Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Handtaka Hreiðars Más markar góð tímamót

Handtaka Hreiðars Más Sigurðssonar markar jákvæð og góð tímamót - þjóðin þurfti að fá það á tilfinninguna að eitthvað væri virkilega að gerast hjá saksóknaranum. Þetta er upphafið á uppgjörinu sem þarf að fara fram eftir bankahrunið - menn svari til saka fyrir afbrot sín og axli ábyrgð á röngum ákvörðunum og áhættunni miklu sem keyrði íslensku þjóðina nær til glötunar.


mbl.is Hreiðar Már handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlir karlar

Þeir eru ósköp litlir karlar og aumir sem ráðast að fólki á sjötugsaldri og ber það sundur og saman, eins og gerðist í Reykjanesbæ. Þetta er aumingjaskapur af verstu sort. Það á að taka af hörku á slíkum aumingjum.

Heimili fólks er jú friðhelgur staður, griðastaður og skjól hvers einstaklings. Árás á fólk á heimilum sínum er grafalvarlegt mál og ber að fara með málið í samræmi við alvarleika brotsins.

Þeir sem standa að slíkri aðför að fólki og það sérstaklega eldri borgurum eiga sér engar málsbætur.

mbl.is Um dæmda ofbeldismenn að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur í borginni dissa stóru flokkana

Könnunin á fylgi flokkanna í borginni er vægast sagt stórmerkileg. Kjósendur dissa stóru flokkana svo um munar. Skilaboðin geta varla verið skýrari - fólk vill nýtt pólitískt landslag og stokka hlutina upp. Þarna kemur fram þreyta fólks á stjórnmálum og óánægja með það hvernig unnið hefur verið, ekki aðeins í borgarmálum á kjörtímabilinu heldur og í landsmálum fyrir og eftir hrun.

Enn eru fjórar vikur í kosningar. Haldist þessi sveifla eru stórpólitísk tíðindi í augsýn sem munu setja mikið mark á pólitíska umræðu í landsmálunum. Enda verður svo stórt diss kjósenda með stóru flokkana eins og mælist þarna þá mælanleg í þingkosningum, sem verða væntanlega fljótlega, enda vinstristjórnin vægast sagt veikburða og forystulaus.

mbl.is Besti flokkurinn fengi fjóra kjörna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldahringekja Jóns Ásgeirs í boði ríkisins

Sukkleikur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist, þrátt að maðurinn eigi ekkert nema skuldir og svamli í skuldafeni. Hvernig ætlar vinstristjórnin lánlausa að verja að Landsbanki Íslands, banki í eigu ríkisins, láni lánakóngi útrásarsukksins, persónulega tæplega hálfan milljarð með veði í yfirveðsettum eignum?

Er ekki komið nóg af þessu andskotans rugli?


mbl.is Jón Ásgeir fékk 440 milljónir króna að láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll styrkjamál á borðið - þingmenn axli ábyrgð

Mjög mikilvægt er að öll vafamál varðandi styrki til stjórnmálamanna verði opinberuð. Nóg er komið af hálfkveðnum vísum. Stjórnmálamenn sem hafa þegið óeðlilega háa styrki eiga að axla ábyrgð og segja af sér þingmennsku. Staða þeirra er óviðunandi. Þeir eiga að víkja, kjósenda sinna og flokksfélaga vegna.

Rannsóknarskýrslan tekur vel á þessum málum - auðvitað voru þessir styrkir mjög óeðlilegir og ekki viðunandi að þingmenn ríghaldi í stólana sem þegið hafa milljónir í styrki. Trúverðugleikinn er mjög veikur, svo ekki sé meira sagt.

mbl.is Óþægilegt fyrir Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhugsuð ummæli Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar Grímsson hefði átt að hugsa sig aðeins betur um áður en hann fór í erlendu pressuna með dómsdagsspár vegna yfirvofandi Kötlugoss. Stundum má satt orð kjurrt liggja. Engum er greiði gerður, allra síst forseta þjóðarinnar, að koma fram með svona svartar spár.

Forsetinn hefur með ummælum sínum vegið ómaklega að ferðaþjónustunni í heild sinni. Í raun má velta fyrir sér hvort hann hafi yfir höfuð eitthvað hugsað málin áður en hann fór í viðtalið. Þetta er varla viðeigandi.

Eftir nýjustu bommertur Ólafs Ragnars, í kjölfar rannsóknarskýrslunnar, þar sem hann var kominn í blóðugan slag upp að öxlum við að verja dekrið við auðmennina hefði verið rétt að pása sig.

mbl.is Gosið nú lítið annað en æfing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsfundi flýtt - tafarlaust uppgjör eftir skýrslu

Forysta Sjálfstæðisflokksins gerir rétt með því að flýta landsfundi um rúmlega ár. Þar verða spilin stokkuð upp með kosningu forystu flokksins og málefnavinnu. Þetta er tafarlaust uppgjör eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sjálfstæðisflokkurinn verður með þessu fyrsti flokkurinn sem fer í slíkt uppgjör eftir skýrsluna, kallar flokksmenn saman og lætur þá taka afstöðu bæði til flokksstefnunnar og forystunnar.

Eftir afsögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er með öllu óeðlilegt að miðstjórnin kjósi eftirmann hennar á varaformannsstóli. Það vald á að vera í höndum landsfundarfulltrúa. Vonandi er að margir gefi kost á sér og landsfundarfulltrúar fái val um forystusætin. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er kosningin eins opin og hugsast getur, landsfundarfulltrúinn fær autt blað í hendur og getur ritað þar hvaða nafn sem er. Valdið er hans.

Bjarni Benediktsson hefur beitt sér fyrir uppgjöri í Sjálfstæðisflokknum eftir skýrsluna. Með því að kalla saman landsfund stokkar hann upp spilin, lætur reyna á stöðu sína og eflir stöðu flokksins til muna. Enginn vafi er á því að landsfundur einn getur stokkað spilin umtalsvert upp og tekið málin í sínar hendur. Enginn getur sakað Bjarna um léleg vinnubrögð í þessum efnum. Hann kallar til landsfundar til að uppgjör fari fram.

Forysta Sjálfstæðisflokksins hefði vissulega getað haft landsfund á áður ákveðnum tíma, í september 2011. Miðstjórn hefði getað kosið varaformann. Slíkt gerðist árið 1973 þegar Geir Hallgrímsson, varaformaður, tók við formennsku eftir afsögn Jóhanns Hafsteins. Þá kaus miðstjórnin Magnús Jónsson frá Mel sem varaformann. Þegar hann hætti síðar var Gunnar Thoroddsen kosinn varaformaður á landsfundi.

Staðan nú er hinsvegar þannig að kalla þarf saman landsfund. Það verður flokksmanna að kjósa forystuna og taka afstöðu til mála. Uppgjör þarf að fara fram og hefur skipan viðbragðsnefndar við rannsóknarskýrslunni verið gott fyrsta skref í þeim efnum. Sjálfstæðismenn hafa með þessu stokkað sín spil upp og ætla að fara í markvissa vinnu til að taka á málum eftir rannsóknarskýrsluna.

Tafarlaust uppgjör er nauðsynlegt eigi Sjálfstæðisflokkurinn að styrkja stöðu sína enn frekar í aðdraganda þingkosninga, sem verða væntanlega fljótlega enda er pólitískt kapítal vinstristjórnarinnar lánlausu nær uppurið.

mbl.is Boða til aukalandsfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorgerður Katrín segir af sér varaformennsku

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerir rétt með því að segja af sér varaformennsku Sjálfstæðisflokksins - taka hagsmuni Sjálfstæðisflokksins og umbjóðenda hennar fram yfir sína eigin. Hún á heiður skilið fyrir það að höggva með því á neikvæða umræðu um mál hennar.

Staða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hefur verið mjög veik frá efnahagshruninu, allt að því vonlaus. Betur hefði farið á því ef Þorgerður hefði vikið með Geir H. Haarde á landsfundinum í mars 2009. Þá þegar þurfti algjörlega nýja forystu í Sjálfstæðisflokknum.

Eitt er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn nú... flýta þarf landsfundi, gera upp málin og horfa til framtíðar.

Ákvörðun Þorgerðar Katrínar er mikilvægur liður í því að gera upp við liðna tíð.

mbl.is Þorgerður stígur til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Þorgerður Katrín segja af sér í Reykjanesbæ?

Mikil spenna er innan Sjálfstæðisflokksins um hvort Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir muni segja af sér varaformennsku og þingmennsku á flokksráðsfundinum í Reykjanesbæ í dag. Ég finn mjög vel eftir að rannsóknarskýrslan kom að flokksmenn vilja uppgjör, hreinsa til og taka á málum sem allra fyrst.

Öllum er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki halda trúverðugleika sínum meðan varaformaðurinn situr og nauðsynlegt að uppstokkun verði. Því má búast við líflegum fundi þar sem talað verður hreint út.

Ef forysta flokksins nær ekki að klára sín mál með viðunandi hætti í dag þarf að skipta henni út algjörlega.

mbl.is Vilja að varaformaðurinn víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun Illuga - Þorgerður á að segja af sér

Illugi Gunnarsson tekur rétta ákvörðun með því að víkja af þingi. Nú er mikilvægt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segi af sér og stígi til hliðar, fyrst og fremst til að styrkja stöðu Sjálfstæðisflokksins. Það er algjörlega óviðunandi fyrir sjálfstæðisfólk um allt land að sætta sig við að hún sé í forystusveit flokksins eftir fjölmiðlaumfjöllun um stöðu þeirra hjóna.

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ á morgun verður eflaust mjög líflegur og þar verður örugglega talað tæpitungulaust þekki ég rétt sjálfstæðisfólk um land allt sem mætir þar til fundar. Þarna er fólk sem hefur unnið fyrir flokkinn árum saman og sættir sig einfaldlega ekki lengur við að vera með í forystusveit flokksins fólk sem hefur í raun enga pólitíska stöðu til þess.

Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að geta styrkt stöðu sína þarf að stokka upp spilin þar. Flokksráðsfundurinn er kjörin tímasetning til að vinna að þeim breytingum sem þurfa að verða.

mbl.is Illugi fer í leyfi frá þingstörfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband