Sjálfstæðismenn stærstir í NV - VG í mikilli sókn

Fylgi í Norðvesturkjördæmi Stöð 2 hóf kosningaumfjöllun sína fyrir stundu, 46 dögum fyrir alþingiskosningar, með kosningafundi í Stykkishólmi og skoðanakönnun í Norðvesturkjördæmi. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur flokka en VG er í mikilli sókn og rúmlega tvöfaldar kjörfylgið á meðan að Samfylking, Frjálslyndi flokkurinn og Framsóknarflokkur tapa fylgi en Íslandshreyfingin nær ekki miklu flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn, VG og Samfylking mælast með tvö þingsæti í könnuninni en Framsókn og Frjálslyndir mælast með einn mann. Skv. því eru inni; Sturla Böðvarsson og Einar Kristinn Guðfinnsson (Sjálfstæðisflokki), Jón Bjarnason og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (VG), Guðbjartur Hannesson og Karl V. Matthíasson (Samfylkingu), Magnús Stefánsson (Framsókn) og Guðjón Arnar Kristjánsson (Frjálslynda flokknum). Ekki var sagt hvaða framboð hefði jöfnunarsætið þó líklegast sé að það færi til Sjálfstæðisflokks í þessari mælingu.

Sjálfstæðisflokkurinn: 28,4% - fékk 29,6% í kosningunum 2003
VG: 23% - fékk 10,6% í kosningunum 2003
Samfylkingin: 20,6% - fékk 23,2% í kosningunum 2003
Framsóknarflokkurinn: 14,3% - fékk 21,7% í kosningunum 2003
Frjálslyndir: 9,7% - fékk 14,2% í kosningunum 2003
Íslandshreyfingin: 2,9%

Stöð 2 var með góða umfjöllun í kvöld frá Stykkishólmi. Góðar viðræður og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra þriggja gömlu kjördæma sem mynda Norðvesturkjördæmi. Egill Helgason var með athyglisverða umfjöllun og vandaða. Aðeins karlmenn leiða lista flokkanna fimm sem eiga þingsæti í kjördæminu. Enn er ekki vitað hver leiðir lista Íslandshreyfingarinnar í Norðvesturkjördæmi, frekar en almennt um allt land. Íslandshreyfingin átti engan fulltrúa í þættinum, enda enginn listi þar kominn fram.

Í þættinum var að mestu rætt um atvinnu- og samgöngumál. Það er alveg ljóst að þetta verða stóru málefni kosningabaráttunnar á landsbyggðinni. Það er svosem engin furða, enda lykilmál þar algjörlega. Það skilja allir á svona víðfeðmu svæði, dreifbýlisbyggðunum, en sennilega eru mestar vegalengdir í Norðvesturkjördæmi af öllum kjördæmunum sex. Annars eru landsbyggðarkjördæmin þrjú mjög víðfeðm og erfið viðureignar. Það vita allir sem um þau hafa ferðast. Það er enda mikið verkefni að vera frambjóðandi þar og þurfa að sinna mjög ólíkum svæðum.

Áberandi var að sjá hversu innantómur Jón Bjarnason, leiðtogi VG, var í viðræðunum. Þar var tuggið mjög litlaust á gömlum klisjum og innantómu blaðri. Engin ný sýn eða ferskleiki. Það voru að mínu mati merkilegustu tíðindi umræðunnar hversu lítið kom frá honum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Jón heldur flugi í gegnum kosningabaráttuna með svona boðskap. Guðbjartur talaði af meiri viti og stóð sig mun betur. Guðjón talaði mikið um innflytjendamálin og greinilegt að frjálslyndir ætla að reyna að redda sér á því tali. Sturla stóð sig mjög vel.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Norðvesturkjördæmi eins og annarsstaðar. Þessi könnun sýnir vel bylgjuna til VG og ennfremur að Framsókn og Samfylking eru í varnarbaráttu. Annars er þetta besta mæling Samfylkingarinnar um nokkuð skeið á þessu svæði, en það er greinilegt að þeir bæta ekki við sig á kostnað VG, en lítill munur er á milli fylkinganna. Greinilegt er að Frjálslyndir styrkjast ekki á innkomu Kristins H. Gunnarssonar, Framsókn dalar mjög og Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu fylgi.

Stöð 2 á heiður skilið fyrir góða umfjöllun. Þeir sendu fréttir út líka frá Stykkishólmi. Vel gert hjá þeim og vandað. Þeir starta kosningaumfjölluninni með glans fyrst ljósvakamiðlanna. Sýna þeir vel að einkareknir fjölmiðlar geta sinnt því mjög vel að fjalla um stjórnmálin og málefni landsbyggðar. Kannski er það vegna þess að maður frá landsbyggðinni stýrir fréttastofunni þar, enda er Sigmundur Ernir Rúnarsson Akureyringur að uppruna. Þeir ætla ekki að vera með síðri umfjöllun en NFS sáluga í kosningunum fyrir ári.

Það verður fróðlegt að sjá mælingu flokkanna í Norðausturkjördæmi eftir viku, en þá verður útsending frá Akureyri og umræður leiðtoga flokkanna og birt könnun Félagsvísindastofnunar á fylgi framboðanna sex sem verða hér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það verða stórtíðindi fái VG yfir 20% í Norðvesturkjördæmi miðað við slaka frammistöðu Jóns Bjarnasonar í þessum þætti. Þeim er sennilega mestur greiði gerður þarna með því að sýna hann sem minnst.

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.3.2007 kl. 21:32

2 identicon

Þjóðin fagnar með V.G. Bráðum verða ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna aðeins bitur endurminning sem hverfur með tímanum. Tíminn læknar öll sár. Og það verður greinilega Vinstri grænum að þakka. Alúðarkveðjur!

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 21:37

3 identicon

SIGURVEGARAR hér sem annars staðar á landinu eru Vinstri grænir en þeir sem tapa eru Frjálsblindir og Framsókn, eins og annars staðar. Auðvitað getur einkarekin stöð fjallað um þessi mál. Það væri nú annað hvort.

Steini Briem (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 22:52

4 Smámynd: Kolgrima

Það er alltaf spennandi þegar það er rífandi gangur hjá einhverjum í pólitík - krafturinn, bjartsýnin og hugsjónirnar ná að hrífa alla með, líka þá sem ekki eru sammála. Það verður einfaldlega svo gaman að takast á og skiptast á skoðunum. Trúa á það sem barist er fyrir!

Ég get alveg sagt ykkur Jóni, þótt annar gleðjist yfir gengi VG og hinn yfir Sturlu, að það er nákvæmlega ekkert að gerast í Norðvesturkjördæmi. Það er engin kosningabarátta, enginn eldmóður. Nema ef til vill í fámennum hópi. Fólk lætur sér mestan part fátt um finnast og ótrúlega margir eru óákveðnir.

Það er miklu skemmtilegra og mun meira spennandi að fylgjast með því sem er að gerast hjá ykkur (og Reykvíkingum). Nema fjarlægðin geri fjöllin blá?

Kolgrima, 29.3.2007 kl. 04:36

5 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Mér fannst Guðbjartur og Magnús koma best frá þessum fundi. Jón Bjarnason var ótrúlega slakur - hafði ekki fram að færa.

Sturla og Guðjón sluppu þokkalega frá þessu. Ég er nokkuð viss um að VG fá ekki þessa niðurstöðu í kjördæminu, Sjálfsstæðisflokkurinn minnkar, frjálslyndir og Samfylking fá meira en þessi könnun gefur að kynna. Mín spá S - 3 menn, D- 2 menn, VG - 2 menn, B - 1 maður, F - 1 maður. Hin öfluga kona Anna Kristín Gunnarsdóttir heldur með þessu, verðskuldað, þingsæti sínu. 

Eggert Hjelm Herbertsson, 29.3.2007 kl. 09:24

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

STebbi...þú ert ótrúlegur. Þér tekst að sleppa því að tala um að Sjallar tapa þarna og þeir tapa manni. Uppbótarsætið er ekki neitt frekar þeirra en annrra...það byggist á fylgi annarsstaðar og ekkert hægt að sjá út úr því þarna. Samfyliknginin er að ná vopnum sínum eins og ég vissi að mundi gerast. Það er rétt hjá þér...Jón Bjarnason var arfaslakur og ótrúlegt að fólk í kjödæminu splæsi atkvæði sínu þangað þegar nær dregur. Hann er eiginlega hrikalega slappur. Þetta er kannski næsti landbúnaðarráðherra...uff.

Sturla var líka mjög slakur þó þú auðvitað viðurkennir það ekki...hinir stóðu sig ágætlega

Jón Ingi Cæsarsson, 29.3.2007 kl. 09:49

7 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ég bendi Jóni Kristóferi á að Samfylkingin var að mælast  með 14-15% fylgi í kjördæminu fyrir stuttu og því er þetta vel upp á við. Hins vegar er þetta ekki markmiðið. Það er að halda Önnu Kristínu Gunnarsdóttur á Alþingi - sem hún á svo sannarlega skilið.

Eggert Hjelm Herbertsson, 29.3.2007 kl. 15:52

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Árni: Ef allir vinstri grænir verða jafn slappir og Jón Bjarnason í gærkvöldi þarf litlu að kvíða með þá. Algjörlega blanko, sýndi sig vel í gær.

Kolgríma: Tek undir það að pólitíkin þarna virkar dauf. Þetta var frekar þungt þannig séð, en samt góðir punktar inn á milli. En á móti kemur að umfjöllunin er bara að byrja og viðbúið að þetta yrði svona með daufara móti, enda er mesta keyrslan í kosningabaráttunni ekki hafin og mörg tromp enn ekki komin fram.

Eggert: Guðbjartur virkar notalegur og góður maður, settlegur og allt það, en hann þarf enn að slípast til. Mér fannst Guðjón og Jón arfaslakir. Innflytjendablaðrið í Guðjóni er eitthvað sem mér hugnast ekki og ætla að vona að enginn verði svo galinn að bjóða þessum mönnum eitthvað eftir kosningar nái þeir þ.e.a.s. inn. Heilt yfir fannst mér Magnús sterkari en ég hef oft séð hann og Sturla sló góða punkta með Zero Framsókn umræðunni. Mjög flott hjá honum.

Jón Ingi: Það fylgir mynd fréttinni með breytingum. Þeir eru blindir sem taka ekki eftir breytingunni. Skýringarmyndin sýnir það vel. Það er reyndar kostulegast að frjálslyndir eru ekki sýndir með mínus einn þó að þeir tapi sæti Sigurjóns Þórðarsonar. Þeir voru með tvo þarna en hafa bara einn og ættu að vera merktir með mínus 1 líka. Kristinn H. þarf að fara að leita sér að annarri vinnu. Blasir við.

Hvað varðar umræðurnar fannst mér Sturla eiga góða spretti sérstaklega í seinni hlutanum er talið barst að Zero Framsókn merkjum UVG. Þar átti hann frábæra takta. Jón Bjarnason var ekki slakur, hann var ömurlegur. Hafði ekkert fram að færa. Þvílíkt blast from the past. Vorkenndi Guðbjarti að þylja enn vísurnar um kaffibandalagið steindauða með Guðjón Arnar hamrandi á innflytjendapólitík sinni í settinu. Ojbara, var Guðbjarti sjálfrátt í kaffibandalagsblaðri sínu?

Heilt yfir var þetta mjög skemmtilegar umræður. Fátt nýtt svosem. Það verður seint sagt að ég sé mesti pólitíski aðdáandi Sturlu, en hann stóð sig samt ve að mínu mati. Magnús kom á óvart, mjög beittur og hjólaði mjög flott í Jón Bjarnason. Vel af sér vikið.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.3.2007 kl. 17:00

9 identicon

Það verður verkefni stjórnarliða til kosninga að hjóla í frambjóðendur vg. Þeir hafa ekkert afrekað til að eiga skilið þessar tölur sem við erum að sjá i skoðanakönnunum. Ég trúi því einfaldlega ekki að 25 % þjóðarinnar vilji flokk stöðvunar og afturhalds.
Jón Bjarnason var hreint út sagt lélegur, ætlar fólk virkilega að kjósa þennan mann, þvílíkt grín.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 18:32

10 identicon

Ég fæ nú ekki betur séð en Guðinn í Seðlabankanum hafi sömu stefnu og VG.

leibbi (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 20:36

11 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Jón Kristófer. Samfylkingin mældist með 11% þarna fyrir nokkrum vikum. Með þessu áframhaldi endar hún í 30% sem mér þykir nær lagi. Jón Bjarnason hjálpar heilmikið til við að sá árangur gæti náðst.

Jón Ingi Cæsarsson, 30.3.2007 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband