Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Óeðlileg framkoma Bretanna við Íslendinga

Ekki leikur nokkur vafi á því að bresk yfirvöld gengu fram með mjög óeðlilegum hætti gegn íslensku þjóðinni þegar beitt var hryðjuverkalögum og hún sett í sömu kategóríu og Talibanar, Súdan, Búrma og Zimbabwe, svo nokkur dæmi séu tekin. Allt frá því Gordon Brown réðst að íslensku þjóðinni talaði ég af hörku gegn verklagi Bretanna, en þar var aðeins verið að upphefja sjálfan sig á kostnað okkar. Auðvitað eigum við að fara í hart. Það sagði ég strax í upphafi og þetta samtal sýnir æ betur að það er hið eina rétta.


mbl.is Fullyrðingar Darlings dregnar í efa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarkall úr norðri - óskað eftir aðstoð IMF

Þá er það ljóst sem flestir töldu öruggt en flestir vonuðu samt að yrði hægt að komast hjá því að gera; óska eftir aðstoð frá IMF. Þetta er neyðarkall úr norðri, verið að óska eftir faglegri aðstoð til að redda málum hér á Íslandi. Engin stjónvöld fara til IMF nema horfast í augu við mjög erfiðar aðstæður og geti ekki ráðið úr málum sínum sjálfur. Auðvitað er slíkt áfellisdómur yfir hverri þjóð að geta ekki bjargað sér sjálf en aðstæðurnar hér á Íslandi eru þess eðlis að um algjöra neyð er að ræða.

Ég hef aldrei verið sérstakur stuðningsmaður þess að leita til IMF. Í því felst viss uppgjöf fyrir vandanum og endastöð í miklum vanda. Við erum komin í þannig vanda og höfum ekki um annað að ræða. Nú er bara að vona að þessi neyðaraðstoð hafi strax víðtæk og traust áhrif við að koma landinu af stað aftur, enda er það bjargarlaust nú eftir útrásarfylleríið, hefur misst nær allt lánstraust og lykilstöðu sína.

Ég er ekki einn af þeim sem býst við því að við komumst úr óveðrinu mjög fljótlega. Við erum að horfast í augu við margra ára vanda væntanlega, því miður. En kannski mun þessi aðstoð, þó neyðarúrræði sé og síðasta hálmstrá þjóðar í vanda, hafa þau áhrif að hjól samfélagsins snúist að nýju. Svo þarf að gera upp við allt sukk fortíðarinnar og þá sem komu okkur í þessa neyðarstöðu.

mbl.is 6 milljarða dala lánveiting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvor segir ósatt; Björgvin eða Darling?

Ég fæ ekki betur séð en öll spjót standi á Björgvin G. Sigurðssyni eftir að samtal Darling og Árna var opinberað. Ljóst er að annar flokksfélaganna í breska Verkamannaflokknum er að segja alvarlega ósatt um stöðuna, Darling eða Björgvin. Svo mikið ber á milli um fundinn að annað hvort eru Bretar að ljúga því sem gerðist á einkafundi þeirra í septemberbyrjun eða Björgvin hefur farið stórlega með fleipur og lofað upp í ermina á sér.

Þetta er auðvitað alvarlegt mál og eiginlega er æ ljósara eftir kvöldið að upphaf ólgunnar í samskiptum landanna átti sér stað í heimsókn Björgvins. Bretarnir nota greinilega loforð og heitstrengingar frá þeim fundi sem upphaf alls heila málsins. Nú skiptir máli að rekja málið á upphafsreit og vita hvor kratinn segir ósatt.

mbl.is Yfirlýsing viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt samtal - hvað sagði Björgvin við Darling?

Darling og Árni
Ég krafðist þess 9. október sl. að fyrir lægi transcript af samtali Árna Matt og Darling - loksins hefur nú verið upplýst hvernig samtalið var og hvað fór ráðherrunum á milli. Fátt nýtt kemur fram í þessu. Bretar hafa panikkerað vegna stöðunnar og bresku ráðherrarnir sáu þarna tækifæri til að krossfesta Íslendinga sér til gleði og ánægju - til að upphefja sig pólitískt. Þetta er auðvitað ekkert nema durtar í alþjóðlegum samskiptum.

Einu tók ég þó eftir í samtali Árna og Darling. Vitnað er margoft í fund Björgvins G. Sigurðssonar og Alistair Darling í septembermánuði. Darling vissi reyndar ekki meira um flokksfélaga sinn Björgvin (hann hefur verið skráður í breska Verkamannaflokkinn í meira en áratug og hjálpaði til í kosningabaráttu þeirra 1997 og 2001) en svo að hann taldi Árna Matt vera flokksfélagann forna frá Fróni. Talandi um hlægilega niðurlægingu.

Stóra spurningin er nú; hvað fór þeim í milli? Hvað sagði viðskiptaráðherrann við Darling í september. Fjölmiðlamenn sem birtu samtalið á milli Árna og Darling hljóta að reyna nú að komast að því sé í þeim dugur og kraftur.

mbl.is Samtal Árna og Darlings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu Björgólfsfeðgar axla ábyrgð á stöðunni?

Ég hlakka til að sjá hvort að Björgólfsfeðgarnir muni mæta á fund með viðskiptaráðherra og í framhaldinu axla ábyrgð á því hvernig komið er, einkum varðandi IceSave-reikningana. Þeir munu verða fáir sem hugsa hlýlega til þessara manna ef þeir ætla að koma þjóðinni í áratuga skuldafjötra vegna ævintýramennsku sinnar og þeir munu fá þungan dóm frá þjóðinni sem persónur ef þeir ætla að stinga af.

Mér fannst svolítið kómískt að heyra vitnað í Ásgeir Friðgeirsson, talsmann Björgólfsfeðga, í kvöldfréttunum. Eitthvað segir mér að hann verði ekki fagurt andlit á maskínu feðganna og við að svara fyrir bissness þeirra á næstunni.


mbl.is Björgvin óskaði eftir fundi með Björgólfsfeðgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýknun í tálbeitumáli Kompáss

Ég er alveg steinhissa á Hæstaréttardómi í tálbeitumáli Kompás. Kannski er þetta til marks um hvað dómar í kynferðisbrotamálum eru almennt vægir hér á Íslandi. Því miður er það orðin alþekkt staðreynd. Sú staðreynd hlýtur að endurspeglast vel í þessari niðurstöðu. Í þessum dómi felst að notkun á tálbeitu sé ekki lögleg og í raun hafi enga þýðingu. Mér finnst það vond niðurstaða á þessu ferli, enda var alveg ljóst hver tilgangurinn með komu mannanna á svæðið var og hvað hefði gerst hefði þetta verið raunverulegt mál.

mbl.is Sýknaðir af tilraun til kynferðisbrots
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að fá utanaðkomandi sérfræðinga

Ég tek undir það mat að erlenda sérfræðinga þurfi til að rannsaka hin refsiverðu athæfi í aðdraganda bankahrunsins og því sem tekið hefur við síðan. Gera þarf upp við þetta mál af ábyrgð og festu og án nokkurs hiks. Við verðum að horfast í augu við það að þetta er lítið samfélag og tengsl milli fólk eru almennt mikil. Því er erfitt að sjá hver eigi að stýra uppgjörinu við liðna tíð og taka á því sem gerst hefur, nema þá að utanaðkomandi aðilar taki forystuna í því.

Fyrsta og mikilvægasta skrefið er að gera upp við viðskiptahliðina. Sífellt betur verður ljóst að margt mjög bogið er við stöðuna. Sögusagnir heyrast um að menn hafi stungið af úr landi með auð sinn og reyni að koma sér á fæturna aftur fjarri Íslandsströndum. Slíkur orðrómur er ólíðandi.

Auðmennirnir eiga að sýna gott fordæmi og koma heim og taka þátt í þeim vanda sem blasir við. Ella hafa þeir ekkert hingað að gera frekar og eiga að fá þungan skell vegna alls þess sem gerst hefur.

mbl.is Vill erlenda sérfræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilög Jóhanna og bankastjóralaunin

Ég er alveg hjartanlega sammála Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, í því að laun bankastjóranna nýju bankanna séu alltof há. Ég sé enga ástæðu til þess að verðlauna bankastjórana með hæstu mögulegu ríkistekjum eftir það sem á undan er gengið, séu með hærri laun en bæði forseti Íslands og forsætisráðherra og meira en helmingi hærri laun en ráðherrar í ríkisstjórninni. Þessu verður að breyta.

Hitt er svo annað mál að enginn veit hvað verður um þessa banka. Alls óvíst er um hvort hér verði þrír bankar starfandi í sömu mynd og fyrir hrunið til langframa. Óvissan er algjör.


mbl.is Bankastjórarnir með of há laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrásargullkorn frá viðskiptaráðherra

Þetta skrifaði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, á vef sinn bjorgvin.is fyrir tæpum þrem mánuðum. Vefnum hefur nú verið lokað. Þetta eru sannarlega útrásargullkorn.

"5. ágúst 2008

Þegar KB banki opnaði útibú í Lúxemborg fyrir nokkrum árum óraði líklega engan fyrir því hve vel íslensku fjármálafyrirtækjunum ætti eftir að ganga við að hasla sér völl á erlendri grundu. Ævintýralega vel er kannski rétta orðið yfir það.

Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu. Ekki síst þegar lagt er saman við aðra útrás Íslendinga erlendis í verslun, iðnaði og þjónustu ýmiskonar.


Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingarævintýri Íslendinga erlendis niður. Þannig eru nú hlutirnir einu sinni og því er það mikilvægt nú þegar hægir tímabundið á útrásinni vegna þrenginga á erlendum mörkuðum að halda frábærum árangri þessara flaggskipa atvinnulífsins okkar ríkulega til haga. Þetta eru okkar voldugustu fyrirtæki og nokkrar af helstu undirstöðum efnahagskerfis okkar til lengri tíma.


Í árslok 2006 má ætla að hlutdeild fjármálafyrirtækja hafi numið um 10% af landsframleiðslu og verðmæti útflutnings þekkingar og þjónustu um 60 milljörðum. Í fyrra komu 52% af tekjum viðskiptabankanna erlendis frá og þótt erlendar tekjur vátryggingafélaga séu enn ekki svipur hjá sjón miðað við viðskiptabankanna stefnir þróunin þar í sömu átt. Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að útrás sjármálageirans hefur orðið afgerandi þýðingu í okkar efnahagslífi.


Íslensku bankarnir hafa sums staðar sætt nokkurri gagnrýni undanfarið erlendis. Sérstaklega fyrir að vera ekki nógu burðugir og um of háðir skammtímafjármögnun. Um forsendur gagnrýninnar sem skapaðist vorið 2006 hefur verið fjallað um rækilega, meðal annars af Fredirik Mishkin og Tryggva Þór Herbertssyni. Niðurstaðan er sú að gagnrýnin var að verulegu leiti tilhæfulaus. Hinsvegar var ljóst að bankarnir þyrftu að fjármagna sig betur og til lengri tíma og að koma þyrfti betur á framfæri upplýsingum um rekstur þeirra.


Samskonar gagnrýnir skýtur upp kollinum á nú í kjölfar þeirrar lausafjárkreppu sem kennd er við undirmálslán. Hún er þó ekki einskorðuð við íslenska banka, þar sem vandinn er alþjóðlegur.
Athygli vekur þó að háværasta gagnrýnin kemur frá samkeppnisaðilum bankanna á erlendum vettvangi. Löngum hafa sérfræðingar Danske bank haft horni síðu íslensku bankanna en fyrir skemmstu bættust Finnskir bankamenn í “grátkórinn”.

Aðstoðarmenn Nordea í Finnlandi, Markku Pohojla, gefur til dæmis opinberlega í skyn að íslensku bankarnir munu fljótlega lenda í miklum vandræðum. Hann gengur jafnvel svo langt að gera því skóna að íslensku bankarnir verði ekki til staðar eftir nokkra mánuði. Þessi stóru orð finnska bankamannsins byggja ekki á neinni greiningu á íslensku bönkunum. Nýleg ítarleg úttekt á stöðu þeirra og íslenska fjármálakerfisins alls, eftir þá Friðrik Má Baldursson og Richard Portes, gefur til að mynda ástæðu til að ætla að staðan tiltölulega góð í alþjóðlegu tilliti.


Gagnrýnin hlýtur því að skoðast í því samhengi að a.m.k. tveir íslenskir bankar, Glitnir og Kaupþing, hafa hafi sókn inn á markað fyrir sparifé í Finnlandi, með svipuðum hætti og Landsbankinn hefur áður gert í Bretlandi. Þessi markaðssókn kemur sér vitanlega illa fyrir Nordea sem til þessa hefur ekki treyst sér til að bjóða jafn góð kjör og íslensku bankarnir bjóða.


Ásakanir þessar eru alvarlegar þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum, sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum. Ítarleg greining þessara tveggja lykilstofnanna gefa ekkert annað til kynna en að íslensku bankakerfið sé mjög stöndugt.


Í ofanálag eru innlán Finna í íslenskum bönkum tryggð með innistæðutryggingum. Að því leiti til sem finnskar reglur þar að lútandi veita betri réttindi en íslenkar myndu bankar bæta tjón sparifjáreigenda ef svo ólíklega vildi til að einhverjir bankar kæmust í lausafjárskort.
Því er rétt að halda því til haga sem rétt er þegar reynt er að kasta rýrð á fjármálastofnanir okkar þegar kreppir að.

Til að fara yfir stöðuna og til að efla samvinnu stjórnvalda og fjármálafyrirtækja um fjárfestingar erlendis mun Viðskiptaráðuneytið kalla til fundar með Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráðs í janúar. Ætlunin er að skapa varanlegan vettvang fyrir slíkt samstarf og verður janúarfundurinn fyrsta skrefið í þá átt."


 


Eðlilegar spurningar á miklum örlagatímum

Ég er algjörlega ósammála því að Ríkisútvarpið hafi gengið of langt í umfjöllun sinni að undanförnu. Aðeins hefur verið spurt þeirra spurninga sem þörf var að spyrja á sannkölluðum örlagatímum þjóðarinnar. Fjölmiðlamenn hafa tekið beinskeytt viðtöl og verið hvassir. Það er þeirra hlutverk og ekki við neinu öðru að búast úr þeirri átt. Ef ekki er tími til að spyrja auðmenn og stjórnmálamenn beittra spurninga nú er von að spurt sé hvenær það eigi þá að gerast.

Mér finnst Ríkisútvarpið hafa staðið sig vel. Vissulega hafa Egill Helgason og Sigmar Guðmundsson verið mjög beittir en þeir hafa komið með beittar og þarfar spurningar. Nú er enginn tími fyrir drottningarviðtöl, heldur alvöru spurningar. Þjóðin vill svör og eðlilegt að henni sé gefin einhver yfirsýn yfir stöðuna, sé það annars hægt þegar enginn veit í raun hver sögulok verða í þessum erfiðleikum.

mbl.is RÚV sagt kynda undir sleggjudómum og ofstæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband