Sverrir farinn - hvaða braut feta frjálslyndir í RVK?

Jón Magnússon og Magnús Þór Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri og ráðherra, sem stofnaði Frjálslynda flokkinn fyrir áratug, mun nú hafa sagt sig úr honum, ef marka má fréttir. Það eru mikil tíðindi vissulega, en æ minni í ljósi þess að Margrét, dóttir hans, og stuðningsmenn hennar hafa sagt skilið við hann ennfremur. Klofningur frjálslyndra hefur verið mikið í fréttum undanfarnar vikur, en nú stefnir í hægri grænt framboð m.a. þeirra sem hafa farið frá frjálslyndum.

Jæja, nú hafa frjálslyndir svo kynnt lista sína í höfuðborginni. Þar eru þeir félagar Magnús Þór og Jón Magnússon í fararbroddi. Það hefur blasað við síðan í haust að Jóni væri ætlaður þar leiðtogasess og undarlegar hafa þær verið tilraunir forystumanna flokksins við að neita því að þar ætti að byggja undir Jón og vonir hans um að komast á þing. Það er greinilegt að þar átti alla tíð að láta hann leiða lista. Flestir vita væntanlega hvaða braut á að feta í þeirri pólitík, eða er það ekki annars? Tel svo vera, það hefur blasað við lengi hvert eigi þar að stefna.

Magnús Þór er kominn í framboð í Reykjavík. Það verður fróðlegt hvernig baráttan verði með hann þar. Þessir tveir menn hafa verið þekktir fyrir það undanfarnar vikur að tala óvenju hvasst í innflytjendamálum. Það verður fróðlegt að sjá hvaða dóm kjósendur í Reykjavík fella yfir þeim og þeirra stefnu. Skv. síðustu könnun Gallups eru þessir menn báðir inni, en sem jöfnunarmenn báðir. Þeir eru því ekki eins öruggir nú og var t.d. fyrir nokkrum vikum. Það er vonandi að hvorugur þeirra komist inn á þing, segi ég bara.

mbl.is Magnús Þór og Jón Magnússon í fyrstu sætunum í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunspjall með Gesti Einari og Hrafnhildi

Ég mun fá mér morgunkaffi með Gesti Einari og Hrafnhildi í fyrramálið á Rás 2 laust eftir hálfníu. Við ætlum að ræða í bítið um bloggmenninguna og ýmislegt skemmtilegt tengt blogginu. Verður eflaust mjög skemmtilegt spjall og áhugavert. Virkilega gott að fá boð um að spjalla í svona góðum þætti, en ég hlusta alltaf á þáttinn þeirra og finnst hann bestur af þeim sem eru snemma á morgnana.

Eiríkur verður rauðhærður í Helsinki í maí

Eiríkur Hauksson Flestum landsmönnum brá eilítið í brún við að sjá Eirík Hauksson dökkhærðan í tónlistarmyndbandinu við Valentine Lost, framlag Íslands í Eurovision, í gærkvöldi, enda er rauða hárið talið vörumerki hans. Eiríkur mun þó ætla sér að vera rauðhærður er hann stígur á svið í Helsinki í maí þegar að hann flytur lagið í keppninni.

Í viðtali hjá Gesti Einari og Hrafnhildi á Rás 2 í morgun sagði Eiríkur að mistök hefðu orðið við litun hársins við undirbúning upptöku myndbandsins og þetta væru því hrein mistök sem átt hefðu sér stað. Hann myndi því ekki verða dökkhærður í aðalkeppninni.

Sitt sýnist hverjum um lagið. Mörgum finnst það betra á íslensku en sumum enn betra á ensku. Persónulega líst mér vel á lagið og vona að þetta gangi vel úti. Eins og ég sagði hér í gær er markmiðið fyrst og fremst að komast úr forkeppninni. Allt annað er stór plús. Er ekki í vafa um að Eiríkur rauði verður okkur til sóma í Helsinki.

Eiríkur hinn rauði dökkhærður í Valentine Lost

Eiríkur Hauksson Framlag Íslands í Eurovision í Helsinki í maí, Valentine Lost, var frumflutt í keppnisútgáfunni í Kastljósi í kvöld. Þar vakti talsverða athygli að söngvarinn Eiríkur Hauksson var orðinn dökkhærður og rauða hárið, vörumerki Eiríks, því hvergi sjáanlegt. Það var ansi áberandi í heildarútgáfunni. Annars fannst mér myndbandið frekar dökkt og kuldalegt og missa verulega marks, en lagið sem slíkt er sem fyrr gott.

Fannst þó textinn þónokkuð óskiljanlegur á köflum og þurfti ég að gera mér ferð til að sjá myndbandið á vef Ríkisútvarpsins til að ná einhverjum kontakt við textann og átta mig alveg á honum. Ennfremur finnst mér frekar leitt að sólókaflanum hefur verið breytt og tekinn úr samhengi við það sem áður var. Laginu hefur verið hraðað greinilega á milli söngkafla og finnst mér ekki gott að taka sólókaflann út, enda fannst mér hann gefa laginu mikið.

En já, svona er þetta. Tekur smátíma að venjast laginu á ensku en mér fannst upprunalega útgáfan betri ef á að spyrja mig. En ég trúi því ekki að Eiríkur verði dökkhærður í Helsinki í maí. Ef svo er finnst mér það glapræði. Eirík rauða til Finnlands, ekki Eirík dökkhærða! Þetta er frekar ömurleg eyðilegging á vörumerki Eiríks að mínu mati. Hann var betri áður. En vonandi kemst lagið áfram í úrslitahlutann. Það er fyrst og fremst markmiðið.

Það verður spennandi að sjá hvernig á að hafa þetta almennt, en það er greinilegt að það á að fórna rauða hárinu. Sýnist það. Finnst það ekki passa vel við bílnúmerið í myndbandinu sem er Big Red. Hann á að fara rauðhærður út allavega. Tel að flestir séu sammála mér um það held ég. En svona er þetta. Fannst mínusar vera við þetta en ekki ráðandi þó. Átti þó von á að helsta vörumerki hans myndi standa sem grunnur, en svo virðist ekki vera.

Vonum bara að partýkvöldin verði tvö í maí og að Eiríkur komist á aðalkvöldið, 12. maí. Ef svo fer verður það dúndurdagur; kosningar og Eurovision. Ekki amalegt það!

Ólafur Ragnar ætlar brátt að kaupa eigið hús

Ólafur Ragnar Grímsson Eitt og hálft ár er nú eftir af þriðja kjörtímabili Ólafs Ragnars Grímssonar. Því lýkur 1. ágúst 2008. Hugleiðingar eru hafnar meðal landsmanna um hvað forsetinn ætli sér að gera að kjörtímabilinu loknu; læta gott heita eða sækjast eftir fjórða kjörtímabilinu á forsetastóli, eins og Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir. Ólafur Ragnar sagði í kosningabaráttunni 1996 að átta ár væru hæfilegur tími á forsetastóli en sóttist engu að síður eftir að sitja hið þriðja.

Í kvöldfréttum var sýnt er forsetahjónin heimsóttu Ártúnsskóla, en hann hlaut íslensku menntaverðlaunin síðastliðið sumar. Þar var forsetinn og svaraði spurningum nemenda skólans. Það mega börnin alltaf eiga að þau spyrja heiðarlega og án hiks. Þau spurðu forsetahjónin af mikilli einlægni. Meðal annars var spurt hvernig forsetanum líkaði að gert væri grín að honum í Spaugstofunni, hvað bílar hans og embættisins væru gamlir, hvar forsetahjónin hefðu hist fyrst og hversu mörg hús hann ætti.

Merkilegasta svarið hjá forsetanum var við síðastnefndu spurningunni. Eins og Ólafur Ragnar minntist á í svarinu á hann ekkert hús. Þegar að hann var kjörinn forseti árið 1996 áttu Ólafur Ragnar og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir heima í raðhúsi á Barðaströnd á Seltjarnarnesi. Þá íbúð eiga nú Guðrún Tinna, dóttir forsetans, og maður hennar, Karl Pétur Jónsson. Sagðist Ólafur Ragnar verða nú að fara að leita sér að nýju húsi. Það blasir auðvitað við að hann þarf að fá sér hús. En er þetta merki um að hann ætli ekki að fara fram aftur og þurfi því brátt á húsi að halda. Stór spurning það.

Forveri Ólafs Ragnars, Vigdís Finnbogadóttir, bjó á Aragötu í Reykjavík áður en hún varð forseti. Hún átti húsið áfram og átti þar eigið heimili í þau sextán ár sem hún sat á forsetastóli. Hluta þess tíma var Bessastaðastofa endurbyggð og því gat forseti ekki heldur hvort eð er búið þar. Undir lok forsetaferilsins var komin íbúð fyrir forsetann aftur í Bessastaðastofu. Er Vigdís lét af embætti var tekið formlega í notkun sérstakt íbúðarhús forseta skammt frá Bessastaðastofu. Ólafur Ragnar hefur einn forseta því búið þar.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Ólafur Ragnar hyggst fyrir. Hann ætlar allavega að fara að kaupa eigið hús. Það er vísbending um að forsetaferlinum ljúki brátt. Það eru skilaboð í sjálfu sér.

Stjórnarskrárbreytingar ræddar á Alþingi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Geir H. Haarde, Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, varð í dag fyrsti forsætisráðherra landsins í hálfan þriðja áratug, eða frá forsætisráðherratíð dr. Gunnars Thoroddsens, til að mæla fyrir ráðherrafrumvarpi í eigin nafni í þingsal. Fyrsta umræða um frumvarp um auðlindaákvæði stjórnarskrár Íslands fer nú fram í þingsalnum. Eru skiptar skoðanir þar svo sannarlega um breytingarnar og engin samstaða í sjónmáli. Stefnir væntanlega í að þingið verði lengt.

Þetta er merkilegt frumvarp vissulega. Það er lagt fram af forsætis- og iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Annar þeirra á ekki sæti á Alþingi eins og flestir vita, enda er formaður Framsóknarflokksins utanþingsráðherra. Það er mælt fyrir því í þingsal 60 dögum fyrir alþingiskosningar og gæti orðið hitamál næstu dagana. Ef marka má ræðu Steingríms J. Sigfússonar sem nú stendur yfir verður engin samstaða um afgreiðslu málsins og má telja öruggt að þinglok verði ekki á fimmtudag. Til dæmis eiga eldhúsdagsumræður að fara fram á Alþingi á miðvikudagskvöld. Efast má um að það verði að veruleika að óbreyttu.

Eflaust velta einhverjir því fyrir sér hvort að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, geti borið fram frumvarp til stjórnarskrárbreytinga. Það er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt, enda er ráðherrum heimilt að leggja fram frumvörp í eigin nafni skv. 38 grein stjórnarskrár lýðveldisins. En þetta vekur vissulega athygli. Annars er mjög sjaldgæft að ráðherrar sitji þing án þess að vera þingmenn. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti ekki t.d. ekki sæti á Alþingi er hann var fjármálaráðherra 1988-1991 og Geir Hallgrímsson var utanríkisráðherra 1983-1986 án þess að vera kjörinn þingmaður. Báðir voru þeir þó varaþingmenn.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi umræða muni ganga fyrir sig. Það stefnir í átök um auðlindaákvæðið allavega. Tilboð stjórnarandstöðunnar um samstöðu um auðlindaákvæði var greinilega beint tilboð til Framsóknarflokksins en ekki ríkisstjórnarinnar enda breyttist hljóðið í stjórnarandstöðunni við samstöðu stjórnarflokksins. Það var bara hrein og klár leiktjaldasýning.

Að óbreyttu stefnir væntanlega í að þingið verði lengt og fróðlegt hvernig muni ganga í því tilfelli. Hversu lengi mun þinghald standa og hvenær munu þingmenn og frambjóðendur geta hafið kosningabaráttuna á fullu? Þetta eru stórar spurningar nú og ekki síður hvort að stjórnarskrárbreytingin verði afgreidd í hörkulegum átökum stjórnar og stjórnarandstöðu innan við tveim mánuðum fyrir alþingiskosningar.


mbl.is Mælt fyrir frumvarpi um breytingu á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn sem bauð George W. Bush byrginn

Jacques Chirac og George W. Bush Þegar farið verður yfir stjórnmálaferil Jacques Chirac síðar meir gæti hann orðið þekktur sem maðurinn er bauð George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, byrginn í Íraksmálinu. Hörð andstaða Chiracs og hægristjórnar hans undir forsæti Jean-Pierre Raffarin við innrásina í Írak fyrir fjórum árum, í mars 2003, var enda mjög áberandi og utanríkisráðherra stjórnar forsetans, Dominique De Villepin, sem varð forsætisráðherra árið 2005, talaði gegn innrásinni með mjög áberandi hætti víða á alþjóðavettvangi.

Einn félagi minn las umfjöllun mína um stjórnmálaferil Chiracs og sendi mér tölvupóst þar sem hann spurði mig um af hverju ég hefði ekki minnst á andstöðu Chiracs við Íraksstríðið. Það var einmitt vegna þess að mér fannst það efni í sérpistil. Annars fannst mér líka umfjöllunin vera orðin helst til löng og þetta væri það stórt efni að rétt væri að taka það sér til umfjöllunar. Annars átti umfjöllunin ekki að verða svona löng en hún spann á sig og endaði nokkuð ítarleg, fannst það reyndar við hæfi, enda þótt að ég hafi ekki alltaf verið sammála Chirac er hann einn valda- og áhrifamesti evrópski stjórnmálamaður síðustu áratuga. Það er mjög einfalt mál. Vona að fólki hafi líkað skrifin allavega að einhverju leyti.

Chirac var ekki einn um afstöðuna gegn innrás í Írak. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands 1998-2005, var mjög andvígur henni og vinstristjórn hans var mjög harður andstæðingur stefnu Bush og Blair í málinu. Merkilegasti hluti afstöðu Chiracs var auðvitað sú að hann var hægrimaður. Andstaða forsetans varð mjög áberandi og kalt stríð ríkti milli forystumanna þessara tveggja landa við Bandaríkin um þónokkuð skeið. Þó fór alltaf þannig séð vel á með Chirac og Bush á alþjóðavettvangi þó kuldi hafi verið bakvið breið brosin. Sögulegar sættir náðust milli Bush, Chirac og Schröder í eftirminnilegri Evrópureisu Bush í febrúar 2005, sem var diplómatísk tilraun Bush til sátta.

Það hefði þótt nær óhugsandi tveim árum áður er hitinn var sem mestur í Íraksmálinu og samskipti landanna náðu frostmarki. Sérstaka athygli vakti þá fundur Bush og Schröder í Meinz. Það var í fyrsta skipti í þrjú ár, frá upphafi diplómatískra átaka um málið, sem Bush fór til Þýskalands. Chirac hefur alltaf hreykt sér af afstöðu sinni og alltaf metið hana rétta. Hún vakti þó athygli, enda hefur Chirac verið langmest áberandi leiðtogi hægrimanna í Evrópu á forsetaferli sínum og verið áberandi á stjórnmálavettvangi. Enn sést reyndar merki kulda milli Bandaríkjanna og Frakklands. Sumir voru svo harðir að þeir breyttu nafninu á frönskum kartöflum í frelsiskartöflur í Bandaríkjunum.

Það verður þó seint sagt að Chirac hafi grætt á andstöðunni við innrásina í Írak. Persónulegt fylgi hans hefur sífellt minnkað á þessu seinna kjörtímabili hans í Elysée-höll og stjórn hans hefur gengið í gegnum mikla öldudali. Utanríkisráðherrann De Villepin sem var eins og fyrr segir áberandi talsmaður gegn innrásinni í Írak á alþjóðavettvangi er með óvinsælli forsætisráðherrum Frakklands á seinni tímum og hefur lítið grætt á því að hafa keyrt gegn Íraksmálinu. Annars er reyndar De Villepin ekki kjörinn stjórnmálaleiðtogi, enda aldrei boðið sig fram en setið í ríkisstjórn í sérlegu umboði forsetans. Hann sneri frá forsetaframboði nú, enda hefði hann væntanlega hlotið vonda útreið.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að sagan metur andstöðu Chiracs við innrásina í Írak. Það er þó sú ákvörðun sem mörgum stjórnmálaskýrendum dettur í hug er forsetaferill hans undanfarin tólf ár er rakin nú nokkrum vikum áður en hann hverfur úr pólitíska sviðsljósinu. Það var vissulega ákvörðun sem markaði Chirac sem mann eigin ákvarðana og eigin forystu, en ekki mann sem fylgdi öðrum sama hvað ætti við. Chirac hefur enda alla tíð verið harðskeyttur og áberandi stjórnmálamaður sem hefur farið sínar leiðir án hiks. Hann hefur verið vægðarlaus leiðtogi sem hefur ekki verið auðsveipur einum né neinum. Það verða sennilega eftirmæli hans sem leiðtogi í raun.

Það vakti athygli að hann gat þó ekki notað þessa andstöðu við Íraksstríðið til að byggja sig upp. En kannski var bara franska þjóðin búin að fá leið á Chirac sem slíkum eftir langan valdaferil. Hann hafði jú verið forseti í áratug, tvisvar gegnt forsætisráðherraembætti og verið borgarstjóri í París í 18 ár. Hann hafði verið áberandi á hinu pólitíska sviði í yfir fjóra áratugi. Margir segja einmitt að Frakkar hafi hafnað stjórnarskrá ESB vegna þess að hún hafði fengið nóg af Chirac.

Hvað sem menn segja og finnst um Chirac deilir enginn um að afstaða hans í Íraksmálinu var mjög áberandi. Sennilega var það sú ákvörðun sem einmitt verður mest í minnum höfð síðar meir þegar að hugsað verður til pólitíska klækjarefsins frá Correze og litríka ferilsins hans? Hver veit. Tíminn leiðir það í ljós fyrir okkur án nokkurs vafa.

Tveir mánuðir til alþingiskosninga

Alþingi Tveir mánuðir eru til alþingiskosninga í dag. Það stefnir að öllum líkum mjög spennandi kosningabaráttu, eina af þeim áhugaverðustu í áraraðir - könnunum ber ekki alveg saman um stöðu mála og óvissa uppi um stöðuna. Mikil gerjun virðist vera í pólitíkinni. Óvissa er uppi um hversu mörg framboð bætist við þá fimm flokka sem nú eiga sæti á Alþingi. Að mörgu leyti sýnist mér að stefni í mest spennandi þingkosningar frá árinu 1987 er mikil uppstokkun varð.

Fjöldi þingmanna situr nú sínar síðustu vikur á þingi og kveðja brátt stöðu sína í hinu virðulega þinghúsi við Austurvöll. Margir alþingismenn eru að hætta þátttöku í stjórnmálum og fjöldi þingmanna munu hreinlega falla í kosningunum ef marka má skoðanakannanir. Það stefnir í mikla uppstokkun heilt yfir, þá mestu jafnvel til þessa í sögu þingsins. Skv. öllum skoðanakönnum nú stefnir í uppstokkun fylkinga, mismikið fylgistap Framsóknarflokkins og Samfylkingarinnar og mikla viðbót vinstri grænna. Það er því ljóst að miklar mannabreytingar verði á Alþingi, sérstaklega ef vinstri grænum fjölgar um 10-12.

Kosningabaráttan er að hefjast af fullum krafti, þó sennilega muni mesti þungi hennar verða eftir páskana. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin verða bæði með landsfundi sína eftir sléttan mánuð, en landsfundur sjálfstæðismanna hefst 12. apríl. Framboðslistar fjögurra stærstu flokkanna liggj fyrir á landsvísu en óvissa enn uppi að einhverju leyti um lista frjálslyndra og nýrra afla á borð við aldraða og öryrkja og svo hægri grænna, sem virðast vera komnir langt á leið í undirbúningi sínum.

Það stefnir í spennandi kosningar. Ef marka má skoðanakannanir verður þetta fjörleg barátta. 60 dagar virka auðvitað ekki mikið á langri ævi eins manns en fyrir stjórnmálamann í hita og þunga tvísýnnar og spennandi kosningabaráttu eru 60 dagar sem heil eilífð. Harold Wilson, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sagði sem frægt varð að vika væri langur tími í stjórnmálum - sem voru orð að sönnu svo sannarlega. Þetta verða líflegir tveir mánuðir, svo mikið er víst.

Jacques Chirac gefur ekki kost á sér

Jacques ChiracJacques Chirac, forseti Frakklands, lýsti því yfir í ávarpi til frönsku þjóðarinnar frá Elysée-höll í kvöld að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Chirac hefur verið einn af mest áberandi stjórnmálamönnum Frakklands í áratugi og á að baki litríkan stjórnmálaferil. Hann hefur alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og verið áberandi í sínum verkum og telst einn af lykilmönnum franskra stjórnmála síðan á valdadögum Charles De Gaulle. Kynslóðaskipti verða í forystusveit með brotthvarfi hans.

Jacques Chirac fæddist 29. nóvember 1932. Stjórnmál hafa verið samofin lífi hans í um hálfa öld. Hann var alinn upp pólitískt af forsetunum Charles De Gaulle og Georges Pompidou, mun frekar þeim síðarnefnda. Hann varð fyrst virkur fyrir alvöru í forystusveit þegar að hann varð starfsmannastjóri Pompidou í franska forsætisráðuneytinu árið 1962. Pompidou leit á Chirac sem lærling sinn í stjórnmálum og nefndi hann skriðdrekann sinn vegna hæfileika hans í pólitísku starfi, bæði við að koma hlutum í framkvæmd og vinna grunnvinnuna í kosningabaráttum, en Chirac hefur alla tíð verið rómaður fyrir að vera inspíreruð kosningamaskína og sannur leiðtogi sem kann að leiða baráttuna.

Chirac varð á þessum árum þungavigtarmaður bakvið tjöldin fyrir bæði Pompidou og De Gaulle. Í bók um hann sem ég á er enda lýst hvernig hann vinnur undir álagi og í alvöru kosningaslag. Hann sé maður sem keyrir maskínu áfram vafningalaust og kemur beint að efninu. Sagt hefur reyndar verið um hann af lykilstuðningsmönnum að menn sem leiði baráttu með honum þurfi að hafa járnvilja og sætta sig við allt sem geti gerst. Menn hafa þurft að vera vel spenntir niður fyrir átök með honum. Slíkur hafi krafturinn og viljinn verið til verka. Það eru því mörg sterk lýsingarorð sem lýsa þessum litríka stjórnmálamanni og er kraftur sennilega eitt þeirra helstu.

Chirac fór fyrst í framboð árið 1967 að áeggjan Pompidou og náði kjöri fyrir heimahérað sitt í Correze. Stúdentaóeirðirnar voru miklar árið 1968 og bylgja gegn ráðandi öflum varð áberandi í frönsku samfélagi. Lék Chirac mikilvægan þátt í því að ná sáttum milli aðila í átökunum. Pólitískur ferill De Gaulle fór af sporinu og hann varð óvinsæll sem fulltrúi kerfisins. Árið 1969 beið hann mikinn persónulegan og pólitískan ósigur er tillögur hans um breytingar á stjórnarskránni voru felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Brást þessi aldna kempa sem leitt hafði Frakkland í gegnum stríðið og verið öflugasti stjórnmálamaður landsins á 20. öld, við með því að boða afsögn sína af forsetastóli.

Pólitískir andstæðingar hans stóðu eftir orðlausir. Öllum að óvörum sté þessi aldni forystumaður af stól sínum og fór. Á hádegi daginn eftir tapið hafði svo afsögn hans tekið gildi og hann hafði yfirgefið Elysée-höll í hinsta skipti. Þessi öflugi stjórnmálaleiðtogi yfirgaf stjórnmálasviðið hljótt en þó með snörpum hætti. Er hann lést ári síðar var hans minnst sem eins öflugasta pólitíska leiðtoga landsins, en árinu áður var hann óvinsæll og hafði beðið sögulegt tap. Hann var vissulega forseti á umbrotatímum. Eftirmaður hans á forsetastóli varð pólitískur lærifaðir Chiracs, forsætisráðherrann Georges Pompidou. Chirac lék áberandi þátt í þessari einu kosningabaráttu hans.

Chirac varð landbúnaðarráðherra í frönsku stjórninni árið 1972, sérlega valinn af Pompidou og þótti standa sig vel í umfangsmiklum samningaviðræðum og vera mikill talsmaður fransks landbúnaðar á vettvangi Evrópusamvinnunnar og verja þann geira af krafti. Chirac varð innanríkisráðherra í ársbyrjun 1974. Pompidou forseti lést úr krabbameini í apríl 1974. Í forsetakosningunum sem fylgdu í kjölfarið studdi Chirac mjög eindregið Valery Giscard d'Estaing. Hann vann forsetakosningarnar í baráttu við Francois Mitterrand. Á móti skipaði Giscard svo Chirac sem forsætisráðherra eftir forsetakosningarnar og tók við þann 27. maí 1974, þá 41 árs, yngstur til þessa í embætti.

Pólitísk sambúð Giscard og Chirac varð stormasöm er á hólminn kom og var Chirac ósáttur við að fá ekki meiri völd og áhrif til að framfylgja sínum málum. Hann sagði af sér forsætisráðherraembættinu árið 1976 og hóf að byggja sinn arm upp til valda í frönskum stjórnmálum. Ári síðar varð Chirac borgarstjóri í París, er embættið var endurvakið, en það hafði verið lagt af árið 1871. Hann sigraði samherja Giscard forseta, Michel d'Ornano, og hlaut mikil völd við sigurinn. Hann gegndi embættinu í heil 18 ár. Chirac gaf kost á sér í forsetakosningunum 1981 gegn Giscard. Honum mistókst að komast í seinni umferðina en braut upp hægrafylgið. Giscard tapaði fyrir sósíalistanum Francois Mitterrand.

Giscard kenndi alltaf Chirac um ósigur sinn árið 1981 og vændi Chirac um að hafa lagt Mitterrand lið til að losa við sig úr forystu hægriarmsins. Milli þeirra hefur ríkt kalt stríð alla tíð síðan, en þeir eru báðir af sömu kynslóð en Giscard er sex árum eldri en Chirac. Við tap Giscard og valdamissinn úr Elysée-höll varð Chirac í raun leiðtogi hægriarmsins og stjórnarandstöðunnar í forsetatíð Mitterrands. Chirac varð forsætisráðherra að nýju eftir þingkosningarnar 1986 er Mitterrand neyddist til að velja hann í embættið eftir hægribylgju í kosningum. Sambúð þeirra var stormasöm, svo vægt sé til orða tekið. Chirac gaf kost á sér gegn Mitterrand í forsetakosningunum 1988 en tapaði naumlega.

Hann lét af forsætisráðherraembættinu eftir forsetakosningarnar. Deilt var mjög um forystu hans og hann stóð sennilega þá tæpast sem leiðtogi á áhrifamesta hluta stjórnmálaferilsins. Hann var borgarstjóri í París í gegnum þennan kafla ferilsins og eiginlega hélt sú tign honum á kortinu allan þennan tíma. Hann reis aftur til forystu í upphafi tíunda áratugarins. Hægrimenn unnu stórsigur í þingkosningunum 1993 og komust til valda. Sósíalistar guldu afhroð og Mitterrand neyddist til að deila völdum. Chirac ákvað að verða ekki forsætisráðherra þriðja sinni og Edouard Balladur var valinn til verkefnisins gegn því að fara ekki fram gegn Chirac í forsetakosningunum 1995.

Balladur sveik það loforð er kannanir sýndu sterka stöðu hans í aðdraganda kosninganna. Chirac hélt sínu striki og ákvað að fara fram gegn forsætisráðherranum. Margir þeirra sem fylgt höfðu Chirac ákváðu að fylgja Balladur, t.d. menn á borð við Charles Pasqua og Nicolas Sarkozy (nú frambjóðandi hægriblokkarinnar í kosningunum í vor). Svo fór að Chirac tókst að komast í gegnum fyrri umferðina og slá út Balladur. Mætti Chirac í seinni umferðinni sósíalistanum Lionel Jospin. Margir töldu framboð hans vonlaust en hann styrktist eftir því sem leið á baráttuna. Svo fór að sigur Chiracs í forsetakosningunum í maí 1995 varð naumur. Hann hlaut 52,6%.

Chirac tók við forsetaembættinu af Mitterrand 17. maí 1995. Hann fyrirgaf Balladur aldrei framboðið og hann sparkaði honum sem forsætisráðherra eftir kosningarnar og skipaði Alain Juppé, tryggan fylgismann sem fylgt hafði honum í gegnum þykkt og þunnt. Chirac þótti byrja af krafti í embættinu. Hann ákvað að rjúfa þing fyrr en ella í júní 1997 og boða til kosninga, viss um að hægriblokkin undir forystu Juppé tækist að vinna endurkjör. Svo fór ekki og áhættan varð dýrkeypt. Jospin leiddi sósíalista til óvænts kosningasigurs og neyddist Chirac til að útnefna andstæðing sinn í kosningunum tveim árum áður sem forsætisráðherra. Valdasambúð þeirra varð harðvítug og erfið.

Chirac tókst að ná endurkjöri á forsetastól með eftirminnilegum hætti árið 2002. Þá var forsetinn fyrst kjörinn til fimm ára, en áður hafði kjörtímabilið verið sjö ár. Í fyrri umferð kosninganna urðu þau athyglisverðu tíðindi að Jospin forsætisráðherra mistókst að tryggja sér sæti í seinni umferðina og öllum að óvörum varð þjóðernishægrimaðurinn Jean-Marie Le Pen mótherji Chiracs í seinni umferðinni. Jospin stóð eftir með sárt ennið og stjórnmálaferli hans lauk því með öðrum hætti en hann hafði óneitanlega stefnt að.

Í seinni umferðinni sameinuðust meira að segja svarnir andstæðingar Chiracs um að kjósa hann til að koma í veg fyrir að Le Pen yrði forseti. Það var skondið að sjá Sósíalistaflokkinn hvetja fólk til að kjósa Chirac og forða Frökkum frá stjórn Le Pen. Og Chirac hlaut 82% greiddra atkvæða. Í kjölfarið vann bandalag hægri- og miðflokka í Frakklandi afgerandi sigur í þingkosningum og Jean-Pierre Raffarin, bandamaður forsetans, tók við forsætisráðherraembættinu af Jospin í júní 2002. Hægrimenn voru aftur við völd eftir fimm ára valdasambúð með sósíalistum.

Í maí 2005 beið forsetinn sinn mesta pólitíska ósigur er honum mistókst að fá þjóðina til að samþykkja stjórnarskrá Evrópusambandsins. Eftir það varð ljóst að hann yrði lamaður á valdastóli það sem eftir tímabilsins væri. Neyddist hann til að sparka Raffarin af valdastóli og skipaði Dominique de Villepin sem forsætisráðherra. Sniðgekk hann þar Sarkozy, en hann fyrirgaf honum ekki svo glatt að hafa ekki stutt sig í baráttunni við Balladur á hægrivængnum árið 1995.

Chirac lagði allt sitt af mörkum til að stjórnarskrárin færi í gegn vorið 2005. Ávarpaði hann þjóðina þrisvar til að reyna að hafa áhrif á hana en hafði ekki erindi sem erfiði. Styrkur hans var að fjara út. Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og hneykslismál hafa fylgt honum hin seinni ár. Þrátt fyrir mikinn sigur í forsetakosningunum fyrir fimm árum tókst honum ekki að nota umboðið af krafti og byggja upp sterka stöðu. Hann fjaraði út sem leiðtogi hægt og hljótt.

Og nú er hann að fara. Litríkum stjórnmálaferli er að ljúka. Chirac hefur í gegnum alla slagina og átökin þrátt fyrir allt verið með ímynd baráttumannsins og talinn hafa níu líf eins og kötturinn er kemur að pólitískri forystu. Eftir tvo mánuði flytur hann úr Elysée-höll og heldur á vit eftirlaunakyrrðarinnar út í sveit rétt eins og De Gaulle áður og mun hann ætla sér að flytjast til heimahaganna í Correze með konu sinni Bernadette, sem hann hefur verið giftur í hálfa öld. 

Chirac er langrækinn og sýndi það í verki í kvöld með því að segjast hvergi styðja Nicolas Sarkozy sem eftirmann sinn þó að hann sé langlíklegastur hægrimanna til að hreppa húsbóndatign í Elysée-höll og mælist best nú, sex vikum fyrir fyrri umferðina. En hann mun væntanlega er á hólminn kemur styðja hann.

En nú verða kynslóðaskipti. Það blasir við að nýr forseti Frakklands verði enda fæddur eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, fyrstur til þessa. Það eru kaflaskil í franskri pólitík hvorki meira né minna. Það verður fróðlegt að sjá hvaða hlutverk pólitíski klækjarefurinn frá Correze muni leika eftir lok valdaferilsins.


mbl.is Chirac segist ekki gefa kost á sér áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ingibjörg Sólrún runnin út á pólitískum líftíma?

ISGÞað er ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er búin að vera sem trúverðugur stjórnmálaleiðtogi fái flokkur hennar þann mikla skell sem sjá má í skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag eftir nærri tveggja ára formennsku hennar. Svo virðist sem aðeins pólitískt kraftaverk á næstu 60 dögum geti bjargað pólitískum ferli Ingibjargar Sólrúnar.

Það er greinilega mikil skelfing hlaupin á flokksmenn yfir stöðunni. Í dag var enda Árni Páll Árnason farinn að tala sem lúser í Silfri Egils, svo mikla athygli vakti. Sú staða að Samfylkingin, sem átti að verða pólitískt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn undir forystu Ingibjargar Sólrúnar, sé nú að mælast æ ofan í æ sem minni flokkurinn á vinstrivængnum og að festast sem 20-25% flokkur hlýtur að vera gríðarlegt pólitískt áfall fyrir flokk og formann. Samfylkingin er enda jafnstór Framsókn í kjörfylginu 2003 í Fréttablaðskönnun dagsins.

Það virðist vera sem að Ingibjörg Sólrún sé komin í sína erfiðustu pólitísku baráttu - kannski þá síðustu, hver veit? Orðrómur þeirra sem hvað mest hafa stutt Össur er klárlega með þeim hætti núna að fullreynt sé með Ingibjörgu Sólrúnu nái flokkurinn ekki góðri kosningu í þingkosningunum. Kannanir nú sýna vondu stöðu víða og hvergi mælist Samfylkingin með ásættanlega stöðu. Konurnar flýja flokkinn unnvörpum og þar er stanslaus flótti út. Það virðist vera uppgjöf komin innan Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún virðist vera í senn bæði að gefa eftir í málefnalegum átökum og sem leiðtogi. Stefnan virðist vera mjög flöktandi og þögnin er stingandi meðan að fylgið minnkar.

Ingibjörg Sólrún varð formaður fyrir tæpum tveim árum undir merkjum þess að flokkurinn væri ekki búinn að ná hæstu hæðum - hún væri sú hin eina rétta til að snúa við stöðu mála. Eftir að Össuri var hnikað til fyrir svilkonu sína hefur hinsvegar saga flokksins orðið hrakfallabálkasaga hin mesta og ekkert gengið upp. Ingibjörg Sólrún hefur fengið á sig táknmynd hins sigraða, þvert á það sem var á níu ára borgarstjóraferli hennar í Reykjavík. Hún virðist ekki fúnkera vel við þær aðstæður með blæ lúsersins á brá.

Það virðist að duga eða drepast fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Hún er ekki öfundsverð af sinni stöðu eins og nú er komið málum. Flokkurinn er í frjálsu falli og hún sem átti að gera Samfylkinguna að leiðandi afli í takt við norræna jafnaðarmannaflokka er að mistakast ætlunarverkið, flokkurinn minnkar sífellt. Það stefnir í harða brotlendingu að óbreyttu. Hvað verður um flokk og formann í þeirri stöðu? Varla neitt kræsilegt.


Kuldaleg örlög

krossÞað er mjög stingandi að heyra fréttir af því þegar að fólk finnst látið í íbúð sinni - það deyji eitt og yfirgefið og finnist kannski fyrir einskæra tilviljun. Þessi frétt af hinni bandarísku frú Bock slær þó ansi margt út. Hún dó ein í íbúð sinni, fyrir heilum fjórum árum. Hafði verið týnd vissulega en einhvernveginn hafði engum snillingnum dottið í hug að hún hefði hreinlega dáið heima og væri þar niðurkomið. Ekki hefur nú rannsóknin á meintu hvarfi hennar verið mjög fagmannleg skyldi maður ætla hreinlea.

Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti að vera einn og yfirgefinn á dauðastundinni. Maður einhvern veginn fyllist dapurleika og máttleysi við að lesa fréttir af því að fólk finnist eftir að hafa verið látið í vikur jafnvel. Hef hugsað talsvert um þetta þegar að við fáum fréttir af slíku hér heima á Fróni. Þetta er oftast nær fólk sem á enga að og lifir eitt sínu lifi, og deyr eitt skiljanlega. Mér finnst það einhvernveginn vera mikilvægt að fólk eigi einhverja að og geti lifað glatt við sitt og hafi notalegan félagsskap í gegnum lífið.

Það er skelfilegt að skynja það að til er fólk í samfélaginu okkar sem er eitt og yfirgefið og deyr án þess að eiga engan að. Svona nokkuð gerðist hér heima meira að segja um jólin. Það er sérlega napurlegt að fólk sé látið í íbúð sinni öll jólin og enginn taki eftir neinu. Er kærleikurinn og ástúðin almennt svo lítill orðinn að til sé fólk sem upplifi jafnvel eitt og yfirgefið jólahátíðina? Það er stórt spurt, en oft verður fátt um svör.

Mér finnst þetta staðfesta breytingar á samfélaginu. Við erum orðin of upptekin af okkur sjálfum til að gefa okkur. Eða þetta er allavega eitthvað sem leitar á hugann minn. Það er varla annað hægt en hugsa eitthvað við svona fréttir, hvort sem þær koma héðan af Fróni eða utan úr heimi.


mbl.is Fannst á heimili sínu eftir að hafa verið týnd í fjögur ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnstjón á Sólvallagötunni

Vatnstjón

Þetta er ekkert smátjón sem hefur orðið í bílageymslu fjölbýlishússins á Sólvallagötu í Reykjavík. Tjón upp á tugmilljónir. Sagt er í fréttum að 20-30 bílar séu skemmdir. Þetta hefur verið ófögur aðkoma enda munu um 2.000 tonn af vatni hafa lekið þar inn, væntanlega er þetta hreinlega skólp. Dælt hefur verið vatni síðan snemma í morgun.

Vatn veldur auðvitað rosalegu tjóni og er auðvitað mjög seinlegt og erfitt að ná því á brott. Það eru engar fljótvirkar aðgerðir í því tilliti eða góðar ef út í það er farið. Skaðinn er auðvitað þannig séð skeður. Þegar að ég var unglingur vann ég hjá fyrirtæki sem flæddi vatn inn í. Það var ófögur aðkoma að því þann morguninn og tók nokkurn tíma að koma öllu í samt lag.

Maður kennir í brjósti um það fólk sem hefur orðið fyrir tjóni, enda er vatnstjón af þessu tagi tilfinnanlegt, sérstaklega í því tilliti að bifreiðar skemmast, tala nú ekki um ef lekinn nær í einkageymslur þar sem jafnan er eitthvað verðmætt geymt í bland við aðra hluti.


mbl.is Tugmilljóna króna tjón á Sólvallagötunni; ljóst að vatn hefur lekið víðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jacques Chirac kveður frönsk stjórnmál

Jacques ChiracJacques Chirac, forseti Frakklands, mun ávarpa frönsku þjóðina frá Elysée-höll eftir tæpar fimm klukkustundir. Hann mun þá tilkynna um þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram eftir sex vikur, sunnudaginn 22. apríl og seinni umferðin fer fram tveim vikum síðar, sunnudaginn 6. maí, á milli þeirra tveggja er mest fylgi hljóta í fyrri umferðinni. Nýr forseti Frakklands mun sverja embættiseið fimmtudaginn 17. maí, nákvæmlega tólf árum eftir að Chirac sór embættiseið fyrst.

Augu allra stjórnmálaáhugamanna í Frakklandi sem og um alla heim munu verða á því hvort að Chirac forseti muni lýsa í kveðjuávarpinu yfir opinberum stuðningi við Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra, sem er opinbert forsetaefni hægriblokkarinnar. Hvorki Chirac né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, hafa lýst yfir stuðningi við Sarkozy. UMP var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti og eiginlega má segja að völdin hafi hægt og hljótt fetað frá forsetanum og til innanríkisráðherrans klóka.

Það bauð sig enginn fram gegn Sarkozy innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Sarkozy var svo staðfestur sem forsetaefni hægriblokkarinnar í janúar. Hann hlaut þó aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningunni sem fram fór. Það þótti mikið áfall, enda sagði það með afgerandi hætti að hann væri ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar og armur forsetans horfði þögull á útnefningarferlið sem byggði upp Sarkozy sem leiðtoga hægriblokkarinnar. Allt fram til þessarar stundar hafa lykilmenn forsetans ekki útilokað að hann færi fram sem óháður, en hann bakkar nú út. Hann verður 75 ára í nóvember.

Fjarvera Chiracs forseta á baráttufundi UMP-hægriblokkarinnar í janúar er Sarkozy var útnefndur sem forsetaefni var svo sannarlega hrópandi áberandi að öllu leyti. Villepin forsætisráðherra hefur ekkert sagt heldur sem flokkast sem stuðningsyfirlýsing við Sarkozy og hefur sagst bíða ákvörðunar forsetans og t.d. ekki útilokað framboð sjálfur, þó hann sé reyndar með óvinsælli forsætisráðherrum í sögu Frakklands og verið mjög illa liðinn allt frá því að hann tók við embætti eftir að Chirac fórnaði Jean-Pierre Raffarin eftir að ESB-stjórnarskránni var hafnað í maí 2005, sem var eitt mesta pólitíska áfall forsetans. Villepin mætti t.d. á fundinn í janúar en kaus ekki.

Það hefur verið greinilegt kalt stríð milli aðila og farið eiginlega sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund og lok kjörtímabils forsetans. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Raffarin og skyldi velja Villepin.

En nú er Chirac að kveðja. 45 ára litríkum stjórnmálaferli er að ljúka. Það verður fróðlegt að sjá hvernig pólitíski klækjarefurinn í Elysée-höll kveður. Verður það með mildum eða kuldalegum nótum - mun hann viðurkenna yfirburðarstöðu Sarkozy á hægrivængnum. Það er alveg ljóst að stjórnmálaáhugamenn um allan heim munu horfa með áhuga á kveðjustund forsetans í kvöld.


mbl.is Búist er við því að Chirac muni ekki sækjast eftir endurkjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin dalar enn - D og VG eflast

ISG Samfylkingin tapar enn fylgi. Í nýrri könnun Fréttablaðsins mælist flokkurinn með 19,2%, hið minnsta til þessa í könnunum blaðsins, og 12 þingmenn - myndi missa átta þingmenn frá kosningunum 2003. Allar kannanir sem birst hafa að undanförnu hafa sýnt fylgistap Samfylkingarinnar frá þeim kosningum, mismikið þó en þetta telst þó versta mæling flokksins í háa herrans tíð og fer að jafnast á við niðursveifluna miklu á fyrstu árum flokksins. 

Sjálfstæðisflokkurinn og VG bæta við sig fylgi í könnuninni. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hækkar um tvö prósentustig milli kannana og er nú 38,9% og myndi flokkurinn fá 25 alþingismenn í þeirri stöðu, bæta við sig þrem þingmönnum frá kosningunum 2003. VG er enn að mælast í mikilli fylgissveiflu - bætir við sig rúmum tveimur prósentustigum frá síðustu könnun blaðsins fyrir hálfum mánuði. Nú mælist VG með 25,7% og 17 þingmenn, myndi bæta við sig hvorki meira né minna en 12 þingmönnum frá kosningunum 2003.  Til samanburðar við þetta má nefna að í nýjustu könnun Gallups mældist VG með 18 þingmenn og rúm 27%.

Framsóknarflokkurinn hækkar örlítið milli kannana - er nú með 9,3% og sex þingmenn, myndi tapa sex þingmönnum frá alþingiskosninguinum 2003. Staða Framsóknarflokksins hefur ekki verið góð í könnunum talsvert lengi og ekki virðist flokksþing framsóknarmanna um síðustu helgi hafa hækkað fylgi þeirra mikið né heldur átökin um auðlindaákvæðið sem er mesta kreppa ríkisstjórnarinnar frá fjölmiðlamálinu. Minnstur er sem fyrr Frjálslyndi flokkurinn. Hann mælist nú með 5,7% og þrjá þingmenn, myndi tapa einum frá alþingiskosningunum 2003. Er flokkurinn nú mjög að nálgast mjög þau mörk þar sem að hann missir jöfnunarmenn, en mörk á að fá þá er 5% fylgi á landsvísu eins og flestir vita eflaust.

Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, er nú 48,2% og eru flokkarnir samanlagt með 31 þingmann, einum frá þingmeirihluta og er orðið nokkuð um liðið síðan að stjórnarflokkarnir voru svo nærri meirihluta og virðist vera raunhæfur möguleiki skv. því að stjórnin haldi eflist Framsóknarflokkurinn. Þetta er allavega fróðleg mæling. Sem fyrr vekur mikla athygli að sjá hina afgerandi kvennasveiflu til vinstri grænna frá Framsóknarflokki og Samfylkingu, mun frekar frá seinni flokknum, sem vekur mikla athygli í ljósi þess að formaður Samfylkingarinnar er kona. Virðist formanninum ganga illa að haldast á kvennafylginu, sem eru stór tíðindi.

Þessi könnun var gerð í gær og er um að ræða 800 manna úrtak. 61,8% tóku afstöðu en 29,1% tóku ekki afstöðu. Hlutfall óákveðinna minnkar því þónokkuð, þannig að þetta eru merkilegri skilaboð vissulega í ljósi þess. Stóru tíðindin eru hér hversu lítil Samfylkingin er að verða og hversu mjög VG er að styrkjast sem forystuflokkur til vinstri. Ánægjulegt er að sjá fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins. Athygli vekur að ekki er spurt um fylgi við nýtt framboð Margrétar Sverrisdóttur, Ómars Ragnarssonar og fleiri aðila sem mikið hefur verið í umræðunni en kannski hefur verið hliðarspurning um það framboð. Það ræðst, en hér eru semsagt tíðindi vissulega.

Það sem vekur mikla athygli mína er hversu öflugir Sjálfstæðisflokkur og VG eru í þessari könnun. Þetta virðast vera turnarnir í stjórnmálunum núna. Merkileg tímamót það. Fari kosningar í einhverja svona átt verða þeir sigurvegarar kosninganna og því mikil skilaboð eflaust um það að þeir láti reyna á samstarf falli rikisstjórnin. Annars er sveiflan til vinstri grænna orðin mjög löng og öflug og verður ekki hunsuð. Fylgið virðist hreinlega flæða út úr Samfylkingunni í stríðum straumum og staða formannsins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, virðist versna með hverri könnun. Það er orðið fátt eftir sem minnir á forna frægð hennar í stjórnmálum. Mikið fall. Fróðlegt að sjá hvort þessi þróun haldi áfram.

Þessi könnun færir okkur skilaboð og pælingar til að hugsa um og vinna úr. Það er alveg ljóst að mikil gerjun er í stjórnmálunum og fylgið á mikilli ferð. Þrátt fyrir það er fylgistap Samfylkingarinnar orðið mjög staðfest og staða formannsins vond eftir því. Það hversu illa henni og flokknum helst á kvennafylginu eru stóru tíðindin, en kannanir segja að konur treysti frekar Steingrími J. og Geir H. Haarde sem forsætisráðherra en henni. Stór tíðindi það.

En það hlýtur að fara um Samfylkingarfólk við þessar mælingar og hversu illa er að rætast úr forystu formannsins sem átti að færa flokkinn í hæstu hæðir. Það er ekki að gerast og greinilegt að spár stuðningsmanna Össurar Skarphéðinssonar í formannsslagnum í Samfylkingunni fyrir tveim árum eru heldur betur að rætast könnun af könnun. Fylgið hrynur af flokknum og formaðurinn veikist sífellt. Merkileg staða það - mjög áberandi líka.

mbl.is Samfylkingin með 19,2% fylgi samkvæmt könnun Fréttablaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri græni Íslandsflokkurinn að verða til

Margrét SverrisdóttirNýr hægri grænn stjórnmálaflokkur Margrétar Sverrisdóttur, Ómars Ragnarssonar og fleiri aðila, sem hefur vinnuheitið Íslandsflokkurinn, er að verða til. Nýtt framboð, sem stefnt er að bjóði fram í öllum kjördæmum, verður væntanlega kynnt á næstu dögum. Þegar er orðið nokkuð ljóst að Margrét og Ómar muni leiða lista flokksins í höfuðborginni en hinsvegar hvílir mun meiri dulúð yfir skipan forystusæta framboðslista nýja framboðsins í öðrum kjördæmum landsins.

Eins og fram hefur komið á bloggsíðum og í fréttum fjölmiðla er stefnt að því að nýja framboðið heiti Íslandsflokkurinn. Hefur Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, varaþingmaður og líklegur frambjóðandi í nafni nýja framboðsins skráð lénið islandsflokkurinn.is og hljóta það að teljast afgerandi skilaboð um nafnið á flokknum og ekki síður áherslur flokksins. Þetta á að vera umhverfisflokkur sem leggur áherslu á verndun landsins og náttúruauðlindanna. Það blasir enda við að það verði lykilbaráttumál auk fleiri annarra eflaust.

Eftir því sem Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og einn forystumanna framboðsins, sagði í Silfri Egils fyrir viku er stefnt að kynningu framboðsins fljótlega, væntanlega innan viku. Það virðist unnið mikið á bakvið tjöldin og safnað liði. Enn eiga Margrét og Ómar og þeir sem með þeim ætla að starfa í nafni Íslandsflokksins eftir að sýna vel á spil sín, hver séu trompin þeirra og helstu áherslur, önnur en umhverfismálin. Enda virðist unnið að heilsteyptu framboði með niðurnegldar áherslur í öllum þeim málaflokkum sem máli skipta í samfélaginu.

Það eru rúmir 60 dagar til kosninga. Áhrif nýs hægri græns framboðs eru óviss á þessari stundu. Það gæti allt eins orðið örlagaríkt afl í kosningabaráttunni, einnig gæti það floppað. Gengi þessa framboðs verður eitt af spurningamerkjum þessarar kosningabaráttu rétt eins og Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar fyrir tveim áratugum. Hann fór fram sem leiðtogi með langa stjórnmálafortíð að baki, þó að hann hefði verið hrakinn af ráðherrastóli af forystu Sjálfstæðisflokksins. Þó að honum tækist ekki að koma Borgaraflokknum í ríkisstjórn varð framboðið örlagavaldur.

Fyrirfram sést enginn þungavigtarhöfðingi í röðum Íslandsflokksins á við Albert Guðmundsson en þar er fólk sem hefur verið áberandi í stjórnmálum og ekki síður þjóðmálunum. Því er erfitt að spá í hvernig fer. En augu allra verða á næstunni á Íslandsflokknum og gengi hans. Það má fullyrða á þessari stundu, hvernig svo sem gengi hans verður að lokum.

Það verður áhugavert að sjá hvernig hann mælist á næstunni. Kannanir segja oft söguna vel. Það þarf ekki að efast um að kannanir eru í gangi. Ætli að Fréttablaðið sé með nýja framboðið í næstu könnun sinni? Eru þeir ekki með könnun á morgun? En þetta verður svo sannarlega spennandi kosningabarátta, lítill vafi á því.


mbl.is Íslandsflokkurinn vinnuheiti á áformuðu þingframboði Margrétar Sverrisdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leonardo DiCaprio kominn til landsins

Leonardo DiCaprip Jæja, þá er leikarinn Leonardo DiCaprio kominn til landsins. Hann er þá eflaust um leið orðinn Íslandsvinur. Það er oftast nær talað um stjörnurnar sem Íslandsvini þegar að þær koma hingað til lands, í lengri eða skemmri tíma. Alveg sama þó að þær séu hundfúlar yfir vistinni hérna. Öll munum við eftir því þegar að Jerry Seinfeld og Robbie Williams komu hingað hundfúlir og lak af þeim fýlan við allt og alla hér. Samt voru þeir kallaðir sérstakir Íslandsvinir. Þetta er svona ekta stjörnudýrkun - sem er kannski bara allt í lagi.

Fetar Leonardo í fótspor James Bond, í túlkun Roger Moore í A View To a Kill árið 1985 og Pierce Brosnan í Die Another Day árið 2002, í því að fara á Jökulsárlón. Ekki þó til að leika í kvikmynd, heldur í myndatöku fyrir glansritið Vanity Fair. Búast má við að hann verði farinn fyrir helgarlok aftur til Bandaríkjanna. Eflaust mun myndatakan eitthvað auglýsa upp landið, enda blaðið víðlesið, og vonandi mun leikarinn njóta landsins og sjá hversu fallegt er á Jökulsárlóni. Það er enda yndislegur staður. DiCaprio er auðvitað mjög þekktur leikari. Hann hefur þó ungur sé verið tilnefndur þrisvar til óskarsverðlauna fyrir leik, síðast fyrir Blood Diamond á óskarsverðlaunahátíðinni fyrir tæpum tveim vikum. Hann var áður tilnefndur fyrir The Aviator og What´s Eating Gilbert Grape?

Þekktasta mynd DiCaprio er þó án nokkurs vafa Titanic, mynd um ástir og örlög á skipinu sögufræga sem sökk til botns fyrir tæpri öld. Mikil og stór mynd um sögu skipsins sem átti ekki að geta sokkið en sökk þó í jómfrúrferðinni sinni. Sú mynd sló í gegn á sínum tíma og er ein vinsælasta kvikmynd sögunnar. Hún verður tíu ára á þessu ári. Hún hlaut 14 óskarsverðaunatilnefningar og 11 verðlaun, sem er hið mesta í sögu verðlaunanna, jafnmikið og Ben-Hur hlaut áður, árið 1959, og The Lord of the Rings: The Return of the King, hlaut síðar, árið 2003. DiCaprio hlaut ekki einu sinni leiktilnefningu fyrir túlkun sína á Jack Dawson í myndinni, sem olli áralangri fýlu hans við akademíuna.

Vinsælasta mynd DiCaprio í seinni tíð hlýtur að teljast The Departed, kvikmynd leikstjórans Martin Scorsese, sem færði leikstjóranum langþráðan leikstjóraóskar og hlaut ennfremur óskarinn sem besta kvikmynd ársins 2006. DiCaprio sýndi góða takta en hlaut þó frekar leiktilnefningu fyrir Blood Diamond en hana, þó ég geti reyndar fullyrt að Blood Diamond sé úrvalsmynd. Flestir töldu að DiCaprio fengi leikaraóskarinn fyrir tveim árum fyrir túlkun sína á auðjöfrinum Howard Hughes í The Aviator en þá tapaði hann fyrir Jamie Foxx sem túlkaði Ray Charles með bravúr. Enn á hann því eftir að vinna þessi eftirsóttu verðlaun. Hann hefur nú gert þrjár myndir með Scorsese.

Hvort að hann þurfi að bíða jafnlengi eftir verðlaununum og uppáhaldsleikstjórinn hans, sem hefur gefið honum bestu leiktækifærin undanfarin ár, skal ósagt látið. En nú er hann á Íslandi - kynnist landi og þjóð. Einhver mun eflaust spyrja hann hinnar sígildu og margtuggnu spurningar um hvernig honum líki við landið. Hvert sem svarið verður munu margir kalla hann Íslandsvin. Annað væri eflaust talið sem stílbrot á stjörnuhefðinni.

mbl.is Leonardo DiCaprio myndaður á Jökulsárlóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sr. Pétur Þórarinsson kvaddur

Sr. Pétur Þórarinsson Sr. Pétur Þórarinsson, sóknarprestur og prófastur í Laufási, var jarðsunginn frá Akureyrarkirkju nú eftir hádegið. Hann lést þann 1. mars sl, 55 ára að aldri. Þetta hlýtur að teljast fjölmennasta jarðarförin frá Akureyrarkirkju, eða ég get eiginlega ekki ímyndað mér annað. Séra Pétur átti marga vini og kunningja og segir fjöldinn við jarðarförina sína sögu vel.

Sr. Pétur hefur verið sóknarprestur hér á svæðinu í rúma þrjá áratugi. Hann var prestur á Hálsi í Fnjóskadal 1976-1982, á Möðruvöllum í Hörgárdal 1982-1989 og í Glerárkirkju hér á Akureyri 1989-1991. Hann var prestur að Laufási frá 1991.

Ég skrifaði pistil um sr. Pétur Þórarinsson hér á vefinn þann 2. mars sl. og bendi á þau skrif hérmeð.

Ég votta fjölskyldu Péturs samúð vegna andláts hans.


Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.

Pétur Þórarinsson
1951-2007


mbl.is Mikill mannfjöldi við útför séra Péturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil kvennasveifla til VG - aðrir flokkar síga

Forysta VG Nýjasta skoðanakönnun Gallups staðfestir endanlega mikla fylgissveiflu til vinstri grænna. Hún virðist aukast við hverja könnun og því sífellt meir að festast í sessi. Það er mikil kvennasveifla sem fer í áttina til þeirra fyrst og fremst. Það virðast vera stóru tíðindin að konur horfa í áttina til þeirra í æ meira mæli. Konur segja skilið við Samfylkinguna með áberandi hætti, þrátt fyrir það að kona sé þar í forystu. Miðað við þessa stöðu alla er VG að festa sig í sessi sem forystuafl til vinstri.

Þessi könnun er mjög vond fyrir Sjálfstæðisflokkinn, mjög vond. Það er algjörlega einfalt mál. Hann má varla neðar fara en þetta að mínu mati. Þetta eru þolmörk hans myndi ég ætla. Allt undir kjörfylginu 2003, 34%, boðar mjög vont. Hann er nú að mælast með svo til sama fylgi og í þeim kosningum. Miðað við það að ný forysta er tekin við flokknum er þetta mjög fjarri því að teljast ásættanleg útkoma í könnunum tveim mánuðum fyrir þingkosningar. Það er greinilegt að flokkurinn er að síga á höfuðborgarsvæðinu. Sú staða hefur verið áberandi alveg frá janúarkönnuninni. Það fólk sem Sjálfstæðisflokkurinn er að merkja í baráttusætum á höfuðborgarsvæðinu mælist úti og hefur gert lengi.

Ég fór í fréttaviðtal fyrir nokkrum vikum og varaði við framboði Árna Johnsen. Veit ekki hvort innkoma hans sé að valda okkur fylgistapi á höfuðborgarsvæðinu. Hallast þó mjög að því. Þetta er að fara í nákvæmlega þann gír sem ég óttaðist. Það kæmi mér þó ekki á óvart að fólk sé að gera alvöru úr hótunum sínum um að styðja ekki flokkinn vegna hans. Hann verður okkur akkilesarhæll í þessum kosningum. Það framboð mun ekki styrkja okkur neinsstaðar nema mögulega í Suðurkjördæmi af skiljanlegum ástæðum. Það sem ég hef áhuga á að sjá núna er mæling eftir kjördæmum og skipting þingsæta um allt land. Ef mér skjátlast ekki erum við að missa lykilsæti á landsbyggðinni nú.

Það er alveg ljóst á þessari stöðu að bylgja breytinga hljómar nú í samfélaginu. Sama ríkisstjórn hefur setið í tólf ár og virðist hún ekki eiga sér lífdaga auðið eftir 12. maí. Sterk staða vinstri grænna er til merkis um breytingar. Þetta er orðin svo ákveðin sveifla til vinstri grænna að hún verður ekki hunsuð. Þetta er afgerandi bylgja sem þeir eru á núna. Tal um stutta sveiflu á ekki lengur við. Það þarf ansi mikið að breytast til að þeir fái ekki um 20% í kosningunum, eiginlega þyrfti hrun til. Þeir fá aldrei yfir 25% en þeir gætu trompað Samfylkinguna sem næst stærsti flokkurinn, orðið leiðandi afl til vinstri. Það yrðu stórtíðindi.

Spurningin er hvernig stjórn gæti verið mynduð úr svona stöðu. Held að þar séu þrír kostir helstir; stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, VG og Sjálfstæðisflokks eða VG, Framsóknar og Samfylkingar. Síðasti kosturinn er sá sem ég óttast að myndi verða ofan á, sérstaklega ef Framsókn hysjast eitthvað upp. Það er enginn vafi að fái VG um eða yfir 25% muni þeir selja sig dýrt, allavega krefjast forsætis í vinstristjórn eigi að mynda hana. Þessi könnun er að því leyti svakalegt högg fyrir SF og Ingibjörgu Sólrúnu að Steingrímur J. er að myndast sem alvöru forsætisráðherraefni til vinstri. Hún er ekki drottnandi persóna til vinstri. Það eru stór tíðindi.

En ein könnun segir aldrei alla söguna. En samt. Þetta eru mjög sterk tíðindi og bylgjan til VG verður ekki hunsuð. Til þess er hún orðin of langvinn og afgerandi. En þetta verða spennandi kosningar. Spái mest spennandi og vægðarlausustu kosningabaráttu með gylliboðum og auglýsingakeyrslu í sögu lýðveldisins. Einfalt mál. Fasten your seat belts - it´s going to be a bumpy ride, segi ég eins og Bette Davis í eðalmyndinni All About Eve.

mbl.is „Vísbendingar um að VG svari eftirspurn eftir framboði umhverfisverndarsinna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkidæmi Björgólfsfeðga eykst

Björgólfur Thor

Það eru auðvitað mikil tíðindi að ríkidæmi Björgólfs Thors Björgólfssonar hafi aukist skv. Forbes. Nú eru feðgarnir báðir á listanum; Björgólfur Thor er í 249. sæti og faðirinn í því 799. Eignir Björgólfs Thors eru metnar á 3,5 milljarða dollara eða 235 milljarða króna, en Björgólfs eldri á 1,2 milljarða dollara, um 80 milljarða króna. Mikið ríkidæmi það. Thorsættin er enn mjög áberandi heldur betur.

Björgólfur Thor varð fyrsti Íslendingurinn sem komst á lista Forbes yfir ríkustu einstaklinga heimsins. Held að það sé rétt munað hjá mér að Bill Gates hafi drottnað efstur á honum síðan 1993 allavega, eða eitthvað þar um bil hið minnsta, 13-14 ár. Veldi Björgólfsfeðga er eins og flestir vita upprunnið úr gosdrykkja- og bjórverksmiðjum í Rússlandi.

Það var mjög merkilegur þáttur af Sjálfstæðu fólki þegar að Jón Ársæll fylgdi Ólafi Ragnari í heimsókn til Rússlands þar sem hann var að mæra bransa Björgólfsfeðga. Hefði fáum órað fyrir slíkum hóli við upphaf Hafskipsmálsins að Ólafur Ragnar myndi mæra þá feðga. En svona er nú heimurinn oft kaldhæðinn.

Rikidæmi Björgólfs Thors vex ár frá ári. Hann er einn mannanna sem er í forystusveit íslensks viðskiptalífs. Hinsvegar er hann auðjöfur á veraldarvísu auðvitað. Um daginn talaði hann um að flytja höfuðstöðvar Straum-Burðarás burt frá Íslandi. Verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig því máli muni ljúka.


mbl.is Björgólfur Thor hækkar um 101 sæti á lista yfir ríkustu menn heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG í mikilli sókn - stjórnarflokkarnir tapa fylgi

Steingrímur J. SigfússonVG er í mikilli fylgissókn, skv. nýrri skoðanakönnun Gallups sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Vinstri grænir eru þar með 27% - sex prósentustigum stærri en Samfylkingin og sjö prósentustigum minni en Sjálfstæðisflokkurinn. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar um tvö prósentustig og er nú orðið nær jafnmikið og kjörfylgið fyrir fjórum árum. Þessi könnun telst mjög vond fyrir stjórnarflokkana sem báðir tapa fylgi og eru nokkuð fjarri meirihluta, með 43% samanlagt fylgi.

Þessi könnun sýnir VG sem afgerandi forystuflokk til vinstri, mun meira afgerandi en verið hefur. Forskot VG á Samfylkinguna er nú orðið hið mesta sem ég man eftir frá sumrinu 2001. Þetta er mjög sterk staða fyrir VG og stefnir í sögulegan kosningasigur vinstri blokkarinnar í svona stöðu ef hún kæmi upp. Þessi könnun hlýtur að vera mikið áfall fyrir Framsóknarflokkinn, sem hélt flokksþing sitt um síðustu helgi og er samt vel innan við tíu prósenta mörkin. Það hlýtur að styttast í að flokkurinn fari hreinlega á barm örvæntingar verði fylgismælingin mun lengur á sömu slóðum fyrir þá.

Það sem er merkilegast við þessa könnun er að VG sé aðeins að bæta við sig fylgi en allir hinir að veikjast að einhverju leyti. Þessi könnun er vond fyrir alla flokka nema VG myndi ég allavega segja. Þessi könnun er sérstaklega vond myndi ég segja fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur lækkað mjög í könnunum að undanförnu og er nú kominn á svona frekar vondar slóðir. Ríkisstjórnin er kolfallin og vel það. Fari kosningar að einhverju leyti svona er VG svo afgerandi sigurvegari kosninga að framhjá þeim verður ekki gengið að mínu mati sem forystuafls í ríkisstjórn. Staða þeirra hefur vænkast mjög og verður vart litið öðruvísi á en að VG sé orðið forystuafl til vinstri.

Þessi könnun boðar því mikil tíðindi og virðist VG vera í stórsókn um allt land og að upplifa samskonar fylgisrisu og Samfylkingin í aðdraganda þingkosninganna 2003. Þessi könnun túlkast enda varla nema sem pólitískt áfall fyrir þrjá stjórnmálaleiðtoga í senn; Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu og Jón Sigurðsson. Öll veikjast þau verulega pólitískt í svona fylgismælingu. Þetta er t.d. lægsta fylgismæling Sjálfstæðisflokksins hjá Gallup í formannstíð Geirs H. Haarde og er þessi staða sérstaklega vond fyrir Sjálfstæðisflokkinn, enda get ég ekki ímyndað mér annað en að hörð vinstristjórn yrði mynduð í svona stöðu.

Þetta er því svo sannarlega könnun stórtíðinda og verður svo sannarlega athyglisvert að sjá næstu könnun og sjá hvort að fylgissókn VG muni halda nú þegar að nákvæmlega tveir mánuðir eru til þingkosninga. Brátt mun þingfundum Alþingis verða slitið, þ.e.a.s. ef ekki verða harkaleg stjórnarskrárátök um auðlindamálin, og kosningabaráttan er að hefjast af miklum krafti.


mbl.is VG bætir enn við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband