18.4.2007 | 00:27
Bandarísk þjóðarsorg - púslin raðast saman
Það er þjóðarsorg í Bandaríkjunum. Harmleikurinn í Virginia Tech hefur hreyft við öllum sem fylgst hafa með fréttum - þetta er harmleikur sem erfitt er að lýsa með orðum í sannleika sagt. Minningarathöfn var haldin á skólasvæðinu í dag. Horfði áðan á fréttamyndir þaðan. Það var sérstök upplifun að sjá það. Þar flutti George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, ávarp. Sorg hvílir yfir friðsælu skólasamfélagi. Það er mikilvægt að sýna þessu fólki samúð.
Púslin á bakvið þennan harmleik raðast nú saman hægt og hljótt. Fjölmiðlar og lögreglan fara yfir það sem vitað er. Að mörgu leyti er persóna fjöldamorðingjans hulin þoku, enda var hann einfari og greinilega verið mjög bilaður. Það bendir nú flest til þess að ástæða fjöldamorðsins hafi verið hatur á ríkum ungmennum sem þar hafi verið í námi. Skrif hans munu hafa sýnt ástand andlega vanheils manns og haft er eftir lögreglu að þau hafi verið skuggaleg, en það sem mögulegt er að ráða af persónunni finnst nú helst í því sem hann lét eftir sig í herbergi sínu.
Lýsingar á persónunni á bakvið þennan fjöldamorðingja koma reyndar auðvitað fram af þeim sem voru með honum í námi í Virginia Tech. Framan af var talið að þetta hefði verið ástríðumorð sem hafi farið úr böndunum. Lögregla dregur nú í efa að sú sem talin var hafa verið kærasta hans og var myrt í þessu fjöldamorði hafi verið tengd honum, heldur hafi þau aðeins þekkst vel og hún því ekkert sérstaklega frekar verið valin en aðrir. Heilt yfir virðist ekki hafa verið spurt að neinu um hver hafi verið hvað og gert eitthvað svosem, allir sem á staðnum voru hlutu sömu grimmilegu örlögin. Nokkrum tókst þó að sleppa lifandi frá þessu voðaverki.
Það er mjög sorglegt að lesa umfjöllun um þá sem féllu í valinn í þessu fjöldamorði. Það var fólk á öllum aldri, allt frá reyndum kennurum með mikla fræðimannsþekkingu að baki og merk störf á sínum vettvangi allt til nýnema og nema á lokaári sem átti mörg tækifæri framundan. Veit ekki hvaða orð hæfa. Ég er þess fullviss að þessi harmleikur muni öðlast sess í bandarískri sögu, enda er þetta stingandi hörmung sem leggst á heilt samfélag og merkir heila þjóð mjög lengi. Öll þekkjum við áhrif Columbine-fjöldamorðsins og þetta er á mun verri skala.
Heilt yfir er ljóst af fréttamyndum að samfélagið í þessum skóla er í rúst og það mun taka langan tíma að yfirvinna svona skelfilega örlagastungu á viðkvæman blett.
![]() |
Bush segir þjóðarsorg ríkja í Bandaríkjunum vegna atburðanna í Blacksburg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.4.2007 | 17:42
Sjálfstæðisflokkurinn og VG í sókn í Suðrinu
Skv. kjördæmakönnun Gallups í Suðurkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn þar með fjóra kjördæmakjörna þingmenn. VG mælist fjórfalt stærri en í kosningunum 2003. Samfylking og Framsóknarflokkur missa nokkuð fylgi og kjördæmakjörinn þingmann. Íslandshreyfingin nær ekki flugi. Mikla athygli vekur að aðeins tvær konur mælast inni og þar af er einn Suðurnesjamaður, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en þetta er fjölmennasta svæði kjördæmisins.
Sjálfstæðisflokkurinn: 39,6% - (29,2%)
Samfylkingin: 24,3% - (29,7%)
VG: 17,4% - (4,7%)
Framsóknarflokkurinn: 12,3% - (23,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 5,0% - (8,7%)
Íslandshreyfingin: 1,4%
Þingmenn skv. könnun
Árni M. Mathiesen (Sjálfstæðisflokki)
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir
Björgvin G. Sigurðsson (Samfylkingu)
Lúðvík Bergvinsson
Atli Gíslason (VG)
Alma Lísa Jóhannsdóttir
Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki)
Fallin skv. könnun
Drífa Hjartardóttir
Guðjón Hjörleifsson
Gunnar Örn Örlygsson (féllu öll í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins)
Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir nokkru fylgi. Sérstaklega er áfall Framsóknarflokksins mikið í könnuninni og yrði útkoma í einhverri líkingu við þetta umtalsvert pólitískt áfall fyrir Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins. Frjálslyndir mælast örlítið lægri kjörfylginu 2003 og missa þingmann sinn. Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel yfir kjörfylginu og með fjóra kjördæmakjörna þingmenn. Þeir fengu vondar kosningar í þessu sterka kjördæmi sínu árið 2003, en þar varð mjög vondur klofningur með sérframboði þingmannsins Kristjáns Pálssonar þess valdandi að flokkurinn missti forystu á svæðinu til Samfylkingarinnar og hlaut ekki fjórða manninn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að ná fyrri flugi að nýju ef marka má þetta og er mun betri útkoma en í könnun Stöðvar 2 fyrir skömmu.
VG bætir umtalsverðu fylgi við sig og eru greinilega á mikilli siglingu í kjördæminu undir forystu Atla Gíslasonar, sem er greinilega að fljúga inn á þing við annan mann, Selfyssinginn Ölmu Lísu. Ef marka má þessa mælingu eru Bjarni Harðarson og Róbert Marshall báðir utan þings, sem hljóta að teljast mikil tíðindi. Það er auðvitað gleðiefni að sjá þessa góðu stöðu sjálfstæðismanna en ég tel að stóra stjarna þeirra í þessum kosningum verði vinkona mín, Unnur Brá - í fimmta sætinu.
Er að hlusta á kjördæmaþátt á Rás 2 frá Suðurkjördæmi. Mikið tekist á þar. Sérstaklega virðast Árnesingarnir Guðni og Björgvin G. fara mjög í taugarnar hvor á öðrum. Mikil spenna þeirra á milli. Athyglisvert að heyra skemmtilegan líkan talanda þeirra, báðir ansi kjarnmæltir. Hreimur Guðna er löngu þekktur og Björgvin er með hann mjög líkan. Annars finnst mér Árni Mathiesen standa sig vel í umræðunum og greinilegt að hann er að finna kraftinn á nýjum kjördæmaslóðum.
En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi 25 dagar sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar.
![]() |
VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.4.2007 | 15:50
Ásýnd og bakgrunnur fjöldamorðingjans könnuð

Mér finnst þetta það brútal og ótrúlega kuldalegt voðaverk að hann hlýtur að hafa átt sér einhverja vitorðsmenn. Verður svosem erfitt að fá úr því skorið. En þetta mál hlýtur að vera stærra en svo að hann hafi alveg einn verið að verk. Mun hann hafa verið einfari, mjög sér á báti og ekki mjög inntengdur í stóra vinahópa á skólasvæðinu ef marka má fréttir. Mér fannst athyglisverð lýsingin sem ég las áðan um það hvernig hann bar sig við þetta voðaverk. Þetta hefur verið mjög ákveðinn verknaður og ekkert hik. Þetta er sorglegt.
Ég hef fengið komment hér og líka tölvupósta, m.a. frá vinum mínum sem búa vestan hafs. Þetta er eins og gefur að skilja í öllum fjölmiðlum þar og er frétt um allan heim. Fátt er meira áberandi í dag hér heima á Fróni en þetta mál. Um er að ræða atburð sem verður lengi í minnum hafður. Ég hef séð það í kommentum hér að sumir snúa þessu máli upp í heift gegn ríkisstjórn Bandaríkjanna. Það er sami gamli söngurinn. Það er eins og það er bara, en það verður að líta á málið í víðara samhengi.
Enda er hér um að ræða verknað, þó óvenjulega kuldalegur sé í þessu tilfelli, sem hefur gerst víða um heim meira að segja í rólegheitabæjum víða um heim. Listar um það er að finna hér í eldri færslum frá þeim sem kommentað hafa til mín. Það eru vissulega mjög sláandi listar. En þeir sýna vanda í þessum efnum sem ná mörg ár aftur í tímann. Annars finnst mér þetta mál vera svo miklu stærra og kuldalegra en mörg önnur og ég held að það fái sérstakan sess er frá líður.
Einn sendi mér póst og spurði um hvaða skoðun ég hefði á byssueign og tengdum málum. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að herða lög um byssueign og setja ströng viðurlög í þeim efnum. Það á að vera grunnmál og vonandi mun þessi harmleikur leiða til þess að umræðan í þessum efnum komist á annað og farsælla stig en áður hefur verið í Bandaríkjunum. Ég hef sjálfur alltaf verið á móti skotvopnum til einkaafnota og vildi helst banna það að nær öllu leyti.
Ég sé nú á bandarískum fréttavefum að haldin verður minningarathöfn á skólasvæðinu í dag vegna fjöldamorðanna. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og eiginkona hans, Laura Welch Bush, verða þar viðstödd. Þjóðarsorg er í Bandaríkjunum og friðsælt skólasamfélag verður aldrei samt. Það verður alltaf úr þessu markað minningum um það sem gerðist þar 16. apríl 2007.
![]() |
Morðinginn í Virginíu var kóreskur námsmaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2007 | 13:52
Leyndarhjúpurinn yfir fjöldamorðinu minnkar

Er reyndar með engu móti vitað hvort sami maðurinn hafi staðið að báðum tilfellum. 2 létust í heimavistinni, ef marka má fréttir, og yfir 30 í skólahúsnæðinu sjálfu. Þær eru ófagrar lýsingarnar af árásunum. Nokkrir sluppu lifandi með að þykjast vera látnir og sýna ekki lífsmark þar til þeim var óhætt að gera grein fyrir sér. Það vakna margar spurningar yfir þessu máli öllu. Það sem mér finnst standa helst eftir er sú staðreynd að tveir tímar liðu á milli skotárásar í skólahúsnæði og heimavist nemenda. Það er mikill áfellisdómur yfir yfirvöldum á staðnum.
Þetta er fjarri því fyrsta skotárásin þar sem óður byssumaður skýtur niður allt sem á vegi hans verður og er varla sú síðasta. Það er bitur staðreynd auðvitað. Allir þekkja fjöldamorðin sem ég vék að í gær, meira að segja gerðist svona í kyrrlátum skoskum skóla fyrir ellefu árum. Þar voru sextán felldir. Þetta er skelfilegt og það er erfitt að finna einhverja eina töfralausn. Ein þeirra er þó að endurskoða byssulög og herða viðurlög en það er ekki ein gullin töfralausn, enda hefur sannast að sé nógu kaldrifjaður vilji að baki þess að gera slíkt og hugurinn að baki er brenglaður getur fátt stöðvað hann.
Þetta fjöldamorð vekur fólk til umhugsunar að mörgu leyti. Fyrst og fremst er þetta áfall fyrir bandarískt samfélag. Það að slíkur voðaverknaður eigi sér stað í kyrrlátum bandarískum skóla, því sem á að vera fyrirmyndarsamfélag, rólegt og yfirvegað, er sláandi og fær fólk til að hugsa hlutina að mörgu leyti algjörlega upp á nýtt.
![]() |
Fjöldamorðinginn sagður hafa verið kínverskur námsmaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2007 | 00:31
Þjóðarsorg í Bandaríkjunum

Bush gerir hið sama og Bill Clinton fyrir átta árum í kjölfar fjöldamorðsins í Columbine; hann ávarpar þjóð í skugga áfalls. Það er reyndar mjög merkilegt að lesa fréttavefsíður vestan hafs á þessu kvöldi eftir ávarp forsetans. Þetta er áfall heillar þjóðar eins og gefur að skilja. Mér fannst ávarp forsetans vel flutt, hann orðaði hlutina vel og með viðeigandi hætti og það er auðvitað hið eina rétta í skugga svona skelfilegs voðaverks að þjóðhöfðinginn komi fram. Þetta er mikið áfall fyrir bandarískt samfélag, það blasir við öllum.
Það er sagt í fréttum að borin hafi verið kennsl á byssumanninn. Það verður fróðlegt að sjá sögu þessa voðaverknaðar birtast. Ástæða þessa alls er á flökti en mun fyrr en síðar verða öllum ljós. Það er reyndar skelfilegt að heyra af þessu. Það að þetta gerist í friðsælum skóla er harmleikur og risavaxinn skali þessarar aftöku á fólki skelfir fólk, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur um allan heim. Enginn vafi verður á því að saga þessa voðaverks mun greypast í minni fólks og verða tilefni bókaskrifa og hugleiðinga.
Það eru átta ár á föstudaginn frá fjöldamorðunum í Columbine. Það var skelfilegt voðaverk. Ekki síður man ég eftir öðrum óhugnaði; fjöldamorðunum í íþróttasalnum í skólanum í Dunblane í Skotlandi í mars 1996. Það var voðaverk sem enn hvílir sem mara yfir samfélaginu þar. Það tekur rosalega langan tíma að vinna sig út úr svona dimmum dal sem þessu fylgir. Öll vitum við um sögu þessara voðaverka beggja. Þeir sem vilja lesa um það bendi ég á tenglana hér ofar.
Þetta er dimmur dagur í bandarískri sögu. Þetta er fjöldamorð af gríðarlegum skala og það mun taka langan tíma fyrir margt fólk að vinna sig frá þessu. Þetta er áfall heillar þjóðar - mér fannst forseti Bandaríkjanna tala vel til þjóðar sinnar í kjölfar þessa voðaverks.
![]() |
Lögregla telur sig hafa borið kennsl á árásarmanninn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.4.2007 | 19:51
Skelfilegt fjöldamorð í Bandaríkjunum

Þetta eru óneitanlega mjög sjokkerandi tíðindi, þetta er gríðarlegt áfall fyrir bandarískt samfélag, svo skömmu eftir Columbine-skotárásina. Man mjög vel eftir þeirri skelfingu fyrir átta árum. Það bliknar þó hreinlega í samanburði við þær hörmungar sem þarna hafa átt sér stað og það blóðbað sem við blasir nú. Það eru skv. fréttum eins og fyrr segir 32 látnir og talað er um að allt að 30 séu særðir. Farið var bæði í kennslustofur og á heimavist og skotið á allt sem fyrir varð og byssumaðurinn hafi gnægð skota og vel vopnaður.
Þetta er svakalegt hreint út sagt. Þessi vondu tíðindi öðluðust óneitanlega enn meiri dýpt í lýsingum Dagmar Kristínar Hannesdóttur, sem sem er í doktorsnámi í sálfræði, í kvöldfréttum íslensku sjónvarpsstöðvanna. Heyrði á Sky áðan sjokkerandi lýsingar eins sem er nemandi við skólann og var nær vettvangi en Dagmar Kristín. Þetta er mikill sorgardagur vestanhafs og þessi vondu tíðindi skekja samfélagið þar og mun víðar.
Bowling for Columbine, mynd Michael Moore, í kjölfar skelfingarinnar í Columbine árið 1999 vakti ekki síðri alheimsathygli en voðaverknaðurinn sjálfur og myndin hlaut óskarsverðlaun sem besta heimildarmyndin árið 2003. Hún er eftirminnileg flestum sem hana sjá. Það er ógnvænlegt að sjá svona atvik gerast enn eina ferðina.
Það af hversu stórum skala þetta atvik nú er telst skelfilegt. Það geta engin önnur orð passað betur.
![]() |
22 látnir í skotárás í Virginíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.4.2007 | 17:30
Samfylking í mótbyr horfir framhjá vanda sínum
Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að opna landsfund Samfylkingarinnar á föstudag hafandi fengið framan í sig svo til í sömu andrá að flokkurinn væri að mælast með lægsta fylgi sitt í könnunum Gallups í rúm fimm ár, 18,1%. Þetta er enn eitt áfallið fyrir Samfylkinguna og gríðarlega mikið fall sé miðað við kosningarnar 2003, sem eru marktækustu viðmunarmörkin, enda markar það auðvitað núverandi þingstyrk.
Ég fylgdist mjög lítið með landsfundi Samfylkingarinnar. Á meðan að hann stóð var miðpunktur landsfundar Sjálfstæðisflokksins í sömu borg. Ég var staddur þar. Við gátum glaðst, enda er staðan góð. Það sem ég helst sá og heyrði voru fyrirsagnir í blöðum og orðrómur víða í þeirri borg þar sem flokksmenn ólíkra flokka voru samankomnir til fundahalda. Það allt sagði mér að þar fer flokkur sem á erfitt með að líta í eigin barm, erfitt með að greina vanda sinn og er með formann sem á erfitt með að feisa vonda daga. Ofan á allt annað var þeim þungbært að vakna upp við lesbóksgrein Jóns Baldvins á laugardaginn. Hún var mjög massíf.
Þetta var landsfundur haldinn í skugga kannana sem sýna að Samfylkingin muni tapa mestu fylgi þeirra fimm flokka sem sitja á Alþingi. Fari kosningar á þann veg sem kannanir eru að boða okkur verður mikið rætt um framtíðina. Þó að Samfylkingin skori 22% eins og könnun Fréttablaðsins boðaði eða fari jafnvel allt upp í 25% er fylgistap hennar enn mikið og áberandi. Þetta er flokkur sem gnæfði yfir til vinstri eftir síðustu kosningar og var drottnandi þar. Staðan hefur breyst mjög og VG er komin upp að hliðinni að hinum forna stóra bróður sínum og jafnvel orðinn stærri en hann og horfir jafnvel spekingslega niður til hans. Stór tíðindi það.
Ingibjörg Sólrún ákvað að taka þann kostinn að mála upp nær sömu mynd og hún gerði er hún felldi svila sinn, Össur Skarphéðinsson, af formannsstóli á landsfundinum 2005. En það er erfitt að líta á stöðuna sem óbreytta milli þessara tveggja ára. Kannanir sýna að Ingibjörgu Sólrúnu hefur ekki tekist að gera það á þessum tveim árum sem hún stefndi að. Staða flokksins er áberandi mun verri nú en þegar að Össur skildi við, var sparkað fyrir svilkonu sína. Stóru fyrirheitin sem Ingibjörg Sólrún og stuðningsmenn hennar boðuðu í formannskjörinu 2005 hafa brugðist.
Það eru 26 dagar til kosninga. Það virðist vera að aðeins pólitískt kraftaverk geti bjargað Ingibjörgu Sólrúnu. Hver dagur er altént orðinn mikilvægur fyrir flokk og formann. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var með merkilegum hætti dregin upp mynd þess sem gæti gerst færi allt á versta veg - vondar kannanir yrðu að vondum kosningaúrslitum og sterk vonarstjarna vinstrimanna í áraraðir yrði að andliti kuldalegs kosningaósigurs. Hvað mun enda gerast springi samfylking vinstrimanna í loft upp? Það er stóra spurningin.
Ingibjörg Sólrún hefur ekki átt sjö dagana sæla. Kannanir eru henni mjög erfiðar, þjóðin treystir henni ekki og konur eru að flýja Samfylkinguna í áberandi mæli. Þetta er stóra myndin - hún er dökk vissulega. Samfylkingin horfðist ekki í augu við þessa mynd um helgina. En þess þá meiri verður skellurinn gangi kannanir eftir.
En nú ráðast örlögin. 26 dagar eru ekki langur tími... en þeir munu þó ráða pólitískri framtíð formanns sem hefur ekki náð markmiðum sínum á 700 dögum.... tveim árum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.4.2007 | 14:28
Ákall Hjörleifs - dreifast kraftarnir til vinstri?

Hjörleifur er vissulega nokkuð merkilegur stjórnmálamaður. Það er fjarri því að ég hafi alltaf verið sammála honum. En ég hef þó hlustað þegar að hann hefur talað og lesið þegar að hann hefur skrifað. Það er enda þannig að hjartað mitt slær þannig að það verður að virða skoðanir annarra jafnmikið og maður vill fyrir sjálfan sig. Enda geta aldrei allir verið sammála um allt. Hjörleifur vann af krafti fyrir Austfirðinga um langt skeið. Ekki ætla ég að gera upp þann feril. Hann fékk umboð þeirra meðan að hann gaf kost á sér. Stjórnmálaferlinum lauk með því að hann tók tjaldhælana úr jörðu með athyglisverðri yfirlýsingu snemma árs 1999. Hann hefur þó skipað heiðurssæti á listum VG jafnan síðan.
Hjörleifur varð bloggvinur minn hér fyrir tæpri viku og skrifaði gott komment hér í umræðu um Íslandshreyfinguna sem var áhugavert að lesa. Skömmu síðar sendi hann út athyglisvert ákall til Ómars Ragnarssonar um að Íslandshreyfingin bakkaði. VG fengi að njóta hugsjónar í umhverfismálum eitt og sér. Ég skil vel þetta ákall Hjörleifs reyndar. Ég held að þessi nýji flokkur muni aðeins skaða VG, leiða til flökts á fylgi frá VG sem þangað var áður komið. Það eru engir hægrimenn nafngreindir af alvöru í Íslandshreyfingunni. Kraftur hennar, skoðanir og baráttuþrek liggur til vinstri. Það segir umræðan okkur og það segja kannanir okkur. Ekki ætla ég svosem að kvarta en ég skil þó mæta vel áhyggjur vinstri grænna.
Ef marka má kannanir virðist Íslandshreyfingin byggð á sandi. Hún byrjaði í 5% mörkum og hefur síðan aðeins dalað. Þar virðist ekkert flug vera á liðinu, það er niðursveifla. Kannski breyta listar þeirra einhverju. Ég veit það hreinlega ekki. Ég veit þó að flokkur getur ekki sagt sig vera til hægri nema að sýna hægrifólk í framboði, marktækt hægrifólk. Það hefur enn ekki sést.
Ég skil því ákall Hjörleifs og skrif hans fyllilega í þessu ljósi öllu. Enda virðast kraftarnir aðeins dreifast til vinstri við tilkomu þessa nýja flokks. Kannanir sýna stöðuna vel og hún gefur þá mynd sem marktækust er í því flóði hugmynda og kosningapælinga sem streyma yfir okkur. Þetta er það allra augljósasta við stöðuna, 26 dögum fyrir kosningar altént.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2007 | 11:34
Geir Haarde sló í gegn með frábærum söng

Mér fannst Geir koma rosalega vel út úr þessum landsfundi. Flokksmenn treysta honum mjög vel og hann hefur líka sýnt okkur að hann stendur undir því trausti, hann er sterkur og afgerandi forystumaður. Mér fannst þessi helgi vera helgin hans. Hann varð sterkur formaður í flokknum á borð við forvera sinn. Ég held að mesti styrkleiki Geirs sé einmitt að hann er hann sjálfur, hann er hvorki að leika Davíð Oddsson né nokkurn annan forvera sinn eða að reyna að stæla þá. Hann er enda mjög vinsæll meðal landsmanna. Hann nýtur trausts.
Það er líka mjög góður kostur að góður formaður geti glatt með því að syngja og hann sló svo sannarlega í gegn á landsfundarhófinu. Þar var mjög góð stemmning og mjög ánægjulegt að skemmta sér í þessum góða hópi. Þetta var mjög sterk helgi, allir brosandi og glaðir, allir sameinaðir í að vinna vel að því sem skiptir máli. Í þeim efnum skiptir máli að skipstjórinn sé einstaklingur sem gefi hópnum eitthvað, afl til verkanna. Það gerði Geir svo sannarlega um helgina og söngur hans var flott fylling á góðri kvöldskemmtun.
![]() |
Geir Haarde tók Johnny Cash |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.4.2007 | 02:08
Dead on arrival?

Þessar mælingar hljóta að teljast áfall fyrir flokk og forystumenn hans. Vandræðagangur þeirra við að velja á lista og kynna lista um allt land hefur verið augljós, það hefur verið augljóst klúður bakvið tjöldin. Eftirspurnin eftir flokknum virðist vera harla lítil, það er ekki kallað eftir honum. Það er talað um Íslandshreyfinguna sem hægri grænt framboð. Kannski var það fyrst og svo reynt að tala þannig í veikri von um að því sé trúað. Hvar eru hægrimenn innan Íslandshreyfingarinnar? Það er von að spurt sé.
Í dag voru kynntir frambjóðendur í fimm efstu sætum á listum Íslandshreyfingarinnar í Reykjavík. Það eru fá ný tíðindi þar. Athygli vekur að ekki sé lagður fram 22 manna listi. Það eru bara 27 dagar til kosninga. Hvað er að gerast þarna? Ekki eykst trúverðugleiki flokksins með þessu. Enn er enginn heill listi þar kominn. Þetta vekur mikla athygli. Sá þó að þarna er Ólafur Hannibalsson, sonur Hannibals Valdimarssonar og því bróðir Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hann var einu sinni varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins en það er orðinn óratími síðan að hann gufaði þar upp. Ekki er Ósk Vilhjálms nýtt nafn og varla Sigurlín Margrét.
Stóri vandi Íslandshreyfingarinnar er fyrst og fremst að þessi flokkur höfðar greinilega ekki til fólks. Þessar vondu mælingar eru vissulega stór tíðindi, þau vekja athygli. En þau hafa innan við fjórar vikur. Mér finnst vandræðagangur þessa flokks orðinn áberandi mikill. Hann blasir við öllum. Það er mjög einfalt mál. Vandræðin kalla á fólk. Það er enda vont að missa af lestinni.
Ég horfði um daginn á eðalmyndina Dead on arrival, D.O.A. með Edmond O´Brien frá gullaldardögum Hollywood. Hún var og er alla tíð yndisleg - titillinn er sterkur og ástæða þess að hann er notaður kemur strax í ljós í upphafsatriðinu. Einhverra hluta vegna dettur mér þessi titill helst í hug er ég hugsa til Íslandshreyfingarinnar 27 dögum fyrir alþingiskosningar.
![]() |
Ómar og Margrét leiða lista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.4.2007 | 23:10
Kraftur, samstaða og gleði á landsfundi

Þar var fullt hús í kvöld og mikill baráttuhugur í fólki. Efstu fjórir frambjóðendur á listanum; Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ólöf Nordal og Þorvaldur Ingvarsson, fluttu þar öflugar og góðar ræður við upphaf lokaspretts kosningabaráttunnar, mikilvægasta hjallans á leiðinni. Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og þingforseti, sem brátt lætur af þingmennsku eftir glæsilegan stjórnmálaferil flutti góða ræðu og brýndi menn til dáða í baráttunni. Komum við Kristján Þór og Lilla beint á opnunina en við fórum saman í bíl úr borginni. Var skemmtilegt spjall um pólitík á leiðinni.
Landsfundurinn og kosningabaráttan bera yfirskriftina Nýir tímar - á traustum grunni. Það er viðeigandi heiti að mínu mati. Ny forysta flokksins sem kjörin var á landsfundinum 2005 hefur reynst flokknum vel og unnið vel. Hún nýtur trausts þjóðarinnar eins og kannanir sýna, en staða Sjálfstæðisflokksins er mjög sterk, eftir sextán ára stjórnarsetu, lengst af undir forystu Davíðs Oddssonar. Forystan nýtur afgerandi trausts flokksmanna. Það sást vel af endurkjöri hennar í dag. Geir H. Haarde hlaut 95,8% greiddra atkvæða í formannskjöri og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hlaut rúmlega 91%. Sterk kosning fyrir þau.
8 konur náðu kjöri í miðstjórnarkjöri í dag, en kosið var um 11 sæti. Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hlaut flest atkvæði í kjörinu. Þrír miðstjórnarmenn féllu í kjörinu. Kjör hlutu: Kjartan Gunnarsson, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Þórunn Jóna Hauksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Helga Þorbergsdóttir og Örvar Már Marteinsson.
Ég bloggaði nær ekkert meðan á dvölinni í Reykjavík stóð. Ég ákvað að hafa gaman af fundinum, njóta góðs spjalls við góða vini og taka því rólega. En nú hefst mesti hiti baráttunnar af fullum krafti og hér verður gargandi skemmtileg pólitík næstu vikurnar, sem ávallt fyrr. Þeim góðu bloggvinum sem sátu landsfundinn vil ég þakka fyrir góð kynni og spjall á fundinum.
Ennfremur vil ég þakka kærlega öllum þeim sem sátu fundinn og komu til mín góðum orðum fyrir skrifin, sérstaklega formanni Sjálfstæðisflokksins sem vék að mér innilegum og notalegum orðum fyrir skrifin. Met ég mjög mikils að vita af því að hann fylgist með því sem hér er skrifað og ennfremur auðvitað öllum sem ég ræddi við á fundinum. Kærar þakkir góðu vinir!
![]() |
Geir: Fer fram á endurnýjað umboð til að stýra næstu ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.4.2007 | 17:06
Góð stemmning á kraftmiklum landsfundi
Upphaf fundarins í gær var mjög glæsilegt. Diddú og Jóhann Friðgeir sungu af alkunnri snilld nokkur lög. Að því loknu var tjaldið dregið frá og þar birtust fremst formaður og varaformaður flokksins og þétt að baki þeim stóð glæsilegur frambjóðendahópur. Mjög vandað og vel gert. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er mjög sterkur að allri umgjörð. Það er æðsta samkunda stærsta flokks landsins og krafturinn leynir sér ekki.
Það hefur verið mjög gaman að hitta góða samherjaum allt land á þessum fundi. Hér í Höllinni eru góð vinabönd treyst enn og ný myndast. Þetta er skemmtileg vinastund hér. Við söknum þó öll tveggja mætra leiðtoga í sögu flokksins, sem geta því miður ekki setið landsfund, í fyrsta skipti í fjóra áratugi. Davíð Oddsson, farsæll leiðtogi í einn og hálfan áratug, er staddur erlendis í embættiserindum og Björn Bjarnason er á sjúkrahúsi.
Þeim hafa verið sendar góðar kveðjur af fundinum. En héðan er semsagt allt gott að frétta. Eins og gefur að skilja get ég ekki skrifað með sama krafti og áður meðan á landsfundi stendur en ég mun þó reyna að senda stöku línu þegar að gott tækifæri gefst.
![]() |
Bjartsýni sögð einkenna landsfund Sjálfstæðisflokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.4.2007 | 08:09
Hver verður framtíð Silvíu Nætur?
Ævintýrið um Silvíu Nótt tók á sig nýjan og athyglisverðan vinkil fyrir nokkrum vikum þegar að Ágústa Eva Erlendsdóttir, skapari glamúrgellunnar miklu, felldi grímu hennar og kom fram í eigin persónu í Sunnudagskastljósi Evu Maríu. Þar talaði Ágústa Eva opinskátt um þessa athyglisverðu hlið sem hún hefur skapað með þessum karakter. Ágústa Eva hefur bæði hneykslað og glatt landsmenn með þessum karakter í rúm tvö ár og tekið allan skalann í tilfinningatúlkun.
Öll þjóðin hefur fylgst með Silvíu Nótt á þessum tíma. Ég horfði fyrir nokkrum vikum á þátt með henni á Skjá einum. Frekar fannst mér hann stuðandi, enda er það eflaust markmiðið með þáttunum. Þetta drama hefur þó að ég held orðið mun meira og sterkara en stefnt var að. Kannski varð líka ádeilan öðruvísi og beindist í aðrar áttir en áður var stefnt að.
Það er freistandi að spyrja hvort ævintýrinu mikla með Silvíu Nótt sé að ljúka eða hreinlega á enda nú. Það væri ekki undarlegt yrði svo, enda virðist mesta fúttið úr karakternum. En hún hafði áhrif með karakternum, kannski öfug áhrif. Eins og fram kom átti Silvía Nótt að vera ádeila, en að mörgu leyti má vera að karakterinn hafi þróast í aðrar áttir.
Allavega, varð þetta ævintýri eflaust mun hástemmdara og háfleygara en stefnt var sennilega að. Og það er auðvitað með vissum ólíkindum hversu langt Ágústu Evu tókst að koma með karakterinn og eiginlega hversu lengi hún lifði í gegnum hann. Ágústa Eva er leikkona mikilla tækifæra. Hún ætti held ég frekar að nýta þau með öðrum hætti en í gegnum þennan karakter.
Ætli það sé annars búið að gera upp Silvíu Nótt? Það verður fróðlegt að sjá hver framtíð hennar og skaparans verður.
12.4.2007 | 08:05
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í dag

Ég hafði áður ætlað mér að fljúga, en ákvað að hætta við það. Enda er mun skemmtilegra að taka góðan bíltúr suðurleiðina og ræða við gott fólk á leiðinni. Ég mun fara keyrandi suður með Kristjáni Þór Júlíussyni, leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og fyrrum bæjarstjóra hér á Akureyri, og fleira fólki. Eflaust verður rætt um pólitík á leiðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook
12.4.2007 | 07:37
Vond könnun fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðri
Þetta fylgi er ekki mikið sé tekið mið af því að víða í kjördæminu hefur Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í sveitarstjórnum og nokkuð sterka stöðu. Segja má að hann hafi umtalsverð völd á sveitarstjórnarstiginu á öllu svæðinu, ef eiginlega aðeins Selfoss er tekið undan, en þar vann þó Sjálfstæðisflokkurinn mikinn kosningasigur í maí 2006 og var afgerandi hástökkvari kosninganna þar undir forystu bloggvinar míns, Eyþórs Arnalds, og Þórunnar Jónu.
Félagar mínir í Suðurkjördæmi hljóta að vera hugsi yfir þessari könnun, enda er hún að gefa mun minna en t.d. kannanir Gallups sýna og sagan hefur sagt okkur ennfremur þarna. Þrír menn í vor verða ekki ásættanleg niðurstaða. Það þýðir að flokkurinn á engan þingmann frá Suðurnesjum og þar verður engin kona inni. Fyrirfram taldi ég og tel enn að Björk Guðjónsdóttir myndi fljúga inn og það væri mikilvægt að það gerðist, enda er hún sterkasta von Suðurnesja á þingmanni og er mjög farsæll sveitarstjórnarmaður á Suðurnesjum. En það er engan veginn gefið ef marka má þetta.
Það stefnir í spennandi kosningar í Suðurkjördæmi. Niðurstaða á borð við þessa yrði pólitískt áfall fyrir Árnana, Johnsen og Mathiesen. Persónulega var ég engan veginn sáttur við framboð Árna Johnsen. Svona niðurstaða, ef af yrði, myndi held ég kristalla vel að fólk hafnar því að fá frambjóðanda með umdeilda sögu aftur inn á þing, enda var það ekki beint jákvætt fyrir ímynd flokksins. Ég er mjög afgerandi þeirrar skoðunar enn nú.
En það er greinilega mikil vinna framundan fyrir flokkinn þarna, það blasir alveg við.
12.4.2007 | 01:40
Fer Jón Baldvin í framboð fyrir Íslandshreyfinguna?

Þetta eru svo sannarlega stórtíðindi ef af verður, enda hefur Jón Baldvin verið einn af Nestorum Samfylkingarinnar og verið í hávegum hafður þar. Hann var ötull stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjörinu í Samfylkingunni fyrir tveim árum er hún felldi svila sinn, Össur Skarphéðinsson, fyrsta formann flokksins, af formannsstólnum.
Jón Baldvin hefur frá lokum stjórnmálaferils síns, er hann hætti til að rýma í raun fyrir fyrri tímum gömlu A-flokkanna og stuðla að stofnun Samfylkingarinnar, verið mjög áberandi á bakvið tjöldin og talað máli flokksins og lagt honum lið, t.d. í utanríkismálum að undanförnu. Þeir tímar virðast vera að líða undir lok og athygli vakti er boð honum til handa um heiðurssæti hjá SF í Reykjavík var dregið til baka eftir að hann gagnrýndi forystu flokksins í hvössu viðtali í Silfri Egils.
Það verður fróðlegt að sjá hvað kratahöfðinginn margfrægi hyggst fyrir.
11.4.2007 | 21:32
D-listinn stærstur í Suðri - VG fjórfaldar fylgið
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mælast með þrjú þingsæti í könnuninni en VG með tvö, en hafa þar ekkert sæti nú. Framsóknarflokkur mælist aðeins með einn þingmann og myndi missa eitt. Frjálslyndir, Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin mælast ekki með þingmann, frjálslyndir missa því sætið sem Magnús Þór Hafsteinsson fékk síðast. Skv. því eru inni; Árni M. Mathiesen, Árni Johnsen og Kjartan Ólafsson (Sjálfstæðisflokki), Björgvin G. Sigurðsson, Lúðvík Bergvinsson og Róbert Marshall (Samfylkingu), Atli Gíslason og Alma Lísa Jóhannsdóttir (VG) og Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki). Mikil óvissa er yfir því hvaða flokkur hlyti jöfnunarsætið í þessari mælingu.
Sjálfstæðisflokkurinn: 30,4% - (29,2%)
Samfylkingin: 25,4% - (29,7%)
VG: 17,6% - (4,7%)
Framsóknarflokkurinn: 16,7% - (23,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 6,3% - (8,7%)
Íslandshreyfingin: 2,1%
Baráttusamtökin: 1,5%
Stöð 2 var með góða umfjöllun á málum kjördæmisins á fundinum á Selfossi. Þar voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög VG er að bæta við sig og hve mikið fall Framsóknarflokksins er í kjördæmi varaformanns flokksins. Þessi staða er auðvitað nokkuð áfall fyrir Guðna Ágústsson og hans fólk. Samfylkingin helst mun betur á fylginu í stórsigrinum síðast og ekki er mikill munur þannig séð á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Þessi könnun er að sýna mun minni fylgissveiflu til Sjálfstæðisflokksins en mælingar hafa sýnt um nokkuð skeið. Mikla athygli vekur hve lítið framboð litlu framboðanna er og greinilega erfið staða sem blasir við þeim.
Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Mikla athygli vöktu skoðanaskipti um stóriðju og atvinnumálin. Ekki voru allir sammála um þau mál og lausnirnar voru misjafnar. Athygli vakti að Björgvin G. Sigurðsson vildi lítið gefa fyrir stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Var þetta mest afgerandi neitun á þann valkost sem ég hef séð lengi úr þessari áttinni. Annars var Guðni Ágústsson mikið að tala um tækifærin framundan og verk flokks síns og reyna að tala hann upp. Atli var glaður skiljanlega yfir góðu fylgi og trúr sinni stefnu í einu og öllu. Mikla athygli vakti hversu mjög kaffibandalagið er dautt, en lítið var um lífsmark í því.
Heilt yfir voru þetta hinar fínustu umræður, einkum fyrir okkur sem fylgjumst með kjördæminu úr fjarlægð, og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra svæða sem það mynda. Egill Helgason var sem fyrr með athyglisverða umfjöllun og vandaða á pólitískri sögu kjördæmisins og kom með góða fróðleiksmola. Stöð 2 stendur sig vel með þennan pakka. Logi Bergmann las kvöldfréttirnar frá Selfossi og mikill metnaður yfir öllu dæminu hjá Stöð 2, rétt eins og hjá RÚV sem sendir vel út efni utan af landi í kosningapakkanum.
Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Suðurkjördæmi sýnist mér eins og annarsstaðar. Þessi könnun sýnir vel bylgjuna til VG og styrk Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem leiðandi póla á svæðinu. VG stimplar sig rækilega inn með Atla inni og ennfremur Selfyssinginn Ölmu Lísu. Svo virðist vera sem að Framsókn heyji þar baráttu fyrir því að tryggja kjör bloggvinar míns, Bjarna Harðarsonar, inn á þing. Íslandshreyfingin virðist engu flugi vera að ná. Þetta fer að verða vandræðalegt fyrir þau.
Mikla athygli vekur að enginn Suðurnesjamaður mælist inni skv. könnuninni. Suðurnesin eru fjölmennasti hluti Suðurkjördæmis svo að þetta hljóta að teljast stórtíðindi að enginn frá þessu öfluga svæði mælist á þingi. En það hefur svosem verið fyrirsjáanlegt frá falli þingmanna svæðisins í prófkjörum í aðdraganda kosninganna.
Mánuður er til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Held að þetta verði með beittustu kosningabaráttum til þessa sem við erum að sjá nú fara á fullt með landsfundum um helgina og því allir að ræsa maskínur sínar.
![]() |
Stóraukið fylgi VG í Suðurkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2007 | 18:47
Bestu kveðjur til Björns

Ég vil senda Birni mínar bestu kveðjur og óska honum góðs bata.
![]() |
Björn Bjarnason á sjúkrahúsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2007 | 17:41
Sterk staða Sjálfstæðisflokksins í Norðvestri
Skv. kjördæmakönnun Gallups í Norðvesturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá kjördæmakjörna þingmenn þar. VG mælist nú meira en helmingi stærri en í kosningunum 2003. Samfylking og Framsóknarflokkur missa báðir umtalsvert fylgi og kjördæmakjörinn þingmann. VG bætir við sig manni. Þingmönnum kjördæmisins fækkar um einn. Íslandshreyfingin nær skv. þessu ekki kjördæmakjörnum manni inn.
Sjálfstæðisflokkur: 30,1% (29,6%)
VG: 23% (10,6%)
Samfylkingin 15,7% (23,2%)
Framsóknarflokkur: 13,7% (21,7 %)
Frjálslyndi flokkurinn: 12,9% (14,2%)
Íslandshreyfingin: 4,4%
Þingmenn skv. könnun
Sturla Böðvarsson (Sjálfstæðisflokki)
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Jón Bjarnason (VG)
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Guðbjartur Hannesson (Samfylkingu)
Magnús Stefánsson (Framsóknarflokki)
Guðjón Arnar Kristjánsson (Frjálslynda flokknum)
Fallin skv. könnun
Anna Kristín Gunnarsdóttir
Kristinn H. Gunnarsson
Þetta er merkileg niðurstaða. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa umtalsverðu fylgi, bæði missa tæp tíu prósentustig og mann. Frjálslyndir mælast nærri kjörfylginu 2003. Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel yfir kjörfylginu og með þrjá kjördæmakjörna.
VG bætir umtalsverðu fylgi við sig og eru greinilega á mikilli siglingu í kjördæminu undir forystu Jóns Bjarnasonar. Þessi könnun hlýtur að vera mikið áfall fyrir Samfylkingu og Framsóknarflokk, sem standa greinilega illa á þessum tímapunkti. Anna Kristín er greinilega kolfallin af þingi skv. þessu en staða Kristins H. er í óvissu.
Þetta er allavega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna.
![]() |
VG bætir við sig í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2007 | 14:44
Samfylkingin missir þriðjung í Reykjavík suður

Samkvæmt þeim könnunum er Samfylkingin að missa kjördæmakjörinn þingmann en gæti jafnvel fengið jöfnunarmann. Engu að síður er allavega eitt sæti fyrir borð í því sem ætti að vera lykilkjördæmi Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var borgarstjóri í Reykjavík í tæpan áratug og þótti sigursæll stjórnmálamaður. Þessi kjördæmakönnun í kjördæmi hennar boðar fátt gott fyrir Samfylkinguna. Mörður Árnason er kolfallinn af þingi sem fjórði maður á lista miðað við tölurnar.
Það er raunalegt fyrir stærsta stjórnarandstöðuflokk landsins að mælast í svona mikilli down-stöðu og fátt virðist þar ganga. Það að Ingibjörg Sólrún væri óvinsælli en vinsælli meðal kvenna voru mestu tíðindi könnunar á fylgi stjórnmálamannanna. Staðan í Reykjavík suður er enn ein vondu tíðindin í sarp allra annarra undanfarinna mánaða. Staðan fyrir flokk og formann kristallaðist vel í greiningu minni hér fyrir nokkrum dögum. Það sést sífellt betur að þetta verður erfið kosningabarátta fyrir Ingibjörgu Sólrúnu.
Það er aldrei gott fyrir flokk sem hefur aldrei verið í ríkisstjórn og verandi með leiðtoga sem hefur haft tvö ár til að byggja upp sterkan stjórnarandstöðuflokk fyrir kosningar að mælast svona illa. Þett er erfið staða og greinilegt af viðbrögðum Samfylkingarmanna, í kommentum hér og annarsstaðar, að þar er hrein afneitun í gangi á þeirri vondu stöðu sem uppi er.