Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Klofningur í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri

Mikil dramatík einkenndi fulltrúaráðsfund Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í gærkvöldi þar sem Sigurður Guðmundsson, verslunarmaður, sagði sig úr flokknum og boðaði sérframboð. Mér þykir afar leitt að kjörnefnd bar ekki gæfu til að fara eftir úrslitum prófkjörs með sex efstu sæti og halda friðinn innan flokksins með því. Þetta er taktlaust og mjög vond vinnubrögð, því miður.

Ég taldi að úrslitin myndu standa og kjörnefnd myndi reyna að sameina flokksmenn á bakvið þennan sex manna hóp. Sigurður var 25 atkvæðum frá því að hljóta fjórða sætið og 40 atkvæðum að mig minnir frá bindandi kosningu. Hann tók vissulega mikla áhættu með mótframboði við sitjandi leiðtoga og virðist refsað fyrir það.

Þetta eru óþarfa leiðindi og boðar sárindi í flokkskjarnanum, enda er leitt að úrslitum prófkjörsins sé ekki fylgt og reynt að gera gott úr málum. Sérframboð er skaðlegt fyrir flokkinn, þetta ættu reyndir menn í starfinu að vita, menn sem upplifðu átökin eftir prófkjörið 1994 þar sem Jón Sólnes yngri og fylgismenn hans fóru sárir frá velli.

Þau sárindi komu illa niður á flokknum í kosningunum 1994. Sérframboð Sigurðar Guðmundssonar er vond tíðindi fyrir flokkinn, enda má hann varla við miklum áföllum. Sjálfur hef ég ekki verið virkur í félagsstarfinu í nokkurn tíma og horft á verkin þar úr fjarlægð, mætt á fundi, enda haft áhuga á pólitík.

Svona vinnubrögð laða fólk ekki að starfinu, því miður. Þessi vinnubrögð boða ekki gott.

mbl.is Segir sig úr flokknum og boðar sérframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Árni Páll verða eftirmaður Jóhönnu?

Baráttan er hafin af fullum krafti um hver verði eftirmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, sem augljóslega er á útleið úr stjórnmálum - enda ekki valdið embætti forsætisráðherra. Árni Páll Árnason ætlar greinilega að festa sig í sessi í þeirri baráttu með nýjasta útspili sínu, sem bætist í hópinn með mörgum ódýrum trixum í ráðherratíð hans, sem hafa litlu skilað og slegið lítið sem ekkert á óánægju almennings.

Samfylkingin hefur verið leiðtogalaus mánuðum saman. Jóhanna hefur ekki karakterinn og styrkinn sem þarf í embætti forsætisráðherra, verið ósýnileg og ekki náð að vera sá leiðtogi sem þjóðin þarf á þessum örlagatímum, þegar tala þarf kjark og kraft í íslensku þjóðina. Árni Páll, sem sló við Lúðvík Geirssyni í Kraganum, hefur verið á uppleið innan flokksins en frekar dalað að undanförnu.

Nú er hann greinilega að byrja slaginn og ætlar að reyna að festa sig í sessi í flokkskjarnanum, sem eins og þjóðin þarf mjög á leiðtoga að halda, eftir því sem líður að endalokum stjórnmálaferils Jóhönnu og þegar límið í þessari lánlausu vinstristjórn gefur æ meira eftir.

mbl.is Saka Árna Pál um ódýrt útspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýr kjaftagangur hjá Steingrími J.

Ansi er það nú ódýr kjaftagangur hjá Steingrími J. að ráðast að fulltrúum atvinnulífsins þegar þeir benda á hina augljósu staðreynd að vinstristjórnin er handónýt. Hún hefur litlu komið í verk, er lánlaus og ráðalaus - eyðir mestum tíma sínum í innbyrðis hjaðningavíg og stólaleiki í stað þess að koma hjólunum af stað.

Allir sjá að VG er rjúkandi rúst, þar er baráttan um stólana hafin og verður greinilega ekkert áhlaupsverkefni að koma Ögmundi, manninum sem er með puttann á on/off-takkanum á öndunarvélinni, fyrir aftur í stjórninni. Allt annað í landinu er á einu risastóru stoppi meðan VG fuðrar upp.

Þetta er raunalegt. Þetta lið ætti að skammast sín og koma sér að verki, það hefur þegar spanderað heilu ári í ESB og Icesave-klúður sitt!

mbl.is Þreyttur á þessu kjaftæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugumferðarstjórar aflýsa fyrir lagasetningu

Lítil sem engin samúð er með flugumferðarstjórum í baráttu þeirra, enda seint sagt að stemmning sé fyrir kröfum þeirra í þeirri stöðu sem blasir við nú í samfélaginu öllu. Þeir gera rétt að blása þetta af áður en Alþingi setur lög á verkfallsaðgerðirnar.

Kristján Þór Júlíusson gerði rétt með ummælum sínum í gærkvöldi um lagasetningu og var þar með á undan ráðherrum í ríkisstjórninni máttlausu sem er við völd. Loksins tók hún við sér og var með lagasetningu tilbúna.

Til þess kemur ekki, en það er gott að vita að menn eru tilbúnir til að stöðva þessa vitleysu af.

mbl.is Flugumferðarstjórar aflýsa verkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halldór fer á Fréttablaðið - kemur Sigmund aftur?

Kjaftasaga kvöldsins er að skopmyndateiknarinn Halldór Baldursson sé hættur á Mogganum og fylgi Ólafi Þ. Stephensen á Fréttablaðið. Hann teiknaði skopmyndir á hinu sáluga blaði 24 stundum í ritstjórn Ólafs og fylgdi honum þaðan á Moggann. Mikil tíðindi, enda hefur Halldór fest sig í sessi sem skopmyndateiknari með næmt auga fyrir þjóðlífinu og rissar upp listagóðar myndir sem skanna það sem gerist í samfélaginu.

Þegar Halldór fór á Moggann var skopmyndateiknaranum Sigmund frá Eyjum bolað burt úr sínu skopmyndaplássi, sem hann hafði haft frá árinu 1964, með ömurlegum vinnubrögðum ritstjórnar Morgunblaðsins. Þetta voru ömurlegar aðferðir eftir áratugastarf Sigmunds fyrir Morgunblaðið.

Vonandi kemur Sigmund aftur! Ættu að vera hæg heimatökin, enda býr eigandi Moggans í Eyjum, ekki satt?

Skuldakóngum hossað

Ég undrast ekki að fólkið í landinu hafi fengið nóg af því hvernig skuldakóngum er hossað af bönkum og lánardrottnum. Reiði almennings er mjög skiljanleg. Hvernig er hægt að búast við því að langlundargeð fólksins sé algjört gagnvart þessum fréttum af því hvernig stórskuldugir menn eru smúlaðir af ábyrgð á skuldum og endalausu sukki?

Dag eftir dag eykst undiraldan gegn þessu verklagi og skal engan undra. Þeir sem kusu til valda vinstristjórn til að taka á sukkinu hljóta að vera vonsviknir og sárir. Hvaða breytingar hafa orðið síðasta árið? Erum við ekki enn á sama reit og eftir hrun. Vonbrigðin aukast þó, enda augljóst að völdum mönnum eru rétt fyrirtækin aftur.

Við búum enn í miðju sukkinu, höfum ekki komist úr hinu ógeðslega feni lágkúrunnar. Þetta er eins og Groundhog Day, sama og sama aftur og aftur.


mbl.is Veldi byggt á skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðastríð vinstristjórnarinnar

Engum dylst að vinstristjórnin er verulega löskuð og í raun búin að vera, hvað sem Jóhanna og Steingrímur segja í veruleikafirringu sinni. Stóri vandinn er sá að þingmeirihlutinn er ekki til staðar, enda hefur þessi vinstristjórn varla komið málum áfram í þinginu og þurft að stóla á annan stuðning í lykilmálum en í sínum röðum. Þetta ástand felur feigðina í sér. Enginn annar meirihluti er til staðar og því einsýnt að boða verði til þingkosninga haldi þetta áfram mikið lengur með þessum brag.

Stóra ástæðan fyrir vandræðagangi vinstristjórnarinnar er auðvitað sá að hún hefur aldrei haft traustan þingmeirihluta fyrir Icesave-málinu, þurft að beita hótunum og yfirgangi á vissa þingmenn sína til að fá mál í gegn og gengið með því mjög á pólitískt kapítal sitt. Nú er ljóst að skrifað var undir hina afleitu Icesave-samninga án þess að þingmeirihluti væri til staðar. Steingrímur J. Sigfússon hlustaði ekki á þingmenn sína sem voru andvígir og tók mikla pólitíska áhættu.

Tilgangslaust er fyrir þennan þvergirðing að koma nú fram og kenna öðrum um hvernig fór. Hann hlustaði ekki á þingmeirihlutann á þeim tíma, sem hefur merkilegt nokk lítið breyst. Enn er meirihluti gegn þeim samningum sem skrifað var undir, þó svo þeir hafi fengist samþykktir með tilslökunum og langri vinnu við fyrirvara sem var síðar samið af sér og aðrir viðaukasamningar fengnir í gegn með hótunum, þar til forsetinn tók málið úr höndum hans og færði þjóðinni valdið að kasta lögunum.

Úrslit síðustu þingkosninga voru skýr: vinstriflokkarnir fengu hreinan meirihluta, traust kjósenda til að vinna að sínum málum án aðkomu annarra flokka. Sjálfstæðisflokknum var sparkað frá völdum og hann fékk ekki neitt umboð í síðustu þingkosningum. Vonlaust er að kenna honum um hvernig komið er málum nú með óstarfhæfan þingmeirihluta vinstrimanna. Leiðtogum stjórnarflokkanna tókst að vinna mál áfram án þess að hlusta á óbreytta þingmenn sína og svo fór sem fór.

Ef þessi vinstristjórn með hreinan meirihluta gefst upp er ekkert ráð annað en boða til þingkosninga í sumar eða haust. Annað er ekki boðlegt. Við öllum blasir að enginn annar traustur meirihluti er fari svo að sá meirihluti sem kosinn var beint til valda, sem landsmenn treystu fyrir stjórn landsins, fellur vegna innri hnútukasta. Þá verður að stokka spilin upp á nýtt.


mbl.is Heita ekki stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar sigurvegari - stjórnarparið niðurlægt

Enginn vafi leikur á því að Ólafur Ragnar Grímsson er sigurvegari þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hann talar nú sá sem valdið hefur, enda tók hann rétta afstöðu með því að hlusta á þjóðina og uppsker eftir því. Stjórnarparið var niðurlægt af þjóðinni, kjörsóknin er mjög góð og það getur enginn efast um að þjóðin hefur talað mjög afgerandi í þessari kosningu.

Jóhanna og Steingrímur eru algjörlega úr tengslum við þjóðina þegar halda áfram að gera lítið úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau ættu að sjá sóma sinn í að skammast sín fyrir dugleysi sitt og viðurkenna pólitísk afglöp með Icesave-samningunum afleitu sem þau bera fulla ábyrgð á. Þjóðin hefur fellt afgerandi dóm yfir þeirri hrákasmíð og verkstjórn þeirra.

Forsetinn hefur styrkt mjög stöðu sína og minnir á hlutverk sitt. Hann tryggði þjóðaratkvæðagreiðsluna og talar nú við heimsbyggðina sem sá er valdið hefur á Íslandi. Enda eru það stóru tíðindin síðustu vikurnar að forsetinn hefur tekið völdin af máttlausri ríkisstjórn sem hefur ekki stuðning meirihluta kjósenda lengur.

mbl.is Nei sögðu 93,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð gagnrýni forsetans á Norðurlöndin

Ólafur Ragnar Grímsson gerir rétt með því að gagnrýna Norðurlöndin. Algjör óþarfi er að dekstra Norðurlöndin eftir að þau tóku þátt í aðförinni að Íslandi, studdu ekki Ísland þegar á reyndi. Tímabært er að íslenskir stjórnmálamenn tali hreint út um gildi norræns samstarfs og hvort það sé einhvers virði eftir að Norðurlöndin horfðu þegjandi og hljóðalaust á aðförina að Ísland eftir efnahagshrunið.

Algjör óþarfi er að Ísland láti þegjandi og hljóðalaust yfir sig ganga endalaust og eigi svo að mæta brosandi og þegjandi á fundi með norrænum starfsbræðrum sem hafa ekkert fyrir okkur gert og verið með haltu kjafti mola uppí sér mánuðum saman.

mbl.is Segir Norðurlöndin hafa beitt Ísland þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin hafnar Icesave og stjórnarparinu

Fyrstu tölur

Skilaboð þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni eru skýr:

Yfir helmingur kjósenda mætir á kjörstað og hafnar Icesave - rúm 93% segja nei, hafna forystu Steingríms og Jóhönnu í Icesave-málinu síðustu mánuði. Allt tal um að viðaukanum sé bara hafnað hljómar eins og veruleikafirring þegar litið er á tölurnar.

Allt sem þessi stjórn hefur samið um Icesave er úr sögunni. Þau hafa fengið vænan rassskell frá þjóðinni og eiga að hugleiða sinn gang.

Auðvitað eiga þau að hafa manndóm í að segja af sér eftir þennan rassskell.

mbl.is Nær allir segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband