Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hugsjónirnar ekki sviknar í valdaplottinu

Einmitt þegar ég taldi að öll nýju grasrótarframboðin fyrir sveitarstjórnarkosningarnar ætluðu að svíkja hugsjónir sínar og gleyma hvers vegna þau voru kosin kemur skemmtilega á óvart að Listi Kópavogsbúa ætli að standa við loforðið um ópólitískan bæjarstjóra og koma í veg fyrir að leiðtogi Samfylkingarinnar sem tapaði fylgi og manni í Kópavogi fái stólinn á silfurfati. Þetta sýnir kjark og festu, sem er virðingarverð.

Besti flokkurinn og Næstbesti flokkurinn sviku sín loforð og voru komnir í sama gamla valdaplottið bakvið tjöldin um leið og síðasta atkvæðið hafði verið talið. Hafi einhverjir talið að með því að kjósa þau væri verið að gera eitthvað nýtt eða kjósa eitthvað nýtt var komið allsnarlega í bakið á þeim eftir kosningarnar. Sama gamla andskotans ruglið í nýjum umbúðum var varla það sem kosið var.

Y-listinn í Kópavogi getur verið stolt af þessu. Hrósa þeim fyrir að standa ekki að því að velja lúserinn sem bæjarstjóra.

mbl.is Samrýmist ekki stefnu listans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsögn Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur

Sigrún Björk Jakobsdóttir hefur nú axlað ábyrgð á afhroði Sjálfstæðisflokksins með afsögn sinni sem oddviti og bæjarfulltrúi. Þetta er mikil og stór ákvörðun - hin eina rétta fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hana sjálfa. Með þessu gefur hún grasrótinni í flokknum svigrúm til að stokka sig upp og byggja upp til framtíðar úr þeim brunarústum sem flokksstarfið er nú.

Ég tel að hún eigi heiður skilið fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun fljótt og vel - grunar að hún verði aðeins fyrsti flokksleiðtoginn sem tekur pokann í kjölfar þessara kosninga þar sem fjórflokkurinn fékk algjört kjaftshögg.

Ég vil persónulega þakka Sigrúnu allt hið góða í flokksstarfinu á síðustu átta árum og þakka henni fyrir að stíga fyrsta skrefið í endurreisn flokksins... hún er sterkari eftir og gefur flokknum sóknarfæri í þröngri stöðu.


mbl.is Sigrún Björk segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjördagur óánægju - söguleg þáttaskil á Akureyri

Vægt til orða tekið urðu þáttaskil í íslenskum stjórnmálum í sveitarstjórnarkosningunum í gær. Þetta var kjördagur óánægjunnar og pólitískra umskipta - pólitískur jarðskjálfti. Fjórflokkurinn fékk vænt kjaftshögg - enginn þeirra er sigurvegari að þessu sinni, þeir eru allir ósáttir með einum eða öðrum hætti og ósáttir við útkomuna, þó vissulega leynist einhverjir sigurvegarar í flokkskjarnanum á landsvísu. Í heildina fá flokkarnir þó allhressandi kalda vatnsgusu, sem þeir verða að taka mark á og vinna í að breyta hlutunum. Fólkið í landinu er fúlt og óánægt.

Hér á Akureyri urðu einhver mestu pólitísk þáttaskil í manna minnum þar sem grasrótarframboð Odds Helga Halldórssonar náði hreinum meirihluta, pólitískt afrek sem ég taldi að engum myndi takast satt best að segja. Kjósendur á Akureyri létu hug sinn í ljós: höfnuðu öllum hefðbundnu stjórnmálaflokkunum og sendu skýr skilaboð. Þeir hafa fengið nóg af hinni gamaldags pólitík. L-listinn skrifar nýjan kafla í stjórnmálasögu Akureyrar og landsins alls með framgöngu sinni.

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri galt sögulegt afhroð: fékk á kjaftinn í orðsins fyllstu merkingu. Ég er mjög ósáttur við útkomuna en enn ósáttari yfir því að við hefðum getað komið í veg fyrir þetta mikla afhroð með betri vinnubrögðum á síðustu árum. Mikil og víðtæk mistök hafa átt sér stað á vakt Sjálfstæðisflokksins hér á síðustu árum. Við áttum að skynja betur óánægjuna með miðbæjarskipulagið og síkið í miðbænum, bæjarstjóraklúðrið og tækla mál Sigrúnar betur.

Þetta er samt fortíð sem ekki skiptir máli að hugleiða. Við verðum að virða vilja kjósenda og læra eitthvað af honum. Þetta eru skilaboð sem við getum ekki hunsað og verðum að taka fullt mark á og sýna auðmýkt fyrir verkefninu framundan. Það þarf að taka til og við sjálfstæðismenn á Akureyri í grasrótinni verðum að skynja þau skilaboð umfram aðra.

Ekki þýðir að tala um afhroð hinna flokkanna, við verðum sjálf að taka þetta til okkar og byrja okkar grunnvinnu strax. Í þeim efnum verða hagsmunir einstaklinga að víkja fyrir hag heildarinnar.

mbl.is Ræddu við Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsögn Steinunnar Valdísar - pressan eykst

Afsögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur af þingi ætti varla að vera stórtíðindi... um nokkurra vikna skeið hefur verið ljóst að pólitískum ferli hennar væri lokið vegna styrkjamálsins og staða hennar innan Samfylkingarinnar væri svo til vonlaus. Forysta flokksins í borg og á þingi sneri við henni baki og setti pressu á hana, svo hún yrði fallkandidat flokksins í hrunkaflanum ásamt Björgvini G, sem greinilegt er að fórna á líka til að bjarga öðrum forystumönnum flokksins sem reyna að verjast falli.

Með afsögn sinni eykur Steinunn Valdís pressuna á aðra sem hafa verið í sviðsljósinu eftir hrunskýrsluna og styrkjaumræðuna. Afsögnin magnar ófriðarbálið gagnvart öðrum sem hafa staðið veikt og hafa misst stuðning og styrk innan flokka sinna. Eflaust hefur Steinunn metið stöðuna vonlausa. Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Reykjavík sem eiga mjög undir högg að sækja höfðu beinlínis óskað eftir afsögninni með þöglum stuðningi flokksforystunnar.

En styrkjamálum lýkur ekki með afsögn Steinunnar Valdísar. Hún eykur hinsvegar enn frekar kröfuna um uppgjör eftir hrun og þeir sem veikast standa axli sína ábyrgð. Er það vel.

mbl.is Steinunn Valdís segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu lengi mun brandarinn endast hjá Jóni?

Jón Gnarr gerir góðlátlegt grín að stöðu Reykjavíkurborgar og velgengni sinni í skoðanakönnunum í viðtölum kvöldsins. Spurt er, hversu lengi mun þessi brandari endast hjá Besta flokknum? Varla er það raunhæft að hlæja sig út úr kreppunni - takast á við erfið viðfangsefni með því að snúa því upp í brandara, þó vissulega sé það skemmtilegt um stundarsakir.

Ansi margir hafa ekki gert sér grein fyrir því að atkvæðið er til fjögurra ára, ekki verður tjaldað til einnar nætur með Besta flokknum komist hann til valda. Allir heimsins brandarar verða súrir og hversdagslegir þegar til alvörunnar kemur.

En kannski verður brandarinn nógu traustur til að lifa af lokaviku kosningabaráttunnar... varla verður það langvinn gleði þegar á hólminn kemur.

mbl.is Jón Gnarr: „Ég er stoltur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging fjórflokksins í Reykjavík

Flest bendir til þess að grínframboðið Besti flokkurinn sé að komast til valda í Reykjavík og Jón Gnarr verði næsti borgarstjóri. Fari svo verður það skipbrot fjórflokksins, hin mikla niðurlæging þar sem allir hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar eru rassskelltir - refsað fyrir léleg vinnubrögð í aðdraganda og eftirmála hrunsins.

Þetta er líka visst uppgjör við ítalska ástandið í borgarmálunum meginhluta kjörtímabilsins, þar sem valdagræðgi og stólaplott réði för. Skilaboðin eru alveg skýr. Fólk vill uppstokkun á hefðbundnum flokkalínum - þar er engum treyst en öllum refsað. Við sjáum þess dæmi líka hér á Akureyri.

Þetta verða sennilegar kosningar uppstokkunar - nýrra pólitískra tíðinda. Nýtt pólitískt landslag er að myndast. En sennilega ætlar fólk að hlæja sig út úr kreppunni.

Er nema von að spurt sé... hvenær verður brandarinn uppþornaður? Varla mun hann endast í heil fjögur ár. Hvað tekur þá við? Ráðleysi eða meiri hlátur?

mbl.is Besti flokkurinn með 8 fulltrúa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískur jarðskjálfti á Akureyri

Verði könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 á Akureyri að veruleika stefnir í pólitísk þáttaskil á Akureyri í kosningunum í næstu viku, þar sem ný framboð taka yfir stjórn Akureyrarbæjar og gömlu stóru flokkarnir sem hafa ráðið lögum og lofum er ýtt til hliðar. Aldrei hefur verið myndaður meirihluti þar án þess að gömlu fjórflokkarnir hafi ráðið lögum og lofum. Íhaldsemin hefur verið þar allsráðandi - lítið um drastískar breytingar og uppstokkun, þó vissulega hafi innbyrðis sveiflur orðið allnokkrar.

Staða Sjálfstæðisflokksins er skelfileg í þessari skoðanakönnun - algjört afhroð í kortunum. Eftir tólf ára meirihlutasetu og erfiðleika í aðdraganda kosninganna þar sem varð klofningur mátti jafnvel búast við miklu fylgistapi. Þar spilar líka inn í kaupmáli leiðtoga Sjálfstæðisflokksins og eiginmanns hennar, sem hafði mikil áhrif á umræðuna í bænum, þó meira hafi verið deilt um viðbrögð hennar en nokkru sinni kaupmálann beint.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið sterkt afl í bæjarmálunum á Akureyri, annað hvort leitt minnihluta eða meirihluta af krafti. Hann hefur þó tekið sínar dýfur og misst stuðning bæjarbúa. Árið 1942 varð klofningur innan Sjálfstæðisflokksins og hlaut hann þá aðeins tvo bæjarfulltrúa. Það var sögulegt lágmark í fylgi við flokkinn hér í bænum. Hann mælist nú með minna fylgi en þá og stefnir í vonda útkomu.

Verði úrslitin á þessa leið er alveg ljóst að krafan er um uppstokkun, það er alveg á tæru. L-listinn hefur nú aðeins einn bæjarfulltrúa. Muni Oddur Helgi Halldórsson ná kjöri úr þriðja sætinu er hann sigurvegari kosninganna. Hann lagði mikið undir og virðist hafa spilað rétt. Hann virðist með pálmann í höndunum. Framsókn nær ekki því flugi sem að var stefnt. Skipbrot fjórflokksins er algjört.

Þessum meirihluta verður augljóslega hafnað í kosningunum í næstu viku. Tölurnar eru svo afgerandi að því verður ekki neitað - staðreyndin varla umflúin. Það verður eflaust uppgjör við bæjarstjórakapalinn, skipulagsmálin og fleiri umdeild mál þar sem sótt hefur verið að ráðandi öflum.

Við megum búast við pólitískum jarðskjálfa hér í næstu viku fari kosningar á þessa leið, þar sem íhaldsemin víkur fyrir breytingum.

mbl.is Meirihlutinn fallinn á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalokin hjá Jóni Ásgeiri

Engum dylst að stefna skilanefndar Glitnis er sem myllusteinn um hálsinn á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og markar endalokin á viðskiptaferli hans. Erfitt verður fyrir hann að verjast þeim atriðum sem vikið er að honum, enda er hann þegar byrjaður í útúrsnúningi og rangfærslum.

Pínlegt er að kenna Davíð Oddssyni um hvernig komið er. Þessi tugga er orðin svo þreytt að hún missir marks, meira að segja þeir sem hafa dekstrað Jón Ásgeir eru hættir að taka undir, vilja ekki bera þennan spuna á torg..

Eftir standa staðreyndir málsins og væri heiðarlegra fyrir Jón Ásgeir að horfast í augu við ábyrgð sína og verk í viðskiptalífinu og sýna iðrun. Staðreyndirnar munu allar verða lýðum ljósar í þessu máli.

mbl.is Jón Ásgeir í The Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna reynir að sparka Jóni úr ríkisstjórn

Súrrealískt er að fylgjast með vinstristjórninni lánlausu og framgöngu veruleikafirrta forsætisráðherrans. Ekki er nóg með að hún hafi logið að þingi og þjóð um launakjör Más Guðmundssonar, heldur ætlar hún nú að sparka á dyr öðrum ráðherranum úr röðum vinstri grænna: ekki var næg lexía að henda Ögmundi Jónassyni úr stjórninni með einstrengingslegum vinnubrögðum heldur á að taka Jón Bjarnason nú fyrir.

Samfylkingin vill koma í veg fyrir að andstæðingur ESB-aðildar stýri landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum í aðildarferlinu, sem er reyndar dauðvona, enda styður þjóðin ekki ESB-brölt Samfylkingarinnar. Þar vilja þeir fá auðsveipan ESB-fulltrúa við borðið.

Nú reynir á Steingrím J. Kyngir hann öllu fyrir völdin eða er eitthvað bein í nefinu á honum? Eða er hann bara auðmjúkur farþegi í hringekju Jóhönnu og Samfylkingarinnar? Valdasjúkur eða með snefil af hugsjónum?

mbl.is Aukafundur í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreiðar Már fer á Litla Hraun

Ég skynja mikinn létti í samfélaginu með handtökurnar og gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir Hreiðari og Magnúsi. Skilaboðin eru skýr. Tekið verður á þeim sem brugðust trausti og voru lykilmenn í bönkunum sem hverja aðra afbrotamenn. Enda eðlilegt.

Nú fara Hreiðar Már og Magnús á Litla Hraun. Þetta er ekkert smá fall, fyrir tæpum tveimur árum var Hreiðar hæst launaði maður landsins, vegna þess að hann bar svo mikla ábyrgð í störfum sínum.

Þetta eru mikil tíðindi og eflaust mörgum órótt sem tengjast bönkum fyrir hrun.


mbl.is Kaupþingsmenn í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband