Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Listin að hengja bakara fyrir smið

Mér finnst það mjög ódýrt að ætla að kenna Davíð Oddssyni einum um það hvernig komið er fyrir þjóðinni. Þessi mótmæli í Reykjavík, sem vel innan við þúsund manns tóku þátt í, finnst mér hvorki málefnaleg né sanngjörn. Enda er það fjarstæða að persónugera stöðuna í einni persónu. Þetta er því miður bara pólitísk mótmæli þeirra sem hafa verið á móti Davíð árum saman. Hefðu þetta verið eðlileg mótmæli hefði þeim verið beint að öllum bankastjórunum þremur. Þeir bera allir jafnmikla ábyrgð og undarlegt að velja einn úr.

Þeir sem þarna mættu hljóta um leið að vilja ríkisstjórnina burt. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra bera ekkert minni ábyrgð en Seðlabankinn ef gera á þetta fólk á sökudólgum í þessari stöðu. Eigi bankastjórnin að fara er eðlilegast að ríkisstjórnin öll segi af sér, enda hefur fátt viturlegt komið frá henni síðustu mánuði. Og reyndar er hún mjög veikluleg og virðist ekki sterk í baráttunni við vandann. Og kannski er bara ekkert hægt að gera. Þetta er ekki bara íslenskur vandi sem barist er við.

En mótmælin í dag virðast beind að einum manni. Enn og aftur á að hengja bakara fyrir smið í þessu samfélagi. Eigi einhver að axla ábyrgð er það fjöldi fólks en ekki einn maður. Svo er merkilegt hvað fjárglæframennirnir í útrásinni sleppa billega. Af hverju mótmælir þetta fólk ekki þeim sem gömbluðu með fé almennings í einu allsherjar spilavíti?


mbl.is Mótmæla Davíð Oddssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður þáttur hjá Spaugstofunni

Ég má til með að hrósa Spaugstofunni fyrir frábæran þátt í kvöld. Úttekt þeirra á stöðu Íslands undir yfirskriftinni Icetanic var alveg frábær. Uppsetningin og umgjörðin virkilega góð og brandararnir ansi góðir, sérstaklega hvað varðaði auðmennina sem voru að spila með peninga alþýðunnar. Kaldhæðið grín allavega.

Spaugstofan hefur jafnan verið best í stuttum þáttum með heilsteyptum brag um eitt lykilmál í kastljósi fjölmiðlanna - þáttur unninn í hraða stórmálanna. Ég hef stundum gagnrýnt Spaugstofuna þegar ég hef verið ósáttur við þá en hrósa þeim núna.

Leitin að þeim sem felldi íslensku bankana

Að fáum er leitað meira að þessa dagana en þeim sem felldu íslensku bankana. Umfjöllun Agnesar Bragadóttur er vönduð og vel gerð og áhugavert lesefni. Þar virðist sjónum einkum beint að erlendu seðlabönkunum. Mér finnst það alvarlegt mál og eiginlega sorglegt hversu samhentir erlendu bankarnir voru allt frá upphafi að stöðva okkur af hér. Svo er augljóst að íhlutun breskra stjórnvalda var á við hryðjuverk gegn Íslandi, aðgerð sett fram til að knésetja stærsta banka landsins og um leið leggja orðspor landsins í rúst.

Mér finnst það algjör brandari að það sé virkilega uppi á borðinu að Bretar sinni vörnum landsins að einhverju leyti. Mér fannst yfirlýsing Össurar Skarphéðinssonar, starfandi utanríkisráðherra, í gær mjög góð og súmmera upp stöðuna. Við viljum ekki sjá Breta hér við að sinna einhverjum vörnum fyrir landið. Þeir geta verið heima hjá sér. Auðvitað er það bara absúrd að þeir komi hingað eftir það sem á undan er gengið og hafi sér eins og þetta hafi bara aldrei gerst. Fráleitt.

En ég mæli með umfjöllun Agnesar. Áhugavert lesefni.

mbl.is Þeir felldu bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetahjónin reyna að laga ímynd sína

Vel hefur sést síðustu dagana að Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff eru að reyna að fóta sig aftur í breyttum aðstæðum. Þau voru mest áberandi sendiherrahjón útrásarinnar, allt að því sameiningartákn hennar, og eru komin í aðrar aðstæður og reyna að ná til þjóðarinnar aftur; Ólafur Ragnar með því að tala við fólk á vinnustöðum og í stofnunum og Dorrit með því að tala beint við þjóðina og það um lopapeysur, eins virðingarvert og þetta telst er hróplega áberandi hvað aðstæður hafa breyst á Bessastöðum.

Vel sést á öllum aðstæðum að þetta er síðasta kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum. Hann er með þessu verklagi að reyna að verja arfleifð sína. Ef hann missir tiltrú þjóðarinnar eftir að hafa veðjað á ranga hesta í útrásinni verður hann ávallt tengdur henni og talinn einn misheppnaðasti boðberi hennar, hvað svo sem annað gott hann hefur mögulega gert. Fjölmiðlamenn hafa tekið viðtöl við forsetann og allir spyrja um útrásina, enda var forsetinn svo framarlega við að tala fyrir henni.

Ekki er bæði sleppt og haldið - ekki er bæði hægt að upphefja eitthvað og tala það svo niður. Þetts sést á forsetanum sem gleymdi rótum sínum og karakter í útrásinni og blindaðist af tímabundinni velgengni, varð einn af þotuliðinu. Væntanlega ræðst það á næstunni hvort forsetans verði frekar minnst sem sameiningartákns útrásarinnar og auðmannanna eða almennings í þessu landi.

mbl.is Dorrit bjartsýn á framtíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurrausnir sjóðir framtíðarinnar

Þær eru ljótar sögurnar af því hvernig bankamennirnir spiluðu með fólk sem átti ævisparnað sinn í sjóðum sínum til að reyna að upphefja sjálfa sig og koma í veg fyrir að vitað væri hversu illa væri komið. Ég hef heyrt margar sögurnar af því þar sem fólk gerði tilraun til að taka út en var "ráðlagt" að gera ekkert, enda væri bankinn nú svo traustur. Einn sagði við manneskju sem ég þekkti að það gæti aldrei gerst að Landsbankinn færi á hausinn. Hann hefði svo gott lánstraust erlendis og væri traustur sem klettur.

Þetta er lúalegt og ómerkilegt. Mér finnst eitt að logið var að þjóðinni í marga mánuði að allt væri í góðu lagi, en að bankastofnanir ljúgi blákalt að eldra fólki og traustum viðskiptavinum áratugum saman er ómerkilegt og skapar ekki traust á þeirri stofnun hversu gömul sem hún annars er. Svo koma bankastjórnar Landsbankans fram núna og ætla að reyna að kaupa tiltrú þjóðarinnar með fagurgalakjaftæði og tala fólk til.

Svei þessu fólki öllu saman.

mbl.is „Það er búið að þurrausa sjóðinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðmýkjandi ósigur í New York

Niðurstaða öryggisráðskosningarinnar í New York er mikið og auðmýkjandi áfall fyrir Ísland. Eftir langa baráttu um sætið voru þetta vandræðaleg endalok, enda höfðu svo margar þjóðir lofað stuðningi en svikið það. Ég er þó einn þeirra sem spáði því þegar árið 2002 að þetta væri vonlaus barátta, þó vissulega væri það kannski stundargaman að ná sætinu. Held að þetta hafi verið pólitískir hugarórar og framapot nokkurra stjórnmálamanna umfram allt, einskonar gæluverkefni því miður.

Mjög freistandi er að grípa í það hálmstrá að kenna erfiðleikum Íslands einum um þetta tap. Ég tel hinsvegar að það eitt hafi ekki ráðið úrslitum. Þetta var allt frá upphafi risavaxið verkefni og jafnvel einum of stórt fyrir litla þjóð í norðri, einkum í baráttu við Austurríki og Tyrkland, sem fyrirfram höfðu alla tíð mun sterkari stöðu og voru nær örugg um að ná á leiðarenda. Því er það lélegt hjá utanríkisráðherranum og fleirum að kenna tímabundinni stöðu einni um þetta afhroð.

Auðvitað hefði verið skemmtilegra að tapa undir öðrum formerkjum; Ísland hefði fengið yfir 100 atkvæði og getað farið frá þessu keik. En það varð ekki. Fannst samt leiðinleg lumman í kvöld um að við hefðum nú lært svo mikið á þessu og við ættum svo marga bandamenn. Erfitt að segja það eftir svo auðmýkjandi tap. Þetta var burst og það sem verst er að svo margir höfðu varað við því að svona myndi fara.

mbl.is Segja Ísland hafi orðið fyrir auðmýkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland átti aldrei séns á að komast í öryggisráðið

Ég er ekki hissa á því að Ísland náði ekki í öryggisráðið. Ég spáði því í pistli fyrir nokkrum dögum að við ættum engan séns og hefðum aldrei haft hann í baráttu við Tyrki og Austurríkismenn. Hef reyndar spáð því alla tíð. Eina glufan fyrir okkur hefði verið ef þjóðir heimsins hefðu ekki viljað kjósa Austurríki vegna sterkrar stöðu hægri öfgamanna í þingkosningum nýlega og vegna þess að Austurríkismaðurinn Kurt Waldheim hafði verið framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og aðrar þjóðir ættu skilið tækifæri.

Ég leit alltaf á þetta framboð sem bruðl og óráðsíu. Ekki var farið í framboðið með afgerandi markmið eða traustar lykiláherslur. Fannst þetta alltaf vera pólitískt gæluverkefni í utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Sjálfstæðismenn leyfðu þessu að gerast án þess að leggja málinu í raun aldrei lið með traustum hætti. Meiri áhersla var lögð á framboðið í utanríkisráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur og Ingibjargar Sólrún en Davíðs og Geirs.

Fyrst skrifaði ég greinar gegn þessu framboði árið 2002. Þegar ég var í stjórn SUS lögðum við mikla áherslu á andstöðuna við framboðið á sambands- og málefnaþingum okkar og í starfinu í utanríkis- og alþjóðanefnd SUS. Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, var traustasti baráttumaðurinn gegn framboðinu og var ekki að spara stóru orðin þegar framboðið var naglfest endanlega árið 2005. Hann spáði því alla tíð að við ættum engan séns.

Kannski er oft gott að vera vitur eftir á. Ég held að þetta framboð hafi alltaf verið mikil mistök. Við eyddum dýrmætum tíma í að spá í tengsl við fjarlægar þjóðir á meðan þjóðin okkar átti í erfiðleikum. Vonandi fer hinn dýrmæti tími framundan meira í að hugsa um landsmenn en íbúa fjarlægra þjóða. Við eigum alveg nóg með okkur hér.


mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gortað sig af ríkidæminu á erlendri grund

Á sama tíma og allt er í rjúkandi rúst á Íslandi er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að gorta sig af snekkju þeirra hjónanna. Þetta er svo yfirgengilega sjúkt að því henta engin orð. Þvílíkur ósómi. Þetta lið kann ekki einu sinni að skammast sín.

Og svo er Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, að kaupa sér glæsivillu fjarri Íslandsströndum og Hannes Smárason sómir sér vel í Lundunum, sennilega einn fárra Íslendinga sem getur lifað virkilega hátt þar þessa dagana.

Ekki nema von að almenningur í þessu landi sé búinn að fá nóg af þessu þotuliði sem brotlenti og kom Íslendingum öllum á kaldan klakann í orðsins fyllstu.

Kastljósið gerði vel upp við hina dýrkeyptu útrás í flottri samantekt í kvöld. Hún var sannarlega byggð á sandi.

mbl.is Ingibjörg hannaði lystisnekkjuna 101
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víðtæk dópframleiðsla í skjóli reynslulausnar

Mér finnst eðlilegt að því sé velt fyrir sér hvernig það geti gerst að tveir menn standi í víðtækri framleiðslu á eiturlyfjum á meðan þeir eru í reynslulausn og fjarri því búnir að afplána sína dóma. Þetta er auðvitað hreinn skandall og hlýtur að opna umræðu um slík mál. Fyrir mestu er að tókst að koma upp um þessa starfsemi en aðrar stórar spurningar vakna í kjölfarið.

Höfuðpaurinn, Jónas Ingi Ragnarsson, er einn af höfuðpaurunum í líkfundarmálinu; þeim sem fóru austur á land fyrir tæpum fimm árum með lík Vaidas Jucivicius sem varpað var svo í höfnina á Norðfirði. Vaidas hafði verið burðardýr en gat ekki komið dópinu frá sér og lést í kjölfarið. Jónas Ingi hélt því fram þá að hann hefði ekki vitað á austurleiðinni að lík væri í bílnum.

Seint verður sagt að þarna hafi átt að framleiða dóp í litlu mæli og erfitt verður fyrir málsaðila að komast auðveldlega frá þessu, þó á reynslulausn hafi verið.


mbl.is Höfuðpaurar á reynslulausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dópuppgjör hjá lögreglunni

Gott að lögreglan vinnur sitt verk vel og kemur upp um svona stórtæka dópútgerð. Þetta sýnir okkur mjög vel hversu dópvandinn er mikill sem við er að eiga. Eitt sinn var talað um fíkniefnalaust Ísland árið 2000. Þvílíkar skýjaborgir. En við vonum öll að svona stór aðgerð geri eitthvað til að minnka vandann. Hvert skref skiptir máli.

mbl.is Á sér ekki hliðstæðu hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband