Kaffið kólnar - gríman fellur af frjálslyndum

Jón Magnússon og Magnús Þór Hafi einhver verið í vafa á hvaða mið Frjálslyndi flokkurinn myndi sækja í kosningabaráttunni eftir að kvótaumræðan þeirra hætti að vera "kúl" er hætt við að sá vafi hverfi er Fréttablaðið í dag er lesið. Þar er birt auglýsing sem markar baráttuna, lykilbaráttumálið mikla hjá þeim er kynnt með afgerandi hætti.

Það var fyndið að sjá Guðjón Arnar Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, segja í kjördæmaþætti fyrir Norðvesturkjördæmið á Stöð 2 fyrir nokkrum dögum að innflytjendurnir fyrir vestan væru miklu betri en þeir fyrir sunnan í sollinum. Það er svona keyrt með misjafnar versíónir á innflytjendapólitíkinni um landið. Þetta er auðvitað alveg kostulegt.

Það er heldur betur farið að kólna kaffið í kaffibandalaginu þykir mér. Eða ætla kannski Samfylkingin og VG að keyra áfram á bandalagspælingum með þessum flokki næstu 40 dagana, fram að alþingiskosningum? Er ekki útséð um möguleikann á bandalagi þessara flokka í raun? Það er stór spurning sem vert er að fá svar við.

Ég skrifaði hér fyrir nokkrum dögum með þeim hætti að kaffibandalagið væri feigt. Það bendir flest til þess. Samt virðist vera hik á vinstriflokkunum í garð frjálslyndra. Þar er talað með þeim hætti að kannski geti vont batnað. Held að það séu draumórar miðað við auglýsingakeyrslu frjálslyndra.

Frjálslyndir virðast vera í miklum vandræðum. Í nýjustu könnun Gallups eru þeir á mörkum þess að detta uppfyrir, eins og við segjum. Örvænting þeirra er mikil. Það er vonandi að fólk hafni þessum flokki og forystumönnum hans í vor.

Eins dauði verður ávallt annars brauð

Húsvíkingar, vinir mínir, vonuðu langflestir að Hafnfirðingar felldu stækkun álversins í Straumsvík af skiljanlegum ástæðum. Kannski má segja að Húsvíkingar og nærsveitamenn mínir í Þingeyjarsýslum sem styðja álver við Bakka gleðjist mest í kvöld. Það skil ég mjög vel. Það má í raun finna blæ gleðinnar sveima hingað yfir í Eyjafjörðinn á þessari nóttu. Ég samfagna með Húsvíkingum. Þetta er þeirra tækifæri til að sækja fram!

Hafnarfjörður er klofinn í tvær jafnstórar fylkingar eftir atburði dagsins. Kosningin skilur eftir sig erfið úrlausnarefni - þar eru fylkingar sem börðust á banaspjótum til hinstu stundar. Baráttan var hörð, sárin eru augljós. Gangi þeim vel skoðanalausa bæjarstjóranum í Hafnarfirði og flokksfélögum hans að bera klæði á vopnin. Oft er sagt að skoðanaleysingjar séu ágætir í að bera klæði á vopnin. Það reynir á það í Hafnarfirði.

Það er oft sagt að eins dauði sé annars brauð. Þeir á Húsavík munu sækjast eftir því að nýta tækifærin sem koma til þegar að aðrir sólunda þeim. Gangi Húsvíkingum vel í sinni baráttu fyrir stóriðju. Hafnfirðingar færðu þeim glæsileg tromp til þeirrar baráttu á þessum merkilega laugardegi.


Hafnfirðingar hafna stækkun álversins

Úrslit kosninganna í HafnarfirðiHafnfirðingar höfnuðu stækkun álvers Alcan í Straumsvík í íbúakosningu í dag með 88 atkvæða mun. Ótrúlega naumt og í raun má segja að bærinn hafi skipst í tvær nærri hnífjafnar fylkingar. 6382 greiddu atkvæði gegn stækkun (50,06%) en 6294 voru meðmæltir stækkuninni (49,37%).

Úrslitin urðu enn tæpari en marga hafði órað fyrir og var spenna alla talninguna, þó andstæðingar hefðu alltaf haft yfirhöndina. Sýnt þótti er öll atkvæði á kjörfundi lágu fyrir að stækkun yrði felld, en margir töldu þó muninn gæti minnkað verulega. Það gerðist en niðurstöðu kjörfundar í dag var ekki hnekkt með utankjörfundaratkvæðum.

Þetta er vissulega nokkuð merkileg niðurstaða. Hún er táknræn og boðar endalok þessa máls. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, sagði í viðtölum eftir að úrslit lágu fyrir að ekkert yrði meira úr málinu, altént meðan að umboð núverandi bæjarstjórnar gildir þar til í júní 2010. Það er því ljóst að stækkun er úr sögunni næstu árin. Lúðvík lýsti aldrei yfir í öllu kosningaferlinu hver afstaða hans væri, sem vakti mikla athygli og hann vildi ekkert segja um hvað hann kaus eftir að úrslit lágu fyrir.

Það var gríðarleg þátttaka í þessari kosningu. Fleiri kusu um þessa deiliskipulagstillögu um stækkun álversins en í sveitarstjórnarkosningunum 27. maí 2006, sem segir alla söguna um hversu mjög bæjarbúum var umhugað um að taka afstöðu.

Þessi niðurstaða er mikið áfall fyrir álverið í Straumsvík sem brátt á fjögurra áratuga starfsafmæli og ennfremur fyrir Rannveigu Rist, sem markaði söguleg spor er hún varð forstjóri álversins fyrir áratug.

Það verður fróðlegt að sjá hver framtíð álversins verður, en Rannveig Rist lýsti því yfir þó með afgerandi hætti í kvöld að niðurstaða á þennan veg myndi marka endalok álvers í Straumsvík.


mbl.is Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri andvígir stækkun en hlynntir á kjördegi

Öll atkvæði talin á kjördegi Ljóst er nú að fleiri greiddu atkvæði gegn stækkun álvers Alcan í Straumsvík en með henni á kjörfundi í dag. Nú á aðeins eftir að telja utankjörfundaratkvæði og er úrslita að vænta fyrir miðnættið. Rétt rúmlega 200 atkvæði skilja á milli fylkinganna og virðist flest stefna í að stækkunartillagan hafi verið felld.

Það er þó beðið eftir lokatölum til að fullyrða eitthvað í þessum efnum. Utankjörfundaratkvæðin eru yfir 1000, svo að mjög mikið af atkvæðum er enn í pottinum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer er á hólminn kemur, en yfirvofandi kosningabarátta til Alþingis hafði mikil áhrif á ferli málsins.

Væntanlega munu úrslitin nú hafa enn meiri áhrif á hvernig umræðan verður síðustu 40 dagana eða þar til næstu kosningar, þingkosningarnar sjálfar, fara fram. Fari kosningin á þennan veg verður fróðlegt að sjá viðbrögð forsvarsmanna Alcan.

Rannveig Rist, forstjóri Alcan, vildi lítið segja í vefútsendingu Ríkissjónvarpsins rétt í þessu og spyr enn að leikslokum og sama sögðu forsvarsmenn fylkinganna. Það mátti þó skilja svo á henni að úrslit af þessu tagi boðaði endalok álversins í Straumsvík.

Það er alveg ljóst að þetta mál er út af borðinu fari úrslit á þennan veg. Kannski verður umræðan um eftirmálann ekki síður spennandi en kosningaferlið sem lauk með dómi Hafnfirðinga.

mbl.is Fleiri andvígir álveri en fylgjandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæpt mun það verða í Hafnarfirði

Fyrstu tölur Aðeins munar 50 atkvæðum á milli fylkinga stuðningsmanna og andstæðinga stækkunar Alcan í Straumsvík, andstæðingunum í vil í fyrstu tölum. Það stefnir í spennandi kvöld í Hafnarfirði og tæpan sigur þeirrar fylkingar sem mun sigra er á hólminn kemur.

Það var vitað að þetta yrði tæpt í Hafnarfirði, en varla svona rosalega tæpt að munaði um hvert atkvæði. Það verður væntanlega raunin. Þetta mun ráðast af fjölda utankjörfundaratkvæða en yfir 1000 atkvæði voru greidd fyrir daginn í dag. Sá stabbi verður örlagaríkur í þessu máli.

Það er mikilvægt, þó naumt verði á fylkingunum, að vilji Hafnfirðinga standi á hvorn veginn sem fer að mínu mati.

mbl.is Fylkingar nánast jafnar samkvæmt fyrstu tölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagadagur spennunnar í Hafnarfirði

Alcan Það er mikill örlagadagur í Hafnarfirði í dag - þetta er líka dagur spennunnar. Eftir tæpan klukkutíma verða birtar fyrstu tölur í kosningu bæjarbúa um deiliskipulagstillögu um stækkun álversins í Straumsvík. Jafnvel mestu spámenn Hafnfirðinga og víðar um land þora varla að spá, stuðningsmenn og andstæðingar láta þó spár sínar gossa hikstalaust. Brátt fáum við dóm Hafnfirðinga - hvað þeir vilji. Allir landsmenn bíða eftir tölum.

Það verður vissulega fróðlegt að sjá hvor fylkingin verði ofan á. Að mínu mati verða menn að standa vörð um þá niðurstöðu sem fæst, þó naumt kunni að vera á milli fylkinga. Lýðræðið er þannig jú að meirihlutinn talar, hann fékk þetta umboð í hendurnar og þá eiga menn að virða þann dóm. Að mörgu leyti finnst mér þetta íbúalýðræði til fyrirmyndar. Vel má vera að þetta hafi skipt bænum í fylkingar. En þetta er það stórt mál að Jón og Gunna í bænum á að fá valdið. Þá fæst líka enn sterkari niðurstaða en hefði verið í ellefu manna bæjarstjórn pólitískra fylkinga.

Sjálfur hef ég ekki verið að belgja mig yfir þessu máli. Hef ég að mig minnir skrifað aðeins fimm færslur sem impra á þessu. Enda er þetta svosem ekki mitt mál. Hafnfirðingar hafa þennan dóm. Álverið er í sveitarfélaginu. Íbúar þar eiga að kjósa um hvort þeir vilji svona fabrikku eður ei. Þeirra er valið. Ég lenti reyndar í skoðanakönnun Fréttablaðsins um málið um daginn. Tók ég þá í fyrsta skipti afstöðu til málsins einn með sjálfum mér. Kom mjög snöggt upp spurningin og ég svaraði án hiks, þó í raun án þess að spá mikið í því. Þó að þetta mál hafi verið básúnað í öllum miðlum hafði ég í sannleika sagt ekkert fellt neinn dóm þannig séð en það spratt fram. Ágætt alveg.

Þetta verður spennandi kvöld. Gaman að fá fyrstu tölur von bráðar og fylgjast með fram á kvöldið. Það verður áhugavert að skrifa um þetta þegar að síðasta atkvæðið hefur farið í gegnum talningu og allt er komið á hreint. Vil reyndar umfram allt dást af Hafnfirðingum að vera með rafræna kjörskrá. Nútímalegt og gott - þetta er framtíðin ætla ég rétt að vona við kjördagsvinnuna í kjördeildum.

mbl.is Yfir 8.500 manns hafa kosið í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað til Ástjarnar

Ástjörn Það er oft gaman að hugsa til liðinna daga. Ég fór t.d. að hugsa aðeins áðan þegar að ég sá gamla ferðamynd frá Ásbyrgi frá sumrinu 1988. Um leið áttaði ég mig á að tveir áratugir eru í sumar síðan að ég fór fyrst í sumarbúðirnar Ástjörn. Það er orðinn nokkur tími. Ég fór þangað tvö sumur í röð, var heilan mánuð hvort sumar. Það var lærdómsríkur og gefandi tími.

Það voru auðvitað viss viðbrigði að halda í burt að heiman, upplifa eitthvað nýtt og njóta góða veðursins á þessum slóðum. Þetta er góður tími í minningunni. Ég var ekki lengi að detta í þann gír að njóta þessa staðar, enda var svo margt við að vera og þetta var notalegur tími. Eins og gefur að skilja var fyrra sumarið lærdómur og það var gaman, tíminn leið hratt enda var svo gott veður og þetta var góð lífsreynsla í minningarbankann.

Síðara sumarið var vissulega öðruvísi. Maður vissi að hverju gengið var. Það var í minningunni skemmtilegra sumar, enda var þá svo virkilega skemmtilegur hópur saman þar. Ég kynntist fjölda góðs fólks þarna, suma hef ég haldið sambandi við og suma ekki hitt síðan. Það er eins og gengur. Það væri gaman að vita hvað varð af sumum. Skemmtilegt að hugsa aftur til þessa tíma allavega. Þetta var mjög lærdómsríkur tími, enda er ég viss um að allir sem fara á Ástjörn koma glaðari í hjartanu heim til sín. Þetta er nauðsynlegt fyrir krakka að upplifa.

Annars þekki ég auðvitað betur til annarra sumarbúða, en amma mín Hanna Stefánsdóttir var lengi aðaldriffjöðurin í rekstri sumarbúðanna við Hólavatn, en þar hefur frábært starf verið unnið. Þau sem unnið hafa þar á sviði trúarinnar hafa fært mörgum góðar minningar og eitt er víst að sumarbúðirnar eru mikils virði. Það er nauðsynlegt fyrir krakka að upplifa slíkt ævintýri. Mér fannst það allavega ævintýri að halda t.d. í Ástjörn. Þetta voru skemmtileg sumur í minningunni.

Bogi Pétursson var forstöðumaður á Ástjörn þegar að ég var þar. Hann var allt í öllu þar áratugum saman. Allir þeir sem fóru til Ástjarnar í hans tíð hugsa til hans með hlýju. Einstakur maður. Ég kynntist allavega vel minn tíma þar hvað Bogi er yndislegur og gefandi persónuleiki. Það var heilsteypt og góð mótandi reynsla að dvelja þar. Alla tíð hefur Bogi verið gulls ígildi í mínum huga eftir þennan tíma.

Það gæti meira en vel verið að maður líti bara í Ástjörn í sumar. Það er orðið langt síðan að ég hef farið þar heim í hlað. Það er eflaust margt breytt þar frá mínum tíma, en undirstaðan þar er þó sú sama og hún er mikils virði.

VG og Sjálfstæðisflokkur missa fylgi í Norðaustri

Kristján Þór Júlíusson Sjálfstæðisflokkurinn og VG tapa fylgi milli vikna í Norðausturkjördæmi í nýrri könnun Gallups. Flokkarnir eru nú næstum stórir, en VG missir sjö prósentustig og Sjálfstæðisflokkurinn missir eitt. VG er nú sjónarmun stærri, mælist enn stærstur í kjördæminu, með 29% slétt. Sjálfstæðisflokkurinn er einu og hálfu prósenti minni, eða 27,5%. Samfylkingin bætir við sig nokkuð og mælist nú með 19,4%. Framsókn bætir við sig prósenti og mælist með 17,2%. Frjálslyndir hækka og mælast með 5,2%.

Þetta er vissulega athyglisverð mæling. Það virðist vera að VG sé að missa flugið hér, enda var mælingin síðast, 36%, auðvitað með ólíkindum og vitað mál að það myndi aldrei haldast. Þetta var þeirra toppur og þeir tapa miklu fylgi milli vikna. Reyndar er enn langt eftir, það eru sex vikur til kosninga og kosningabaráttan er ekki enn hafin af fullum krafti. Enn eiga framboðin eftir að sýna á spil sín og margt enn óráðið. En þessi mæling segir sína sögu nú og fróðlegt að sjá hana birtast þarna.

Íslandshreyfingin mælist með 2,5% fylgi í þessari könnun hér í Norðausturkjördæmi. Mér þykir það mikið miðað við að enn er ekki komið á hreint hver verði leiðtogi listans hér eða hver keyrsla framboðsins verður hér á þessu svæði. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Íslandshreyfingin verði komin með lista og kjördæmaleiðtoga fyrir kjördæmaþátt Stöðvar 2 á miðvikudaginn, en þar verður fjallað um málefni kjördæmisins og þá fáum við nýja könnun, 800 manna úrtak, sem segir eflaust enn aðra sögu.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóra á Akureyri, að Sjálfstæðisflokkurinn sígi enn. Það er farið að halla á þriðja manninn, Ólöfu Nordal, í þessari mælingu. Einar Már er aftur kominn inn og VG missir flugið. Miðað við þessar tölur er erfitt að spá hvar neðri mörk þingmannatals kjördæmisins lendir. Höskuldur Þórhallsson gæti alveg dottið inn fyrir Framsókn haldi þeir áfram svona og Lára eygir möguleika fari þau að mælast yfir 20% markið. Þannig að spurningamerkin eru mörg.

Það var alltaf vitað að VG myndi missa damp og færi aldrei yfir 30%, svo að þetta kemur ekki að óvörum. En staða Sjálfstæðisflokksins er vissulega umhugsunarverð, enda verður þessi mæling varla viðunandi fyrir fólk þar, enda má alveg búast við skekkjumörkum, og í raun gæti vel verið að Sjálfstæðisflokkurinn liggi innan við 25% markið. Það þarf að vinna betur á þeim bænum ætli menn að vinna þessar kosningar, það er alveg ljóst.

En þetta verður spennandi kosningabarátta. Öll horfum við með áhuga á kjördæmaþáttinn á miðvikudag og verður gaman að sjá kjördæmaleiðtogana í panel að ræða kosningamálin.

Arfaslök stjórnarskrártillaga fær falleinkunn

Fiskur Ég hef ekki farið leynt með að ég var mjög ósáttur við nýlega stjórnarskrártillögu í auðlindamálum. Hún rann út í sandinn og var engum til sóma. Þjóðin fellir sinn dóm í þessari könnun - ég er algjörlega sammála því mati! Það kann aldrei góðri lukku að stýra að ætla að koma með breytingar á stjórnarskrá undir hita og þunga kosningabaráttu þegar að kortér lifir af kjörtímabilinu.

Það er afleitt verklag að ætla að leggja stjórnarskrána undir eins og peningaseðil í Vegas. Þetta var hreinræktað fíaskó og hvorugum stjórnarflokknum til sóma að mínu mati. Það var líka enn eitt klúðrið að halda að stjórnarandstaðan, eins gloppótt og hún er, myndi hjálpa þeim við þetta klúður. Það verður seint sagt að þetta mál hafi aukið tiltrú á þingi og stjórnmálaflokkum landsins. Ég sem kjósandi þessa lands horfði á þetta mál og botnaði vart í því. Ég gladdist mjög þegar að það dagaði uppi. Það voru fyrirsjáanleg endalok að mínu mati.

Það var svolítið kostulegt að horfa á þetta mál. Persónulega sagði ég mitt mat á þessu þegar að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, steig fram með óskiljanleg ummæli. Það varð ljóst að Framsóknarflokkurinn gat ekki bakkað úr því nema að þurfa að kokgleypa hið súra. Það var öllum ljóst í þessu máli að Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki heill við þetta samkomulag sem gert var. Ég skrifaði aldrei til stuðnings því. Þegar að sýnt var hverskonar óefni allt væri komið í og menn væru með strandað mál í höndunum fór auðvitað svo að það var slegið af. Enda ekkert annað hægt.

Mér finnst það ábyrgðarhluti að ætla að keyra svona tillögu í gegnum þingið 60 dögum fyrir alþingiskosningar. Stjórnarandstaðan boðaði samkomulag við Framsóknarflokkinn um málið, en bakkaði svo auðvitað frá því er samkomulag náðist. Þau voru viss um að stjórnarflokkarnir gætu ekki landað samkomulagi um málið. Öll fögru fyrirheit stjórnarandstöðunnar fuðruðu upp eins og smjörklípa á glóðheitri pönnu. Loforðið sem boðað var meðan að formaður Samfylkingarinnar vísiteraði Klörubar á Kanarí reyndist vera haldlítið blaðurbomba er á hólminn kom. Var einhver hissa?

Þetta mál minnti mig allt á einn farsa. Mér fannst allir flokkar klikka í því. Sjálfstæðisflokkurinn átti að halda fastur við sitt og setja það grundvallarmarkmið að menn semdu ekki um stjórnarskrána á næturfundum. Það var orðið of seint að koma með svona tillögu í hráskinnaleik við stjórnarandstöðuna 60 dögum fyrir kosningar. Þetta var dauðadæmt mál og í alla staði vont. Ég get ekki stutt það og tek því að sjálfsögðu undir það að stjórnarflokkarnir brugðust í þessu máli. Ég sá mér allavega ekki fært að styðja þeirra verklag og vera með á þeirri vegferð.

Það er svolítið skrítið að hugsa til þessa máls. Það er auðvitað með ólíkindum að menn hafi verið til í að eyða dögum og nætum örfáa daga undir tímapressu að keyra í gegn svona tillögu. Það var í alla staði óraunverulegt, enda strandaði málið. Ég var hissa á jafnreyndum stjórnmálamanni og Geir H. Haarde er að leggja slíkt fram. En svo fór sem fór. Má vel vera að það hafi verið gert í góðu til að bjarga þessu tólf ára samstarfi. En sum prinsipp sín er ekki hægt að gleypa.

Þetta mál fékk sín eftirmæli sem málið sem strandaði í fjörunni. Það var eins og það er. Það átti aldrei séns, einfalt mál!

mbl.is Meirihluti telur frumvarp um þjóðareign hafa dregið úr trausti á stjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntaskólinn í Reykjavík sigrar í Gettu betur

Gettu betur Menntaskólinn í Reykjavík vann glæsilegan sigur í Gettu betur fyrir stundu í bráðabana eftir hörkuspennandi úrslitaviðureign við Menntaskólann í Kópavogi. Liðin voru jöfn eftir hraðaspurningar, bæði með 20 stig. Eftir því sem leið á bjölluspurningarnar jókst forskot MK og flest stefndi orðið í sigur þeirra.

Með því að landa þrem stigum fyrir þríþrautina náði MR að jafna MK undir lokin og knýja fram bráðabana. Þetta var spennuþrungin stund og mátti heyra saumnál detta í sjónvarpsútsendingunni er haldið var í bráðabanann og liðin voru jöfn, bæði með 27 stig. Tókst MR að svara tveim spurningum í bráðabana og með því landa sigri. Ævintýralega skemmtilegt kvöld og mikil spenna. Svoleiðis á það auðvitað að vera á úrslitakvöldi, ekki satt?

Þetta er í þrettánda skipti sem MR sigrar í Gettu betur, frá því að keppnin hófst árið 1986. Skólinn sigraði fyrst árið 1987, en síðan vann skólinn keppnina í heil ellefu ár í röð, á árunum 1993-2003. Það var ótrúleg sigurganga, sem andstæðingum þeirra á þessu langa tímabili gramdist mjög í geði vissulega en gerði þá sigursælasta lið í sögu keppninnar. Þeir hafa stundum staðið nærri sigri síðan og landa nú þrettánda sigrinum. Þeir hljóta að vera ansi glaðir í kvöld með sitt.

Mér fannst MR-liðið það langbesta í ár. Mjög sterkt og gott lið. MK var klárlega næstbesta liðið, þeir komu rosalega á óvart og stimpluðu sig rækilega inn á kortið. Þetta er lið sem hefur vaxið alveg rosalega í gegnum allt ferlið og þeir eru varla síðri sigurvegarar í kvöld í raun. Þetta var svo tæpt að þetta gat í raun fallið á hvorn veginn sem var. En tvö glæsileg lið sem stóðu sig firnavel. En sárindi MK-inga hljóta að vera mikil, en þeir geta verið stoltir með sitt þó.

Bloggvinur minn, Magnús Þorlákur Lúðvíksson, er í sigurliði MR ásamt Birni Reyni Halldórssyni og Hilmari Þorsteinssyni. Ég óska þeim innilega til hamingju og auðvitað öllum MR-ingum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að MR sé að fara að feta í aðra eins langa sigurgöngu og áður, eftir svolítið erfitt tímabil síðustu fjögur árin.

mbl.is MR-ingar höfðu betur í Gettu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG sígur - Íslandshreyfing jafnstór frjálslyndum

Könnun (30. mars 2007) VG virðist vera að missa flugið ef marka má nýjustu könnun Gallups. Engu að síður er hann næststærsti flokkurinn, mælist með 24% fylgi og er fjórum prósentustigum stærri en Samfylkingin, sem er á mörkum þess að komast aftur yfir 20% múrinn sem hann mældist með í síðustu könnun, í fyrsta skipti í yfir fimm ár. Íslandshreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn eru jafnstór með rétt rúmlega 5% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við örlitlu við sig og mælist í 36,7% fylgi á meðan að Framsóknarflokkurinn dalar og mælist með 8,3% fylgi. Ríkisstjórnin er því fallin skv. könnuninni með innan við 45% fylgi. Bæði frjálslyndir og Íslandshreyfing komast naumlega yfir 5% mörkin. Athygli vekur hversu tæpt báðir flokkar standa og er staða þeirra mjög brothætt. Myndu mörg atkvæði þeirra detta uppfyrir komist þeir ekki yfir mörkin. Svo gæti farið falli bæði framboð uppfyrir eins og sagt er að staðan breytist það mikið að ríkisstjórnin gæti haldið velli með langt innan við helming atkvæða.

Fylgi Íslandshreyfingar hlýtur samt að vera mikil tíðindi, miðað við að enn liggur þar varla fyrir kosningastefna og frambjóðendur. Margir hafa þó eflaust átt von á meiru. Það vekur athygli að VG missir 4 prósent milli kannana og virðist Íslandshreyfingin taka mesta kúfinn af fylgissveiflu þeirra. Þetta er það sem margir bjuggust við en sést mjög afgerandi þegar í þessari könnun. Það að Sjálfstæðisflokkurinn bæti við sig milli vikna er Íslandshreyfingin kemur fram vekur allavega mikla athygli. Samfylkingin virðist ekki skaðast á tilkomu þessa flokks núna, en hann hefur þó minnkað það mikið að kannski hafa þeir náð botninum og þessi fylgiskjarni þegar farinn þaðan og til VG.

Fylgið er allavega á miklu flökti og mikil spenna framundan. Á morgun eru sex vikur til alþingiskosninga. Það blasir við að baráttan fer ekki að fullu af stað fyrr en eftir páska. Baráttan verður að megninu spiluð á þeim mánuði sem þá verður eftir. Landsfundir Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru eftir hálfan mánuð og viðbúið að þar verði meginkosningabarátta beggja flokka endanlega mörkuð og gangsett af miklum krafti.

Kannanir sýna mjög breytta mynd frá síðustu kosningum. Tilkoma nýrra flokka hefur merkileg áhrif á heildarmyndina og greinilegt t.d. að nýtt hægri grænt framboð tekur af því vinstri græna. Það má því kannski eiga von á flökti fylgis þar á milli næstu vikurnar. Hver veit. Kannanir hafa reyndar gefið vel til kynna að umhverfismálin eru ekki efst í huga fólks, heldur velferðar- og efnahagsmálin.

mbl.is Margrét: Stjórnmál 21. aldar snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar Björns - skjálfti andstæðinganna

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem er einn fremsti sérfræðingur landsmanna í öryggis- og varnarmálum, flutti í gær merkilegt erindi á fundi sem SVS og Varðberg boðuðu til. Þar ræddi hann um þau miklu þáttaskil sem fylgdu brotthvarfi varnarliðsins í september 2006 og þeim úrlausnum sem því fylgdi fyrir íslensk stjórnvöld. Verkefnin sem þessum breytingum fylgja falla að verulegu leyti undir ráðuneyti hans.

Hann ræddi þar um tregðu Íslendinga til að axla sjálfir ábyrgð á eigin öryggi en viðfangsefnin hafi breyst og færst nær borgurunum í ríkara mæli en áður í stað þess að snúast um landvarnir. Gæsla öryggis borgaranna er enda að hans mati ekki utanríkismál, heldur mjög mikilvægt innanríkismál hvers ríkis. Er ég mjög hlynntur því mati enda er það málefni okkar en ekki alheimsins hvernig búið er að vörnum landsins. Þetta er mikilvægt að ræða fordómalaust og opinskátt.

Það kemur engum að óvörum að ræða Björns kallar fram ergju og biturð vinstrimanna. Það er ekki nein tíðindi sem gömul eru vissulega. Nú hefur Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, stigið fram og sett gömlu plötuna á fóninn; Björn sé að boða íslenskan her og allt hvað heitir. Það var einu sinni hægt að hlæja að þessu blaðri hans Össurar, en ég held að það sé ekki rétt núna. Þess í stað held ég að rétt sé að vorkenna Össuri og hans fólki í Samfylkingunni. Það gefur á bátinn þeirra núna og skiljanlegt að reynt sé að tyggja einhverjar gamlar klisjur, í von um að einhver trúi þeim.

Hvað þessar tillögur varðar finnst mér mjög mikilvægt að menn velti fram nýjum hugmyndum. Alvöru stjórnmálamenn verða að þora að segja það sem þeim finnst og þora að koma með hugmyndir sem velta upp nýjum flötum, fá fram umræðu og málefnaleg skoðanaskipti. Það er leitt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar detti í sama vandræðagírinn og kjósi að koma fram með ómálefnalegum hætti í umræðu sem á að vera alvöru, alvöru í því skyni að varnir landsins eru ekkert afgangsmál. Skoðanakannanapólitík Samfylkingarinnar er enda orðin aðhlátursefni fyrir löngu.

Að því leyti fagna ég sérstaklega tillögum Björns. Hann hefur alla tíð þorað að tjá skoðanir sínar, verið beittur stjórnmálamaður og vinnusamur. Það eru stóru kostir hans sem stjórnmálamanns. Þar fer maður skoðana sem þorir að velta upp nýjum flötum í umræðuna. Eins og allir sjá sem lesa vefinn hans fer þar nútímalegur stjórnmálamaður með afdráttarlausar stjórnmálaskoðanir. Það er gott mál.

mbl.is Áhersla á heimavarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spenna í Hafnarfirði - kjördagur á morgun

Alcan Það stefnir í spennandi kosningu um stækkun Alcan í Straumsvík í kosningu bæjarbúa í Hafnarfirði á morgun. Þetta er kosning sem fylgst er mjög með um allt land, enda gæti niðurstaðan orðið örlagarík fyrir kosningabaráttuna til Alþingis. Merkilegast við kosningabaráttuna er þó hiklaust að bæjarstjóranum í Hafnarfirði hefur tekist að tala um málið mánuðum saman án þess að taka afstöðu. Afrek það.

Það er auðvitað mjög áberandi að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa ekki sagt bofs um málið. Margir þeirra, sérstaklega Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, og Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar og leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, hafa talað um málið án þess að leggja sína skoðun fram. Þar virðist talað svo ekki þurfi að styggja forystu Samfylkingarinnar sem tekið hefur afgerandi afstöðu gegn stækkun. Merkileg staða, sem vekur athygli langt út fyrir Hafnarfjörð.

Falli tillagan verður sennilega talað um að Samfylkingin hafi stýrt málinu rétta leið í kosningaferli og verið ábyrg og flott - verði hún samþykkt muni VG segja að Samfylkingin hafi leitt málið til sigurs fyrir Alcan í Hafnarfirði eflaust. Við megum ekki gleyma því að Ögmundur Jónasson er kominn í framboð á kragasvæðinu eftir tólf ára þingsetu fyrir Reykjavík. Sú tilfærsla var mjög til marks um að keyra ætti t.d. á þessu máli og andstöðu VG við það, enda hefur VG tekið mjög afgerandi afstöðu gegn stækkun.

Er á hólminn kemur er kosið um framtíðina þarna. Vill fólk stærri stóriðjukost í nágrenni bæjarins og eða jafnvel eiga á hættu að missa álverið. Síðarnefnda planið er greinilega aðaltaktík þeirra hjá Alcan og stuðningsmanna álversins; að það muni fara verði það ekki stækkað. Einnig verður höfðað til þess hversu stór þáttur Alcan sé á svæðinu í atvinnumálum og þessháttar og hversu miklar tekjur komi frá þeim til bæjarins.

Mér finnst umræðan hafa snúist talsvert á nokkrum vikum. Fyrir jólin hefði ég spáð því að tillagan myndi kolfalla með einhverjum mun. Er ekki eins viss í dag og spái því að þetta geti farið á hvorn veg sem er, jafnvel að tillagan verði samþykkt. Hallast frekar að samþykkt skipulagsins frekar en hitt.

Mikla athygli mína hefur reyndar vakið að ekki skyldi kosið um stækkunina samhliða alþingiskosningum þann 12. maí, eftir 44 daga, en þess í stað kosið viku fyrir páskahátíðina. Það er greinilega mat meirihluta Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að þetta mál þurfi að klárast fyrir lokasprett kosningabaráttu til þings.

Í atkvæðagreiðslunni er í fyrsta sinn í Hafnarfirði notast við rafræna kjörskrá en það þýðir að kjósendur eru ekki bundnir af kjördeildum. Það er flott hjá þeim. Annars hefur blasað við að þetta sé meginumræðuefnið í kjördæminu síðustu vikur og flestir bíða spenntir eftir úrslitunum.

Það fróðlegt að sjá á hvorn veginn þetta fer er á hólminn kemur.


mbl.is Taugatitringur fyrir álverskosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlegt virðingarleysi í samfélaginu

Það er skelfilegt að lesa fréttir af því að fólk ráðist á eldri borgara, að tilefnislausu algjörlega að því er virðist. Í þessari frétt ráðast tveir menn á eldri mann, á áttræðisaldri. Það er því miður að verða svo að svona fréttir eru hættar að vera einstakt fyrirbæri, þetta er orðið alltof algengt. Það er eiginlega ekki undrunarefni að maður hugsi við að lesa svona fréttir á hvaða leið samfélagið okkar sé eiginlega.

Er virðingarleysið orðið algjört? Því miður er ekki hægt annað en hugsa á þeim forsendum. Hvers vegna ætti yngra fólk að ráðast að tilefnislausu að ráðast á gamalt fólk nema vegna þess að eitthvað sé stórlega að. Þetta er grimmd og mannvonska af verstu sort. Það þarf svosem ekkert að rökstyðja það frekar. Svona fréttir eru napur vitnisburður þess hvernig samfélagið er orðið að mörgu leyti.

Merkilegast við þessa frétt fannst mér, fyrir utan auðvitað að ráðist var á eldri borgara, að það þurfti að nota maze-úða á annan árásarmanninn og fjórir lögreglubílar héldu í útkallið. Sjokkerandi. En já, það er víst árið 2007, segir einhver. En þetta er sorglegt, engu að síður.

mbl.is Ráðist á mann á áttræðisaldri á Miklubrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt hjá Þorvaldi Davíð

Þorvaldur Davíð Það er gleðiefni að Þorvaldur Davíð hafi hlotið inngöngu í Juilliard-listaháskólann í New York. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur inngöngu í leiklistardeildina þar. Fá orð þarf svosem að hafa um Juilliard, en það er auðvitað einn af fremstu listaháskólum heims og þarf að vera mjög fær á sínu sviði í listinni til að komast þar inn.

Þorvaldur Davíð er mjög efnilegur leikari, hefur staðið sig vel og fyrir löngu vakið athygli hér heima fyrir verk sín. Ég óska honum góðs gengis í Juilliard þegar að hann heldur til New York og hann eigi góðan og glæsilegan feril.

mbl.is Þorvaldur Davíð hlaut inngöngu í Juilliard
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dorrit lærbrotnar á skíðaferðalagi í Aspen

Dorrit Dorrit Moussaieff, forsetafrú, lærbrotnaði á skíðaferðalagi í Aspen í Bandaríkjunum í vikunni. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur nú haldið til Bandaríkjanna til að vera við hlið hennar. Forsetahjónin hafa oft haldið til Aspen á skíði, en þangað heldur jafnan ríka og fræga fólkið til útivistar, og frægt varð þegar að þau voru stödd þar á aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi 1. febrúar 2004.

Átta ár eru á þessu ári síðan að Ólafur Ragnar axlarbrotnaði í útreiðartúr á Suðurlandi. Það var þá sem þjóðin kynntist fyrst eiginlega Dorrit, en fréttamyndirnar af henni stumrandi yfir forsetanum og er hann var fluttur til Reykjavíkur urðu frægar.

Forsetafrúin mun hafa farið í aðgerð vegna lærbrotsins og dvelur á sjúkrahúsi í Colorado. Ég óska henni góðs bata.

mbl.is Dorrit lærbrotnaði í skíðaslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómaður ellismellur syngur í Höllinni

Sir Cliff Richard Ellismellurinn Sir Cliff Richard söng öll sín þekktustu lög á litríkum tónlistarferli í Laugardalshöll í gærkvöldi. Það hafa væntanlega margir verið ánægðir með það að fá hann loks til landsins, en merkilegt nokk hefur hann aldrei komið hingað fyrr.

Það verður seint sagt að ég sé aðdáandi Cliffs, en ég kynntist honum þó fyrir margt löngu enda áttu foreldrar mínir það sameiginlegt að hafa gaman af tónlist hans merkilegt nokk og áttu einhverjar plötur með honum. Sir Cliff kom vel fyrir í Kastljósviðtali á mánudag, sem var áhugavert að sjá. Cliff á mörg góð lög.

Hann er partur af Eurovision-sögunni eftir að hafa næstum því tekist að vinna Eurovision árið 1968 með Congratulations. Silvía Nótt og Cliff Richard eiga ekki margt sameiginlegt en hafa þó bæði sungið í Eurovision með lag undir þessu heiti.

Uppáhaldslag mitt með Cliff, það eina sem ég hef fyrir alvöru fílað fyrir utan Congratulations, er Summer Holiday, sígilt og gott lag. Það er hér í spilaranum.

mbl.is Sir Cliff Richards á tónleikum í Laugardalshöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórundarlegur dómur

Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa þegar að ég sá fréttina um dóm héraðsdóms Norðurlands vestra í þessu myndsímamáli. Mjög athyglisvert. Það er eitthvað alveg nýtt að ákæruvald hafi þurft að sýna fram á kynferðislega örvað hugarástand til að fá menn dæmda fyrir brot á 209. grein hegningarlaganna. Það hefur hingað til þótt nóg að fyrir liggi að ákærðir fremdu tiltekna athöfn sem særði blygðunarkennd fólks.

Það getur varla annað verið en að þessum dómi verði áfrýjað og honum snúið við fyrir Hæstarétti Íslands. Fátt annað hægt að segja svosem um þetta.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spænskur sigur á Mallorca - vondar leikaðstæður

Úr leik Spánverja og Íslendinga Horfði áðan á leik Íslands og Spánar sem fram fór á Mallorca. Þetta var bara nokkuð skemmtilegur leikur miðað við markaþurrðina í bleytunni. Leikaðstæður voru vægast sagt vondar, en það hellirigndi allan tímann og mátti vart á milli sjá hvort þetta væri mýrarbolti eða fótbolti.

Spánverjar eru komnir með 9 stig eftir fimm leiki en Ísland er með þrjú stig eftir fimm leiki. Vonandi gengur betur í næstu leikjum.

Árni Gautur var maður leiksins - hann stóð sig virkilega vel. Alveg virkilega góður dagur hjá honum. Leitt að ekki tókst að skora.

mbl.is Spánverjar sigruðu Íslendinga 1:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn stærstir í NV - VG í mikilli sókn

Fylgi í Norðvesturkjördæmi Stöð 2 hóf kosningaumfjöllun sína fyrir stundu, 46 dögum fyrir alþingiskosningar, með kosningafundi í Stykkishólmi og skoðanakönnun í Norðvesturkjördæmi. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur flokka en VG er í mikilli sókn og rúmlega tvöfaldar kjörfylgið á meðan að Samfylking, Frjálslyndi flokkurinn og Framsóknarflokkur tapa fylgi en Íslandshreyfingin nær ekki miklu flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn, VG og Samfylking mælast með tvö þingsæti í könnuninni en Framsókn og Frjálslyndir mælast með einn mann. Skv. því eru inni; Sturla Böðvarsson og Einar Kristinn Guðfinnsson (Sjálfstæðisflokki), Jón Bjarnason og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (VG), Guðbjartur Hannesson og Karl V. Matthíasson (Samfylkingu), Magnús Stefánsson (Framsókn) og Guðjón Arnar Kristjánsson (Frjálslynda flokknum). Ekki var sagt hvaða framboð hefði jöfnunarsætið þó líklegast sé að það færi til Sjálfstæðisflokks í þessari mælingu.

Sjálfstæðisflokkurinn: 28,4% - fékk 29,6% í kosningunum 2003
VG: 23% - fékk 10,6% í kosningunum 2003
Samfylkingin: 20,6% - fékk 23,2% í kosningunum 2003
Framsóknarflokkurinn: 14,3% - fékk 21,7% í kosningunum 2003
Frjálslyndir: 9,7% - fékk 14,2% í kosningunum 2003
Íslandshreyfingin: 2,9%

Stöð 2 var með góða umfjöllun í kvöld frá Stykkishólmi. Góðar viðræður og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra þriggja gömlu kjördæma sem mynda Norðvesturkjördæmi. Egill Helgason var með athyglisverða umfjöllun og vandaða. Aðeins karlmenn leiða lista flokkanna fimm sem eiga þingsæti í kjördæminu. Enn er ekki vitað hver leiðir lista Íslandshreyfingarinnar í Norðvesturkjördæmi, frekar en almennt um allt land. Íslandshreyfingin átti engan fulltrúa í þættinum, enda enginn listi þar kominn fram.

Í þættinum var að mestu rætt um atvinnu- og samgöngumál. Það er alveg ljóst að þetta verða stóru málefni kosningabaráttunnar á landsbyggðinni. Það er svosem engin furða, enda lykilmál þar algjörlega. Það skilja allir á svona víðfeðmu svæði, dreifbýlisbyggðunum, en sennilega eru mestar vegalengdir í Norðvesturkjördæmi af öllum kjördæmunum sex. Annars eru landsbyggðarkjördæmin þrjú mjög víðfeðm og erfið viðureignar. Það vita allir sem um þau hafa ferðast. Það er enda mikið verkefni að vera frambjóðandi þar og þurfa að sinna mjög ólíkum svæðum.

Áberandi var að sjá hversu innantómur Jón Bjarnason, leiðtogi VG, var í viðræðunum. Þar var tuggið mjög litlaust á gömlum klisjum og innantómu blaðri. Engin ný sýn eða ferskleiki. Það voru að mínu mati merkilegustu tíðindi umræðunnar hversu lítið kom frá honum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Jón heldur flugi í gegnum kosningabaráttuna með svona boðskap. Guðbjartur talaði af meiri viti og stóð sig mun betur. Guðjón talaði mikið um innflytjendamálin og greinilegt að frjálslyndir ætla að reyna að redda sér á því tali. Sturla stóð sig mjög vel.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Norðvesturkjördæmi eins og annarsstaðar. Þessi könnun sýnir vel bylgjuna til VG og ennfremur að Framsókn og Samfylking eru í varnarbaráttu. Annars er þetta besta mæling Samfylkingarinnar um nokkuð skeið á þessu svæði, en það er greinilegt að þeir bæta ekki við sig á kostnað VG, en lítill munur er á milli fylkinganna. Greinilegt er að Frjálslyndir styrkjast ekki á innkomu Kristins H. Gunnarssonar, Framsókn dalar mjög og Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu fylgi.

Stöð 2 á heiður skilið fyrir góða umfjöllun. Þeir sendu fréttir út líka frá Stykkishólmi. Vel gert hjá þeim og vandað. Þeir starta kosningaumfjölluninni með glans fyrst ljósvakamiðlanna. Sýna þeir vel að einkareknir fjölmiðlar geta sinnt því mjög vel að fjalla um stjórnmálin og málefni landsbyggðar. Kannski er það vegna þess að maður frá landsbyggðinni stýrir fréttastofunni þar, enda er Sigmundur Ernir Rúnarsson Akureyringur að uppruna. Þeir ætla ekki að vera með síðri umfjöllun en NFS sáluga í kosningunum fyrir ári.

Það verður fróðlegt að sjá mælingu flokkanna í Norðausturkjördæmi eftir viku, en þá verður útsending frá Akureyri og umræður leiðtoga flokkanna og birt könnun Félagsvísindastofnunar á fylgi framboðanna sex sem verða hér.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband