Mikil kvennasveifla til VG - aðrir flokkar síga

Forysta VG Nýjasta skoðanakönnun Gallups staðfestir endanlega mikla fylgissveiflu til vinstri grænna. Hún virðist aukast við hverja könnun og því sífellt meir að festast í sessi. Það er mikil kvennasveifla sem fer í áttina til þeirra fyrst og fremst. Það virðast vera stóru tíðindin að konur horfa í áttina til þeirra í æ meira mæli. Konur segja skilið við Samfylkinguna með áberandi hætti, þrátt fyrir það að kona sé þar í forystu. Miðað við þessa stöðu alla er VG að festa sig í sessi sem forystuafl til vinstri.

Þessi könnun er mjög vond fyrir Sjálfstæðisflokkinn, mjög vond. Það er algjörlega einfalt mál. Hann má varla neðar fara en þetta að mínu mati. Þetta eru þolmörk hans myndi ég ætla. Allt undir kjörfylginu 2003, 34%, boðar mjög vont. Hann er nú að mælast með svo til sama fylgi og í þeim kosningum. Miðað við það að ný forysta er tekin við flokknum er þetta mjög fjarri því að teljast ásættanleg útkoma í könnunum tveim mánuðum fyrir þingkosningar. Það er greinilegt að flokkurinn er að síga á höfuðborgarsvæðinu. Sú staða hefur verið áberandi alveg frá janúarkönnuninni. Það fólk sem Sjálfstæðisflokkurinn er að merkja í baráttusætum á höfuðborgarsvæðinu mælist úti og hefur gert lengi.

Ég fór í fréttaviðtal fyrir nokkrum vikum og varaði við framboði Árna Johnsen. Veit ekki hvort innkoma hans sé að valda okkur fylgistapi á höfuðborgarsvæðinu. Hallast þó mjög að því. Þetta er að fara í nákvæmlega þann gír sem ég óttaðist. Það kæmi mér þó ekki á óvart að fólk sé að gera alvöru úr hótunum sínum um að styðja ekki flokkinn vegna hans. Hann verður okkur akkilesarhæll í þessum kosningum. Það framboð mun ekki styrkja okkur neinsstaðar nema mögulega í Suðurkjördæmi af skiljanlegum ástæðum. Það sem ég hef áhuga á að sjá núna er mæling eftir kjördæmum og skipting þingsæta um allt land. Ef mér skjátlast ekki erum við að missa lykilsæti á landsbyggðinni nú.

Það er alveg ljóst á þessari stöðu að bylgja breytinga hljómar nú í samfélaginu. Sama ríkisstjórn hefur setið í tólf ár og virðist hún ekki eiga sér lífdaga auðið eftir 12. maí. Sterk staða vinstri grænna er til merkis um breytingar. Þetta er orðin svo ákveðin sveifla til vinstri grænna að hún verður ekki hunsuð. Þetta er afgerandi bylgja sem þeir eru á núna. Tal um stutta sveiflu á ekki lengur við. Það þarf ansi mikið að breytast til að þeir fái ekki um 20% í kosningunum, eiginlega þyrfti hrun til. Þeir fá aldrei yfir 25% en þeir gætu trompað Samfylkinguna sem næst stærsti flokkurinn, orðið leiðandi afl til vinstri. Það yrðu stórtíðindi.

Spurningin er hvernig stjórn gæti verið mynduð úr svona stöðu. Held að þar séu þrír kostir helstir; stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, VG og Sjálfstæðisflokks eða VG, Framsóknar og Samfylkingar. Síðasti kosturinn er sá sem ég óttast að myndi verða ofan á, sérstaklega ef Framsókn hysjast eitthvað upp. Það er enginn vafi að fái VG um eða yfir 25% muni þeir selja sig dýrt, allavega krefjast forsætis í vinstristjórn eigi að mynda hana. Þessi könnun er að því leyti svakalegt högg fyrir SF og Ingibjörgu Sólrúnu að Steingrímur J. er að myndast sem alvöru forsætisráðherraefni til vinstri. Hún er ekki drottnandi persóna til vinstri. Það eru stór tíðindi.

En ein könnun segir aldrei alla söguna. En samt. Þetta eru mjög sterk tíðindi og bylgjan til VG verður ekki hunsuð. Til þess er hún orðin of langvinn og afgerandi. En þetta verða spennandi kosningar. Spái mest spennandi og vægðarlausustu kosningabaráttu með gylliboðum og auglýsingakeyrslu í sögu lýðveldisins. Einfalt mál. Fasten your seat belts - it´s going to be a bumpy ride, segi ég eins og Bette Davis í eðalmyndinni All About Eve.

mbl.is „Vísbendingar um að VG svari eftirspurn eftir framboði umhverfisverndarsinna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Ágætar vangaveltur hjá þér um möguleika nýrrar ríkisstjórnar.Ljóst er að fylgið er enn á fleygi ferð og framboð Margrétar og Ómars getur landað einhverjum þingsætum.Sé miðað við fyrri skekkjumörk  í skoðunarkönnunum alþingiskosninga hjá Sjálfstæðisfl. gæti hann hæglega farið niður í 30-31%.VG gætu veruð að tryggja sig vel yfir 20% fylgi , Samf.mun eitthvað hækka frá núverandi Gallup könnun,Framsókn 10-12 % og Frjálsl.7-8% og Margrét er ennþá ?Svona hljóðar mín spá,hún er ekki uppörvandi fyrir okkar flokka Stefán.Þetta verða alla vega skemmtilegar og spennandi kosningar.

Kristján Pétursson, 9.3.2007 kl. 17:44

2 Smámynd: Ólöf Nordal

Nú er að bretta upp ermarnar!

Ólöf Nordal, 9.3.2007 kl. 17:57

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Kristján og þakka þér fyrir kommentið. Sammála mörgu af því sem að þú segir. Það er mjög erfitt að spá í hvernig fer. Við erum hinsvegar með eintómar vísbendingar í höndunum. Ómögulegt að segja um hvort að það sem að nú stendur heldur til 12. maí. Sjáum til. Þetta verða spennandi kosningar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.3.2007 kl. 17:57

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kveðjuna Ólöf. Held að við stöndum mjög vel hér þrátt fyrir allt. Við erum með ferskan og flottan lista; tvo Akureyringa og tvo Austfirðinga og tvær konur í topp þrjú. Getur ekki verið betra. Held að við stöndum vel að vígi hér. Er mest hræddur með höfuðborgarsvæðið eiginlega. Minna fylgi þar getur farið að koma niður á okkur í jöfnunarsætum. En þetta verður fróðlegt að sjá. Mikil spenna. :)

mbk. Stebbi

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.3.2007 kl. 18:12

5 identicon

Blóraböggullinn Árni Johnsen var nú fyrirmyndarfangi, gerði mörg og umfangsmikil listaverk á Kvíabryggju og þau hafa örugglega híft upp fylgið hjá Sjöllum, frekar en hitt. Framboð Hægri grænna á enn eftir að koma fram og það tekur langmest fylgi frá Sjöllum. Í næstu stjórn verða trúlega Vinstri Grænir, Samfó og annað hvort Frjálsblindir eða Hægri grænir, eða þeir báðir. Trúlega þeir báðir, ef Frjálsblindir deyja ekki Drottni sínum, því annars yrði meirihlutinn of tæpur. EF bæði Frjálsblindir og Hægri grænir fá mjög lítið fylgi verður Framsókn í stjórn með vinstri flokkunum. Steini verður trúlega í hásætinu. Honum liði ekki vel á NATO-fundum ef hann fengi kontór uppi við Rauðará. Hjá kvenþjóðinni er hann vinsæll og veit af því, og Imba rennir til hans hýru auga:

Þegar ég sé svona gæja eins og þig
finnst mér veröldin breyta um svip.
Þú hefur þannig áhrif á mig
að ég fell í yfirlið!

Sauðsvarta hetjan mín
hvernig ertu í lit?

Síðan þegar líður á kvöld
þú birtist mér á sjónvarpsskerminum.
Gæjalegur tekur öll völd
umvafinn sauðsvarta sjarmanum.

Píunum þú vefur um fingur þér
með því að sýna hörku, kjark og þor.
Þú veist ekki hve heitt ég óska mér
að vera bara komin í þeirra spor!

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 21:22

6 Smámynd: Gunnar Pétur Garðarsson

Ég er hreint ekki viss um að hægri grænir eiga eftir taka mikið af sjálfstæðisflokk, frekar hallast ég að því að samfylking og VG munu tapa fylgi vegna þess framboðs og þá einkum Samfylking. Vegna þess að mér sýnist þetta framboð (það litla sem maður er búin að sjá og heyra) sé mest megnis gamlir fúlir kratar.

Hitt er annað mál að ég sýti ekki Framsókn, ég spái samt því að þeir munu hífast upp í þetta 11-13% á landsvísu sem gefur þeim tækifæri á því að fara í stjórn með VG og Samfylkingu. Ég hef ekki trú á því að Frjálslindir munu koma til með að gera góða hluti og ég held hreinlega að þeir munu koma til með að enda einsog kvennalistinn sálugi ganga inn í annan flokk. Kannski verðu myndaður Frjálslyndur-Framsóknarflokkur sem yrði með fast kjörfylgi upp á 12-16% í framtíðinni. Þetta eru tveir miðjuflokkar hvort sem er pínulítið til vinstri og pínulítið til hægri og gætu hæglega náð saman.  

Gunnar Pétur Garðarsson, 9.3.2007 kl. 22:06

7 identicon

Gamlir fúlir kratar hafa alltaf verið lauslátir og núna eru þeir aðallega í Sjálfstæðisflokknum, Regnhlífarsamtökum lýðveldisins. Þar eru margar vistarverur af ýmsum toga, allt frá kjallara og upp í hanabjálka, geymslur af ýmsum sortum, gamlir draugar sem vaktir eru upp af minnsta tilefni, ungir Sjálfstæðismenn sem ekki eru lengur ungir og búnir að gleyma erindinu, aldraðar konur með Hvatarslæður, gömul og fúin "Stétt með stétt"-skilti, endurnýtanleg svikin kosningaloforð, digrir og endurnýjanlegir kosningasjóðir, síungar og endurnýtanlegar klappstýrur, nýir vendir sem sópa best, nítján milljarðar í gullspesíum til sauðfjárræktarinnar í anda hægri stefnunnar... og margt fleira fróðlegt og skemmtilegt.  

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 23:08

8 identicon

Rétt greint af þér og rétt athugað hjá þér.

róbert trausti árnason (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 10:13

9 identicon

Ég vona að allir geri sér grein fyrir því að það gengur ekki að vg komist í stjórn. s
Slíkur forræðishyggjuflokkur myndi gera lítið gott fyrir framtíð okkar.
Besta niðurstaðan að mínu mati er að sama stjórn fái umboð fólksins að halda áfram því góða starfi sem þeir hafa verið að gera undangengin ár.
Geir er eini maðurinn sem kemur til greina sem forsætisráðherra.
Vg fær aldrei nein 25% það er alveg klárt mál, 25% þjóðarinnar vill ekki búa í þjóðfélagi boða og banna.
Sf þarf a.m.k 4.ár til að fara yfir sín mál og nýr formaður sem verður væntanlega kosinn strax eftir kosningar þarf tíma til að púsla flokknum saman aftur. xd.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 11:08

10 identicon

Það er næsta víst að ekki verða allir Framsóknarmenn jafn heppnir og kalkúnninn Kex og sósa (Biscuit & Gravy) sem Bush Bandaríkjaforseti náðaði árið 2004.

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 12:27

11 identicon

Þegar umhverfisráðherrann
hverfist umhverfis ráðuneytið
þá umhverfist alltaf ráðuneytið
um umhverfisráðuneytismann.


Copyright 2007, Eiríkur Kjögx

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 13:46

12 identicon

Gunnar Birgis krúttikrútt,
krunkar sitt síðasta vers,
Kópavogur er kjúttipútt,
og kominn er á Players.

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 15:09

13 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir góð komment. Sérstaklega gaman að lesa komment Óðins, Sveins og Gunnars Péturs. Skemmtilegar pælingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.3.2007 kl. 17:56

14 identicon

Ef VG fær eitthvað í áttina sem þeir hafa mælst með þá verður næsta ríkisstjórn mynduð af Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Það er ekki séns að Samfylking myndi ríkisstjórn með stærri VG.

Hákon B. Óttarsson (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband