Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vigdís áttræð

Mikill sómi er að því fyrir borgarstjórn að hafa valið Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands, sem heiðursborgara Reykjavíkurborgar á áttræðisafmæli hennar. Vigdís er hið sanna sameiningartákn þjóðarinnar, nýtur virðingar landsmanna. Staða hennar verður æ sterkari þegar litið er á vandræðalega stöðu eftirmanns hennar sem berst á hæl og hnakka í fjölmiðlum til að verja sig eftir að hafa dekstrað við auðjöfra og haldið þeim veislur - hefur skaðað embættið. 

Mér þykir mjög vænt um Vigdísi og finnst mikils virði að hún sé til staðar fyrir okkur öll, á meðan flest lykilembætti njóta lítils stuðnings og fólkið í landinu hefur misst nær alla trú á stjórnmálamenn og helstu forsvarsmenn í stjórnkerfinu. Hún hefur mjög mikið fram að færa og hefur þann trausta styrkleika að njóta trausts og stuðnings allra - er hafin yfir dægurþrasið. Þó orðið sé nokkuð um liðin síðan hún flutti frá Bessastöðum er Vigdís og verður alla tíð forseti í huga okkar allra.

Vigdís var sameiningartákn þjóðarinnar um langt skeið og er það í raun enn. Á þeim tímum þegar forseti Íslands, sem ætti að öllu eðlilegu að vera sameiningartákn þjóðarinnar, er ekki lengur traustsins verður og hefur farið svo illa úti í efnahagshruninu verður rödd Vigdísar enn meira virði.

Við getum treyst því að hún talar af visku og sannleika um stöðuna og hefur þann sess að vera hafin yfir þessar átakalínur - ein af fáum landsmönnum sem allir geta treyst til að tala einlægt og án þess að hefja sjálfa sig upp.

Slíkt er og mikils virði. Eftir að Sigurbjörn biskup dó eru mjög fáir sem eru svo einstakir í þessu samfélagi að vera hafin yfir átök og hversdagslegt blaður. Vigdís er ein af þeim og verður enn mikilvægari fyrir vikið í huga landsmanna.

mbl.is Vigdís gerð að heiðursborgara í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslan komin á netið - lesturinn hafinn

Eftir eins og hálfs árs bið er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis loksins komin á netið... lesturinn er hafinn. Fróðlegt verður að sjá hvort skýrslan stendur undir væntingum almennings á því mikla uppgjöri sem þarf að fara fram. Sjaldan hefur verið beðið lengur og með meiri eftirvæntingu eftir nokkru riti.

Ég vonast eftir víðtæku pólitísku uppgjöri á því sem úrskeiðis fór og vil að þeir fái makleg málagjöld sem klúðruðu málum. Annað er ekki í boði eftir alla þessa bið... við verðum að fá það á tilfinninguna að eitthvað muni breytast vegna þessarar skýrslu og málið sé loks að komast á endastöð. Uppgjörið er eftir.

Vona svo að þið hafið gaman af því að lesa þessa skýrslu... á netinu mun ég lesa hana. Skil ekki alveg hvernig fólk nennir að panta hana í prentuðu formi, eins og einhvern reyfara. En kannski er þessi uppgjörskýrsla hálfgerður reyfari í og með.

mbl.is Ör vöxtur bankanna orsökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólsku forsetahjónin farast í flugslysi



Flugslysið sem grandaði Lech Kaczynski, forseta Póllands, eiginkonu hans Maríu og fjölda pólskra embættismanna er mikill þjóðarharmleikur fyrir Pólverja. Kaczynski var mjög umdeildur stjórnmálamaður, pólitískur klækjarefur sem var mjög dómínerandi í pólitísku litrófi, ekki aðeins á heimavelli heldur á alþjóðavettvangi. Skarð hans er mikið fyrir pólsku þjóðina.

Kaczynski forseti var eins og flestir vita barnastjarna. Hann og tvíburabróðirinn Jaroslaw léku saman forðum daga í kvikmyndinni Drengirnir sem stálu tunglinu. Jaroslaw og Lech komust saman til valda eftir að Kwasniewski lét af völdum árið 2005. Jaroslaw varð forsætisráðherra fyrri hluta forsetaferils bróður hans og þeir voru mjög umdeildir, enda sem jarðýtur.

Eftir að Jaroslaw tapaði í þingkosningunum 2007 hefur Kaczynski forseti þurft að deila völdum með Donald Tusk, sem hann sigraði í forsetakosningunum 2005. Það hefur verið lífleg valdasambúð, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Fróðlegt verður að sjá hvort þessi harmleikur sameinar pólsku þjóðina í forsetakjöri sem halda verður innan tveggja mánaða eða leiðir til aukinna átaka.

mbl.is Kaczynski ferst í flugslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilldarútspil hjá Villa Bjarna í Útsvari

Vilhjálmur Bjarnason á hrós skilið fyrir að afþakka gjafabréf Iceland Express í Útsvari. Villi hefur alltaf þorað að tjá skoðanir sínar og staðið undir nafni, haft trausta sannfæringu og staðið í lappirnar meira að segja þegar að það þótti ekki flott í íslensku samfélagi að dissa útrásarvíkingana og sukkkóngana sem sökktu landinu í skuldir. Hann dansaði ekki kringum þessa gullkálfa eins og svo margir gerðu.

Vandræðalegt líka að stjórnendur RÚV settu Þóru Arnórsdóttur, eiginkonu Svavars Halldórssonar, fréttamanns, í þá aðstöðu að vera að dreifa vinningum frá Iceland Express Pálma Haraldssonar, eftir það sem á undan er gengið með tilraunum Pálma til að ráðast að heiðarlegri fréttamennsku.

En Garðabær átti sigurinn skilið: flott lið og flott frammistaða í vetur. Innilegar hamingjuóskir í Garðabæinn.

mbl.is Afþakkaði gjafabréf í Útsvari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með Álfheiði af ráðherrastóli

Álfheiður Ingadóttir á að sjá sóma sinn í því að segja af sér ráðherraembætti eftir áfellisdóm Ríkisendurskoðunar. Hún fær algjöran skell eftir valdníðsluna í samskiptum við Steingrím Ara Arason og er varla sætt lengur í embætti. Ef ekki mun örugglega reyna á mjög fljótlega hvort hún hafi ekki brotið stjórnsýslulög með framferði sínu og yfirgangi.

Álfheiður hefur sýnt á örfáum mánuðum að hún er algjörlega óhæf um að gegna ráðherraembætti. Öll framkoma hennar og stjórnunarstíll er ekki boðlegur. Vinstri grænir hljóta að leiða hana af velli.

mbl.is Ákvörðun Álfheiðar „ólíðandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áminntur fyrir vandvirkni - valdníðsla Álfheiðar

Mér finnst það hrein valdníðsla hjá Álfheiði Ingadóttur að áminna Steingrím Ara Arason, forstjóra Sjúkratrygginga, fyrir það eitt að leita til Ríkisendurskoðunar. Síðan hvenær er það ámælisvert að stunda vandvirk vinnubrögð og leita álits innri endurskoðunar? Er þetta ekki vönduð og góð stjórnsýsla? Held það nú.

Álfheiður er forræðishyggjan uppmáluð: í hennar bókum eru skoðanakúgun, valdboð og siðferðispredikanir í hávegum hafðar. Þessi valdníðsla segir mikið um ráðherrann, yfirgangur og hótanir virðast hennar vinnuaðferðir. Þetta er hrokafullt og ömurlegt, frekar á að hrósa því að leitað sé álits.

En þetta er svosem eins og margt annað í þessari lánlausu vinstristjórn: breytingarnar eru framlenging á afdönkuðum vinnubrögðum. Þessi vinstristjórn er gamaldags og þreytt stjórn með yfirboðum og hótunum frá hinu villta gamla vinstri.


mbl.is Ráðherra ætlar að áminna forstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vinstristjórnin með eitthvað plan B?

Eftir nýjustu yfirlýsingar Dominique Strauss-Kahn er ljóst að Steingrímur J. og Gylfi hafa farið sneypuför hina mestu til Washington. Samstarfið við AGS er í upplausn og óljóst hvað vinstristjórnin ætlar að gera, enda hefur stjórnin ekki haft neitt plan B í sinni einstefnu undanfarna mánuði. Hún hefur ekki haft þingmeirihluta til að gera neitt af viti og er logandi í innri ólgu og skítkasti, þar sem forsætisráðherrann lýsir samstarfsmönnum sínum sem kattahjörð í smölun.

Hefði ekki verið betra fyrir íslensku þjóðina að heyra stöðuna beint frá Steingrími og Gylfa í stað þess að láta handrukkarafrakkann segja það. Hversu lengi ætlar Steingrímur að vera eins og barinn hundur og láta eins og ekkert sé? Þó hann sé eins og kúgaður eiginmaður í afleitu hjónabandi á hann að tala hreint út við þjóðina og segja hvernig staðan er.

Pólitískt kapítal þessarar stjórnar fór í það eitt að sækja um aðild að ESB og koma handónýtum Icesave-díl í gegnum þingið. Nú virðist samstarfið farið í hundana... og þó... nei afsakið í kettina :)


mbl.is Ísland kann að skorta stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óánægja í kattahjörðinni í VG



Á meðan flestir hlæja að óförum vinstristjórninnar og kattasmölun Jóhönnu Sigurðardóttur eru vinstri grænir niðurlægðir, sárir og bitrir - skal engan undra. Brandararnir grassera á netinu og fátt um annað talað en lánleysi þessarar vinstristjórnar.

Svona gengur víst kattasmölun fyrir sig.

mbl.is Þingflokkur VG á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna sendir eitraða pillu til vinstri grænna

Jóhanna Sigurðardóttir niðurlægir vinstri græna með eitraðri pillu sinni í dag - segir eins og að smala saman köttum að ná þingmeirihluta. Skilaboðin eru einföld til VG og Steingríms: ef vinstri grænir sameinist ekki um lykilmál sé samstarfinu lokið. Þetta eru hótanir af sama tagi og Jóhanna er svo fræg fyrir, stór hluti stjórnmálaferils hennar hefur einkennst af hótunum bæði við samflokksmenn og pólitíska andstæðinga. Ekkert nýtt.

Auðvitað er erfitt fyrir Jóhönnu að vera verkstjóri í lánlausri ríkisstjórn - henni hefur aldrei tekist að verða traustur leiðtogi á pólitískum vettvangi né sýnt nokkur merki þess að kunna með verkstjórn að fara. Enda sést það best á þessari stjórn í nafni hennar. Hún hefur verið feig mánuðum saman, allt frá því að Ögmundur Jónasson var hrakinn út úr henni með hótunum og yfirgangi.

Þetta getur ekki endað nema á einn veg. Við skulum fara að búa okkur undir þingkosningar fljótlega. Þessi lánlausa vinstristjórn er gjörsamlega komin á endastöð.


mbl.is Ósamstaða VG veikir stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur listi hjá sjálfstæðismönnum í Garðabæ

Eftir neikvæða umræðu um stöðu kvenna hjá Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ leysir hinn gamalreyndi leiðtogi, Erling Ásgeirsson, málin með því að víkja úr fyrsta sætinu fyrir konu, sem hlaut mikið fylgi í annað sæti og stíga til hliðar mun neðar á listann. Áslaug Hulda er vel að þessu komin, traust og flott kona sem á eftir að standa sig vel í sveitarstjórnarmálum.

Þessi tillaga Erlings styrkir flokkinn hinsvegar til muna og er honum umfram allt persónulega til mikils sóma, en um leið vekur athygli að hann stígi sjálfur til hliðar eftir að hafa sigrað leiðtogaslag við Pál Hilmarsson. Þarna fer maður sem hugsar um hag heildarinnar umfram sína eigin, virðingarvert vissulega.

Ekki þarf að efast um hvernig þessum lista muni ganga í vor. Garðabæ er og hefur verið blár bær og verður það auðvitað áfram.


mbl.is Áslaug Hulda leiðir listann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband