Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kosningar á örlagatímum eru hrein fjarstæða

Eitt af því vitlausasta sem ég hef heyrt á þessum örlagaríku tímum þjóðarinnar er að kjósa eigi sem allra fyrst. Ég get ekki séð að það sé neinn tími til að leggja í kosningabaráttu á næstu vikum. Lykilverkefnið er að bjarga þjóðinni frá algjöru hruni og tryggja undirstöðurnar sem eftir eru í stöðunni. Eigi að kjósa núna verður allt stjórnkerfið að hafa brugðist, ríkisstjórnin gefist upp í verkefninu sem henni er skylt að leiða þjóðinni út úr eða þá að myndaður verði annar þingmeirihluti úr stöðunni sem kom upp úr kjörkössunum vorið 2007.

Ég held að það verði mjög alvarlegt mál ef ríkisstjórn með tvo þriðju alþingismanna á bakvið sig gefst upp í þessum ólgusjó. Slíkt fall yrði skipbrot beggja stærstu flokkanna í landinu og vandséð hver gæti í raun tekið við verði það niðurstaða þessa stjórnarsamstarfs að flokkarnir tveir hafi ekki burði til að vinna saman, eins og þeir einsettu sér í upphafi. Slíkt fall ríkisstjórnar hlyti að leiða til pólitísks glundroða, enn meiri en orðinn er. Fari svo finnst mér eðlilegast að mynda ríkisstjórn annarra en stjórnmálamanna.

Vel sést á skoðanakönnunum að stjórnarandstaðan nýtur ekki trausts. Hvernig á að fela henni stjórnina við þær aðstæður að stjórnin myndi gefast upp. Finnst það fjarstæðukennt. Eins og ég sagði hér fyrr í kvöld er aðeins eitt verkefni mikilvægt nú, það er að bjarga því sem bjargað verður. Við eigum mjög erfitt og kosningabarátta nú er afleitur kostur. En hitt er aftur á móti annað mál að mér finnst mjög eðlilegt að krefjast kosninga áður en kjörtímabilinu lýkur.

En það verður þá að gerast við aðrar aðstæður, eftir að þeim sem var falin stjórn landsins með afgerandi hætti vorið 2007 hafa reynt að leysa verkefnið á þessum örlagatímum. Mistakist þeim er vandséð hvort einhver pólitísk forysta sé í landinu til að taka á málum. Þá hljóta flestir að horfa til annarra en stjórnmálamanna að leysa úr vandanum. Kosningar ofan í þennan vanda er mjög vanhugsuð lausn, ef lausn skyldi kalla.

mbl.is Ekki rétt að boða til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrg afstaða í erfiðri stöðu - örlagatímarnir

Mér fannst Geir H. Haarde, forsætisráðherra, tala af ábyrgð og festu, við mjög erfiðar aðstæður, í Kastljósinu í kvöld. Mjög erfitt er að hafa svör og lausnir á öllu í þessari stöðu, en í yfirlýsingu hans um að íslenska þjóðin verði ekki kúguð til fylgilags talaði hann mjög afgerandi. Enda finnst mér það alveg rosalegt ef það fer svo að komandi kynslóðir verði skuldsettar í áratugi fyrir gamblerí útrásarvíkinganna margfrægu.

Þetta eru örlagaríkir tímar í sögu þjóðarinnar. Mér finnst alveg út í hött að horft verði aðeins til Seðlabankans til að gera upp liðna tíð. Öll þjóðin horfði sofandi á atburðarásina. Eigi einhver að taka ábyrgð á stöðunni er hún mjög víðtæk. Fara þarf yfir alla þá stöðu heiðarlega og gera upp við hana án þess að ætla að hengja einn mann. Þetta er miklu stærri vandi en svo.

Allt tal um kosningar nú finnst mér óraunhæft. Varla yrði um slíkt að ræða fyrr en í fyrsta lagi með vorinu. Fyrst þarf að reyna að koma þjóðinni í gegnum mesta ólgusjóinn. Við höfum ekki tíma fyrir neitt annað núna. Ég treysti Geir best fyrir forystunni við þessar aðstæður og frábið mér að fá vinstristjórn við þessar aðstæður.

Falli stjórnin eða gefist upp við þetta örlagaríka verkefni er eðlilegast að sett verði þjóðstjórn eða hreinlega utanþingsstjórn sérfræðinga yfir landið. Stóra verkefnið framundan er enda að ná samstöðu um aðgerðir og forystu. Við getum ekki leyft okkur þann munað að fara í með og á móti fylkingar. Þjóðin er undir nú.

mbl.is Við munum ekki láta kúga okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftasöfnunin fer vel af stað

Íslenska þjóðin hefur heldur betur sent sterk skilaboð með undirskriftasöfnuninni á netinu gegn Bretum. Þó að Landsbankinn sé ekki lengur flokkaður með Al-Qaeda er mikilvægt að halda áfram baráttunni og tala hreint út við bresk yfirvöld. Sumir hafa reyndar sent mér tölvupóst eftir fyrri skrif og sagt að undirskriftasöfnunin sé ekki fullkomin. Vel má vera, en hún er hinsvegar gott framtak af hálfu íslensku þjóðarinnar á þeim tímum þar sem hryðjuverkalögum er beint að okkur.

Við verðum öll sem eitt að láta í okkur heyra og tjá skoðanir okkar. Þessi síða er besta leiðin til þess, tel ég. Og vonandi skilar hún þeim árangri að allir Bretar viti að við erum ekki úrþvætti heimsins.

mbl.is Breska heimsveldið hörfaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir að skrá sig á indefence.is - flott framtak

Ég hvet alla Íslendinga til að senda skýr skilaboð til Bretlands með því að skrifa nafnið sitt á indefence.is - flott framtak hjá þeim sem standa að þessu. Mér finnst það afleitt að Bretar haldi að Íslendingar séu upp til hópa óheiðarlegt og ómerkilegt fólk og því mikilvægt að koma öðrum skilaboðum á framfæri. Uppsetning til síðunnar og öll umgjörð hennar er vel gerð - fagmannlega af þessu staðið.

Þegar ég skráði mig um tvöleytið höfðu rúmlega fimm þúsund manns skráð sig og ég sé að nú tveim tímum síðar hefur bæst meira en helmingur við. Betur má ef duga skal. Allir að skrá sig!

Tek annars undir með Ólafi Elíassyni tónlistarmanni, í viðtali við vísir.is:
"Við elskum Bretland. Við höfum átt yndislegar stundir í Bretlandi og eigum mikið af yndislegum breskum vinum". "Að láta einhvern pólitískan drullusokk (Brown) eyðileggja vináttusamband okkar við Breta kemur ekki til greina."

mbl.is Til varnar Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankinn missir hryðjuverkastatusinn

Mér finnst það viss léttir að bankastofnanir landsins séu ekki lengur við hlið Al-Qaeda, Súdans, N-Kóreu, Zimbabwe og Búrma. Öryggið í svartnættinu verður aðeins meira. Mér er reyndar slétt sama hvort bresk stjórnvöld vilja setja mynd af Björgólfi Guðmundssyni við hliðina á Osama Bin Laden - mér er meira annt um stöðu Íslands og að stofnanir landsins, sem sumir hafa nefnt hornsteina samfélagsins, séu ekki flokkaðar sem ígildi hryðjuverkasamtaka.

Þeir sem áttu þennan bissness verða að taka skellinn með sínum karakter. Þjóðin á ekki að vera úthrópuð sem úrþvætti heimsins.

mbl.is Landsbankinn af hryðjuverkalista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama á sigurbraut - verkefni nýs forseta

Ég tel orðið nokkuð öruggt að Barack Obama verði kjörinn forseti Bandaríkjanna eftir þrettán daga. Forskot hans er orðið mjög traust og hefur verið um nokkuð skeið. Ef ég ætti að giska í dag myndi ég spá Obama Hvíta húsinu með um eða yfir 5% kosningasigri hið minnsta. John McCain þarf ekkert minna en kraftaverk til að snúa taflinu við. Vissulega getur hann það, en tíminn er að renna út og vandamálin eru að sliga framboðið. Árferðið er þannig að vonlaust er að vera í framboði fyrir ráðandi valdhafa.

Eigi McCain að eiga einhvern minnsta möguleika á Hvíta húsinu þarf hann að sigra í fimm fylkjum; Flórída, Ohio, Virginíu, N-Karólínu og Missouri. Kannanir gefa til kynna að hann eigi í erfiðleikum í fylkjum sem Bush forseti vann mjög traust bæði í forsetakosningunum 2000 og 2004. Verkefni McCain er því ekki aðeins að vinna lykilfylkin frá árinu 2004, þegar Bush vann Kerry, heldur og mun frekar að verja mikilvæg fylki sem repúblikanar hafa unnið áratugum saman með örfáum undantekningum.

Demókratar hafa ekki unnið í Virginíu síðan Lyndon B. Johnson vann traustan sigur á landsvísu árið 1964 og N-Karólína hefur ekki kosið demókrata síðan Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóri í Georgíu, vann Gerald Ford, sitjandi forseta Bandaríkjanna árið 1976. Ef bæði þessi fylki verða demókratafylki í þessum forsetakosningum eru öll sund lokuð fyrir McCain. Þá munu ekki Ohio og Flórída ráða úrslitum. Og sumar kannanir gefa til kynna að bæði þessi fylki verði demókratafylki.

Allt frá upphafi var ljóst að þetta yrðu mjög erfiðar forsetakosningar fyrir repúblikana. George W. Bush er mjög óvinsæll forseti og er erfitt fyrir repúblikana að eiga einhverja von á Hvíta húsinu við þær aðstæður að hann er enn á pólitíska sviðinu. McCain var eini frambjóðandi repúblikana sem átti einhverja möguleika í þessum kosningum. Staða efnahagsmálanna á lokaspretti kosningabaráttunnar hefur gert það að verkum að möguleikar hans eru litlir.

Ég tel því að Barack Obama muni vinna nokkuð traustan sigur í forsetakosningunum. Allar kannanir gefa honum væntingar um nokkuð traustan sigur, sigur sem hefur ekki verið í kortunum síðan Reagan sigraði Carter og Mondale forðum daga. Sögulegir tímar eru því framundan í Bandaríkjunum með kjöri fyrsta þeldökka forsetans.

Obama bíður mikið verkefni vinni hann þann trausta sigur sem mælist í könnunum. En hann hefur ekki allt kjörtímabilið til að taka af skarið og vinna af krafti. Hann þarf þegar á þeim 77 dögum frá forsetakosningunum til forsetaskiptanna 20. janúar að setja fram alvöru tillögur um framtíðarskipan í Bandaríkjunum.

Mér finnst það sjaldan gott þegar forseti Bandaríkjanna hefur báðar þingdeildirnar með sér; kannski aðra en ekki báðar. Forsetar hafa oft misst yfirsjón á lykilmálum við þær aðstæður. Demókrataþingdeildirnar eru óvinsælli en Bush forseti og þar hefur ekki verið unnið vel.

Þegar Obama verður forseti er engin afsökun fyrir því að láta ekki verkin tala. Hann fær því max hundrað fyrstu dagana í Hvíta húsinu til að taka til eftir Bush-stjórnina og sýna að hann standi undir öllum loforðunum.

mbl.is Forskot Obama orðið 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatísk starfslok - skýjaborgir og væntingar

Lýsingarnar á síðasta starfsdegi Hreiðars Más Sigurðarsonar í Kaupþingi eru dramatískar í meira lagi. Hverjum hefði órað fyrir því að svona myndi fara fyrir forstjóra stærsta banka landsins fyrir aðeins nokkrum vikum - þegar allir voru að tala um himinháar tekjur hans, kaupréttarsamningana og annað almennt bruðl. Þetta eru harkaleg endalok á skýjaborginni, svo ekki sé nú meira sagt. Vonandi koma menn niður á jörðina í þessum banka við þessi dramatísku þáttaskil.

Freistandi er að ætla að allir hafi misst yfirsýn í velgengninni. Upphæðir urðu stjarnfræðilegar og skýjaborgin reyndist of háleit er á hólminn kom. Fallið er líka rosalegt. Þeir sem voru á forsíðum allra blaðanna og dýrkaðir sem guðir, talað um þá sem riddara samfélagsins og allir litu upp til þeirra ótakmarkað, fá harkalegan skell. Eftirmælin eru ekki fögur. Hver einn og einasti landsmaður krefst þess nú að skipt verði um leiðsögn og við fáum raunhæfar væntingar um framtíðina.

Tími skýjaborganna er liðinn. Allir krefjast þess að ríkið haldi af ábyrgð utan um þessa banka þegar þeir rísa úr rústunum. Hvernig svo sem fer á næstunni í ríkisbönkunum er von allra að byggt verði traust undirstaða undir allt heila klabbið og við hverfum ekki aftur í þann absúrdisma sem einkenndi verk útrásarvíkinganna sem settu þjóðina á hausinn og gerðu, allavega tímabundið, út af við þjóðina. Nú þarf nýja leiðsögn.

mbl.is Hreiðar Már yfirgefur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjón Seðlabankans - fellur restin á morgun?

Mikilvægt er að liggi fyrir sem fyrst hversu mikið tjón Seðlabankans verði af falli bankastofnana landsins. Annars eru tölurnar í heildarmynd þessa falls íslenska fjármálakerfisins stjarnfræðilegar og alveg rosalegt að sjá hversu mikill sofandahátturinn var meðan útrásarvíkingarnir stýrðu okkur að feigðarósi. Óli Björn Kárason fer yfir þetta í fróðlegri umfjöllun á T24, sem er nb besti vefurinn um viðskiptamál hérlendis.

Skelfileg tilhugsun er ef að restin af kerfinu fellur á morgun, eins og Höskuldur Þórhallsson, framsóknarþingmaður, gefur í skyn í dag. Þetta er dökk spá en því miður raunhæf ef miðað er við helstu röksemdir hans, sem hljóma því miður ekki svo fjarri lagi. Hvernig gat farið svona fyrir þjóðinni? Þetta verður þjóðargjaldþrot sem enginn mun gleyma. Við þurfum að stokka okkur vel upp eftir þetta hrun.

Ef Seðlabankinn fer á fullt í veðköll er ljóst að restin er á fallanda fæti; Saga og Askar, VBS og Sparisjóðabankinn. Mér finnst eðlilegt að spyrja hver hafi brugðist mest. Sjónir manna hljóta fyrr en síðar að beinast að fjármálaeftirlitinu. Þvílíkur Þyrnirósarsvefn í eftirlitsferlinu.


mbl.is Seðlabanki fer ekki tjónlaus frá falli bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnur stjórnar Kaupþingi - lengi ríkisbanki?

Valið á nýjum bankastjóra Kaupþings kemur svolítið að óvörum. Ég taldi að hlutverk skilanefndanna yrði algjörlega bundið við eitt verkefni en þeir sem skipuðu hana yrðu ekki valdir til forystustarfa í bönkunum umfram það. Verkefni Finns hjá Kaupþing verður mikið og erfitt, enda verður talsvert verkefni að koma bankanum af stað aftur eftir áföllin sem dunið hafa yfir. Reyna mun á hann í því hlutverki.

Stóra spurningin sem væri gott að fá svar við er hvort allir bankarnir þrír eigi að vera í ríkiseigu á næstunni. Vilji hefur verið til þess að Kaupþing yrði ekki ríkiseign að öllu leyti. Hinsvegar er ég ánægður með að komið var í veg fyrir að fyrri yfirmenn og stjórnendur tækju bankann aftur og kæmu inn bakdyramegin í skjóli lífeyrissjóðanna. Bankarnir þurfa nýtt upphaf, ekki afturhvarf til nýlegrar fortíðar.

mbl.is Nýr bankastjóri Nýja Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlu fréttirnar í svartnættinu

Ég verð að viðurkenna að ég hló mjög að fréttinni um konuna sem vildi alveg örugglega komast til læknisins síns. Þessar litlu fréttir úr samfélaginu eru alveg nauðsynlegar í þessu svartnætti sem þjóðin er föst í um þessar mundir.


mbl.is Sjúkleg stundvísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband