Kosningar á örlagatímum eru hrein fjarstæða

Eitt af því vitlausasta sem ég hef heyrt á þessum örlagaríku tímum þjóðarinnar er að kjósa eigi sem allra fyrst. Ég get ekki séð að það sé neinn tími til að leggja í kosningabaráttu á næstu vikum. Lykilverkefnið er að bjarga þjóðinni frá algjöru hruni og tryggja undirstöðurnar sem eftir eru í stöðunni. Eigi að kjósa núna verður allt stjórnkerfið að hafa brugðist, ríkisstjórnin gefist upp í verkefninu sem henni er skylt að leiða þjóðinni út úr eða þá að myndaður verði annar þingmeirihluti úr stöðunni sem kom upp úr kjörkössunum vorið 2007.

Ég held að það verði mjög alvarlegt mál ef ríkisstjórn með tvo þriðju alþingismanna á bakvið sig gefst upp í þessum ólgusjó. Slíkt fall yrði skipbrot beggja stærstu flokkanna í landinu og vandséð hver gæti í raun tekið við verði það niðurstaða þessa stjórnarsamstarfs að flokkarnir tveir hafi ekki burði til að vinna saman, eins og þeir einsettu sér í upphafi. Slíkt fall ríkisstjórnar hlyti að leiða til pólitísks glundroða, enn meiri en orðinn er. Fari svo finnst mér eðlilegast að mynda ríkisstjórn annarra en stjórnmálamanna.

Vel sést á skoðanakönnunum að stjórnarandstaðan nýtur ekki trausts. Hvernig á að fela henni stjórnina við þær aðstæður að stjórnin myndi gefast upp. Finnst það fjarstæðukennt. Eins og ég sagði hér fyrr í kvöld er aðeins eitt verkefni mikilvægt nú, það er að bjarga því sem bjargað verður. Við eigum mjög erfitt og kosningabarátta nú er afleitur kostur. En hitt er aftur á móti annað mál að mér finnst mjög eðlilegt að krefjast kosninga áður en kjörtímabilinu lýkur.

En það verður þá að gerast við aðrar aðstæður, eftir að þeim sem var falin stjórn landsins með afgerandi hætti vorið 2007 hafa reynt að leysa verkefnið á þessum örlagatímum. Mistakist þeim er vandséð hvort einhver pólitísk forysta sé í landinu til að taka á málum. Þá hljóta flestir að horfa til annarra en stjórnmálamanna að leysa úr vandanum. Kosningar ofan í þennan vanda er mjög vanhugsuð lausn, ef lausn skyldi kalla.

mbl.is Ekki rétt að boða til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Síðan hvenær er þessi skoðanakönnun sem þú vísar til? Annars er stjórnarandstaðan andvíg kosningum að sinni hvort eð er og óþarfi að ræða það frekar.....í bili

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 00:48

2 Smámynd: Björn Leví Gunnarsson

Ef þing er rofið og boðað til nýrra kosninga þá eiga þær að fara fram eigi síðar en 45 dögum eftir þingrof.

Flest bendir til þess að núverandi stjórn viti lítið hvað hægt er að gera í málunum, sömu menn eru enn í sömu stöðum fyrir utan nokkra bankastjóra. Það er ekki einu sinni byrjað að tala um að það hafi verið sett upp rannsókn á því af hverju allt fékk að ganga svona langt.

Hver sá sem heldur því fram að það sé ekki stjórnarkreppa (í núverandi skilningi hugtaksins) hefur ekki litið í kringum sig undanfarið. Það er engin áætlun um hvernig skuli taka á vandanum, það er eins og þetta fólk sé bara skipreka að bíða eftir að einhver bjargi þeim.

Kosningar myndu þvinga þetta fólk í að skerpa á málunum og vera hreinskilin við þjóðina. Einnig hafa þeir sem nú sitja við stjórn rúman mánuð í að gera eitthvað eftir þingrof.

Það þarf heldur ekkert að tala um eitthvað skipbrot stjórnarflokkana né heldur að stjórnarandstaðan geri eitthvað betur, alls ekkert að segja neitt slíkt. Það sem ég sé í stöðunni er hins vegar að öll áform stjórnarinnar og stjórnarsamningsins eru orðin úreld. Allt sem allir flokkar lofuðu er nú fyrir bý og starfa þeir vegna þess ekki í umboði almennings.

Björn Leví Gunnarsson, 23.10.2008 kl. 01:09

3 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ríkisstjórnin er rúin trausti, makkar á bak við tjöldin og hangir á þrjóskunni einni og afneituninni. Auðvitað á hún að víkja eins og skot. Til skamms tíma má vel hugsa sér þjóðstjórn allra flokka, sem hefði í það minnsta meira traust á bak við sig, en auðvitað þarf að boða til kosninga sem fyrst.

Vésteinn Valgarðsson, 23.10.2008 kl. 01:47

4 identicon

Sammála.

Ég hef enn ekki gert upp við mig hvað ég myndi kjósa ef ég ætti að kjósa núna (veit samt að ég kýs ekki það sama og seinast) en ég held að það sé best að þeir sem hafi dílað við ástandið hingað til haldi því áfram. Ástandið er of tvísýnt til að hægt sé að hafa kosningar núna en mér finnst að ríkisstjórninni sé rétt og skylt að boða til kosninga um leið og aðstæður leyfa.

Sigurgeir (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 02:54

5 identicon

Ég er sammála því að það er algjör fásinna að kjósa núna.  Hinsvegar held ég að það sé nauðsynlegt að mynda ríkisstjórn annara en stjórnmálamanna.

Ég kaus sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum og hef gert áður.  Í ljósi atburða síðustu vikna er nokkuð ljóst að Geir, sá ágæti maður, er ekki að valda þessu verkefni.  Hann er  tvístígandi og ráðalaus.  Ekki fær hann styrk og stuðning frá fjármálaráðherra vor, það er nokkuð ljóst enda efast ég um að hann sé að sækja eftir honum.

<>Svo er mjög slæmt hvað hann virðist leggja mikið upp úr því að lýsa trausti á Davíð sem er svo augljóslega algjörlega vanhæfur í því starfi sem hann nú gegnir.  Ætli hann sé að hugsa að það skapi slæmt fordæmi að setja af vanhæfa pólitískt skipaða einstaklinga?  Hvað gæti annað hangið á spýtunni? 

Við þurfum á faglegri og styrkri stjórn seðlabankans að halda.   Tími ráðninga sem byggjast á pólitík en ekki fagmennsku eða hæfni er liðinn.  Ef Geir ætlar að reyna að ríghalda í þann tíma, þá eru dagar hans í pólitík svo gott sem taldir.

<>Hann virðist  allavega vera að gefa þjóðinni langt nef og setja flokkshag, pólitíska spillingu og hugsanlega eigin hagsmuni langt ofar þjóðarhag.  Sérkennilegur forsætisráðherra það.   Er honum þá yfirleitt treystandi ef hann ber sig svona að?

Það að tala um að verið sé að persónugera hlutina er svo barnalegt að það er ekki einu sinni svaravert.

Fannar (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 10:26

6 identicon

Sæll Stefán,

ef að staðan væri að Samfylkingin og segjum VG væru nú við stjórn, og XD í stjórnarandstöðu, ertu vissum að þú værir þá ekki núna að kalla á kostningar?

Magnús (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 12:17

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Ég sagði það sem ég meinti. Ef stjórnmálamenn geta ekki stjórnað í þessari stöðu þarf að líta annað. Að óbreyttu erum við að stefna í mesta stjórnleysi í nokkra áratugi pólitískt. Fari svo þarf að grípa til þeirra úrræða sem gefin eru í slíkri stöðu.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.10.2008 kl. 13:12

8 identicon

Ég væri fylgjandi kosningum ef og aðeins ef allir þeir þingmenn sem nú sitja myndu ákveða að vera ekki í framboði.  Eins og staðan er í dag ber ég enga traust til neinna þingmanna og hef ekki í hyggju að mæta á kjörstað ef þeir verða áfram.  Svo einfalt og dapurlegt er það.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 13:14

9 Smámynd: Björn Leví Gunnarsson

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er ekki flokksbundinn og ég hef ekki einblínt á að kjósa sífellt sama flokk þegar kemur að kosningum. Ég reyni að vega og meta kosti og galla stefnu hvers flokks fyrir sig og vel þann sem hefur hæsta "skorið".

Ég tek inn í þetta ferli framkomu (heiðarleika og jákvæðni) frambjóðenda, auglýsingar flokkana og hversu "heilaþvegnar" þær eru og að sjálfsögðu stefnumálin. Allt þetta og svo sem meira til er vegið og metið inn í fyrri störf og hversu líklegur samanburðurinn er.

Til dæmis var það bara no brainer fyrir mig í síðustu kosningum að kjósa ekki XD út af Árna J. Fyrri störf voru þar svo stór mínus að ég þurfti ekki að skoða annað neitt sérstaklega. Ath að það voru fleiri í þeim flokk sem komu að því máli þegar honum var veitt uppreisn æru. Þetta er eitt af því sem mér hefur fundist vera einkennandi fyrir flokkinn á undanförnum árum... "svona leysum við okkar mál".

XB var með brainwashing auglýsingar, fékk alltaf á tilfinninguna að það væri verið að reyna að kaupa mig með innistæðulausri ávísun.

XV Var með gríðarlega óraunhæf markmið í ákveðnum málum. Þar var í raun mjög áhugaverð blanda mikilla plúsa og mikilla mínusa, bæði í stefnumálum og meðal einstakra frambjóðenda.

XF Var samansafn tiltölulega reynslulítilla stjórnmálamanna sem voru ómarkvissir í stefnumálum í heild sinni.

XS Samansafn aðeins reynslumeiri stjórnmálamanna sem tókst að koma sér saman um sameiginlega stefnu en þeir forðuðust mjög að tala um "hin" málin. Allt var "reynum að ... " eða svarað í hálfkæringi. Merkilegt eiginlega að þeim hafi tekist að koma sér saman um eitthvað.

Þið getið svo sem reynt að giska á hvað ég kaus síðast út frá þessu en hafið það jafnframt í huga að ég legg verulega mikið á mig til þess að skoða stefnumál og frambjóðendur flokkana fyrir hverjar kosningar af því að ég veit að fólk skiptir um skoðun og ég veit að umhverfið breytist. Þar af leiðandi GET ÉG EKKI verið viss um að þeir sem ég kaus síðast verði þeir sem leysi næsta vandamál.

Af því að ég get ekki verið viss um það, þá verð ég að kalla til nýrra kosninga... til þess að geta ákveðið hverjir séu bestir í að leysa þau vandamál sem við stöndum nú frammi fyrir.

Björn Leví Gunnarsson, 23.10.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband