Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er svona illa komið fyrir Íslendingum núna?

Leitt er að heyra hvernig komið sé fram við Íslendinga í Danmörku, ef marka má ýmsar sögur sem heyrst hafa að undanförnu. Ég hef heyrt ansi margar sögur í þessa átt, að íslensku fólki hafi verið sýnd hrein lítilsvirðing þegar í ljós hafi komið hvaðan það kom. Þetta er mikið þjóðaráfall vissulega, enda hafa Íslendingar getað borið höfuðið hátt á alþjóðavettvangi og haft mikil tækifæri. Í einu vetfangi virðist það hafa breyst.

Þeir sem ég hef talað við og eru erlendis, einkum í Bretlandi, segjast hafa misst sjálfsvirðinguna yfir að vera Íslendingar. Ég skil það mjög vel ef þetta er framkoman sem landar okkar verða fyrir á erlendri grundu. Ég hef eiginlega ekki viljað trúa því að Danir, frændur okkur, komi svona fram við okkur, en kannski þarf maður að fara að endurskoða það mat.


mbl.is Rekin úr búð í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fín úttekt á íslenskum sjónarmiðum hjá BBC

Grein Ingibjargar Þórðardóttur um kulnandi samskipti Íslands og Bretlands er mjög góð - fínt fyrir Íslendinga að eiga einhvern innlendan blaðamann hjá BBC við þessar aðstæður. Nógu margir Bretar hafa hallmælt okkur og snúið baki við Íslendingum. Sjálfsvirðing Íslendinga í Bretlandi er ekki mikil núna. Hef heyrt í nógu mörgum sem segja sömu sögu um það. Allt hefur breyst á skömmum tíma. En þess þá mikilvægara er að breska pressan endurspegli eitthvað af því sem við segjum hér heima og við fáum okkar sjónarhorn þar inn. Mikið hefur vantað á það.

Reyndar finnst mér sífellt fleiri hafa áttað sig á því hvað þetta var ódýrt en lúalegt bragð hjá Gordon Brown. Mikið væri nú gaman að vita hvort ráðherrarnir þrír hjá Samfylkingunni sem eru víst í Verkamannaflokknum; Össur, Björgvin og Ingibjörg Sólrún, séu enn í flokknum eftir atburði síðustu dagana. Nógu oft hafa Össur og Björgvin gortað sig af tengslunum þar inn. Ekki hafa þau vigtað þungt þegar Brown og Darling eru annars vegar.

Fannst gaman að sjá að vitnað er beint í bloggið mitt í skrifum Ingibjargar og þar tekin fyrir skrif mín um samskipti Íslands og Bretlands. Gott að vita til þess að orðin manns eigi leið í bresku pressuna.

mbl.is Íslensk sjónarmið skýrð á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt upp á borðið

Gott skref hjá Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, að fela ríkissaksóknara að rannsaka bankamálið frá a-ö. Allt verður að fá upp á borðið. Þjóðin verður ekki sátt fyrr en allir endar þessa máls hafa verið kannaðir til enda.

mbl.is Allt verður rannsakað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið um stórar fréttir - mikilvæg hvítbók

Fátt kom nýtt fram á blaðamannafundinum með forsætisráðherra nema þá að hvítbók verður gerð um bankamálið og allt fengið upp á borðið, jákvætt skref svo sannarlega.

Ekkert nýtt kemur fram um starfslok Tryggva Þórs. Nema þá sú yfirlýsing að þeir hafi orðið sammála um að Tryggvi léti af störfum. Hálfkveðin vísa sem fjölmiðlar hljóta að botna.

mbl.is Breiður hópur virkjaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf úr HR

Fékk merkilegan tölvupóst sem dósent í Háskólanum í Reykjavík sendi um skólann í aðdraganda heimsókna forseta Íslands og bendi á hann hér með. Merkilegar spurningarnar þarna.

"Ég fagna því að Forseti Íslands sé að koma að veita okkur upplýsingar.  Ég hvet alla til að mæta og nýta sér þetta tækifæri.  Leiðtogar þjóðarinnar hafa allir brugðist okkur og það fyrsta sem við þurfum er upplýsingar.

Hér eru t.d. upplýsingar sem ég myndi vilja fá frá forsetanum:

1)      Hvaða fjárhagslega ávinning hefur hann fengið persónulega frá íslenskum auðmönnum, beint og óbeint?  Þar með talið stuðning í kosningabaráttu, ókeypis flugferðir, gistingu, o.s.frv.?

2)      Sama spurning hvað varðar hans nánustu fjölskyldu.  Hvaða hæfileikar aðrir en blóðtengsl réðu því að dætur hans og tengdafólk hefur sitið í stjórnum og yfirmannsstöðum hjá Baugi og öðrum auðmannafyrirtækjum?

3)      Afhverju var aftur svona nauðsynlegt að stöðva lög um eignaraðild auðmanna að fjölmiðlum landsins-af hverju var það verra afsal á valdi en t.d. lög um EES ?

4)      Má ekki fá að kaupa eitt eintak af óútgefinni bókinni um forsetann í óbreyttri útgáfu, þ.a. hægt sé að sjá hvað þar stóð?

Mér finnst þetta vera eðlilegar spurningar, og ég vona að þessi tölvupóstur verði ekki ritskoðaður heldur komist í pósthólf starfsmanna og nemenda.  Er HR ekki háskóli þar sem er opin umræða?

Ef að við þegjum og þolum í hljóði nú, sem fyrr, þá er enginn dugur í okkur Íslendingum. Við þjóðin ættum þá að skammast okkar.  Við verðum að fá sannleikann-og sannleiksferlið verður að vera á annan hátt en í öðrum stórum málum, Baugs, Hafskips, o.s.frv.  Aðeins þannig getum við komist að því hvað gerðist, og komið í veg fyrir að við verðum enn að rífast um "stóra bankahrunsmálið" eftir 50 ár, jafn pikkföst í fákeppninni og eiginhagsmunapólitíkinni og við höfum verið síðustu 50 árin."


Er tíu ára niðursveifla framundan á Íslandi?

Spár um stöðu Íslands eru dökkar á þessari stundu. Enginn mun spá í útrás eða nokkru viðlíka næstu árin eða áratugina. Svo illa er komið fyrir þjóðinni. Þeir sem ég þekki úr stétt hagfræðinga og viðskiptafræðinga eru misjafnlega svartsýnir um framtíð þjóðarinnar. Flestir eru þeir þó mjög svartsýnir og spá þjóðinni ekki góðu á næstu árum. Misjafnlega langt svartsýniskast þjóðarinnar er þó í kortunum að þeirra mati.

Einn þeirra, maður sem ég met mikils og ræði oft viðskiptamál við, hefur spáð því að þetta sé áfall fyrir þjóðina sem taki tíu til tólf ár að vinna sig algjörlega út úr. Fannst spáin mjög dökk og leist ekki vel á, en hann færði góð rök fyrir því að þetta yrði raunin. Sumir eru bjartsýnni og spá þrem til fimm árum ef allt leikur í lyndi fyrir þjóðina úr því sem komið er.

mbl.is Spáir 75% verðbólgu á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivextir lækkaðir

Loksins hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti. Almenn krafa var um það meðal landsmanna að þetta skref yrði stigið og kominn tími til þess, einkum eftir atburði síðustu daga. Þetta er mikilvægt skref til að koma þjóðarbúinu aftur af stað við mjög erfiðar aðstæður. Vextirnir hafa sligað almenning að svo mörgu leyti og afleitt að þeir verði áfram í þeim hæðum sem þeir hafa verið.

mbl.is Stýrivextir lækkaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslan undir stólnum - tálsýn umfram veruleika

Mér finnst það stóralvarlegt mál sé það rétt sem fullyrt er í fréttum að bankaskýrslu bresku hagfræðinganna hafi verið stungið undir stól, bæði til að koma í veg fyrir að það sem þar kæmi fram yrði gert opinbert og til að slá niður tálsýnina sem reynt var að halda uppi í erfiðri stöðu undir niðri. Mikilvægt hefði verið að sannleikurinn eða spá hagfræðinganna hefði orðið opinber þá þegar. Nógu oft höfum við látið blaðra einhverri þvælu í okkur án þess að fá að vita hið sanna. Tálsýnin lifði nógu lengi.

Mikilvægt er að fram komi hver stakk skýrslunni undir stól og hver tók þá ákvörðun að við ættum frekar að líta framhjá ráðleggingum hagfræðinganna en horfast í augu við álit þeirra og stöðuna í hnotskurn. Flest það sem hagfræðingarnir sögðu hefur ræst með hörmulegum afleiðingum fyrir þjóðina, sem þarf að fóta sig aftur eftir þungan skell.

Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og mikilvægt að upplýsa helstu þætti þessa máls. Þjóðin er í þannig skapi núna að það verður að tala hreint út um þessa skýrslu og hvernig það fór að frekar var horfst í augu við tálsýnina en veruleikann.

mbl.is Bankaskýrsla undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför Bretanna að Íslendingum

Ég er ánægður með greinaskrif Eiríks Bergmanns Einarssonar um bresk stjórnvöld og aðför þeirra að íslenskum hagsmunum. Hann fer þar af yfirvegun og yfirsýn yfir málið og kemur með góða greiningu á stöðunni og því sem Íslendingar eiga að gera vegna málsins. Auðvitað var þjóðin órétti beitt og ráðist að henni með ógeðfelldum hætti og beitt lögum sem eru í raun stríðsyfirlýsing á milli þjóða. Þeim hefði hið minnsta ekki átt að beita við þessar aðstæður.

Skrifin hafa vakið athygli og mikið um þau fjallað. Annars hef ég mikið heyrt í breskum vinum mínum síðustu dagana þar sem æ fleiri hafa áttað sig á því hvers vegna Gordon Brown greip til þessara aðgerða í fylgisleysi og pólitískri krísu sinni. Hann var þar aðeins að reyna að upphefja sjálfan sig á örlagastundu íslensku þjóðarinnar.

mbl.is Fjögur hundruð bloggfærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð stjórnenda Landsbankans

Mörgum spurningum er sannarlega enn ósvarað varðandi ábyrgð þeirra sem stjórnuðu bönkunum. Ég er sammála þeim þingmönnum sem hafa í dag vakið athygli á og spurt út í siðferðislega, refsiréttarlega og rekstrarlega ábyrgð stjórnenda Landsbankans vegna skuldbindinga í kjölfar þess sem kom frá Fjármálaeftirlitinu. Þetta þarf að fara vel yfir og gera upp við hvert smáatriði. Þjóðin mun ekki sætta sig við neitt annað en þetta fari sína leið.

Ég er samt sérlega ósáttur við að innri endurskoðun málanna heyri undir þá sem tóku þátt í öllu starfi bankanna, því sem helst er deilt um í stöðunni. Slíkt er með öllu óviðunandi og verður að taka á því sem fyrst.

mbl.is Verða að svara til saka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband