Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Íslendingahatur Breta stimplað á boli

Bretar láta ekkert tækifæri renna sér úr greipum við að niðurlægja íslensku þjóðina og tala niður til hennar í vanda sínum. Þessi bolur er kannski fyndinn í augum einhverra en hann er því miður bara eitt dæmið um beina atlögu að íslensku þjóðinni og hagsmunum hennar. Enda tel ég að samskipti þjóðanna séu fyrir bí um langt skeið, hvað sem líður öllu hinu góða sem gert var frá því þorskastríðunum lauk á áttunda áratugnum.

Svo er að sjá í nokkrum skoðanakönnunum í Bretlandi að durturinn Gordon Brown hafi styrkst í sessi við að ráðast gegn Íslandi með hryðjuverkalögum. Sumir tala reyndar um að Ísland verði Falklandseyjar Browns, færi honum sigur í þingkosningum og pólitískan stöðugleika að nýju. Vonandi tekst að koma í veg fyrir það að þessi tækifærissinni gangi frá hagsmunum Íslands til að upphefja sjálfan sig.

mbl.is Bolir gegn Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðspor Landsbankans og Al-Qaeda hið sama

Hverjum hefði órað fyrir því fyrir nokkrum árum að Landsbanki Íslands yrði settur við hlið hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda í erlendum skjölum yfir stofnanir sem Bretar eiga sökótt við eða hafa dottið út af sakramentinu þar. Þetta eru ótrúleg endalok á hinni voldugu útrás sem lofsungin var eins og heilög ritning fyrir nokkrum árum. Öll þjóðin var með glýjuna í augunum fyrir útrásinni en hún vaknar nú upp við vonda martröð. Veislunni er lokið og íslenska þjóðin hefur verið sett á hliðina af útrásarvíkingunum.

Elsti banki landsins, sem flestir töldu að gæti ekki farið á hausinn, væri jafn traust undirstaða samfélagsins og þjóðkirkjan, er rúinn trausti og flokkaður eins og hópur óreiðumanna eða hermdarverkamanna á erlendri grund. Þvílík endalok. Þegar ég var eitt sinn í viðskiptum við Landsbankann var þannig talað um bankann eins og hann væri heilagur - þar væri allt svo einstakt og ekkert gæti nokkru sinni farið úrskeiðis. Nú hafa eigendur bankans hlotið sömu eftirmæli og orðspor og Bin Laden. 

Vonandi læra einhverjir á þessum óförum öllum. Auðvitað er það rétt að Bretar komu illa fram og ekkert réttlætir þessa meðferð á íslenskri þjóð. Bretland á vonandi eftir að fá finna fyrir því, þó síðar verði, að beita hryðjuverkalöggjöf gegn vestrænni þjóð. Þetta mál á heima hjá Nató. Hitt er svo annað mál að orðspor þjóðarinnar er farið í gambli þeirra sem héldu utan um alla sjóðina í krosstengslunum. Þetta eru endalok sem þjóðin mun ekki gleyma og krafan er að þetta verði tekið alla leið.

Vil annars hrósa umsjónarmönnum Kompáss fyrir vandaða og trausta umfjöllun í kvöld. Fínn þáttur, sem tók af skynsemi á málunum og sagði söguna frá þeim hliðum sem mestu máli skipta, burtséð frá eignarhaldinu á stöðinni.


mbl.is Landsbanki í slæmum félagsskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frönsk ástamál skekja Alþjóða gjaldeyrissjóðinn

Á sama tíma og íslenska ríkisstjórnin er í viðræðum við IMF er alveg kostulegt að lesa um stjórnunarhætti franska sósíalistans Dominique Strauss-Khan hjá sjóðnum og ástarsamband hans við starfsstúlku þar, sem hefur greinilega notið sambandsins í botn og verið hyglað sérstaklega af ástmanni sínum. Veit ekki hvort þetta hefði verið svona umtalað í Frakklandi, þar sem ástarsambönd af þessu tagi eru frekar algeng, en það er ekki vel séð í Bandaríkjunum.

Strauss-Khan hefur reyndar lengi verið umdeildur og áberandi í pólitísku starfi. Hann var lykilmaður á valdaferli Francois Mitterrand og Lionel Jospin en hlaut skell í baráttu við Segolene Royal um útnefningu sósíalista í forsetakosningunum 2007, þegar fyrri valdhöfum sósíalista var hafnað á einu bretti fyrir nýjabrumið þó án þess að Royal kæmist í Elysée-höll. Mörgum að óvörum útnefndi Sarkozy hann í IMF eftir að hafa sigrað Royal - Strauss-Khan fékk embættið með breiðum stuðningi.

Ætli það sé ekki frekar líklegt að Strauss-Khan verði sparkað úr IMF í kjölfar þessara uppljóstrana. Hann getur þá haft það rólegt og slappað af með ástkonunni sinni. Vonandi tekst IMF að hreinsa til innandyra á sömu stund og þeir ætla að taka til fyrir Ísland.

mbl.is Strauss-Kahn biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðrik áfram í LV - skynsamleg ákvörðun

Mér finnst það mjög skynsamleg ákvörðun að framlengja ráðningarsamning við Friðrik Sophusson, forstjóra Landsvirkjunar, og tel að það sé farsæl lausn á þeim tímum sem nú eru. Hann hefur jafnan notið mikils trausts í þessu starfi og er traustur valkostur.

Eitt hefur mér þó mislíkað mjög í þessum forstjóramálum hjá Landsvirkjun; að listi yfir umsækjendurna 55 hafi ekki verið birtur opinberlega. Mikilvægt er að þessi mál sé uppi á borðinu en ekki í felum einhversstaðar bakvið tjöldin.

Vel má vera að einhverjir peningamenn tengdir útrásinni eða bönkunum hafi sótt um og ekki hafi verið rétt að ráða einn slíkan. Eftir stendur þó að framlenging á ráðningarsamningi Friðriks eru góð tíðindi við þessar aðstæður.

mbl.is Ekki það sem ég stefndi að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu dagarnir í Bónus áður en græðgin tók völd

jajjj
Ekki hafa mörg tækifæri gefist til að gera grín að kreppunni sem þjóðin er komin í. En ég hló mjög að myndinni af feðgunum Jóni Ásgeiri og Jóhannesi í Bónus sem sýnir þá í upphafi frægðarferilsins. Stóra spurningin hlýtur að vera; hvar varð þessum mönnum á - hvar var farið út af sporinu? Þeir hefðu betur haldið fast við þessar lífsreglur sínar í bissness í upphafi frægðardaganna.

Svei mér þá ef þessi mynd súmmerar ekki upp stöðuna sem blasir við þeim feðgum. Hvar væru þeir staddir ef þessar fornu lífsreglur Bónus væru enn í heiðri hafðar hjá þeim persónulega?

Er ríkisstjórnin að falla?

Ekki er hægt annað en velta því fyrir sér eftir fréttaviðtölin við Ráðherrabústaðinn hvort að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sé að falla vegna efnahagsástandsins. Svörin voru mjög loðin eftir fundinn og fátt haldbært. Mér finnst það sífellt augljósara að flokkarnir ná sér ekki saman um aðgerðir og virðast átök þar um þekkt lykilmál vera að sliga ríkisstjórnarsamstarfið. Sumir segja mér reyndar að samstarfið sé komið á endastöð á meðan aðrir halda í vonina að það lifi af.

Ég hef ekki farið leynt með andstöðu mína við aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og ég hef misst töluna á því hvað ég hef skrifað margar greinar um það síðan hún tók við völdum, einkum síðasta hálfa árið. Þar hefði margt betur mátt fara og hvorugur flokkurinn getur bent á hinn sem hinn algjöra sökudólg svosem í því. Þó hefur mér fundist sólóyfirlýsingar þeirra í Samfylkingunni stundum einum of og stundum vantað mikið á trausta verkstjórn.

Ég þekki fjölda sjálfstæðismanna sem munu ekki gráta þetta ríkisstjórnarsamstarf. Hafa verið á móti því alla tíð og gráta ekki hvað svo sem gerist í kjölfarið. Þjóðina vantar nú sterka og samhenta ríkisstjórn sem getur tekið á málum en ekki hálfkák síðustu mánaða. Því myndi ég ekki verða hissa þó að samstarfinu myndi ljúka fyrr en síðar.

mbl.is Engin niðurstaða enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurkoma Ingibjargar Sólrúnar

Miklar tilfinningar voru greinilega á flokksfundi Samfylkingarinnar í dag þar sem Ingibjörg Sólrún átti sér pólitíska endurkomu eftir veikindi sín. Skarð hennar hefur verið mikið fyrir Samfylkinguna og erfitt að sjá hver sé í raun næstráðandi hennar og hverjir standi henni næst að völdum. Fjarvera hennar var mikið áfall fyrir Samfylkinguna og greinilegt að flokkurinn á mikið undir því að hún verði áfram virk í pólitísku starfi.

Ingibjörg Sólrún felldi svila sinn, Össur Skarphéðinsson, af formannsstóli fyrir rúmum þremur árum en hann virðist hafa haldið sterkum sess sínum innan flokksins á meðan Ágúst Ólafur Ágústsson hefur ekki náð traustum pólitískum sess, þrátt fyrir að ná varaformennskunni á sínum tíma. Össur tók stöðu Ingibjargar Sólrúnar sem forysturáðherra Samfylkingarinnar og var greinilega í forystu ákvarðana.

Ágúst Ólafur hefur orðið fyrir mörgum pólitískum áföllum og í raun verið gengisfelldur af samherjum sínum þrisvar eða fjórum sinnum á innan við fjórum árum. Eini alvöru pólitíski sigur hans frá varaformannskjörinu er í raun aðeins einn; þegar honum tókst að ná fjórða sætinu í Reykjavík í prófkjörinu 2006. Þó hann væri varaformaður þurfti hann að berjast við fjölda flokksmanna um sætið en hafði sigur.

Ég hef fundið fyrir því að pólitísk staða Ágústs Ólafs hefur verið mikið feimnismál í viðræðum við samfylkingarmenn. Þrátt fyrir varaformennskuna var honum ekki treyst fyrir ráðherrastól og þurfti að horfa upp á annan ungan mann innan flokksins ná viðskiptaráðuneytinu. Sem hagfræðingur hefði Ágúst Ólafur orðið mun sterkari valkostur í það ráðuneyti en Björgvin G. Sigurðsson en hafði ekki styrk í ráðherrastól.

Fjarvera Ingibjargar Sólrúnar hefur enn og aftur sýnt hversu veik staða Ágústs Ólafs sem varaformanns er í raun. Og í þessari mikilvægu ræðu er Ingibjörg Sólrún snýr aftur eftir sjúkrahúslegu í New York er ekki minnst einu orði á varaformann flokksins. Staða hans er ekki góð.

Veikindi formanns Samfylkingarinnar hafa verið áfall fyrir Samfylkinguna að mörgu leyti. Þar hefur sést hversu mikilvæg Ingibjörg Sólrún er Samfylkingunni og hversu veik staða varaformannsins er.

Ekki er hægt annað en velta því fyrir sér hvort Ágústi Ólafi verði steypt af stóli varaformanns á næsta landsfundi miðað við atburðarásina frá þingkosningunum 2007.

mbl.is Ingibjörg Sólrún: Erfiður vetur framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður óskað eftir aðstoð IMF síðar í dag?

Ég get ekki betur séð en svo sé komið að íslenska ríkisstjórnin muni síðar í dag óska eftir stuðningi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í erfiðleikum þjóðarinnar. Þetta er neyðarúrræði en er til marks um hversu illa er komið fyrir þjóðinni í lok útrásarinnar, sem lofuð var í bak og fyrri. Þetta er ekki ánægjulegt skref fyrir stolta þjóð sem hefur vanist því lengi að geta bjargað sér sjálf og vera ekki upp á neinn kominn í lífsbaráttu sinni.

Síðast leitaði íslenska þjóðin til sjóðsins í valdatíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens árið 1982, en þá var verðbólgan upp úr öllu valdi og tók nokkurn tíma til að ná einhverju jafnvægi aftur. Íslenska þjóðin hefur verið skuldlaus við sjóðinn frá árinu 1987 í valdatíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, og hefur eftir þjóðarsátt átt mikið góðærisskeið sem síðar náði hámarki með útrásinni.

Þessu skeiði er nú lokið með harkalegri brotlendingu. Stóra spurningin nú er hverjir skilmálar IMF verði. Ég vil helst fá að vita hversu mikil völd þeir sækja sér. Hvort að fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneytið og allir helstu sjóðir landsmanna verði í gjörgæslu hjá IMF. Búast má við mjög hörðum skilmálum. IMF er ekki þekkt fyrir neitt annað.

Þessi enduruppbygging sem er framundan verður mikið sársaukaskeið fyrir þjóðina. Byggja þarf að mörgu leyti nýtt Ísland á grunni þess sem áður var. Vonandi lærum við af mistökum og sukki góðærisáranna í því ferli.


mbl.is Ráðherrar funda á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stutt í að lögreglan fái rafbyssur?

Ég er ekki undrandi á því að síendurteknar árásir að lögreglumönnum verði notaðar til að beita sér fyrir því að rafbyssur verði teknar upp. Mér finnst það eðlilegt í stöðunni eins og komið er. Yfirlýsingar Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, eru viðbrögð við vandanum í stöðunni. Mér finnst eðlilegt að þetta verði rætt núna í stað þess að það verði gagnrýnt sem vopnvæðingu án þess að vandi sé í stöðunni.

Svo er nú komið að velta þarf þessu fyrir sér í alvöru. Ég tel líklegt að stjórnvöld muni nú hugleiða alvarlega að taka upp þessi vopn og auk þess muni lögreglumenn gera það að kröfu að þeir njóti meiri verndar og geti gripið til vopna sé að þeim ráðist. Þetta er eðlileg krafa í stöðunni.

mbl.is Björn: Tryggja verður öryggi lögreglunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðist á lögguna - mun lögreglan fá rafbyssur?

Varla er að verða stórfréttir að heyra eða sjá umfjöllun um fjöldaátök eða að hinn og þessi hafi annað hvort verið barinn í klessu eða stunginn í skjóli nætur, eða jafnvel hreinlega verið drepinn. Árásir á lögreglumenn við skyldustörf eru mjög alvarlegt mál. Ofbeldið sem við heyrum sífellt meira um í fréttaumfjöllun verður sífellt grófara og verra. Gengið er alltaf lengra í grimmu ofbeldi og ekki hugsað um afleiðingar þess.

Ég yrði ekki hissa ef svo myndi fara að árásir á lögreglumenn að undanförnu verði notað sem helstu rökin, bæði af hálfu þeirra og stjórnvalda, fyrir því að vopnvæða lögregluna enn frekar og það er þegar augljós undiralda í þá átt nú þegar að lögreglan þurfi að fá rafbyssur til að verjast.

Hef ekki verið sérlega hlynntur því að lögreglan noti rafbyssur en það er ljóst að þeir sem ráðast að löggunni veita lögreglunni og þeim sem ráða þar för sterk rök fyrir máli sínu að taka upp þessi vopn. Ég spái því að brátt verði sú krafa mjög hávær.

mbl.is Fólskuleg árás á lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband