Obama á sigurbraut - verkefni nýs forseta

Ég tel orðið nokkuð öruggt að Barack Obama verði kjörinn forseti Bandaríkjanna eftir þrettán daga. Forskot hans er orðið mjög traust og hefur verið um nokkuð skeið. Ef ég ætti að giska í dag myndi ég spá Obama Hvíta húsinu með um eða yfir 5% kosningasigri hið minnsta. John McCain þarf ekkert minna en kraftaverk til að snúa taflinu við. Vissulega getur hann það, en tíminn er að renna út og vandamálin eru að sliga framboðið. Árferðið er þannig að vonlaust er að vera í framboði fyrir ráðandi valdhafa.

Eigi McCain að eiga einhvern minnsta möguleika á Hvíta húsinu þarf hann að sigra í fimm fylkjum; Flórída, Ohio, Virginíu, N-Karólínu og Missouri. Kannanir gefa til kynna að hann eigi í erfiðleikum í fylkjum sem Bush forseti vann mjög traust bæði í forsetakosningunum 2000 og 2004. Verkefni McCain er því ekki aðeins að vinna lykilfylkin frá árinu 2004, þegar Bush vann Kerry, heldur og mun frekar að verja mikilvæg fylki sem repúblikanar hafa unnið áratugum saman með örfáum undantekningum.

Demókratar hafa ekki unnið í Virginíu síðan Lyndon B. Johnson vann traustan sigur á landsvísu árið 1964 og N-Karólína hefur ekki kosið demókrata síðan Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóri í Georgíu, vann Gerald Ford, sitjandi forseta Bandaríkjanna árið 1976. Ef bæði þessi fylki verða demókratafylki í þessum forsetakosningum eru öll sund lokuð fyrir McCain. Þá munu ekki Ohio og Flórída ráða úrslitum. Og sumar kannanir gefa til kynna að bæði þessi fylki verði demókratafylki.

Allt frá upphafi var ljóst að þetta yrðu mjög erfiðar forsetakosningar fyrir repúblikana. George W. Bush er mjög óvinsæll forseti og er erfitt fyrir repúblikana að eiga einhverja von á Hvíta húsinu við þær aðstæður að hann er enn á pólitíska sviðinu. McCain var eini frambjóðandi repúblikana sem átti einhverja möguleika í þessum kosningum. Staða efnahagsmálanna á lokaspretti kosningabaráttunnar hefur gert það að verkum að möguleikar hans eru litlir.

Ég tel því að Barack Obama muni vinna nokkuð traustan sigur í forsetakosningunum. Allar kannanir gefa honum væntingar um nokkuð traustan sigur, sigur sem hefur ekki verið í kortunum síðan Reagan sigraði Carter og Mondale forðum daga. Sögulegir tímar eru því framundan í Bandaríkjunum með kjöri fyrsta þeldökka forsetans.

Obama bíður mikið verkefni vinni hann þann trausta sigur sem mælist í könnunum. En hann hefur ekki allt kjörtímabilið til að taka af skarið og vinna af krafti. Hann þarf þegar á þeim 77 dögum frá forsetakosningunum til forsetaskiptanna 20. janúar að setja fram alvöru tillögur um framtíðarskipan í Bandaríkjunum.

Mér finnst það sjaldan gott þegar forseti Bandaríkjanna hefur báðar þingdeildirnar með sér; kannski aðra en ekki báðar. Forsetar hafa oft misst yfirsjón á lykilmálum við þær aðstæður. Demókrataþingdeildirnar eru óvinsælli en Bush forseti og þar hefur ekki verið unnið vel.

Þegar Obama verður forseti er engin afsökun fyrir því að láta ekki verkin tala. Hann fær því max hundrað fyrstu dagana í Hvíta húsinu til að taka til eftir Bush-stjórnina og sýna að hann standi undir öllum loforðunum.

mbl.is Forskot Obama orðið 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Val McCain á Palin var taktískt rétt frá flokkshagsmunum séð. Hann varð að treysta fylgi sitt innan flokksins, en hann hefur verið mjög umdeildur þar og fjarri því alltaf náð kjarnastuðningi úr flokknum. Staðan á þessu ári er mjög erfið fyrir McCain. Staða efnahagsmálanna er ekki góð og mér sýnist að hún muni ráða úrslitum í þessum kosningum. En þetta er ekki búið. í kvöld kom könnun sem sýnir þá jafna. Ég stend þó við það mat að það yrði pólitískt kraftaverk ef McCain vinnur úr þessu. Hann hefur mjög margt á móti sér, það þrengir að fólki í erfiðri efnahagsstöðu og þá er mun ólíklegra að fólk kjósi ráðandi valdhafa, þó McCain hafi tekið slaginn við Bush og barist við hann áður fyrr um forsetaembættið og sé úr öðrum armi innan flokksins en hann.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.10.2008 kl. 21:53

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sammála þessu Stefán Friðrik/en við spyrjum að leikslokum???,spentir??/hvernig sem fer verður mikil breiting/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 22.10.2008 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband