28.3.2007 | 17:34
Íslendingar skotnir í Josh Groban

Josh Groban er að mig minnir ekki nema 26 ára gamall. Er með ótrúlega góða lýríska baritónsöngrödd. Það eru svona fjögur til fimm ár síðan að hann sló í gegn. Minnir að fyrsta alvörulagið hans hafi verið To Where You Are, sem Óskar Pétursson söng í íslensku útgáfunni. Annars þekki ég feril hans svosem ekkert mikið meira, veit þó reyndar að mamma hans er ættuð að einhverju leyti frá Noregi, en faðir hans er af gyðingaættum.
Eitt þekktasta lag Josh Groban, You Raise Me Up, er hér í spilaranum. Óskar Pétursson hefur líka sungið það í íslensku útgáfunni. Norðmaður samdi lagið. Margir vilja meina að það sé undir áhrifum að lagi Jóhanns Helgasonar, Söknuður, sem Villi Vill gerði ódauðlegt skömmu fyrir andlát sitt fyrir þrem áratugum. Þau eru sláandi lík þessi tvö lög allavega.
![]() |
700 miðar seldust á innan við mínútu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.3.2007 | 15:27
Hörð barátta í Norðaustri - sótt mjög að VG
Það blasir við eins og staðan er nú að að mikil barátta verði hjá öllum flokkum gegn VG í Norðausturkjördæmi - þar verði hjólað af fullum krafti gegn Steingrími J. Sigfússyni. Kosningabaráttan er að hefjast af krafti, kannanir sýna gríðarlega fylgisaukningu VG í kjördæminu í nýjustu könnun Gallups. Þar mælist VG með fjóra kjördæmakjörna menn af níu og 36% fylgi. Má öllum vera ljóst að spjótin munu standa gegn VG í þeirri stöðu og má eiga von á harkalegri kosningabaráttu.
Steingrímur J. Sigfússon er orðinn aldursforsetinn á svæðinu í framboðsmálum. Það blasir við að eftir þingkosningarnar í vor hefur aðeins Jóhanna Sigurðardóttir setið lengur á þingi. Steingrímur J. var fyrst kjörinn í þingkosningunum 1983, þá aðeins 27 ára gamall. Það voru t.d. aðrar kosningarnar hans Halldórs Blöndals á þingi, Valgerður Sverrisdóttir var ekki komin til sögunnar sem þingmaður en var varaþingmaður fyrsta tímabil Steingríms og Ingvar Gíslason leiddi framsóknarmenn. Stefán Valgeirsson var einn héraðshöfðingjanna og Lárus Jónsson leiddi þá sjálfstæðismenn.
Aðrir sem voru þá framarlega í pólitík hafa fyrir lifandis löngu kvatt stjórnmálin og eru ekki í minni yngstu kjósendanna. Ár og dagar hafa liðið. Enda spyrja sig margir nú; verða þetta kosningarnar hans Steingríms J? Hann hefur verið lengi í stjórnmálum. Sem dæmi má nefna að hann hefur verið í stjórnarandstöðu í 21 ár af þeim 24 árum sem hann hefur setið á þingi. Honum hefur þó tekist að verða ráðherra, en hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991. Það voru semsagt tíu ár sem liðu frá því að Steingrímur J. varð ráðherra og þar til að Valgerði Sverrisdóttur tókst það. Hún er nú orðin þaulsetnasta konan í ríkisstjórn í sögu Stjórnarráðsins.Eins og mælingin lá síðast hjá Gallup var Samfylkingin í tómu tjóni; orðin minnst fjórflokkanna sem mann eiga nú í Norðausturkjördæmi og mældist aðeins með einn þingmann; leiðtoga sinn, Kristján L. Möller. Þar virðist Samfylkingin vera að veslast algjörlega upp og VG að græða mjög á fylgisaukningunni. Kunnugir velta mjög vöngum yfir því hvort að Samfylkingin á Akureyri sé að hrapa og missa mikið fylgi yfir til VG. Tapar Samfylkingin á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn hér?
Flestum þykir fylgisaukning þeirra liggja altént mjög í Eyjafirði. Sé svo er erfið barátta framundan fyrir Samfylkinguna og hörð barátta milli vinstriaflanna um vinstrafylgið. Þar virðast átök þeirra liggja. Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin tvo menn inn og var á mörkum þess að ná þeim þriðja. Í nýjustu mælingum er Einar Már fallinn og Lára Stefánsdóttir mjög fjarri því að ná inn. Það má því búast við að þau reyni að heilla hörðustu vinstrimennina aftur heim fyrir kosningar; með öðrum orðum, hjóla í Steingrím J. Einfalt það!Síðustu mánuði hefur Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, verið að mælast sem fyrsti þingmaður kjördæmisins og sjálfstæðismenn rokkað á milli þess að hafa þrjá eða fjóra þingmenn en ávallt með leiðandi stöðu frá prófkjörssigri Kristjáns Þórs í nóvember þar til nú. Hans markmið virðist skýrt; fyrsta þingmannssætið tryggt þeim og að ná í ofanálag 30% fylgi; semsagt bæta miklu við sig og negla þriðja mann inni og reyna við þann fjórða.
Það hljóta að teljast gríðarleg vonbrigði fyrir Kristján Þór að sjá þessa mælingu Steingríms J. og VG nú, enda er öllum ljóst að það mun hafa mikil áhrif á stöðu Kristjáns Þórs sem ráðherraefnis hvort hann verði fyrsti þingmaður kjördæmisins eður ei. Fái flokkurinn ekki umtalsverða sveiflu frá síðustu kosningum sem voru flokknum mjög vondar eru ráðherradraumar hans algjörlega úti. Að því verður barist hjá sjálfstæðismönnum; tryggja forystu í kjördæminu og að leiðtoginn fái ráðherrastól. Í öllum könnunum eru sjálfstæðismenn að bæta við sig þónokkru og aðeins spurning um það hversu mikið fylgið aukist.Framsóknarflokkurinn hefur mælst að undanförnu með tvo menn á svæðinu, missir samt sem áður tvo þingmenn, sem verður þeim vissulega mjög mikið áfall. Framsóknarmenn gera sér vel grein fyrir því að fjórða þingsætið síðast var óvæntur happdrættisvinningur sem þeir geta ekki gert sér vonir um að hljóta aftur. Í síðustu kosningum var Dagný Jónsdóttir stjarna. Á þeim ljóma komst Birkir Jón líka inn á þing, mörgum að óvörum.
Nú leggur Framsókn allt kapp sitt á að tryggja Akureyringinn Höskuld Þórhallsson inn á þing úr þriðja sætinu. Það yrði túlkað sem mikill varnarsigur næðist það, enda virðist fyrsta þingmannssætið að öllum líkindum fallið Valgerði Sverrisdóttur nú úr greipum. Hún þarf eiginlega pólitískt kraftaverk, eins og síðast, til að verja það. Segja má að Valgerður spili vörn, enda verður fyrri árangur ekki toppaður. Því verði reynt að ná inn þriðja manni og varnarsigri eftir vondar mælingar. Eins og allir vita hér er vonlaust að útiloka að Framsókn eflist. Það segir sagan okkur mjög vel!Samkvæmt skoðanakönnunum eiga frjálslyndir erfiða baráttu framundan. Þeir hafa ekki mælst með mann inni og aldrei fengið þingmann á þessum slóðum. Sigurjón Þórðarson berst fyrir því að halda þingsæti sínu og virðist eiga langt í land skv. síðustu skoðanakönnunum. Hann komst síðast inn með Guðjóni Arnari en verður nú einn að leiða kosningabaráttu, berjast fyrir sætinu sínu á nýjum slóðum.
Ekki er enn vitað hver leiðir framboð Íslandshreyfingarinnar, en hún segist bjóða fram í öllum kjördæmum eins og flestir vita. Það verður fylgst vel með því hér um slóðir. Ekki hafa margar sögur heyrst, en þó hefur heyrst að Jakob Frímann Magnússon fari fram hér í fylkingarbrjósti. Ekki er þó hægt að fullyrða það svosem. Flokkurinn hefur ekki mælst hér - er hér óskrifað blað algjörlega.
Eins og staðan er nú er baráttan á milli VG annarsvegar og svo allra hinna aflanna í raun. Merkileg staða það. Hörð barátta. Staða VG er með þeim hætti að allir sækja að þeim. Þeir hafa enda bætt svo miklu við sig að þeir hafa verið sem ryksuga um allt við að safna fylgi úr öllum áttum, nema að því er virðist úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir eru því mjög stórir nú og allir flokkar, einkum Samfylkingin og Framsókn, sækja að því að taka fylgið frá þeim sem þeir hafa áður tekið úr þeirra átt.
Í síðustu kosningum voru Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur meginpólarnir. Kannanir lágu þannig óralengi að það væri staða mála hvort að Halldór Blöndal eða Kristján Möller yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins. Átökin voru enda mikil milli flokkanna alla baráttuna. Framsókn fékk með því nokkuð fríspil og tókst með því að skjótast verulega framúr það sem flestir töldu stærstu flokkana; sótti mikið fylgi á lokasprettinum.
Framsókn náði því að skáka báðum þessum flokkum og hlaut um tíu prósentustigum meira en þeir; urðu sigurvegarar kosninganna. Það gerist varla núna. En aðeins munaði 41 atkvæðum þó á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu er á hólminn kom. Sjálfstæðisflokkurinn rétt marði því stöðu sem næststærsti flokkurinn og Halldór Blöndal varð annar þingmaður kjördæmisins. VG var þá fjarri öllum slíkum markmiðum. Staða þeirra nú er því mjög athyglisverð - allt önnur vissulega.
Að VG verður mjög sótt. Það sést vel á byrjun kosningabaráttunnar. En það eru enn tæpar sjö vikur til kosninga og allt getur gerst. Það vitum við sem unnum í baráttunni síðast. Engum, nema kannski framsóknarmönnum, hefði órað fyrir á sama tíma fyrir kosningarnar 2003 að þeir hlytu svo sterka stöðu og fjóra þingmenn. Það er ekkert öruggt í þessum bransa.
Þetta verða spennandi kosningar - mikil barátta og beitt átök. Svo mikið er allavega víst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.3.2007 | 13:34
Björgunarþyrlu til Akureyrar - lausn í sjónmáli?

Það er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er.
Það er algjör grunnkrafa við þau þáttaskil sem blöstu við eftir brotthvarf varnarliðsins og ljóst væri að fjölga yrði björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun. Það er algjört glapræði að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er nýja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar.

Skoðun Kristjáns Þórs Júlíussonar og afgerandi tal hans skiptir máli. Þó að kosningabarátta sé hér á fullu hafin er þetta mál sem er ekki flokkspólitískt. Það er skoðun allra hér, enginn vafi á því. Það að kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og lykilmaður í sveitarstjórnarmálum hér á Akureyri í áratug tali svo afgerandi mun vonandi verða til þess að höfuðborgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vakni til lífsins í þessu máli!
28.3.2007 | 01:41
Fróðlegur fundur með Valgerði Sverrisdóttur

Flutti Valgerður stutta kynningu í upphafi, en síðan var orðið einfaldlega gefið laust og gripu flestir tækifærið til að rabba um pólitíkina frá víðum grunni. Var þetta líflegt og gott spjall, svona algjörlega mér að skapi. Naut þessa mjög vel allavega. Stærstu umræðuefnin sem skipta máli að okkar mati eru að sjálfsögðu málefni Akureyrar og Eyjafjarðar. Valgerður hefur verið þingmaður þessa svæðis í tvo áratugi og verið fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis frá árinu 2003, er auk þess þungavigtarmanneskja í pólitísku starfi almennt sem lykilráðherra í ríkisstjórn landsins. Það var því gaman að skanna málefni svæðisins og landsmálanna heilt yfir með henni.
Við erum fjarri því sammála um alla hluti, en það er virkilega gaman að taka svona spjall engu að síður. Sýn okkar á þessum vef eru skiljanlega málefni Akureyrar og nærsvæðis. Það er og mun vera upplegg allra fundanna. Verst var bara að við fengum ekki nægilega góðan tíma, en hún þurfti að fara suður með síðustu vél og sat því aðeins með okkur í klukkutíma. En það voru lífleg skoðanaskipti á fundinum og gott spjall. Hefði verið gott að hafa lengri tíma, stúdera í stöðuna í stjórnmálunum og ræða málefni utanríkisráðuneytisins en það bíður betri tíma.
Ef marka má nýjustu kannanir Gallups á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi stefnir í að kosningabaráttan hér næstu vikurnar verði erfið fyrir Valgerði. Framsókn mælist þar jafnan með tvo þingmenn, myndu missa tvo frá sigrinum mikla sem þau hlutu hér í kosningunum 2003. Þá vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í mun minna fylgi, spurningin virðist aðeins vera hversu mikið fylgi Framsókn og Valgerður muni missa. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum.
Valgerður mun án vafa veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af því tagi sem kannanir sýna nú og hún myndi missa sess sinn sem fyrsti þingmaður kjördæmisins. Margir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja þingmanna flokksins frá Austjörðum og innkomu nýrra frambjóðenda ofarlega á listann. Enginn Austfirðingur er í fjórum efstu sætum og því viss þáttaskil fyrir flokkinn hér.
Valgerður er fyrsta konan á ráðherrastóli í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Sérstaklega varð sögulegt þegar að hún varð utanríkisráðherra, enda með því valdamesta konan til þessa í sögu Stjórnarráðs Íslands. Valgerður er vissulega hörkutól í íslenskum stjórnmálum. Um það verður ekki deilt að hún þorir að láta vaða og gerir hlutina eftir sínu höfði. Valgerður hefur verið þingmaður okkar hér í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt kom hún alltaf fram sem sigurvegari.
Henni tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð). Hún vann glæsilegan sigur og Jakob fór með skottið milli lappanna frá þeirri baráttu við Valgerði. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með yfirburðum í baráttu við Jón Kristjánsson árið 2003.
Valgerður hefur því vissulega alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Þar hefur hún notið mikillar virðingar samherja í kjördæmum sínum og haft sterka stöðu til fjölda ára. Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum og úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Aðeins Valgerður hlaut kjör í NE og í fyrsta skipti missti Framsókn fyrsta þingsæti kjördæmisins, missti hann til Sjálfstæðisflokks.
Í þingkosningunum 2003 var einn mesti hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðan þá hefur flest gengið flokknum á móti og Valgerður átt þónokkuð erfitt á mörgum vígstöðum, ekki síst hér á heimaslóðum í nyrðri hluta kjördæmisins. Hefur barátta hennar og flokksins verið mikil varnarbarátta og verður það að óbreyttu í kosningunum eftir tæpar sjö vikur. Það verður fróðlegt að sjá hvort að sögulegur sess hennar sem fyrsta kvenkyns utanríkisráðherrans styrkir hana.
Valgerður Sverrisdóttir er eins og fyrr sagði mikil kjarnakona að mínu mati. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún sé einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins.
En þetta var góður fundur í kvöld og ég þakka Valgerði kærlega fyrir komuna. Það var ánægjulegt að ræða málefni kjördæmisins við hana á þessari kvöldstund.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.3.2007 | 16:54
Skoðanaskipti um þjóðsöng - fyndin handtaka

Í grunninn liggur málið allt mjög ljóst fyrir. Sumum finnst allt í lagi að brjóta þessi lög. Þar ræður gamla góða "af því bara" svarið. Mjög skondið þannig séð. Nokkrir aðilar trompuðust yfir skrifum mínum hér í gærkvöldi þar sem ég talaði fallega um þjóðsönginn og fannst greinilega allt í lagi að senda mér tölvupóst þar sem viðkomandi, sumir nafnlausir, láta að því liggja að ég væri að vega að tjáningar- og málfrelsi með ummælum mínum um lögbrot Spaugstofunnar. Þar sem þeir sem þetta sögðu geta ekki annað en sent nafnlausa pósta eru orð þeirra með öllu marklaus. Geti fólk ekki sett nafn sitt með svona ómerkilegheitum er skoðunin dauð, sama gildir á þessum vef hér!
Mér finnst að ég hafi svosem sagt allt það sem mér finnst um þetta. Hef fengið lífleg viðbrögð. Þetta hefur verið málefnalegt að mestu hér, það er sjálfsagt að fólk hafi skoðanir á þessu máli og segi það sem því finnst. Það gildir það sama um aðra, rétt eins og mig. Á mínum vef segi ég það sem mér finnst. Ef ég ætlaði að vera sammála öllum væri þessi vefur þurr og leiðinlegur. Finnst mjög gott að fá komment, eina skilyrðið sem ég hef sett er að þar skrifi fólk hér á kerfinu, allavega með nafni og vitað sé hver skrifi. Mér finnst það ekki óeðlileg krafa. Hafi menn skoðun hljóta þeir að geta sett nafnið með því. Eðlileg grundvallarregla.
Eftir stendur að lögin voru brotin með mjög áberandi hætti. Það deilir enginn um það. Refsiákvæði eru í þeim tilfellum tekin fram. Lögin eru mjög skýr og þarf ekki lagasérfræðinga til að sjá það allt saman. Í heildina skiptir því litlu hvað ég segi um þetta og eða aðrir þannig séð. Þetta mál er í höndum þeirra sem eiga að framfylgja lögunum. Mér fannst þó mikilvægt að segja mína skoðun, hika ekkert í þeim efnum. Bæði skrifa um lögbrotið sem slíkt og eins segja hvað mér finnst um þjóðsönginn. Það er heiðarlegt og gott, sé svo sannarlega ekki eftir því.
Það verður svo bara að sjá til hvað gerist í þessu máli er á hólminn kemur.
![]() |
Handtaka átti Spaugstofumenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.3.2007 | 14:25
Flokkarnir setja 28 milljóna króna auglýsingaþak

Þetta samkomulag ætti að tryggja hófsamari kosningabaráttu og rólegri keyrslu en verið hefur í peningaeyðslu, þó auðvitað fái flokkarnir rúman ramma til að kynna sig þannig séð. Best hefði verið ef menn hefðu getað sett rammann við að loka á sjónvarpsauglýsingar og hafa rammann í 20-25 milljónum. Það kemur varla að óvörum að Framsóknarflokkur og Samfylking hafi viljað setja markið hærra meðan að hinir flokkarnir vildi lækka þakið. Báðir flokkar eru í mikilli varnarbaráttu, fengu þingmeirihluta saman í kosningunum 2003 en mælast nú með vel innan við 20 þingsæti.
Eflaust eru skiptar skoðanir um þetta þak, einkum innan sumra flokka og meðal fólksins á götunni. Mér finnst þetta gleðiefni vissulega, enda á að vera hægt að keyra í þessar kosningar samhent hvað þetta varðar, að hafa kosningabaráttuna markaða og menn keyri ekki í einhverja vitleysu með draumórakenndri eyðslu. Eins og vel sást á lokasprettinum í kosningabaráttunni 2003 getur eyðslan orðið gríðarleg er á síðustu tíu dagana er komið og einn flokkur er undir. Öll munum við t.d. eftir gríðarlegri auglýsingakeyrslu Framsóknarflokksins síðustu sólarhringa baráttunnar 2003.
Í reynd finnst mér þetta samkomulag einmitt vera um að stilla þessu í hóf, einkum síðustu dagana. Það sé siðlegur rammi á baráttunni, menn drekki ekki öllu í auglýsingakeyrslu. Óháður aðili mun svo fylgjast með framkvæmd þessa, svo að þetta samkomulag ætti að vera gegnheilt og gott. En það er nú reyndar svo að einn flokkur er fyrir löngu byrjaður að auglýsa og verið áberandi, meðan að t.d. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki farinn af stað þannig séð og gerir varla fyrr en eftir landsfund að loknum páskum, sléttum mánuði fyrir kosningar.
Þrátt fyrir fagurt tal um samkomulag verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður er á hólminn kemur og hvernig menn keyri þessar 28 milljónir í auglýsingamiðlana. Það er allavega misjafnt hvernig menn halda í þennan lokasprett baráttunnar og ljóst að margir ætla að bíða framyfir páska. En þetta verður allavega líflegur mánuður eftir páska. Þetta samkomulag tryggir okkur vonandi hófstillta kosningabaráttu á góðum grunni.
![]() |
28 milljóna króna mark sett á auglýsingakostnað flokkanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.3.2007 | 12:19
Verða umhverfismálin ekki kosningamál í vor?

Greinilegt er á þessari könnun að sjávarútvegs- og Evrópumál eru ekki ofarlega í huga landsmanna og harla ólíklegt að það verði mál sem verði í forgrunni kosningabaráttunnar. Sjávarútvegsmálin voru aðalmálin fyrir fjórum árum og það sem mest var um talað á lokasprettinum, en greinilegt að það mál trekkir ekki mikið nú. Sveifla í þeim málum og mikil umræða þá kom Frjálslynda flokknum til góða og flokkurinn keyrði á því máli og hlaut fjögur þingsæti. Nú virðast forystumenn þar ætla að keyra á innflytjendamálin, ef marka má tal kjördæmaleiðtoga þeirra í Reykjavík.
En þessi mæling á umhverfismálunum vekur athygli innan við sjö vikum fyrir kosningar. Ný framboð eru komin sem ætla sér að keyra nær eingöngu á þessum áherslum á þessum tæpu 50 dögum sem eftir eru. Fróðlegt verður að sjá hvort einhver bylgja myndast utan um það eða áherslur þess. Nýtt hægri grænt framboð fékk svosem ekki fljúgandi start í könnun Fréttablaðsins um helgina, en fróðlegt verður að sjá næstu mælingar.
Heilt yfir virðast mjúku málin ætla að verða í forgrunni. Þetta verður þó varla mjúk kosningabarátta. Það er erfitt að spá í spilin nú og við stefnum í eina af mest spennandi kosningabaráttum í áratugi ef marka má kannanir og þær sviptingar sem þær boða í raun. En það verður fróðlegt að sjá hvort staðan sé svona - hvort að umhverfismálin verði hliðarmál í kosningabaráttunni. Það segir þessi könnun okkur allavega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.3.2007 | 11:18
Brown leggur af stað - Blair talar máli Miliband

Á laugardag tilkynnti Jack Straw, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, að hann myndi stýra leiðtogaframboði Browns, rétt eins og hann stýrði leiðtogaframboði Blairs fyrir þrettán árum, er hann var kjörinn eftirmaður John Smith, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1994, eftir aðeins tvö ár á leiðtogastóli flokksins. Blair hafði Straw í stjórn sinni í níu ár. Hann var innanríkisráðherra í fjögur ár, 1997-2001, og utanríkisráðherra í fimm ár, 2001-2006. Það vakti mikla athygli þegar að Blair vék honum úr stjórninni í kjölfar vondra úrslita í byggðakosningum í fyrravor og gerði hann að áhrifalitlum þingleiðtoga neðri deildarinnar, rétt eins og forvera hans í utanríkisráðuneytinu, Robin Cook, fimm árum áður.
Það stefnir í spennandi tíma innan Verkamannaflokksins. Flestir búast við því að Blair muni tilkynna um afsögn sína fyrir 10. maí, eða strax að loknum byggðakosningum. Verkamannaflokkurinn hefur verið við völd í áratug þann 2. maí undir forsæti Blairs. Það er sú dagsetning sem talið er að hann vilji ná áður en formleg afsögn verður opinberlega kynnt. Flestir stjórnmálaskýrendur í Bretlandi telja að afsagnartilkynningin komi innan tíu daga frá valdaafmælinu. Þá fer af stað formlegt leiðtogakjör. Það fer eftir því hvort alvöru kosning verður um leiðtogastöðuna hvenær að Blair mun yfirgefa Downingstræti 10. Talið er nær öruggt að hann muni fyrst hætta sem flokksleiðtogi en muni ekki láta af völdum fyrr en í júlí, áður en áætlað sumarfrí forsætisráðherrans hefst jafnan.
Flestir sérfræðingar spá leiðtogaslag í Verkamannaflokknum þrátt fyrir að Gordon Brown hafi verið erfðaprins valdanna innan Verkamannaflokksins alla leiðtogatíð Tony Blair, allt frá árinu 1994. Hann hefur lengst allra í seinni tíð verið fjármálaráðherra Bretlands og þótt intellectual-týpa í breskum stjórnmálum, mun meiri maður pólitísks innihalds og hugsjóna en Tony Blair. Hann hefur verið farsæll forystumaður og haft mikið persónufylgi, langt út fyrir flokk sinn. Hann dró að segja má vagninn fyrir Blair í þingkosningunum 2005 þegar að hann var mun vinsælli en Blair. Það vakti mikla athygli í aðdraganda þeirra kosninga að hvert sem Blair fór hélt hann með Brown með sér. Flestir töldu það til merkis um að hann fengi leiðtogastöðu eftir Blair án baráttu og með stuðningi hans.
Sögusagnir ganga nú um að Blair og hans nánasti stuðningsmannakjarni vilji að David Miliband, umhverfisráðherra, fari í leiðtogaslaginn gegn Brown. Fréttir af því láku út fyrir helgina að Blair hafi sagt í þröngum hópi að Miliband væri sá eini sem gæti úr þessu stöðvað Brown, hann væri ungur og ferskur - sá eini sem hefði eitthvað nýtt fram að færa. Miliband er maður nýrra tíma innan Verkamannaflokksins, af mörgum nefndur hinn ungi Tony Blair. Hann hefur verið mjög handgenginn honum og í honum sjá ráðgjafar og stuðningsmenn forsætisráðherrans nýjan málsvara New Labour. Margir þeirra sem mótuðu sigurstefnuna fyrir áratug telja ekki Brown trúverðugan talsmann hennar og hafa ekki farið leynt með óánægju sína með hann.
Bið Browns eftir forsætisráðherrastólnum er orðin löng. Blair sveik loforðið fræga sem gert var vorið 1994, um að Blair færi frá á miðju öðru kjörtímabilinu. Þess í stað sóttist hann eftir að leiða flokkinn þriðju kosningarnar í röð. Með því komst Blair í sögubækur sem sigursælasti og þaulsetnasti leiðtogi kratanna í yfir 100 ára flokkssögu. Blair hefur fjarað hægt og rólega út síðan, hann varð gríðarlega óvinsæll í kjölfar Íraksstríðsins og hefur aldrei endurheimt fyrri vinsældir eftir það. Það er enda fátt nú sem minnir á geislandi leiðtogann sem leiddi Verkamannaflokkinn til sigurs í maí 1997 og leiddi baráttu fólksins fyrir því að konungsfjölskyldan sýndi Díönu prinsessu hina hinstu opinberu virðingu haustið 1997. Það var vinsæll leiðtogi fjöldans, nú er hann orðinn úthrópaður og óvinsæll.
Brown fer af stað nú til að reyna að stöðva alvöru mótframboð. Hann er að sýna fram á sterka stöðu sína. Það er engin tilviljun að hann setur Jack Straw fyrir hóp sinn og nefnir fjöldann allan af undirráðherrum sem hafa verið handgengnir Blair sem lykilhóp í forystu framboðsins. Þetta er gert til að tækla stöðuna og snúa stöðunni sér í hag, koma í veg fyrir að Miliband fari fram. Það eru nokkrar vikur síðan að Miliband sagðist styðja Brown og hefði engan hug á leiðtogastöðunni, hans tími væri ekki kominn. Nú vinna menn eins og Alan Milburn, Charles Clarke og Peter Mandelson hörðum höndum að því að tryggja baráttu um embættið, eru með því að kveikja elda milli fylkinga, auka sífellt ólguna.
Það er alveg ljóst að samskipti Blair og Brown hafa verið við frostmark undanfarin ár. Blair stóð ekki við samninga sína um að hliðra til fyrir Brown og í ofanálag vinnur hann bakvið tjöldin að því að tryggja að annar einstaklingur leggi í Brown. Þeir náðu botninum í samskiptum í fyrrahaust þegr að Brown og stuðningsmenn hans neyddu forsætisráðherrann til að gefa upp tímaplan pólitísku endaloka hans, þ.e.a.s. að hann færi frá fyrir septemberbyrjun 2007.
Staðan er orðin mjög eldfim. Hitinn eykst stig af stigi og ólgan kraumar æ meir undir eftir því sem styttist í að Blair tilkynni um formlega afsögn sína eftir nokkrar vikur. Erfitt er þó um að spá hvað gerist í raun. Líkur hafa þó aukist verulega á harðvítugum leiðtogaslag, menn eru að gíra sig upp í hann altént fyrir opnum tjöldum. Það verður mjög óvæginn slagur, verði af honum.
Sá slagur gæti líka leitt til klofnings innan flokksins og sundrungar, sem um leið tryggir íhaldsmönnum betri sess í þingkosningum innan þriggja ára. Það er altént ljóst að allra augu verða á því sem gerist þegar að Blair yfirgefur hið pólitíska svið og ferlið við valið á eftirmanni hans hefst fyrir alvöru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2007 | 19:58
Skiptar skoðanir um lögbrot Spaugstofunnar

Einhverjir spyrja sig eflaust; mun Spaugstofan og Páll Magnússon, útvarpsstjóri, verða ákærð fyrir þetta? Veit það ekki, en þarna reynir hiklaust á lög um þjóðsönginn. Það er mjög einfalt mál í sjálfu sér. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Verði ekki tekið á þessu máli er alveg kristalskýrt að lögin um þjóðsönginn og refsiákvæðin með öllu gagnslaus. Það er mín skoðun að það verði að taka á þessu máli með þeim eina hætti sem fær er. Lögin segja það. Mín skoðun skiptir í sjálfu sér engu máli. Lögin eru sett til að fara eftir þeim.
Margir hafa spurt mig um hver skoðun mín sé á þjóðsöngnum. Við því er einfalt svar. Það hefur verið mat mitt og skoðun til fjölda ára að við Íslendingar eigum fallegasta þjóðsöng í heimi. Lofsöngur er við ljóð sr. Matthíasar Jochumssonar, sem var prestur hér á Akureyri í einn og hálfan áratug, undir lok prestsferils síns. Eftir honum er nefnd kirkja okkar Akureyringa, minningarkirkja sálmaskáldsins og prestsins. Skammt frá stendur Sigurhæðir, þar bjó hann frá því húsið var byggt árið 1903 allt til dánardags árið 1920. Þannig er mál með vexti að ég er mikill unnandi kveðskapar Matthíasar, er því svosem ekkert alveg sama um þetta.
Ég hef til dæmis alla tíð verið algjörlega á móti því að skipta um þjóðsöng. Tel það í raun jafnast á við guðlast að tala um að henda honum og skipta um. Vissulega eigum við mörg falleg ættjarðarlög sem gaman er að syngja á tyllidögum og tignum stundum í sögu þjóðarinnar. En ekkert þeirra jafnast á við þjóðsönginn. Brást ég harkalega við í nóvember 2004 þegar að Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson, varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, báru fram þingsályktunartillögu þar sem þau vildu skipta um þjóðsöng. Var þetta frekar dapurt mál fyrir þau bæði á skammri innkomu á þingi á þeim tíma.
En þetta mál snýst ekki um það hvort þjóðsöngurinn sé fallegur, einfaldur eða erfiður til söngs eða of mikill trúarlegur söngur. Þetta snýst um lög um þjóðsönginn og brot á honum. Það er ekki flókið mál. Þetta er prófmál á það hvernig koma skal fram við og hver staða hans sé. Það er mjög einfalt í sjálfu sér. Sumir líta eflaust á þetta sem spurning um heiður séra Matthíasar. Veit það ekki alveg. Það gæti vel verið að meistari Matthías væri harður virkjunarandstæðingur væri hann lifandi. En þetta snýst um hvernig koma skal fram við þetta lag. Það voru sett lög um lagið, lög sem eiga að vernda það.
Brot á því eru sem betur fer sárafá. Fyrir 25 árum var þjóðsöngurinn rokkaður upp í frægri kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar. Það var umdeilt - tekist var á um það. Sama á við um þetta mál, sem er umdeilt og tekist á um það hvort að lögin eru marklaus eður ei. Það verður fróðlegt að sjá hvort lögin séu aðeins til skrauts eður ei.
![]() |
Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.3.2007 kl. 19:23 | Slóð | Facebook
26.3.2007 | 14:30
Spaugstofan brýtur lög - deilur um þjóðsönginn

3. gr. laga nr. 7/1983 um þjóðsöng Íslendinga hlýtur að teljast mjög skýr, en þar segir: "Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð". Þá segir ennfremur í 6. gr. sömu laga: ,,Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða [fangelsi allt að 2 árum]. Með mál út af slíkum brotum skal farið að hætti opinberra mála". Það er erfitt að líta öðruvísi á en að þetta atriði hafi brotið þessa þriðju grein.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í þessu máli. Þar skiptir í raun litlu máli hvað mér eða Jóni og Gunnu úti í bæ finnist um þetta atriði, heldur það að um er að ræða brot á þessum löum sem skuli fara yfir með þeim hætti sem bær er. Fjallað var um þetta mál í hádegisfréttum Rásar 1 og þar kom fram að rísi ágreiningur um notkun þjóðsöngsins skeri forsætisráðherra úr um hann. Svo var auðvitað bent á það sem flestir ættu að vita að ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.
Þetta hlýtur að teljast prinsipp-mál í meðferð þjóðsöngsins. Ef engin meining er að baki refsiákvæðunum í þessari fyrrnefndu sjöttu grein í lögum um þjóðsönginn ætti að afnema þau. Það er alveg ljóst að eitt tilvik þar sem þjóðsöngurinn er notaður með öðrum hætti en tekið er fram í lögum um hann markar það hvernig tekið er á þeim. Að því leyti telst þetta visst prinsipp-mál auðvitað og fróðlegt að sjá hvað gerist í þeim efnum.
Kommentin hér í gær voru úr öllum áttum. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá góð komment félaga míns og bloggvinar, Eyþórs Inga Jónssonar, organista hér við Akureyrarkirkju. Hann fór þar yfir sitt mat á þessu. Erum við mjög sammála í þeim efnum. Það má vel vera að mörgum hafi þótt húmorinn góður. Það er í mínum huga aukaatriði. Þetta snýst um virðingu við þjóðsönginn og það að um hann gilda lög.
Það má vel vera að einhverjum hafi þótt fyndið að snúa lofsöng séra Matthíasar upp á Alcan og áliðnaðinn, en lög eru lög þrátt fyrir það. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli. En ég þakka enn og aftur kommentin hér í gær og þær skoðanir sem þar komu fram.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.3.2007 | 12:28
Kaffibandalagið feigt - frjálslyndir einangraðir

Það kemur varla að óvörum. Segja má reyndar að nafngiftin sé orðin rangnefni. Allir sem horfðu á Silfur Egils í gær sáu gjána í áherslum Jóns Magnússonar og Ágústs Ólafs, vel sást að þar er engin heil brú til staðar á milli. Ummæli Jóns Magnússonar þar sem hann tók undir skilgreiningu Egils Helgasonar um að flokkurinn væri að verða eins og kristilegur repúblikanaflokkur vakti mikla athygli. Þar sást reyndar mjög vel á hvaða mið flokkurinn ætlar að halda. En í ljósi þess er flokkurinn ekki neinum samstarfshæfur.
Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins er hvorki stjórn eða stjórnarandstaðan með þingmeirihluta. Frjálslyndi flokkurinn hefur engan þingmann í þeirri mælingu. Íslandshreyfingin hefur þar þrjú sæti og mælist sem örlagaríkt afl, þó eflaust séu þau vonsvikin innst inni með að fá ekki meira. En það gæti þó verið að þrjú til fimm þingsæti til Íslandshreyfingarinnar verði til þess að hvorug blokkin hafi meirihluta og hún því komin þarna á milli.
Staða Frjálslynda flokksins er athyglisverð. Hann hefur einangrast mjög og kaffibandalagið virðist úr sögunni vegna ólgu milli flokkanna og meiningarmunar varðandi innflytjendamálin. Ummæli varaformanns Samfylkingarinnar vekja athygli og segja meira en mörg orð að þetta bandalag stjórnarandstöðunnar heldur ekki lengur og er úr sögunni. Samt þorir Ágúst Ólafur ekki að segja þetta hreint út, kannski kemur að því er líður á baráttuna.
Það verður vel fylgst með frjálslyndum í kosningabaráttunni. Meginþungi hita þeirra í innflytjendamálum verður í Reykjavík. Þar fara fremstir í flokki þeir Magnús Þór Hafsteinsson og Jón Magnússon. Hvorugur þeirra er inni í nýjustu könnun Gallups. Mun Íslandshreyfingin slaufa þá báða út þar? Fróðlegt verður það að sjá. Annars geta menn rétt ímyndað sér á hvaða pólitík þeir keyra næstu 50 dagana. Það sást vel í Silfrinu í gær.
![]() |
Telur skoðanir oddvita frjálslyndra ekki góðan grundvöll til samstarfs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2007 | 10:29
Flokkarnir semja um auglýsingakostnað
Það er ánægjulegt að loksins hafi náðst samkomulag milli framkvæmdastjóra stjórnmálaflokkanna um ramma í auglýsingamálum vegna alþingiskosninganna eftir sjö vikur. Reynt hefur verið nokkrum sinnum að landa slíku samkomulagi, en án árangurs. Þetta ætti að tryggja hófsamari kosningabaráttu og rólegri keyrslu en verið hefur, þó auðvitað fái flokkarnir rúman ramma til að kynna sig.
Flokkarnir ná þó ekki þeim stalli að banna t.d. sjónvarpsauglýsingar, en þar verður settur 28 milljóna króna rammi hinsvegar. Það kemur ekki að óvörum að sjá að fulltrúi Framsóknarflokksins vildi setja hæstu mörkin, eða 35 milljóna króna þak. Miðað við auglýsingakeyrslu Samfylkingar og sérstaklega Framsóknarflokks þá mátti búast við að erfitt yrði að fara með pakkann á kosningarnar neðar en þetta.
Þessar kosningar verða spennandi. Allar kannanir eru að sýna okkur nokkuð breytt pólitískt landslag og allir flokkar vilja berjast á sínum forsendum. Það eru viss tímamót að tekist hafi að marka kosningabaráttunni þrátt fyrir þá hörku skynsamlegan ramma. Það tekst vonandi að hafa baráttuna bæði heiðarlega og skynsamlega dýra. Þetta verður auðvitað dýr pakki, en þetta samkomulag er af hinu góða.
Nú verður svo gaman að sjá hver eyðir mestu, menn halda eflaust gott bókhald á það að kosningum loknum.
![]() |
Auglýsingakostnaður stjórnmálaflokkanna takmarkaður við 28 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2007 | 23:21
Hægri grænir slá út frjálslynda - spennandi óvissa
Það er fróðlegt að rýna í nýjustu könnun Fréttablaðsins. Þar mælist Íslandshreyfingin í fyrsta skipti, hlýtur þar 5% fylgi og þrjú þingsæti á meðan að Frjálslyndi flokkurinn dalar enn og hreinlega þurrkast út með rúmlega 4% fylgi. Það er þó svo lítill munur á þessum tveim flokkum að nær ómögulegt er um að segja hvor flokkurinn er að mælast inni eða hvort að þeir nái inn yfir höfuð. Þeir gætu slegið hvorn annan út.
Það eru vissulega tíðindi að sjá loksins einhverja mælingu á Íslandshreyfinguna. Eftir því hefur verið beðið nokkurn tíma. Ekki er þetta nógu sterk innkoma fyrir nýjan flokk. Nýjir flokkar hafa áður komið mun sterkar fram og keyrt stærri til leiks. En þetta er vissulega svo nýlega tilkomið stjórnmálaafl að fleiri mælingar þarf til. Enn á þessi flokkur eftir að sýna tromp sín í mannvali og áherslulínur. En það hlýtur þó að vera þeim vonbrigði að vera ekki að skora hærra strax í upphafi. En næsta könnun segir söguna þó enn betur vissulega.
Samfylkingin hækkar örlítið í þessari könnun. Enn er þó þessi stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins um þessar mundir að mælast tíu prósentustigum undir kjörfylginu árið 2003, mælist nú með 21% slétt. Hann fengi fjórtán þingmenn í þeirri stöðu. Fyrir helgina mældist Samfylkingin með innan við 20% fylgi hjá Gallup og 13 þingsæti. Sú mæling var þeim mikið högg, enda missa þeir fimm sitjandi þingmenn í þeirri stöðu og hafa aðeins þrjár konur inni. Slík mæling yrði þeim áfall, einkum við þær aðstæður að þetta er flokkur sem aldrei hefur verið í ríkisstjórn og ætti að vera með ágæta stöðu. Hann á við víðtækan vanda að stríða, sérstaklega virðist þjóðin ekki treysta forystu hans.
VG virðist vera að dala á tilkomu Íslandshreyfingarinnar. Flokkurinn missir aðeins flugið milli kannana. Hann mælist þarna með 23,3% og 16 þingmenn. Það verður þó seint metið mikið áfall, enda myndi slík mæling verða stórsigur fyrir VG, sem fékk innan við 10% í kosningunum 2003. Virðist VG vera að að haldast mjög vel á fylgi sínu miðað við allt, þó að merki þess sjáist þarna að VG hafi náð fylgistoppi og farin að síga niður. En það verður fróðlegt að sjá í næstu könnun hvort að Íslandshreyfingin eigi eftir að taka meira af vinstri grænum en er í þessari könnun.
Sjálfstæðisflokkurinn lækkar örlítið milli kannana. Hann mælist með 36,1% fylgi, og 24 þingsæti, örlitlu yfir kjörfylginu 2003. Framsóknarflokkurinn er svo á svipuðum slóðum, mælist með 9,4% og 7 þingsæti. Þeir eru að verða nokkuð fastir með fimm til sex þingsæti í mælingum. Stjórnin mælist því fallin, með 30 þingsæti á meðan að stjórnarandstaðan, plús Íslandshreyfingin, hefur 33 þingsæti. Staðan er mjög tvísýn og öllum ljóst að mjög spennandi kosningabarátta er framundan. Það eru fáir sem vita allavega hvað gerist á næstunni. Mörg athyglisverð spurningamerki.
Íslandshreyfingin slær út Frjálslynda flokkinn, en fær samt ekki sterka mælingu eftir allar vangavelturnar um stöðu þess. Næstu kannanir verða þó merkilegar og með þeim verður fylgst. Ég lenti í þessari skoðanakönnun og fékk hringingu laust fyrir hádegið í gær. Þar var spurt um flokk, hvað ég teldi lykilkosningamálin að þessu sinni og um afstöðu til stækkunar álversins í Straumsvík, en þýðingarmikil kosning um það mál fer fram á laugardag. Það verður fróðlegt að sjá hvernig útkoman var í þessum spurningum. Fáum væntanlega brátt að heyra af því
En staðan er spennandi í stjórnmálunum. 48 dagar í kosningar og spennan að magnast upp. Það er allt galopið og fylgið á miklu flugi. Þetta verður áhugaverð kosningabarátta fyrir stjórnmálaáhugamennina, enginn vafi á því.
![]() |
Íslandshreyfingin með 5% fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.3.2007 | 09:12
Fór Spaugstofan illa með þjóðsönginn?
Spaugstofan er orðin goðsögn í íslenskri sjónvarpssögu. Þeir eiga glæsilegan feril að baki. Þátturinn í gærkvöldi var þeirra 300. frá árinu 1989 - merkileg tímamót það. Var að enda við að horfa á þáttinn núna, enda var ég ekki heima í allt gærkvöld. Varð svolítið hissa yfir þessum merkilega þætti í sögu Spaugstofunnar. Það vakti athygli mína að þar var þjóðsöngurinn tekinn, skipt um texta og verið að grínast eitthvað.
Það má vel vera að einhverjir telji mig gamaldags þegar að ég segi þetta, en ég ætla þó að gera það samt. Mér finnst þjóðsöngurinn vera mun heilagri en svo að hann sé gerður að gamanmáli, honum breytt og tjaskað til vegna deilna um eitt dægurmálanna. Spaugstofan hefur annars aldrei verið feimin að stuða og segja sitt, kalla fram skiptar skoðanir og þora að gera grín að mönnum og málefnum.
Allir muna t.d. eftir því þegar að Spaugstofan gerði grín að kirkjunni fyrir áratug og var kærð fyrir klámtilburði af manni einum héðan frá Akureyri. Þeir hafa ekki farið í gegnum 300 þætti og tvo áratugi án þess að stuða. Enda erfitt að gera grín í gegnum svona langan tíma svo allir brosi og séu sáttir.
En það að grínast með þjóðsönginn vakti athygli í þessum þætti. Fannst þetta svona frekar stingandi, get ekki annað sagt. En það er eins og það er bara. Ekki hægt annað en segja sína skoðun á því. Fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða viðbrögð þetta kalli á í samfélaginu.
25.3.2007 | 07:40
Undurfögur skýjahöll

Sjálfur hef ég mjög gaman af myndum. Set oftast myndir með skrifunum hér, oft myndir sem segja stundum ekki síður meira en frásögnin. Það eru oft myndir sem vekja athygli lesandans áður en hann les skrifin. Þannig á það nefnilega að vera að mínu mati. Sterk mynd skiptir jú alltaf máli.
Þessi fréttamynd af skýjahöllinni í Vík í Mýrdal er virkilega falleg. Hún fangar athyglina allavega um leið, flott sjónarhorn og fullkomin veðurmynd. Enda ekki furða að hún væri verðlaunuð. Veðurmyndirnar eru ansi margar fallegar og það eru margir áhugaljósmyndararnir sem festa eftirminnileg augnablik í náttúrunni, augnablik veðurfarsins, á filmu. Það sást vel í ljósmyndasamkeppni Stöðvar 2 t.d. á síðasta ári.
![]() |
Skýjahöll yfir Vík í Mýrdal valin mynd ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.3.2007 | 18:32
Hugsjónarifrildi í miðri leiksýningu
Allir sem hafa lesið Draumalandið eftir Andra Snæ hafa á henni skoðun. Hún kallar á mann að taka afstöðu, allavega hugsa málin vel og pæla vel í kostum og göllum stóriðjuhugmynda. Hún er lifandi bók, tryggir manni hugsanir og stúdíu. Ég las hana sjálfur með áhuga. Ég var ekki sammála öllu sem í henni stóð, en hún hentaði mér vel. Þetta var bók sem kom hausnum á mikið flug. Stundum var ég svo innilega ósammála en aðra stundina innilega sammála. Þetta kallaði fram allan skalann í huga mér.
Ég er þannig gerður að ég vil kanna hlutina frá öllum hliðum, stúdera ólíkar skoðanir. Ekki bara heyra mínar skoðanir, heldur líka annarra. Ég vil líka rökræður við fólk með aðrar skoðanir. Enda á ég vini í öllum flokkum, ég á ættingja sem starfað hafa framarlega í öðrum flokkum og vini sem hafa verið framarlega í flokki annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins. Enda er það síðasta sem ég vil að inniloka mig með einhverjum jábræðrum, fólki sem er mér sammála.
Ég vil lifandi spjall, þess vegna vil ég kynnast líka fólki með aðrar skoðanir. Þannig að þessi bók var í senn lifandi og fersk, tryggði manni góðar pælingar. Þó að ég hafi ekki verið sammála öllu sem í henni stóð var ég glaður eftir lesturinn, enda fékk hún mig til að hugsa kosti og galla stóriðjumála upp á nýtt. Ég var ekki eins eftir lesturinn og fyrir, en það var einmitt þess vegna sem ég las bókina. Ég vildi kynna mér þessa hlið. Sé alls ekki eftir því.
Hugsjónahitinn er misjafn í fólki. Fyndið að sjá þessa frétt um manninn sem var svo hróplega ósammála Draumalandinu að hann kallaði fram í sýninguna í Hafnarfirði. Þetta er verk sem kallar á skoðanir og pælingar, en þetta er kannski varla staður og stund til að svara á móti. Kómískt. Þetta var allavega fyndnasta frétt dagsins, held það hreinlega.
![]() |
Leikhúsgestur rökræddi við leikara í miðri sýningu á Draumalandinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2007 | 15:34
VG toppar í Norðaustri - áfall fyrir Kristjánana
Í nýrri skoðanakönnun Gallups mælist VG stærst flokka í Norðausturkjördæmi og með fjóra kjördæmakjörna þingmenn á meðan að Samfylkingin veslast upp og er með einn þingmann. Steingrímur J. Sigfússon mælist því fyrsti þingmaður kjördæmisins. Mæling af þessu tagi er mjög vond fyrir alla aðra flokka í kjördæminu, en þó sérstaklega fyrir Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn. Kristján er nafnið á báðum kjördæmaleiðtogum þeirra hér. Hvorugur þeirra hoppar varla hæð sína af gleði yfir þessari könnun. Enda verða svona skakkaföll afdrifarík ef af þeim verður.
Svo virðist vera sem að VG sé að taka mikið fylgi af Samfylkingunni, enda er síðarnefndi flokkurinn varla svipur hjá sjón. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður Samfylkingarinnar frá 1999, mælist ekki inni í könnuninni og Lára Stefánsdóttir er fjarri því að sjálfsögðu að eiga möguleika á þingsæti skv. því. Í síðustu kosningum fengu bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tvö þingsæti, en Lára var hársbreidd frá því að ná inn. Hún var inni á þingi meginhluta kosninganæturinnar en féll út við lokatölur er Framsókn náði inn fjórða manni sínum; Birki Jóni Jónssyni. Aðeins munaði þá 41 atkvæði á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, þeim síðarnefnda í hag; 5.544 á móti 5.503.
Kristján Þór Júlíusson leiðir nú Sjálfstæðisflokkinn í fyrsta skipti í þingkosningum eftir tveggja áratuga stjórnmálaferil í sveitarstjórnarpólitík. Hann hætti sem bæjarstjóri á Akureyri í janúar eftir níu ára starf til að helga sig nýjum verkefnum, nú í landsmálum. Það verður án vafa mikið pólitískt áfall fyrir Kristján Þór nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki fyrsta þingmanni kjördæmisins, forystu á kjördæmavísu, í þessum þingkosningum. Það er klárlega markmið hans og Sjálfstæðisflokksins að hljóta flest atkvæði hér og tryggja bæði Ólöfu Nordal og Þorvald Ingvarsson inn á þing. Ef marka má kannanir undanfarna mánuði hefur Ólöf verið nokkuð örugg í sessi, en staða flokksins hefur þó veikst verulega á milli kannana að undanförnu.
Nýjasta könnun Gallups er ekki góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann þarf að minnsta kosti 30% fylgi til að eygja möguleika á fjórða manninum og fær hann alls ekki við þessar aðstæður sem uppi eru í þessari mælingu. Hann þarf að vinna vel eigi hann að geta náð því. Kannanir hafa þó sýnt að það getur gerst. Það verður hörð barátta þar og má búast við að sjálfstæðismenn verði áberandi í kosningabaráttunni. Þessi mæling sýnir mikið fylgistap fyrir Samfylkinguna sem horfa á fylgið streyma yfir til VG. Það er varla mikil gleði þar.
Ég hef heyrt marga tala um þessa könnun. Sitt sýnist hverjum. Hún boðar stórtíðindi, enda verða það stórpólitísk tíðindi verði Steingrímur J. Sigfússon fyrsti þingmaður kjördæmisins. Allir flokkar nema VG verða fyrir skakkaföllum í þessari mælingu. Til dæmis eru frjálslyndir órafjarri því að ná inn manni og Framsókn tapar tveim þingsætum, en þeir fengu fjögur þingsæti hér síðast og yfir 30% fylgi. En baráttan er bara rétt að hefjast og allur helsti hasarinn eftir. Þeir nafnar Kristján Þór og Möller ætla sér eflaust að trompa Steingrím J. þegar á hólminn kemur.
Þetta verður spennandi kosningabarátta hér í Norðausturkjördæmi. Þessi könnun sýnir okkur þó hversu veik Samfylkingin er orðin fyrst og fremst. Það er lítil gleði þar og virðast þeir verða yfir stóran hjalla að klífa til að geta snúið við vondri stöðu og gert betur en vorið 2003 allavega. Hvað varðar sjálfstæðismenn er greinilegt að tæp 30% eru ekki nóg fyrir Kristján Þór og hans hóp. Þessi könnun sýnir það vel. En það verður auðvitað spurt að leikslokum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
24.3.2007 | 01:49
Sveiflubreytingar hjá Sjálfstæðisflokki milli mánaða
Síðustu mánuði hefur Sjálfstæðisflokkurinn mælst veikari á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni í könnunum Gallups; með baráttufólkið í þéttbýlinu utan þings. Þetta snýst við í nýjustu könnuninni. Þar eru Birgir Ármannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Sigríður Ásthildur Andersen að mælast inni. Góð tíðindi vissulega það - aftur á móti er áberandi að sjálfstæðismenn missa nokkuð flugið á landsbyggðinni og missa bæði Þorvald Ingvarsson og Björk Guðjónsdóttur út - baráttufólkið í Norðaustur- og Suðurkjördæmi.
Staðan hefur því breyst örlítið. Þessi staða er vissulega mjög góð fyrir Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. Skv. þessari mælingu eru tíu sjálfstæðismenn inni í Reykjavík og sex í Suðvesturkjördæmi. Þar mælast því 16 af 25 þingmönnum flokksins í könnuninni. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut á þessu svæði 14 þingsæti í kosningunum 2003, síðustu þingkosningum Davíðs Oddssonar; 9 í Reykjavík og 5 í Kraganum. Þessi staða er góð fyrir flokkinn á þessu svæði í ljósi þess að flokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 16 ár. Styrk staða það. Í raun er þetta ótrúlega góð staða stjórnmálaflokks eftir svo langa pólitíska forystu.
Á landsbyggðinni mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá menn í öllum þrem landsbyggðarkjördæmunum. Þar er flokkurinn með 9 þingsæti af 25 í könnuninni. Í síðustu könnun voru sætin þar 11, en voru 8 í kosningunum 2003. Mest munar um nokkuð fylgistap í Norðausturkjördæmi. Síðast voru þar fjórir menn inni, þeir eru þrír núna og það sem meira er að VG er komið með afgerandi forskot á Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu. Þessi könnun sýnir því Steingrím J. Sigfússon sem fyrsta þingmann kjördæmisins. Það verður pólitískt áfall fyrir Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóra á Akureyri, vinni hann ekki slaginn þar eftir langa tíð í sveitarstjórnarmálum. Takmark hans hlýtur að vera leiðtogahlutverk fyrir kjördæmið.
Svo virðist vera að flokkurinn sé að missa líka fylgi í Suðurkjördæmi. Það verður áfall fyrir Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem nýjan kjördæmaleiðtoga í Suðrinu, að ná ekki inn Björk Guðjónsdóttur. Í síðustu kosningum klofnaði flokkurinn á svæðinu og tapaði fjórða manni vegna þess. Það sæti ætti að vinnast nú, allt annað væri áfall fyrir flokkinn á svæðinu. Af því leiðir að flokkurinn veikist í báðum þessum kjördæmum. Í Norðvesturkjördæmi virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera með þrjá menn nokkuð örugga. Flokkurinn er þar kominn af stað með vef og hefur opnað kosningaskrifstofur. Þeir fara fyrr af stað en aðrir; fara af stað fyrir páska. Gott það.
Þessar kosningar verða spennandi. Það er öllum ljóst. Sjálfstæðisflokkurinn gæti vel við mælingu af þessu tagi unað í heildina, einkum hvað varðar höfuðborgarsvæðið. Úti á landi virðist staðan ekki vera eins traust og var fyrir nokkrum vikum. Sjálfstæðisflokkurinn mun að öllum líkindum hækka mjög milli kosninga í Norðausturkjördæmi. Ólöf Nordal hefur mælst inni í öllum könnunum eftir að hún varð hinn stóri sigurvegari prófkjörsins í nóvember og stimplaði sig inn á kortið - komst upp fyrir bæði Þorvald Ingvarsson og Sigríði Ingvarsdóttur. En þessi mæling er þó ekki nóg fyrir flokkinn þar.
Geir H. Haarde heldur sterkur til kosningabaráttunnar sé þessi könnun rétt fyrir flokkinn í heild sinni. En það eru plúsar og mínusar á þessum hluta vegferðarinnar til kosninganna eftir sjö vikur. Hans góða staða í huga kjósenda er um leið stærsti styrkleiki Sjálfstæðisflokksins. Allar stjórnmálamannamælingar hafa sýnt hann sterkasta stjórnmálamann landsins - þann sem fólk vill sjá leiða ríkisstjórn. Enda sækist hann eftir því hlutverki. Og landsmenn vilja trausta forystu í tveggja flokka stjórn.
Allar kannanir sýna okkur vel að Sjálfstæðisflokkurinn stendur í raun vel. Framsókn og Samfylking eru hreinlega að crash-a miðað við síðustu kosningar. VG dansar á skýjum, horfir niður á flokkinn sem vildi vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er vissulega merkileg staða sem við okkur blasir, þetta verða athyglisverðar kosningar haldist mæling af þessu tagi til enda. En sjö vikur geta verið eilífð í bransa á borð við stjórnmál.
![]() |
Geir H. Haarde telur samstarf Samfylkingar og VG versta kostinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.3.2007 | 18:29
VG í mikilli uppsveiflu - áfall Samfylkingarinnar
Það er mjög fróðlegt að rýna í nýjustu könnun Gallups. Uppsveifla VG heldur þar og áfall Samfylkingarinnar verður sífellt meira áberandi. Fimm sitjandi þingmenn flokksins mælast fallnir í könnuninni og aðeins myndu þrjár konur ná á þing í nafni flokksins. Á meðan blómstrar VG enn og mælist með sautján þingmenn, tólf fleirum en í kosningunum 2003. Samfylkingin tapar sjö þingmönnum, sem er mikið af stjórnarandstöðuafli að vera.
Samfylkingin er í könnuninni að missa Einar Má Sigurðarson, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Mörð Árnason og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur af þingi. Aðeins Róbert Marshall í Suðurkjördæmi er að mælast inni af fólki í baráttusætum flokksins. Það virðist þurfa pólitískt kraftaverk til að Samfylkingin sjái fram á að ná inn t.d. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Önnu Kristínu, Árna Páli Árnasyni, Guðmundi Steingrímssyni, Láru Stefánsdóttur og Guðnýju Karlsdóttur. Aðeins í Suðurkjördæmi virðist Samfylkingin geta brosað í dag. Í Norðausturkjördæmi er Samfylkingin orðin minnst fjórflokkanna hvorki meira né minna og er þar aðeins með Kristján Möller inni.
Þessi könnun Gallups staðfestir endanlega mikla fylgissveiflu til vinstri grænna. Hún er orðin mjög föst yfir 20% fylgi og því sífellt meir að festast í sessi. Það er mikil kvennasveifla sem fer í áttina til þeirra fyrst og fremst. Vinstrimenn virðast hafa gefist upp á Samfylkingunni, sem sífellt minnkar og er núkomin undir 20% markið og fer að nálgast fylgislægðina sem hún varð fyrir á fyrstu árum sínum. Segja má að Samfylkingin sé að verða örflokkur, festast í sessi sem þriðja stærsta aflið. Það dettur engum í hug að tala um flokkinn lengur sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta eru vissulega mikil tíðindi.
Það virðast vera stóru tíðindin að konur horfa í áttina til vinstri grænna í æ meira mæli. Konur segja skilið við Samfylkinguna með áberandi hætti, þrátt fyrir það að kona sé þar í forystu, kona sem metin var vonarstjarna vinstrimanna fyrir fimm til sex árum. Hennar staða er orðin mjög slæm og vandséð hvernig að hún geti verið trúverðugur leiðtogi hafandi leitt flokkinn til verstu útkomu sinnar og órafjarri öllum lykilmarkmiðum sínum í formannskjörinu 2005. Miðað við þessa stöðu alla er VG að festa sig í sessi sem forystuafl til vinstri. Því verður vart neitað. VG er að leiða vinstrið og á mikilli sigurbraut meðan að Samfylkingin veslast hreinlega upp.
Það er alveg ljóst á þessari stöðu að ríkisstjórnin er á fallanda fæti. Framsóknarflokkurinn sígur sífellt neðar og virðist ekki vera að ná sér upp. Staða þeirra hlýtur að vera þeim áfall. Í þingkosningunum 2003 fengu Framsóknarflokkur og Samfylking þingmeirihluta, 32 þingmenn. Nú mælast flokkarnir tveir með 18 þingsæti. Þeir hafa því tapað fjórtán þingsætum, sjö hvor, frá kosningum til þessarar könnunarmælingar. Þetta eru stórpólitísk tíðindi. Það er djúpstæð kreppa innan beggja flokka og vandséð hvernig að formenn flokkanna geta staðið af sér pólitískt áfall á borð við þetta sem stefnir í. Bæði þurfa nú pólitískt kraftaverk.
Staða Sjálfstæðisflokksins er þolanleg. Flokkurinn hefur verið að mælast sterkur á landsbyggðinni en veikri á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur þetta snúist við algjörlega. Til dæmis virðist Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi vera að tapa nokkru fylgi og VG er orðið forystuafl í Norðausturkjördæmi. Það eru stórtíðindi. Það sem breytist nú er að fólk í baráttusætum Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu eru inni en út falla Þorvaldur Ingvarsson og Björk Guðjónsdóttir, sem eru í baráttusætum í Norðaustri og Suðri.
Sterk staða vinstri grænna er til merkis um breytingar. Þetta er orðin svo ákveðin sveifla til vinstri grænna að hún verður ekki hunsuð. Þetta er afgerandi bylgja sem þeir eru á núna. Tal um stutta sveiflu á ekki lengur við. Það þarf ansi mikið að breytast til að þeir fái ekki um 20% í kosningunum, eiginlega þyrfti hrun til. Um leið er Samfylkingin að veslast upp. Staða hennar er athyglisverð. Fátt nema pólitískt kraftaverk getur bjargað þeim frá því að tapa stórt frá kosningunum 2003. Varaformaður frjálslyndra mælist svo fallinn og með honum allir þingmenn flokksins nema formaðurinn. Staðan er á fallanda fæti þar.
Spurningin er hvernig stjórn gæti verið mynduð úr svona stöðu. Held að þar séu þrír kostir helstir; stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, VG og Sjálfstæðisflokks eða VG, Framsóknar og Samfylkingar. Það er enginn vafi að fái VG um eða yfir 25% muni þeir selja sig dýrt, allavega krefjast forsætis í vinstristjórn eigi að mynda hana. Þessi könnun er að því leyti svakalegt högg fyrir SF og Ingibjörgu Sólrúnu að Steingrímur J. er orðinn risi á vinstrivængnum - hann er orðinn alvöru forsætisráðherraefni til vinstri. ISG er ekki drottnandi persóna til vinstri. Þeir dagar eru liðnir. Það eru stór tíðindi.
En ein könnun segir aldrei alla söguna. En samt. Þetta eru mjög sterk tíðindi og bylgjan til VG verður ekki hunsuð. Til þess er hún orðin of langvinn og afgerandi. En þetta verða spennandi kosningar. Spái mest spennandi og vægðarlausustu kosningabaráttu með gylliboðum og auglýsingakeyrslu í sögu lýðveldisins. Einfalt mál. En það er aldrei gaman af spennulausri kosningabaráttu, ekki satt?
![]() |
Þorgerður: Þátttaka okkar forsenda umburðarlyndrar miðjustjórnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.3.2007 | 16:06
50 dagar til kosninga - hverjir kæmust á þing?
50 dagar eru til alþingiskosninga - spennan vex og kosningbaráttan að hefjast af krafti. Könnun Gallups í dag hefur vakið mikla athygli og sýnir talsverðar sviptingar. Ég hef nú sett upp lista um það hvaða þingmenn nái kjöri gangi könnunin eftir, sem sýnir stöðu mála á þessum tímapunkti. Það er athyglisverð mæling - 28 nýjir alþingismenn myndu ná inn í slíkri stöðu.
Á flestum stöðum eru framboðslistar til og staða mála örugg. Þessi listi er mjög athyglisverður. Í þessu má sjá sviptingar. Fimm sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar eru fallnir í þessari stöðu og þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en á það ber að minnast að allir sjálfstæðismennirnir féllu neðar en í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í nóvember og einn þeirra var kjörinn af lista Frjálslynda flokksins, eins og minnst er á í útskýringum fyrir hvern flokk.
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, mælist inni í fyrsta skipti í langan tíma. Sem fyrr mælist Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, utan þings og blæs ekki byrlega fyrir honum, né heldur Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, sem mælist nú úti eftir að hafa verið inni í Gallup-könnunum um skeið. Magnús Þór Hafsteinsson, Kristinn H. Gunnarsson, Valdimar Leó Friðriksson og Sigurjón Þórðarson, sem fara fram fyrir frjálslynda, mælast allir fallnir í könnuninni, rétt eins og hinn umdeildi Jón Magnússon er ekki inni í Reykjavík suður.
En hér er semsagt nafnalistinn:
Sjálfstæðisflokkur (25)
Geir H. Haarde - Reykjavík suður
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Guðlaugur Þór Þórðarson - Reykjavík norður
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Sigríður Á. Andersen
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Sturla Böðvarsson - Norðvesturkjördæmi
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Kristján Þór Júlíusson - Norðausturkjördæmi
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Árni M. Mathiesen - Suðurkjördæmi
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 22 þingsæti í kosningunum 2003 (bættist liðsauki við inngöngu Gunnars Örlygssonar í maí 2005, sem kom úr Frjálslynda flokknum) - bætir við sig þrem þingmönnum í könnuninni.
Þingmenn sem falla: Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson.
Þingmenn sem hætta: Halldór Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir.
VG (17)
Kolbrún Halldórsdóttir - Reykjavík suður
Álfheiður Ingadóttir
Auður Lilja Erlingsdóttir
Guðmundur Magnússon
Katrín Jakobsdóttir - Reykjavík norður
Árni Þór Sigurðsson
Paul Nikolov
Ögmundur Jónasson - Suðvesturkjördæmi
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Jón Bjarnason - Norðvesturkjördæmi
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Steingrímur J. Sigfússon - Norðausturkjördæmi
Þuríður Backman
Björn Valur Gíslason
Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir
Atli Gíslason - Suðurkjördæmi
Alma Lísa Jóhannsdóttir
VG fékk 5 þingsæti í kosningunum 2003 - bætir við sig tólf þingsætum í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Enginn.
Þingmenn sem hætta: Enginn
Samfylkingin (13)
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir - Reykjavík suður
Ágúst Ólafur Ágústsson
Össur Skarphéðinsson - Reykjavík norður
Jóhanna Sigurðardóttir
Helgi Hjörvar
Gunnar Svavarsson - Suðvesturkjördæmi
Katrín Júlíusdóttir
Guðbjartur Hannesson - Norðvesturkjördæmi
Karl V. Matthíasson
Kristján L. Möller - Norðausturkjördæmi
Björgvin G. Sigurðsson - Suðurkjördæmi
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall
Samfylkingin fékk 20 þingsæti í kosningunum 2003 (missti eitt með brotthvarfi Valdimars Leós Friðrikssonar til Frjálslynda flokksins) - missir sjö þingsæti í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Einar Már Sigurðarson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Mörður Árnason og Anna Kristín Gunnarsdóttir.
Þingmenn sem hætta: Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Jón Gunnarsson.
Framsóknarflokkur (5)
Siv Friðleifsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Magnús Stefánsson - Norðvesturkjördæmi
Valgerður Sverrisdóttir - Norðausturkjördæmi
Birkir Jón Jónsson
Guðni Ágústsson - Suðurkjördæmi
Framsóknarflokkurinn fékk 12 þingsæti í kosningunum 2003 (missti eitt með brotthvarfi Kristins H. Gunnarssonar til Frjálslynda flokksins) - missir sjö þingsæti í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Jónína Bjartmarz, Sæunn Stefánsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson.
Þingmenn sem hætta: Jón Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Dagný Jónsdóttir.
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er nú utan þings og mælist heldur ekki inni í könnuninni.
Frjálslyndi flokkurinn (3)
Kolbrún Stefánsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Guðjón Arnar Kristjánsson - Norðvesturkjördæmi
Grétar Mar Jónsson - Suðurkjördæmi
Frjálslyndi flokkurinn fékk 4 þingsæti í kosningunum 2003 (einn þeirra gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn árið 2005 og flokkurinn fékk tvo nýja þingmenn árið 2007) - flokkurinn fær þrjá menn í þessari könnun.
Þingmenn sem falla: Magnús Þór Hafsteinsson, Kristinn H. Gunnarsson, Sigurjón Þórðarson og Valdimar Leó Friðriksson.
Þingmenn sem hætta: Enginn.
Þetta eru mjög athyglisverðir nafnalistar og öllum ljóst að gríðarleg uppstokkun verður á Alþingi í vor verði þetta niðurstaðan. Fyrir það fyrsta er ríkisstjórnin fallin í þessari könnun og ljóst að komið getur til mjög spennandi og jafnvel langvinnra stjórnarmyndunarviðræðna ef þessi verður staðan. Þó ber á það að líta að tveir flokkar hafa nú þegar nær útilokað stjórnarsamstarf við Frjálslynda flokkinn eins og staðan er nú.
En 50 dagar geta verið langur tími í pólitík - það eru tæpir tveir mánuðir og sjö vikur til stefnu nákvæmlega. Vikan getur oft verið sem eilífð í pólitík og öllum ljóst að mikil spenna verður yfir baráttunni. Svo er ekki enn útséð um að fleiri framboð komi fram. Það má því búast við leiftandi pólitískri spennu næstu tvo mánuðina.
Þegar að talað er um fallna þingmenn miða ég við frambjóðendur í tíu efstu sætunum. Þessi listi er settur saman eftir útreikningum Gallups á þingmönnum flokkanna og skiptingu þeirra á kjördæmin. Eina sem ég hef því gert er að setja nöfn við niðurstöðu könnunar Gallups og útreikninga, svo það sé skýrt tekið fram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)