Arfaslök stjórnarskrártillaga fær falleinkunn

Fiskur Ég hef ekki farið leynt með að ég var mjög ósáttur við nýlega stjórnarskrártillögu í auðlindamálum. Hún rann út í sandinn og var engum til sóma. Þjóðin fellir sinn dóm í þessari könnun - ég er algjörlega sammála því mati! Það kann aldrei góðri lukku að stýra að ætla að koma með breytingar á stjórnarskrá undir hita og þunga kosningabaráttu þegar að kortér lifir af kjörtímabilinu.

Það er afleitt verklag að ætla að leggja stjórnarskrána undir eins og peningaseðil í Vegas. Þetta var hreinræktað fíaskó og hvorugum stjórnarflokknum til sóma að mínu mati. Það var líka enn eitt klúðrið að halda að stjórnarandstaðan, eins gloppótt og hún er, myndi hjálpa þeim við þetta klúður. Það verður seint sagt að þetta mál hafi aukið tiltrú á þingi og stjórnmálaflokkum landsins. Ég sem kjósandi þessa lands horfði á þetta mál og botnaði vart í því. Ég gladdist mjög þegar að það dagaði uppi. Það voru fyrirsjáanleg endalok að mínu mati.

Það var svolítið kostulegt að horfa á þetta mál. Persónulega sagði ég mitt mat á þessu þegar að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, steig fram með óskiljanleg ummæli. Það varð ljóst að Framsóknarflokkurinn gat ekki bakkað úr því nema að þurfa að kokgleypa hið súra. Það var öllum ljóst í þessu máli að Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki heill við þetta samkomulag sem gert var. Ég skrifaði aldrei til stuðnings því. Þegar að sýnt var hverskonar óefni allt væri komið í og menn væru með strandað mál í höndunum fór auðvitað svo að það var slegið af. Enda ekkert annað hægt.

Mér finnst það ábyrgðarhluti að ætla að keyra svona tillögu í gegnum þingið 60 dögum fyrir alþingiskosningar. Stjórnarandstaðan boðaði samkomulag við Framsóknarflokkinn um málið, en bakkaði svo auðvitað frá því er samkomulag náðist. Þau voru viss um að stjórnarflokkarnir gætu ekki landað samkomulagi um málið. Öll fögru fyrirheit stjórnarandstöðunnar fuðruðu upp eins og smjörklípa á glóðheitri pönnu. Loforðið sem boðað var meðan að formaður Samfylkingarinnar vísiteraði Klörubar á Kanarí reyndist vera haldlítið blaðurbomba er á hólminn kom. Var einhver hissa?

Þetta mál minnti mig allt á einn farsa. Mér fannst allir flokkar klikka í því. Sjálfstæðisflokkurinn átti að halda fastur við sitt og setja það grundvallarmarkmið að menn semdu ekki um stjórnarskrána á næturfundum. Það var orðið of seint að koma með svona tillögu í hráskinnaleik við stjórnarandstöðuna 60 dögum fyrir kosningar. Þetta var dauðadæmt mál og í alla staði vont. Ég get ekki stutt það og tek því að sjálfsögðu undir það að stjórnarflokkarnir brugðust í þessu máli. Ég sá mér allavega ekki fært að styðja þeirra verklag og vera með á þeirri vegferð.

Það er svolítið skrítið að hugsa til þessa máls. Það er auðvitað með ólíkindum að menn hafi verið til í að eyða dögum og nætum örfáa daga undir tímapressu að keyra í gegn svona tillögu. Það var í alla staði óraunverulegt, enda strandaði málið. Ég var hissa á jafnreyndum stjórnmálamanni og Geir H. Haarde er að leggja slíkt fram. En svo fór sem fór. Má vel vera að það hafi verið gert í góðu til að bjarga þessu tólf ára samstarfi. En sum prinsipp sín er ekki hægt að gleypa.

Þetta mál fékk sín eftirmæli sem málið sem strandaði í fjörunni. Það var eins og það er. Það átti aldrei séns, einfalt mál!

mbl.is Meirihluti telur frumvarp um þjóðareign hafa dregið úr trausti á stjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Borgþórsson

Ég er alveg sammála þér.  Siv klúðraði þessu máli algjörlega.  Ég er viss um ef að að fyrrverandi formaður framsóknar væri enn við líði þá hefði þessi áliktun aldrei komið fram.  Aftur á móti er ég þeirra skoðunnar að auðlindin sé eign þjóðarinnar og losa verði á þeim höftum sem að nýliðun í sjávarútvegi er.  Framsal á kvóta og leiga á kvóta er komið í algjör óefni

Halldór Borgþórsson, 31.3.2007 kl. 00:22

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Nei, við kjósum X-D ef viðviljum láta þetta ganga upp

Ásdís Sigurðardóttir, 31.3.2007 kl. 00:58

3 identicon

FRAMSÓKN var að reyna að græða á þessari unglingaveiki sinni en hún fékk ekkert út úr henni nema bólurnar, eins og ég sagði í upphafi, enda hljóðaði tillagan frá formönnum stjórnarflokkanna upp á að útgerðarmennirnir ættu aflakvótana en ekki þjóðin, eins og reynt var að telja henni trú um. Síðan var stjórnarandstöðunni kennt um allt ruglið en þjóðin sá nú í gegnum það, að sjálfsögðu.

Steini Briem (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 01:56

4 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Eins og ég skildi þessa stjórnarskrárbreytingu þá var þetta skref í þá átt að þjóðin tæki aftur full yfirráð yfir kvótanum. Það fyrsta er að setja stjórnarskrárákvæði um að kvótinn sé þjóðareign, þar á eftir er hægt að setja venjuleg lög um þjóðareignina. Eflaust finnst sumum að tillagan hafi ekki gengið nógu langt og öðrum að hún hafi gengið alltof langt. Reyndar var ég ekki sáttur við hina endanlegu útkomu eftir samkomulagið milli Jóns og Geirs enda skildi ekki nokkur maður tillöguna þá nema þeir tveir svo óljós var hún. Málið er bara að þetta var engin korter í þrjú tillaga. Það var búið að vinna hana í 4 ár en síðan setur Sjálfstæðisflokkurinn bremsu á málið. Hvers vegna? Ja því er kanski best svarað í Valhöll.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 31.3.2007 kl. 07:06

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Afar stutt og laggóð lýsing hjá þér í endann, það átti aldrei séns þetta mál og það fyrir margra hluta sakir og öllum til vansa sem stóðu að því að eyða fleiri dögum úr annatíma í þinginu í þennan farsa.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 31.3.2007 kl. 11:29

6 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Góður Stefán.  Þetta er frábært innlegg og ég er mjög sammála þessu.  Hitt er annað mál að finna verður sannferðuga lausn á "gjafakvótakerfinu" sem að mínu mati er stærsti þjófnaður íslandssögunnar.  Af hverju eiga lögmál hins frjálsa markaðar ekki við í þessari atvinnugrein eins og öðrum.  Að sjálfsögðu eigum við eigendur veiðiréttarins að bjóða veiðarnar út. 

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn ferðast með þennan draug, ættaðan úr lénsskipulagi miðalda, treysti ég mér ekki að kjósa hann.  Þessi stefna samrýmist einfaldlega ekki grunnhugsjónum hans.  Það er miður.

Sveinn Ingi Lýðsson, 31.3.2007 kl. 11:56

7 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Gæti ekki verið meira sammála en ég er þessu "kommenti" þínu Sveinn, ekki síst niðurlaginu.....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 31.3.2007 kl. 20:08

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 31.3.2007 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband