Gamla sæti Sigurjóns í Norðvesturkjördæmi var úti í könnuninni í kjördæmaþættinum í Norðvestur og ekki virðist hann hafa valið sér öruggt skjól með tilfærslunni hingað.
Þetta var virkilega vandaður og vel gerður þáttur í kvöld úr Safnaðarheimilinu. Góðar umræður og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra tveggja gömlu kjördæma sem mynda Norðausturkjördæmi. Egill Helgason var með athyglisverða umfjöllun og vandaða á pólitískri sögu kjördæmisins og kom með góða fróðleiksmola. Í þættinum var að mestu rætt um atvinnu- og samgöngumál. Það er alveg ljóst að þetta verða stóru málefni kosningabaráttunnar á landsbyggðinni.
Tekist var á um Vaðlaheiðargöng og álver við Bakka. Flestir flokkar styðja álverið. Afstaða Samfylkingarinnar kom þar vel fram á meðan að VG er eini flokkurinn sem hikar í þeim efnum. Allir vilja Vaðlaheiðargöng að sjálfsögðu en menn deila um það á hvaða grunni þau eiga að koma. Mér fannst Kristján L. Möller ekki svara því vel hvort hann vilji fresta göngum fyrir austan, sem eru fyrir löngu þörf, verði Vaðlaheiðargöng ríkisframkvæmd að öllu leyti. Flestir leiðtogarnir voru vel fyrirsjáanlegir í þessum efnum.
Áberandi var að heyra umræðuna um stjórnarmyndun í þeim hluta er Egill spurði leiðtogana. Kaffibandalagið er greinilega steindautt þó það sé mikið á reiki hver eigi að gefa því dánarvottorðið þó allir viti að enginn heill grunnur er þar eftir vegna innflytjendatals frjálslyndra. Annars fannst mér Sigurjón einhvernveginn utanveltu í þessu tali, enda trúi ég því ekki að hann sé eins vitlaus í þessum efnum og kjördæmaleiðtogarnir hans í Reykjavík. Valgerður var í mikilli vörn og Steingrímur J. var að afsaka hitt og þetta, t.d. afstöðuna til álvers við Bakka á meðan að Kristjánarnir brostu sínu breiðasta og nutu dagsins.
Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Norðausturkjördæmi eins og annarsstaðar. Þessi könnun sýnir vel bylgjuna til Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin er að bæta við sig og Íslandshreyfingin sýgur fylgi frá vinstri grænum með áberandi hætti. Framsókn sígur mjög, rétt að tala um hreint hrun, og frjálslyndir virðast landlausir hér rétt eins og fyrri daginn. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Það er allavega ljóst að vinstri grænir hafa misst flugið umtalsvert og Framsókn sleikir sárin og keyrir af stað í auglýsingakynningu nú strax.
Stöð 2 á heiður skilið fyrir góða umfjöllun. Ekki aðeins var þessi góði pakki sendur út héðan, ennfremur las Logi Bergmann kvöldfréttirnar héðan. Vel gert hjá þeim og vandað. Hrósa Sigmundi Erni og hans liði fyrir vandaðan pakka og mikinn metnað í framsetningu. Þeir hjá RÚV geta lært mikið af metnaðinum sem Sigmundur Ernir sýnir með öflugri stjórn á fréttastofunni.
Eftir þáttinn átti ég mjög gott spjall við Egil Helgason um stjórnmálastöðuna. Alltaf gaman að hitta Egil og taka gott spjall. Egill er langfremsti stjórnmálaskýrandi landsins og það er mikils virði fyrir Stöð 2 að hafa jafn öflugan mann í þessum pakka og hann. Sigmundur og Svansí stóðu sig svo vel í spurningunum. Það var gaman að fá þau hingað í heimsókn. Þetta var gott kvöld í Safnaðarheimilinu.
Það verður fróðlegt að sjá mælingu flokkanna í Suðurkjördæmi eftir viku, en þá verður útsending frá Selfossi og umræður leiðtoga flokkanna og birt könnun Félagsvísindastofnunar á fylgi framboðanna sem verða þar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.4.2007 | 18:21
Brandari Keiths stuðar og vekur athygli

Karakter Keiths er eins og flestir vita fyrirmynd leikarans Johnny Depp við persónusköpun sjóræningjans sífulla Jack Sparrow í kvikmyndabálknum Pirates of the Caribbean. Hann verður seint sagður hafa verið fyrirmynd hóflegs lífsstíls og hreinlegs lifnaðar. Keith er og verður alla tíð þekktur sem hinn útlifaði snillingur í Rolling Stones. Kannski misskilinn snillingur, hver veit.
Hvort sem hann sniffaði pabba gamla eður ei mun umtalið vart minnka við þá sögusögn og varla verða svosem meira krassandi við það. Hann hefur fyrir löngu náð þeim hápunkti sem því fylgir að ná hápunktinum í ólifnaði og tónlistarsköpun.
![]() |
Tók föður sinn í nefið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2007 | 15:08
On the road again....

Nú á greinilega að markaðssetja þau eins þrátt fyrir nokkuð breytta stöðu. Ingibjörg Sólrún hjólaði í Össur eftir kosningarnar 2003, það nægði henni ekki að vera á dúóstandard á við Össur. Hann var felldur og hún tók við með stuðningsmennina kyrjandi á bakvið slagorðasöngva um betra gengi undir stjórn hennar sem gömlu vonarstjörnunnar sem vann þrennar borgarstjórnarkosningar. Lífið innan flokksins átti að vera himnasæla hin mesta fyrir flokk og formann.
Tveim árum eftir formannskjör Ingibjargar Sólrúnar hafa vinstri grænir, hinn forni smælingi til vinstri, tekið framúr Samfylkingunni og góð ráð eru að verða ansi dýr fyrir formanninn sem átti að gera Samfylkinguna að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Leitað er til formannsins fallna um hjálparsvein til ferðalags í aðdraganda kosninga. Teknar eru fallegar litmyndir með brosandi fólki í pólitískri nauð og haldið hringinn í kringum landið. Flokkurinn sem forðum átti að vera ráðandi afl berst nú við VG um hvor flokkurinn verði næststærstur á taflborði stjórnmálanna.
Það væri gaman að vita hvernig að leiðtogatvíeykinu forna líður á ferðalaginu. Samfylkingin á í verulegum erfiðleikum og háir varnarbaráttu í öllum kjördæmum. Þar er ekki sótt fram heldur barist fyrir að halda sínu. Allar kannanir nú innan við 40 dögum fyrir kosningar mæla Samfylkinguna í verulegu fylgistapi frá síðustu kosningum og í vondri stöðu. Örvæntingin þar er öllum ljós. Enda hver verða eftirmælin fyrir flokkinn að kosningum loknum fari svo að forna vonarstjarnan úr borginni skili flokknum umtalsverðu fylgistapi er á hólminn kemur?
Tveim árum eftir að Össur fékk sem sitjandi formaður aðeins einn þriðja í formannskjöri, fékk gríðarlegan skell og var hafnað fyrir Ingibjörgu Sólrúnu er hann enn lykilspilari á landsvísu. Hann er kominn á roadtrip með konunni sem felldi hann, svilkonunni sem allir höfðu svo mikla trú á. Nú þarf hún á honum að halda og Samfylkingin líka. Varaformaðurinn er einhversstaðar í skottinu á roadtripinu.
Þarna vísiterar flokkur í vanda hinar dreifðu byggðir landsins. Það sjáum við á öllum vandræðaganginum.
3.4.2007 | 14:10
Ágústa Eva fellir leiktjöld Silvíu Nætur
Ævintýrið um Silvíu Nótt tók á sig nýjan og athyglisverðan vinkil á sunnudagskvöldið þegar að Ágústa Eva Erlendsdóttir, skapari glamúrgellunnar miklu, felldi grímu hennar og kom fram í eigin persónu í Sunnudagskastljósi Evu Maríu. Þar talaði Ágústa Eva opinskátt um þessa athyglisverðu hlið sem hún hefur skapað með þessum karakter. Ágústa Eva hefur bæði hneykslað og glatt landsmenn með þessum karakter í rúm tvö ár og tekið allan skalann í tilfinningatúlkun.
Öll þjóðin hefur fylgst með Silvíu Nótt á þessum tíma. Hún hefur verið í miðpunkti bæði í umræðunni og verið bæði stingandi og heillandi í senn. Hápunktur og um leið botn hennar hlýtur að vera sami viðburðurinn merkilegt nokk. Sigurinn heima í Eurovision með Til hamingju Ísland var sætur en skellurinn mikli með Congratulations í Aþenu í maí 2006 var mikill, enda voru væntingar hennar og landsmanna miklir til árangurs. En segja má að ævintýrið hafi gengið of langt, dramatíkin og stingandi karakterinn hafi farið yfir strikið í Grikklandi. Á miðri Eurovision-leiðinni fór karakterinn yfir rauða strikið varhugaverða.
Það kom margt merkilegt fram í þessu viðtali. Eva María er auðvitað snilldargóður spyrill og mjög blátt áfram. Ágústa Eva opnaði karakterinn alveg upp á gátt og dró ekkert undan. Sérstaklega var athyglisvert að heyra hana lýsa Aþenu-ævintýrinu. Hún var víst alveg að leka niður af álagi og taugastrekkju er þessu lauk. Reyndar má segja að mesta afrek Ágústu Evu hafi verið að lifa í gegnum karakterinn allan þennan tíma og halda dampi. Enda er þetta frábær leikkona, hún sannaði kraft sinn og styrk sem karakterleikkonu í Mýrinni, þar sem nafna hennar, Eva Lind Erlendsdóttir, varð ljóslifandi í góðri túlkun hennar.
Það er freistandi að spyrja hvort ævintýrinu mikla með Silvíu Nótt sé að ljúka eða hreinlega á enda nú. Það væri ekki undarlegt yrði svo, enda virðist mesta fúttið úr karakternum. En hún hafði áhrif með karakternum, kannski öfug áhrif. Eins og fram kom átti Silvía Nótt að vera ádeila, en að mörgu leyti má vera að karakterinn hafi þróast í aðrar áttir. Allavega, varð þetta ævintýri eflaust mun hástemmdara og háfleygara en stefnt var sennilega að. Og það er auðvitað með vissum ólíkindum hversu langt Ágústu Evu tókst að koma með karakterinn og eiginlega hversu lengi hún lifði í gegnum hann.
Ágústa Eva er leikkona sem á mörg tækifæri framundan myndi ég segja. Hún hefur allavega sýnt að hún getur leikið, getur túlkað allan tilfinningaskalann. Það eru viss tíðindi að leikþættinum sem slíkum sé lokið. Reyndar var svolítið spes að sjá Ágústu Evu tala svo opinskátt um karakterinn, enda hefur hún annaðhvort komið fram í karakter eða hreinlega talað í kringum hann í öðrum túlkunum. Ætli það sé búið að gera upp Silvíu Nótt? Það verður fróðlegt að sjá hver framtíð hennar og skaparans verður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.4.2007 | 12:36
Styrmir leitar að Styrmi í Kringlunni
Ég man að ég las um þennan tjald í Mogganum í fyrra og það er gaman að sjá tryggð hans við gamla staðinn. Fuglarnir eru reyndar vel minnugir og með á hlutina, þeir eru heldur ekki nýjungagjarnir. Veit ég þetta vel því að ár hvert verpa fuglar heima í garði í skjóli þar. Það er mjög gaman að sjá þá koma og finna staðinn sinn.
Þetta eru skynugar skepnur, enginn vafi leikur á því. Hitchcock gerði fuglana ansi grimma og harðskeytta í kvikmyndinni The Birds. Ráðlegg fuglavinum að forðast hana, en aðrir hafa merkilegt nokk gaman af henni. Kannski maður horfi á The Birds í kvöld, hver veit?
![]() |
Styrmir enn á ferð við Morgunblaðshúsið í Kringlunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2007 | 10:57
Grimmd í samfélaginu
Það er eiginlega ekki undrunarefni að maður hugsi við að lesa svona fréttir á hvaða leið samfélagið okkar sé eiginlega. Er virðingarleysið orðið algjört? Því miður er ekki hægt annað en hugsa á þeim forsendum. Hvers vegna gerist enda svona nokkuð nema að eitthvað stórlega sé að. Þetta er grimmd og mannvonska af verstu sort. Það þarf svosem ekkert að rökstyðja það frekar.
Svona fréttir eru napur vitnisburður þess hvernig samfélagið er orðið að mörgu leyti. Það er vond þróun sem birtist í svona tíðindum allavega.
![]() |
Barinn og rændur í hjólastól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.4.2007 | 02:18
Harður heimur viðskiptanna
![]() |
Segja Pálma eiga persónulegan þátt í rekstrarerfiðleikum IE |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.4.2007 | 00:28
Hvernig verður að fá Ómar Ragnarsson á þing?

Það má eiginlega segja með sanni að Ómar muni verða óvæntasti stjórnmálaleiðtogi þessarar kosningabaráttu, hvernig sem allt fer. Hann verður 67 ára á þessu ári, það sem flestir kalla löggilt gamalmenni. Ómar hefur með störfum á breiðum vettvangi víða öðlast sess í huga fólks. Ómar er auðvitað ein skærasta stjarna íslenskrar sjónvarpssögu, er mikill gleðigjafi og hefur verið í miðpunkti mannlífsins alla mína ævi. Einhvernveginn finnst mér hann einstakur, hann hefur fært okkur svo mikið með sjónvarpsþáttum sínum og fært okkur öllum sýn á landið sem er ómetanleg. Fyrir það hefur hann mína virðingu.
En er Ómar stjórnmálamaður. Ég man að ég hugsaði mig talsvert um þegar að hann kastaði af sér hlutleysisgrímunni í umhverfismálum í haust og hélt beint út í elginn. Hann fór eftirminnilega göngu niður Laugaveginn sem breytti kannski einhverju í huga þeirra sem þar gengu, ég veit það ekki, en allavega hafði engin áhrif á baráttumálið. Hann kom þar fram sem maður skoðana og krafts, það voru ekki allir sammála honum en innst inni held ég að margir hafi séð þar hlið á þessum fjölbreytta manni sem enginn hafði séð áður.
Reyndar hefur Ómar alltaf verið áhlaupsmaður, er mjög frjór og kraftmikill á sínum sviðum og hefur allsstaðar vakið athygli. Enda er ekkert hálfkák á honum. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki Ómar fyrir mér á næturfundum í þinginu eða sitjandi daga og nætur þar yfir höfuð. Hann hefur verið með ímynd mannsins sem alltaf er á ferð og flugi. Kannski er hann bara að slaka á með því að vera kyrr á einum bletti en beita allri orku sinni með öðrum hætti.
Það eru flestir sem spá í gengi Íslandshreyfingarinnar í vor. Ef marka má kannanir getur hún náð einhverju flugi. Það verður allavega fróðlegt að sjá næstu vikurnar hvernig flugi hún nær. Merkilegast af öllu er að Ómar leiði flokkinn. Hann er það þekktur í huga landsmanna að varhugavert er að útiloka að hann nái árangri og verði í oddastöðu, sérstaklega eftir að Frjálslyndir misstu fótanna og kaffibandalagið margfræga dó.
Ómar verður litríkur þingmaður komist hann þar inn. Hann yrði elsti þingmaðurinn næði hann inn, tæki við þeim sess af Halldóri Blöndal, sem brátt hættir á þingi eftir langan stjórnmálaferil. Halldór og Ómar eru svolitlar þjóðsagnapersónur; miklir sagnamenn og fróðleiksbrunnar. Það verður varla ládeyða í þingveislunum verði Ómar Ragnarsson þar fastagestur næstu fjögur árin og hann yrði varla litlaus maður úti í horni í þingsölum.
Það yrðu vissulega merk tíðindi ef að Ómar lyki starfsferlinum sínum sem þingmaður í löggjafarsamkundunni. Hann hefur aldrei verið frambjóðandi og vissulega verður athyglisvert að sjá hann í leiðtogaþáttum næstu 40 dagana með öðrum leiðtogum flokkanna. Þetta er nýtt hlutverk fyrir mann sem þegar hefur leikið mörg athyglisverð hlutverk um dagana.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.4.2007 | 23:20
Króníkan öll - blaðamennirnir fara ekki á DV

Er blaðamarkaðurinn enn í tísku? Er ekki netið að drepa blöðin hægt og rólega? Sérstaklega blað sem fókuserar á svona kreðsur eins og Krónikunni var ætlað að gera? Má vel vera. Ég persónulega er t.d. nær hættur að lesa blöð. Les reyndar alltaf Moggann og Fréttablaðið í bítið en þar með er það nær upptalið. Ég er ekki áskrifandi að neinum blöðum utan gamla góða Moggans, enda tel ég mig fá allan fróðleik dagsins meira og minna á Netinu. Það er sú upplýsingaveita sem er ferskust og áreiðanlegust á að uppfærast eftir nýjustu viðburðum. Á hana stóli ég fyrst og fremst.
Króníkan var metnaðarfullt blað. Ég keypti mér nokkur tölublöð af henni í lausasölu. Ég fer stundum á kvöldin í 10-11, er víst svona nútímamaður að því leyti að fara þangað þegar að vantar eitthvað. Fílaði sum blöðin, önnur ekki. Varð fyrir vissum vonbrigðum með fyrsta blaðið og fannst það ekki alveg nógu gott. Gaman að lesa, en heildarmyndin var þung. Sérstaklega fannst mér djarft útspil hjá þeim að veðja á Hannes Smárason, peningamaskínu og stórlax, sem forsíðu"stúlku". En það er oft gott að veðja miklu, held þó að þau hafi ekki veðjað þar á réttan hest.
Heillaðist meira af næstu blöðum og fannst tvö síðustu blöðin gríðarlega góð. Sérstaklega var gaman að lesa áhugavert viðtal við Bjarna Benediktsson, alþingismann, og vönduð skrif Örnu Schram klikkuðu ekki. Þetta blað dó áður en það gat sannað sig endanlega. En kannski var þetta vonlaust frá byrjun? Veit það ekki, allavega dó blaðið ungt. Það varð bensínlaust á viðkvæmasta hjallanum upp brekkuna og komst aldrei fyllilega alla leið upp. Ég sá t.d. blaðastabbann alltaf fullan af Króníku þegar að ég fór í 10-11 hverfisbúðina mína. Þar varð aldrei uppselt.
Sigríður Dögg, bloggvinkona og stjörnublaðamaður, ritstýrði blaðinu. Hún er nú farin yfir á DV. Þau sem með henni unnu ætla ekki að fylgja henni þangað. Enda sé ég ekki Aðalheiði Ingu, Kristján Torfa og Örnu Schram alveg fyrir mér þar undir ritstjórn Sigurjóns M. Egilssonar í sannleika sagt. En það er leiðinlegt að Króníkan dó. Held að þeim hafi mistekist sumt en gengið vel upp í öðru. Heildarmyndin var ekki að ganga og svo fór sem fór því miður.
En það er mikið verkefni að halda í svona bissness. Það er mikið sett undir og það er spilað djarft. Þetta gekk ekki upp. En kannski er þetta byrjun á hnignun í blaðabransanum? Hver veit. Það munu eflaust margir fylgjast með því hvort að DV gangi upp sem dagblað. Er þessi markaður ekki orðinn fullmettaður? Stórt er spurt vissulega - það fylgjast allir með hvort og þá hvaða fjölmiðill falli jafnvel næstur uppfyrir í hörðum bransa.
Survival of the Fittest, er kannski réttnefni á þennan bransa núna?
![]() |
Króníkufólk fer ekki á DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.4.2007 | 20:29
Verður álver Alcan stækkað þrátt fyrir allt?

Það er mjög athyglisvert að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði með skoðanalausan bæjarstjóra fremstan í flokki hafi ekki komið fram með þessa merkilegu staðreynd sem nú er að afhjúpast og var í raun fyrst tilkynnt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Enda gat Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, ekki útilokað stækkun af þessu tagi í viðtali í kvöldfréttum fyrir stundu.
Það verður kaldhæðnislegt verði álverið í Straumsvík stækkað þrátt fyrir allt, þrátt fyrir niðurstöðuna á laugardaginn. Það er mikil ábyrgð á herðum Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Fyrst gátu þeir ekki tjáð skoðanir sínar í þessari kosningu og bæjarstjórinn þeirra og kjördæmaleiðtoginn litu út eins og Bakkabræður heldur var staðreynd á borð við þessa ekki borin fram í umræðuna, fyrir kjósendur að vinna úr.
Það verður fróðlegt hversu mikið álverið í Straumsvík muni stækka eftir allt saman, það er alveg klárt nú að stækkun þar er ekki út af borðinu þó að þessi versíón hennar sé það.
2.4.2007 | 17:47
Tvö ár frá láti páfans - verður hann dýrlingur?

Jóhannes Páll II lést kl. 19:37 að íslenskum tíma að kvöldi 2. apríl 2005, eftir að hafa háð langt og erfitt veikindastríð. Hann ríkti á páfastóli í tæp 27 ár. Jóhannes Páll II var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Pius IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi.
Jóhannes Páll II páfi þótti litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Hann eyddi 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hafði þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem var meira en allir forverar hans höfðu gert í 400 ár.
Jóhannes Páll II var mikill boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipti sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu. Fyrir páfakjörið 1978 hafði hann verið ötull andstæðingur kommúnismans og kjör hans í embættið styrkti mjög baráttu stjórnarandstöðuaflanna í heimalandi hans. Forysta Jóhannesar Páls II á páfastóli hafði hiklaust áhrif við að berja kommúnismann niður í A-Evrópu allri að lokum.
Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hans verður sennilega helst minnst þannig.
Myndin með færslunni var tekin 30. mars 2005, þrem dögum fyrir lát páfans. Þá kom hann fram í hinsta skipti í glugga herbergis síns í Vatikaninu. Hann var orðinn það veikur undir lok ævi sinnar að hann gat ekki lengur talað. Á páskum, viku fyrir lát sitt, tjáði hann sig ekki en gerði krossmark með sama hætti og er við þetta tilefni, er hann kom síðast fram opinberlega.
![]() |
Fyrsta skrefið stigið í að gera Jóhannes Pál II að dýrlingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.4.2007 | 16:10
Veiðisumarið að hefjast
Það þarf varla að taka fram að ég veiddi ekkert í þessum kostulega veiðitúr, þó vinir mínir sem eru vanir í þessum bransa náðu að fanga slatta af fiskum. Þetta var viss lærdómur og lexía, var ég vel meðvitaður um það eftir þetta að ég hef hvorki áhuga á þessu né vilja til aflabragða. Það er eflaust margt sem mér er betur gefið en að standa í slíku. Það var samt gaman að prófa þetta. Það verður því seint sagt að ég sé heltekinn af slíkum veiðiáhuga eða ætli að halda á þau mið í sumar.
Það er samt yndislegt að vera úti í náttúrunni, njóta góðs veðurs og fallegs landslags. Það ætla ég að gera í sumar, en get fullvissað lesendur um að það muni ég ekki gera með veiðistöng í hendi. Það er öðrum það betur gefið en nokkru sinni mér.
![]() |
Stangveiðisumarið hafið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.4.2007 | 14:59
Kaffibandalagið slegið af - frjálslyndir einangraðir
Virðist enginn vafi leika lengur á að Frjálslyndi flokkurinn sé orðinn einangraður í íslenskum stjórnmálum vegna afstöðu sinnar og talsmáta í þessum málaflokki. Þar er farið yfir öll mörk og fetað mjög lágkúrulega leið að flestra mati. Viðbrögð allra flokka og fólks víða í flokkalitrófinu segir meira en mörg orð um hvernig þessu útspili er almennt tekið. Því er hafnað með afgerandi hætti. Þetta virðist vera örvænting flokks sem er á mörkum þess að detta út.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þessi áhersluskerpa frjálslyndra í innflytjendamálum hefur áhrif á kosningabaráttuna. Hún virðist hafa þau áhrif fyrst og fremst að flokkurinn stendur eftir algjörlega einangraður. Það sést vel á umræðunni eftir þessa auglýsingu. Gríman féll af frjálslyndum, þeir stigu skrefið mun lengra en áður og virðast um leið um hafa einangrast. Það er enginn flokkur sem hefur lengur opið á möguleikann á samstarfi við þá.
Þegar að stofnað var til kaffibandalagsins svonefnda af stjórnarandstöðuflokkunum í haust voru margir vantrúaðir á að það væri ekta, það væri líklegt til afreka. Það sást vel af því að flokkarnir neituðu að halda sem bandalag inn í kosningarnar. Það átti bara að bíða og sjá til, næðu flokkarnir meirihluta myndu þeir taka fyrst upp viðræður um myndun stjórnar.
Nú virðist það úr sögunni. Kaffið er orðið kalt og enginn vill lengur láta reyna á að hella upp á nýtt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2007 | 23:02
1. apríl - dagur gamans og gráglettni

Það er ágætt að vera vel vakandi á svona degi. Enda eru mörg aprílgöbbin ansi frumleg, sum fara yfir mörkin í frumleika og verða einum of ýkt. Öðrum tekst þetta skrambi vel. Það var t.d. of gott til að vera satt að hér á mbl.is væri komið vefvarpsblogg. Fannst þetta of merkur viðburður til að hann væri kynntur á sunnudegi og mönnum hefði dottið 1. apríl í hug. Sorrí Óli og aðrir góðir félagar á vefdeildinni, en ykkur tókst ekki að gabba mig. :)
Fannst fyndið að heyra svo eftir Silfur Egils að RÚV hefði sett upp fyndið gabb um að hundruð trjáplantna hefðu fundist á lóð áhaldahúss Kópavogs. Þau væru geymd þar, lægju undir skemmdum og fólk gæti keypt þau fyrir slikk. Til að gera þetta trúverðugt tók Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri, þátt í gamninu. Vel gert, en samt frekar langsótt nákvæmlega á þessum degi. Allt innbú Byrgisins átti svo að bjóða upp, en dagsetningin fékk marga til að hugsa. Fyndið gabb þó.
Mér fannst gabb Stöðvar 2 alveg magnað. Þar var sagt að færri hefðu komist að en vildu þegar fyrstu úrtökuprófin fyrir nýtt varalið lögreglunnar fóru fram um helgina. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, tók þátt í gabbinu og sagði alvarlegur á svip í viðtali við Svein Guðmarsson að til greina kæmi vegna góðra viðbragða að hraða byggingu nýs lögregluskóla á Keflavíkurflugvelli og jafnframt kæmi til álita að fjölga verulega í liðinu. Bent var á leið til að skrá sig. Mjög vel heppnað, ætli margir hafi skráð sig í varaliðið?
Ég hló mjög í kvöld yfir aprílgabbi Ríkissjónvarpsins en þar var sagt frá uppboði á gömlum munum úr sögu Sjónvarpsins. Ástæða uppboðsins átti að vera tilkoma RÚV ohf. en fyrsti starfsdagur opinbers hlutafélags Ríkisútvarpsins er einmitt í dag og 77 ára sögu gömlu ríkisstofnunarinnar lauk formlega þar með. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, var sýndur hvass á brá vilja selja öll menningarverðmæti sín, leikmuni og merkilega hluti. Í bakgrunni var sýnt er málverk af fyrrum útvarpsstjórum, t.d. Markúsi Erni, voru tekin niður, til að setja á uppboðið.
Gabb RÚV og Stöðvar 2 var fyndnast. Mjög gaman af þessu. Hversu margir ætli hafi annars hlaupið apríl yfir þessum og fleirum göbbum? Stór spurning, það er já eins gott að vera vel á verði á þessum degi.
![]() |
Aprílgöbb stór og smá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.4.2007 | 21:12
Umdeildur þjóðsöngur - lögbrot Spaugstofunnar

Fékk mikil viðbrögð á umræðuna um þjóðsönginn í vikunni hér á vefnum. Eflaust mál vikunnar hérna á blogginu mínu, enda fékk ég svo mörg athyglisverð komment, bæði komment sem ég var gríðarlega ósammála og eins mjög sammála, svo var dassi af kommentum inn á milli sem voru svona mitt á milli okkar þeirra sem fanns þetta slappur húmor og þeirra sem fannst þetta bara allt í góðum gír. Merkilega víður skali sem þar var að finna. Þetta voru skemmtileg skoðanaskipti og áhugaverðar pælingar sem komu þar. Þó að ég hafi sumum verið ósammála voru skoðanaskiptin mjög góð og lifandi.
Eins og ég sagði í viðtalinu við Hrafnhildi og Gest Einar fyrir nokkrum vikum finnst mér virkilega gaman að fá komment. Það er eins og gefur að skilja svo að ég get aldrei verið sammála öllum. Ég hef reynt á þessum vef bæði að segja frá og ég er ekkert feiminn að segja mínar skoðanir, vera með lifandi skoðanir á mönnum og málefnum. Það tekst mjög vel vona ég, allavega fæ ég góð skrif frá þeim sem lesa. Það væri alveg skelfilega leiðinlegt ef við værum öll sammála um alla hluti, þó það sé auðvitað sætt og notalegt að vera sammála.
Þjóðsöngurinn er og verður umdeildur. Kannski er það niðurstaða alls þessa máls. Enda vissi ég alveg um leið og ég sagði skoðanir mínar á þessu gríni Spaugstofunnar að ég fengi ekki eintóm halelújakomment. Enda var það ekki tilgangurinn. En þetta var bara gaman að skrifa hreint út og heyra skoðanir allra sem skrifuðu. Það er alltaf gaman að heyra í lesendum og met ég mikils að hafa lesendur með skoðanir og þeir hafa fullt tækifæri til að hafa skoðun líka.
Þetta er í nær öllum tilvikum skemmtilegt en það kemur fyrir að svartur sauður sé inn á milli, þó fáir séu þeir. En það er bara þannig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)