VG sígur - Íslandshreyfing jafnstór frjálslyndum

Könnun (30. mars 2007) VG virðist vera að missa flugið ef marka má nýjustu könnun Gallups. Engu að síður er hann næststærsti flokkurinn, mælist með 24% fylgi og er fjórum prósentustigum stærri en Samfylkingin, sem er á mörkum þess að komast aftur yfir 20% múrinn sem hann mældist með í síðustu könnun, í fyrsta skipti í yfir fimm ár. Íslandshreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn eru jafnstór með rétt rúmlega 5% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við örlitlu við sig og mælist í 36,7% fylgi á meðan að Framsóknarflokkurinn dalar og mælist með 8,3% fylgi. Ríkisstjórnin er því fallin skv. könnuninni með innan við 45% fylgi. Bæði frjálslyndir og Íslandshreyfing komast naumlega yfir 5% mörkin. Athygli vekur hversu tæpt báðir flokkar standa og er staða þeirra mjög brothætt. Myndu mörg atkvæði þeirra detta uppfyrir komist þeir ekki yfir mörkin. Svo gæti farið falli bæði framboð uppfyrir eins og sagt er að staðan breytist það mikið að ríkisstjórnin gæti haldið velli með langt innan við helming atkvæða.

Fylgi Íslandshreyfingar hlýtur samt að vera mikil tíðindi, miðað við að enn liggur þar varla fyrir kosningastefna og frambjóðendur. Margir hafa þó eflaust átt von á meiru. Það vekur athygli að VG missir 4 prósent milli kannana og virðist Íslandshreyfingin taka mesta kúfinn af fylgissveiflu þeirra. Þetta er það sem margir bjuggust við en sést mjög afgerandi þegar í þessari könnun. Það að Sjálfstæðisflokkurinn bæti við sig milli vikna er Íslandshreyfingin kemur fram vekur allavega mikla athygli. Samfylkingin virðist ekki skaðast á tilkomu þessa flokks núna, en hann hefur þó minnkað það mikið að kannski hafa þeir náð botninum og þessi fylgiskjarni þegar farinn þaðan og til VG.

Fylgið er allavega á miklu flökti og mikil spenna framundan. Á morgun eru sex vikur til alþingiskosninga. Það blasir við að baráttan fer ekki að fullu af stað fyrr en eftir páska. Baráttan verður að megninu spiluð á þeim mánuði sem þá verður eftir. Landsfundir Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru eftir hálfan mánuð og viðbúið að þar verði meginkosningabarátta beggja flokka endanlega mörkuð og gangsett af miklum krafti.

Kannanir sýna mjög breytta mynd frá síðustu kosningum. Tilkoma nýrra flokka hefur merkileg áhrif á heildarmyndina og greinilegt t.d. að nýtt hægri grænt framboð tekur af því vinstri græna. Það má því kannski eiga von á flökti fylgis þar á milli næstu vikurnar. Hver veit. Kannanir hafa reyndar gefið vel til kynna að umhverfismálin eru ekki efst í huga fólks, heldur velferðar- og efnahagsmálin.

mbl.is Margrét: Stjórnmál 21. aldar snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ALLT ER VÆNT SEM VEL ER GRÆNT! Ríkisstjórnin er löngu fallin og hér verður mynduð annað hvort "vinstri græn stjórn" með Vinstri grænum, Samfó og Frjálsblindum eða "hægri græn stjórn" með Ómari, Framsókn og Sjöllum. Ómar stendur með pálmann í höndunum ef Frjálsblindir ná ekki 5% fylgi og ræður því hvort mynduð verður stjórn til "vinstri" eða "hægri". Og Möggu finnst það örugglega ekki ónýtt.

Steini Briem (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 21:36

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Hanna Birna: Þetta er nú bara eins og staðan er núna. Bæði Frjálslyndir og Íslandshreyfing standa alveg á mörkunum og eru hársbreidd frá því að vera annaðhvort með þrjá menn inni eða engan. Þetta er mjög einföld staða. Staða Frjálslynda flokksins hefur greinilega veikst mikið eftir að Sverrisarmurinn fór þaðan út. Það sýna allar skoðanakannanir.

Jón Kristófer: Tek undir skrif þín með frjálslynda. Við erum algjörlega sammála um það sýnist mér. Hvað varðar VG voru þeir í algjöru low-i síðast og munu bæta við sig. Fátt er meira pottþétt í þessum kosningum en það. Tel að þeir muni er á hólminn kemur ekki fara yfir 20%, þeir enda á bilinu 15-18%.

Steini: Ertu að segja mér að Samfylkingunni og VG sé alvara með að fara í samstarf með Frjálslynda flokknum? Hef enga trú á því. Kaffibandalagið er dautt. Ætlar Samfylkingin eða VG að gera formann og varaformann frjálslyndra að ráðherrum? Annars eru bæði F og Í á mörkum þess að detta út. Þau eru alveg á línunni og standa bæði mjög veikt miðað við þetta. Sérstaklega virðist staða frjálslyndra mjög að veikjast.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.3.2007 kl. 21:50

3 identicon

Íslandshreyfingin á enn eftir nú 6.vikum fyrir kosningar að skila inn framboðslistum og stefnuská, þetta er að sjálfsögðu ekki boðlegt en við hverju bjuggust menn, þeir fá 0 þingmenn.
Auðvitað gleðst maður yfir að stoppafturhaldsflokkurinn er að fá minna fylgi og hef ég trú á því að þeir endi í 20%, alltof mikið fylgi en þar sem hinn vinstriflokkurinn er í tómu tjóni með öll sín mál fara konunar ekki aftur til sf fyrir kosningar.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn áfram í stjórn, ja allt er mögulegt, þeir eiga inni meira og meira skilið, ég treysti því að kjósendur þessara flokka skili sér á kjörstað og þá ætti stjórnin að halda velli.
Báráttulistinn fær engan mann og hef ég engar áhyggjur af þeim.
Aðalmálið eftir kosningar er að halda vg fyrir utan ríkisstjórn, það er algjört lykilatriði fyrir framtíð þessarar þjóðar.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 09:46

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Þetta trikk að henda Möggu út alveg svínvirkaði hjá ræningjunum í Kardimömmubæ.  Vonandi brosir Jón ræningi breitt þessa dagana.

Björn Heiðdal, 31.3.2007 kl. 11:15

5 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Það að Sjálfstæðisflokkurinn bæti við sig milli vikna er Íslandshreyfingin kemur fram vekur allavega mikla athygli.   Afhverju? Reyndar samkvæmt þessari könnun gæti sjálfstæðisflokkurinn allt eins verið að tapa fylgi frá því í síðastu könnun.  við getum bara ekkert sagt til um það.  Auðvitað flöktir fylgið, það er eðli skoðannakannana.  Það er tilviljunarkennt í hvern er hringt.  Vil bara benda þér á þetta.  Þú ásamt flestum örðum tekur alltof djúpt í árina þegar þú ert að túlka skoðanakannanir.  Yfirleitt eru engin innistæða fyrir þeim túlkunum sem gerðar eru.

Hafrún Kristjánsdóttir, 31.3.2007 kl. 14:35

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jón Kristófer: Erfitt að útiloka nokkuð svosem. Þetta virðist allt galopið. Það er nú það skemmtilega við söguna.

Óðinn: Góðar pælingar, gaman að lesa.

Björn: Já, svo virðist vera að það verði þeim frjálslyndu mjög örlagaríkt.

Hafrún: Það er auðvitað um að gera að fara yfir kannanir og greina þær, þær eru þó aldrei og munu aldrei verða hinn heilagi sannleikur, aðeins hugmynd um stöðuna. Það er aðeins ein áreiðanleg könnun og hún fer fram 12. maí.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 31.3.2007 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband