D-listinn stærstur í Suðri - VG fjórfaldar fylgið

Könnun í Suðurkjördæmi Ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Suðurkjördæmi var birt í kvöld, 31 degi fyrir þingkosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2 á Selfossi. Þar er VG í mikilli sókn og fjórfaldar fylgi sitt og Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 30% fylgi, sem er þó aðeins sjónarmun meira en hann fékk síðast er hann klofnaði þar. Framsókn og Frjálslyndir missa nokkuð fylgi og þingsæti. Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin ná ekki flugi. Enginn Suðurnesjamaður mælist inni þarna og aðeins ein kona.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mælast með þrjú þingsæti í könnuninni en VG með tvö, en hafa þar ekkert sæti nú. Framsóknarflokkur mælist aðeins með einn þingmann og myndi missa eitt. Frjálslyndir, Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin mælast ekki með þingmann, frjálslyndir missa því sætið sem Magnús Þór Hafsteinsson fékk síðast. Skv. því eru inni; Árni M. Mathiesen, Árni Johnsen og Kjartan Ólafsson (Sjálfstæðisflokki), Björgvin G. Sigurðsson, Lúðvík Bergvinsson og Róbert Marshall (Samfylkingu), Atli Gíslason og Alma Lísa Jóhannsdóttir (VG) og Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki). Mikil óvissa er yfir því hvaða flokkur hlyti jöfnunarsætið í þessari mælingu.

Sjálfstæðisflokkurinn: 30,4% - (29,2%)
Samfylkingin: 25,4% - (29,7%)
VG: 17,6% - (4,7%)
Framsóknarflokkurinn: 16,7% - (23,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 6,3% - (8,7%)
Íslandshreyfingin: 2,1%
Baráttusamtökin: 1,5%

Stöð 2 var með góða umfjöllun á málum kjördæmisins á fundinum á Selfossi. Þar voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög VG er að bæta við sig og hve mikið fall Framsóknarflokksins er í kjördæmi varaformanns flokksins. Þessi staða er auðvitað nokkuð áfall fyrir Guðna Ágústsson og hans fólk. Samfylkingin helst mun betur á fylginu í stórsigrinum síðast og ekki er mikill munur þannig séð á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Þessi könnun er að sýna mun minni fylgissveiflu til Sjálfstæðisflokksins en mælingar hafa sýnt um nokkuð skeið. Mikla athygli vekur hve lítið framboð litlu framboðanna er og greinilega erfið staða sem blasir við þeim.

Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Mikla athygli vöktu skoðanaskipti um stóriðju og atvinnumálin. Ekki voru allir sammála um þau mál og lausnirnar voru misjafnar. Athygli vakti að Björgvin G. Sigurðsson vildi lítið gefa fyrir stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Var þetta mest afgerandi neitun á þann valkost sem ég hef séð lengi úr þessari áttinni. Annars var Guðni Ágústsson mikið að tala um tækifærin framundan og verk flokks síns og reyna að tala hann upp. Atli var glaður skiljanlega yfir góðu fylgi og trúr sinni stefnu í einu og öllu. Mikla athygli vakti hversu mjög kaffibandalagið er dautt, en lítið var um lífsmark í því.

Heilt yfir voru þetta hinar fínustu umræður, einkum fyrir okkur sem fylgjumst með kjördæminu úr fjarlægð, og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra svæða sem það mynda. Egill Helgason var sem fyrr með athyglisverða umfjöllun og vandaða á pólitískri sögu kjördæmisins og kom með góða fróðleiksmola. Stöð 2 stendur sig vel með þennan pakka. Logi Bergmann las kvöldfréttirnar frá Selfossi og mikill metnaður yfir öllu dæminu hjá Stöð 2, rétt eins og hjá RÚV sem sendir vel út efni utan af landi í kosningapakkanum.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Suðurkjördæmi sýnist mér eins og annarsstaðar. Þessi könnun sýnir vel bylgjuna til VG og styrk Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem leiðandi póla á svæðinu. VG stimplar sig rækilega inn með Atla inni og ennfremur Selfyssinginn Ölmu Lísu. Svo virðist vera sem að Framsókn heyji þar baráttu fyrir því að tryggja kjör bloggvinar míns, Bjarna Harðarsonar, inn á þing. Íslandshreyfingin virðist engu flugi vera að ná. Þetta fer að verða vandræðalegt fyrir þau.

Mikla athygli vekur að enginn Suðurnesjamaður mælist inni skv. könnuninni. Suðurnesin eru fjölmennasti hluti Suðurkjördæmis svo að þetta hljóta að teljast stórtíðindi að enginn frá þessu öfluga svæði mælist á þingi. En það hefur svosem verið fyrirsjáanlegt frá falli þingmanna svæðisins í prófkjörum í aðdraganda kosninganna.

Mánuður er til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Held að þetta verði með beittustu kosningabaráttum til þessa sem við erum að sjá nú fara á fullt með landsfundum um helgina og því allir að ræsa maskínur sínar.

mbl.is Stóraukið fylgi VG í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Takk fyrir góða súmmeringu Stebbi  á eftir að horfa á St-2...dásamlegt þetta netsjónvarp

Herdís Sigurjónsdóttir, 11.4.2007 kl. 22:04

2 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

En kannski að einu Stebbi. Varðandi vin okkar Johnsen. Hvernig getum við lesið í spilin fyrir flokkinn á landsvísu? nú virðist Flokkurinn bara bæta við sig á flestum stöðum? lika suðurlandi

Guðmundur H. Bragason, 11.4.2007 kl. 22:22

3 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Er nú ekki ánægður með lítið fylgi sjálfstæðismanna í kjördæminu hér fyrir sunnan. Maður hefði ætlað að hann bætti töluvert við sig þar sem klofningur var fyrir síðustu kosningar þegar Kristján Pálsson bauð fram sér. Ekki er ósennilegt að kjósendur ætli að hegna flokknum fyrir að vera með Árna Johnsen í öðru sæti.

Ágúst Dalkvist, 11.4.2007 kl. 22:35

4 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ágætis samantekt Stefán, stjórmálaþættirnir á Stöð 2 virðast ætla að vera málefnalegri og þeim er betur stýrt en RÚV miðað við það sem af er. Verður áhugavert að sjá hvernig þetta þróast samkeppni fjölmiðlanna er hörð þegar kemur að kosningabaráttu enda reynir þá mikið á þá og sérstaklega þann þátt að vera hlutlægur. Menn taka eftir hvernig tekið er á málunum og hægt að dæma fjölmiðla eftir því.

Lára Stefánsdóttir, 11.4.2007 kl. 23:54

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg er nu ekki sammála Águsti héra á undan um að fylgið se svo af völdum Arna Johnsen alls ekki ,en það gæti verið heldur af Fjarmalaráheran kom þar eitthvað við sögu,eg held að hann se ekki sá vinsælasti þarna!!!!Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 12.4.2007 kl. 00:20

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð komment og pælingarnar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.4.2007 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband